Hæstiréttur íslands

Mál nr. 245/2005


Lykilorð

  • Skuldamál
  • Aðild


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. nóvember 2005.

Nr. 245/2005.

Safalinn ehf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Ólöfu Hannesdóttur

(Tómas Jónsson hrl.)

 

Skuldamál. Aðild.

Aðilar deildu um einhliða yfirlýsingu S þar sem hann skuldbatt sig til þess að greiða Ó nánar tilgreinda fjárhæð. Í yfirlýsingunni var vísað til þess að greiðslan væri „skv. samkomulagi milli aðila og fyrirvörum í því“. S hafði áður gert samstarfssamning við P, sem sonur Ó veitti forstöðu, og voru forsendur samningsins að Ó losnaði undan ábyrgðum sem hún var í fyrir P. S hafði ekki lagt fram haldbær gögn sem sýndu fram á svo ekki yrði um villst til hvaða samkomulags og fyrirvara í því væri vitnað til, eða milli hvaða aðila, og varð hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Miðað við kröfugerð Ó, þar sem hún gerði kröfu um greiðslu á fyrstu afborgun samkvæmt yfirlýsingunni, varð hún tekin til greina eins og hún var fram sett og voru engin rök fyrir lækkun kröfunnar. Þá var sýknukrafa S vegna aðildarskorts ekki tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. júní 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu en til vara að krafa hennar verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Safalinn ehf., greiði stefndu, Ólöfu Hannesdóttur, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2005.

I

Mál þetta var höfðað 10. júní 2004 en dómtekið 18. apríl 2005.  Stefnandi er Ólöf Hannesdóttir, kt. 250332-6109, Sléttuvegi 15, Reykjavík en stefndi er Safalinn ehf., kt. 580883-0289, Dugguvogi 3, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 837.500 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 15. apríl 2004 til greiðsludags.  Þá krefst hún málskostnaðar.

Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Þá krefst stefndi málskostnaðar.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 30. nóvember 2004 var kröfu stefnda um frávísun málsins hafnað.

II

Málavextir eru þeir að 25. apríl 2003 gerðu Prímo ehf. og stefndi með sér samstarfssamning þar sem stefndi yfirtók sölu, markaðssetningu og samninga á Errea vörum á Íslandi frá og með 1. ágúst 2003. Fyrirsvarsmaður Prímo ehf., Ívar Trausti Jósafatsson, er sonur stefnanda máls þessa.

Kemur fram í 3. lið samningsins að forsendur samstarfsins séu að "a) koma á samningi sem lánastofnanir samþykkja að setja í greiðsluþjónustu lán Prímo ehf. sem Ólöf Hannesdóttir... er í og jafnvel fleiri lán/fyrirgreiðslur.  b) eftir að ákveðin sölusaga er komin að lágmarki 75% af áætlunum (sjá viðauki 1) verði hægt að nota samning þennan sem tryggingu fyrir fyrirgreiðslu sem dugir til að hreinsa út öll lán og fyrirgreiðslur sem Ólöf Hannesdóttir er ábyrgðaraðili á auk annarra lána/fyrirgreiðslna að lágmarki samtals kr. 19.000.000.  Safalinn ehf. ábyrgist að greiða þær greiðslur sem hér eru tilgreindar áður en aðrar greiðslur fara samkvæmt þessum samningi."

Samningur þessi var gerður með þeim fyrirvara að Errea Sport S.P.A samþykki hann og þeim fyrirvara að lánastofnanir samþykktu samninginn og þó aðallega lið 3 í honum.  Í 12. gr. samningsins segir að fyrir þetta samstarf fái Prímo ehf. greitt 15% af veltu hjá stefnda að heildarupphæð 25.000.000 króna.

Samhliða samningi þessum var gerður viðauki 1. við samninginn sama dag þar sem nánari útfærsla er á framagreindri 12. gr.  Kemur fram í 1. gr. viðaukans að samningurinn miðist við að 15% af veltu Errea hjá stefnda upp að 25.000.000 krónum fari til Prímo ehf. á samningstímanum sem væri 4 ár.  Ef sú upphæð náist innan þess tíma fái Prímo ehf. 5% af veltu Errea til loka samningstímans þó að hámarki 30.000.000 króna.

Þá gerðu samningsaðilarnir enn annan viðauka við samstarfssamninginn þann 22. janúar 2004 vegna breytinga sem hafi orðið og voru 11.537.912 krónur dregnar frá upphaflegri samningsfjárhæð.  Þá er tekið fram í viðauka þessum að greiðsla samkvæmt veltu að fjárhæð 13.462.088 krónur greiðist til Prímo ehf. og að fjárhæð þessi verði veðsett samkvæmt sérblaði í bankastofnun (mögulega hærra náist velta yfir 30 milljónum innan 4 ára).  Þann 26. janúar 2004 undirrituðu samningsaðilar samkomulag sín á milli um að veðsetja Kaupþingi Búnaðarbanka hf. (KB banka hf.) samninginn ásamt viðaukum.

Með yfirlýsingu stefnda til KB banka hf. 27. janúar 2004 sagði stefndi upp samkomulagi sínu við Prímo ehf. varðandi framangreinda veðsetningu dagsetta 26. janúar 2004 auk þess sem stefndi sagði upp viðaukasamningi sínum við Prímo ehf. frá 22. janúar 2004, hvort tveggja á þeim grunni að "ekki var um rétt gögn að ræða" eins og það er orðað í yfirlýsingunni.

Með yfirlýsingu, dagsettri 8. mars 2004, sem stefnandi reisir kröfur sínar á skuldbatt stefndi sig til að greiða stefnanda 13.400.000 krónur og skyldu gjalddagar vera 4 sinnum á ári og áætlað að 4 ár tæki að fullklára heildarupphæðina.  Fyrsti gjalddagi skyldi vera 15. apríl 2004.  Heimilaði stefndi að yfirlýsingin yrði lögð inn til KB banka hf. til tryggingar skuldum og/eða ábyrgðum stefnanda við bankann.

Byggir stefnandi kröfur sínar á yfirlýsingu þessari og gerir kröfu um greiðslu samkvæmt fyrsta gjalddaga hennar 15. apríl 2004 ásamt vöxtum.

Ágreiningur aðila lýtur fyrst og fremst að því hvort stefnandi sé réttur aðili að málinu vegna veðsetningar á samningum milli Prímo ehf. og stefnda til KB banka ehf.  Þá telur stefndi stefnanda einungis eiga afleiddan rétt Prímo ehf. á hendur stefnda og þar sem Prímo ehf. hafi vanefnt samninga við stefnda eigi hann engan rétt á hendur honum og þar með ekki stefnandi heldur.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á yfirlýsingu framkvæmdastjóra stefnda til stefnanda dagsettri 8. mars 2004.  Með þeirri yfirlýsingu hafi stefndi skuldbundið sig til þess að greiða stefnanda 13.400.000 krónur.  Gjalddagar skyldu vera fjórum sinnum á ári og hafi verið áætlað að það tæki fjögur ár að greiða heildarupphæðina.  Fyrsti gjalddagi hafi átt að vera 15. apríl 2004 og hafi stefnandi gert ráð fyrir að greiddar yrðu 3.350.000 krónur á ári og að sú fjárhæð skiptist í fjórar jafnar greiðslur eða 837.500 krónur í hvert sinn.

Hafi stefnandi verið í ábyrgðum fyrir fyrirtækið Prímo ehf.  Meðal eigna þess félags hafi verið umboð fyrir ítalska vörumerkið Errea og lager félagsins.  Hafi stefndi og Prímo ehf. gert með sér samning um kaup stefnda á umboðinu og lager félagsins.  Kaupverðið hafi verið 25.000.000 króna og hafi forsenda samningsins verið uppgreiðsla stefnda á lánum Prímo ehf. sem stefnandi hafi verið í ábyrgðum fyrir.  Til hafi staðið að samningurinn milli stefnda og Prímo ehf. yrði veðsettur KB banka þannig að ábyrgðir stefnanda féllu niður en bankinn hafi ekki fallist á það.  Hafi stefndi því samþykkt að undirrita einhliða yfirlýsingu þar sem hann hafi lofað að greiða stefnanda 13.400.000 krónur svo að hún yrði skaðlaus af þeim ábyrgðum sem á hana hefðu fallið.  Hafi stefndi hvorki staðið við samninginn né yfirlýsinguna.  Stefnandi sé eftirlaunaþegi og hafi því þurft að greiða 3.000.000 króna til KB banka vegna vanefnda stefnda og séu líkur á því að ábyrgðir að eftirstöðvum 10.400.000 króna falli á hana til viðbótar.

Um lagarök vísar stefnandi til reglna kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og um málskostnað vísar hún til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því í fyrsta lagi að stefnandi sé ekki réttur aðili að máli þessu og því beri að sýkna hann á grundvelli aðildarskorts.  Megi ljóst vera að í samningum þeim sem vísað sé til svo og í veðsamningi sem gerður hafi verið við KB banka hf. sé réttur viðtakandi greiðslna KB banki hf.  Sé sérstaklega tekið fram að allar greiðslur á grundvelli samningsins til annarra losi stefnda ekki undan greiðsluskyldu gagnvart KB banka hf.  Megi því ljóst vera að stefnandi eigi ekki beinan rétt á hendur stefnda heldur aðeins óbeinan og skilyrtan rétt á því að umræddar greiðslur verði greiddar inn á þær skuldir sem hún sé í ábyrgð fyrir gagnvart bankanum.  Umrædd yfirlýsing geti aðeins veitt stefnanda beinan rétt gagnvart stefnda ef KB banki hf. aflétti veðrétti sínum og öðru tilkalli til umræddra samningsgreiðslna en því hafi bankinn hafnað eins og fram komi í stefnu. 

Í öðru lagi byggi stefndi kröfu sína um sýknu á því að um sé að ræða gagnkvæman samning sem hafi verið vanefndur af hálfu Prímo ehf. og því eigi hvorki Prímo ehf. né þeir sem leiði rétt sinn af rétti Prímo ehf. rétt til greiðslna samkvæmt samningnum.  Í samningnum og viðaukum hans sé byggt á því að stefndi greiði Prímo ehf. 12% af veltu 1. árs, 15% af veltu 2. árs, 15% af veltu 3. árs og 5% af veltu 4. árs.  Salan fyrsta árið, frá 25. apríl 2003 til 25. apríl 2004 hafi verið 7.100.000 krónur.  Umrædd samningsfjárhæð, 13.462.088 krónur, sé einungis þak á samanlagðri greiðslu til Prímo ehf. á fyrstu þremur árum samningstímans eins og skýrt komi fram í viðkomandi samningum.  Samkvæmt þessu hafi átt að greiða á grundvelli samningsins 12% af þeirri fjárhæð til KB banka hf. eða 1.349.000 krónur.  En þar sem stefndi hafi átt gagnkröfur vegna vanefnda Prímo ehf. á samningnum, að fjárhæð að minnsta kosti 2.626.000 krónur, hafi hvorki KB banki hf. né aðrir sem leiddu rétt af samningnum átt rétt til greiðslu á grundvelli hans.  Það eitt að KB banki hf. hafi ekki gengið eftir greiðslu styðji þetta.  Þá hafi sölutölur heldur ekki verið vefengdar en eftirlit með sölukerfi og bókhaldi stefnda sé í höndum KB banka hf. samkvæmt veðsetningarsamningi.  Með vísan til framagreinds beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda þar sem engin skylda hvíli á stefnda að greiða samkvæmt þeim samningum sem stefnandi byggi kröfur sínar á.

Verði ekki fallist á sýknukröfur stefnda byggi hann á því að lækka beri kröfu stefnanda verulega.  Samkvæmt framansögðu hafi velta stefnda með Errea vörur verið 7.100.000 krónur á fyrsta samningsárinu og greiðsla til Prímo ehf. því átt að vera 1.349.000 krónur sem greiða skyldi með 4 gjalddögum eða 337.250 krónur á hverjum gjalddaga.  Hafi stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að sýna fram á aðrar sölutölur og verði jafnframt að bera hallann af því að hafa ekki óskað eftir því að láta KB banka hf.  sannreyna sölutölur.  Verði því að byggja á því að sölutölur stefnda séu réttar.  Stefnt sé vegna gjalddaga 15. apríl 2004 og beri að miða við framangreinda fjárhæð greiðslunnar þegar dómur verður lagður á málið.

Um lagarök vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttarins varðandi skuldbindingargildi samninga, vanefndir og vanefndarúrræði.  Kröfu um málskostnað styður stefndi við 130. gr. laga nr. 91/1991.

V

Stefnandi byggir kröfur sínar á einhliða yfirlýsingu stefnda sem hann gaf út 8. mars 2004.  Þar segir orðrétt: „Safalinn..., hefur skuldbundið sig til þess að greiða Ólöfu Hannesdóttur.... samtals kr. 13.400.000.  Greiðslan er innt af hendi skv. samkomulagi milli aðila og fyrirvörum í því.  Gjalddagar verða 4 sinnum á ári og er áætlað að taki 4 ár að fullklára heildarupphæðina.  Fyrsti gjalddagi verður 15. apríl 2004.  Safalinn ehf. heimilar að yfirlýsing þessi verði lögð inn til KB banka hf. til tryggingar skuldum/ábyrgðum Ólafar Hannesdóttur við bankann.” Af gögnum málsins verður ráðið að tilefni útgáfu þessarar yfirlýsingar var að stefnandi var í miklum ábyrgðum fyrir Prímo ehf. og ákváðu fyrirsvarsmenn þess félags að selja stefnda eigur þess til að losa stefnanda undan ábyrgðum.  Kemur þetta meðal annars skýrt fram í samstarfssamningi stefnda og Prímo ehf. 25. apríl 2003, en samkvæmt 3. gr. samningsins eru forsendur samstarfsins að losa stefnanda undan ábyrgðum fyrir félagið.Af gögnum málsins verður einnig ráðið að það ákvæði samstarfssamningsins sem laut að því að stefndi skyldi losa stefnanda undan ábyrgðum við Prímo ehf. gekk ekki eftir og hefur stefndi borið því við að ástæðan væri sú að Prímo ehf. hafi vanefnt samninginn af sinni hálfu.  Í málinu liggja fyrir gögn sem sýna fram á að Ívar Trausti Jósafatsson gerði samkomulag við KB banka hf. þar sem gengið var frá uppgjöri skulda sem stefnandi var í ábyrgðum fyrir.Í umdeildri yfirlýsingu stefnda til stefnanda er vísað til að greiðslan sé samkvæmt samkomulagi milli aðila og fyrirvörum í því.  Stefndi hefur ekki lagt fram haldbær gögn sem sýna fram á svo ekki verði um villst til hvaða samkomulags og fyrirvara í því sé hér vitnað til eða milli hvaða aðila og verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti.  Yfirlýsingin er einhliða gefin út af stefnda til handa stefnanda.  Aðrir aðilar eru ekki nefndir í henni.  Þá liggja ekki fyrir nein gögn um að fyrirvarar hafi verið gerðir af hálfu stefnda varðandi greiðsluloforð hans í yfirlýsingunni.  Samkvæmt orðanna hljóðan yfirlýsingarinnar, lýsir stefndi því yfir án fyrirvara að hann muni greiða stefnanda tilgreinda fjárhæð með nánar tilgreindum hætti.Í máli þessu er einungis til umfjöllunar krafa stefnanda á hendur stefnda á grundvelli fyrrnefndrar yfirlýsingar en ekki samningar stefnda og Prímo ehf. eða ágreiningur þeirra á milli vegna þeirra samninga.   Verður því ekki í máli þessu tekin afstaða til þess hvort umræddir samningar þeirra á milli hafi verið efndir enda er Prímo ehf. ekki aðili að máli þessu.Að því virtu sem nú hefur verið rakið er ljóst að með framangreindri yfirlýsingu skuldbatt stefndi sig til að greiða stefnanda tilgreinda fjárhæð.  Miðað við kröfugerð stefnanda, þar sem hún gerir kröfu um greiðslu á fyrstu afborgun samkvæmt yfirlýsingunni, verður hún tekin til greina eins og hún er fram sett og eru engin rök fyrir lækkun kröfunnar.Stefndi byggir sýknukröfu sína enn fremur á því að stefnandi sé ekki réttur aðili að máli þessu.  Megi ljóst vera að í veðsamningi þeim sem gerður hafi verið við KB banka hf. sé bankinn eini rétti viðtakandi greiðslnanna en sérstaklega sé tekið fram í samningnum að allar greiðslur á grundvelli samningsins til annarra losi stefnda ekki undan greiðsluskyldu gagnvart KB banka hf.  Ekki verður annað séð en að hér sé stefndi að vísa til veðsamnings 26. janúar 2004 þar sem Prímo ehf. veðsetti KB banka hf. samstarfssamning sinn og viðauka við hann við stefnda til tryggingar yfirdrætti.  Með bréfi 27. janúar 2004 til KB banka hf. sagði stefndi þessu samkomulagi frá 26. janúar 2004 upp auk þess sem hann sagði upp viðaukasamningi sínum við Prímo ehf. frá 22. janúar 2004.  Er því vandséð að stefndi geti byggt kröfur sínar á þeim samningi.  Þá liggja fyrir gögn um að skuldir þær sem stefnandi var í ábyrgðum fyrir hjá KB banka hf. hafi verið gerðar upp.  Verður stefndi því ekki sýknaður á þeim forsendum að stefnandi sé ekki réttur aðili að málinu.Eftir þessum málsúrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.Af hálfu stefnanda flutti málið Anna Linda Bjarnadóttir hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Sveinn Jónatansson hdl.

          Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Safalinn ehf., greiði stefnanda, Ólöfu Hannesdóttur, 837.500 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, frá 15. apríl 2004 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.