Hæstiréttur íslands
Mál nr. 113/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
|
|
Miðvikudaginn 25. mars 2009. |
|
Nr. 113/2009. |
Byggingarfélagið Kjölur ehf. (Ólafur Örn Svansson hrl.) gegn Brynjólfi Óskarssyni (enginn) |
Kærumál. Málskostnaðartrygging.
BY ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu þess um að B yrði gert að setja málskostnaðartryggingu í máli, sem B hafði höfðað á hendur félaginu. Til stuðning kröfu sinni vísaði B ehf. í árangurslaus fjárnám sem gerð höfðu verði hjá B, en þau yngstu voru um ársgömul. Talið var að hin árangurslausu fjárnám gætu ekki, án frekari upplýsinga, gefið mynd af greiðslugetu B nú, vegna þess tíma sem liðinn var síðan þau áttu sér stað. Að því virtu og þar sem B hafði ekki fært fram önnur gögn til stuðnings kröfu sinni, staðfesti Hæstiréttur úrskurð héraðsdóms.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. mars 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sem hann hefur höfðað gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 1.000.000 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðili reisir kröfu sína um málskostnaðartryggingu á því að á undanförnum tæpum þremur árum hafi fjögur árangurslaus fjárnám verið gerð hjá varnaraðila. Þann 4. maí 2006 lauk tveimur fjárnámum án árangurs eftir að varnaraðili hafði lýst yfir eignaleysi sínu og 11. febrúar 2008 lauk enn tveimur fjárnámum án árangurs eftir að bróðir varnaraðila, sem hittist fyrir á lögheimili hans, hafði lýst yfir eignaleysi varnaraðila. Vegna þess tíma sem liðinn er síðan hin árangurslausu fjárnám voru gerð er fallist á með héraðsdómara að þau geti ekki án frekari upplýsinga gefið mynd af greiðslugetu varnaraðila nú. Að því gættu og þar sem sóknaraðili hefur ekki fært fram önnur gögn til stuðnings kröfu sinni verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 2008.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 18. febrúar sl., er höfðað af Brynjólfi Óskarssyni kt. 020564-5209, Melabraut 19, Seltjarnarnesi, með stefnu, birtri 3. febrúar 2009, á hendur Byggingarfélaginu Kili ehf., kt. 630805-0820, Móvaði 37, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.365.143 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 1.365.143 krónum frá 23. ágúst 2008 til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar.
Við þingfestingu málsins þann 10. febrúar sl. krafðist stefndi málskostnaðartryggingar úr hendi stefnda með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vegna líkinda fyrir ógjaldfærni stefnanda.
Stefnandi mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað.
I
Til stuðnings kröfu sinni vísar stefndi til þess að nokkur árangurslaus fjárnám hafi verið gerð hjá stefnanda á síðastliðnum árum, tvö á árinu 2006 og tvö á árinu 2008 og því séu skilyrði b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 uppfyllt.
Stefndi vísar til þess að árið 2006 hafi verið þingfest mál milli sömu aðila og hafi það snúist um sama reikning og það mál sem nú hafi verið þingfest. Þegar fyrra málið var þingfest hafi stefnda ekki verið kunnugt um að árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá stefnanda. Þar sem annmarkar hafi verið á málsgrundvelli þess máls hafi það verið fellt niður. Þetta fyrra mál hafi þó enga þýðingu vegna þess máls sem nú sé rekið.
Stefndi kveðst alls ekkert kannast við stefnanda og ekki heldur við munnlegt tilboð sem nemi 1.600.000 krónum. Að mati stefnda kunni málatilbúnaður stefnanda að leiða til þess að stefndi þurfi að krefjast dómkvaðningar matsmanns og því sé hæfilegt að málskostnaðartrygging stefnanda nemi 1.000.000 króna.
II
Stefnandi byggir á því að nýjustu upplýsingar úr vanskilaskrá séu eins árs gamlar og jafnframt á því að ekki hafi verið lögð fram beiðni um gjaldþrotaskipti á búi stefnanda. Því sé ekkert sem bendi til þess að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Í því máli sem áður hafi verið rekið milli sömu aðila hafi ekki verið gerð krafa um málskostnaðartryggingu og ekki sé frekari ástæða til þess nú en þá.
Fallist dómurinn á að stefnanda beri að leggja fram málskostnaðartryggingu þá krefst stefnandi þess að hún verði eins lág og mögulegt sé.
III
Til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að stefnandi sé ekki fær um greiðslu málskostnaðar vísar stefndi til árangurslausra fjárnáma sem gerð hafi verið hjá stefnanda, þau nýjustu þann 11. febrúar 2008. Þegar litið er til þess hversu langt er síðan umrædd fjárnám fóru fram þykja þau ekki geta gefið mynd af greiðslugetu stefnanda nú. Stefndi þykir því ekki hafa sýnt fram á að skilyrði b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 sé fullnægt. Verður því að hafna kröfu stefnda um að stefnandi leggi fram málskostnaðartryggingu.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hafnað er kröfu stefnda, Byggingarfélagsins Kjalar, að stefnanda, Brynjólfi Óskarssyni, verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar.