Hæstiréttur íslands

Mál nr. 247/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 20

 

Mánudaginn 20. ágúst 2001:

Nr. 247/2001.

Sigurður Lárusson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Greiðslumiðlun hf. – Visa Ísland

(Árni Vilhjálmsson hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.

S krafðist þess aðallega að uppsögn G hf. á samningum þeirra yrði dæmd ólögmæt, en til vara að uppsagnarákvæði í samningunum yrði vikið til hliðar á grundvelli ákvæðis 36. gr. laga nr. 7/1936, en til þrautavara að G hf. yrði gert að viðlögðum nánar tilteknum dagsektum að ganga til saminga við S. Að kröfu G hf. var varakröfu og þrautavarakröfu S vísað frá héraðsdómi, en hafnað að vísa aðalkröfu hans frá. Krafðist S ógildingar úrskurðar héraðsdóms að því er varakröfuna varðaði. Talið var að fyrrgreind uppsögn G yrði eðli málsins samkvæmt ólögmæt ef komist yrði að þeirri niðurstöðu að efni stæðu til þess að víkja samningsákvæði um heimild til hennar til hliðar. Var úrskurður héraðsdóms því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júní 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2001, þar sem vísað var frá dómi varakröfu og þrautavarakröfu, sem sóknaraðili gerði í máli sínu á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að því er varðar varakröfu hans og héraðsdómara gert að taka hana til efnismeðferðar ef ekki verði í dómi fallist á aðalkröfu hans í málinu. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Samkvæmt gögnum málsins gerðu aðilar þess fjóra samninga 6. janúar 1997, sem í meginatriðum lutu að viðtöku sóknaraðila á greiðslum frá viðskiptamönnum sínum í verslun, sem hann rak að Dalshrauni 13 í Hafnarfirði, með greiðslukortum frá varnaraðila. Með bréfi 19. júlí 2000 beitti varnaraðili ákvæði í tveimur þessara samninga til að segja þeim upp með þriggja mánaða fyrirvara. Kom uppsögnin til framkvæmdar 20. október sama árs. Sóknaraðili vildi ekki una þessari uppsögn og höfðaði mál þetta á hendur varnaraðila með stefnu 19. febrúar 2001. Samkvæmt henni krafðist sóknaraðili þess aðallega að uppsögnin yrði dæmd ólögmæt, til vara að uppsagnarákvæði í áðurnefndum samningum yrði vikið til hliðar á grundvelli ákvæðis 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986, en til þrautavara að varnaraðila yrði gert að viðlögðum nánar tilteknum dagsektum að ganga til samninga við sóknaraðila um „móttöku VISA debetkorta og VISA kreditkorta”. Varnaraðili tók til varna í málinu og krafðist þess aðallega að því yrði vísað frá dómi. Með hinum kærða úrskurði vísaði héraðsdómari varakröfu og þrautavarakröfu sóknaraðila frá dómi, en hafnaði að vísa aðalkröfu hans frá.

Eins og séð verður af fyrrgreindum dómkröfum sóknaraðila fyrir Hæstarétti unir hann við niðurstöðu hins kærða úrskurðar um þrautavarakröfu sína. Ákvörðun héraðsdómara um að vísa ekki frá aðalkröfu sóknaraðila getur ekki komið til endurskoðunar fyrir Hæstarétti í kærumáli og er þess heldur ekki krafist. Er því aðeins til úrlausnar hvort efni séu til að vísa frá héraðsdómi varakröfu sóknaraðila.

Aðalkrafa sóknaraðila um efni málsins lýtur sem áður segir að því að uppsögn varnaraðila á samningum þeirra frá 6. janúar 1997 verði „dæmd ólögmæt”. Með varakröfu sinni leitar sóknaraðili hins vegar eftir því að ákvæði í samningum þeirra um heimild til uppsagnar verði vikið til hliðar. Eðli máls samkvæmt væri uppsögn varnaraðila 19. júlí 2000 ólögmæt ef komist yrði að þeirri niðurstöðu að efni stæðu til þess að víkja til hliðar samningsákvæði um heimild til hennar. Ætti varakrafa sóknaraðila því að réttu lagi að vera málsástæða fyrir aðalkröfu hans, en ekki á hún erindi í málið sem sjálfstæð dómkrafa. Að þessu athuguðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest, en rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2001.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi 30. maí sl. er höfðað með stefnu sem árituð er um birtingu 21. febrúar sl.

Stefnandi er Sigurður Lárusson, kt. 100444-2089, Klapparstíg 11, Njarðvík og rekur hann málið vegna einkafirma síns, Dalsnestis, kt. 531288-1739.

Stefndi er Greiðslumiðlun hf., kt. 500683-0583, Álfabakka 16, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að uppsögn stefnda 19. júlí 2000 á samningum um mót­töku Visa kreditkorta og Visa Electron debetkorta við stefnanda verði dæmd ólög­mæt.  Til vara er þess krafist að uppsagnarákvæði samninga um móttöku fram­an­greindra korta verði vikið til hliðar, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, um­boð og ógilda löggerninga.  Til þrautavara er þess krafist að stefnda verði gert skylt að ganga til samninga við stefnanda um móttöku framangreindra korta að við­lögð­um dagsektum, 20.000 krónum á dag.  Þá er krafist málskostnaðar.

Í þessum þætti málsins krefst stefndi þess aðallega að öllum kröfum stefnanda verði vísað frá dómi og honum úrskurðaður málskostnaður.  Til vara krefst hann þess að vara- og þrautavarakröfu stefnanda verði vísað frá dómi en ákvörðun máls­kostn­aðar látin bíða efnisdóms.

 

II

Málavextir eru þeir að stefnandi, sem rekur söluturninn Dalsnesti í Hafnarfirði, hafði gert samninga við stefnda um að stefnandi tæki við kortum frá stefnda í við­skipt­um sínum.  Stefnandi skýrir frá því að síðasti samningur aðila hafi verið gerður 6. janúar 1997.  19. júlí 2000 kveður stefnandi að sér hafi borist bréf frá stefnda þar sem samningum um móttöku korta hafi verið sagt upp.  Í uppsagnarbréfinu hafi verið vísað til ákvæða samninganna og hafi uppsagnarbréfið verið miðað við þriggja mán­aða uppsagnarfrest og verið án rökstuðnings.  Meðan á uppsagnarfresti stóð hafi einu sinni farið fram viðræður milli aðila en án árangurs.  Stefnandi kveðst hafa mótmælt þess­um uppsögnum, meðal annars sökum þess að rökstuðning fyrir þeim hafi skort.  Þá hafi hann einnig skorað á stefnda að falla frá þeim.  Þetta hafi verið árangurslaust og hafi uppsögnin tekið gildi.  Með málarekstri þessum freistar stefnandi þess að fá upp­sögn stefnda fellda úr gildi.

Af hálfu stefnda er skýrt svo frá að í júlí 1999 hafi stefnandi skyndilega hætt mót­töku á kreditkortum frá stefnda sem greiðslu fyrir selda vöru og þjónustu.  Hann hafi þó ekki sagt upp samningi sínum við stefnda heldur hafi stefnda borist upp­lýs­ing­ar um þetta frá viðskiptavinum sínum.  Í september 1999 hafi stefnda borist til eyrna að stefnandi hefði gerst sekur um brot á samningi sínum um móttöku debetkorta við stefnda með því að neita viðskiptum við viðskiptamann sem ætlaði að greiða með slíku korti.  Þau samskipti hafi endað á þann hátt að stefnandi hafi neitað að afhenda við­skiptavininum kortið og hafi þurft aðstoð lögreglu til að fá það.  Svipað hafi verið uppi á teningnum í júní og júlí 2000 þegar stefnandi hafi neitað viðskiptum við við­skipta­menn, sem ætluðu að greiða með debetkorti.  Stefnandi hafi ekki viljað afhenda kort­höfum kort sín til baka og hafi þurft til þess aðstoð lögreglu.  Þá kveður stefndi að margoft hafi verið kvartað yfir stefnanda vegna framferðis hans við viðskiptavini sem hafi viljað greiða fyrir vörur og þjónustu með kortum frá stefnda.  Enn fremur hafi stefnda borist til eyrna að í söluturni stefnanda væri að finna merkingar sem segðu til um lágmarksúttekt með debetkorti og þar væri einnig að finna auglýst stað­greiðslu­tilboð, sem væru ekki til reiðu fyrir þá sem vildu greiða með debetkorti.  Stefndi kveðst hafa litið svo á að framangreint væri brot á skilmálum aðila um notkun korta.  Eftir þessi alvarlegu og ítrekuðu brot stefnanda hafi stefndi ákveðið að segja samn­ingnum upp og gert það 19. júlí 2000.  Meðan á uppsagnarfresti stóð hafi verið rætt við stefnanda en það hafi verið án árangurs og hafi uppsögnin því tekið gildi.

 

III

Til stuðnings kröfum sínum vekur stefnandi athygli á eftirtöldum staðreyndum varð­andi stefnda.  Í fyrsta lagi að stefndi sé annað greiðslukortafyrirtækið á íslensk­um markaði og hann sé þjónustufyrirtæki í eigu banka og sparisjóða.  Í lok árs 1999 hafi verið í gildi um það bil 130.000 Visa kreditkort og um það bil 180.000 Visa debet­kort.  Visakort séu á yfir 80% heimila á Íslandi og meirihluti allra landsmanna á aldr­inum 18 til 67 ára séu korthafar hjá stefnda.  Ársvelta stefnda árið 1999 vegna kredit­korta hafi numið rúmum 80 milljörðum og vegna debetkorta tæpum 75 milljörð­um.  Markaðshlutdeild stefnda vegna kreditkorta árið 1999 hafi verið 74% og vegna debetkorta 68%.

Aðalkröfu sína byggir stefnandi á því að ríkari skyldur hvíli á stefnda til samn­inga­gerðar samkvæmt meginreglum samningaréttar með tilliti til þess að hann sé greiðslu­kortafyrirtæki sem bjóði fram þjónustu sína í atvinnuskyni sem sé rekin í skjóli opinberrar leyfisveitingar.  Þessi skylda leiði til þess að heimildir stefnda til upp­sagnar á samningunum séu takmarkaðri en ella.  Einnig er aðalkrafan byggð á því að samkvæmt meginreglu samkeppnisréttar um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu hafi uppsögnin verið ólögmæt.  Meginreglan hafi verið lögfest með breytingum á samkeppnislögum nr. 8/1993, 6. desember 2000, sbr. 11. gr. þeirra.  Þá er og vísað til 54. gr. EES samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 sem sé samhljóða 82. gr. Rómar­sátt­málans. 

Þá byggi aðalkrafan á því að hafi stefndi haft rétt til að segja upp samningunum ein­hliða þá sé um slíka misnotkun á rétti að ræða að það fari gegn meginreglum íslenskra laga og eðli máls.  Í því efni vísar stefnandi til þess að íslenskur réttur setji skorð­ur við því að menn misnoti rétt, sem þeir annars eigi og sjái þess merki víða í lög­gjöfinni.  Því sé hér um meginreglu að ræða. 

Varakrafa stefnanda byggir á því að víkja beri til hliðar uppsögn stefnda á samn­ing­unum vegna þess að hún hafi verið ósanngjörn eða andstæð góðri viðskiptavenju, sbr. 36. gr. samningalaga.  Samkvæmt 17. gr. almenns samstarfssamnings aðila megi segja samningunum upp skriflega og falli þeir úr gildi 3 mánuðum eftir móttöku upp­sagn­arbréfs  Þannig megi segja samningunum upp á grundvelli hinna stöðluðu samn­ings­ákvæða án rökstuðnings af hálfu stefnda.  Slíkt sé mjög ósanngjarnt gagnvart korta­viðtakendum, sem byggi atvinnurekstur sinn á því að geta tekið á móti sem flest­um viðskiptavinum.  Um sé að ræða augljósan mun á stöðu aðila. 

Þrautavarakrafa stefnanda byggir á því að stefndi hafi beitt stefnanda ólögmætri synjun á þjónustu í ljósi þess að stefndi er fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu sem hafi þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á greiðslu­korta­mark­aðn­um og að stefndi geti að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, við­skiptavina eða neytenda.  Með vísan til þessa kveður stefnandi stefnda vera skylt að veita sér aðgang að þeirri aðstöðu sem hann búi yfir.

 

IV

Aðalkröfu sína um frávísun málsins í heild byggir stefndi í fyrsta lagi á því að aðal­krafa, varakrafa og þrautavarakrafa stefnanda séu valkvæðar, þrátt fyrir upp­röðun í varakröfu og þrautavarakröfu.  Gangi kröfurnar í raun allar jafnlangt þar eð þær miði allar að því að koma á samningssambandi milli aðila.  Ef eitthvað sé gangi þrauta­varakrafan lengst þar sem þar sé farið fram á dagsektir en ekki í hinum kröf­un­um tveimur.  Málsókn stefnanda, að því er varði vara- og þrautavarakröfu, þjóni því ekki tilgangi og hafi stefnandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úr þeim leyst.  Af þessum sökum sé kröfugerð stefnanda mjög óljós og ekki í samræmi við megin­reglu einkamálaréttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð, sbr. d lið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 2. mgr. 114. gr. sömu laga.  Þá byggist frá­vís­un­arkrafan einnig á því að uppsetning málsástæðna stefnanda sé ekki í samræmi við e lið laganna um meðferð einkamála.  Í stefnu þurfi að koma fram málsástæður, sem stefn­andi byggi málsókn sína á, svo og önnur atvik, sem greina þurfi til þess að sam­hengi málsástæðna verði ljóst.  Aðalkrafa stefnanda um að uppsögn stefnda á um­rædd­um samningum verði dæmd ólögmæt sé, að því er virðist, byggð á skyldu stefnda til samningsgerðar vegna markaðsráðandi stöðu hans, en þrautavarakrafan virð­ist aftur á móti byggð á því að stefnda sé skylt að veita stefnanda aðgang að þeirri ómiss­andi aðstöðu sem hann búi yfir.  Það sé þó ekki fyrr en í kafla stefnunnar um þrauta­varakröfuna sem markaðsstaða stefnda sé rædd og þar sé einnig fjallað í löngu máli um sölusynjun stefnda, sem þó ætti að eiga heima undir málsástæðum aðalkröfu.  Þessa uppsetningu málsástæðna telur stefndi mjög ruglingslega og ekki sé nægjanlega skýrt hvert sakarefni hverrar kröfu um sig sé. 

Varakrafa stefnda um frávísun vara- og þrautavarakröfu er á því byggð að kröfur þessar séu ekki dómhæfar.  Varakrafa um að uppsagnarákvæði samninga aðila verði vikið til hliðar byggist á þeirri staðreynd að í gildi sé samningur milli aðila, sem hafi að geyma ákvæði sem hægt sé að víkja til hliðar.  Gangi þessi krafa ekki upp og sé ekki dómhæf þar sem slíkur samningur hafi ekki verið í gildi milli aðila síðan 20. október 2000. 

Stefndi telur þrautavarakröfu stefnanda heldur ekki dómhæfa þar sem með henni sé verið að krefjast dóms um atriði sem ráðist af ókomnum atvikum.  Ekki sé tiltekið nánar í þrautavarakröfunni á hvaða grundvelli sá samningur yrði, sem stefnda yrði gert skylt að gera við stefnanda og því alls óvíst hvort samningar gætu tekist á milli aðila um öll þau atriði, sem nauðsynlegt yrði að semja um.  Nefnir stefndi þar til sög­unn­ar hluti eins og verð, heimildir og annað slíkt.  Miðað við ágreining aðila um upp­sagn­arákvæði þeirra samninga, sem áður voru í gildi þeirra á milli, sé alls óvíst að hægt verði að ganga til samninga við stefnanda á grundvelli þeirra stöðluðu samn­ings­skilmála, sem stefndi noti almennt í viðskiptum sínum.  Ljóst sé að dómsorð, sem kvæði á um að stefndi skuli ganga til samninga við stefnanda, væri hvorki end­an­legt, ákveðið né skýrt.

 

V

Hér að framan var gerð grein fyrir samningum, sem í gildi voru milli aðila um korta­viðskipti.  Þessum samningum sagði stefndi upp 19. júlí 2000 og tók uppsögnin gildi 20. október sama ár.  Með málsókninni freistar stefnandi þess að koma aftur á samn­ingssambandi við stefnda.  Aðallega krefst stefnandi þess að uppsögnin verði dæmd ólögmæt.  Styður hann þess kröfu málsástæðum og lagarökum, eins og rakið var í III. kafla hér að framan.  Með vísun til þess, er þar kemur fram, er það niðurstaða dómsins að málatilbúnaður stefnanda varðandi þennan kröfulið uppfylli skilyrði d og e liða 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og verður honum ekki vísað frá dómi.

Í varakröfu krefst stefnandi þess að uppsagnarákvæðum samninganna við stefnda verði vikið til hliðar og vísar í því sambandi til ákvæða 36. gr. laga nr. 7/1936 um samn­ingsgerð, umboð og ógilda löggerninga.  Eins og áður sagði lauk samn­ings­sam­bandi aðila í október 2000 og snýst ágreiningur þeirra nú um það hvort því skuli komið á aftur eða ekki.  Varakrafa stefnanda kemur því aðeins til álita að aðalkröfu hans hafi verið hafnað en komi til þess er enginn samningur í gildi á milli aðila og þar af leiðandi engum samningsákvæðum hægt að víkja til hliðar.  Úrlausn um varakröfu stefn­anda getur því á engan hátt leyst úr ágreiningi aðila heldur er hér verið að krefja dóm­inn um lögfræðilega álitsgerð, sbr. 1. mgr. 25. gr. einkamálalaganna, og verður henni vísað frá dómi.

Í þrautavarakröfu sinni krefst stefnandi þess að stefnda verði gert skylt að ganga til samninga við hann um móttöku korta frá stefnda að viðlögðum dagsektum.  Stefn­andi getur þess þannig í engu hverjir samningsskilmálar eigi að vera, verði fallist á kröfu hans.  Þrautavarakrafa stefnanda er því svo vanreifuð að dómur verður ekki á hana lagður og er henni vísað frá dómi.

Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms í málinu.

 

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

Úrskurðarorð

Vara- og þrautavarakröfu stefnanda, Sigurðar Lárussonar, er vísað frá dómi.

Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms.