Hæstiréttur íslands

Mál nr. 410/1999


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Brot gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. desember 1999.

Nr. 410/1999.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Guðmundi Max Jónssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Ölvunarakstur. Brot gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga. Aðfinnslur.

G var dæmdur fyrir að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og að hafa stofnað í hættu lífi eða heilsu fjölda fólks, með því að hafa ekið bifreiðinni inn í mannþröng  og á ljósastaur með þeim afleiðingum að staurinn brotnaði og féll niður á gangstétt þar sem fólk var saman komið. Var G gerð fangelsisrefsing vegna þessa.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. október 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að niðurstaða héraðsdóms um sviptingu ökuréttar ákærða verði staðfest og að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð.

I.

Svo sem greinir í ákæru er ákærða gefið að sök að hafa aðfaranótt 11. janúar 1998 ekið jeppabifreiðinni Ö 4737 undir áhrifum áfengis frá bifreiðastæði við Hótel Selfoss að gatnamótum Kirkjuvegar og Smáratúns á Selfossi og að hafa með óvarlegum akstri á þeirri leið stofnað í augljósa hættu lífi eða heilsu fjölda fólks, sem var saman kominn við aðalinngang hótelsins, þar sem ákærði hafi ekið bifreiðinni á ljósastaur með þeim afleiðingum að staurinn brotnaði og féll niður á gangstétt við innganginn.

Ákærði neitar sök og kveðst ekki hafa ekið bifreiðinni í umrætt sinn. Hann hefur einnig neitað því að hafa skömmu fyrir atburðinn reynt án árangurs að komast inn á Hótel Selfoss, en þar stóð þá yfir dansleikur, sem var að ljúka.

Nokkur vitni hafa gefið skýrslu fyrir dómi um málsatvik. Meðal þeirra er Ingvar Guðmundsson, sem starfaði sem dyravörður á Hótel Selfossi umrætt kvöld. Kveður hann ákærða hafa án árangurs leitað inngöngu á dansleikinn eftir að hætt var að selja aðgang að honum. Hafi þá ákærði, sem var áberandi ölvaður, orðið mjög æstur og barið á útidyrnar. Hann hafi síðan horfið af vettvangi. Skömmu eftir þetta heyrði vitnið í bifreið rétt utan við útidyr hótelsins, en athygli þess var vakin við það að eldneytisgjöf bifreiðarinnar var aukin. Við athugun sá hann að svörtum jeppa var ekið á verulegri ferð á og síðan yfir ljósastaur, sem var skammt frá innganginum á hótelið. Hafi bifreiðin þá verið stöðvuð, ekið aftur á bak og síðan ekið burt á mikilli ferð. Kvaðst vitnið hafa fylgst með atburðarás frá því bifreiðin „geystist yfir ljósastaurinn“ þar til hún hvarf burt. Á bifreiðastæðinu utan við hótelið hafi verið nokkrir tugir manna og hafi bifreiðinni verið ekið inn í mannþröngina á gangstéttinni. Viðbrögð fólks hafi orðið undrun og hræðsla og menn reynt að koma sér undan og síðan án árangurs að stöðva bifreiðina. Taldi vitnið að fólk hafi verið í mikilli hættu og lán að enginn skyldi verða fyrir bílnum eða ljósastaurnum. Lýsti vitnið því yfir að það hafi séð ökumanninn greinilega, þar sem bifreiðinni var ekið mjög nærri þar sem það stóð. Hafi hann verið sami maður og reyndi skömmu áður án árangurs að komast inn á dansleikinn. Benti vitnið á ákærða sem ökumanninn, en hann var viðstaddur skýrslutöku yfir vitnum fyrir dómi.

Ármann Ingi Sigurðsson starfaði einnig sem dyravörður á hótelinu umrætt kvöld. Hann skýrði svo frá fyrir dómi að maður hafi komið um klukkan þrjú um nóttina að dyrum hótelsins og viljað komast inn. Þegar því var neitað hafi hann lamið og sparkað í hurðina og látið dólgslega. Skömmu síðar hafi svörtum, upphækkuðum jeppa verið ekið inn á svæðið framan við hótelið. Hafi bifreiðinni verið ekið í inn í mannþröng, sem var þar eftir dansleikinn, og menn forðað sér á hlaupum. Staurinn hafi fallið niður í þvöguna, en svo vel hafi viljað til að enginn slasaðist. Lögreglumenn hafi komið á vettvang nokkrum mínútum síðar. Kvaðst vitnið hafa séð ökumanninum bregða fyrir og taldi það hann vera sama mann og hafði skömmu áður sparkað í útihurð hótelsins og sem staddur væri í dómsal við skýrslutökuna.

Þrjú önnur vitni, Birgir Örn Arnarson, Helgi Már Björnsson og Linda María Jóhannsdóttir báru fyrir dómi að þau hafi fylgst með atburðarás umrætt sinn, þar sem þau sátu öll í bifreið framan við aðalinngang hótelsins. Kvaðst vitnið Birgir hafa séð er ákærði reyndi að komast inn í hótelið og þegar jeppabifreiðinni var skömmu síðar ekið um svæðið framan við það. Var frásögn hans um þetta á sömu lund og framburður dyravarðanna tveggja, sem áður er rakinn. Taldi Birgir sig einnig hafa séð er ákærði, sem hafi verið einn í bifreiðinni, stöðvaði hana nokkurn spöl frá hótelinu og færði sig yfir í farþegasætið, þar sem hann hafi setið þar til lögreglumenn komu og handtóku hann. Lýsti vitnið yfir að það hafi séð ökumanninn greinilega og enginn vafi léki á að hann væri ákærði í málinu. Vitnið Helgi lýsti atvikum framan við hótelið mjög á sama veg og sagði jafnframt að bifreið þeirra félaga hafi verið lagt um það bil tíu metra frá aðalinnganginum. Taldi hann með ólíkindum að enginn skyldi meiðast við atganginn, þegar jeppabifreiðinni var ekið um svæðið, en menn hafi náð að stökkva undan henni. Enginn vafi léki á að ökumaðurinn væri hinn sami og var með læti, er hann leitaði inngöngu í hótelið skömmu áður. Er vitnið var spurt hvort það þekkti ákærða aftur sem ökumanninn taldi það sig ekki geta fullyrt að svo væri, en því sýndist þó að um sama mann væri að ræða. Vitnið Linda lýsti mjög á sama hátt atvikum framan við hótelið og þau vitni, sem áður eru nefnd. Skýrði hún svo frá að jeppabifreiðinni hafi verið ekið á fleygiferð að hótelinu. Sá hún ökumanninn greinilega og þekkti aftur þann, sem skömmu áður hafði dregið að sér athygli manna vegna ófriðlegrar háttsemi sinnar við inngang að hótelinu. Hafi hún einnig séð sama mann, þar sem hann sat í farþegasæti jeppans við hlið ökumannssætis eftir að akstrinum lauk og þegar lögreglumenn komu þar að honum. Aðspurð um hvort ákærði væri ökumaðurinn svaraði hún því til að hún gæti „ekki alveg sannað að þetta sé hann ...“.

Auk framangreindra vitna gaf Magnús Kolbeinsson lögreglumaður skýrslu fyrir dómi. Kvað hann lögreglumenn hafa komið á vettvang fáum mínútum eftir að tilkynning um atburðinn barst þeim. Hafi þar verið mjög margt fólk og menn virst vera æstir eða svolítið miður sín vegna þess, sem þarna hafði gerst. Hafi lögreglumönnunum verið bent á ákærða sem ökumann bifreiðarinnar, sem ók niður ljósastaurinn, og komu þeir að honum þar sem hann sat í hægra framsæti bifreiðar sinnar. Sagði vitnið jafnframt að bifreiðin, sem ákærði sat í, hafi verið stór, svartur jeppi, upphækkaður og á stórum hjólbörðum. Ekki var kannað hvort skemmdir sæjust framan á bifreiðinni. Var ákærði færður á lögreglustöð og síðan tekið úr honum blóðsýni, sem sýndi magn alkóhóls í því 1,59 ‰.

II.

Með afdráttarlausum framburði tveggja vitna, sem að framan er rakinn og á auk þess trausta stoð í framburði annarra vitna, er gefið hafa skýrslu fyrir dómi, telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem ákæra á hendur honum lýtur að. Verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða því staðfest. Eru brot hans réttilega heimfærð til refsiákvæða í héraðsdómi. Refsing ákærða og svipting ökuréttar er hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, sem verður staðfestur. Verður ákærða gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að lýsingu málavaxta er áfátt í hinum áfrýjaða dómi. Er þar hvorki gerð grein fyrir hvað einstök vitni báru né lýst skilmerkilega með hverjum hætti sönnun liggi fyrir í málinu. Eru ekki uppfyllt fyrirmæli 1. mgr. 135. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála varðandi það hvað skuli greina í dómi. Er þetta aðfinnsluvert.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Guðmundur Max Jónsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 16. nóvember 1998.

Mál þetta var höfðað með ákæru ríkissaksóknara dags. 12. maí 1998 á hendur Guðmundi Max Jónssyni, kt. 151069-5769, Smáravöllum við Fífuhvammsveg, Kópavogi.  Málið var dómtekið 29. október sl.

Í ákæru er ákærði talinn hafa gerst sekur um

„… hegningar- og umferðarlagabrot, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 11. janúar 1998, ekið jeppabifreiðinni Ö-4737 undir áhrifum áfengis frá bifreiðastæði við Hótel Selfoss að gatnamótum Kirkjuvegar og Smáratúns á Selfossi og að hafa með óvarlegum akstri á þeirri leið stofnað í augljósa hættu lífi eða heilsu fjölda fólks, sem var saman kominn við aðalinngang hótelsins, þar sem ákærði ók bifreiðinni á ljósastaur með þeim afleiðingum að staurinn brotnaði og féll niður á gangstétt við innganginn."

Telst þetta varða við 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 4. gr., 2. mgr. 10. gr. og 1. sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.  Ákæruvald krefst refsingar og sviptingar ökuréttar.

Ákærði krefst sýknu.

 

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur auk ákærða og lögreglumanna vitnin Ingvar Guðmundsson, Ármann Ingi Sigurðsson, Birgir Örn Arnarson, Helgi Már Björnsson, Magnús Kolbeinsson og Linda María Jóhannsdóttir.

 

Ákærði hefur í skýrslum sínum bæði hjá lögreglu og fyrir dómi neitað því að hann hafi ekið bifreið sinni eins og lýst er í ákæru.  Hann kveðst heldur ekki hafa séð bifreiðinni ekið.

Vitnin Ingvar, Ármann Ingi, Birgir Örn og Helgi Már hafa öll lýst akstri bifreiðarinnar eins og fram kemur í ákæru.  Hafi bifreiðinni verið ekið þar að sem hópur fólks var utan við Hótel Selfoss.  Hafi verið keyrt beint á ljósastaur þar, staurinn hafi fallið inn á milli manna, en ljóskúpan hafi brotnað.  Töldu vitnin mildi vera að ekki varð slys á fólki.  Vitnin kváðust flest viss um að ákærði hefði verið þarna að verki, kvaðst ekkert þeirra hafa þekkt hann fyrir.  Töldu þau sig viss um að ökumaður hefði verið sá hinn sami og handtekinn var skömmu eftir að akstrinum lauk, en samkvæmt frásögn vitnanna olli aksturinn talsverðri reiði þess fólks sem var á vettvangi. 

Lögreglan kom fljótlega á staðinn og handtók ákærða þar sem hann stóð við bifreið sína.  Tekið var blóðsýni úr honum og reyndist alkóhólmagn í því vera 1,59‰. 

Lögregla kannaði ekki hugsanlegar skemmdir á bíl ákærða, en ákærði staðhæfir að ekki hafi séð neitt á honum eftir umrætt kvöld.  Þá var ekki tekin ljósmynd af aðstöðu á vettvangi, en við aðalmeðferð var gengið á vettvang og hann skoðaður með lögreglumönnum eru lýstu aðkomu sinni. 

 

Niðurstaða.

Með framburðum vitna og lýsingum lögreglu á vettvangi er gegn neitun ákærða fram komin sönnun þess að ákærði hafi ekið umrætt sinn eins og lýst er í ákæru.  Þá er sannað með niðurstöðum Rannsóknarstofu í lyfjafræði að ákærði var undir áhrifum áfengis.  Er brot hans réttilega heimfært til 1. sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. 

Samkvæmt lýsingum vitna voru fáeinir tugir manna samankomnir utan við Hótel Selfoss.  Ákærði ók bifreiðinni, sem samkvæmt lýsingu hans og vitna er upphækkuð, stór jeppabifreið að hópnum og á ljósastaur sem féll þar sem fólk stóð.  Meta verður þessi atvik svo að ákærði hafi vísvitandi stofnað til hættu þeirrar er þarna skapaðist og hafi með því brotið gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga.  Tæmir ákvæðið hér sök gagnvart 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga.  Þá verður háttsemi ákærða ekki talin varða við 2. mgr. 10. gr. umferðarlaga.

Ákærði hefur fimm sinnum gengist undir refsingar og önnur viðurlög:

15. desember 1987:  25.000 króna sekt fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 4. gr og 1. mgr. 11. gr. umferðarlaga nr. 40/1968.

18. janúar 1989:  5.000 króna sekt  fyrir brot gegn 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

7. febrúar 1991:  5.000 króna sekt og ökuleyfissvipting einn mánuð fyrir brot gegn 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 36. gr. umferðarlaga.

31. mars 1992:  15.000 króna sekt og tveggja mánaða ökuleyfissvipting fyrir brot gegn 2. mgr. 37. gr. og 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga.

7. apríl 1993:  75.000 króna sekt og ökuleyfissvipting í tvö ár og tvo mánuði fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr., 1. mgr. 48. gr og 1. sbr. 3. mgr. 37. gr. umferðarlaga.

Ákærða er nú í þriðja sinn ákveðin refsing vegna ölvunaraksturs.  Ákveða verður refsingu hans í samræmi við dómvenju um slík tilvik, að viðbættu hættubroti því sem hann er sakfelldur fyrir.  Verður honum gert að sæta fangelsi í sextíu daga.  Þá verður einnig í samræmi við dómvenju að svipta hann ökurétti ævilangt.

Ákærða ber að greiða allan sakarkostnað.  Saksóknarlaun skulu nema kr. 35.000, en málsvarnarlaun kr. 55.000.

Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði, Guðmundur Max Jónsson, sæti fangelsi í sextíu daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. saksóknarlaun til ríkissjóðs kr. 35.000 og málsvarnarlaun Brynjars Níelssonar hrl., kr. 55.000.