Hæstiréttur íslands
Mál nr. 496/1998
Lykilorð
- Vátrygging
- Bifreið
|
|
Fimmtudaginn 3. júní 1999. |
|
Nr. 496/1998. |
Magnús Þór Bjarnason (Hilmar Ingimundarson hrl.) gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Ólafur Axelsson hrl.) |
Vátrygging. Bifreiðir.
Bifreið í eigu M skemmdist í árekstri við aðra bifreið. M, sem var án ökuréttinda, var við stjórn bifreiðarinnar rétt áður en áreksturinn varð. Hafði lögregla þá afskipti af akstri hans, en hann sinnti ekki merki um að stöðva bifreiðina heldur ók mjög hratt af stað. Krafði M vátryggingafélagið SA um bætur úr húftryggingu bifreiðarinnar vegna skemmda á henni, en SA neitaði greiðslu. Talið var sannað á grundvelli framburðar vitna að M hefði ekið bifreiðinni er áreksturinn varð. Þá var fallist á með SA á grundvelli framburðar vitna og þegar litið var til skemmda á bifreiðinni og aðstæðna á slysstað, að M hefði valdið árekstrinum af stórkostlegu gáleysi. Samkvæmt vátryggingarskilmálum, sem giltu um húftryggingu bifreiðar M hjá SA, var undanþegið ábyrgð félagsins tjón, er rakið yrði til stórkostlegs gáleysis vátryggðs. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu SA af kröfum M staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. desember 1998 og krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 822.196 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 770.600 krónum frá 12. september til 16. desember 1996 og af 822.196 krónum frá þeim degi til greiðsludags, svo og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Bifreiðaáreksturinn, sem málið er risið af, varð í Ármúla á móts við sund milli húsanna nr. 11 og 13. Var bifreið áfrýjanda, MJ 146, ekið á bifreiðina VJ 190 í sama mund og stjórnandi hennar beygði til vinstri, en hann hugðist aka niður húsasundið. Báðum bifreiðunum var ekið til austurs.
Ágreiningslaust er að áfrýjandi, sem var án ökuréttinda, var við stjórn bifreiðar sinnar á gatnamótum Háaleitisbrautar og Safamýrar, er lögreglumenn gáfu honum merki um að stöðva, en hann sinnti því engu og ók mjög hratt af stað og reyndi að komast undan. Var þetta rétt áður en áreksturinn varð í Ármúla.
Í héraðsdómi er lýst framburði vitnisins Jóns Gunnars Björnssonar þess efnis, að hann hafi eftir áreksturinn séð áfrýjanda fara úr bifreiðinni MJ 146 eftir að hafa sparkað upp hurð hennar þeim megin, sem bifreiðarstjórasætið var, en stúlku fara út úr bifreiðinni hægra megin. Samkvæmt því, sem að framan er rakið, telst sannað að áfrýjandi hafi ekið bifreiðinni í umrætt sinn.
Vitnið Sigurður Rúnarsson, sem stóð við glugga í Ármúla 9, skýrði svo frá, að hann hafi séð að bifreið áfrýjanda var ekið með ofsahraða austur Ármúla og síðan hafi áreksturinn orðið. Í lögregluskýrslu er honum lýst sem mjög hörðum. Uppdráttur, sem lögregla gerði samdægurs af vettvangi, ber með sér að við áreksturinn hafi bifreiðin VJ 190 kastast alllangt áfram, en bifreið áfrýjanda lenti út af akbrautinni og hafnaði á ljósastaur, sem bognaði við höggið. Mynd af bifreið áfrýjanda sýnir miklar skemmdir eftir áreksturinn. Lögleyfður hámarkshraði í götunni var 50 km á klst. Aðstæður á slysstað gerðu framúrakstur varhugaverðan, meðal annars vegna þess að vænta mátti umferðar að og frá nálægu hóteli. Þegar litið er til þessa er fallist á með stefnda, að áfrýjandi hafi valdið árekstrinum af stórkostlegu gáleysi.
Hafi vátryggður valdið vátryggingaratburði af stórkostlegu gáleysi skal samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 úr því skorið, hvort greiða skuli bætur og hve háar, eftir því hversu mikil sökin er og eftir öðrum atvikum. Heimilt er að víkja frá þessu með ákvæði í vátryggingarsamningi, meðal annars með því að kveða svo á, að vátryggður missi allan rétt til vátryggingarbóta, ef atvik eru með þeim hætti, sem í lagaákvæðinu greinir. Með vátryggingarskilmálum þeim, er giltu um húftryggingu bifreiðar áfrýjanda hjá stefnda, var undanþegið ábyrgð félagsins tjón, sem rakið varð til stórkostlegs gáleysis vátryggðs.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest. Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Magnús Þór Bjarnason, greiði stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 1998.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 10. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Magnúsi Þór Bjarnasyni, kt. 160672-4209, Stóragerði 14, Reykjavík, gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, með stefnu útgefinni og birtri 19. september 1997.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 822.196,- með hæstu dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 770.600,- frá 22. september 1996 til 16. desember 1996 og af kr. 822.196,- frá þeim degi til greiðsludags og málskostnað að skaðlausu.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður og stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og hvor aðili beri sinn hluta af málskostnaði.
I.
Atvik máls og ágreiningsefni.
Málsatvik eru þau að lögreglan í Kópavogi veitti því athygli að stefnandi, sem er ökuréttindalaus, var að aka bifreið sinni MJ-146 á Digranesvegi sunnudaginn 22. september 1996 um kl. 21.05. Var stefnanda veitt eftirför á lögreglubifreiðinni LO-764. Er bifreið stefnanda var kyrrstæð á umferðarljósum við gatnamót Háaleitisbrautar og Safamýrar kvaðst lögreglan hafa ekið upp að hlið bifreiðar stefnanda og gefið ökumanni merki um að stöðva með bláum ljósum á lögreglubifreiðinni og með handarbendingu. Ökumaður sinnti því ekki og ók mjög hratt af stað á grænu ljósi og beygði til vinstri vestur Safamýri. Telur lögregla að bifreiðinni hafi verið ekið á ofsahraða. Var henni veitt eftirför, en móts við Framheimilið, Safamýri 26, var eftirför hætt og slökkt á bláu ljósunum á lögreglubifreiðinni. Skömmu síðar hafðist upp á bifreið stefnanda móts við Ármúla 13, sem þá hafði lent þar í árekstri við bifreiðina VJ-190. Þar var lögreglan í Reykjavík komin á vettvang.
Bifreið stefnanda, sem er Nissan Sunny árgerð 1991, var kaskótryggð hjá stefnda á þessum tíma. Við áreksturinn skemmdist bifreiðin það mikið að viðgerð telst ekki svara kostnaði. Í máli þessu gerir stefnandi kröfu til þess að stefndi greiði honum á grundvelli kaskótryggingarinnar söluverð bifreiðarinnar og geymslukostnað.
Stefndi hefur hafnað bótaskyldu á þeim forsendum að tjónsatburðurinn hafi gerst fyrir stórkostlegt gáleysi stefnanda, sem hafi verið ökumaður bifreiðarinnar, og að auki hafi hann verið ökuréttindalaus.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að í gildi hafi verið milli hans og stefnda vátryggingasamningur þar sem stefnandi hafi kaskótryggt bifreið sína, MJ-146 hjá stefnda. Engin þau atvik séu til staðar sem valdi því að greiðsluskylda stefnda falli niður.
Stefnukrafan sé söluverð bifreiðarinnar miðað við staðgreiðslu að frádreginni sjálfsáhættu, kr. 777.600,-. Um þá fjárhæð sé ekki ágreiningur. Þá sé krafist geymslukostnaðar, kr. 44.596,- samkvæmt reikningi.
Stefnandi mótmælir því að ökumaður bifreiðarinnar hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og með því valdið tjónsatburðinum, en þar að auki hafi stefnandi ekki sjálfur valdið tjónsatburðinum og því eigi 2.6 í kaskóskilmálunum ekki við, sbr. hér 2. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga.
Stefnandi mótmælir einnig þeirri mótbáru stefnda sem rangri að hann hafi verið ökumaður bifreiðarinnar við áreksturinn. Stefndi hafi ekkert annað við að styðjast en grunsemdir og rangar ályktanir lögreglunnar, enda hafi það farið svo að lögreglan hafi ekki treyst sér til að standa fast á slíku og stefnandi hafi eingöngu verið ákærður fyrir sviptingaakstur frá Hlíðarhjalla 41 í Kópavogi uns akstri lauk í Safamýri í Reykjavík, þar sem Anna María Gísladóttir hafi tekið við akstrinum.
Í lögregluskýrslu sé því haldið fram að far eftir höfuð Önnu hafi verið á miðri rúðu og ljóst hár af henni í brotinu. Samkvæmt mynd sem stefnandi hafi tekið af framrúðu bifreiðarinnar sé brotið ökumannsmegin og því séu ályktanir lögreglu rangar að þessu leyti til. Anna María Gísladóttir hafi staðfest það hjá lögreglu að hún hefði verið ökumaður í umrætt skipti og einnig hafi stefnandi staðfest það sama.
Samkvæmt framansögðu er á því byggt að skylda stefnda sé ótvíræð og beri því stefnda að greiða stefnanda tjón hans í samræmi við vátryggingasamninginn, en stefndi hafi ekki gert neinn ágreining um fjárhæð tjónsins.
Vaxtakrafa stefnanda er reist á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
Málskostnaðarkrafan er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi með akstursmáta sínum, þegar hann var að stinga lögregluna af, m.a. með því að aka á ofsahraða fram úr bifreið sem var að beygja, sýnt af sér stórkostlegt gáleysi, sem leitt hafi til þess slyss sem varð. Því hafi hann fyrirgert bótum úr kaskótryggingu bifreiðarinnar. Þessu til stuðnings er vísað til 18. gr. laga nr. 20/1954 og gildandi vátryggingarskilmála bifreiðarinnar, lið 2.6.
Af gögnum málsins megi sjá að þegar slysið gerðist hafi stefnandi ekki haft gilt ökuskírteini, hann hafi verið sviptur ökuréttindum ævilangt. Samkvæmt skilmálum tryggingarinnar, lið 2.9, bæti félagið ekki tjón í slíkum tilvikum. Er einnig byggt á þessu ákvæði tryggingarinnar.
Þeirri fullyrðingu stefnanda að hann hafi ekki ekið bifreiðinni tiltekið sinn er mótmælt sem rangri. Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi ekið bifreiðinni þegar slysið varð. Stefnandi hafi sönnunarbyrði um fullyrðingu sína. Bent er á að lögreglan hafi séð stefnanda undir stýri skömmu áður. Þá hafi ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á skýrt frá því að eftir að slysið varð hafi stefnandi komið út úr bifreiðinni ökumanns megin, en farþeginn farþega megin. Þá bendi og ummerki á bifreiðinni til þess að svo hafi verið, telja megi víst að brot á miðri framrúðu sé frá stúlkunni sem farþega.
Ef talið verði að stefnandi hafi ekki verið ökumaður í umrætt sinn heldur stúlkan, þá er á því byggt að slysið verði rakið til stórkostlegs, sameiginlegs gáleysis þeirra beggja. Um hafi verið að ræða háskaakstur í þágu og að beiðni stefnanda í þeim tilgangi að koma honum undan lögreglunni.
Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið um sýknu er til vara krafist lækkunar. Ekki sé ágreiningur um söluandvirði bifreiðar stefnanda, en geymslukostnaði er mótmælt.
IV.
Niðurstaða.
Fyrir liggur samkvæmt framburði stefnanda fyrir dómi að hann gerði sér grein fyrir því að lögreglan í Kópavogi var á eftir honum þegar bifreið hans MJ-146 var kyrrstæð við umferðarljós á gatnamótum Háleitisbrautar og Safamýrar tiltekið sinn. Hann ákvað að reyna að komast undan lögreglu og ók vestur Safamýri, nokkuð greitt að eigin sögn. Í skýrslu lögreglu segir að bifreið stefnanda hafi verið ekið mjög hratt af stað frá greindum gatnamótum og ekið á ofsahraða vestur Safamýri. Bifreiðinni var veitt eftirför af lögreglu, en eftirför hætt móts við Framheimilið, Safamýri 26, eins og fyrr greinir. Árekstur varð svo skömmu síðar milli bifreiðar stefnanda MJ-146 og bifreiðarinnar VJ-190 á móts við Ármúla 13. Stefnandi kvaðst ekki hafa verið ökumaður er áreksturinn varð, unnusta hans, Anna María Gísladóttir, hefði þá verið búin að taka við stjórn ökutækisins. Það hefði átt sér stað móts við skýli SVR í Ármúla. Hefur hún og lýst því yfir að hún hafi verið ökumaður bifreiðarinnar er áreksturinn varð.
Fyrir dómi hefur vitnið Sigurður Rúnarsson skýrt frá því að hann hafi staðið við glugga innandyra á Hótel Íslandi, Ármúla 9, tiltekið sinn. Kvaðst hann hafa séð bifreið stefnanda ekið á ofsaferð austur Ármúla og vera að fara fram úr annarri bifreið. Síðan hafi hann heyrt mikla skruðninga og flýtt sér á vettvang. Þegar hann kom á vettvang voru allir komnir út úr bifreiðunum þannig að hann sá ekki hver var ökumaður bifreiðarinnar MJ-146.
Fyrir dómi hefur vitnið Jón Gunnar Björnsson, ökumaður bifreiðarinnar VJ-190, skýrt frá því að hann hafi ekið austur Ármúla tiltekið sinn áleiðis að húsi Bifreiða- og landbúnaðarvéla við Suðurlandsbraut og hafi ætlað að stytta sér leið þangað með því að aka niður húsasund frá Ármúlanum. Kvaðst hann hafa gefið stefnumerki og ætlað að beygja, en áttað sig á því að hann væri að beygja of snemma og myndi lenda inn á planinu hjá Hótel Íslandi. Kvaðst hann hafa haldið áfram með stefnuljós á og beygt til vinstri og í því hafi árekstur orðið. Vitnið kvaðst áður hafa litið í spegla og til hliðar, en ekki orðið var við bifreið stefnanda fyrr en við áreksturinn. Eftir áreksturinn hafi hann farið að bifreið stefnanda. Þegar hann hafi komið að bifreiðinni þá hafi stúlka verið að stíga út úr bifreiðinni hægra megin en ökumaður, karlmaður, hafi verið að sparka upp hurðinni vinstra megin þar sem hann síðan steig út. Kvað vitnið engan vafa leika á þessu.
Samkvæmt sérstakri skýrslu lögreglunnar í Reykjavík um persónuslys vegna árekstursins segir að Anna María Gísladóttir hafi hlotið meiðsl í andliti þegar höfuð hennar lenti í framrúðu bifreiðarinnar, sem brotnaði við höggið. Far eftir höfuð hennar var á miðri rúðunni og ljóst hár af henni í brotinu. Bifreiðin hafi kastast til vinstri við áreksturinn þannig að leiða megi líkur að því að hún hafi verið í hægra framsæti bifreiðarinnar og kastast fram og til vinstri við höggið.
Þegar virt eru framangreind gögn málsins og aðdragandi árekstursins verður að telja ósannað að Anna María Gísladóttir hafi tekið við stjórn ökutækisins áður en slysið varð, þrátt fyrir fullyrðingar hennar og stefnanda þar um. Verður því við það miðað að stefnandi hafi verið ökumaður bifreiðarinnar MJ-146 tiltekið sinn.
Samkvæmt gögnum málsins þykir ljóst vera að bifreiðinni MJ-146 hafi verið ekið mjög hratt austur Ármúla tiltekið sinn, enda verður ráðið af ummerkjum að áreksturinn hafi verið mjög harður. Sýndi ökumaður MJ-146 af sér verulegt gáleysi er hann hugðist aka fram úr bifreiðinni VJ-190 móts við Ármúla 13, þar sem áreksturinn varð.
Bifreiðin MJ-146 var tryggð kaskótryggingu hjá stefnda. Samkvæmt gr. 2.6 í vátryggingarskilmálum bætir félagið ekki tjón sem verður á ökutækinu þegar tjón verður sökum stórkostlegs gáleysis vátryggðs eða ökumanns, sbr. og 2. mgr. 18. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954. Verður fallist á það með stefnda að stefnandi hafi með akstursmáta sínum tiltekið sinn fyrirgert rétti sínum til bóta á grundvelli þessa ákvæðis skilmálanna. Samkvæmt gr. 2.9 í vátryggingarskilmálum bætir félagið heldur ekki tjón sem verður á ökutækinu þegar ökumaður hefur ekki gilt ökuskírteini fyrir ökutækið og notkun þess. Fyrir liggur að stefnandi var ökuréttindalaus. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu, en málskostnaður verður felldur niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Magnúsar Þórs Bjarnasonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.