Hæstiréttur íslands

Mál nr. 104/2004


Lykilorð

  • Handtaka
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. október 2004.

Nr. 104/2004.

Jón Gústaf Magnússon

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Handtaka. Skaðabætur. Gjafsókn.

JG var handtekinn og yfirheyrður í tengslum við rannsókn á bílbruna, en bíllinn var í eigu JB, bróður hans. Áður en JG var handtekinn hafði JB skýrt lögreglu frá því að S, unnusta JG, hafi síðast ekið bifreiðinni. Þá hafði lögregla aflað gagna um áhvílandi lán á bifreiðinni. Í fyrstu hafði S skýrt svo frá að bifreið JB hafi bilað, en eftir að farið var með hana á vettvang, breytt frásögn sinni og sagt JG og JB hafa fengið sig til að skýra rangt frá að þessu leyti. Lauk rannsókninni með því að málið var fellt niður að því er JG varðaði. Höfðaði JG þá mál á hendur íslenska ríkinu þar sem hann krafðist miskabóta með vísan til þess að handtakan hafi verið tilefnislaus og ónauðsynleg. Þá taldi JG að hann hafi verið sviptur frelsi sínu lengur en efni stóðu til. Talið var að er JG var handtekinn hafi verið fram kominn rökstuddur grunur um að hann hafi átt hlut að máli og þannig gerst sekur um refsiverðan verknað. Þá hafi skýringar JG gefið lögreglu tilefni til yfirheyra aðra sem borið gætu um atvik málsins, en í því sambandi hafi verið nauðsynlegt að koma í veg fyrir að JG næði að spilla sönnunargögnum. Því hafi borið full nauðsyn til handtökunnar. Var auk þess talið að frelsissvipting JG hafi ekki staðið lengur en efni stóðu til, en samtals liðu um 25 klukkustundir áður en hann var færður fyrir dómara. Var íslenska ríkið sýknað af kröfu JG

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson prófessor.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. mars 2004. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. maí 2002 til greiðsludags. Hann krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem hann hefur notið fyrir réttinum. 

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Jóns Gústafs Magnússonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 150.000 krónur.

 

                                     

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2003.

Mál þetta, sem dómtekið var 1. desember s.l., er höfðað með stefnu birtri 23. júní s.l.

Stefnandi er Jón Gústaf Magnússon, kt. 270574-5059, Gili, Kjalarnesi, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið og fyrir hönd þess er stefnt dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum miska­bætur að fjárhæð 1.000.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. maí 2002 til greiðsludags og málskostnað samkvæmt reikningi.  Stefn­andi hefur lögbundna gjafsókn í málinu samkvæmt 178. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 2. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 og var honum veitt gjafsókn í málinu 13. ágúst s.l.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefn­anda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dóms­ins.  Til vara er krafist lækkunar á dómkröfum stefnanda og í því tilviki verði máls­kostn­aður látinn niður falla.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að miðvikudaginn 1. maí 2002 var lögreglunni í Reykjavík til­kynnt að eldur væri laus í bifreið við Eldshöfða 18 hér í borg.  Er lögreglumenn komu á vettvang sáu þeir mikinn eld loga í bifreiðinni RY-716, jeppabifreið af gerðinni Musso Ssang Yong, árgerð 1999.  Var eldur laus í öllu farþega- og farangursrými bif­reiðarinnar, allar rúður í henni brotnar en allar dyr lokaðar.  Starfsmaður tæknideildar lög­reglunnar, Guðmundur Ásgeirsson, lögreglumaður, kom á vettvang kl. 06:10.  Athugun hans leiddi í ljós að yfirgnæfandi líkur væru til þess að kveikt hefði verið í bif­reiðinni, enda bentu aðstæður á vettvangi til þess að rúða í henni hefði verið brotin áður en eldur kviknaði.  Þá kom í ljós að hljómflutningstæki höfðu verið fjarlægð úr bif­reiðinni og af þeim sökum taldi tæknimaðurinn að ekki væri hægt að útiloka íkviknun af völdum rafmagns.  Haft var samband við eiganda bifreiðarinnar, Jóhann Birgi Magnússon, en hann var þá staddur úti á landi.  Hann kvaðst hafa lánað bróður sínum, stefnanda máls þessa, bifreiðina og hefði hann skilið hana eftir við Eldshöfða 18 þar sem gangtruflana hefði orðið vart í henni og hafi átt að koma henni á verkstæði.  Jóhann kvað útvarp og geislaspilara hafa verið í bifreiðinni og hefði hún verið skilin eftir læst.

Föstudaginn 24. maí sama ár hafði lögreglan samband við Jóhann Birgi og spurði hann nánar um ástand og viðskilnað við bifreiðina.  Hann sagði Pioneer geislaspilara hafa verið í bifreiðinni auk veiðigalla og Remington haglabyssu.  Sagði Jóhann kær­ustu stefnanda, Sigríði Þyrí Pétursdóttur, hafa síðast ekið bifreiðinni.  Lögregla hafði sam­band við hana og kvaðst hún þá hafa ekið bifreiðinni að Eldshöfða um kl. 04:00 til 05:00 umrædda nótt að beiðni stefnanda.  Hafi síðan komið í ljós að hún hafi ekið að Elds­höfða fyrir misskilning þar sem stefnandi hafi verið að skemmta sér niðri í bæ.  Kvaðst hún aldrei áður hafa ekið bifreiðinni og hafa orðið vör við gangtruflanir í henni og hafi hún drepið á sér.  Kvaðst hún hafa reynt að ýta henni í gang en án árangurs.  Hafi hún þá læst hurðum og farið fótgangandi að Höfðabakka 1 þar sem stefnandi hafi verið með herbergi á leigu.  Lögreglan hafði samband við Guðmund Ásgeirsson og spurði hann hvort leifar af haglabyssu hefðu fundist í bifreiðinni, en hann hafi sagt svo ekki vera.

Þriðjudaginn 28. maí sama ár kl. 13:19 mætti Sigríður Þyrí í skýrslutöku hjá rann­sókn­ardeild lögreglunnar í Reykjavík samkvæmt boðun.  Var hún í fyrstu yfirheyrð sem vitni og skýrði þá svo frá að hún hafi að kvöldi 30. apríl sama ár fengið bifreiðina lán­­aða hjá stefnanda.  Hafi hún ekkert farið á bifreiðinni um kvöldið en um kl. 04:00 hafi stefnandi hringt og hafi henni skilist að hann hefði beðið hana að koma með bif­reiðina að Eldshöfða.  Kvaðst hún hafa ekið vestur Dvergshöfða og norður Breiðhöfða en þar hafi bifreiðin byrjað að hökta og drepið á sér í kjölfarið.  Hefði hún staðið á slét­t­lendi og hefði hún ýtt henni 10 til 15 metra þangað til hún byrjaði að renna sjálf og hafi hún látið hana renna að rútufyrirtæki sem þarna er.  Kvaðst hún hafa læst bif­reið­inni og gengið upp að hóteli við Höfðabakka.  Kl. 13:53 var gert hlé á yfir­heyrslunni og gengið á vettvang en þegar yfirheyrsla hófst aftur kl. 15:15 óskaði Sigríður Þyrí eftir því að breyta framburði sínum og var réttarstöðu hennar þá breytt og henni til­kynnt að hún væri handtekin og yfirheyrð sem sakborningur.  Skýrði hún þá svo frá að hún hefði aldrei ekið bifreiðinni og hefðu bræðurnir Jóhann Birgir og stefnandi fengið hana til að taka aksturinn á sig og hefðu þau þrjú búið til sögu um það hvernig bifreiðin átti að hafa bilað og viðskilnað hennar við hana.  Hún kvaðst hafa vitað til þess að einhver vinur stefnanda hefði verið á jeppanum umrætt kvöld en hún kvaðst ekki vita hvort hann hefði kveikt í bifreiðinni.  Skýrslutöku yfir Sigríði Þyrí lauk kl. 16:21.

Kl. 16:14 sama dag var Jóhann Birgir Magnússon handtekinn og yfirheyrður um máls­atvik.  Hann kvaðst hafa lánað stefnanda bifreiðina, en hann hefði verið staddur í Brekku­húsaskógi við Laugarvatn vegna atvinnu sinnar sem rútubílstjóri.  Hann kvaðst að morgni 1. maí sama ár hafi frétt að bifreið hans hefði brunnið um nóttina og að sögn stefnanda og Sigríðar Þyrí hefði bifreiðin bilað við Eldshöfða.  Hann kvað það ekki rétt að hann hefði reynt að selja bifreiðina án árangurs og þá upplýsti hann að áhvíl­andi lán á henni væru tæp ein og hálf milljón króna.  Jóhann neitaði að hafa lagt á ráðin um að kveikja í bifreiðinni og þá kannaðist hann ekki við að hafa fengið Sigríði Þyrí til að segjast hafa ekið bifreiðinni.  Yfirheyrslunni lauk kl. 17:07

Kl. 17:07 sama dag var stefnandi handtekinn og yfirheyrður.  Hann skýrði þá svo frá að hann hefði verið ölvaður á bifreiðinni umrædda nótt og hefði vinur hans Björn Lofts­son verið með honum.  Hann kvaðst hafa séð lögreglubifreið á Höfðanum um kl. 04:00 og hafi hann því reynt að komast undan.  Kvaðst hann hafa ekið norður Eldshöfða og lagt bifreiðinni við hliðina á gámi og síðan hlaupið að Höfðabakka 1 þar sem hann hafði dvalarstað.  Hann kvað bróður sinn hafa hringt í sig kl. 11:00 morg­uninn eftir og tjáð sér að bifreiðin hefði brunnið.  Stefnandi kvaðst hafa gleymt að slökkva á útvarpinu, en hann kvaðst hafa munað eftir að læsa hurðum.  Hann kvaðst hafa beðið Sigríði Þyrí um að segjast hafa ekið bifreiðinni þar sem hann vildi ekki að lögreglan kæmist að því að hann hefði ekið undir áhrifum áfengis.  Hann kvað bróður sinn ekki hafa tekið þátt í því að búa þessa sögu til.  Stefnandi neitaði því að hafa lagt á ráðin um að kveikja í bifreiðinni.  Þessari yfirheyrslu lauk kl. 18:20.

Sama dag kl. 19:00 var Björn Loftsson yfirheyrður sem vitni um málsatvik.  Hann kvaðst ekki hafa fengið bifreiðina að láni þann 1. maí og mundi ekki hvort hann hefði verið farþegi í henni sama dag og hún brann við Eldshöfða.

Sama dag kl. 20:00 var Sigríður Þyrí aftur yfirheyrð og lýsti hún því nánar hvernig þeir bræður áttu að hafa lagt á ráðin um að hún segðist hafa ekið bifreiðinni og kvað hún stefnanda hafa verið hræddan um að hann yrði bendlaður við eldsvoðann.  Hún gaf þær upplýsingar að Björn Loftsson hefði síðast verið á bifreiðinni áður en kvikn­aði í henni.  Skýrslutöku þessari lauk kl. 21:51.

Stefnandi, kærasta hans og bróðir, gistu öll fangageymslur lögreglunnar um nóttina.  Stefnandi skýrði svo frá við yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hefði ekið bif­reið­inni ölvaður og skilið hana eftir við Eldshöfða eftir að hann hafi orðið var við lög­reglu.  Hann hafi ekki viljað að bróðir hans kæmist að því að hann hefði verið ölvaður á bifreiðinni og því fengið Sigríði Þyrí til að segjast hafa ekið henni.  Hann kvað bróður sinn hvergi hafa komið þar nærri.  Í yfirheyrslunni var stefnanda kynnt að sam­kvæmt ferilvöktun lögreglunnar hafi eina lögreglubifreiðin sem ekið var vestur Bílds­höfða verið á ferðinni kl. 02:16.  Stefnandi taldi sig hafa verið nokkuð seinna á ferð­inni en á þessum tíma.  Þessari yfirheyrslu lauk kl. 11:03.

Kl. 11.19 sama morgun skýrði Þórður Guðjón Hilmarsson, vinnufélagi Jóhanns Birgis, svo frá að um áramótin hafi Jóhann tjáð honum að hann væri í vandræðum með að selja bifreið sína og það eina sem hann gæti gert væri að aka henni útaf eða brenna hana.  Kvaðst Þórður hafa tekið þessu sem fíflaskap og ekki alvarlega.

Kl. 12:46 sama dag var Jóhann Birgir yfirheyrður og neitaði hann þá sök alfarið.  Hann kannaðist við að hafa í fíflaskap á árinu áður rætt um að aka bifreiðinni á staur eða velta henni.  Hann kannaðist ekki við að hafa minnst á að kveikja í henni.  Yfirheyrslunni lauk kl. 13:26.

Sama dag kl. 13:06 var Sigríður Þyrí yfirheyrð og skýrði þá svo frá að stefnandi hefði sagt henni að þeir Björn hefðu farið með bifreiðina að Eldshöfða og kveikt þar í henni.   Hún kvaðst ekkert vita um þátt Jóhann Birgis í málinu.  Að lokinni skýrslu­töku kl. 14:31 var hún síðan frjáls ferða sinna.

Stefnandi var yfirheyrður kl. 15:31 sama dag og lauk yfirheyrslunni kl. 15:38 sama dag.  Hann neitaði sök og sagði ekki rétt að þeir Björn hefðu kveikt í bifreiðinni.

Björn Loftsson var handtekinn kl. 14:45 og yfirheyrður kl. 16:27.  Hann neitaði að tjá sig um sakarefnið. 

Kl. 17:52 var Jóhann Birgir færður fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og var  honum kynnt krafa lögreglustjórans í Reykjavík um að honum yrði gert að sæta gæslu­varð­haldi allt til miðvikudagsins 5. júní 2002 kl. 16:00.  Með úrskurði upp kveðnum kl. 19:16 sama kvöld hafnaði héraðsdómari þessari kröfu.  Sams konar kröfu á hendur stefn­anda var einnig hafnað kl. 19:21, en hann hafði verið leiddur fyrir dómara kl. 18:20.  Þeir bræður voru því frjálsir ferða sinna, Jóhann Birgir kl. 19:17 og stefnandi kl. 19:22.

Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík til stefnanda dagsettu 31. desember 2002 var honum tilkynnt með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991 að rannsóknargögn þættu ekki gefa tilefni til frekari aðgerða í málinu og var það því látið niður falla að því er hann varðaði.

Með bréfi stefnanda til ríkislögmanns dagsettu 28. apríl 2003 var gerð krafa um skaða­bætur vegna ólögmætrar handtöku og frelsissviptingar, en með bréfi ríkis­lög­manns dagsettu 2. júní s.l. var kröfunni hafnað.

 Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því í fyrsta lagi að ekkert tilefni hafi verið til handtöku.  Samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 sé lögreglu rétt að handtaka mann ef rök­studdur grunur sé á að hann hafi framið brot sem sætt geti ákæru, enda sé handtaka nauð­synleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist hans og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spilli sakargögnum.  Er á því byggt að skýrsla tækni­deildar lögreglu hafi verið fullgerð 2. maí 2002 en ekki virðist hafa verið gerður frekari reki að rannsókn málsins fyrr en 24. maí sama ár.  Hafi þá ekkert komið fram sem gæfi tilefni til að ætla að rökstuddur grunur væri um að stefnandi hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi í tengslum við brunann í bifreið Jóhanns Birgis.  Hafi það eitt legið fyrir að kærasta stefnanda hafi sagst hafa ekið bifreiðinni umrædda nótt og skilið við hana þar sem síðar kviknaði í henni.

Samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991 hafi markmið lögreglurannsóknar átt að vera að leiða í ljós eins og unnt var hvernig eldsvoða í bifreiðinni hefði borið að höndum.  Hafi lögregla hins vegar hrapað að þeirri ályktun að stefnandi hefði með refsi­verðum hætti átt aðild að eldsvoða í bifreiðinni.  Hafi lögregla talið að stefnandi ætti hlut að tilraun til fjársvika án þess að tilefni væri til að ætla að rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi stefnanda í tengslum við brunann væri fyrir hendi.  Þá virðist lög­regla hafa haft að engu þann möguleika að kviknað hefði í bifreiðinni af völdum rafmagns.  Ekki hafi legið fyrir formleg kæra á hendur stefnanda þegar hann var hand­tekinn og þá hafi engar vísbendingar legið fyrir um að stefnandi hefði átt hlut að máli með refsiverðum hætti.  Stefnandi byggir á því að skýra verði heimildir lögreglu til hand­töku afar þröngt og gera skýrar kröfur til þess að í raun liggi fyrir rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi.  Hafi handtaka í för með sér inngrip í stjórnar­skrárvernduð mannréttindi einstaklinga og þurfi því mikið til að koma svo þeir verði sviptir frelsi sínu.

Í öðru lagi er á því byggt að handtakan hafi verið ónauðsynleg.  Í lögregluskýrslu sé handtakan sögð vera til að koma í veg fyrir að sönnunargögnum verði spillt og sé því ágreiningslaust að handtakan var ekki nauðsynleg til að koma í veg fyrir áfram­haldandi brot eða tryggja návist stefnanda og öryggi.  Liðnar hafi verið fjórar vikur frá því að kviknaði í bifreið Jóhanns Birgis og ljóst að á þeim tíma hefði stefnandi getað spillt hverjum þeim sakargögnum sem hann hefði talið nauðsyn á, haft áhrif á fram­burð annarra og gert aðrar ráðstafanir.  Verði því ekki séð að stefnanda  hafi verið unnt að torvelda rannsókn lögreglu að öðru leyti.

Í þriðja lagi er á því byggt að verði talið að handtakan hafi verið lögmæt og skilyrði fyrir hendi til að svipta stefnanda frelsi hafi frelsissviptingin varað mun lengur en nokkur efni hafi verið til.   Hafi frásögn Sigríðar Þyrí getað gefið lögreglu tilefni til jafn harkalegra aðgerða gagnvart stefnanda og raun bar vitni sé ljóst að ekkert tilefni hafi verið til þess að halda stefnanda eftir að lögregla hafði tekið skýrslu af honum, sem þá upplýsti að hann hefði beðið Sigríði Þyrí um að segjast hafa ekið bifreiðinni.  Hafi hann gefið á því eðlilegar og trúverðugar skýringar þar sem  hann hafi ekki viljað að upp kæmist að hann hefði ekið bifreiðinni ölvaður.   Hafi því borið að láta stefnanda lausan eftir að yfirheyrslu yfir stefnanda lauk kl. 18:20 sama dag, enda hafi ekkert komið fram í yfirheyrslu yfir honum sem gefið hafi tilefni til frekari frelsis­sviptingar.  Þá hafi hvorki framburður Jóhanns Birgis né framburður Björns gefið til­efni til að ætla að stefnandi hefði átt refsiverða aðild að brunanum.  Þá hafi Sigríður Þyrí engar upplýsingar getað gefið um það hvernig kviknaði í bifreiðinni eða um ætlaða refsiverða háttsemi stefnanda í því sambandi.  Hafi í síðasta lagi borið að láta stefnanda lausan kl. 21:51, en þá hafi ekkert komið fram við rannsókn málsins sem gaf lögreglu tilefni til að ætla að stefnandi ætti refsiverðan hlut að máli.  Hafi engir rann­sóknarhagsmunir verið fyrir hendi sem réttlætt hafi getað frekari frelsisskerðingu stefnanda.  Eftir að stefnandi hafði verið yfirheyrður um morguninn hafi ekkert komið fram sem bendlaði hann við refsivert athæfi í tengslum við brunann.  Jóhann Birgir og vinnufélagi hans voru sammála um það í yfirheyrslum um morguninn að Jóhann Birgir hafi í fíflaskap rætt um að það eina sem hann gæti gert til þess að losa sig við bifreiðina væri að eyðileggja hana með tilteknum hætti.  Hafi hvorugur þeirra borið nokkuð um refsiverða háttsemi stefnanda.

Í síðustu yfirheyrslu yfir Sigríði Þyrí hafi komið fram að hún grunaði stefnanda og Björn um að hafa kveikt í bifreiðinni og hefði stefnandi skýrt henni frá þessu um  morguninn.  Stefnandi hafi neitað þessu, svo og Björn og hafi framburður Sigríðar Þyrí því ekki getað verið grundvöllur frekari frelsissviptingar, enda hafi engin gögn legið fyrir framburði hennar til stuðnings.

Þrátt fyrir þetta hafi lögreglan gert kröfu um gæsluvarðhald á hendur stefnanda á þeim grundvelli að eftir væri að afla upplýsinga sem ekki hafi verið nánar tilgreindar og þá hafi þurft að athuga afdrif riffils og útvarps sem verið hafi í bifreiðinni.  Sé ljóst að stefnandi hafi verið fús til samstarfs við lögreglu um leit á heimili sínu og vinnustað og hafði hann engin tök á því að hafa áhrif á rannsókn lögreglu.

Stefnandi byggir á því að hann hafi ekki verið leiddur fyrir dómara fyrr en 25 klukku­stundum og 13 mínútum frá því hann var handtekinn.  Sé um að ræða skýlaust brot á 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 102. gr. laga nr. 19/1991, en þar sé mælt fyrir um að handtekinn mann skuli án undandráttar leiða fyrir dómara.  Hafi dómari hafnað gæsluvarðhaldskröfu og sé ljóst að hefði stefnandi verið færður fyrir dómara án undan­dráttar hefði hann fengið frelsi sitt mun fyrr en raun varð á.

Stefnandi byggir á því að þegar hann var handtekinn hafi hann verið í vinnu sinni, en það hafi bæði verið særandi og móðgandi fyrir hann og til þess fallið að valda honum álitshnekki.  Þá sé ljóst að frelsissvipting stefnanda hafi staðið mun lengur en nokkurt tilefni gat verið til og rannsóknarhagsmunir kröfðust.  

Stefnandi vísar um rétt sinn til bóta til 4. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar þar sem mælt sé fyrir um það að maður skuli eiga rétt til skaðabóta hafi hann verið sviptur frelsi að ósekju.  Þá byggir stefnandi bótarétt sinn á ákvæðum 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991, enda hafi lögmæt skilyrði skort til handtöku hans og frelsissviptingar eða í öllu falli hafi ekki verið nægilegt tilefni til slíkra aðgerða.  Fyrir liggi að mál á hendur stefnanda hafi verið fellt niður og ákæra ekki gefin út.  Eigi stefnandi því rétt til bóta, enda verði stefnandi hvorki sakaður um að hafa valdið eða stuðlað að aðgerðum lögreglu gagnvart sér og séu því ekki efni til að lækka eða fella niður bætur.  Stefnandi vísar að auki til Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr.  lög nr. 62/1994 og Alþjóða­samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.  Dráttarvaxtakrafa er reist á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og málskostnaðarkrafa er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir á því að eðlilega hafi verið staðið að rannsókn málsins og fullt til­efni til þeirra aðgerða sem gripið hafi verið til af hálfu lögreglu  Hafi öllum skilyrðum laga verið fullnægt, bæði við handtökur stefnanda og annarra sakborninga, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991.   Hafi stefnandi verið vörslumaður bifreiðarinnar sem talið var að hefði verið kveikt í.  Hafi rökstuddur grunur um íkveikju byggst m.a. á fram­burði vinnufélaga Jóhanns Birgis, svo og á framburði Sigríðar Þyrí.  Þá hafi fram­burður hinna handteknu þótt ótrúverðugur og misvísandi, en það hafi bent til þess að framið hafi verið brot sem leitt gæti til ákæru.  Hafi verið erfitt að aðskilja þátt stefnanda frá þætti annarra sakborninga.

Stefndi byggir á því að nægilegt tilefni og nægilega rökstuddur grunur hafi verið fyrir hendi til þess að handtaka stefnanda í þágu rannsóknarhagsmuna.  Að mati stefnda skiptir afstaða héraðsdómara til gæsluvarðhaldskröfu engu máli og hafi ekkert með skilyrði 97. gr. laganna að gera.  Þá er því mótmælt að stefnandi hafi verið sviptur frelsi sínu of lengi, enda í mörg horn að líta og framburður sakborninga vægast sagt mis­vísandi.  Hafi það með öðru kallað á aukna rannsóknarvinnu lögreglu.  Stefnanda hafi verið sleppt úr haldi þegar eftir úrskurð héraðsdómara og að mati stefnda sé sá tími innan eðlilegra marka miðað við aðstæður og umfang málsins.  Sé því ljóst að mati stefnda að þvingunaraðgerðir þær, sem stefnandi sætti meðan á rannsókn málsins stóð, hafi verið í alla staði lögmætar og í samræmi við réttarframkvæmd hér á landi.

Stefndi segir niðurstöðu um bótaskyldu í málinu ráðast af túlkun á 176. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 175. gr. sömu laga.  Þurfi að leggja mat á það hvort skilyrði a og b liða 176. gr. séu fyrir hendi, en 175. gr. laganna sé varla hægt að túlka sem sjálfstæða bótareglu.  Ákvæði greinarinnar séu almenn ákvæði fyrir öll bótaákvæði XXI. kafla laganna og fjalli fyrst og fremst um það að dómari megi taka bótakröfu til greina og á sama hátt fella niður bætur eða lækka þær, hafi sakborningur stuðlað að þeim að­gerðum sem hann reisir kröfur sínar á.  Enginn hlutlægur mælikvarði sé gefinn til ákvörðunar bóta og það að rannsókn máls leiði ekki til ákæru ráði ekki úrslitum um bóta­skyldu.  Ráðist bótagrundvöllurinn af skilyrðum 176. gr. og eftir atvikum af al­mennu skaðabótareglunni.  Síðan þurfi að taka afstöðu til hinna almennu ákvæða 175. gr. þar sem dæma megi bætur og/eða fella þær niður eða lækka, t.d. á grundvelli eigin sakar krefjanda.

Hafi ákvæði 175. gr., 176. gr. og 177. gr. laga nr. 19/1991 verið skýrð svo af dóm­stólum að þar séu tæmandi taldar þær aðgerðir sem leitt geti til bótaskyldu stefnda á grundvelli hlutlægrar ábyrgðarreglu.  Jafnframt þurfi þó að vera fullnægt öðrum skil­yrðum sem greini í 176. gr. laganna og þeim skilyrðum sem greini í 175. gr.  Hafi ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar verið skýrð svo að þau veiti ekki ríkari bótarétt en reglur XXI. kafla laga nr. 19/1991.  Þó geti bótakröfur verið reistar á almennum reglum skaðabótaréttar ef þær teljast eiga við.

Að mati stefnda leiðir framangreint til þess að ekki séu forsendur til að dæma stefnanda bætur á grundvelli 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991.  Hafi skilyrði hand­töku og tilefni augljóslega verið fyrir hendi og hafi lögreglan á engan hátt farið út fyrir þann ramma sem 97. gr. laganna setur henni.  Jafnframt telur stefndi að lækkunar- og nið­urfellingarheimild 175. gr. laganna geti vel komið til álita verði talið að bótaskylda sé fyrir hendi.  Vísar stefndi í þessu sambandi til misvísandi og óljóss framburðar stefnanda hjá lögreglu. 

Stefndi mótmælir tölulegri kröfugerð stefnanda sem of hárri og í engu samræmi við þekkt dómafordæmi.

Niðurstaða.

Samkvæmt gögnum máls þessa kviknaði í bifreiðinni RY-716 aðfaranótt mið­viku­dagsins 1. maí 2002 og leiddi rannsókn tæknideildar lögreglunnar í ljós að yfir­gnæfandi líkur væru til þess að kveikt hefði verið í henni.  Er lögregla hafði samband við eiganda bifreiðarinnar, Jóhann Birgi Magnússon, kom í ljós að hann var staddur úti á landi og hafði lánað bróður sínum, stefnanda máls þessa, bifreiðina.  Ekki er að sjá að rannsókn málsins hafði verið hreyft að nýju fyrr en 24. maí sama ár, en þá hafði lög­regla samband við Jóhann Birgi sem sagði kærustu stefnanda, Sigríði Þyrí, hafa verið síðast á bifreiðinni fyrir brunann.  Samdægurs fær lögreglan upplýsingar frá trygg­ingafélagi bifreiðarinnar þar sem fram komu upplýsingar um eftirstöðvar skulda­bréfs sem hvíldi sem veð á bifreiðinni.  Sigríður Þyrí er síðan boðuð til yfirheyrslu hjá lögreglu þriðudaginn 28. maí sama ár og segist hún í fyrstu hafa ekið bifreiðinni og skilið hana eftir við Eldshöfða eftir að bilunar hafði orðið vart og hún drepið á sér.  Eftir vettvangsgöngu snýr hún hins vegar við blaðinu og skýrir svo frá að þeir bræður hafi fengið hana til þess að skýra rangt frá að þessu leyti.  Í framhaldi af þessu var stefnandi handtekinn og heldur stefnandi því fram annars vegar að ekkert tilefni hafi verið til handtökunnar og hins vegar að hún hafi ekki verið nauðsynleg. 

Samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 7. gr. laga nr. 84/1996, er lögreglu rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur er á að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist hans og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spilli sönn­un­ar­gögnum.  Samkvæmt framansögðu geta lögreglumenn því handtekið menn án dóms­úr­skurðar að fullnægðum áðurgreindum skilyrðum.  Eins og hér stóð á hafði stefnandi orðið ber að ósannsögli um það hver hefði síðast verið á bifreiðinni áður en kviknaði í henni, en rannsóknargögn bentu til að kveikt hefði verið í henni.  Var því fram kominn rök­studdur grunur um að stefnandi hefði átt þarna hlut að máli og þannig gerst sekur um refsiverðan verknað sem sætt gæti ákæru.  Var lögreglu því rétt og skylt að hand­taka stefnanda eins og í pottinn var búið.  Þá gaf framburður stefnanda lögreglu tilefni til að yfirheyra eiganda bifreiðarinnar og aðra sem borið gætu um málsatvik og í því skyni var nauðsynlegt að koma í veg fyrir að stefnandi næði að spilla sönn­un­ar­gögnum, t. d. með samskiptum við hugsanlega sakborninga eða undanskoti sönn­un­ar­gagna.  Verður því talið að full nauðsyn hafi borið til handtöku stefnanda og verður máls­ástæðum hans á þessum grunni því hafnað.

Stefnandi byggir kröfur sínar einnig á því að frelsissvipting hans hafi staðið lengur en efni stóðu til.  Fram er komið í málinu að stefnandi var handtekinn kl. 17:07 þriðju­daginn 28. maí 2002, færður fyrir dómara vegna kröfu um gæsluvarðhald kl. 18:20 daginn eftir og látinn laus kl. 19:22 sama dag eftir að gæsluvarðhaldskröfu hafði verið hafnað.  Á þessum tíma þurfti lögregla að yfirheyra þá bræður og Sigríði Þyrí um atvik málsins, afla upplýsinga um ferðir lögreglubifreiða á svæðinu þar sem bifreiðin var skilin eftir, taka skýrslu af vinnufélaga Jóhann Birgis sem bar um tiltekin grun­samleg ummæli hans og yfirheyra Björn Loftsson sem grunaður var um að hafa síðastur manna ekið bifreiðinni.  Verður ekki annað séð en lögreglan hafi unnið að rann­sókn málsins með skilvirkum hætti og eins og mál þetta var vaxið verður ekki talið að óhæfilegur dráttur hafi orðið á því að færa stefnanda fyrir dómara.  Samkvæmt fram­ansögðu verður því ekki talið að stefnandi hafi verið í haldi lengur en nauðsyn bar til og hann sjálfur gaf tilefni til með framburði sínum.  Verður þessari málsástæðu stefnanda því einnig hafnað.

Samkvæmt framansögðu verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður, en allur kostnaður stefnanda af málinu greiðist úr ríkissjóði samkvæmt gjafsóknarleyfi hans, þar með talin þóknun lögmanns hans, Guðjóns Ólafs Jónssonar, hdl., sem telst hæfilega ákveðin 150.000 krónur án virðisaukaskatts.  Samkvæmt yfirliti lögmannsins nam útlagður kostnaður 3.500 krónum.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Jóns Gústafs Magnús­sonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður, en allur kostnaður stefnanda af málinu greiðist úr ríkis­sjóði samkvæmt gjafsóknarleyfi hans, þar með talin þóknun lögmanns hans, Guðjóns Ólafs Jónssonar, hdl., 150.000 krónur án virðisaukaskatts.