Hæstiréttur íslands
Mál nr. 9/2018
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. apríl 2018, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 21. mars 2018, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá Landsrétti. Kæruheimild er í 2. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili „óskar eftir að málið fái efnislega meðferð fyrir Landsrétti eða Hæstarétti.“
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Landsréttar 21. mars 2018.
Landsréttardómararnir Kristbjörg Stephensen, Sigurður Tómas Magnússon og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson kveða upp úrskurð í máli þessu.
Málsmeðferð og dómkröfur aðila
1 Varnaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 27. febrúar 2018, sem barst réttinum næsta dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. febrúar 2018 í máli nr. Z-10/2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að úthlutun uppboðsandvirðis vegna fasteignarinnar að Álfkonuhvarfi 59 í Kópavogi, fastanúmer [...], yrði breytt þannig að tryggingabréf á 4. veðrétti yrði dæmt ógilt og þinglýsing þess um leið ógilt. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.
2 Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og framangreind krafa hans tekin til greina. „Þá komi sá hlutur úthlutunar sýslumanns til“ sóknaraðila.
3 Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Landsrétti.
Niðurstaða Landsréttar
4 Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar á dómþingi 1. febrúar 2018 var sótt þing af hálfu beggja málsaðila. Í þingbók kemur fram að gætt hafi verið leiðbeiningarskyldu gagnvart sóknaraðila sem er ólöglærður.
5 Í 1. mgr. 79. gr. laga um nauðungarsölu er að finna ákvæði um málskot til Landsréttar. Í 3. mgr. 79. gr. er tekið fram að um kærufresti, kæruna sjálfa og meðferð hennar í héraði og fyrir Landsrétti og Hæstarétti gildi sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli. Í 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála segir meðal annars að vilji maður kæra dómsathöfn skuli hann afhenda héraðsdómara skriflega kæru áður en tvær vikur eru liðnar frá uppkvaðningu úrskurðar ef hann eða umboðsmaður hans var þá staddur á dómþingi.
6 Kæra sóknaraðila barst héraðsdómi 27. febrúar 2018, en eftir framangreindu hefði hún að réttu lagi þurft að berast eigi síðar en 15. þess mánaðar. Þar sem kærufrestur var þannig liðinn þegar kæran barst héraðsdómi verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá Landsrétti.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá Landsrétti.