Hæstiréttur íslands

Mál nr. 190/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Helgi Jóhannesson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Fallist var á kröfu L um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómi og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. mars 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 6. apríl 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa sín verði tekin til greina.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Sóknaraðili hefur til rannsóknar alvarlega hnífstunguárás sem átti sér stað aðfaranótt 6. mars 2016. Atlagan er talin varða við 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara er vísað til 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Getur brotið varðað allt að 16 ára fangelsi eða ævilöngu. Samkvæmt gögnum málsins var brotaþoli með stungusár neðarlega á baki sem olli rispu á lunga og fór djúpt inn í lifrina. Var brotaþoli í lífshættu þegar hann kom á slysadeild, þar sem hann gekkst undir bráðaaðgerð og er honum enn haldið sofandi. Varnaraðili hefur viðurkennt að hafa stungið brotaþola, en neitar að hafa haft ásetning til að valda honum fjörtjóni.

Varnaraðili er samkvæmt framansögðu undir sterkum grun um tilraun til manndráps eða sérstaklega hættulega líkamsárás. Samkvæmt því og með tilliti til almannahagsmuna er fallist á það með sóknaraðila að brotið sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að varnaraðili gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar. Er skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 því fullnægt fyrir því að varnaraðila verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi svo sem í dómsorði greinir.  

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 6. apríl 2016 klukkan 16.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2016.

Í greinargerð kemur fram að aðfaranótt sunnudagsins 6. mars sl. hafi borist tilkynning til lögreglu um meðvitundarlausan aðila sem hafi blætt mikið úr, líklega eftir hnífsstungu. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi hún séð aðila liggja í blóði sínu í anddyri [...] í Reykjavík og hafi þar verið tvær manneskjur að hlúa að honum. Hafi maðurinn, A, verið orðinn verulega fölur, meðvitundarlaus en hann hafi andað. Þá hafi sést við skoðun að hann var með stungusár aftan á baki fyrir neðan hægra herðablað.

Vitnin B og C sem hafi verið á vettvangi hafi greint frá því að þau hafi orðið vör við tvo menn, kærða og brotaþola, sem ættu í erjum úti á götu framan við [...] en þau hafi þá verið stödd í íbúð á 4. hæð og horft á atvikið út um glugga íbúðarinnar. Vitnin hafi sagst hafa séð brotaþola elta kærða í kringum bifreið utan við húsnæðið og hafi þau heyrt kærða segja að brotaþoli hefði skallað hann. Því næst hafi þeir farið nær byggingunni og horfið úr sjónmáli í stutta stund en er vitnin hafi séð þá aftur hafi þau séð stóran blóðblett aftan á peysu brotaþola. B hafi þá kallað til brotaþola og kærði þá farið á brott. Vitnin hafi síðan farið niður að huga að brotaþola og hafi þau séð djúpan stunguáverka aftan á baki hans. Vitnin kváðust hafa spurt brotaþola að því hver hefði stungið hann og hann hafi sagt að það hafi verið kærði. Skömmu síðar hafi brotaþoli misst meðvitund og hnigið niður.

Vitnið D hafi gefið sig fram við lögreglu en hann hafi kvaðst hafa séð tvo aðila og annar hafi kallað á hinn að hann hafi skallað hann og uppfrá því hafi hafist stympingar þeirra á milli sem hafi ekki varað nema í örstuttan tíma en eftir þær hafi verið eins og kærði hafi stungið einhverju innan í vinstri innanverðan úlpuvasa sinn áður en hann hafi farið.

Kærði hafi verið handtekinn skömmu síðar við [...]. Hafi hann viðurkennt fyrir lögreglu að hann hafi stungið brotaþola í kjölfar slagsmála þeirra á milli. Hafi mátt sjá að kærði hafi verið bólgin á vinstra kinnbeini. Hafi hann verið með skefti af hníf á sér en hnífsblaðið hafi vantað. Kærði hafi vísað á hnífsblað sem hafi fundist við [...]. Hnífsblaðið sé um 2 sm á breidd og 15 sm á lengd.

Samkvæmt læknisvottorði málsins sé áverki brotaþola bein stunga um neðra flyðruholið sem hafi náð að rispa lungað og farið djúpt inn í lifrina. Sé áverkinn talinn lífshættulegur. Líðan brotaþola nú sé stöðug samkvæmt lækni en hann sé ekki enn kominn til meðvitundar.

Við skoðun á síma kærða sé að finna Facebook skilaboð þar sem sjá megi að E, vinur kærða, sendi honum nokkur skilaboð milli klukkan 02:23 og 02:28 aðfaranótt 6. mars sl. og spyrji hvort hann þurfi að hafa áhyggjur af kærða eftir að kærði hafi hringt í hann og spurt hann út í hnúajárn sem hann hafi ætlað að nota til að drepa brotaþola. Tekin hafi verið skýrsla af vitninu E vegna þessara skilaboða og hafi vitnið sagt að kærði hafi hringt í hann um miðnætti þann 6. mars sl. og beðið vitnið að lána sér hnúajárn og sagt að hann ætlaði að drepa brotaþola. Fyrr um kvöldið sagðist vitnið hafa verið með kærða og brotaþola heima hjá kærða og þá hafi verið gott á milli þeirra.

Kærði viðurkenni að hafa ráðist að brotaþola með hníf. Hafi hann sagt að þeir brotaþoli hafi verið staddir heima hjá kærða að kvöldi 5. mars sl. ásamt fleira fólki. Brotaþoli hafi tekið mynd af rassi kærustu kærða og kvaðst kærði hafa reiðst vegna þess. Eftir að kærði og brotaþoli hafi verið orðnir tveir einir í íbúðinni, um miðnætti, hafi þeir rifist vegna þessa en síðan hafi brotaþoli farið út. Skömmu síðar hafi brotaþoli komið aftur og sótt eitthvað sem kærði vissi ekki hvað hafi verið og aftur yfirgefið íbúðina. Kærði kvaðst síðan hafa farið út á bílastæðið fyrir framan íbúð sína. Hann hafi óttast að brotaþoli myndi bíða þar eftir honum og því hafi hann tekið með sér eldhúshníf sem hann hafi sett í vasann á úlpunni sinni. Er hann hafi verið fyrir utan hafi brotaþoli komið aftur til hans og beðið hann um að hleypa sér aftur inn til kærða svo brotaþoli gæti náð í rafsígarettur þangað sem hann hefði gleymt. Kærði hafi ekki viljað það og þeir hafi tekist á í framhaldi af því og hafi brotaþoli m.a slegið og skallað kærða. Kærði hafi síðan í átökum tekið hnífinn og stungið brotaþola í bakið. Eftir það hafi átökin haldið eitthvað áfram en síðan hafi stúlka sem hafi verið stödd á svölum skammt frá kallað til brotaþola og kærði þá farið í burtu.

Vitni sem hafi verið heima hjá kærða að kvöldi 5. mars sl. segi að allt hafi verið í góðu milli kærða og brotaþola umrætt kvöld. Vitnið F hafi sagt að þegar hann og kærasta hans hafi farið frá heimili kærða um miðnætti hafi kærði og brotaþoli verið þar einir eftir og hafi verið eitthvað að kýta en ekki litið út fyrir að eitthvað alvarlegt væri að á milli þeirra.

Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá sunnudeginum 6. mars sl.

Kærði liggi nú undir sterkum grun um að hafa ráðist á brotaþola og stungið hann í bakið með þeim afleiðingum að stungan hafi farið djúpt í lifrina og rispað lungað. Brotaþoli hafi hlotið lífshættulega áverka og sé enn haldið sofandi. Sé ljóst að beiting vopnsins og staðsetning áverkans sé lífshættuleg og hafi kærða mátt vera ljóst að háttsemi hans gæti hæglega dregið brotaþola til dauða. Þá beri gögn málsins með sér að kærði hafi haft ásetning til að drepa brotaþola og vísast þar til skilaboða sem hafi verið í síma brotaþola og framburðar vitnisins E um að kærði hafi fyrir árásina beðið E um að lána sér hnúajárn til að drepa brotaþola. Þá segi kærði sjálfur að hann hafi tekið hnífinn með sér út úr íbúðinni til að nota ef honum og brotaþola myndi lenda saman. Af öllu framangreindu sé ljóst að kærði sé hættulegur umhverfi sínu og sé það mat lögreglu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Sakarefni málsins sé talið varða við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

 

Niðurstaða

Með vísan til þess sem fram hefur komið fyrir dómi er á það fallist að rökstuddur grunur sé um að kærði hafi framið brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærði mótmælir því eindregið að hafa haft ásetning til að valda brotaþola slíkum áverka að heimfærsla lögreglu til 211. gr., sbr. 20. gr. sömu laga, geti átt við um verknaðinn. Kærði hefur lýst iðrun fyrir dóminum og því hvernig atvik horfðu við honum. Hann hefur lýst þeim aðstæðum sínum að hann er að ljúka háskólanámi og hefur tilteknar skyldur sem [...]. Hann hefur aldrei hlotið refsingu og er með hreina sakaskrá samkvæmt upplýsingum lögreglu. Það brot sem kærði er undir sterkum grun um að hafa framið varðar meira en 10 ára fangelsi. Fyrir liggur að brotaþoli hlaut alvarlegan áverka af hnífsstungu og liggur hann nú á gjörgæslu. Er líðan hans stöðug en hann er ekki kominn til meðvitundar og er haldið sofandi. Kærði hefur frá upphafi sýnt lögreglu samvinnu við rannsókn málsins sem er lokið að öðru leyti en því að skýrslutaka af brotaþola bíður þess að hann vakni, en samkvæmt upplýsingum sækjanda stendur til að vekja hann eftir um það bil eina viku.

                Sækjandi heldur því fram að brot kærða sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, en telur ekki þörf á að hann sæti gæsluvarðhaldi lengur vegna rannsóknarhagsmuna. Til þess að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt nægir ekki það eitt að fyrir liggi að kærði hafi gerst sekur um brot sem varðað getur meira en 10 ára fangelsi, heldur þarf það skilyrði jafnframt að vera fyrir hendi að nauðsyn beri til að beita gæsluvarðhaldi vegna almannhagsmuna. Í því felst að líkur þurfa að standa til þess eða skýrar vísbendingar vera um að kærði sé hættulegur öðrum og ógn við samfélagið. Þykir ekki sýnt fram á að svo sé og verður því kröfu sóknaraðila um að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi hafnað.

 Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð: 

Hafnað er kröfu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að X, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 6. apríl 2016 kl. 16.00.