Hæstiréttur íslands

Mál nr. 406/2010


Lykilorð

  • Sameign
  • Byggingarleyfi
  • Sveitarfélög
  • Stjórnsýsla
  • Brottflutningur mannvirkis
  • Dagsektir
  • Samaðild
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarkröfu hafnað


Fimmtudaginn 24. mars 2011.

Nr. 406/2010.

Magnús Tómasson

(Karl Axelsson hrl.)

(Arnar Þór Stefánsson hdl.)

gegn

Einari Oddssyni

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

(Sveinn Jónatansson hdl.)

Borgarbyggð

dánarbúi Brynhildar Pálsdóttur

Frumrás ehf.

Ásmundi Ásmundssyni og

Oddnýju Þorsteinsdóttur

og

Einar Oddsson

gegn

Magnúsi Tómassyni

Sameign. Byggingarleyfi. Sveitarfélög. Stjórnsýsla. Brottflutningur mannvirkis. Dagsektir. Samaðild. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarkröfu hafnað.

M höfðaði mál gegn E, B, dánarbúi BP, F ehf, Á og O og krafðist aðallega þess að E yrði gert að fjarlægja sumarhús sem hann hafði reist á sameiginlegu landi A að viðlögðum dagsektum og að öðrum stefndu yrði gert að þola dóm um þá kröfu. Með vísan til forsendna héraðsdóms var talið að A væri jörð í óskiptri sameign M, Á, O, F ehf.  og dánarbús BP. Árið 2003 hafði E tekið á leigu landspildu úr jörðinni með samningi við tvo af eigendum jarðarinnar. Þar sem þeir voru ekki bærir til þess að leigja E spilduna upp á sitt einsdæmi var talið að E hefði skort lögmæta heimild yfir henni þegar B gaf út byggingarleyfi fyrir hinu umdeilda sumarhúsi. Fyrir lá að deiliskipulag hafði ekki verið gert fyrir land A og hafði hvorki verið fullnægt skilyrðum 3. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, né ákvæðis 3 til bráðabirgða við þau til að bygging sumarhúss E væri heimil við þær aðstæður. Skorti E því bæði eignarráð yfir landspildunni og lögmætt byggingarleyfi fyrir sumarhúsi sínu. Var hafið yfir vafa að E hefði verið kunnugt um báða þessa annmarka og vitað af andstöðu M við að hann reisti sumarbústað á spildunni. Ekki var fallist á með E að vegna 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hefðu sameigendur M að jörðinni A þurft að standa allir að málinu til sóknar. Eftir að héraðsdómur gekk í málinu luku matsmenn skiptum á landi A en fyrir lá að M hafði krafist yfirmats vegna landskiptanna. Ekki talið að M skorti lögvarða hagsmuni af málarekstrinum þótt spildan undir sumarhúsi E væri samkvæmt landskiptunum ekki innan lands M enda ætti hann hagsmuna að gæta vegna meginreglna eignarréttar og ákvæða þágildandi skipulags- og byggingarlaga um grenndarrétt. Einnig var talið óhjákvæmilegt að E bæri áhættuna af því að verðmæti, sem mynduðust með framkvæmdum hans, gætu farið forgörðum. Var krafa M um að E yrði gert að fjarlægja sumarbústað sinn af landspildunni því tekin til greina. Ekki hefðu verið fyrir hendi réttmætar heimildir til að reisa sumarhúsið og skipti í því tilliti engu hver væri nú orðinn eigandi landsins.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. júní 2010. Hann krefst þess aðallega að gagnáfrýjanda verði gert að fjarlægja sumarbústað, sem hann reisti á sameiginlegu landi Akra á grundvelli byggingarleyfis stefnda Borgarbyggðar 27. júní 2003, og afmá jafnframt allt jarðrask vegna þessa innan fimmtán daga frá dómsuppsögu að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 200.000 krónur, sem renni til aðaláfrýjanda. Þá krefst hann þess að öðrum stefndu verði gert að þola dóm um framangreindar kröfur. Til vara krefst aðaláfrýjandi þess að héraðsdómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi gagnáfrýjanda og annarra stefndu en Oddnýjar Þorsteinsdóttur.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 31. ágúst 2010 ásamt úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 23. nóvember 2009, þar sem hafnað var kröfu hans um að málinu yrði vísað frá dómi. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum aðaláfrýjanda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi aðaláfrýjanda.

Stefndi Borgarbyggð hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Stefndu dánarbú Brynhildar Pálsdóttur og Frumrás ehf. krefjast málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefnda Oddný Þorsteinsdóttir gerir engar kröfur fyrir Hæstarétti.

Stefndi Ásmundur Ásmundsson krefst staðfestingar héraðsdóms um kröfur aðaláfrýjanda, svo og að kröfur gagnáfrýjanda verði að öðru leyti teknar til greina. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi aðaláfrýjanda.

Eins og skilmerkilega er rakið í hinum áfrýjaða dómi varðar mál þetta ágreining um sumarhús, sem gagnáfrýjandi reisti á árinu 2003 á 5.000 m2 landspildu úr jörðinni Ökrum í Borgarbyggð, sem hann hafði tekið á leigu 31. ágúst 2002 með samningi við Ingibjörgu Jóhannsdóttur og Brynhildi Pálsdóttur. Þær voru á þeim tíma eigendur að Ökrum I og hefur stefndi Frumrás ehf. síðan orðið eigandi að hlut Ingibjargar, stefndu Ásmundur og Oddný eru eigendur að Ökrum II, en aðaláfrýjandi eigandi Akra III. Svo sem fram kemur í héraðsdómi gerðu þáverandi eigendur Akra I og Akra II samning 26. júní 1955 um „skifti jarðarinnar, á túni og ræktarlandi“ með nánar tilgreindum hætti. Með vísan til forsendna dómsins verður að leggja til grundvallar að sá samningur fái engu breytt um að land Akra sé í heild í óskiptri sameign aðaláfrýjanda og stefndu Ásmundar, Oddnýjar, Frumrásar ehf. og dánarbús Brynhildar Pálsdóttur, þótt eignarhlutar þeirra í sameigninni hafi nánar verið auðkenndir með heitunum Akrar I, Akrar II og Akrar III. Þegar af þessum ástæðum voru fyrrnefndir viðsemjendur gagnáfrýjanda ekki bærir um að standa upp á sitt eindæmi að leigu landspildunnar, sem málið varðar, hvorki samkvæmt almennum reglum um óskipta sameign né 4. mgr. 43. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Vegna þessa skorti gagnáfrýjanda lögmæta heimild yfir landspildunni þegar stefndi Borgarbyggð gaf út til hans byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á henni 26. júní 2003. Fyrir liggur í málinu að deiliskipulag hafði ekki verið gert fyrir land Akra og var hvorki fullnægt skilyrðum 3. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. fyrrnefndra laga, né ákvæðis 3 til bráðabirgða við þau til að heimila byggingu sumarhúss gagnáfrýjanda án þess að deiliskipulag lægi fyrir, sbr. 2. mgr. 43. gr. laganna. Samkvæmt þessu skorti gagnáfrýjanda bæði eignarráð yfir landspildunni og lögmætt byggingarleyfi fyrir sumarhúsi sínu. Eins og málið liggur fyrir er hafið yfir vafa að gagnáfrýjanda hafi frá öndverðu mátt vera kunnugt um báða þessa annmarka og vitað að auki af eindreginni andstöðu aðaláfrýjanda við að hann reisti sumarhús á spildunni.

Eftir að héraðsdómur gekk í málinu luku matsmenn 22. nóvember 2010 skiptum á landi Akra. Samkvæmt landskiptagerðinni er spildan, sem gagnáfrýjandi hafði tekið á leigu samkvæmt áðursögðu, nú innan lands Akra II, sem er í óskiptri sameign stefndu Ásmundar og Oddnýjar. Fyrir liggur að aðaláfrýjandi hefur með bréfi 26. febrúar 2011 krafist yfirmats vegna þessara landskipta. Þótt spildan undir sumarhús gagnáfrýjanda sé samkvæmt landskiptunum, sem nú liggja fyrir, ekki innan lands aðaláfrýjanda sem eiganda Akra III fær það engu breytt um að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þessa máls bæði vegna meginreglna eignarréttar og ákvæða þágildandi skipulags- og byggingarlaga um grenndarrétt. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða úrskurðar frá 23. nóvember 2009 verður hafnað kröfu gagnáfrýjanda um að málinu verði vísað héraðsdómi.

Svo sem að framan greinir verður við úrlausn málsins að leggja til grundvallar að gagnáfrýjandi hafi engra lögmætra heimilda notið til að reisa sumarhús á landspildunni, sem hann tók á leigu 31. ágúst 2002, og að hann hafi ekki verið í góðri trú í þeim efnum. Af þeim sökum er óhjákvæmilegt að hann beri áhættu af því að verðmæti, sem mynduðust með framkvæmdum hans, geti farið forgörðum. Að öllu þessu virtu eru ekki efni til annars en að taka til greina kröfu aðaláfrýjanda um að gagnáfrýjanda verði gert að fjarlægja sumarhús sitt af landspildunni, sem málið varðar, og afmá þar jarðrask. Hjá þessu getur gagnáfrýjandi ekki komist með því einu að nú liggi fyrir landskiptagerð vegna jarðarinnar Akra, enda voru ekki fyrir hendi réttmætar heimildar til að reisa sumarhúsið og skiptir í því tilliti engu hver nú sé orðinn eigandi landsins. Rétt er að gagnáfrýjandi njóti frests í þrjá mánuði frá uppsögu þessa dóms til að verða við skyldu sinni, en frá þeim tíma falli til dagsektir að fjárhæð 25.000 krónur, sem renni til aðaláfrýjanda, sbr. 5. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Gagnáfrýjanda verður gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir, en engin efni eru til að verða við kröfum stefndu Ásmundar, dánarbús Brynhildar Pálsdóttur og Frumrásar ehf. um málskostnað hér fyrir dómi.

Dómsorð:

Gagnáfrýjanda, Einari Oddsyni, er skylt að nema brott sumarhús á 5.000 m2 spildu úr landi Akra í Borgarbyggð og afmá þar jarðrask innan þriggja mánaða frá uppsögu þessa dóms, en gjaldi ella dagsektir að fjárhæð 25.000 krónur til aðaláfrýjanda, Magnúsar Tómassonar.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, en að öðru leyti fellur málskostnaður niður.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 20. maí 2010.

Mál þetta var höfðað 19., 20. og 22. maí 2009 og dómtekið 6. maí 2010. Stefnandi er Magnús Tómasson, Ökrum III í Borgarbyggð. Stefndu eru Ásmundur Ásmundsson, Ökrum II í Borgarbyggð, sveitarfélagið Borgarbyggð, Borgarbraut 14 í Borgarnesi, db. Brynhildar Pálsdóttur, sem síðast var til heimilis að Fáfnisnesi 8 í Reykjavík, Einar Oddsson, Hallakri 2a í Garðabæ, Frumrás ehf., Skálaheiði 1 í Kópavogi, og Oddný Þorsteinsdóttir, Glaðheimum 4 í Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda Einari verði gert að fjarlægja sumarbústað sem hann reisti á óskiptu landi jarðarinnar Akra í Borgarbyggð á grundvelli byggingarleyfis sem stefnda Borgarbyggð gaf út 27. júní 2003 og afmá jafnframt jarðrask vegna þessa innan 15 daga frá uppkvaðningu dómsins að viðlögðum 200.000 króna dagsektum, sem renni til stefnanda. Þá er þess krafist að öðrum stefndu verði gert að þola dóm um framangreindar kröfur. Til vara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að útgáfa byggingarleyfisins af hálfu stefndu Borgarbyggðar hafi verið ólögmæt. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu að frátalinni stefndu Oddnýju.

Stefndu Ásmundur og Einar krefjast sýknu af kröfum stefnanda. Verði krafa stefnanda um dagsektir tekin til greina er þess krafist að sú krafa verði lækkuð. Í báðum tilvikum gera stefndu kröfu um málskostnað.

Stefnda Borgarbyggð krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða málskostnað.

Stefndu db. Brynhildar Pálsdóttur og Frumrás ehf. gera aðeins þá kröfu að þeim verði ekki gert að greiða málskostnað.

Stefnda Oddný gerir engar kröfur í málinu.

I.

Til skýringar á því sakarefni sem hér er til úrlausnar verður að gera nokkra grein fyrir eignarhaldi á jörðinni Ökrum á Mýrum í Borgarbyggð, en um er að ræða fornt höfuðból og landnámsjörð. Á Ökrum var lengi tvíbýli og var þá rætt um Suðurbæ eða Akra I og Vesturbæ eða Akra II. Á sjötta áratug liðinnar aldar var nýbýlið Akrar III eða Norðurbær stofnað út úr Ökrum I. Fyrr á tímum voru margar hjáleigur frá Ökrum en þeirra á meðal voru Ísleifsstaðir.

Hinn 9. maí 1948 fékk stefndi Ásmundur gjafaafsal fyrir helmingi jarðarinnar, nánar tiltekið Ökrum II. Stefndi Ásmundur ráðstafaði síðan helmingi af eignarhluta sínum eða fjórðungi jarðarinnar til stefndu Oddnýjar með gjafaafsali 4. janúar 2001.

Hinn helmingur jarðarinnar eða Akrar I með Ísleifsstöðum komst í eigu bræðranna Guðmundar, Þorkels og Þórðar Benediktssona með afsali 15. apríl 1933. Hinn 15. júlí 1954 ráðstafaði Þorkell sínum hluta jarðarinnar til bróðursonar síns Ólafs Þórðarsonar og reisti hann nýbýlið Akra III á jörðinni. Ólafur fékk síðan afsal 23. maí 1971 fyrir eignarhluta föður síns í Ökrum I og lagðist sá hluti jarðarinnar einnig til Akra III. Stefnandi fékk síðan afsal fyrir Ökrum III frá Ólafi 15. ágúst 1989.

Við skipti á dánarbúi Guðmundar Benediktssonar kom eignarhluti hans í Ökrum I í hlut systranna Ingigerðar og Jónu Benediktsdætra. Jóna seldi síðan Ólafi Þórðarsyni hlut sinn í jörðinni með afsali 1. júní 1984. Hinn 27. mars 2000 gerðu Ólafur og eiginkona hans, Ingibjörg Jóhannsdóttir, kaupmála, en samkvæmt honum varð umræddur hlutur Ólafs í jörðinni séreign Ingibjargar. Fyrir þessum eignarhluta fékk síðan stefndi Frumrás ehf. afsal 2. maí 2007.

Hinn 10. nóvember 1979 andaðist Ingigerður Benediktsdóttir, sem fengið hafði helming Akra I í arf eftir Guðmund Benediktsson. Við skipti á dánarbúinu fékk Benedikt Geirsson eignarhlutann í arf og var skiptayfirlýsingu þess efnis þinglýst á jörðina 5. desember 1979. Benedikt andaðist 24. júlí 1998 og fékk eftirlifandi eiginkona hans, Brynhildur Pétursdóttir, leyfi til setu í óskiptu búi eftir mann sinn 9. október sama ár. Mál þetta var höfðað á hendur Brynhildi en hún andaðist 8. apríl 2010 og hefur dánarbú hennar tekið við aðild að málinu, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, og 2. mgr. 23. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

II.

Hinn 26. júní 1955 undirrituðu Guðmundur Benediktsson, Þórður Benediktsson og stefndi Ásmundur svohljóðandi yfirlýsingu, sem móttekin var til þinglýsingar 7. júlí sama ár:

„Við undirritaðir bændur á jörðinni Akrar I höfum orðið ásáttir um skifti jarðarinnar, á túni og ræktarlandi þannig, að Guðmundur fái tún það, er tilheyrði Ísleifsstöðum, Ólafur og Þórður skifti heimatúninu að jöfnu, eftir því sem hér segir: Ólafur hefir tún, sem liggur framan svonefndan Kastala og sjófit heim að bænum. Þórður það sem liggur heiman Kastala og vestur að tröð. Ræktarland fær nýbýli Ólafs Þórðarsonar úrskift á Akrasandi 5 hektarar að stærð. Engar engjar fylgja jörðinni, sem máli skifta. Beitiland verður óskift áfram, ræktarland nýbýlisins er skift úr óskiftu ræktarlandi jarðanna Akrar I og Akrar II, og skrifar Ásmundur Ásmundsson, bóndi Ökrum II undir við skifti á ræktarlandi jarðanna.“

Svo sem áður er rakið leiddu Ingibjörg Jóhannsdóttir og Brynhildur Pálsdóttir eignarheimild sína að Ökrum I frá Guðmundi Benediktssyni, en hann hafði eignast hálfa jörðina ásamt bræðum sínum Þorkeli og Þórði með afsali 15. apríl 1933.

Hinn 31. ágúst 2002 gerðu Ingibjörg og Brynhildur, þáverandi eigendur Akra I, lóðarleigusamning til 35 ára við stefnda Einar um 5.000 fermetra spildu úr Ísleifsstaðatúni, en það land átti að koma í hlut Guðmundar samkvæmt fyrrgreindri yfirlýsingu 26. júní 1955. Á grundvelli lóðarleigusamningsins gaf byggingafulltrúi Borgarbyggðar út stofnskjal 21. mars 2003 og var því ásamt lóðarleigusamningnum þinglýst 2. maí 2003.

Stefndi Einar sótti um leyfi til að reisa sumarhús á lóðinni og var fallist á þá umsókn á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar 24. júní 2003. Sú afgreiðsla var síðan staðfest í bæjarráði Borgarbyggðar 26. sama mánaðar. Í kjölfarið var gefið út byggingarleyfi til stefnda Einars 27. júní 2003 og hófst hann handa við að reisa húsið þá um sumarið. Þeim framkvæmdum var mótmælt með skeyti 31. júlí sama ár og svaraði lögmaður stefnda því erindi með skeyti 6. ágúst það ár þar sem andmælunum var vísað á bug.

Stefnandi óskaði eftir því með bréfi 30. september 2003 að bæjarráð Borgarbyggðar endurskoðaði þá ákvörðun að heimila stefnda Einari að reisa sumarhúsið á lóðinni. Þessu til stuðnings var bent á að stefnandi hefði ekki samþykkt að leigja lóð úr óskiptu landi jarðarinnar, auk þess sem deiliskipulag hefði ekki verið gert fyrir svæðið. Þessu erindi var synjað með bréfi lögmanns Borgarbyggðar 27. október sama ár, en fyrir því voru færð þau rök að lóðarleigusamningi hefði verið þinglýst athugasemdarlaust. Einnig var vísað til þess að lóðin hefði verið úr því landi sem ráðstafað var til Guðmundar Benediktssonar með yfirlýsingunni frá 26. júní 1955. Með bréfi 25. febrúar 2004 kærði stefnandi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála samþykkt sveitarfélagsins um að heimila stefnda Einari byggingu sumarhúss á lóðinni. Með úrskurði 31. mars 2004 vísaði nefndin málinu frá þar sem kærufrestur var liðinn.

Hinn 3. maí 2004 tók þinglýsingarstjóri þá ákvörðun á grundvelli 27. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978, að afmá úr þinglýsingabók lóðarleigusamninginn um spilduna frá 31. ágúst 2002 og stofnskjalið frá 21. mars 2003. Þeirri ákvörðun skaut stefndi Einar til dómsins sem hafnaði með úrskurði 22. desember 2004 að fella ákvörðun sýslumanns úr gildi. Með dómi Hæstaréttar 3. febrúar 2005 í máli nr. 22/2005 var úrskurður héraðsdóms staðfestur.

Stefnandi krafðist þess með aðfararbeiðni, sem barst dóminum 21. september 2005, að sumarhús stefnda Einars yrði með beinni aðfarargerð fjarlægt af landi jarðarinnar. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði dómsins 12. desember 2005 og var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar 11. janúar 2006 í máli nr. 546/2005.

Stefnandi hefur ítrekað krafist þess að stefnandi Borgarbyggð afturkallaði byggingarleyfið frá 27. júní 2003 til stefnda Einars, síðast með bréfi 25. janúar 2008. Þeirri kröfu var hafnað með bréfi lögmanns Borgarbyggðar 21. febrúar sama ár. Með bréfi 25. mars það ár var Borgarbyggð gefinn kostur á að endurskoða þá ákvörðun áður en mál yrði höfðað. Því erindi var ekki svarað.

III.

Stefnandi reisir aðalkröfu sína um brottnám mannvirkis á því að ekki hafi legið fyrir samþykki allra eigenda jarðarinnar fyrir byggingu sumarhússins. Jafnframt hafi ekki legið fyrir samþykki allra eigenda til að spildu yrði ráðstafað úr óskiptu landi jarðarinnar til stefnda Einars. Vísar stefnandi til þess að samþykki allra eigenda sé ófrávíkjanlegt skilyrði bæði til ráðstöfunar landsins og útgáfu byggingarleyfis, sbr. 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, og 19. gr. landskiptalaga, nr. 46/1941. Hér bendir stefnandi einnig á meginreglur eignarréttar um sérstaka sameign, en af þeim leiði að samþykki allra eigenda hefði þurft fyrir meiriháttar ráðstöfun af þessu tagi.

Stefnandi heldur því fram að sú stjórnvaldsákvörðun stefnda Borgarbyggðar að veita stefnda Einari byggingarleyfið hafi verið ólögmæt, enda fari hún í bága við eignarrétt stefnanda. Að efni til hafi því verið alvarlegir annmarkar á ákvörðuninni.

Stefnandi telur jafnframt að ákvörðun stefnda Borgarbyggðar sé ógild vegna formlegra annmarka. Í þeim efnum bendir stefnandi á að deiliskipulag hafi ekki verið gert fyrir svæðið, en slíkt skipulag verði að gera á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar, sbr. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga. Jafnframt hafi grenndarkynning ekki farið fram, en slík málsmeðferð sé forsenda þess að veitt sé heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Þá hafi heldur ekki verið aflað meðmæla Skipulagsstofnunar fyrir framkvæmdinni, en það sé áskilið samkvæmt 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum þegar ekki liggur fyrir staðfest aðal- eða svæðisskipulag eða samþykkt deiliskipulag.

Stefnandi bendir á að hann hafi frá öndverðu gert öllum sem hlut eiga að máli rækilega grein fyrir því að hann væri mótfallinn því að umræddri spildu yrði ráðstafað til stefnda Einars og að hann reisti á henni sumarhús. Þessi afstaða stefnanda hafi verið virt að vettugi en fram til þessa hafi ævinlega verið aflað samþykkis allra eigenda fyrir ráðstöfunum af þessu tagi, svo sem nánar er rakið í úrskurði héraðsdóms í máli því sem lauk með dómi Hæstaréttar 3. febrúar 2005 í máli nr. 22/2005. Stefnandi tekur fram að hann hafi lagst gegn því að stefnda Einari yrði leigð lóðin undir sumarhúsið af fagurfræðilegum ástæðum og vegna þess að bústaðurinn standi mjög nálægt ströndinni í gönguleið um fjöru jarðarinnar. Stefnandi vísar til þess að stefnda Einari hafi frá upphafi verið kunnugt um afstöðu sína og því geti stefndi ekki borið fyrir sig að hann hafi verið í góðri trú. Einnig hafi honum mátt vera ljóst að vafi lék á lögmæti lóðarleigusamningsins og óvissa um frambúðargildi hans. Þrátt fyrir það hafi stefndi í engu sinnt kröfu um að láta af framkvæmdum og því hafi þær allar verið á hans eigin ábyrgð og áhættu.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur stefnandi að stefnda Einari beri að fjarlægja sumarhúsið og afmá jarðrask. Að öðrum kosti verði freklega gengið gegn stjórnarskrárvörðum réttindum stefnanda. Til stuðnings þessu vísar stefnandi til 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga og almennra réttarvörslusjónarmiða. Telur stefnandi engu breyta í þessu sambandi þótt verðmæti kunni að fara forgörðum, enda hafi stefndi Einar ekki verið í góðri trú og hafið framkvæmdir og haldið þeim áfram þótt honum væri vel kunnugt um andmæli stefnanda. Þá telur stefnandi ekki blasa við að tjón verði þótt stefndi þurfi að koma sumarhúsinu fyrir á annarri lóð.

Verði aðalkrafa stefnanda ekki tekin til greina krefst stefnandi þess til vara að viðurkennt verði að byggingarleyfið frá 27. júní 2003, sem stefnda Borgarbyggð gaf út til stefnda Einars, hafi verið ólögmætt. Sú krafa er reist á öllum þeim málsástæðum sem stefnandi hefur teflt fram til stuðnings aðalkröfu sinni.

IV.

Stefndi Einar reisir sýknukröfu sína á því að allir eigendur jarðarinnar verði í sameiningu að standa að málsókn af þessu tagi. Því sé fyrir hendi aðildarskortur sem leiði til sýknu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 19/1991.

Stefndi heldur því einnig fram að húsið verði ekki fjarlægt meðan byggingarleyfi sé enn í gildi. Því hafi stefnanda borið að fá það leyfi fellt úr gildi áður en hann setti fram kröfu um að sumarhúsið yrði fjarlægt. Jafnframt vísar stefndi til þess að fyrir hendi sé lóðarleigusamningur við stefnda og hafi sá samningur hvorki verið felldur úr gildi né verið rift. Í því sambandi vísar stefndi til þess að landskipti séu hafin eftir reglum landskiptalaga en niðurstaða þeirra geti haft þau áhrif að lóðarleigusamningi við stefnda verði ekki haggað. Af þessum sökum beri í öllu falli að sýkna stefnda að svo stöddu, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála.

Stefndi bendir enn fremur á að lóðarleigusamningi 31. ágúst 2002 hafi verið þinglýst 2. maí 2003 ásamt stofnskjali frá byggingafulltrúa. Þessir gerningar hafi verið reistir á yfirlýsingu um landskipti frá 26. júní 1955, sem einnig hafi verið þinglýst. Á þessum grundvelli hafi stefndi síðan fengið byggingarleyfi 27. júní 2003. Tekur stefndi fram að hann hafi treyst úrlausnum þessara yfirvalda, bæði sýslumanns og byggingafulltrúa, og því hafi hann verið í góðri trú þegar hann hófst handa við að reisa sumarhús á lóðinni. Einnig bendir stefndi á að hann hafi stöðvað framkvæmdir meðan málið var til meðferðar hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Þá fullyrðir stefndi að hann verði fyrir miklu fjárhagstjóni ef aðalkrafa stefnanda um niðurrif verði tekin til greina.

Stefndi mótmælir því að reglur um sérstaka sameign valdi því að krafa um niðurrif verði tekin til greina. Einnig telur stefndi að 19. gr. landskiptalaga, nr. 46/1941, breyti engu um það sakarefni sem hér er til úrlausnar. Þá mótmælir stefndi sem haldlausum mótmælum stefnanda vegna útlits hússins og legu þess nærri strönd og gönguleiðum. Loks telur stefndi að tilvísun til 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, eigi eftir efni sínu ekki við í málinu.

Stefndi andmælir kröfu um dagsektir enda verði slíkri þvingun ekki beitt nema eftir almennum reglum og venjum á sviði skipulagsmála í tilefni af því að fyrirmæli byggingaryfirvalda eru virt að vettugi. Verði hins vegar fallist á kröfu um dagsektir telur stefndi að þær verði ákveðnar mun lægri en stefnandi miðar við í kröfu sinni.

V.

Stefndi Ásmundur tekur undir allar málsástæður og sjónarmið stefnda Einars og hreyfir engum andmælum við framkvæmdir hans á lóðinni. Einnig bendir stefndi á að hann sjálfur hafi hvorki átt aðild að lóðarleigusamningnum frá 31. ágúst 2002 né staðið að framkvæmdum á lóðinni. Því beri að sýkna hann vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

Stefnda Borgarbyggð bendir á að stefndi Einar hafi verið með þinglýstan lóðarleigusamning þegar hann fékk byggingarleyfi 27. júní 2003 til að reisa sumarhús á lóðinni. Þessi afgreiðsla af hálfu sveitarfélagsins hafi því verið eðlileg í alla staði. Stefnda telur að sýkna beri sveitarfélagið vegna aðildarskorts enda snerti það með engu móti hagsmuni þess hvort stefnanda verði gert að fjarlægja húsið af lóðinni. Þá telur stefnda Borgarbyggð að stefnandi hafi sýnt af sér mikið tómlæti við að halda fram rétti sínum, en mál þetta hafi verið höfðað rétt tæpum sex árum eftir að byggingarleyfi var gefið út. Stefnda telur einnig að varakrafa um viðurkenningu á ólögmæti byggingarleyfis snerti heldur ekki hagsmuni sveitarfélagsins, en þar fyrir utan standist sú kröfugerð ekki að lögum og sé ódómtæk.  

Stefndu db. Brynhildar Pálsdóttur og Frumrás ehf. hafa ekki látið málið til sín taka að öðru leyti en því að andmæla málskostnaðarkröfu stefnanda. Stefnda Oddný hefur fyrir sitt leyti tekið undir kröfur stefnanda og stutt málatilbúnað hans.

VI.

Svo sem hér hefur verið rakið eru málsaðilar sameigendur jarðarinnar Akra að frátalinni stefndu Borgarbyggð. Stefnandi hefur höfðað málið í því skyni að fá fjarlægt af jörðinni sumarhús í eigu stefnda Einars, en húsið stefndur á lóðarspildu úr svokölluðu Ísleifsstaðatúni. Þá spildu tók stefndi Einar á leigu með samningi 31. ágúst 2002 við þáverandi eigendur Akra I, þær Brynhildi Pálsdóttur og Ingibjörgu Jóhannsdóttur.

Hinn 26. júní 1955 var gert samkomulag um skipti á túni og ræktarlandi Akra I og tók sú ráðstöfun til þess hluta jarðarinnar áður en nýbýlið Akrar III var stofnað úr Ökrum I. Samkvæmt samkomulaginu kom fyrrgreint Ísleifsstaðatún í hlut Guðmundur Benediktssonar, en Brynhildur og Ingibjörg leiddu rétt sinn frá honum. Á þessum tíma átti Ólafur Þórðarson þriðjung í Ökrum I, en hann skuldbatt sig ekki samkvæmt samkomulaginu með undirritun sinni. Ólafur stofnaði síðan nýbýlið Akra III og leiðir stefnandi rétt sinn frá honum.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið hafði landi því sem ráðstafað var til stefnda Einars með fyrrgreindum lóðarleigusamningi ekki verið skipt endanlega út úr jörðinni. Verður því lagt til grundvallar að um hafi verið að ræða landspildu úr óskiptu landi jarðarinnar. Að þessu gættu hefur stefnandi að réttu lagi vegna samaðildar samkvæmt 18. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, höfðað málið á hendur meðeigendum sínum að jörðinni og stefnda Einari. Skiptir þá engu, svo sem hreyft hefur verið af hálfu stefndu Einars og Ásmundar, þótt stefnandi hafi einn staðið að málinu til sóknar, enda gæti að öðrum kosti hver og einn eigandi komið í veg fyrir að aðrir sameigendur gætu haldið réttindum sínum til laga. Á hinn bóginn bar miðað við dómaframkvæmd enga réttarfarsnauðsyn til að stefndu Borgarbyggð væri stefnt þótt málið lúti að gildi byggingarleyfis.

Fyrir dómi hefur stefndi Einar kannast við að hafa frá öndverðu vitað að stefnandi væri andvígur því að sumarhús yrði reist á spildu úr Ísleifsstaðatúni. Aftur á móti bendir stefndi á að talið hafi verið að samkomulag um landskipti frá 26. júní 1955 hafi verið viðhlítandi heimild í þeim efnum, enda hafi umrætt tún samkvæmt samkomulaginu komið í hlut þess eiganda sem viðsemjendur stefnda leiði rétt sinn frá. Í ljósi þess að ágreiningur reis um hvort samkomulagið frá 26. júní 1955 fæli í sér skipti á landi eða nytjum og að á samkomulaginu var sá annmarki að það var ekki undirritað af öllum þáverandi eigendum jarðarinnar verður ekki talið að stefndi hafi fyllilega verið í góðri trú um heimild sína þegar hann hófst handa við að reisa sumarhús á lóðinni. Á hinn bóginn er til þess að líta að ekki hefur verið vefengt að samkomulagið um skiptin hafi verið lagt til grundvallar milli jarðeigenda um langa hríð. Einnig var á grundvelli samkomulagsins þinglýst lóðarleigusamningnum við stefnda Einar, auk þess sem sveitarfélagið gaf út byggingarleyfi til hans 27. júní 2003. Þá þykir sakarefnið ekki þannig vaxið að ráðið geti úrslitum grandsemi stefnda Einars um að heimild hans kynni að orka tvímælis. 

Svo sem hér hefur verið rakið var lóðin sem stefndi Einar fékk á leigu undir sumarhús úr óskiptu landi jarðarinnar. Því brast þáverandi eigendur Akra I heimild til að ráðstafa upp á sitt eindæmi spildu úr landi jarðarinnar á leigu til stefnda Einars. Af þessu leiðir jafnframt að samþykki meðeigenda skorti fyrir útgáfu byggingarleyfis, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Þá liggur hvorki fyrir að leyfið hafi verið veitt að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna, né að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar, sbr. 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða með lögunum, en slík málsmeðferð er áskilin þegar deiliskipulag hefur ekki verið gert. Þrátt fyrir þessa annmarka á byggingarleyfinu verður ekki hjá því litið að landskipti eru hafin á óskiptu landi Akra eftir reglum landskiptalaga, nr. 46/1941, en niðurstaða þeirra getur haft áhrif á frambúðargildi lóðarleigusamningsins við stefnda Einar. Eftir atvikum verður jafnframt bætt úr öðrum þeim annmörkum sem voru á málsmeðferðinni við útgáfu leyfisins. Þá hefur dómurinn farið á vettvang og við blasir að umtalsvert fjártjón fylgir því að fjarlægja sumarhúsið, en rífa verður húsið að hluta til. Að þessu virtu er óhjákvæmilegt, eins og málið liggur fyrir dóminum, að sýkna stefnda Einar af aðalkröfu stefnanda og aðra stefndu af því að þola dóm í samræmi við þá kröfu.

Samkvæmt framansögðu voru verulegir annmarka á byggingarleyfinu til stefna Einars. Verður stefnandi talinn hafa lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkenningardóm um ólögmæti byggingarleyfisins. Varakrafa stefnanda verður því tekin til greina.

Að öllu virtu þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Einar Oddsson, er sýknaður af kröfu stefnanda, Magnúsar Tómassonar, um að honum beri að fjarlægja sumarbústað af landi jarðarinnar Akra í Borgarbyggð, sem reistur var á grundvelli byggingarleyfis 27. júní 2003, og að afmá jarðrask á lóðinni þar sem húsið stefndur. Jafnframt verða stefndu Ásmundur Ásmundsson, Borgarbyggð, db. Brynhildar Pálsdóttur, Frumrás ehf. og Oddný Þorsteinsdóttir sýknuð af kröfum stefnanda um að þola dóm í samræmi við þá kröfu.

Viðurkennt er að útgáfa byggingarleyfis 27. júní 2003 til stefnda Einars var ólögmæt.

Málskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 23. nóvember 2009

                Mál þetta var höfðað 19., 20. og 22. maí 2009 og tekið til úrskurðar 12. nóvember sama ár. Stefnandi er Magnús Tómasson, Ökrum III í Borgarbyggð. Stefndu eru Ásmundur Ásmundsson, Ökrum II í Borgarbyggð, Borgarbyggð, Borgarbraut 14 í Borgarnesi, Brynhildur Pálsdóttir, Fáfnisnesi 8 í Reykjavík, Einar Oddsson, Hallakri 2a í Garðabæ, Frumás ehf., Skálaheiði 1 í Kópavogi, og Oddný Þorsteinsdóttir, Glaðheimum 4 í Reykjavík.

                Stefnandi hefur höfðað málið aðallega til þess að stefnda Einari verði gert að fjarlægja sumarbústað sem hann reisti á óskiptu landi jarðarinnar Akra í Borgarbyggð á grundvelli byggingarleyfis, sem stefnda Borgarbyggð gaf út 27. júní 2003, og afmá jafnframt jarðrask vegna þessa innan 15 daga frá uppkvaðningu dómsins að viðlögðum 200.000 króna dagsektum, sem renni til stefnanda. Þá er þess krafist að öðrum stefndu verði gert að þola dóm um framangreindar kröfur. Til vara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að útgáfa byggingarleyfisins af hálfu stefndu Borgarbyggðar hafi verið ólögmæt. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.

                Stefndu Ásmundur og Einar krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að stefndu verði sýknaðir af kröfum stefnanda. Verði krafa stefnanda um dagsektir tekin til greina er þess krafist til þrautavara að sú krafa verði lækkuð. Í öllum tilvikum gera stefndu kröfu um málskostnað.

Stefndi Borgarbyggð krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða málskostnað.

Stefndu Brynhildur og Frumás ehf. gera ekki aðrar kröfur en að stefndu verði ekki dæmd til greiðslu málskostnaðar.

Í úrskurðinum er til úrlausnar krafa stefndu Einars og Ásmundar um frávísun málsins. Stefnandi krefst þess að þeirri kröfu verði hrundið og að málskostnaður víði efnisdóms.

I.

                Jörðin Akrar í Borgarbyggð er fornt höfuðból og landnámsjörð. Á Ökrum var lengi tvíbýli og var þá rætt um Suðurbæ eða Arka I og Vesturbæ eða Akra II. Á sjötta áratug liðinnar aldar var síðan myndað nýbýlið Akrar III eða Norðurbær út úr Ökrum I, svo sem nánar verður rakið hér á eftir. Landskipti hafa ekki farið fram á Ökrum og er land Akra I, Akra II og Akra III óskip að öðru leyti en því að ráðstafað hefur verið spildum úr jörðinni.

                Þinglýstir eigendur Akra I eru stefndu Brynhildur og Frumás, en þinglýstir eigendur Akra II eru stefndi Ásmundur og Oddný. Stefnandi er hins vegar þinglýstur eigandi Akra III.

                Tildrög máls þessa eru þau að þáverandi eigendur Akra I, stefnda Brynhildur og Ingibjörg Jóhannsdóttir, gerðu lóðarleigusamning 31. ágúst 2002 við stefnda Einar. Með samningnum var seld á leigu til 35 ára 5.000 fermetra spilda, nánar tiltekið hluti af svokölluðu Ísleifsstaðatúni. Stofnskjal fyrir spildunni var gefið út 23. mars 2003 og var skjölum þessum þinglýst 2. maí 2003.

                Hinn 24. júní 2003 var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar umsókn stefnda Einars um byggingarleyfi fyrir sumarhús á lóðinni. Fundargerð nefndarinnar var síðan staðfest af sveitarstjórn á fundi hennar 26. sama mánaðar. Byggingarleyfi vegna sumarhússins var gefið út 27. þess mánaðar. Stefnandi hefur ítrekað krafist þess að stefndi Borgabyggð endurskoðaði ákvörðun sína um veitingu byggingarleyfis en þeim óskum hefur verið hafnað. Með málsókn þessari krefst stefnandi þess að stefnda Einari verði gert að viðlögðum dagsektum að fjarlægja sumarhús sem hann reisti á lóðinni, en til vara að viðurkennt verði að leyfið hafi verið ólögmætt.

                Hinn 3. maí 2004 tók sýslumaðurinn í Borgarnesi þá ákvörðun á grundvelli 27. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978, að afmá lóðarleigusamninginn frá 31. ágúst 2002 og stofnskjalið frá 23. mars 2003 úr þinglýsingabókum. Þessi ákvörðun var borin undir dóminn og með úrskurði 22. desember 2004 var hafnað kröfu stefnda Einars um að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar 3. febrúar 2005 í máli nr. 22/2005.

                Að gengnum umræddum dómi Hæstaréttar skoraði stefnandi á stefnda Borgarbyggð að afturkalla byggingarleyfið og að stefnda Einari yrði gert að fjarlægja sumarhúsið. Jafnframt var skorað á stefnda að fjarlægja húsið af landinu. Ekki var orðið við þeim tilmælum og því krafðist stefnandi þess með aðfararbeiðni 15. september 2005 á hendur stefnda Einari að húsið yrði fjarlægt með beinni aðfarargerð. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði dómsins 12. desember 2005 og var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar 11. janúar 2006 í máli nr. 546/2005. Í dómi Hæstaréttar sagði svo:

Niðurstaða dóms Hæstaréttar 3. febrúar 2005 í máli nr. 22/2005 var á því reist að Ingibjörgu Jóhannsdóttur og Brynhildi Pálsdóttur hafi skort heimild til að ráðstafa, án aðildar eða samþykkis annarra eigenda jarðarinnar Akra, spildu úr Ísleifsstaðatúni til varnaraðila með lóðarleigusamningi 31. ágúst 2002, en sumarhús það sem aðfararbeiðni sóknaraðila beinist að stendur á spildu þessari. Byggðist þetta á því að spildan væri í sameign landeigenda, þar sem einn þeirra, Ólafur Þórðarson, sem sóknaraðili leiðir eignarheimild sína frá, hefði ekki verið bundinn af samningi um landskipti sem aðrir eigendur jarðarinnar höfðu gert sín í milli 26. júní 1955. Í þessu máli reynir hins vegar á, hvort sóknaraðili geti, án aðildar sameigenda sinna að landspildu þessari, fengið sumarhús varnaraðila borið af henni með beinni aðfarargerð.

Krafa sóknaraðila byggist á þeirri forsendu, að fyrrgreindur leigusamningur Ingibjargar Jóhannsdóttur og Brynhildar Pálsdóttur við varnaraðila sé ógildur og varnaraðila sé skylt að fjarlægja sumarhús það sem hann hefur reist á spildunni. Hefur sóknaraðili kosið að beiðast útburðar á húsi varnaraðila, án undangenginnar málsóknar á hendur þeim sem aðild áttu að leigusamningnum og eftir atvikum annarra eigenda jarðarinnar Akra, sem kalla til eignarréttar ásamt honum að landspildunni. Með vísan til 2. málsliðar 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem hér á við samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 4. mgr. 150. gr. og 166. gr. laga nr. 91/1991, verður ekki dæmt um kröfu þessa án aðildar sameigendanna. Leiðir þetta til þess að staðfesta ber niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að hafna kröfu sóknaraðila.

                Með bréfi 25. janúar 2008 fór stefnandi þess enn á leit við stefnda Borgarbyggð að sú ákvörðun að veita stefnda Einari byggingarleyfi yrði felld úr gildi. Því hafnaði stefndi Borgarbyggð með bréfi 21. febrúar sama ár. Stefnandi ítrekaði kröfuna með bréfi 25. mars sama ár en því bréfi var ekki svarað.

                Fyrir liggur í málinu að stefndi Frumás ehf. hefur krafist landskipta á jörðinni Ökrum á grundvelli landskiptalaga, nr. 46/1942. Hefur landskiptanefnd hafið störf en ekki lokið skiptum.

II.

                Stefndu Ásmundur og Einar reisa kröfu sína um frávísun á því að sama dómkrafa hafi áður verið höfð uppi fyrir héraðsdómi og Hæstarétti í fyrrgreindu máli sem lauk með dómi réttarins 11. janúar 2006. Þar hafi kröfunni verið hafnað í héraði og sú niðurstaða verið staðfest með dómi Hæstaréttar. Krafan hafi því verið dæmd og verði ekki borin aftur undir dómstóla, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Þetta eigi enn frekar við þegar mál hefur áður verið dæmt á æðra dómstigi. Þá skipti engu þótt stefnandi beini nú kröfunni að fleiri aðilum, enda verði að taka sjálfstæða afstöðu til kröfunnar gagnvart hverjum og einum hinna stefndu. Þar fyrir utan eigi aðrir en stefndi Einar engin réttindi yfir sumarhúsinu.

                Einnig reisa stefndu frávísunarkröfu sína á því að mál af þessu tagi um lögmæti einstakra bygginga eða byggingahluta eigi að reka fyrir skipulagsyfirvöldum á grundvelli skipulags- og byggingalaga, nr. 73/1997. Samkvæmt þeim lögum fari byggingar- og skipulagsnefndir með mál af þessu tagi ásamt Skipulagsstofnun. Ákvörðunum megi síðan skjóta til úrskurðarnefndar byggingar- og skipulagsnefnda. Stefndu taka fram að það gæti skapað glundroða í allri réttarframkvæmd ef unnt væri að fara á svig við þessar reglur. Samkvæmt þessu beri að ljúka málsmeðferð áður en mál verði höfðað fyrir dómi og því beri að vísa málinu á hendur stefndu frá dómi á grundvelli 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1991.

                Loks krefjast stefndu frávísunar á þeim grundvelli að málið varði land í óskiptri sameign og því verði sameigendur að standa sameiginlega að kröfugerð sem varði eignina. Þar sem stefnandi hafi höfðað málið einn án atbeina meðeigenda sinna beri að vísa málinu frá dómi, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.

III.

                Stefnandi andmælir því að gengið hafi dómur í málinu sem haft geti res judicata áhrif þannig að vísa beri kröfum á hendur stefndu Ásmundi og Einari frá dómi, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Í því sambandi tekur stefnandi fram að dómur Hæstaréttar frá 11. janúar 2006 í máli nr. 546/2005 hafi lotið að kröfu um beina aðfarargerð auk þess sem úrslit málsins hafi ráðist af formsatriði sem hefði varðað frávísun ef um einkamál hefði verið að ræða.

                Stefnandi mótmælir því einnig að vísa beri frá dómi kröfum á hendur stefndu þar sem kæruleiðir innan stjórnsýslunnar hafi ekki verið tæmdar, enda sé ekki að finna neinn slíkan áskilnað í lögum.

                Loks tekur stefnandi fram að allir sem hagsmuna hafa að gæta eigi aðild að málinu og því verði málinu ekki vísað frá dómi á grundvelli reglna um samaðild í 18. gr. laga nr. 91/1991. Í þessu sambandi tekur stefnandi fram að fráleitt sé að allir eigendur Akra þurfi að vera sóknaraðilar.

IV.

                Samkvæmt 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 gildir sú regla að krafa sem dæmd hefur verið að efni til verður ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól. Skal vísa nýju máli um slíka kröfu frá dómi. Úrlausn dómstóls um hvort gerðarbeiðanda sé heimilt að láta fara fram beina aðfarargerð hjá gerðarþola felur ekki í sér efnisúrlausn í máli. Þessari frávísunarástæðu stefndu Ásmundar og Einars verður því hafnað.

Stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga um skipulags- og byggingarmál sæta kæru til úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997. Kæruleið innan stjórnsýslunnar girðir ekki fyrir að réttarágreiningur verði borinn undir endanlegan úrskurð dómstóla, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, nema skýr og ótvíræð takmörkun á þeim rétti sé fyrir hendi í lögum. Engin slík takmörkun hefur verið lögfest á því réttarsviði sem reynir á við úrlausn málsins. Kröfum á hendur stefnda Ásmundi og Einari verður því ekki vísað frá dómi sökum þess að kæruleiðir innan stjórnsýslunnar hafi ekki verið tæmdar.

Stefnandi hefur einn höfðað málið vegna sumarhúss sem stefndi Einar hefur reist á landi jarðarinnar Akra. Aðrir eigendur jarðarinnar standa ekki að málsókninni með stefnanda en þeim er öllum stefnt til að þola dóm í málinu. Með þessu er fullnægt áskilnaði um samaðild í 18. gr. laga nr. 19/1991. Verður ekki fallist á það með stefndu Ásmundi og Einari að meðeigendur stefnanda þurfi að standa að málinu til sóknar, enda gæti þá hver þeirra komið í veg fyrir að aðrir eigendur gætu haldið til haga réttindum sínum. Þessari frávísunarástæðu stefndu verður því einnig hafnað.

Samkvæmt framansögðu verður kröfu stefndu Ásmundar og Einars um frávísun málsins hafnað.

Málskostnaður bíður efnisdóms.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Kröfu stefndu, Ásmundar Ásmundssonar og Einars Oddssonar, um frávísun málsins er hafnað.