Hæstiréttur íslands

Mál nr. 186/2016

Smári Ríkharðsson (Tómas Jónsson hrl.)
gegn
Arion banka hf. (Sigurður Guðmundsson hrl.)

Lykilorð

  • Málsástæða
  • Dómur
  • Ómerking héraðsdóms

Reifun

Í málinu var deilt um það hvort A hf. hefði verið heimilt að reikna dráttarvexti á tiltekin lán S á þeim tíma er S hefði verið í greiðsluskjóli samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Í héraðsdómi var A hf. talið það heimilt og meðal annars byggt á því að dráttarvaxtakrafa A hf. hefði verið orðin virk á þessum tíma og fæli það í sér takmörkun eignaréttar ef gert yrði ráð fyrir því að lög nr. 101/2010 breyttu því réttarástandi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki hefði verið byggt á þeirri málsástæða af hálfu A hf. og samkvæmt 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála mætti dómari ekki byggja niðurstöðu sína á málsástæðum sem hefðu mátt koma fram við meðferð málsins en gerðu það ekki. Þá var einnig tekið fram að í dóminum hefði ekki verið leyst úr þeirri málsástæðu sem meginþungi málatilbúnaðar S hefði snúist um. Var því talið óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. mars 2016. Hann krefst þess aðallega að viðurkennt verði að stefnda hafi verið óheimilt að reikna dráttarvexti á tímabilinu 17. febrúar 2011 til og með 3. maí 2013 á skuldabréf útgefið af Frjálsa fjárfestingabankanum hf. 22. nóvember 2005, að fjárhæð 1.514.075 krónur og skuldabréf útgefið af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis 22. desember 2005, að fjárhæð 5.551.443 japönsk jen. Til vara krefst hann þess að viðurkennt verði að stefnda hafi verið óheimilt að reikna dráttarvexti á fyrrgreindu tímabili á síðargreinda skuldabréfið. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að hann verði felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í niðurstöðukafla hins áfrýjaða dóms segir meðal annars að hafa beri í huga að ,,stefnukröfurnar voru þegar í gjalddaga fallnar og báru dráttarvexti við upphaf heimildar til greiðsluaðlögunar.“ Hafi dráttarvaxtakrafa áfrýjanda því þegar verið orðin virk á þessum tíma og fæli það í sér takmörkun eignarréttar ef gert væri ráð fyrir því að lög nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga breyttu ,,þessu réttarástandi.“ Þessarar málsástæðu sér hvergi stað í skriflegum málatilbúnaði stefnda í héraði og við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti kom fram að hana hafi ekki borið á góma við flutning málsins í héraði. Þrátt fyrir það var úrlausn héraðsdóms um kröfu áfrýjanda á hendur stefnda reist á henni að hluta til. Samkvæmt 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála má dómari ekki byggja niðurstöðu sína á málsástæðum sem hefðu mátt koma fram við meðferð máls en gerðu það ekki.

Að auki var í dóminum ekki leyst úr þeirri málsástæðu sem meginþungi málatilbúnaðar áfrýjanda snerist um, en hún laut að því hvernig skýra beri ákvæði 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til samræmis við þann ágreining sem uppi er í máli þessu um vexti samkvæmt 11. gr. laga nr. 101/2010. Skortir því á að  héraðsdómur hafi tekið afstöðu til allra málsástæðna áfrýjanda, sbr. f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Verður með vísan til framanritaðs ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju, en rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af því fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til munnlegs málflutnings og dómsálagningar á ný.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2015.

                                                                                     I.

Mál þetta var höfðað 3. desember 2014 og dómtekið 4. nóvember 2015.

                Stefnandi er Smári Ríkharðsson, Hraunbæ 3, Reykjavík, en stefndi er Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

                Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að viðurkennt verði með dómi að stefnda hafi verið óheimilt að reikna dráttarvexti á tímabilinu 17. febrúar 2011 til og með 3. maí 2013 á eftirfarandi lán stefnanda: Skuldabréf með tilvísunarnúmerið 1163-74-712730, upphaflega gefið út af Frjálsa fjárfestingarbankanum, þann 22. nóvember 2005, og skuldabréf með tilvísunarnúmerið 1163-74-9681, upphaflega gefið út af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, þann 22. desember 2005.

                Til vara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að stefnda hafi verið óheimilt að reikna dráttarvexti á lán stefnanda, skuldabréf með tilvísunarnúmerið 1163-74-9681, upphaflega gefið út af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, þann 22. desember 2005, á tímabilinu 17. febrúar 2011 til og með 3. maí 2013. Þá krefst stefnandi málskostnaðar í báðum tilvikum.

                Stefndi krefst sýknu, auk málskostnaðar.

 

                                                                                     II.

Í máli þessu er deilt um heimildir stefnda til að reikna dráttarvexti á lán sem stefnandi tók hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum nr. 1163-74-712730, þann 22. nóvember 2005 og á lán sem stefnandi tók hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis nr. 1163-74-9681 þann 22. desember 2005, á tímabilinu 17. febrúar 2011 til og með 3. maí 2013, en á þeim tíma var stefnandi í svonefndu greiðsluskjóli samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga.

                Fyrrgreint lán sem stefnandi tók hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. bar yfirskriftina Veðskuldabréf og var tryggt með veði í bifreið stefnda HR-342. Var lánið með breytilegum vöxtum, lánsfjárhæð var 1.514.075 krónur og lánstíminn frá 2. janúar 2006 til 2. janúar 2013. Síðargreinda lánið sem stefnandi tók hjá SPRON hinn 22. desember 2005 bar yfirskriftina Veðskuldabréf í erlendri mynt, lánsfjárhæð var 5.551.443 krónur í erlendri mynt og lánstíminn þrjú ár. Var lánið gengistryggt í japönskum jenum og vextir breytilegir LIBOR-vextir auk fasts álags. Engin veð lágu bréfinu til tryggingar.

                Stefnandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara í febrúar árið 2011. Fór hann í kjölfarið í greiðsluskjól og var umsókn hans samþykkt þann 5. október 2011. Þann 6. október 2011 var skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögun stefnanda. Þann 12. október 2011 birti umsjónarmaður innköllun í Lögbirtingablaði þar sem skorað var á alla þá sem töldu sig eiga kröfur á hendur stefnanda að lýsa þeim fyrir umsjónarmanni. Þann 3. maí 2013 afturkallaði stefnandi umsókn sína um greiðsluaðlögun.

                Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 21. mars 2009, var stofnað sérstakt hlutafélag, Drómi hf., sem tók við öllum eignum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Meðal framseldra eigna voru kröfur samkvæmt fyrrgreindum skuldabréfum á hendur stefnanda. Um áramótin 2013 og 2014, voru skuldabréfin framseld stefnda, með samningum stefnda, Dróma hf., Eignasafns Seðlabanka Íslands hf. og Hildu ehf. Telst stefndi því réttur aðili málsins og er ekki um það deilt í málinu.

                Í kjölfar fyrirspurnar stefnanda til Dróma hf. var samþykkt á lánafundi þann 4. júní 2013 að lækka lán nr. 1163-74-9681 um 15% við uppgreiðslu. Greiddi stefnandi 4.000.000 króna inn á lánið sama dag. Samkvæmt kvittun dagsettri sama dag, fóru samtals 2.496.362 krónur inn á höfuðstól lánsins og 1.490.667 krónur í dráttarvexti. Voru umræddir dráttarvextir reiknaðir á lánið á því tímabili sem stefnandi var í greiðsluskjóli.

                Með bréfi stefnanda, dags. 7. ágúst 2013 til umboðsmanns skuldara, óskaði stefnandi m.a. eftir upplýsingum um hvort heimilt væri að innheimta dráttarvexti á meðan skuldari væri í greiðsluskjóli og þá hvaða vextir giltu ef ekki mætti reikna dráttarvexti. Í svari umboðsmanns skuldara, dags. 28. ágúst 2013, kom fram sú afstaða embættisins að óheimilt væri að krefjast dráttarvaxta á meðan skuldari væri í greiðsluskjóli, en að heimilt væri að reikna samningsvexti á tímabilinu.

                Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 25. júní 2014 til stefnda, var þess óskað að lánanefnd stefnda felldi niður dráttarvexti sem lagðir voru á skuldir stefnanda samkvæmt skuldabréfunum, á meðan stefnandi var í greiðsluskjóli. Í kjölfar samskipta á milli aðila málsins barst svar frá stefnda, þar sem fram kom að lánanefnd hefði samþykkt að veita stefnanda 30% afslátt af dráttarvöxtum, sem svipaði þá til samningsvaxta eins og það var orðað, sbr. tölvuskeyti dags. 3. september 2014 frá stefnda til lögmanns stefnanda.

                Samkvæmt reikningsyfirliti, dags. 5. september 2014, greiddi stefnandi 500.000 krónur upp í lán nr. 163-74-712730 á tímabilinu 2. mars 2011 til og með 2. desember 2011. Af þeirri fjárhæð var 114.151 krónu ráðstafað upp í ógreidda dráttarvexti á sama tímabili.

                Samkvæmt uppgreiðslusamningi, dags. 23. desember 2014, hefur stefnandi greitt upp lán sín, þ.e. nr. 9681 og nr. 712730, með útgáfu nýs skuldabréfs til stefnda, en með fyrirvara um lögmæti  

                                                                                   III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi telur að álagning dráttarvaxta á tilgreind lán stefnanda á tímabilinu 17. febrúar 2011 til og með 3. maí 2013, þ.e. á þeim tíma sem hann var í greiðsluaðlögun fari í bága við ákvæði laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Fjárhagslegt tjón hans felist í því að þegar stefnandi hafi greitt inn á umrædd skuldabréf hafi greiðslum m.a. verið ráðstafað upp í dráttarvexti. Þá sé afleitt tjón hans einnig töluvert meira, m.a. sá tími og sú mikla fyrirhöfn sem það hafi kostað stefnanda að sækja rétt sinn í málinu.

                Stefnandi telur að við móttöku umsóknar stefnanda um greiðsluaðlögun einstaklinga hjá embætti umboðsmanns skuldara hafi komist á tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Frestun á greiðslum samkvæmt greindu ákvæði þýði að ekki megi krefja skuldara eða ábyrgðarmenn um gjaldfallnar kröfur eða greiðslur af lánum, ekki megi gjaldfella skuldir, gera fjárnám, framkvæma kyrrsetningu eða fá eigur skuldara seldar nauðungarsölu. Kröfuhöfum sé jafnframt óheimilt að krefjast eða taka við greiðslum af kröfum sínum þegar frestun á greiðslum standi yfir.

                Stefnandi tekur fram að dráttarvextir séu vextir sem reiknist á vanskil og sé ætlað að bæta kröfueiganda upp frestun á greiðslu. Að þessu sögðu sé ljóst að einstaklingum í greiðsluaðlögunarferli hjá embætti umboðsmanns skuldara sé óheimilt að greiða af skuldum sínum á tímabili greiðsluskjóls og því sé ekki rétt að tala um vanskil á kröfum skuldara þann tíma sem greiðsluskjól vari. Sé stefnda því óheimilt að beita vanefndarúrræðum, líkt og dráttarvöxtum, vegna krafnanna. Sú ákvörðun stefnda að reikna dráttarvexti á skuldabréf stefnanda fari í bága við lög nr. 101/2010.

                Þá telur stefnandi með vísan til 7. gr. laga nr. 38/2001 að kröfuhöfum sé óheimilt að reikna dráttarvexti fyrir það tímabil þegar greiðsludráttur verði vegna atvika sem varða kröfuhafa og skuldara verði ekki um kennt.

                Stefnandi telur að þar sem honum hafi verið óheimilt að greiða af kröfum stefnda á tímabilinu 17. febrúar 2011 til 3. maí 2013 beri að líta svo á að lögmætar ástæður hafi búið að baki þeirri ákvörðun stefnanda að halda eftir greiðslum á skuldum á meðan hann hafi verið í greiðsluskjóli.

                Stefnandi vísar til 2. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 og 1. gr. laga nr. 38/2001. Tekur stefnandi fram að síðargreind lög séu almenn lög, en lög nr. 101/2010 sérlög sem gangi framar almennum lagaákvæðum.

                Stefnandi telur að vextir samkvæmt 11. gr. laga nr. 101/2010, séu ekki sambærilegir vöxtum sem mælt sé fyrir um í 7. gr. laga nr. 38/2001. Því sé ekki um sérreglu um dráttarvexti að ræða í 11. gr. laga nr. 101/2010, sem gangi framar ákvæðum laga nr. 38/2001. Bendir stefnandi á að hvorki í 11. gr. né í öðrum ákvæðum laga nr. 101/2010 sé minnst á heimild lánardrottna til þess að reikna dráttarvexti á kröfur meðan skuldari sé í greiðsluskjóli. Ákvæði 11. gr. mæli aðeins fyrir um að vextir falli á skuldir skuldara í greiðsluskjóli. Þeir vextir séu þó ekki gjaldkræfir nema þeir falli á kröfur er séu tryggðar með veði í eign skuldara sem hann fái að halda á meðan á greiðsluaðlögunarferlinu stendur. Ákvæðið taki ekki til dráttarvaxta. Ákvæðið sé skýrt og ótvírætt og beri að skýra það samkvæmt orðanna hljóðan. Bendir stefnandi á að löggjafinn geri skýran greinarmun á hugtökunum vextir og dráttarvextir m.a. í lögum nr. 38/2001. Almennt verði að miða við að orð og hugtök sem komi fram í ólíkum lagabálkum, hafi sömu merkingu að lögum nema annað sé skýrt tekið fram. Það samrýmist einnig almennri málvenju að gera greinarmun á vöxtum og dráttarvöxtum.

                Varakrafa stefnda felur í sér að viðurkennt verði að stefnda hafi verið óheimilt að leggja dráttarvexti á skuldabréf nr. 1163-74-9681, þar sem álagning dráttarvaxta á skuldabréfið sé ólögmæt, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010. Ákvæðið mæli aðeins fyrir um gjaldfellingu vaxta af kröfum sem tryggðar séu með veði í eign skuldara. Þó að yfirskrift skuldabréfsins sé Veðskuldabréf, sé það ekki tryggt með veði í eign stefnanda. Megi ráða af efni þess að um sé að ræða skuldabréf með einfaldri sjálfskuldarábyrgð. Ákvæðið gildi því ekki um fyrrgreint skuldabréf.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi telur að heimild hafi verið í skuldaskjölum til að reikna dráttarvexti af ógreiddum gjalddögum áður en lög nr. 101/2010 hafi verið sett. Sú heimild hafi einnig komið fram í 5. gr. laga nr. 38/2001.

                Bendir stefndi á meginreglu samningaréttar um að samningar skuli standa og um samningafrelsi. Þá falli vextir áfram á skuldir á meðan frestun greiðslna vari, sbr. 2. mgr. 11. gr. sömu laga. Þá hafi vextir verið fallnir á lán stefnanda áður en hann sótti um greiðsluaðlögun.

                Stefndi telur 7. gr. laga nr. 38/2001 ekki eiga við í máli þessu, þar sem skuldari hafi ekki af lögmætum ástæðum haldið eftir greiðslu kröfu. Ef stefnandi hefði nýtt sér greiðsluaðlögunarúrræðið hefði verið um lögmætt vanefndarúrræði að ræða. Stefnandi hafi hins vegar afturkallað umsókn sína áður en frumvarp að greiðsluaðlögun lá fyrir. Af því leiði að hann hafi ekki haldið eftir greiðslum af lögmætum ástæðum. Þá telur stefndi að með vöxtum í 2. málslið 2. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 sé bæði átt við almenna vexti og dráttarvexti. Þá telur stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á með gögnum hvenær forsendur þær sem lágu að baki umsókn stefnanda um greiðsluaðlögun hafi ekki lengur verið til staðar. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að önnur vægari úrræði hafi ekki dugað og að stefnanda hafi því verið nauðsynlegt að njóta tímabundinnar frestunar greiðslna í tvö ár. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á, hafi hann ætlað að nýta sér úrræði greiðsluaðlögunar, að hann hafi ekki getað afturkallað umsókn sína fyrr en hann gerði. Stefndi telur ekki ljóst hvort skilyrði greiðsluaðlögunar hafi verið til staðar, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 101/2010 enda hafi stefnandi verið fær um að greiða skuldir sínar tveimur árum síðar.

                Stefndi telur að heimilt hafi verið að reikna dráttarvexti á veðskuldabréf nr. 712730. Veðskuldabréfið hafi verið tryggt með veði í bifreið stefnanda HR-342. Í veðskuldabréfinu hafi verið samið um að bærist ekki greiðsla væri stefnda heimilt að reikna dráttarvexti. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að fjárhæð veðskuldabréfsins með dráttarvöxtum hafi verið hærri en sem nemi verðmæti umræddrar bifreiðar.

                Stefndi hafnar því að með vöxtum í 2. málsl. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 sé einungis átt við samningsvexti. Telur stefndi að bæði sé átt við vexti og dráttarvexti.

                Þá mótmælir stefndi því að ráðstöfun greiðslu stefnanda þann 4. júní 2013 til Dróma hf. hafi verið í andstöðu við samkomulag stefnanda við Dróma hf. og að stefnandi hafi gert munnlegt samkomulag við Dróma hf. um að dráttarvextir á tímabili tímabundinna frestunar greiðslna myndu falla niður. Þá er því mótmælt að stefndi hafi fellt nokkra dráttarvexti niður vegna láns 1163-74-120317. Lánið hafi ekki verið í eigu stefnda og hafi beiðni stefnanda um niðurfellingu dráttarvaxta farið fyrir lánanefnd Hildu, sbr. þau gögn sem stefnandi hafi lagt fram.

                Stefndi telur að það hefði verið mun hagstæðara fyrir stefnanda að fá 30% afslátt af dráttarvöxtum, en að reikna samningsvexti á lán 712730. Dráttarvextir af 734.548 krónum, sem lán 712730 stóð í þann 2. maí 2011, frá 2. maí 2011 til 3. maí 2013 nemi 189.788 krónum. Sé veittur 30% afsláttur af dráttarvöxtum næmi staðan þann 3. maí 2013 867.066 krónum. Vísitala neysluverðs hafi í janúar 2011 verið 363,3 stig en í maí 2013 hafi hún verið 411,3. Séu reiknaðir samningsvextir á lánið næmi fjárhæð þess þann 3. maí 2013 926.717 krónum. Mun hagstæðara væri því fyrir stefnanda að veittur væri 30% afsláttur af dráttarvöxtum en að samningsvextir væru reiknaðir á lánið.

                Lán 9681 hafi verið með lokagjalddaga 5. janúar 2011 og hafi verið gjaldfellt þann dag. Því hafi einnig verið myntbreytt þann dag, skv. grein 2 í skuldabréfinu. Erfitt sé því að sýna mun á dráttarvöxtum og samningsvöxtum á tímabili tímabundinnar frestunar greiðslna vegna láns 9681 þar sem dráttarvextir eru reiknaðir á íslenska fjárhæð en samningsvextir eru LIBOR-vextir á japönsk jen. Tekur stefnandi fram að stefnda sé kerfislega ómögulegt að reikna lán fyrst á dráttarvöxtum, síðan á samningsvöxtum og svo aftur á dráttarvöxtum. Stefndi hafi boðið stefnanda að gera upp framangreind lán með 30% afslætti af dráttarvöxtum, en almennt eigi það að gefa svipaða niðurstöðu og ef samningsvextir hefðu verið reiknaðir á lánin. Stefnandi hafi ekki sæst á þá niðurstöðu.

                                                                                    IV.

                                                                              Niðurstaða

Í máli þessu deila aðilar um hvort stefnda hafi verið heimilt að reikna dráttarvexti á tvö lán sem stefnandi tók upphaflega annars vegar hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og hins vegar hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum á meðan stefnandi var í samþykktri greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Reisir stefnandi málatilbúnað sinn m.a. á því að einstaklingum í greiðsluskjóli sé óheimilt að greiða af skuldum sínum á tímabili greiðsluskjóls og því geti ekki verið rétt að tala um vanskil á kröfum þann tíma sem greiðsluskjól vari.

                Stefndi telur að með vöxtum samkvæmt 11. gr. laga nr. 101/2010, sé hvort tveggja átt við dráttarvexti og vexti. Það leiði til þess að dráttarvexti beri að reikna á umræddar kröfur enda hafi þær verið fallnar í gjalddaga. Þá sé ekki ljóst hvort skilyrði greiðsluaðlögunar hafi verið til staðar, þar sem stefnandi hafi afturkallað umsókn um greiðsluaðlögun  áður en frumvarp að greiðsluaðlögun lá fyrir

                Samkvæmt gögnum málsins sótti stefnandi um greiðsluaðlögun þann 17. febrúar 2011 og var umsókn hans samþykkt þann 5. október 2011. Þann 6. október sama ár var stefnanda skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlöguninni. Þann 3. maí 2013 afturkallaði stefnandi hins vegar umsókn sína um greiðsluaðlögun.

                Dómurinn telur að greiðsluaðlögun hafi því hafist 17. febrúar 2011, sbr. ákvæði II. til bráðabirgða með lögum nr. 101/2010, og að henni hafi lokið við fyrrgreinda afturköllun umsóknar þann 3. maí 2013. Eru ekki rök til annars en að telja að skilyrði greiðsluaðlögunar hafi verið fyrir hendi. Ákvæði 8. gr. sömu laga um þriggja mánaða tímabil greiðsluaðlögunarumleitana þykja ekki hagga þessari niðurstöðu.

                Samkvæmt því sem nú var rakið liggur því fyrir að stefnandi var í greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010 á tímabilinu 17. febrúar 2011 til og með 3. maí 2013. Eftir það tímabil greiddi stefnandi inn á lánin. Þannig greiddi hann þann 4. júní 2013, 4.000.000 króna inn á lán nr. 1163-74-9681, og var 1.490.667 krónum af þeirri fjárhæð ráðstafað upp í áfallna dráttarvexti. Þann 5. september 2013 greiddi stefnandi 500.000 krónur inn á lán nr. 163-74-712730 og af þeirri fjárhæð var 114.151 krónu ráðstafað upp í áfallna dráttarvexti.

                Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 er mælt fyrir um réttaráhrif þess að umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn skuldara um greiðsluaðlögun. Hefst þá tímabundin frestun greiðslna. Í því felst m.a. að lánardrottnum er óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum, gjaldfella skuldir, gera fjárnám o.fl. eins og nánar er greint í ákvæðinu.

                Í 2. mgr. greinarinnar er tiltekið að vextir falli á skuldir meðan á frestun greiðslna stendur en þeir séu ekki gjaldkræfir. Þá segir að vextir af kröfum sem tryggðar séu með veði í eign sem skuldari fái að halda gjaldfalli þó í samræmi við samninga þar um, að því marki sem veð svari til verðmætis hinnar veðsettu eignar.

                Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu reiknast dráttarvextir almennt frá gjalddaga peningakröfu fram að greiðsludegi hennar.

                Markmið dráttarvaxta er einkum að bæta kröfuhafa það tjón sem almennt má ætla að greiðsludráttur hafi valdið honum án þess að hann þurfi að færa sönnur að því hvert raunverulegt tjón hann hafi beðið af þeim sökum. Er almennt gert ráð fyrir að greiða beri dráttarvexti eftir að vanefndir hafa orðið af hálfu skuldara á greiðslu skuldar.

                Lög nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga voru sett í kjölfar þess
bankahruns sem varð hér á landi og var þeim m.a. ætlað að koma til móts
við þá einstaklinga sem höfðu orðið illa úti af þeim sökum og þá um leið
að ná tökum á efnahagsástandinu. Samkvæmt 1. gr. laganna er markmið
þeirra að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að
endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og
greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við
skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Í greinargerð þeirri sem
fylgdi frumvarpi til laganna segir m.a. að mikilvægt sé að samfélagsleg
sátt ríki um lagasetningu af þessu tagi því henni sé m.a. ætlað að vera
grundvöllur endurreisnar og þess að hægt verði að styrkja efnahagsbata.
Þeim sé þar að auki ætlað að standa áfram og lögfesta úrræði til handa
einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum óháð þeim erfiðu aðstæðum
sem sköpuðust í kjölfar banka- og gjaldeyrishrunsins. Segir jafnframt að greiðsluaðlögun sé ætlað að auðvelda skuldara að endurskipuleggja fjármál sín og laga skuldir að greiðslugetu, þannig að raunhæft sé að hann geti staðið við skuldbindingar sínar. Einnig að markmið frumvarpsins sé að einstaklingar fari framvegis frekar þessa leið við uppgjör og endurskipulagningu fjármála sinna en þvingaða leið skuldaskilaréttarins.

                Með lögum nr. 101/2010 var komið á nýju kerfi til að auðvelda skuldara sem eiga í verulegum fjárhagsörðugleikum til að endurskipuleggja fjármál sín og þar sem hagsmunir hans sjálfs eru hafðir að leiðarljósi. Úrræði laganna eru einkum fólgin í að sérstakur umboðsmaður skuldara er honum til aðstoðar og að frestun verður á greiðslum á meðan á greiðsluaðlögunarumleitan stendur. Jafnframt er leitað frjálsra samninga milli kröfuhafa og skuldara samkvæmt IV. kafla laganna eða eftir atvikum nauðasamninga eftir V. kafla laganna.  Ekki verður hins vegar séð að réttindi kröfuhafa eigi að sæta skerðingu fram yfir það sem nú var sagt. 

                Hafa ber í huga að stefnukröfurnar voru þegar í gjalddaga fallnar og báru dráttarvexti við upphaf heimildar til greiðsluaðlögunar. Dráttarvaxtakrafa stefnda var því þegar orðin virk á þessum tíma og myndi fela í sér takmörkun eignarréttar ef gert væri ráð fyrir að lögin breyttu þessu réttarástandi. Þá er einnig rétt að líta til þess að í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. segir m.a. að krefjast megi dráttarvaxta vegna vanefnda skuldara á skyldum sínum án tillits til greiðslustöðvunar. Þessi samanburður er raunhæfur því að lögunum um greiðsluaðlögun er einnig ætlað að standa áfram og lögfesta þannig almennt úrræði fyrir þá sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum. Við þessar aðstæður má ætla að löggjafinn hefði tekið það fram berum orðum ef tilgangur hans var sá að ekki mætti innheimta dráttarvexti við þessar aðstæður á tímabili greiðsluaðlögunar. Af þessum sökum er rétt að skýra hugtakið vextir í 2. mgr. 11. gr. laganna um greiðsluaðlögun einstaklinga þannig að það taki einnig til dráttarvaxta
á umræddu tímabili greiðsluaðlögunar.

                Samkvæmt framansögðu er stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

                Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að hvor aðili beri sinn hluta af þeim kostnaði sem hlotist hefur af rekstri málsins.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.        

                Dómsuppkvaðning hefur dregist en gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                                                                              DÓMSORÐ:

                Stefndi, Arion banki hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Smára Ríkarðssonar.

                Málskostnaður fellur niður.