Hæstiréttur íslands

Mál nr. 356/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögbann
  • Ráðningarsamningur
  • Samkeppni


Föstudaginn 13

 

Föstudaginn 13. júlí 2007.

Nr. 356/2007. 

Tryggingamiðstöðin hf.

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

gegn

Óðni Svanssyni

(Ástráður Haraldsson hrl.)

 

Kærumál. Lögbann. Ráðningarsamningur. Samkeppni.

TM krafðist þess að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 4. maí 2007 og lagt fyrir hann að leggja lögbann við því að Ó starfaði eða sinnti öðrum verkefnum fyrir V á tilteknu tímabili. Með ráðningarsamningi TM og Ó 19. desember 2006 samþykkti Ó að takast ekki á hendur starf eða verkefni, í sex mánuði eftir að hann léti af störfum af eigin frumkvæði, á sama sviði og starf það sem hann sinnti hjá TM, þannig að í bága færi við samkeppnishagsmuni félagsins. Ó lét af starfi sínu hjá TM 12. mars 2007 og hóf störf hjá V skömmu síðar. Sinnti hann þar sams konar störfum og hann hafði haft með höndum hjá TM. Hæstiréttur taldi samkvæmt þessu og með því að fullnægt var að öðru leyti skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 bæri að fella úr gildi ákvörðun sýslumanns og honum gert að leggja lögbann við því að Ó starfaði hjá V til og með 12. september 2007. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 4. maí sama ár um að synja sóknaraðila um lögbann við nánar tilteknum athöfnum varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir sýslumann gegn tryggingu, sem hann meti nægilega, að leggja lögbann við því að fram til 7. október 2007 starfi varnaraðili hjá Verði-Íslandstryggingu hf., komi fram fyrir það félag, kynni það eða sinni öðrum verkefnum fyrir það, hvort sem er gegn launum eða án þeirra, hafi samband við viðskiptamenn sóknaraðila eða veiti þeim þjónustu á sviði vátryggingamála, hvort sem er gegn gjaldi eða án þess. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað, sem hann krefst ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti. Krafa hans um málskostnað í héraði kemur því ekki frekar til álita fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins gerðu aðilar þess verksamning 22. september 2006, þar sem varnaraðili tók að sér sem verktaki að selja fyrir sóknaraðila vátryggingar gegn nánar tilgreindri þóknun, sem yrði annars vegar föst mánaðarleg greiðsla og tæki hins vegar mið af iðgjöldum fyrir nýjar tryggingar, sem varnaraðili myndi afla fyrir sóknaraðila, og breytingar á eldri vátryggingum, sem leiddu til hækkunar iðgjalda. Í verksamningnum voru meðal annars ákvæði um tegundir vátrygginga, sem varnaraðili ætti að leitast við að selja, verklag í störfum hans, starfsaðstöðu, uppgjör þóknunar og uppsögn samningsins, sem hvorum aðila var heimil með þriggja mánaða fyrirvara að loknum reynslutíma, sem standa átti til 25. desember 2006. Jafnframt voru þar fyrirmæli um aðgang varnaraðila að upplýsingum hjá sóknaraðila og þagnarskyldu hans og trúnað, svo og um bann við því að varnaraðili starfaði við sölu vátrygginga eða sem tryggingaráðgjafi fyrir annað vátryggingafélag í þrjá mánuði eftir að hafa látið af störfum fyrir sóknaraðila, en þó því aðeins að varnaraðili segði upp samningi þeirra.

Áður en fyrrnefndur reynslutími samkvæmt verksamningi aðilanna var á enda gerðu þeir samning 19. desember 2006 um ráðningu varnaraðila til starfa hjá sóknaraðila sem söluráðgjafi frá 1. janúar 2007 að telja, en starfinu var þar lýst með því að það fælist í sölu á vátryggingum sóknaraðila „hvort sem um er að ræða nýtryggingar eða breytingar á vátryggingum, sem leiða til hækkunar á iðgjaldi.“ Í ráðningarsamningnum voru meðal annars fyrirmæli um starfsvið varnaraðila, launakjör og hlunnindi, en um uppsögn samningsins var svofellt ákvæði: „Fyrstu þrír mánuðir í starfi eru reynslutími fyrir báða aðila. Á því tímabili er gagnkvæmur uppsagnarfrestur ein vika. Á næstu þremur mánuðum í starfi er gagnkvæmur uppsagnarfrestur einn mánuður. Eftir sex mánuði í starfi telst starfsmaðurinn fastráðinn og gagnkvæmur uppsagnarfrestur er þrír mánuðir. Uppsögn skal vera skrifleg og miðast við mánaðamót.“ Þá var einnig í samningnum svokallað ákvæði um samkeppni, sem hljóðaði þannig: „Starfsmanni er óheimilt næstu sex mánuði eftir að hann lætur af störfum hjá TM að takast á hendur starf sem starfsmaður, verktaki eða ráðgjafi hjá öðrum eða í eigin þágu, enda sé starfið eða verkefnið á sama sviði og starf það sem hann hefur sinnt hjá TM þannig að í bága fari við samkeppnishagsmuni félagsins vegna þeirrar sérstöku þekkingar og vitneskju sem starfsmaðurinn hefur fengið hjá TM og telst ekki til aðgengilegrar og almennrar þekkingar á viðkomandi sviði. Í samningsákvæði þessu um samkeppni merkir það að láta af störfum og starfslok það tímamark er starfsmaðurinn hættir að fá greidd laun frá félaginu án tillits til þess að hann hafi hætt að gegna skyldustörfum fyrr. Ákvæði þetta um samkeppni er því aðeins bindandi fyrir starfsmann að hann segi sjálfur upp störfum. Samkvæmt samningalögum telst ákvæðið ekki gilda ef starfsmanni er sagt upp störfum án sakar nema til komi sérstakur starfslokasamningur er inniheldur ákvæði um samkeppni eða starfsmaður hættir vegna vanefnda TM á samningi aðila.“

Varnaraðili sendi skriflega tilkynningu til sóknaraðila 12. mars 2007 um að hann segði upp starfi sínu frá þeim degi að telja og mun hann hafa látið af því samdægurs. Með bréfi 15. sama mánaðar beindi sóknaraðili því til varnaraðila að uppsagnarfrestur hans samkvæmt ráðningarsamningi væri ein vika miðað við mánaðamót og bæri hann því starfsskyldur gagnvart sóknaraðila til 7. apríl 2007 ef ekki yrði samið á annan hátt um starfslok. Sóknaraðili hefði ekki notið starfa hans frá því að uppsögnin 12. mars 2007 barst og myndu launagreiðslur því falla niður frá þeim tíma. Þá var í bréfinu sérstaklega vísað til fyrrgreinds samkeppnisákvæðis í ráðningarsamningnum og minnt á að varnaraðila væri samkvæmt því óheimilt að taka upp störf hjá öðrum eða í eigin þágu á sama sviði og hann starfaði við hjá sóknaraðila, sem áskildi sér allan rétt ef það yrði ekki virt. Fyrir liggur að varnaraðili hóf störf hjá Verði-Íslandstryggingu hf. sem tryggingaráðgjafi 20. mars 2007.

Með beiðni til sýslumannsins í Reykjavík 16. apríl 2007 leitaði sóknaraðili lögbanns við því að varnaraðili gegndi störfum fram til 7. október sama ár hjá áðurnefndum nýjum vinnuveitanda. Í nánari atriðum var kröfugerð sóknaraðila fyrir sýslumanni á sama veg og dómkrafa hans fyrir Hæstarétti. Sýslumaður hafnaði kröfu sóknaraðila með ákvörðun 4. maí 2007 og leitast hann við að fá henni hnekkt í máli þessu.

II.

Í ráðningarsamningi aðilanna frá 19. desember 2006 var sem áður segir kveðið á um sérstakan reynslutíma á þremur fyrstu mánuðum ráðningarinnar, þar sem gagnkvæmur uppsagnarfrestur skyldi vera ein vika miðað við mánaðamót, en á þremur næstu mánuðum átti uppsagnarfrestur af hálfu beggja að vera einn mánuður og loks þrír mánuðir að þeim tíma liðnum eftir að varnaraðili teldist orðinn fastráðinn til starfa. Í fyrrgreindu samkeppnisákvæði í samningnum, þar sem varnaraðili skuldbatt sig til að hefja ekki í sex mánuði samsvarandi störf hjá öðrum eða í eigin þágu í framhaldi af uppsögn hans sjálfs á ráðningarsambandinu, var enginn greinarmunur gerður á því hvort slík uppsögn kæmi til á reynslutímanum í upphafi ráðningar, tímabilinu sem þá tæki við með lengri gagnkvæmum uppsagnarfresti eða eftir það, þegar fastráðning teldist komin á. Ekki verður fundin nein stoð í ráðningarsamningnum fyrir því að víkja með túlkun frá skýru ákvæði hans um þetta efni, sem þjónar lögmætum tilgangi þótt það setji vissulega um tíma skorður við frelsi varnaraðila til að hefja störf hjá öðrum en sóknaraðila. Varnaraðili hefur ekki borið fyrir sig að ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með síðari breytingum geti haft hér áhrif á gildi þessarar skuldbindingar hans. Þegar þetta er virt ásamt því að óumdeilt er í málinu að varnaraðili hafi 20. mars 2007 tekið til starfa hjá Verði-Íslandstryggingu hf. sem tryggingaráðgjafi og hefur ekki andmælt að hann sinni þar hliðstæðum verkefnum og hann hafði með höndum hjá sóknaraðila verður að fallast á með þeim síðastnefnda að varnaraðila séu þau störf óheimil eftir ákvæðum ráðningarsamnings þeirra í sex mánuði frá 12. mars 2007, en eftir málatilbúnaði aðilanna hætti hann þann dag að taka laun úr hendi sóknaraðila. Samkvæmt þessu og með því að fullnægt er að öðru leyti skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 fyrir lögbanni við þeirri athöfn varnaraðila að gegna hjá núverandi vinnuveitanda sínum hliðstæðum störfum og hann hafði áður með höndum hjá sóknaraðila verður dómkrafa þess síðastnefnda tekin til greina á þann hátt, sem í dómsorði greinir, en í þeim efnum er tekið mið af orðalagi starfslýsingar og samkeppnisákvæðis í ráðningarsamningi aðilanna.

Eftir þessum úrslitum málsins verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi svo sem nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 4. maí 2007 um að hafna beiðni sóknaraðila, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., um lögbann er felld úr gildi. Ber sýslumanni gegn tryggingu, sem hann metur nægilega, að leggja lögbann samkvæmt kröfu sóknaraðila við því að varnaraðili, Óðinn Svansson, starfi til og með 12. september 2007 sem launþegi eða verktaki í þjónustu Varðar-Íslandstryggingar hf. við sölu á vátryggingum, hvort sem um er að ræða nýtryggingar eða breytingar á vátryggingum, sem leiða til hækkunar á iðgjaldi.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

          Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur  28. júní 2007.

I

Mál þetta, sem þingfest var 1. júní 2007 var tekið til úrskurðar 20. júní 2007.  Sóknaraðili er Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík en varnaraðili er Óðinn Svansson, Perlukór 3D, Kópavogi. 

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 4. maí 2007 í málinu nr. 27-0005-0011, Tryggingamiðstöðin hf. gegn Óðni Svanssyni, um að synja sóknaraðila um lögbann verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sýslumann, gegn tryggingu er hann metur nægilega, að leggja lögbann við því að varnaraðili, Óðinn Svansson starfi hjá Verði-Íslandstryggingu hf., kt. 441099-3399, Sætúni 8, Reykjavík, komi fram fyrir hönd þess félags, kynni það eða sinni nokkrum öðrum verkefnum fyrir félagið, hvort sem er launuðum eða ólaunuðum.  Einnig er þess krafist að lagt verði lögbann við því að varnaraðili hafi samband við viðskiptamenn sóknaraðila, þ.m.t. starfsmenn þeirra og/eða veiti þeim þjónustu á sviði vátryggingamála, hvort heldur er gegn gjaldi eða ekki, og hvort sem er sem sjálfboðaliði, launþegi eða sjálfstæður verktaki.  Lögbannið gildi til og með 7. október 2007.  Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur varnaraðila eru þær að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að hin umþrætta ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík verði staðfest.

II

Varnaraðili réðst sem verktaki til sóknaraðila hinn 22. september 2006 með verk­samningi sama dag.  Verkefni hans var að selja vátryggingar fyrir sóknaraðila.  Starfaði hann sem verktaki til 31. desember 2006.  Með ráðningarsamningi 19. desember 2006 var varnaraðili ráðinn starfsmaður sóknaraðila við söluráðgjöf frá og með 1. janúar 2007.  Í þeim ráðningarsamningi kemur fram að fyrstu þrír mánuðirnir í starfi séu reynslutími fyrir báða aðila og á því tímabili sé gagnkvæmur uppsagnarfrestur ein vika.  Í ráðningarsamningnum er ákvæði sem takmarka rétt starfsmanns til að takast á hendur starf á sama sviði og hann sinnir hjá sóknaraðila þannig að í bága fari við samkeppnishagsmuni félagsins.  Varnaraðili sagði upp starfi sínu 12. mars 2007 og hætti þann dag störfum hjá sóknaraðila og voru launagreiðslur til hans frá þeim degi felldar niður.

Í kjölfar þess að varnaraðili hætti störfum hjá sóknaraðila hóf hann störf hjá samkeppnisaðila sóknaraðila, Verði-Íslandstryggingu hf. og telur sóknaraðili að með því hafi varnaraðili ekki virt fyrrgreint ákvæði ráðningarsamnings aðila um samkeppni.

Með bréfi til sýslumannsins í Reykjavík 16. apríl 2007 fór sóknaraðili fram á að lagt væri lögbann við því að varnaraðili starfaði hjá Verði-Íslandstryggingu hf., kæmi fram fyrir hönd þess félags, kynni það eða sinni nokkrum öðrum verkefnum fyrir félagið, launuðum eða ólaunuðum.  Einnig var þess krafist að lagt væri lögbann við því að gerðarþoli hefði samband við viðskiptamenn gerðarbeiðanda þar með talið starfsmenn þeirra og/eða veitti þeim þjónustu á sviði vátryggingamála, hvort heldur er gegn gjaldi eða ekki og hvort sem er sem sjálfboðaliði, launþegi eða sjálfstæður verktaki.  Lögbannið gildi til og með 7. október 2007.

Sýslumaður tók lögbannsbeiðnina fyrir 26. apríl 2007 og svo aftur 3. og 4. maí 2007.  Ákvörðun sýslumanns sem tekin var hinn 4. maí 2007 var á þá lund að sýslumaður taldi að gerðarbeiðandi hefði ekki sýnt nægilega fram á að lögvarðir hagsmunir hans myndu fara forgörðum við að bíða dóms um málið og hafi hann því ekki sýnt fram á að skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann væri uppfyllt.  Var beiðni um lögbann því hafnað.

Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2007, sem barst dóminum 11. maí 2007,  krafðist sóknaraðili úrlausnar dómsins um framangreinda ákvörðun sýslumanns og eins og rakið hefur verið var málið þingfest 1. júní 2007.  Undirrituðum dómara var falin meðferð málsins 8. júní 2007.

III

Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa verið ráðinn sem verktaki til sóknaraðila hinn 22. september 2006 með verksamningi sama dag.  Hafi verkefni varnaraðila verið að selja vátryggingar fyrir sóknaraðila, hvort heldur væri um nýtryggingar að ræða eða breytingar á vátryggingum er leitt hafi til hækkunar á iðgjaldi.  Við framkvæmd verksins hafi varnaraðili fengið aðgang að ýmsum trúnaðarupplýsingum hjá sóknaraðila s.s. um afslætti og kjör einstakra viðskiptavina.  Því hafi í 7. gr. verk­samningsins verið ákvæði þess efnis að í verklok væri varnaraðila óheimilt að hefja störf við vátryggingasölu eða sem tryggingaráðgjafi fyrir annað vátryggingafélag eða líftryggingafélag í þrjá mánuði eftir starfslok hjá sóknaraðila.

Með ráðningarsamningi 19. desember 2006 hafi varnaraðili verið ráðinn starfsmaður sóknaraðila og hafi starfið samkvæmt starfslýsingu falist í sölu á vátryggingum sóknaraðila hvort sem um væri að ræða nýtryggingar eða breytingar á vátryggingum, sem leiði til hækkunar á iðgjaldi.

Í 4. gr. ráðningarsamningsins sé ákvæði um trúnað og þar segi að starfsmaður sé bundinn trúnaði um allt það sem hann komist að við framkvæmd starfs síns nema um sé að ræða atriði sem eðli máls samkvæmt sé ætlað að komast til vitundar þriðja manns.  Sé trúnaður þessi óbreyttur eftir starfslok. Samhliða undirritun ráðningar­samningsins hafi varnaraðili undirritað sérstaka trúnaðaryfirlýsingu.

Í 6. gr. ráðningarsamningsins sé ákvæði um samkeppni og þar segi að starfsmanni sé óheimilt næstu sex mánuði eftir að hann láti af störfum hjá sóknaraðila að takast á hendur starf sem starfsmaður, verktaki eða ráðgjafi hjá öðrum eða í eigin þágu, enda sé starfið eða verkefnið á sama sviði og starf það sem hann hafi sinnt hjá sóknaraðila þannig að í bága fari við samkeppnishagsmuni félagsins vegna þeirrar sérstöku þekkingar og vitneskju sem starfsmaðurinn hafi fengið hjá sóknaraðila og teljist ekki til aðgengilegrar almennrar þekkingar á viðkomandi sviði.

Í samkeppnisákvæði þessu teljist það að láta af störfum og starfslok það tímamark er starfsmaðurinn hætti að fá greidd laun frá félaginu án tillits til þess að hann hafi hætt að gegna skyldustörfum fyrr.  Ákvæði þetta um samkeppni sé aðeins bindandi fyrir starfsmann að hann segi sjálfur upp störfum.  Samkvæmt samningalögum teljist ákvæðið ekki gilda ef starfsmanni sé sagt upp án sakar nema til komi sérstakur starfslokasamningur er innihaldi ákvæði um samkeppni eða starfsmaður hættir vegna vanefnda sóknaraðila á samningi aðila.

Samkvæmt 12. gr. ráðningarsamningsins skyldi uppsögn vera skrifleg og miðast við mánaðamót.  Hinn 12. mars 2007 hafi varnaraðili sagt upp störfum hjá sóknaraðila.  Hafi hann samdægurs horfið úr vinnu af eigin hvötum og þannig einhliða brotið gegn ákvæðum ráðningarsamnings aðila um uppsagnarfrest.  Hinn 15. mars 2007 hafi sóknaraðili sent varnaraðila bréf þar sem hann hafi verið minntur á að starfsskyldum hans lyki ekki fyrr en 7. apríl 2007 auk þess sem hann hafi verið minntur á ákvæði 6. gr. ráðningarsamningsins.  Ekkert svar hafi borist frá varnaraðila og það næsta sem sóknarðaðili hafi vitað var að varnaraðili hafi hafið störf hjá vátryggingafélaginu Verði-Íslandstryggingu hf. sem tryggingaráðgjafi á vátryggingasviði.  Með því hafi varnaraðili brotið á ný gegn skýrum ákvæðum ráðningarsamnings aðila.

Undir rekstri lögbannsmálsins hjá sýslumanni hafi verið upplýst að varnaraðili hafi unnið hjá Verði-Íslandstryggingu hf. í einn og hálfan mánuð og því ljóst að hann hafi hafið þar störf að minnsta kosti þremur vikum áður en uppsagnarfresti hans hjá sóknaraðila lauk.

Að mati sóknaraðila séu yfirgnæfandi líkur á því að varnaraðili hafi sem starfsmaður Varðar-Íslandstryggingar hf. samband við þá aðila er hann hafi selt tryggingar fyrir sóknaraðila og selji eða reyni að selja þeim nýjar sams konar tryggingar, enda sé varnaraðili gagnkunnur viðskiptakjörum þeirra aðila, bæði iðgjaldagreiðslum og hvenær samningar þeirra renni út.  Með því verði sóknaraðili fyrir verulegu tjóni en nær ómögulegt sé að sanna umfang þess.

Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína um lögbann á því að varnaraðili sé enn bundinn af ákvæði 6. gr. ráðningarsamnings síns um trúnað og samkeppnishömlur.  Hann hafi, án þess að sóknaraðili leysti hann undan samkeppnishömlunum, hafið störf í sambærilegu starfi hjá samkeppnisaðila sóknaraðila.  Telji sóknaraðili ljóst að varnaraðili muni í hinu nýja starfi hjá samkeppnisaðila sóknaraðila nýta sér þekkingu á viðskiptakjörum og viðskiptamönnum sóknaraðila og vinna þannig gegn hagsmunum sóknaraðila.  Brot með þessum hætti gegn hagsmunum sóknaraðila geti valdið sóknaraðila verulegu tjóni og honum sé því nauðsynlegt að stöðva það strax þar sem hann eigi litla sem enga möguleika á því að fá tjón sitt bætt vegna sönnunarörðugleika.  Réttarreglur um skaðabætur verndi því ekki hagsmuni sóknaraðila nægilega og því séu uppfyllt öll skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann fyrir því að lögbann megi leggja á í samræmi við kröfur sóknaraðila.

Krafist sé lögbanns til 7. október 2007 en þann dag séu sex mánuðir liðnir frá samningsbundnum starfslokum varnaraðila ef hann hefði sagt upp réttilega með viku uppsagnarfresti miðað við mánaðarmót.

Kröfu um lögbann byggi sóknaraðili á heimild IV. kafla laga nr. 31/1990 og málskostnaðarkröfu sína byggi hann á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað byggi hann á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.  Þá sé ákvörðun sýslumanns skotið til héraðsdóms samkvæmt heimild í 33. gr. laga nr. 31/1990.

IV

Varnaraðili telur að hin umþrætta ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að synja lögbannsbeiðni sóknaraðila hafi verið rétt og að þá ákvörðun beri að staðfesta. 

Varnaraðili kveður atvinnufrelsi sitt stjórnarskrárvarið, sbr. 75. gr. stjórnarskrárinnar.  Honum sé þar tryggður réttur til að sinna því starfi sem hann kjósi  Takmarkanir á þessu frelsi þurfi að styðjast við málefnalegar ástæður og eiga við ríkar og viðeigandi efnislegar forsendur að styðjast.  Skerðing stjórnarskrárvarinna réttinda verði að fara fram af varfærni.  Samningsákvæði sem  hugsanlega feli í sér slíkar skerðingar beri því að túlka þröngt.

Verði lögbann ekki lagt á með vísan til þess að aðilar hafi samið um takmarkanir á atvinnufrelsi varnaraðila í ráðningasamningi.  Bæði hafi sú takmörkun sem um hafi verið samið ekki tekið gildi þegar varnaraðili hafi sagt upp en í annan stað sé hin umsamda takmörkun allt önnur og mun þrengri en á sé byggt af hálfu sóknaraðila.

Í gagnkvæmum ráðningarsamningi aðila hafi verið sérstaklega samið um reynslutíma.  Sé ljóst að almennt samkeppnisbann, jafnvel þó um slíkt hefði verið samið milli aðila, verði ekki lagt á starfsmann sem einungis hafi sinnt starfi á hluta af reynslutímabili.  Ekkert eðlilegt hlutfall sé á milli réttinda og skyldna í þeim efnum að njóta einungis launa í eina viku á uppsagnarfresti en vera undirseldur banni við að nýta aflahæfi sitt um margra mánaða skeið þar á eftir.  Eðlilegt tillit til hlutfalls milli réttinda og skyldna leiði til þess að sú túlkun á almennu samkeppnisákvæði, að það taki gildi á reynslutíma, fái ekki staðist.  Eðli reynslutíma sé það að aðilarnir hafi gagnkvæman rétt til að láta á samband sitt reyna meðan slíkt tímabil vari og geti slitið samningssambandinu með skömmum fresti ef annarhvor þeirra kjósi að láta tímabil hins ótímabundna ráðningarsamnings ekki renna upp.  Sérstaklega verði þetta augljóst ef aðstaða sé skoðuð í því ljósi að reynslutími sé gagnkvæmur.  Ef skilningur sóknaraðila væri lagður til grundvallar myndi það fela í sér að atvinnurekandi gæti slitið ráðningarsamningi eftir viku ráðningu, starfsmaður ætti rétt á viku launum en væri bundinn um aflahæfi sitt í sex mánuði þaðan í frá.

Til að atvinnurekandi geti byggt rétt sinn á almennu samkeppnisákvæði sé samkvæmt dómafordæmum algert skilyrði að sá standi við sínar samningsskyldur og greiði laun út uppsagnarfrest.  Því sé ekki til að dreifa í máli þessu, sóknaraðili hafi stöðvað launagreiðslur um leið og uppsögn hafi komið fram.  Þegar af þeirri ástæðu sé varnaraðili ekki bundinn af samkeppnisákvæði ráðningarsamningsins.

Þá vísar varnaraðili til þess að krafa sóknaraðila, sem um hafi verið fjallað í hinni umþrættu ákvörðun sýslumanns, byggi á miklu víðtækari skilningi á samningsákvæði aðila en unnt sé að leiða efnislega með venjulegri túlkun af ákvæðinu sjálfu.  Allur vafi um það hvort krafa sóknaraðila rúmist innan marka þess sem ráðið verði eftir almennri túlkun felist í hinu umsamda ákvæði hljóti að verða metinn sóknaraðila til óhagræðis.

Þá vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að ná fram kröfu sinni.  Líta verði til eðlis þeirra hagsmuna sem sóknaraðili þykist vera að verja með kröfu sinni.  Gæta verði þess hversu langur tími sé liðinn frá því að varnaraðili hafi hafið störf hjá Verði-Íslandstryggingu.  Hafi hann verið í aðstöðu til, eða viljað misnota einhverjar upplýsingar sem hann hafi búið yfir væri slíkt löngu afstaðið.  Sóknaraðila til huggunar sé þó rétt að taka fram að varnaraðili hafi ekki búið yfir neinum slíkum upplýsingum og hafði auk þess engan áhuga á að koma á nokkurn hátt óheiðarlega fram gagnvart fyrri atvinnurekanda.  Engin brot í þá veru sem sóknaraðili þykist óttast hafi því verið framin eða verði framin.

V

Eins og fram er komið réði varnaraðili sig til starfa hjá sóknaraðila með ráðningarsamningi 19. desember 2006 og var upphaf starfstíma hans samkvæmt samningnum 1. janúar 2007.  Samkvæmt fyrrgreindum ráðningarsamningi voru fyrstu þrír mánuðirnir reynslutími fyrir báða aðila og á því tímabili skyldi gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera ein vika.  Fyrir liggur að varnaraðili sagði upp starfi sínu hjá sóknaraðila 12. mars 2007 en þá var vika eftir af reynslutíma hans.  Þann dag hætti hann störfum hjá sóknaraðila og stöðvaði sóknaraðili frekari launagreiðslur til hans frá þeim tíma. 

Byggir sóknaraðili kröfur sínar í málinu á því að varnaraðili sé bundinn við ákvæði 6. gr. ráðningarsamnings aðila um trúnað og samkeppnishömlur og með því að ráða sig til starfa hjá samkeppnisaðila sé ljóst að hann muni nýta sér þekkingu á viðskiptakjörum og viðskiptamönnum sóknaraðila og vinna þannig gegn hagsmunum sóknaraðila.  Geti slík brot gegn hagsmunum sóknaraðila valdið honum verulegu tjóni og því sé nauðsynlegt að stöðva það strax.  Hafi sóknaraðili litla sem enga möguleika á að fá tjón sitt bætt vegna sönnunarörðugleika.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. má leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. 

Óumdeilt er að varnaraðili hefur hafið störf hjá samkeppnisaðila og verður ekki tekin afstaða til þess í þessu máli hvort sú háttsemi brjóti í bága við samkeppnis­ákvæði ráðningarsamnings aðila eða hvort sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni og þá hverjir möguleikar hans séu á að fá meint tjón sitt bætt.  Þá liggja ekki fyrir haldbær gögn um hvenær varnaraðili hóf störf hjá Verði-Íslandstryggingu hf. en óumdeilt er að vinnuskyldu hans og ráðningartíma hjá sóknaraðila er lokið og lauk í síðasta lagi hinn 7. apríl 2007.

Varnaraðili var ráðinn til starfa hjá sóknaraðila frá og með 1. janúar 2007 og er í ágreiningur um túlkun á samkeppnisákvæði ráðningarsamnings aðila. Um lengd ráðningartíma varnaraðila verður við þann samning stuðst en ekki verktakasamning aðila sem gilti frá 1. október 2006 til 31. desember 2006.  Hafði varnaraðili því  starfað hjá sóknaraðila í tæplega tvo og hálfan mánuð þegar hann lét af störfum.  Eins og fram er komið voru fyrstu þrír mánuðir í starfi reynslutími með einnar viku uppsagnarfresti. 

Þegar litið er til þess að varnaraðili var enn á reynslutíma með aðeins viku uppsagnarfrest þegar hann lét af störfum og þess stutta tíma sem hann hafði unnið hjá sóknaraðila verður að telja umdeilt samkeppnisákvæði mjög íþyngjandi fyrir varnaraðila og til þess fallið að takmarka verulega atvinnufrelsi hans í sex mánuði frá starfslokum hans hjá sóknaraðila.  Verður því að skýra ákvæði þetta þröngt og þykir sóknaraðili ekki hafa sannað eða gert sennilegt að varnaraðili hafi, með því að ráða sig til starfa hjá samkeppnisaðila sóknaraðila, brotið gegn lögvörðum rétti sóknaraðila.  Þá hefur sóknaraðili ekki sannað eða gert sennilegt að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir spjöllum meðan hann bíður dóms um þau þannig að réttlæti slíka neyðarráðstöfun sem lögbann er.  Þykja því ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til að verða við kröfum sóknaraðila og er þeim því hafnað og ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að hafna lögbanni staðfest.

Varnaraðili hefur ekki gert kröfu um málskostnað og með hliðsjón af niðurstöðu málsins verður málskostnaður ekki dæmdur.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Magnús Guðlaugsson hrl., en af hálfu varnaraðila flutti málið Ástráður Haraldsson hrl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 4. maí 2007 um að hafna kröfu sóknaraðila, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., um lögbann er staðfest.