Hæstiréttur íslands
Mál nr. 510/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Verksamningur
- Aðild
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Miðvikudaginn 29. ágúst 2012. |
|
Nr. 510/2012.
|
Háfell ehf. (Bjarki Þór Sveinsson hdl) gegn íslenska ríkinu Vegagerðinni og (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) Metrostav a.s. (Þórarinn V. Þórarinsson hrl.) |
Kærumál. Verksamningur. Aðild. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli H ehf. á hendur Í, V og M var vísað frá dómi sökum þess að H ehf. og M hefðu átt að standa saman að málsókn þar sem félögin ættu óskipt réttindi gagnvart Í og V, sbr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en M hafði verið stefnt í málinu til að þola dóm um kröfur H ehf. á hendur Í og V. Hæstiréttur taldi 18. gr. laga nr. 91/1991 ekki standa því í vegi að efnisdómur yrði lagður á kröfu H ehf., enda hefði M átt þess kost á að gæta hagsmuna sinna vega ætlaðra óskiptra réttinda sem hann teldi sig eiga með H ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 17. júlí 2012 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2012, þar sem málinu var vísað frá dómi án kröfu. Kæruheimild er í j. lið 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilarnir íslenska ríkið og Vegagerðin krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Metrostav a.s. krefst kærumálskostnaðar.
Málavextir eru raktir í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram gerðu sóknaraðili og varnaraðilinn Metrostav a.s. sameiginlega tilboð í gerð Héðinsfjarðarganga á grundvelli útboðs varnaraðilans Vegagerðarinnar. Var tilboði þeirra tekið og verksamningur gerður 20. maí 2006. Byggir sóknaraðili kröfu sína á hendur varnaraðilunum íslenska ríkinu og Vegagerðinni á verksamningnum vegna tiltekinna verkþátta auk þess sem hann krefst leiðréttingar á verðbótum eftir 10. desember 2009 og byggingarvísitölu eftir 1. mars 2009 auk leiðréttingar vegna hækkunar á virðisaukaskatti. Hann gerir einungis þá kröfu á hendur varnaraðilanum Metrostav a.s. að honum verði gert að þola dóm um kröfu sína á hendur öðrum varnaraðilum.
Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 skal vísa máli frá dómi ef þeim sem bera óskipta skyldu er ekki öllum veittur kostur á að svara til sakar. Það sama á við ef þeir sem eiga óskipt réttindi sækja ekki mál í sameiningu, að því leyti sem krafa er höfð uppi um hagsmuni einhvers þeirra sem ekki á aðild að því.
Ágreiningslaust er með sóknaraðila og varnaraðilanum Metrostav a.s. að þeir hafi skipt einstökum verkþáttum fyrrgreinds verksamnings á milli sín. Svo sem áður greinir er varnaraðilanum Metrostav a.s. stefnt í máli þessu til að þola dóm um kröfu sóknaraðila. Hefur hinn fyrrnefndi því átt þess kost að gæta hagsmuna sinna vegna óskiptra réttinda sem hann kann að telja sig eiga með sóknaraðila vegna þess verksamnings sem um ræðir í málinu. Það hefur hann ekki gert heldur hefur hann í greinargerð sinni til héraðsdóms þvert á móti lýst því yfir að hann muni ekki hafa uppi neinar af þeim kröfum sem sóknaraðili hefur beint að varnaraðilunum Vegagerðinni og íslenska ríkinu vegna þeirra kröfuliða og verkþátta sem málsóknin tekur til og geri hann því engar athugasemdir við dómkröfuna. Er þessi afstaða varnaraðila áréttuð í greinargerð hans til Hæstaréttar.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið standa ákvæði 18. gr. laga nr. 91/1991 því ekki í vegi að efnisdómur verði lagður á kröfu sóknaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af rekstri þessa þáttar málsins á báðum dómstigum.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2012.
I
Mál þetta, sem þingfest var 31. janúar sl., er höfðað með stefnu sem birt var stefndu 30. sama mánaðar. Stefnandi er Háfell ehf. Skeifunni 11, Reykjavík, en stefndu eru íslenska ríkið, Vegagerðin, Borgartúni 5-7, Reykjavík og Metrostav a.s., Prag, Tékklandi.
Stefnandi krefst þess að stefndu, íslenska ríkið og Vegagerðin, verði in solidum dæmd til að greiða honum 289.813.086 krónur, auk nánar tilgreindra dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Gagnvart meðstefnda, Metrostav a.s., er þess krafist að fyrirtækinu verði gert að þola dóm um ofangreindar kröfur. Loks krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum.
Stefndu, íslenska ríkið og Vegagerðin, krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk málskostnaðar úr hans hendi. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði þá felldur niður. Meðstefndi, Metrostav a.s., gerir engar kröfur í málinu.
Við fyrstu fyrirtöku málsins eftir úthlutun þess til dómara, 14. maí sl., vakti dómari athygli á því að sá galli kynni að vera á aðild málsins til sóknar að varðað gæti frávísun þess án kröfu, sbr. 2. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Var aðilum gefinn kostur á að tjá sig um það munnlega og var málinu frestað í því skyni til 15. júní sl. Lögmenn reifuðu þá sjónarmið sín til álitaefnisins. Að því búnu var málið tekið til úrskurðar, eða eftir atvikum ákvörðunar.
II
Í stuttu máli eru atvik eftirfarandi:
Á grundvelli útboðs Vegagerðarinnar gerðu stefnandi, Háfell ehf., og meðstefndi, Metrostav a.s., sameiginlega tilboð í gerð Héðinsfjarðarganga. Var tilboði þeirra tekið og verksamningur gerður 20. maí 2006 milli Vegagerðarinnar, sem verkkaupa, en Metrostav a.s., Prag og Háfells ehf., Reykjavík, sem verktaka. Skömmu áður, eða 2. desember 2005, höfðu fulltrúar Háfells ehf. og Metrostav a.s. gert með sér samkomulag um samstarfsverkefni (e. Joint-Venture Agreement), sem fólst í undirbúningi og framsetningu tilboðsins. Samkomulag þetta, sem ritað var á ensku, liggur frammi í íslenskri þýðingu. Er þar mælt fyrir um tilgang og markmið samstarfsverkefnisins, gildistíma þess, stöðu, réttindi og skuldbindingar aðilanna, forsvar, ábyrgð o.fl. Samkvæmt 4. mgr. II. gr. samkomulagins samþykkja aðilarnir m.a. að úthluta sín á milli verkefnum og ákvörðunarvaldi sem leiða af útboðsskjölum fyrir umrætt verk. Í 2. mgr. IV. gr. er fjallað um hlutdeild og umfang hvors aðila samkvæmt ráðgerðum samningi um verkframkvæmdina. Þá segir þar: „Úthlutun milli samstarfsaðilanna á einstökum aðgerðum og byggingahlutum skal fara fram á grundvelli listanna í viðhengi við þetta skjal eigi síðar en 14 dögum eftir undirritun verksamningsins við verkkaupann.“ Í 3. mgr. sömu greinar er tekið fram að báðir samstarfsaðilar skuli vera ábyrgir, sameiginlega og hvor um sig, fyrir framkvæmd samningsins allan gildistíma samstarfsverkefnisins. Jafnframt segir þar að tilboðið skuli undirbúa sameiginlega.
Sama dag og verksamningur við Vegagerðina var undirritaður gerðu verktakarnir með sér samkomulag um breytingu á áðurnefndu samkomulagi þeirra frá 2. desember 2005, nefnt „Breyting nr. 1 á samkomulagi um samstarfsverkefni“. Þar skiptu þeir verkinu sín á milli þannig að einstakir verkhlutar voru á hendi annars hvors þeirra. Í skjalinu var einnig mælt fyrir um að aðilar skyldu sameiginlega stofna íslenskt einkahlutafélag með heitinu Metrostav-Háfell ehf. og skyldi Metrostav a.s. leggja fram 68% hlutafjár, en Háfell ehf. 32%. Í 2. mgr. V. gr. þessa skjals segir m.a. svo í íslenskri þýðingu: „Eini tilgangur félagsins skal vera að þjóna sem tengiliður fyrir reikninga útgefnum af aðilunum á félagið og af félaginu á verkkaupann fyrir umfang framkvæmda Metrostavs og Háfells hvors um sig og móttöku greiðslna fyrir sama frá verkkaupanum og greiðslu þeirra til Metrostavs og Háfells hvors um sig.“
Verktakarnir gerðu með sér nýtt samkomulag um breytingu á fyrrnefndu samkomulagi 24. september 2009, nefnt „Breyting nr. 2 á samkomulagi um samstarfsverkefni“. Í inngangi skjalsins kemur fram að tilgangur þess sé að finna lausn á álitamálum milli aðilanna sjálfra, en einnig um skiptingu hugsanlegra greiðslna frá Vegagerðinni, umfram umsamið verð. Í 2. mgr. III. gr. segir m.a. í íslenskri þýðingu: „Allar fjárhagslegar viðskiptakröfur og kröfur sem tengjast fullnustu verksamningsins verða settar fram af aðilunum hvorum fyrir sig, af hvorum aðila upp á eigin spýtur, í sambandi við umfang verkefnisins og framkvæmd hvors aðila af viðkomandi aðila. Allar greiðslur frá Vegagerðinni á grundvelli krafna og viðbótarvinnu sem aðilarnir hafa krafist fram til dagsins í dag munu verða yfirfærðar að fullu af reikningi Metrostav-Háfell ehf. [ ] á reikning viðkomandi aðila ef um er að ræða vinnu eða viðskiptakröfu sem greiðslu var krafist fyrir án hlutdeildar fyrir hinn aðilann. Það sama skal gilda í framtíðinni fyrir allar fjárhagslegar viðskiptakröfur og kröfur aðilanna að meðtöldum fjárhæðum vegna verðleiðréttinga, fjárhæðum vegna leiðréttinga á byggingarvísitölu og öllum hugsanlegum bótum vegna gengistapa.“ Í 3. mgr. sömu greinar er síðan að finna svohljóðandi ákvæði: „Aðilarnir skuldbinda sig til að aðstoða hvorn annan við innheimtu krafna og viðskiptakrafna sem aðilarnir hafa sett fram til dagsins í dag ásamt allra annarra fjárhagslegra viðskiptakrafna og krafna aðilanna gagnvart Vegagerðinni í framtíðinni um viðbótargreiðslur og tímaframlengingu og eins við að leggja fram frekari kröfur gagnvart Vegagerðinni í gegnum Metrostav-Háfell ehf., gerist þess þörf.“
Framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng hófust í júní 2006 og átti þeim að ljúka 10. desember 2009. Af ýmsum ástæðum tafðist verkið, en endanlega lauk því 30. september 2010. Deilt var um ástæður tafanna og hver bæri ábyrgð á þeim. Krafa stefnanda er um greiðslu vegna hliðarfyllinga, fyllingarmagns í vegfyllingu, leiðréttingar á verðbótum eftir 10. desember 2009 og byggingarvísitölu eftir 1. mars 2009, auk hækkunar á virðisaukaskatti. Af gögnum málsins má sjá að stefnandi hefur ítrekað sett fram ofangreindar kröfur í nafni Metrostav-Háfells ehf., en Vegagerðin hefur ætíð hafnað þeim. Lokauppgjör vegna framkvæmdanna fór fram 30. september 2011. Á reikningi, sem gefinn var út af Metrostav-Háfelli ehf. þann dag, kemur fram að fyrirvari sé gerður varðandi óafgreiddar kröfur sem fram komi í þar tilgreindum bréfum.
III
Stefnandi krefst þess í þessum þætti málsins að málið hljóti efnismeðferð og hafnar því að meðstefndi, Metrostav a.s., þurfi að eiga aðild að málinu til sóknar, ásamt stefnanda. Byggir hann á því að kröfur stefnanda í málinu séu einungis vegna verkþátta sem hann hafi annast og eigi að fá greitt fyrir. Sé það jafnframt staðfest af hálfu forsvarsmanns Metrostav a.s. í framlögðu bréfi. Réttindi stefnanda til kröfunnar séu því hvorki óskipt með Metrostav a.s., né sé krafan höfð uppi um hagsmuni hins síðarnefnda. Metrostav a.s. sé þó stefnt í málinu til að þola dóm, en ekki til réttargæslu. Í ljósi þessa telur stefnandi að engin efni séu til að vísa málinu frá dómi á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Hann hafnar því einnig að einkahlutafélagið Metrostav-Háfell eigi nokkra aðild að máli þessu, enda hafi það félag verið stofnað nokkru eftir gerð verksamnings um umrætt verk og sé ekki aðili að neinum samningum við Vegagerðina. Auk ofanritaðs bendir stefnandi á að hann og Metrostav a.s. hafi hvor um sig lagt fram sína verktryggingu vegna verksins og hafi starfsmenn Vegagerðarinnar vitað um verkaskiptingu þeirra tveggja. Loks leggur hann áherslu á að allar undantekningar frá þeirri reglu að aðilar geti fengið úrlausn sinna mála fyrir dómstólum beri að skýra þröngt.
Stefndu, Vegagerðin og íslenska ríkið, telja að vísa beri málinu frá dómi samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991, og krefjast þess jafnframt að stefnandi verði úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins. Byggja þessir stefndu aðallega á því að stefnandi og Metrostav a.s. hafi sameiginlega gert tilboð í umrætt verk og hafi verksamningur verið gerður við þá sameiginlega. Þeir hafi því borið sameiginlega og óskipta ábyrgð á efndum verksamningsins, og eigi að sama skapi óskipt réttindi á grundvelli hans. Telja stefndu að stefnandi geti af þessum sökum ekki haft uppi þær kröfur sem hann geri í málinu, án atbeina Metrostav a.s. Stefndu benda einnig á að stefnandi og meðstefndi, Metrostav a.s., hafi stofanð með sér einkahlutafélagið Metrostav-Háfell, og hafi það félag komið fram gagnvart verkkaupa, ásamt því að allar greiðslur voru inntar af hendi til þess félags.
Meðstefndi, Metrostav a.s., kvaðst ekki taka afstöðu til þess álitaefnis hvort vísa ætti málinu frá dómi vegna meints galla á aðild þess til sóknar. Hann tók þó fram að sjálfur hefði hann talið að sér hefði verið stefnt til réttargæslu í málinu og bæri greinargerð hans þess vitni.
IV
Eins og áður er rakið gerðu Háfell ehf., stefnandi í máli þessu, og Metrostav a.s., meðstefndi, sameiginlega tilboð í gerð Héðinsfjarðarganga 21. mars 2006. Tilboðinu fylgdi tilboðsskrá þar sem tilgreindir voru allir verkþættir og kostnaður við þá. Hvorki í tilboðsskránni né upphaflegri verkáætlun var verkþáttum skipt á milli aðila. Hins vegar höfðu aðilarnir skömmu áður gert með sér samkomulag um að þeir myndu sín á milli úthluta verkefnum til hvors þeirra, yrði gengið að tilboði þeirra. Engu að síður skyldu þeir báðir vera ábyrgir, „sameiginlega og hvor um sig, fyrir framkvæmd samningsins allan gildistíma samstarfsverkefnisins“, eins og þar sagði. Tilboð þeirra var samþykkt og var verksamningur undirritaður 20. maí 2006. Samningurinn var á milli Vegagerðarinnar, sem verkkaupa, og Metrostav a.s. og Háfells ehf., sem verktaka. Í verksamningi er tekið fram að tiltekin gögn, þar merkt a-m, skuli skoðast sem hluti samningsins. Meðal þeirra gagna er ÍST30:2003, Almennir útboðs- og samningsskilmálar um verkframkvæmdir, 5. útgáfa 2003-07-15. Í 4. mgr. 6. gr. þeirra segir eftirfarandi: „Ef tveir eða fleiri gera sameiginlegt tilboð skuldbindur það þá óskipt (in solidum).“ Má af þessu ljóst vera að stefnandi og meðstefndi Metrostav a.s. bera óskipta skyldu gagnvart Vegagerðinni og íslenska ríkinu, stefndu í máli þessu, vegna umræddrar verkframkvæmdar. Skipting verktakanna sjálfra á einstökum verkhlutum sín á milli eða á verkinu í heild samkvæmt ákveðnum hlutföllum breytir þar engu um, enda átti hvorki Vegagerðin né íslenska ríkið nokkra aðild að þeirri skiptingu. Sú staðhæfing meðstefnda, Metrostav a.s., í greinargerð hans til dómsins (þar nefndur réttargæslustefndi) að í samskiptum verktakanna verði hvorugur þeirra gerður ábyrgur fyrir framkvæmd verkþátta hins, hefur af sömu ástæðu enga þýðingu gagnvart verkkaupa.
Fram er komið að stefnandi og meðstefndi, Metrostav a.s., stofnuðu einkahlutafélagið Metrostav-Háfell ehf., og voru allir reikningar vegna verksins gefnir út af því félagi og greiddir af verkkaupa. Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að verkkaupi hafi nokkru sinni greitt reikninga sem aðeins stöfuðu frá öðrum hvorum verktakanna. Öll önnur samskipti verktaka við verkkaupa voru einnig í nafni einkahlutafélagsins, að undanskildu einu erindi frá framkvæmdastjóra stefnanda til vegamálastjóra 14. mars 2011, þar sem óskað var frekari greiðslna, að hluta til vegna sömu kröfuliða og í stefnu. Á hinn bóginn svaraði verkkaupi öllum erindum verktaka með bréfi sem stíluð voru á þá báða.
Í stefnu er tekið fram að meðstefndi, Metrostav a.s., kunni í einhverjum tilvikum að eiga samskonar kröfur á hendur stefndu og gerðar séu í máli þessu. Í öllum tilvikum hafi hlutdeild Metrostav a.s. í kröfum stefnanda hins vegar verið reiknuð út úr kröfugerðinni. Því séu kröfur stefnanda einungis til komnar vegna verkþátta sem hann hafi annast og eigi að fá greitt fyrir. Líti stefnandi svo á að hann eigi einn tilkall til þess endurgjalds sem kröfur hans hljóði um og að unnt sé að setja þær fram án aðkomu Metrostav a.s. Þá tekur stefnandi fram að vegna aðildar Metrostav a.s. að sameiginlegum verksamningi við Vegagerðina, þyki honum til öryggis rétt að stefna félaginu til að þola dómsniðurstöðu.
Í framlögðu bréfi frá Metrostav a.s. 29. september 2011, sem ritað er á ensku, staðfestir félagið að það hafi hagsmuni af úrlausn um nánar tilteknar kröfur stefnanda og muni þess vegna hlutfallslega taka þátt í málaferlunum að því er þær kröfur varðar. Engu að síður segir eftirfarandi í greinargerð Metrostav a.s. til dómsins: „Þessar kröfur, sem mál þetta lýtur að eru alfarið stefnandans og á Metrostav enga aðild að þeim. Metrostav hefur hvorki lagt mat á gildi þeirra eða útreikninga sem lagður er þeim til grundvallar og á enda enga aðkomu að þessari kröfugerð.“
Eins og áður segir eru stefndu, Vegagerðin og íslenska ríkið, á engan hátt bundnir af samkomulagi stefnanda og meðstefnda, Metrostav a.s., um skiptingu þeirra á einstökum verkhlutum við umrædda framkvæmd, enda áttu stefndu ekki aðild að því samkomulagi. Um leið er minnt á að stefnandi og Metrostav a.s. stóðu sameiginlega að gerð tilboðsins og var verksamningurinn gerður við þá báða, sem sameiginlegan verktaka. Féllist dómurinn hins vegar á kröfur stefnanda í máli þessu fælist í þeirri niðurstöðu ekki einasta viðurkenning á samkomulagi stefnanda og Metrostav a.s. um skiptingu verksins í verkhluta þeirra í milli, heldur einnig að tekið væri undir sjónarmið meðstefnda um að hvorugur þeirra yrði gerður ábyrgur fyrir framkvæmd verkþátta hins. Er slíkt í andstöðu við skýr fyrirmæli ÍST30 um óskipta ábyrgð verktaka, sbr. hér að ofan. Jafnframt fælist í slíkri niðurstöðu viðurkenning á að Metrostav a.s. ætti einnig kröfur á stefndu, án þess að það félag hafi krafist nokkurs í málinu og hafi „hvorki lagt mat á gildi þeirra eða útreikninga sem lagðir eru þeim til grundvallar“, svo vísað sé til áðurnefndra orða í greinargerð félagsins. Lítur dómurinn þá sérstaklega til þeirra krafna þar sem stefnandi hefur tilgreint hlutfall sitt í útgefnum reikningum vegna einstakra verkliða, og með því móti skipt milli sín og Metrostav a.s. þeirri fjárhæð sem hann telur ógreidda.
Samkvæmt ofanrituðu eiga stefnandi og meðstefndi, Metrostav a.s., óskipt réttindi gagnvart stefndu og hafa úrslit málsins augljóslega áhrif á hagsmuni Metrostav a.s. Bar þeim því að standa saman að málsókninni, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem þessa var ekki gætt verður málinu vísað frá dómi án kröfu, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Með vísan til 2. mgr. 130. gr. sömu laga verður stefnanda gert að greiða stefndu óskipt 300.000 krónur í málskostnað. Meðstefndi, Metrostav a.s., hefur ekki gert neinar kröfur í málinu og verður honum því ekki úrskurðaður málskostnaður.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.
Stefnandi, Háfell ehf., greiði stefndu, íslenska ríkinu og Vegagerðinni, óskipt 300.000 krónur í málskostnað.