Hæstiréttur íslands

Mál nr. 580/2012


Lykilorð

  • Lífeyrissjóður
  • Lífeyrisréttur
  • Iðgjöld
  • Einkahlutafélag
  • Ábyrgð við gjaldþrot
  • Lögskýring
  • Lagaskil


Þriðjudaginn 26. mars 2013.

Nr. 580/2012.

Sigurfinnur Geir Eyvindsson

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

gegn

Sameinaða lífeyrissjóðnum

(Gestur Jónsson hrl.)

Lífeyrissjóður. Lífeyrisréttur. Iðgjöld. Einkahlutafélag. Ábyrgð við gjaldþrot. Lögskýring. Lagaskil.

S var í stjórn félagsins E og annar af prókúruhöfum þess. Hann hafði unnið hjá félaginu á árunum 2001 til 2003. Við útreikning örorkulífeyris til S tók SL ekki tillit til iðgjalda á framangreindu tímabili sökum þess að E ehf. hafði ekki staðið skil á þeim til sjóðsins. S hélt því m.a. fram að samkvæmt 2. málslið 28. gr. laga nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa ætti að beita ákvæðum 10. gr. þeirra um undanþágur frá ábyrgð við úrlausn um það hvort krafa SL á hendur Á um greiðslu hinna vangoldnu iðgjalda skyldu njóta ábyrgðar hans. Samkvæmt skýru orðalagi lagagreinarinnar tæki hún og þar með undanþáguákvæði hennar í engu til kröfu lífeyrissjóðs samkvæmt d. lið 5. gr. laganna. Því hafi synjun sjóðsins á að greiða kröfuna verið ólögmæt og þar með hafi SL verið skylt að líta til iðgjaldanna við ákvörðun lífeyrisgreiðslna til S. Í dómi Hæstaréttar kom fram að hvorki í athugasemdum né öðrum lögskýringargögnum kæmi fram að með setningu laga nr. 88/2003 hafi verið ætlunin að breyta þeirri reglu sem lögfest hefði verið allt frá árinu 1985 að undanþáguákvæðin skyldu framvegis ekki taka til kröfu lífeyrissjóðs um vangoldin lífeyrissjóðsiðgjöld. Ekki væri hægt að fallast á með S að taka bæri kröfu hans til greina á grundvelli þeirrar málsástæðu að samkvæmt orðalagi 10. gr. tæki hún og þar með undanþáguákvæði hennar í engu til kröfu SL á hendur Á. Þá kom fram að S hafi verið einn þriggja stjórnarmanna í félaginu og á honum hafi hvílt skyldur samkvæmt 44. gr. laga nr. 138/1994 um hlutafélög. Þá hafi hann verið prókúruhafi þess. Yrði talið að krafa SL vegna lífeyrissjóðsiðgjalda S hafi fallið undir 10. gr. laga nr. 88/2003 og samkvæmt því hafi Á verið rétt að hafna kröfu SL á hendur sjóðnum og væru aðilar málsins bundnir af þeirri niðurstöðu. Var staðfestur hinn áfrýjaði dómur um sýknu SL af kröfu S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. september 2012. Hann krefst þess að viðurkennt verði að framreikna beri lífeyrisréttindi sín hjá stefnda í samræmi við ákvæði 13.3 og 13.4 gr. í samþykktum hans 30. júní 2010. Jafnframt krefst áfrýjandi þess að viðurkennt verði að hann eigi frá og með 1. október 2003 rétt til greiðslu úr hendi stefnda á mismun á örorkulífeyri miðað við framreiknuð lífeyrisréttindi sín hjá stefnda, og þeim örorkulífeyri sem stefndi hefur greitt honum, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá gjalddaga hverrar greiðslu. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram var áfrýjandi meðal stofnenda hlutafélagsins E.S.G., sem síðar varð einkahlutafélag, ásamt móður sinni og bróður. Hann sat í stjórn félagsins og var jafnframt annar af prókúruhöfum þess. Félagið var úrskurðað gjaldþrota 21. mars 2003.

Áfrýjandi vann við trésmíðar hjá félaginu á árunum 2001 og 2002 og fram í ársbyrjun 2003. Þáði hann laun fyrir þá vinnu og samkvæmt launaseðlum voru lífeyrissjóðsiðgjöld dregin af laununum. Mun félagið hafa sent stefnda skilagreinar vegna iðgjaldanna í júlí og desember 2001 fyrir fyrstu tíu mánuði þess árs, í janúar 2003 fyrir tvo síðustu mánuði ársins 2001 og ellefu fyrstu mánuði ársins 2002 og loks í apríl 2003 fyrir desember 2002 og janúar og febrúar 2003. Á hinn bóginn stóð félagið ekki skil á iðgjöldunum til stefnda. Af þeim sökum lýsti stefndi kröfu í þrotabú félagsins og með vísan til laga nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa krafði hann sjóðinn um greiðslu hinna vangoldnu iðgjalda. Með bréfi 17. febrúar 2006 hafnaði sjóðurinn kröfunni á grundvelli 10. gr. laga nr. 88/2003 að því er tók til iðgjalda áfrýjanda þar sem hann hafi verið í stjórn hins gjaldþrota félags. Var jafnframt vakin athygli á heimild til að kæra ákvörðunina til stjórnar sjóðsins, en stefndi mun ekki hafa neytt þeirrar heimildar.

Áfrýjandi hlaut líkamstjón af völdum slyss árið 1994 og varð að nýju fyrir slysi 2003. Vegna þessa sótti hann um örorkulífeyri frá stefnda og var umsóknin samþykkt 16. júlí 2004. Af svari stefnda mátti ráða að ekki hafi verið tekið tillit til fyrrgreindra iðgjalda áfrýjanda við útreikning örorkulífeyris, auk þess sem ekki kom þar fram að hann ætti rétt til greiðslu barnalífeyris. Þegar áfrýjandi fór fram á skýringu á þessu tilkynnti stefndi honum með bréfi 18. nóvember 2004 að trúnaðarlæknir stefnda hafi metið örorku áfrýjanda 100% frá 6. september 2003. Síðan sagði orðrétt í bréfinu: „Greiðslur til þín eru frá 01.10.2003 út á áunnin stig. Þar sem ekki er um framreikning að ræða, er ekki greiddur barnalífeyrir. Ástæðan fyrir að ekki er framreikningur er vegna iðgjalda sem ekki eru greidd vegna áranna, 2001, 2002 og hluta árs 2003.“

II

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða á sjóðfélagi rétt á örorkulífeyri ef hann verður fyrir orkutapi sem metið er 50% eða meira, hefur greitt í lífeyrissjóð í að minnsta kosti tvö ár og orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Eftir 2. mgr. sömu lagagreinar skal örorkulífeyrir framreiknaður samkvæmt reglum sem nánar er kveðið á um í samþykktum, enda hafi sjóðfélagi greitt til lífeyrissjóðs í að minnsta kosti þrjú ár á undanfarandi fjórum árum, þar af að minnsta kosti sex mánuði á síðasta tólf mánaða tímabili, sbr. a. og b. liði 13.3 gr. í samþykktum stefnda. Í 4. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997 segir að eigi sjóðfélagi ekki rétt á framreikningi skuli fjárhæð örorkulífeyris miðast við áunnin réttindi. Þá er það skilyrði þess samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laganna, sbr. 14.2.3 gr. í samþykktum stefnda, að barn sjóðfélaga öðlist rétt til barnalífeyris vegna örorku hans að hann hafi öðlast rétt til framreiknings.

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort stefnda hafi verið heimilt samkvæmt lögum og samþykktum sínum að horfa framhjá vangoldnum lífeyrissjóðsiðgjöldum áfrýjanda á fyrrgreindu tímabili við ákvörðun lífeyrisgreiðslna. Vegna áðurnefndra lagaákvæða hafði það þær afleiðingar í för með sér að örorkulífeyrir áfrýjanda var ekki framreiknaður, heldur var fjárhæð hans miðuð við áunnin réttindi á grundvelli áður greiddra iðgjalda, auk þess sem dóttir hans öðlaðist ekki rétt til barnalífeyris frá stefnda.

Áfrýjandi reisir kröfur sínar á hendur stefnda í fyrsta lagi á því að E.S.G. ehf. hafi sem launagreiðandi sannanlega dregið lífeyrissjóðsiðgjöld af launum hans á umræddu tímabili og skilað skilagreinum vegna iðgjaldanna til stefnda, þannig að honum hafi borist vitneskja um skyldu félagsins til að greiða þau innan þeirra tímamarka sem greind séu í öðrum málslið 2. mgr. 13. gr. laga nr. 129/1997. Því beri að meta iðgjöldin að fullu til réttinda eins og þar sé kveðið á um, en sambærilegt ákvæði sé að finna í 10.10 gr. í samþykktum stefnda. Í öðru lagi byggir áfrýjandi á því að samkvæmt öðrum málslið 2. mgr. 28. gr. laga nr. 88/2003 skuli beita ákvæðum 10. gr. laganna við úrlausn um það hvort krafa stefnda á hendur Ábyrgðasjóði launa um greiðslu hinna vangoldnu iðgjalda skuli njóta ábyrgðar sjóðsins. Samkvæmt skýru orðalagi síðastnefndrar lagagreinar taki hún og þar með undanþáguákvæði hennar í engu til kröfu lífeyrissjóðs samkvæmt d. lið 5. gr. laganna. Því hafi synjun sjóðsins um að greiða kröfuna með skírskotun til 10. gr. laga nr. 88/2003 verið ólögmæt og þar með sé stefnda skylt að líta til iðgjaldanna við ákvörðun lífeyrisgreiðslna til áfrýjanda. Í þriðja lagi heldur áfrýjandi því fram að hann hafi aðeins setið í stjórn E.S.G. ehf. til málamynda og falli því ekki undir undanþáguákvæði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2003 vegna þess hvernig skýra beri ákvæðið samkvæmt lögskýringargögnum. Í fjórða lagi reisir áfrýjandi kröfur sínar á því að stefnda hafi verið óheimilt að byggja synjun um að framreikna réttindi áfrýjanda á 10.10 gr. í samþykktum sínum þar sem tekið sé mið af undanþáguákvæðum 6. gr. eldri laga nr. 53/1993 um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrots. Í fimmta lagi verði synjunin ekki reist á framangreindri ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa og í sjötta lagi sé stefndi, hvað sem öðru líður, óbundinn af þeirri ákvörðun. Í sjöunda lagi hafi stefnda verið óheimilt að bakfæra áunnin réttindi áfrýjanda sem fram hafi komið í yfirliti stefnda. Loks hafi stefndi vanrækt að gæta hagsmuna áfrýjanda, meðal annars með því að hafa ekki hafið innheimtu á hinum vangoldnu iðgjöldum fyrr og ekki leitað frekari réttarúrræði vegna ákvörðunar Ábyrgðasjóðs launa.  

III

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 129/1997 er meðal annars kveðið á um að sjóðfélagi ávinni sér og eftir atvikum börnum sínum rétt til lífeyris með iðgjaldagreiðslum. Samkvæmt fyrsta málslið 2. mgr. sömu lagagreinar reiknast réttur til lífeyris frá þeim tíma sem iðgjald berst lífeyrissjóði. Frá þeirri meginreglu er gerð sú undantekning í öðrum málslið málsgreinarinnar að iðgjöld launþega, sem launagreiðandi hefur sannanlega innheimt en ekki staðið lífeyrissjóði skil á, skuli þó meta að fullu til réttinda frá eindaga iðgjaldagreiðslu, enda hafi sjóðnum borist vitneskja um iðgjaldsgreiðsluskyldu innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits samkvæmt 18. gr. laganna. Í þriðja málslið 2. mgr. 13. gr. segir að lífeyrissjóður beri þó ekki ábyrgð á réttindum sjóðfélaga vegna þeirra iðgjalda sem glatast við gjaldþrot og ábyrgðasjóður launa ber ekki ábyrgð á samkvæmt lögum um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 129/1997 voru ákvæði annars og þriðja málsliðar meðal annars skýrð á þann veg að eðlilegt þætti að rýmri regla gilti um það en áður var frá hvaða tíma lífeyrisréttur launþega stofnaðist. Þessi rýmri regla gilti þó ekki um þá launþega sem féllu undir 6. gr. þágildandi laga nr. 53/1993, en það væru til dæmis stjórnarmenn í gjald­þrota félögum. Ábyrgðasjóðurinn bæri ekki ábyrgð á kröfum þessara aðila og því þætti ekki eðlilegt að láta lífeyrissjóði veita réttindi á grundvelli iðgjalda sem tapast hefðu við gjaldþrot. Í niðurlagi 10.10 gr. í samþykktum stefnda er tekið fram að hann beri ekki ábyrgð á réttindum vegna þeirra iðgjalda sem glatast við gjaldþrot og Ábyrgðasjóður launa beri ekki ábyrgð á.

Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að meta beri lífeyrissjóðsiðgjöld áfrýjanda til réttinda honum til handa hjá stefnda án tillits til þess hvort Ábyrgðasjóður launa hafi borið ábyrgð á greiðslu þeirra. Skiptir í því sambandi ekki máli þótt iðgjöldin hafi verið dregin af launum áfrýjanda á áðurgreindu tímabili og stefnda borist vitneskja um skyldu E.S.G. ehf. til að standa skil á þeim innan þeirra tímamarka sem greind eru í öðrum málslið 2. mgr. 13. gr. laga nr. 129/1997.

IV

Ákvæði þess efnis að ríkisábyrgð tæki til kröfu viðurkennds lífeyrissjóðs um vangoldin lífeyrissjóðsiðgjöld í þrotabú vinnuveitanda, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, var fyrst lögtekið með c. lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 23/1985 um ríkisábyrgð á launum. Ákvæðið var ekki að finna í frumvarpi því sem síðar varð lítið breytt að lögum nr. 23/1985, heldur var það tekið upp í meðförum Alþingis að tillögu félagsmálanefndar. Jafnframt var gerð sú breyting á upphafi 5. gr. frumvarpsins, síðar 5. gr. laganna, að vísað var til fyrstu fjögurra stafliða 4. gr. í stað þeirra þriggja fyrstu, að því er virðist í þeim tilgangi að undanþáguákvæði þeirrar greinar tækju jafnt til kröfu lífeyrissjóðs um vangoldin iðgjöld samkvæmt c. lið 1. mgr. 4. gr. og kröfu launþega um vinnulaun, orlofsfé og bætur vegna riftunar eða uppsagnar vinnusamnings eftir a., b. og d. liðum málsgreinarinnar. Þess var þó ekki gætt að breyta orðalagi upphafsákvæðis 5. gr. að fullu til samræmis við áðurnefnda breytingu vegna þess að þar var eftir sem áður vísað til krafna launþega einna.

Nokkrar breytingar voru gerðar á löggjöf um ábyrgð á launum vegna gjaldþrots vinnuveitanda uns lög nr. 53/1993 tóku gildi, þar á meðal var með 6. gr. laga nr. 1/1992 um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 settur á stofn ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota sem ábyrgðist greiðslu vinnulaunakröfu launþega á hendur vinnuveitanda við gjaldþrot. Í 1. gr. laga nr. 52/1992 um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota var síðan kveðið á um að sjóðurinn skyldi einnig ábyrgjast kröfu viðurkennds lífeyrissjóðs vegna lífeyrisiðgjalda á hendur vinnuveitanda við gjaldþrot. Ákvæði sama efnis var að finna í 1. gr. laga nr. 53/1993. Því til samræmis sagði meðal annars í 1. mgr. 5. gr. þeirra laga að ábyrgð ábyrgðasjóðs launa tæki til „kröfu viðurkennds lífeyrissjóðs um vangoldin lífeyrissjóðsiðgjöld“, sbr. c. lið málsgreinarinnar. Upphaf 1. mgr. 6. gr. laganna, sem var óbreytt frá 1. mgr. 5. gr. laga nr. 23/1985 að öðru leyti en því að ábyrgðasjóður launa var kominn í stað ríkissjóðs,  hljóðaði svo: „Eftirtaldir launþegar geta þó ekki krafið sjóðinn um greiðslu krafna skv. a–d-liðum 1. mgr. 5. gr.“ Á eftir kom upptalning í fjórum stafliðum, þar á meðal voru þeir sem sæti höfðu átt í stjórn gjaldþrota félags eftir að fjárhag þess tók verulega að halla, sbr. a. lið 1. mgr. 6. gr.

Samkvæmt 5. gr., sbr. 1. gr. laga nr. 88/2003 tekur ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa meðal annars til „kröfu lífeyrissjóðs um lífeyrisiðgjöld“ við gjaldþrot vinnuveitanda, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, sbr. d. lið 5. gr., sbr. og 4. gr. laganna. Í fyrri málslið 1. mgr. 10. gr. þeirra er tekið fram að „kröfur framkvæmdastjóra og stjórnarmanna hins gjaldþrota fyrirtækis njóta ekki ábyrgðar samkvæmt lögum þessum.“ Samkvæmt síðari málslið málsgreinarinnar gildir sama „um kröfur launamanns sem var eigandi, einn eða ásamt maka sínum eða öðrum nákomnum, að verulegum hlut í hinu gjaldþrota fyrirtæki og hafði umtalsverð áhrif á rekstur þess.“ Fram kom í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 88/2003 að með ákvæðum 10. gr. væru lagðar til ýmsar breytingar á efni þágildandi laga. Hefðu breyt­ingarnar það í för með sér að í mörgum tilvikum myndi afstaða til þess hvort krafa þeirra sem tengjast eigendum eða stjórnendum hins gjaldþrota fyrirtækis ráðast af huglægu mati, en í gildandi lögum væri að mestu byggt á hlutlægum reglum. Í athugasemdunum var ennfremur tekið fram, að því er varðaði sérstaklega stjórnarmenn, að gera mætti ráð fyrir að Ábyrgðasjóðnum yrði þrátt fyrir orðalag 1. mgr. 10. gr. heimilt að greiða kröfur þeirra í undantekningartilvikum. Mætti sem dæmi gera ráð fyrir að kröfuhafi gæti í einhverjum tilvikum sýnt fram á að skipan sín í stjórn félags hefði verið til málamynda og í raun aldrei ætlast til þess að hann skipti sér af störfum stjórnar. Lög nr. 88/2003 tóku gildi 10. apríl 2003. Samkvæmt fyrri málslið 2. mgr. 28. gr. laganna njóta kröfur í bú vinnuveitanda sem úrskurðaður var gjaldþrota fyrir gildistöku þeirra „ábyrgðar samkvæmt lögum um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, nr. 53/1993.“ Síðari málsliður málsgreinarinnar er svohljóðandi: „Ákvæði 10. gr. laga þessara taka þó strax gildi vegna krafna í bú vinnuveitanda sem úrskurðuð eru gjaldþrota fyrir gildistöku þessara laga leiði þau til hagstæðari niðurstöðu fyrir kröfuhafa.“ Í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 88/2003 var hnykkt á því að í hinu tilvitnaða ákvæði væri kveðið á um að 10. gr. skyldi taka strax gildi leiddi hún til hagstæðari niðurstöðu fyrir kröfuhafa en 6. gr. laga nr. 53/1993.

Hvorki í athugasemdunum né öðrum lögskýringargögnum kom fram að með setningu laga nr. 88/2003 hafi verið ætlunin að breyta þeirri reglu sem hafði verið lögfest allt frá árinu 1985 að undanþáguákvæði 6. gr. laga nr. 53/1993, sem tekin voru upp verulega breytt í 10. gr. laga nr. 88/2003, skyldu framvegis ekki taka til kröfu lífeyrissjóðs um vangoldin lífeyrissjóðsiðgjöld. Í ljósi þess verður gildistökuákvæði 2. mgr. 28. gr. laganna skýrt með þeim hætti að hinar þrengri reglur 10. gr. um það hverjir skuli falla undir undanþáguákvæðin hafi tekið gildi strax við gildistöku þeirra, að því tilskildu að þær leiði til hagstæðari niðurstöðu fyrir kröfuhafa. Að öðru leyti skulu kröfur í bú vinnuveitanda sem úrskurðaður var gjaldþrota fyrir gildistökuna, eins og E.S.G. ehf., njóta ábyrgðar samkvæmt lögum nr. 53/1993. Meðal þeirra er krafa lífeyrissjóðs um vangoldin lífeyrissjóðsiðgjöld samkvæmt c. lið 1. mgr. 5. gr. þeirra laga, nema um sé að ræða kröfu vegna einhvers þess sem talinn var upp í 6. gr. þeirra, sbr. upphafsákvæði þeirrar greinar, þó að teknu tilliti til hinna þrengri reglna 10. gr. laga nr. 88/2003 leiði þær til hagstæðari niðurstöðu fyrir þann sem hlut á að máli. Þegar af þessari ástæðu er ekki fallist á með áfrýjanda að taka beri kröfur hans gegn stefnda til greina á grundvelli þeirrar málsástæðu að samkvæmt orðalagi síðastgreindrar lagagreinar taki hún og þar með undanþáguákvæði hennar í engu til kröfu stefnda á hendur Ábyrgðasjóði launa.

V

Áfrýjandi var einn þriggja stjórnarmanna í E.S.G. ehf. og hvíldu þar af leiðandi á honum skyldur samkvæmt 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög eins og nánar er gerð grein fyrir í forsendum hins áfrýjaða dóms. Að auki var hann prókúruhafi félagsins. Að þessu virtu og með skírskotun til þess sem fram kemur í IV. kafla að framan verður talið að krafa stefnda vegna lífeyrissjóðsiðgjalda áfrýjanda hafi fallið undir 10. gr. laga nr. 88/2003. Samkvæmt því var Ábyrgðasjóði launa rétt að hafna þeirri kröfu stefnda á hendur sjóðnum og eru aðilar málsins bundnir af þeirri niðurstöðu. Aðrar málsástæður sem áfrýjandi hefur reist kröfur sínar á og ekki hefur verið sérstaklega leyst úr eru haldlausar, þar á meðal sú að stefndi hafi vanrækt að gæta hagsmuna áfrýjanda, sem sat í stjórn áðurnefnds félags og var prókúruhafi þess, við innheimtu kröfunnar á hendur félaginu.

Með skírskotun til þess sem að framan greinir verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Sigurfinns Geirs Eyvindssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.000.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2012.

I

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 15. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sigurfinni Geir Eyvindssyni, kt. 200469-3139, Kristnibraut 45a, Reykjavík, með stefnu, birtri 29. júní 2011, á hendur Sameinaða lífeyris­sjóðnum, kt. 620492-2809, Borgartúni 30, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þessar:

1.      Að viðurkennt verði með dómi, að framreikna beri lífeyrisréttindi stefnanda hjá stefnda í samræmi við ákvæði gr. 13.3 og 13.4 í samþykktum stefnda, dagsettum 30. júní 2010.

2.      Að viðurkennt verði með dómi, að stefnandi eigi, frá með 1. október 2003, rétt til greiðslu úr hendi stefnda á mismun á örorkulífeyri miðað við framreiknuð lífeyrisréttindi sín hjá stefnda, sbr. nú gr. 13.3. og 13.4 í samþykktum stefnda, dagsettum 30. júní 2010, og þeim örorku­lífeyri, sem stefndi hefur greitt honum, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá gjalddaga hverrar greiðslu.

3.      Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af dómkröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

II

Málavextir

Stefnandi tók sæti í stjórn hlutafélagsins E.S.G. HF. (síðar E.S.G. ehf.) á stofnfundi félagsins 21. september 1994. Var hann skráður fyrir 15% hlutafjár og fór með prókúru­umboð. Aðrir í stjórn félagsins voru móðir stefnanda, Anna Garðarsdóttir, sem var formaður félagsins, sem var skráð fyrir 60% hlutafjár, og Garðar Hugi Eyvindsson, bróðir stefnanda, sem skráður var fyrir 15% hlutafjárins. Átti stefnandi sæti í stjórn félagsins allt frá stofnun þess og þar til það var úrskurðað gjaldþrota þann 21. marz 2003. Skiptum lauk 3. júlí 2003.

Stefnandi vann við trésmíðar hjá E.S.G. ehf. frá september 1994 til og með júlí 1995 og aftur frá 12. desember 1997 til desember 2002 og þáði laun fyrir samkvæmt fyrirliggjandi launaseðlum. Frá byrjun árs 2001 og þar til félagið varð gjaldþrota í marz 2003 voru lífeyrissjóðsiðgjöld af launum stefnanda hjá félaginu ekki innt af hendi til stefnda, en fyrirliggjandi launaseðlar bera með sér, að iðgjöldin hafi verið dregin frá launum hans.

Í janúar 2003 sendi stefndi kröfur á hendur E.S.G. ehf. vegna vangoldinna iðgjalda starfsmanna. Stefndi lýsti kröfu í þrotabúið vegna iðgjalda fyrir stefnanda, Eyvind Sigurfinnsson, föður hans, og Garðar Huga, bróður hans, sem allir munu hafa verið á launaskrá hjá félaginu. Var kröfunni jafnframt lýst í Ábyrgðasjóð launa, sem hafnaði henni með bréfi, dagsettu 17. febrúar 2006. Var í þeim efnum vísað til 10. gr. laga um sjóðinn nr. 88/2003 sem og þess, að stefnandi, Garðar Hugi og Anna Garðarsdóttir, maki Eyvindar, hefðu öll setið í stjórn hins gjaldþrota félags. Ákvörðunin var ekki kærð til stjórnar Ábyrgðasjóðs launa. Lögmaður stefnda tilkynnti stefnda um innheimtulok 22. febrúar 2006. Munu áunnin réttindi stefnanda hafa, í kjölfarið, verið bakfærð í skrám stefnda.

Hinn 6. apríl 1994 varð stefnandi fyrir líkamstjóni í slysi. Sótti hann um örorku- og barnalífeyri til stefnda með umsókn, dagsettri 8. febrúar 1999. Með bréfi stefnda, dagsettu 25. marz 1999 var stefnanda tilkynnt, að ekki þætti tímabært að taka afstöðu til mats á orkutapi hans.

Stefnandi varð aftur fyrir slysi hinn 6. september 2003 og sótti öðru sinni um örorkulífeyri hjá stefnda hinn 23. febrúar 2004. Kvað hann þá verulega hafa dregið úr vinnugetu sinni frá því að hann varð fyrir slysinu 1994, og hefði hún farið ört minnkandi undangengin tvö ári. Umsókn stefnanda var hafnað með bréfi stefnda, dagsettu 27. apríl 2004, en var, eftir frekari skoðun, samþykkt hinn 16. júlí 2004. Samþykkti stefndi að greiða stefnanda lífeyri miðað við 100% orkutap frá 1. október 2003. Með bréfi stefnda, dagsettu 31. júlí 2009, var stefnanda tilkynnt, að orkutapið hefði verið endurmetið og væri 75% frá 1. ágúst 2009.

Með bréfi til stefnda, dagsettu 10. nóvember 2004, gerði stefnandi athugasemdir við greiðslu lífeyris til sín og óskaði skýringa á frádrætti af örorkulífeyri og því, hvers vegna hann fengi ekki greiddan barnalífeyri. Stefndi svaraði því með bréfi, dagsettu 18. nóvember 2004, að greiðslur til stefnanda væru út á áunnin stig. Þá fengi stefnandi ekki greiddan barnalífeyri, þar sem ekki væri um framreikning að ræða, en ástæða þess væri, að iðgjöld vegna áranna 2001 og 2002 og hluta árs 2003 hefðu ekki verið greidd. Á yfirliti, sem fylgdi bréfinu, kom fram, að engin iðgjöld hefðu verið greidd vegna áranna 2001 og 2002 og ekki fyrstu tvo mánuði ársins 2003.

Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dagsettu 8. september 2009, var óskað eftir því að stefndi tæki til endurskoðunar örorkulífeyrisgreiðslur sínar til stefnanda og tæki tillit til þeirra iðgjalda, sem dregin hefðu verið af honum á framangreindu tímabili en aldrei verið skilað til stefnda. Var í þeim efnum vísað til greinar 10.10 í samþykktum stefnda, sbr. 13. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Stefndi hafnaði erindi lögmanns stefnanda með bréfi, dagsettu 11. september 2009. Kvaðst stefndi ekki geta veitt réttindi út á þau iðgjöld, sem glatast hefðu við gjaldþrot E.S.G. ehf., þar sem Ábyrgðasjóður launa hefði hafnað kröfum stefnda um iðgjöld stefnanda, þar sem hann hefði verið í stjórn félagsins. Afstöðu stefnda var mótmælt með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 27. júlí 2010.

Ágreiningur aðila snýst um það, hvort meta eigi að fullu til réttinda þau iðgjöld, sem E.S.G. ehf. dró af stefnanda en skilaði ekki til stefnda á 26 mánaða tímabili frá og með janúar 2001 til og með febrúar 2003.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi vísar, kröfum sínum til stuðnings til 1. mgr. 15. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997, en samkvæmt greininni eigi sjóðfélagi rétt á örorkulífeyri, verði hann fyrir orkutapi, sem metið sé 50% eða meira, enda hafi hann greitt í lífeyrissjóð í a.m.k. tvö ár og orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Í 2. mgr. 15. gr. nefndra laga sé mælt fyrir um, að örorkulífeyrir skuli framreiknaður samkvæmt reglum, sem kveða skuli á í samþykktum lífeyrissjóðs. Það sé þó háð því, að sjóðfélagi hafi greitt til lífeyrissjóðs í a.m.k. þrjú ár á undanfarandi fjórum árum, þar af a.m.k. sex mánuði á síðasta 12 mánaða tímabili og hann hafi ekki orðið fyrir orkutapi, sem rekja megi til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna. Eigi sjóðfélagi hins vegar ekki rétt á framreikningi, skuli fjárhæð örorkulífeyris miðast við áunnin réttindi, sbr. 4. mgr. 15. gr.

Í gr. 13.1 í samþykktum stefnda sé kveðið á um rétt sjóðfélaga stefnda til örorkulífeyris. Eigi sá sjóðfélagi, sem verði fyrir orkutapi, sem talið sé nema 50% eða meira, rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum í samræmi við áunnin réttindi fram að orkutapi. Samkvæmt grein 13.5 í samþykktum stefnda skuli örorkulífeyrir vera sami hundraðshluti af hámarks­örorkulífeyri og orkutapið sé. Miðist hámark örorkulífeyris við áunninn lífeyrisrétt, að viðbættum lífeyri, sem sjóðfélagi hefði áunnið sér fram til 65 ára aldurs, enda hafi sjóðfélagi uppfyllt tilgreind skilyrði, sem séu hin sömu og í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997. Um framreikning réttinda sjóðfélaga, sem ekki hafi náð 65 ára aldri þegar hann verði fyrir orkutapi, fari nánar eftir ákvæðum gr. 13.4 í samþykktum stefnda.

Í 1. málsl. 2. mgr. 17. gr. greindra laga sé mælt fyrir um, að fullur barnalífeyrir skuli vera að lágmarki 5.500 kr. á mánuði með hverju barni örorkulífeyrisþega, en fjárhæðin breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neyzluverðs, miðaða við grunnvísitölu 173,5,  sbr. 3. málsl. 2. mgr. Nánari ákvæði um þessi efni, m.a. um útreikning og skilyrði fyrir greiðslu, skuli vera í samþykktum lífeyrissjóðs, sbr. 3. mgr. 17. gr. Samkvæmt gr. 14.2.3, sbr. gr. 14.2.2, í samþykktum stefnda öðlist barn sjóðfélaga, sem fætt sé fyrir orkutap, eða á næstu 12 mánuðum þar á eftir, rétt til barnalífeyris, sem nemi kr. 11.843, auk verðbóta, sbr. gr. 14.2.6. Skilyrði þess sé þó, að viðkomandi hafi greitt iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum, notið elli- eða örorkulífeyris eða öðlazt rétt til framreiknings. Réttur barnsins gildi til 18 ára aldurs, sbr. gr. 14.2.1. Barnalífeyrir sé greiddur lögráðamanni barns fyrir þess hönd, sbr. gr. 14.2.8. Samkvæmt framansögðu ætti dóttir stefnanda, Sigurdís Rós Sigurfinnsdóttir, kt. 191197-2919, rétt til barna­lífeyris frá stefnda að öllum skilyrðum uppfylltum.

Af hálfu stefnanda sé á því byggt, að hann hafi uppfyllt öll skilyrði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997 og gr. 13.3 í samþykktum stefnda fyrir framreikningi lífeyrisréttinda sinna. Enginn ágreiningur sé um, að orkutap stefnanda sé ekki að rekja til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna, sbr. c-lið gr. 13.3. Ágreiningur aðila snúist hins vegar um, hvort uppfyllt séu skilyrði a- og b-liðar gr. 13.3 um greiðslu iðgjalda til stefnda. Telji stefndi þau skilyrði ekki uppfyllt, þar sem Ábyrgðasjóður launa hafi hafnað kröfu stefnda um ábyrgð á kröfu hans vegna lífeyrissjóðsiðgjalda stefnanda.

Stefnandi bendi á, að samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 sé launagreiðanda skylt að halda eftir af launum iðgjaldshluta launþega í lífeyrissjóð og standa viðkomandi lífeyrissjóði skil á honum, ásamt sínum iðgjaldshluta. Réttur til lífeyris reiknist frá þeim tíma, sem iðgjald berist lífeyrissjóði, sbr. meginreglu 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 129/1997. Eftir sem áður skuli meta að fullu til réttinda frá eindaga iðgjaldagreiðslu, sem launagreiðandi hafi sannanlega innheimt en ekki staðið lífeyrissjóði skil á, svo og iðgjaldshluta hans, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 13. gr. Það sé þó háð því, að viðkomandi lífeyrissjóði hafi borizt vitneskja um iðgjaldsgreiðsluskyldu innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits samkvæmt 18. gr. laganna. Þetta sé áréttað í gr. 10.10 í samþykktum stefnda. Telji stefnandi samkvæmt þessu, að við útreikning örorkulífeyris hans hefði átt að taka tillit til þeirra iðgjalda, sem dregin hafi verið af honum hjá E.S.G. ehf. á árunum 2001 og 2002 og fyrir janúar og febrúar 2003. Að teknu tilliti til þeirra uppfylli stefnandi öll skilyrði til framreiknings lífeyrisréttar samkvæmt gr. 13.3 í samþykktum stefnda og beri því að taka kröfur hans til greina.

Í 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 129/1997 sé tekið fram, að lífeyrissjóður beri ekki ábyrgð á réttind­um sjóðfélaga vegna iðgjalda, sem glatist við gjaldþrot og Ábyrgðasjóður launa beri ekki ábyrgð á samkvæmt lögum um Ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Sé þetta sömuleiðis áréttað í 2. málsl. gr. 10.10 í samþykktum stefnda og í þeim efnum vísað til 6. gr. laga nr. 53/1993.

Samkvæmt a- og b-liðum laga um Ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota nr. 53/1993 hafi þeir launþegar, sem sátu í stjórn gjaldþrota félags eftir að fjárhag þess tók verulega að halla eða áttu 5% hlutafjár eða meira í félaginu, ekki getað krafið sjóðinn um greiðslu launa og annarra launatengdra greiðslna. Lög nr. 53/1999 hafi verið felld úr gildi með lögum um Ábyrgðasjóð launa nr. 88/2003. Um undanþágur frá ábyrgð sé nú fjallað í 10. gr. þeirra laga. Segi m.a. í 1. mgr. 10. gr., að kröfur stjórnarmanna njóti ekki ábyrgðar samkvæmt lögunum. Þá gildi hið sama um kröfur launamanns, sem hafi verið eigandi að verulegum hlut í hinu gjaldþrota fyrirtæki og hafi haft umtalsverð áhrif á rekstur þess. Í engu sé hins vegar vikið að kröfu lífeyrissjóðs um lífeyrisiðgjöld, sbr. d-lið 5. gr. laganna.

Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 88/2003, komi fram, að því fylgi ýmsar breytingar miðað við fyrri framkvæmd. Sé ljóst af athugasemdunum, að ekki hafi borið að skilja ákvæði 10. gr. með jafn fortakslausum hætti og áður hafði verið gert. Þannig segi m.a. í athugasemdunum:

Að því er varðar stjórnarmenn sérstaklega má gera ráð fyrir að sjóðnum verði þrátt fyrir orðalag 1. mgr. heimilt að greiða kröfur slíkra aðila í undantekningartilvikum. Má sem dæmi gera ráð fyrir að kröfuhafi geti í einhverjum tilvikum sýnt fram á að skipan sín í stjórn félags hafi verið til málamynda og í raun aldrei ætlast til þess að hann skipti sér af störfum stjórnar. Tilkynning til hlutafélagaskrár um skipan í stjórn mundi í slíkum tilvikum ekki ein og sér koma í veg fyrir að vangoldnar launakröfur hans nytu ábyrgðar sjóðsins.

Lög nr. 88/2003 hafi öðlazt gildi 26. marz 2003. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laganna skyldu kröfur í bú vinnuveitanda, sem úrskurðað hafi verið gjaldþrota fyrir gildistöku þeirra, njóta ábyrgðar samkvæmt lögum um Ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota nr. 53/1993. Ákvæði 10. gr. laga nr. 88/2003 skyldi þó taka strax gildi vegna krafna í bú vinnuveitanda, sem úrskurðað hafi verið gjaldþrota fyrir gildistöku laganna, leiddu þau til hagstæðari niðurstöðu fyrir kröfuhafa.

E.S.G. ehf. hafi orðið gjaldþrota fimm dögum fyrir gildistöku laga nr. 88/2003 eða 21. marz 2003. Sé því ljóst, að um efni þeirra krafna, sem leitt hafi getað til hagstæðari niðurstöðu fyrir stefnda og stefnanda, skyldu gilda ákvæði 10. gr. hinna nýju laga, en ekki lög nr. 53/1993.

Byggt sé á því af hálfu stefnanda, að synjun Ábyrgðasjóðs launa á kröfu stefnda vegna lífeyrisiðgjalda stefnanda hafi verið ólögmæt, enda verði hún hvorki byggð á 6. gr. laga nr. 53/1993 né 10. gr. laga nr. 88/2003. Taki undanþáguákvæði 10. gr. samkvæmt skýru orðalagi sínu eingöngu til krafna launamanna en ekki lífeyrissjóða. Hafi Ábyrgðasjóði launa því þegar af þeirri ástæðu borið að samþykkja kröfu stefnda vegna lífeyrisiðgjalda stefnanda. Af því leiði sömuleiðis, að stefnda beri að taka tillit til ógreiddra lífeyrisiðgjalda stefnanda árin 2001 og 2002 og fyrir janúar og febrúar 2003 við mat á lífeyrisrétti stefnanda.

Verði, þrátt fyrir framangreint, talið, að 10. gr. laga nr. 88/2003 um undanþágu frá ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa hafi átt við um kröfu stefnda vegna lífeyrisiðgjalda stefnanda, sé á því byggt af hálfu stefnanda, að aðstæður hafi verið með þeim hætti, að taka hefði átt kröfu stefnda að þessu leyti til greina.

Við mat á aðstæðum stefnanda verði að hafa í huga, að hann hafi verið skráður stjórnarmaður E.S.G. ehf. til málamynda og eigandi 15% hlutar í félaginu. Hafi hann gert þetta að beiðni foreldra sinna. Stefndi hafi hins vegar engin afskipti haft af rekstri eða stjórn félagsins, enda ekki til þess ætlazt af hálfu foreldra hans, heldur þvert á móti að hann kæmi þar hvergi nærri. Þá sé til þess að líta, að skráður eignarhlutur stefnanda í E.S.G. ehf. hafi verið óverulegur, en einn hluthafa hafi verið skráður fyrir ráðandi hlut í félaginu. Staða stefnanda innan E.S.G. ehf. hafi því ekki verið þess eðlis, að hann hefði haft, eða gæti haft, umtalsverð áhrif á rekstur þess. Hafi öll hans tengsl við fyrirtækið einkennzt af sambandi launþega og vinnuveitanda, og hafi aðkoma hans að félaginu einungis verið hugsuð til að fullnægja formskilyrðum laga fyrir stofnun þess.

Að svo miklu leyti sem 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa nr. 88/2003 um undanþágu frá ábyrgð sjóðsins hafi getað átt við um kröfu stefnda vegna lífeyrisiðgjalda stefnanda, sé ljóst af framangreindu, að öll efni hafi verið til þess af hálfu Ábyrgðasjóðs launa að láta kröfuna eftir sem áður njóta ábyrgðar sjóðsins. Hafi verið til þess full heimild að lögum. Þá hefði slíkt einnig verið í samræmi við meðalhófssjónarmið, sem sjóðnum hafi borið að gæta við ákvarðanatöku sína. Hafi og borið að túlka ákvæði 10. gr. að þessu leyti stefnda og stefnanda í hag, enda íþyngjandi ákvörðun fyrir báða aðila máls þessa. Þá verði ekki séð, að nein rannsókn hafi farið fram af hálfu Ábyrgðasjóðs launa á raunverulegum aðstæðum stefnda og tengslum hans við félagið, þrátt fyrir áðurnefnd lögskýringargögn. Verði því að telja, að ákvörðun Ábyrgða­sjóðs launa hafi verið ólögmæt og geti ekki ráðið úrslitum um lífeyrisrétt stefnanda. Af þessu leiði enn fremur, að stefnda beri að taka tillit til ógreiddra lífeyrisiðgjalda stefnanda árin 2001 og 2002 og fyrir janúar og febrúar 2003 við mat á lífeyrisrétti stefnanda.

Af hálfu stefnanda sé byggt á því, að stefndi sé óbundinn af ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa um að hafna ábyrgð á kröfu stefnda vegna lífeyrissjóðsiðgjalda stefnanda. Hafi stefnda bæði verið rétt og skylt að leggja sjálfstætt mat á það, hvort réttmætt væri og lögmætt af hálfu Ábyrgðasjóðs launa að hafna ábyrgð á kröfum stefnda vegna iðgjalda stefnanda, svo og hvort uppfyllt væru skilyrði a- og b-liða gr. 13.3 í samþykktum stefnda um greiðslu iðgjalda. Hafi stefnda bæði mátt vera ljóst að ákvörðun sjóðsins væri röng og ólögmæt, auk þess sem fullt tilefni hafi verið til þess að láta stefnanda njóta vafa um raunverulega stöðu hans innan E.S.G. ehf.

Þá telji stefnandi engu skipta um skyldu stefnda til að leggja sjálfstætt mat á framangreint, þótt ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa teldist hafa verið lögmæt að formi og efni til. Hafi stefnda eftir sem áður verið rétt, í ljósi aðstæðna, að leggja til grundvallar ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 13. gr. samþykkta sinna og taka tillit til iðgjalda vegna stefnanda á árunum 2001 og 2002 og fyrir janúar og febrúar 2003 við útreikning örorkulífeyris hans. Verði því að viðurkenna rétt stefnanda til framreiknings lífeyrisréttar samkvæmt samþykktum stefnda.

Stefnandi bendi jafnframt á, að af dskj. 22 verði ekki annað ráðið en að iðgjöld vegna tímabilsins janúar 2001 til og með febrúar 2003 hafi verið metin stefnanda að fullu til réttinda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 129/1997 og gr. 10.10 í samþykktum stefnda. Telji stefnandi það sýna fram á viðurkenningu stefnda á rétti stefnanda að þessu leyti og þeim sjónarmiðum, sem reifuð séu hér að framan. Sé byggt á því, að bakfærsla áunninna réttinda stefnanda hafi verið ólögmæt, enda geti stefndi ekki einhliða bakfært réttindin, eins og komi fram á dskj. 22, án þess að skýra þær aðgerðir út fyrir stefnanda og gefa honum kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og athugasemdum. Verði ákvörðun um lífeyrisrétt stefnanda því að miða við færð réttindi hans og beri því að viðurkenna rétt hans til framreiknings samkvæmt ákvæðum gr. 13.3 og 13.4 í samþykktum stefnda.

Á stefnda hafi hvílt sú skylda að innheimta vangoldin iðgjöld vegna stefnanda, sbr. 1. mgr. 28. gr. reglugerðar nr. 391/1998 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. a-lið 1. gr. reglugerðar nr. 224/2001. Hafi stefndi borið ábyrgð á fyrirkomulagi og framkvæmd innheimtu iðgjaldanna, sbr. 1. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 391/1998. Hafi honum verið skylt að hefja innheimtu vangoldinna iðgjalda án tafar, beita öllum tiltækum úrræðum í þeim efnum og halda innheimtu­aðgerðum áfram með eðlilegum hraða. 

Samkvæmt gr. 10.5 í samþykktum stefnda sé gjalddagi iðgjalda hvers mánaðar 10. næsta mánaðar. Berist greiðsla ekki innan þess mánaðar skuli vangoldin iðgjöld innheimt með dráttarvöxtum. Við lok þriggja mánaða vanskila á iðgjöldum skuli stefndi senda lokaaðvörun til launagreiðanda, sbr. gr. 10.6, og hefja formlega innheimtu vanskila innan 15 daga frá útsendingu aðvörunar.

Ljóst sé, að E.S.G. ehf. hafi ekki staðið skil á iðgjaldshluta stefnanda vegna 26 mánaða tímabils, frá janúar 2001 til og með febrúar 2003. Stefndi hafi ekki sent kröfu þar að lútandi í innheimtu fyrr en 21. janúar 2003, sbr. dskj. nr. 13. Telji stefnandi, að stefndi verði að bera ábyrgð á því að hafa ekki hafið innheimtuaðgerðir gegn félaginu fyrr. Beri stefndi þar með einnig ábyrgð á vafa um, hvort krafa stefnda vegna iðgjalda stefnanda hefði innheimzt fyrr, svo og því, að réttindi stefnanda hefðu væntanlega verið betri, að teknu tilliti til a- og b-liða gr. 13.3 í samþykktum stefnda, þar sem styttra hefði verið frá síðustu greiðslum. Verði að meta allan vafa í þessum efnum stefnanda í hag.

Þá sé jafnframt bent á, að stefndi hafi engan reka gert að því að leita frekari réttar vegna höfnunar Ábyrgðasjóðs launa á ábyrgð á kröfu stefnda vegna iðgjalda stefnanda. Hafi stefndi eða lögmaður hans ekki kært ákvörðun Ábyrgðasjóðsins um synjun á ábyrgð á kröfunni, en þeim hafi verið gerð grein fyrir kæruleiðum og kærufrestum í bréfi Ábyrgðasjóðs launa, dagsettu 17. febrúar 2006, sbr. dskj. nr. 20. Þess í stað hafi innheimtu verið hætt og krafan endursend stefnda 22. febrúar 2006, sbr. dskj. nr. 21. Þá hafi heldur ekki verið leitað til dómstóla. Að mati stefnanda verði stefndi einnig að bera allan halla af þeim vafa um rétt stefnanda, sem kunni að hafa hlotizt af þessu.

Framangreint leiði, að mati stefnanda, til þess eitt og sér, að fallast verði á kröfur stefnanda og viðurkenna rétt hans til framreiknings lífeyrisréttar hans.

Samkvæmt framansögðu telji stefnandi, að viðurkenna verði rétt hans til framreiknings lífeyris­réttinda hans í samræmi við ákvæði gr. 13.3 og 13.4 í samþykktum stefnda. Þá verði einnig að fallast á kröfu stefnanda um mismun á þeim lífeyri, sem hann hefði þá átt rétt á, og þeim lífeyri, sem stefndi hafi greitt honum. Jafnframt eigi stefnandi þá rétt á greiðslu dráttarvaxta á mismuninum í samræmi við ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá gjalddaga lífeyrisins, og beri að viðurkenna þann rétt hans.

Stefnandi vísi til stuðnings kröfum sínum til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997, einkum 7., 13., 15. og 17. gr., svo og reglugerðar nr. 391/1998 með síðari breytingum, einkum 20. og 28. gr. Jafnframt vísist til samþykkta stefnda, einkum 13. og 14. gr. Þá sé og vísað til laga um Ábyrgðasjóð launa nr. 88/2003, einkum 10. og 28. gr., og laga um Ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota nr. 53/1993, einkum 6. gr. Um dráttarvexti vísist til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum 5. og 6. gr. Kröfu sína um málskostnað styðji stefnandi við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988. Um varnarþing vísist til 33. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda

Stefndi krefst sýknu af dómkröfum stefnanda, þar sem stefnandi uppfylli hvorki skilyrði til að fá örorkulífeyri sinn framreiknaðan samkvæmt grein 13.4 í samþykktum stefnda, sbr. 2. mgr. 15. gr. lsl., né til að fá greiddan barnalífeyri samkvæmt grein 14.2.3, sbr. 1. mgr. 17. gr. lsl. Nánar tiltekið uppfylli stefnandi ekki það skilyrði í samþykktum stefnda að hafa innt af hendi iðgjöld til stefnda í tiltekinn tíma frá og með októbermánuði 2003, þegar stefnandi fór að fá örorkulífeyri frá stefnda. 

Samkvæmt grein 13.4 í samþykktum stefnda eigi sjóðsfélagar rétt á framreikningi réttinda, séu skilyrði greinar 13.3 uppfyllt. Samkvæmt síðarnefndu greininni, lið a), sé það skilyrði, að sjóðsfélagi hafi: „greitt iðgjöld til [stefnda] a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaksárum og a.m.k. 30.000 kr. hvert þessara ára.“ Stefnandi hafi orðið fyrir orkutapi árið 2003 og hefði því a.m.k. þurft að hafa greitt stefnda iðgjöld í þrjú ár á tímabilinu 1999 – 2002. Óumdeilt sé, að stefnda hafi ekki verið greidd iðgjöld vegna stefnanda á árunum 2001 og 2002. Stefnandi hafi því ekki uppfyllt skilyrði greinar 13.3, lið a), og hafi því verið hafnað að framreikna örorkulífeyri hans. Kröfu stefnanda um barnalífeyri hafi verið hafnað af sömu ástæðum, en samkvæmt grein 14.2.1 sé það skilyrði fyrir greiðslu barnalífeyris, að sjóðsfélagi hafi annað hvort greitt stefnda iðgjöld í a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum eða öðlast rétt til framreiknings samkvæmt grein 13.4. Óumdeilt sé, að stefnandi uppfylli hvorugt skilyrðið. Að framangreindu virtu beri að sýkna stefnda af dómkröfu stefnanda.

Varðandi tilvísun stefnanda til 2. málsl. 2. mgr. 13. gr. lsl., sbr. grein 10.10 í samþykktum stefnda, skuli tekið fram, að meginreglan sé sú, að réttindi til lífeyris miðist við það tímamark, þegar iðgjald berist lífeyrissjóði, sbr. 1. mgr. 13. gr. lsl. Þessi meginregla sé áréttuð í samþykktum stefnda, sbr. m.a. greinar 10.7, 10.10 og 11.3. Það sé í samræmi við þá meginreglu, að réttindi í lífeyrissjóði miðist fyrst og fremst við þær greiðslur (iðgjöld), sem séu inntar af hendi til sjóðsins, enda geti einstaklingur almennt ekki öðlazt réttindi í lífeyrissjóði án greiðslu iðgjalds. Í 2. málsl. 2. mgr. 13. gr. lsl. sé hins vegar gerð undantekning á framangreindri meginreglu. Undantekningin felist í því, að einstaklingur geti öðlazt réttindi í lífeyrissjóði miðað við það tímamark, þegar iðgjöld hans féllu í eindaga, sbr. 2. mgr. 7. gr. lsl., enda þótt launagreiðandi hans hafi ekki staðið skil á iðgjöldunum til lífeyrissjóðsins á réttum tíma. Undantekningin eigi hins vegar einungis við, hafi lífeyrissjóði verið tilkynnt um iðgjaldsskyldu launagreiðandans innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits, sem sé sent lífeyrissjóðsþega samkvæmt 18. gr. lsl. Undantekningin eigi hins vegar aldrei við, ef iðgjaldsgreiðslur launamanna glatist við gjaldþrot og fáist ekki greiddar úr Ábyrgðasjóði launa, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. lsl., sem sé svohljóðandi:

„Þó ber lífeyrissjóðurinn ekki ábyrgð á réttindum sjóðfélaga vegna þeirra iðgjalda sem glatast við gjaldþrot og ábyrgðasjóður launa ber ekki ábyrgð á samkvæmt lögum um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota.“

Iðgjöld, sem E.S.G ehf. bar að greiða stefnda vegna stefnanda, hafi glatazt við gjaldþrot félagsins og ekki fengizt greidd úr Ábyrgðasjóði launa í ljósi þess, að stefnandi hafi verið stjórnarmaður í félaginu. Engar iðgjaldsgreiðslur hafi því borizt stefnda vegna stefnanda á tímabilinu 2001 til 2003. Stefnandi hafi þar með ekki uppfyllt skilyrði greina 13.3 og 14.2.1 í samþykktum stefnda. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda. Þar sem iðgjaldsgreiðslur stefnanda hafi heldur ekki fengizt frá Ábyrgðasjóði launa, hafi stefnda jafnframt verið rétt að breyta áunnum réttindum stefnanda á dskj. 22 í samræmi við 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. lsl., en vakin sé athygli á því, að yfirlitið á dskj. 22 hafi aldrei verið sent sérstaklega til stefnanda.

Stefndi mótmæli þeirri málsástæðu stefnanda, að umrædd ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa hafi verið ólögmæt í ljósi þess, að stjórnarseta stefnanda í E.S.G ehf. hafi einungis verið til málamynda. Óumdeilt sé, að stefnandi hafi verið stjórnarmaður í E.S.G ehf., sem leitt hafi til þess að kröfur hans vegna gjaldþrots E.S.G ehf. hafi ekki notið ábyrgðar samkvæmt lögum nr. 88/2003, hvort sem það hafi verið krafa um laun eða lífeyrissjóðsiðgjöld. Þá sé óumdeilt, að E.S.G ehf. hafi verið í eigu stefnanda, móður hans og bróður. Ákvörðunin hafi því augljóslega verið í samræmi við áralanga framkvæmd sjóðsins, sem byggist á skýru orðalagi 10. gr. laga nr. 88/2003.

Í ljósi framangreindra tengsla stefnanda við E.S.G ehf. sé fráleitt að halda því fram, að stjórnarseta stefnanda hafi í raun einungis verið til málamynda. Fullyrðingum þess efnis sé því mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Stefnandi geti jafnframt ekki byggt rétt á meintri vanrækslu stefnda við að innheimta vangoldin iðgjöld frá E.S.G ehf. vegna stefnanda samkvæmt 1. mgr. 28. gr. reglugerðar nr. 224/2001. Stefnandi hafi verið í stjórn E.S.G ehf. og hafi því verið skylt að sjá til þess, að iðgjöldum hans yrði skilað til stefnda, sbr. 3. mgr. 7. gr. lsl. Stefnanda hafi jafnframt verið skylt að hafa eftirlit með bókhaldi félagsins og sjá til þess, að það væri í samræmi við lög og venjur, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Það hafi því staðið stefnanda nær að tryggja, að iðgjaldshluti hans yrði greiddur stefnda, eða að mótmæla ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, hafi það verið mat hans, að hún væri ekki í samræmi við lög. Stefndi geti því ekki borið ábyrgð gagnvart stefnanda á því, að lífeyrissjóðsiðgjöld hans hafi hvorki fengizt greidd við gjaldþrot E.S.G ehf. né úr Ábyrgðasjóði launa. Stefndi byggi einnig á því, að stefnandi hafi glatað öllum mögulegum réttindum sínum vegna tómlætis, en óumdeilt sé, að stefnandi hafi ekki gert athugasemdir við ákvörðun stefnda fyrr en rúmlega fimm árum eftir að hún var tekin.

Stefndi vísi til þeirra lagaákvæða, sem vísað sé til hér að framan. Málskostnaðarkrafa stefndu byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi, sem og Anna Garðarsdóttir, þáverandi stjórnarformaður E.S.G. ehf. og móðir stefnanda, Eyvindur Karl Sigurfinnsson, byggingameistari og faðir stefnanda, og Garðar Hugi Eyvindsson, þáverandi stjórnarmaður E.S.G. ehf. og bróðir stefnanda.

Stefnandi var einn þriggja stjórnarmanna í E.S.G. ehf. allt frá stofnun félagsins í september 1994 og þar til það var tekið til gjaldþrotaskipta í marz 2003 eða í hátt í 9 ár, og var hann einn af stofnendum þess. Sem stjórnarmaður í félaginu naut stefnandi réttinda og bar skyldur samkvæmt lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994. Í 1. mgr. 44. gr. laganna segir, að félagsstjórn fari með málefni félagsins og skuli annast um að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar, að félagsstjórn skuli annast um, að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Voru þessi atriði þannig hluti af skyldum þeim, sem stefnandi tók á sig, þegar hann gekk í stjórn félagsins. Þá var stefnanda jafnframt, sem stjórnarmanni félagsins, skylt að sjá til þess að E.S.G ehf. héldi eftir iðgjaldshluta af launum starfsmanna félagsins og stæði skil á honum til viðkomandi lífeyrissjóða, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Hvergi í lögum nr. 138/1994 er þess getið, eða ráð fyrir því gert, að þátttaka í stjórn geti verið til málamynda og án ábyrgðar stjórnarmanns, og er ekki fallizt á þau rök stefnanda, að hann hafi einungis verið í stjórninni til málamynda og þar af leiðandi hafi hann ekki borið skyldur þær, sem seta í stjórn einkahlutafélags leggur honum á herðar lögum samkvæmt. Hugleiðingar í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 88/2003, sem stefnandi vitnar til í stefnu um setu í stjórn félags til málamynda breyta engu þar um. Þá liggur fyrir, að stefnandi var með prókúru fyrir félagið og nýtti hana við innkaup í þágu þess.

Stefnandi var, eins og áður greinir, stjórnarmaður fyrirtækisins, hann átti 15% hlutafjár í félaginu og var að auki nátengdur öðrum eigendum og stjórnarmönnum þess. Bar Ábyrgðasjóður launa þannig ekki ábyrgð á iðgjaldskröfum vegna stefnanda, sbr. a-, b- og d-liði 6. gr. laga nr. 53/1993 um Ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, sem og 10. gr. laga nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa, en ekki liggur annað fyrir en að ákvörðun Ábyrðasjóðs launa hafi verið tekin á málefnalegan hátt, og hefur henni ekki verið hnekkt. Með því að stefnandi uppfyllti þannig ekki skilyrði gr. 13.3 í samþykktum stefnda, bar stefndi ekki ábyrgð á réttindum stefnanda vegna ógreiddra iðgjalda, sem glötuðust við gjaldþrot félagsins, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 129/1997 og gr. 10.10 í samþykktum stefnda.

Málatilbúnaður stefnanda lýtur að einhverju leyti að greiðslum barnalífeyris, en með því að sú krafa kemur ekki fram í kröfugerð stefnanda, verður ekki fjallað nánar um þann þátt hér.

Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda samkvæmt gjafsóknarleyfi dómsmála- og mannréttinda­ráðuneytisins, dags. 26. maí 2010, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, kr. 770.000. Við ákvörðun málskostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskatts.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, er sýkn af kröfum stefnanda, Sigurfinns Geirs Eyvindssonar.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, kr. 770.000.