Hæstiréttur íslands
Mál nr. 378/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 19. ágúst 2002. |
|
Nr. 378/2002. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík |
|
|
(Katrín Hilmarsdóttir fulltrúi) |
|
|
gegn |
|
|
X |
|
|
(Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. ágúst 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. ágúst 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16.00 miðvikudaginn 4. september nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. ágúst 2002.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, kt. [ ] [ ], Reykjavík, verði með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 4. september 2002 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að málsatvik eru þau að föstudaginn 2. ágúst kl. 11.08 hafi lögreglunni í Reykjavík borist tilkynning um blóðugan og ölvaðan mann sem studdur væri af tveim bræðrum við Skeljagranda 4 í Reykjavík. Nokkrum mínútum síðar hafi lögreglunni borist tilkynning um að tveir menn hefðu ýtt manni yfir grindverk við leikskólann Gullborg, Rekagranda 14, og taldi tilkynnandi að hugsanlega væri um lík að ræða. Er lögreglumenn hafi komið á vettvang hafi þeir fundið mikið slasaðan mann sem lá á leikskólalóðinni. Hafi þar reynst vera um að ræða S, kt. [ ]. Hafi hann verið fluttur í skyndi á slysa- og bráðadeild Landspítala í Fossvogi. Synir kærða, A og B, hafi verið handteknir við bensínafgreiðslu við Austurströnd á Seltjarnarnesi kl. 12:36 í kjölfar árásar á annan mann við verslunarmiðstöðina við Eiðistorg. Kærði hafi verið handtekinn við Eiðistorg skömmu síðar og hafi hann þá verið með áverka í andliti og alblóðugur.
Lögreglan hafi rætt við nokkur vitni í málinu. Fram hafi komið að mikil læti hafi borist frá íbúð að Skeljagranda 4 þar sem synir kærða búi aðfaranótt föstudagsins. Telji vitni að þessi hávaði hafi líkst því að um slagsmál hafi verið að ræða, húsgögn hafi verið færð til og mikill köll og læti hafi borist frá íbúðinni. Kærði hafi að eigin sögn dvalið í íbúðinni hjá sonum sínum og hafi hann verið í íbúðinni aðfaranótt föstudagsins. Eitt vitni sem farið hafi út úr húsinu snemma morguns kvaðst hafa séð blóð á svalagólfi fyrir framan íbúðina. Við vettvangsrannsókn lögreglu í íbúðinni hafi komið í ljós að þar var mikið blóð m.a. á veggjum og gólfum. Í íbúðinni hafi lögreglumenn fundið skilríki S. Vitni sem þekki syni kærða í sjón hafi borið að það hafi séð þá henda manni yfir girðingu við lóð leikskólans. Kærði neitar sök.
Samkvæmt bráðabirgðaáverkavottorði Einars Hjaltasonar, læknis á slysa- og bráðasviði Landspítala í Fossvogi, hafi S reynst við komu á spítalann vera með mjög alvarlega áverka aðallega á höfði, auk þess sem hann hafi verið skorinn eða stunginn víða um líkamann. Fram komi í vottorðinu að röntgenmyndir hafi sýnt blæðingu í heila og brot á andlitsbeinum og tekið fram að erfitt sé að meta afleiðingar árásarinnar að svo komnu. Þá liggi fyrir í málinu læknisvottorð Arons Björnssonar, sérfræðings á heila- og taugaskurðdeild spítalans, þar sem fram komi að S hafi verið með lífshættulega áverka en lífshættu hafi verið afstýrt með skurðaðgerð sem hann gekkst undir á spítalanum þann 2. ágúst sl.
Lögreglan kveður rannsókn máls þessa miða vel áfram. Miklu sé hins vegar ólokið og afla þurfi frekari gagna í þágu rannsóknar málsins. Fyrir liggi að taka þarf mun ítarlegri skýrslur af sakborningum í málinu en mikið ber í milli í framburði þeirra. Þá liggi fyrir að lögreglan á eftir að taka skýrslur af vitnum í málinu. Ekki hafi reynst unnt að taka skýrslu af S. Þann 7. ágúst sl. var gerð tilraun til að taka af honum skýrslu en hann reyndist ekki vera í stakk búinn til skýrslutöku þar sem hann sé enn mjög eftir sig eftir atvik þetta. Þá liggi mikil vinna fyrir tæknideild embættisins en hún hafi nýlokið við að rannsaka íbúð kærða. Blóðsýni úr kærðu og brotaþola voru send til Noregs þar sem framkvæmd verður DNA samanburðarrannsókn á þeim lífsýnum sem fundust í fatnaði og á vettvangi. Ekki er loku fyrir það skotið að bráðabirgðaniðurstöður þeirrar rannsóknar liggi fyrir í byrjun næstu viku.
Lögreglan kveður kærði liggja undir rökstuddum grun um að hafa í félagi við aðra menn ráðist á S og misþyrmt honum á hrottafenginn hátt í íbúð sem kærði hafi dvalið í umrædda nótt. S hafi síðan verið hent yfir girðingu við leiksvæði í nágrenninu þar sem hann hafi verið skilinn eftir. Ef kærði haldi frelsi sínu hafi hann tök á því að torvelda rannsókn málsins svo sem með því að hafa áhrif á vitni og samseka. Beri því brýna nauðsyn til þess að hann sæti gæsluvarðhaldi meðan rannsókn málsins fari fram.
Lögreglan í Reykjavík kveðst vera að rannsaki ætlað brot kærða sem á þessu stigi málsins sé talið varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.
Kærði hefur neitað sök og mótmælt kröfunni um gæsluvarðhald.
Með vísun til þess sem að framan var rakið úr greinargerð lögreglustjóra og með vísun til rannsóknargagna, sem lögð hafa verið fyrir dóminn, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa átt þátt í árásinni á S. S varð fyrir alvarlegum áverkum og er rannsókn málsins ekki lokið. Dómurinn fellst á það með lögreglustjóra að kærði gæti spillt rannsókn málsins hefði hann óskert frelsi. Það er því fallist á kröfu lögreglustjóra og skal kærði sæta gæsluvarðhaldi eins og krafist er með heimild í a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], [...], Reykjavík, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 4. september 2002 kl. 16.00.