Hæstiréttur íslands
Mál nr. 591/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 10. september 2013. |
|
Nr. 591/2013.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Snorri Sturluson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. september 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. september 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. október 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá 22. ágúst til 4. september 2013.
Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili undir sterkum grun um aðild að brotum gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot gegn þeirri lagagrein getur varðað fangelsi allt að 16 árum. Eru brot varnaraðila þess eðlis að fullnægt er því skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. október 2013 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. september 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. október 2013, kl. 16:00, á grundvelli 2. mgr. 95. gr., laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Í greinargerð lögreglustjóra segir:
,,Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 22. ágúst sl. á grundvelli rannsóknarhagsmuna, en hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald við Héraðsdóm Reykjaness, sbr. R-592/2013. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur haft til rannsóknar eftirfarandi mál er varðar líkamsárásir og frelsissviptingu, en gefin var út handtökuskipan þann 16. júlí sl. af dómara á hendur kærða, en kærði hafði farið til Danmerkur samkvæmt upplýsingum lögreglu eftir að ætluð brot höfðu átt sér stað. Kærði var síðan handtekinn 21. ágúst í Kaupmannahöfn eftir að hann hafði gefið sig fram við sendiráðið. Kærði er nú undir sterkum grun um eftirgreind brot, en lögreglustjóri hefur nú sent neðangreind mál til meðferðar hjá Ríkissaksóknara.
(Mál lögreglu nr. 007-2013-34385) frelsissvipting og líkamsárás. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar ætlaða frelsissviptingu og líkamsmeiðingar gegn A aðfaranótt mánudagsins 1. júlí sl. Sama dag 1. júlí sl. var lögregla kölluð að slysadeild Landsspítala þar sem A og faðir hans voru staddir þar, en þar tjáði hann lögreglu að hann hefði orðið fyrir líkamsárás, frelsissviptingu og verið byrlað lyf gegn vilja sínum. Samkvæmt upplýsingum lögreglu var A illa útleikinn, bólginn og blóðugur í framan og undir áhrifum lyfja.
Meintur brotaþoli, A, lýsti atvikum með þeim hætti að hann hafi verið sofandi heima hjá sér að [...] þegar dyrabjöllunni hafi verið hringt og honum tjáð í gegnum dyrasímann að þetta væri „B“ vinur hans. Er hann opnaði hurðina ruddust inn í íbúðina meðkærðu og kærði X. Hafi þeir lamið hann með kylfum og gert honum ljóst að fara ætti með hann eitthvert. Þá hafi meðkærði þrýst hníf upp að síðu hans og tjáð honum að hann yrði stunginn myndi hann reyna að flýja. Í kjölfarið hafi verið farið með hann að [...] þar sem meðkærði beið eftir honum við bifreiðastæði. Kvaðst brotaþoli þá hafa áttað sig á ástæðu þess að hann hafi verið sóttur, þ.e. að hann hafði stundað kynlíf með barnsmóður meðkærða. Kvað hann meðkærða hafa slegið sig um leið og hann steig út úr bifreiðinni og síðan var farið með hann í íbúðina þar sem hann hitti fyrir annan brotaþola, C. Í [...] var grófu ofbeldi beitt þar sem brotaþoli var skorinn og stunginn og barinn, m.a. af kærða. Kvað hann síðan meðkærða hafa ákveðið að fara með hann að [...] í [...], þar sem kærði ásamt meðkærðu voru keyrðir. Er þangað var komið kvað brotaþoli, A að ofbeldið hafa hafist að nýju og fljótlega færst í aukana. Hafi þeir lamið hann með kylfum og bundið hann að fyrirskipan meðkærða þannig að hann lá á maganum með hendur fyrir aftan bak og héldu þeir þannig áfram að lemja á honum. Hafi meðkærðu og kærði síðan afklætt hann, sprautað rakspíra á bringuna og kveikt í. Gerðu þeir síðan það sama við kynfæri hans. Hafi hann við það hreyft sig í þeim tilgangi að slökkva logann en þá hafi þeir tveir látið höggin dynja á honum. Meðkærði hafi síðan á milli högga spurt hann um barnsmóður sína. Þá kvað hann meðkærða hafa lamið sig með kylfu í andlitið þannig að efri vör hans rifnaði og framtönn brotnaði og hafi kærði þá geta talið sig geta saumað þetta aftur á brotaþola og hefur kærði játað. Hafi meðkærði síðan þvingað hann til að gleypa heila lúka af óþekktum pillum og kærði X sprautað hann í rassinn með óþekktu lyfi, sem og hann gerði. Hafi þeir því næst farið að lemja hann með beltum í bakið en kærði hafi svo loks farið með hann inn á baðherbergi til að þrífa af honum blóð, en haldið barsmíðunum jafnframt áfram. Í kjölfarið hafi hann svo verið færður að nýju í bifreið og kvað hann meðkærða og kærða X hafa ekið með sig að [...] á [...], þar sem kærði þekkti til húsráðanda, en þar var misþyrmingunum haldið áfram, en þar hefðu þeir m.a. slegið A með belti í bakið og gengið í skrokk á honum og í framhaldinu afklætt og sett hann í svarta ruslapoka niður í kjallara hússins og þar hefði hann verið keflaður og bundinn við staur, en kærðu síðan yfirgefið vettvang, en hann var svo loks leystur af húsráðanda og gat þá haft samband við föður sinn sem kom að sækja hann í söluskála á [...].
Í skýrslutökum af meðkærðu kom fram að kærði hafi verið staddur í íbúðinni að [...],[...] og tekið þátt í árásinni, frelsissviptingunni að [...] og ofbeldinu að [...] á [...].
Samkvæmt læknisvottorði hlaut A brotna framtönn, marga yfirborðsáverka á höfði, öxl og upphandlegg og opið sár á vör og munnholi auk margra rispa og sára, og brotasprungu og dældun í nefbeini. Þá benda áverkar til að brotaþoli hafi mátt þola misþyrmingar og pyntingar samkvæmt áverkavottorði.
Þá benda gögn sem lögregla hefur aflað um símtæki kærða að hann hafi verið staddur bæði að [...] og [...] og [...] á umræddum tíma.
(Mál lögreglu nr. 007-2013-34747, sameinað fyrra málinu) líkamsárás og frelsissvipting.
Brotaþoli í málinu, C, lýsti atvikum þannig að hann hafi verið að skemmta sér helgina 28. 30. júní ásamt meðkærða. Að kvöldi sunnudagsins hafi hann svo tjáð meðkærða, er þeir voru staddir í gleðskap að [...] í Reykjavík, að áðurgreindur brotaþoli A hefði átt í kynferðislegu sambandi með barnsmóður meðkærða. Við þær fréttir hafi meðkærði reiðst mikið og ráðist að C með því að slá hann hnefahögg í andlitið. Því næst var hann neyddur upp í bifreið og ekið með hann að [...], þar sem meðkærði tók aftur á móti honum með hnefahöggum og neyddi hann upp í aðra bifreið sem ók með hann til baka að [...]. Á meðan akstrinum stóð kvað hann meðkærða hafa stungið hann nokkrum sinnum með eggvopni. Er hann kom svo aftur í íbúðina að [...] kvað hann ofbeldið hafa stigmagnast og að það hafi verið meðkærðu og kærði sem hefðu slegið hann. Lýsti hann því að hann hafi verið kýldur í andlitið nokkrum sinnum, og hafi kærði þar haft sig í frammi. Þá hafi hann verið laminn í hnéskeljar og handabök líklega með hafnaboltakylfu. Þá hafi hann verið laminn með minni kylfu í andlitið, og taldi að hann hafi kinnbeinsbrotnað við það. Þá hafi þeir notað skæri og heimatilbúinn hníf eða rakvélablað til að stinga hann í höfuðið og klippa í eyrun á honum. Þá kvað hann meðkærða hafa stungið sig 3-4 sinnum með notaðri sprautunál, á meðan meðkærði hélt honum niðri. Loks hafi meðkærði skipað honum að fara í sturtu til að þrífa af sér blóð og í kjölfarið hafi hann farið með hópnum að [...] í [...], þar sem ofbeldið hefði haldið áfram. Það hafi svo verið mánudagsmorguninn sem hann hafi yfirgefið vettvang, en honum var ekið aftur að [...] og leitaði skjóls hjá vini sínum uns lögregla hafði samband við hann.
Brotaþolinn A kvaðst hafa séð C er komið var með A í íbúðina að [...] og lýsti hann því að C hafi augljóslega orðið fyrir barsmíðum og að hann hafi verið skelkaður að sjá.
Í skýrslutökum yfir meðkærðu, kom fram að kærði og meðkærðu hafi verið gerendur í öllu ofbeldinu og að kærði hafi kýlt C högg í andlitið og meðkærðu stungið hann nokkrum sinnum með skrúfjárni. Vitni lýstu einnig ofbeldinu að [...] og að kærði hafi þar tekið þátt í grófu ofbeldi. Samkvæmt læknisvottorði hlaut C m.a. brot á augntóftargólfi og á kinnbeini og marga fleiri áverka.
Eins og lýst er hér að framan og gögn málsins bera með sér, er kærði nú undir sterkum grun að hafa í félagi við meðkærðu framið tvær stórhættulegar líkamsárásir og frelsissviptingu, en rannsókn hefur leitt í ljós að bæði brotin megi rekja til þess að annar brotaþola á að hafa átt í kynferðislegu sambandi við barnsmóður meðkærða og virðist því sem um hefndarverk af hálfu hans hafi verið um að ræða með þátttöku kærða og fleiri meðkærðu. Kemur það heim og saman við lýsingar brotaþola um að kærði hafi haft sig í frammi við beitingu ofbeldis.
Þau brot sem kærði er undir sterkum grun um varða við 2. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en við árásina var notast við kylfur, hnífa, skrúfjárn, notaðar sprautunálar og tangir auk þess sem kveikt var í líkama brotaþola með því að notast við rakspíra. Var umræddum tækjum beitt með hættulegri aðferð en kylfuhögg beindust m.a. að höfði og hefði árásin því hæglega getað haft alvarlegt líkamstjón í för með sér. Þá er enn hætta á að brotaþolar hafi smitast af alvarlegum smitsjúkdómum er þeir voru stungnir með notuðum sprautunálum, sem og kærði hefur játað að hafa saumað vörina á annan brotaþola. Kærði er því undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varða allt að 16 ára fangelsi, sbr. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Kærði er nú undir sterkum grun um alvarlega líkamsárás og frelsissviptingu, í félagi við fleiri aðila, en um er að ræða mjög alvarleg og svívirðileg brot og telur lögregla að miklir hagsmunir séu í húfi og að hætta stafi af kærða og áframhaldandi gæsluvarðhald sé því nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, enda eðli brotanna þess háttar að það kunni að særa réttarvitund almennings fái hann að vera frjáls ferða. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga 88, 2008 um meðferð sakamála, er þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram og er því ítrekuð sú krafa að kærða verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 2. október nk. kl. 16.00.“
Kærði er undir rökstuddum grun um alvarleg brot, sem varðað geta allt að 16 ára fangelsi. Kærði er undir sterkum grun um að hafa staðið í félagi með öðrum að mjög alvarlegri og grófri líkamsárás og frelsissviptingu af þeirri stærðargráðu að það særi réttarvitund almennings að hann gangi frjáls ferða sinna fram að uppsögu dóms í máli hans. Með vísan til framangreinds er fullnægt skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og er því fallist á kröfu lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. október 2013, kl. 16.00.