Hæstiréttur íslands

Mál nr. 367/2014


Lykilorð

  • Aðildarskortur


Dómsatkvæði

                                                                                               

Fimmtudaginn 18. september 2014.

Nr. 367/2014.

Þverholt ehf.

(Eiríkur Gunnsteinsson hrl.)

gegn

Mjólkurbúinu ehf.

(enginn)

Aðildarskortur.

Þ ehf. krafði M ehf. um greiðslu á fjórum reikningum vegna mjólkurkaupa síðarnefnda félagsins í janúar 2012. M ehf. viðurkenndi að félagið skuldaði umkrafða fjárhæð en hélt því á hinn bóginn fram að viðsemjandi félagsins hefði verið V ehf. en ekki Þ ehf. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að á árinu 2011 hefði M ehf. keypt mjólk af V ehf. og hefði síðarnefnda félagið jafnframt flutt vöruna til M ehf. og sent reikninga vegna viðskiptanna. Hefði Þ ehf. ekki sýnt fram á að komist hefði á samkomulag um að viðskiptin á árinu 2012, sem deilt var um í málinu, hefðu verið á milli Þ ehf. og M ehf. líkt og fyrrnefnda félagið hélt fram. Var M ehf. því sýknað af kröfunni á grundvelli aðildarskorts.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. maí 2014. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.186.137 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 515.185 krónum frá 2. janúar 2012 til 8. sama mánaðar, af 1.081.616 krónum frá þeim degi til 15. sama mánaðar, af 1.543.989 krónum frá þeim degi til 23. sama mánaðar, en 2.186.137 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að líta svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms. Áfrýjanda var með bréfi Hæstaréttar 11. júlí 2014 veittur frestur til 23. sama mánaðar í því skyni að ljúka gagnaöflun í málinu. Til samræmis við fyrrgreint lagaákvæði er kveðinn upp dómur í málinu án munnlegs málflutnings.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Málskostnaður dæmist ekki fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 27. febrúar 2014.

       Mál þetta var þingfest 29. maí 2013 og tekið til dóms 30. janúar sl.

       Stefnandi er Þverholt ehf., Þverholtum, Borgarnesi en stefndi er Mjólkurbúið ehf., Eyrartröð 2, Hafnarfirði.

       Stefnandi gerir þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða skuld að fjárhæð 2.186.137 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 515.185 krónum frá 2. janúar 2012 til 8. janúar 2012, af 1.081.616 krónum frá þeim degi til 15. janúar 2012, af 1.543.989 krónum frá þeim degi til 23. janúar 2012 en af 2.186.137 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

       Af hálfu stefnda er krafist sýknu.

I

                Stefnandi rekur kúabú í Borgarfirði en stefndi framleiðir vörur úr mjólk fyrir neytendamarkað. Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi keypt mjólk af stefnanda samkvæmt fjórum reikningum, sem eru dagsettir í janúar 2012, samtals að fjárhæð 2.186.137 krónur, sem er stefnufjárhæð máls þessa. Stefndi viðurkennir að skulda umkrafða fjárhæð vegna mjólkurkaupa en hann aftur á móti standi ekki í skuld við stefnanda málsins heldur afurðastöðina Vesturmjólk ehf. sem hafi selt honum mjólkina.

                Málavextir eru að öðru leyti þeir að stefnandi lagði inn mjólk hjá afurðastöðinni Vesturmjólk ehf. ásamt fleiri kúabúum. Mjólkurbíll á vegum Vesturmjólkur ehf. sótti mjólkina til stefnanda og flutti hana til Vesturmjólkur ehf. til vinnslu. Stefndi hóf viðskipti við Vesturmjólk ehf. á árinu 2011. Viðskiptin gengu þannig fyrir sig að mjólkurbíll á vegum Vesturmjólkur ehf. keyrði mjólkina til stefnda og sendi síðan stefnda reikning vegna kaupanna. Gekk svo á árinu 2011.

                Halla fór undan fæti í rekstri Vesturmjólkur ehf. á árinu 2012 og varð fyrirtækið gjaldþrota 4. febrúar 2013. Af gögnum málsins má ráða að Vesturmjólk ehf. hafi í raun verið hætt rekstri snemma árs 2012, sbr. framlagðan póst fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Gylfa Árnasonar, dags. 29. febrúar 2012. Stefndi fékk afhentar fjórar mjólkursendingar í janúar 2012, sem deilt er um í málinu, og flutti mjólkurbíll Vesturmjólkur ehf. farminn til stefnda. Sem áður sagði heldur stefnandi því fram að komist hafi á samningssamband milli aðila vegna þessara fjögurra sendinga. Sagði Andri Þórsson, fyrrverandi rekstrarstjóri stefnanda, í skýrslu sinni fyrir dómi að Gylfi Árnason hafi stungið upp á því við hann að mjólkin yrði seld beint til stefnda vegna þess að Vesturmjólk ehf. væri komin í mikil vanskil við stefnanda. Gylfi hafi boðist til þess að tala við Ólaf Magnússon, framkvæmdastjóra stefnda, og sagt Andra að Ólafur hefði samþykkt þessa breytingu á viðskiptunum. Gylfi kom ekki fyrir dóm til að gefa skýrslu. Fyrir dómi sagði Ólafur að þetta væri alrangt. Engin umræða hafi farið fram um þetta efni og hann ekki vitað betur en að umræddar fjórar mjólkursendingar kæmu beint frá Vesturmjólk ehf. Í tölvupósti Gylfa Arnarsonar til Ólafs Magnússonar 29. febrúar 2012, þar sem fjallað er um útistandandi skuldir stefnda við Vesturmjólk ehf., segir Gylfi að stefnandi muni reikningsfæra stefnda beint á árinu 2012 þar sem Vesturmjólk sé í raun hætt rekstri og gjaldþrota.

                Í málinu leggur frammi bréf skiptastjóra þrotabús Vesturmjólkur ehf. þar sem fram kemur m.a. að samkvæmt færðu bókhaldi félagsins rekstrarárið 2012 hafi engin mjólkursala verið reikningsfærð í viðskiptum milli Vesturmjólkur ehf. og stefnda á rekstrarárinu 2012.

Um gjalddaga kröfunnar vísar stefnandi til meginreglu 49. greinar laga nr. 50/2000. Krafa um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

                Varðandi varnir stefnanda á grundvelli aðildarskorts tekur stefnandi fram að stefndi hafi ekki gert athugasemd við kröfu stefnanda fyrr en innheimta hófst. Fyrirsvarsmanni stefnda hafi verið fullkunnugt um að stefnandi myndi reikningsfæra vöruna vegna fjögurra farma í janúar 2012. Stefndi hafi í raun viðurkennt kröfuna í bréfi 27. nóvember 2012 þegar hann hafi óskað eftir samkomulagi við stefnanda um greiðslu skuldarinnar.

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi aldrei átt viðskipti við stefnanda, hvorki fyrr né síðar. Stefndi geti aldrei fallist á að sú ábyrgð, að markaðsfæra mjólk utan greiðslumarks á innanlandsmarkaði, verði færð á hendur stefnda þar sem slík ábyrgð geti skapað félaginu refsiábyrgð og varði við lög. Stefndi hafi ekki með höndum sýnatöku eða eftirlitsskyldu með innleggjendum, enda félagið ekki í beinum afurðaviðskiptum við bændur. Félagið hafi því engan búnað til slíkra rannsókna eða flutningstæki fyrir mjólkina en mjólkin hafi öll verið flutt með mjólkurbíl Vesturmjólkur ehf. og afhent af starfsmönnum þess fyrirtækis. Þá hafi pantanir á mjólkinni verið sendar til Vesturmjólkur ehf. og greiðslur ævinlega verið sendar inn á reikning Vesturmjólkur ehf.

                Skýrlega hafi komið fram í málinu að verið sé af hálfu stefnanda að bjarga verðmætum eftir á þegar í ljós var komið að krafan hefði ellegar tapast við gjaldþrot Vesturmjólkur ehf. Vesturmjólk hf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota og því sé stefnandi hugsanlega að skjóta undan eignum ef þetta verði látið ganga eftir.

II

                Eins og að framan er rakið átti stefndi í viðskiptum við Vesturmjólk ehf. í Borgarnesi sem var afurðastöð í skilningi 2. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Bú Vesturmjólkur ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 4. febrúar 2013. Stefndi viðurkennir að skulda Vesturmjólk ehf. umkrafða fjárhæð en hafnar því að stefnandi sé eigandi kröfunnar.

                Viðskipti stefnanda og Vesturmjólkur ehf. stóðu yfir á árinu 2011 og með þeim hætti að stefndi keypti mjólk af Vesturmjólk ehf. sem flutti vöruna til stefnda í Hafnarfirði og gerði stefnda jafnframt reikning fyrir viðskiptunum. Í janúar 2012 tók stefndi með sama hætti og áður á móti mjólk í fjögur skipti og er deilt um þá farma í málinu. Starfsmaður Vesturmjólkur ehf. flutti einnig þá mjólk til stefnda á mjólkurbíl Vesturmjólkur ehf.        Stefnandi heldur því fram að samið hafi verið um breytt fyrirkomulag á viðskiptunum varðandi fjóra síðustu farmana sem afhentir voru í janúar 2012. Fyrrverandi framkvæmdastjóri Vesturmjólkur ehf., Gylfi Árnason, hafi haft milligöngu um það og fengið samþykki fyrirsvarsmanns stefnda, Ólafs Magnússonar, fyrir því að mjólkin yrði í janúar 2012 seld beint til stefnda án milligöngu Vesturmjólkur ehf. Fyrirsvarsmaður stefnda hafnar þessari staðhæfingu stefnanda og segir að aldrei hafi verið rætt við hann um þetta efni. Gylfi kom ekki fyrir dóm til skýrslugjafar. Gegn andmælum stefnda telst fullyrðing stefnanda ósönnuð um að komist hafi á munnlegur samningur um kaup stefnda á mjólk beint frá stefnanda.

Í málinu liggur frammi sundurliðað yfirlit yfir skuld stefnda við Vesturmjólk ehf. sem Gylfi sendi Ólafi 2. febrúar 2012. Kemur ekki fram í þessu yfirliti eða öðrum gögnum málsins að stefnandi sé eigandi kröfunnar. Samkvæmt skjölum málsins var það ekki fyrr en 29. febrúar 2012 sem það kemur fram hjá Gylfa í tölvupósti til Ólafs að stefnandi muni reikningsfæra stefnda fyrir umþrættri skuld vegna þess að Vesturmjólk ehf. sé „í raun hætt rekstri og gjaldþrota.“

Þegar framangreint er virt þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að hann hafi eignast kröfuna með framsali eða sé á annan hátt réttur aðili að málinu.

                Engu skipti þótt stefndi hafi 27. nóvember 2012 sent stefnanda ósk um að gera samkomulag um greiðslu með ákveðnum hætti. Var það einungis viðurkenning á skuldinni sem ekki er deilt um í málinu.

                Stefndi verður því með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sýknaður af kröfum stefnanda í málinu. Stefndi hefur ekki gert kröfu um málskostnað.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

                Stefndi, Mjólkurbúið ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Þverholts ehf., í máli þessu.

                Málskostnaður dæmist ekki.