Hæstiréttur íslands

Mál nr. 362/2005


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Orsakatengsl
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. febrúar 2006.

Nr. 362/2005.

C

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.            

 Ólafur Rafnsson hdl. )

gegn

Mosfellsbæ

(Hákon Árnason hrl.

 Ragnar Tómas Árnason hdl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Orsakatengsl. Gjafsókn.

Í ágúst 1989 varð C, þá 2ja ára gamall, fyrir því að kofi á leikvelli, sem var um 180 kg að þyngd, valt ofan á hann. Hlaut hann við það áverka á höfði, kviði og innri líffærum. Nokkru eftir slysið hófust hægðatruflanir hjá honum, sem hafa haldist síðan. Síðar greindist hann einnig með flogaveiki og væga þroskahömlun. Deilt var um hvort þessi heilsufarseinkenni yrðu rakin til slyssins en að öðru leyti var ekki ágreiningur um skaðabótaábyrgð M. Í málinu lá fyrir mat tveggja dómkvaddra lækna og yfirmat þriggja annarra lækna, sem voru sammála um að ekki væri unnt að rekja flogaveiki og þroskahömlun C til slyssins. Þá varð það niðurstaða yfirmats að ekki lægi fyrir að núverandi meltingarfæraeinkenni tengdust slysinu. Komst héraðsdómur, sem skipaður var tveimur sérfróðum meðdómsmönnum, einnig að þeirri niðurstöðu að ekki væri sýnt fram á að núverandi heilsufarseinkenni C yrðu rakin til slyssins. M var þó dæmdur til greiðslu miskabóta vegna þeirra þjáninga og röskunar á högum C sem hlotist höfðu af slysinu. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að C hefði ekki hnekkt þessari niðurstöðu og ekkert í málinu létti af honum sönnunarbyrði fyrir því að rekja mætti meinsemdir hans til slyssins. Af þessum sökum varð, með vísan til forsendna héraðsdóms, að sýkna M af kröfu C um greiðslu frekari skaðabóta. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. ágúst 2005 og krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 14.425.550 krónur með nánar tilgreindum ársvöxtum frá 26. júní 1999 til 1. júlí 2001, vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 26. júlí 2003, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 705.925 krónum, sem greiddar voru 25. ágúst 2005.  Til vara krefst hann lægri fjárhæðar. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum, en að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður ella.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður þá felldur niður.

Vátryggingafélagi Íslands hf. hefur verið stefnt til réttargæslu.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi gerðist það 29. ágúst 1989 á leikvelli í Mosfellsbæ þegar áfrýjandi var tveggja ára að hann varð undir leikkofa, sem verið var að velta. Kofinn mun hafa verið um 180 kg að þyngd og hlaut áfrýjandi áverka á höfði, kviði og innri líffærum. Nokkru eftir slysið hófust hægðatruflanir hjá honum og hafa þær haldist síðan. Hann greindist síðar með flogaveiki og einnig með væga þroskahömlun. Málsaðilar deila um það hvort þessi heilsufarseinkenni áfrýjanda verði rakin til slyssins. Ekki er deilt um skaðabótaábyrgð stefnda, sem er viðurkennd, og hefur réttargæslustefndi eftir uppsögu héraðsdóms greitt miskabætur, sem þar voru dæmdar, ásamt vöxtum.

Gögn málsins bera með sér að fjöldi lækna hefur komið að meðferð og greiningu á áfrýjanda og að fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar til þess að komast að orsökum meinsemda hans. Í héraðsdómi er rakið hvernig áfrýjandi var fluttur á sjúkrahús eftir slysið og hvaða meðferð hann fékk í framhaldi af því. Þar eru og rakin þau umfangsmiklu læknisfræðilegu gögn sem varða áfrýjanda og álitsgerðir lækna á meinsemdunum, sem hann og foreldrar hans hafa talið afleiðingar slyssins. Í héraðsdómi er greint frá mötum lækna þeirra er dómkvaddir voru til þess að segja álit sitt á meinsemdunum og hvort þær verði raktar til slyssins. Í mati tveggja dómkvaddra lækna, sem skiluðu mati sínu 16. ágúst 2001, var komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að rekja þroskaskerðingu eða krampaköst áfrýjanda til slyssins. Hins vegar tengdust einkenni frá kviðarholi slysinu í tíma og yrði því að telja að slysið hafi átt þátt í þeim, þótt ekki væri á þeim líffræðileg skýring. Þeir töldu læknisfræðilega örorku áfrýjanda af þessum sökum hæfilega metna 40%. Stefndi féllst ekki á mat þetta og leitaði yfirmats. Þrír dómkvaddir læknar skiluðu yfirmati 19. apríl 2002. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að ekkert benti til þess að áfrýjandi hafi fengið alvarlegan höfuðáverka við slysið, sem síðar hafi leitt til þroskahömlunar og flogaveiki. Um hægðatruflun áfrýjanda var komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi byrjað eftir slysið en ekki yrði séð að um orsakasamband væri að ræða. Hugsanlegt væri að áfrýjandi hafi um tíma haft starfræna meltingartruflun vegna álags í kjölfar slyssins en síðari einkenni sé hins vegar ekki unnt að tengja slysinu. Niðurstaða yfirmatsmanna var afdráttarlaus um að ekki væri orsakasamband milli tjónsatburðar og einkenna áfrýjanda á þeim tíma sem matið var gert.

Héraðsdómur, sem skipaður var tveimur sérfróðum meðdómsmönnum, hefur með ítarlegum rökstuðningi tekið afstöðu til beggja matsgerðanna, sbr. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar var fallist á þá niðurstöðu bæði undirmats- og yfirmatsmanna, að ekki væri sýnt fram á bein tengsl milli slyssins á leikvellinum í ágúst 1989 og misþroska og flogaveiki áfrýjanda. Ennfremur var þar fallist á þá niðurstöðu yfirmatsmanna að ekki væri sýnt fram á bein tengsl milli slyssins og núverandi meltingarfæraeinkenna áfrýjanda. Því væri ósannað að hann hafi við slysið hlotið varanlega örorku. Þessari niðurstöðu hefur áfrýjandi ekki hnekkt, en ekkert í málinu léttir af honum sönnunarbyrðinni fyrir því að rekja megi meinsemdir hans til þessa slyss. Verður því með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms að staðfesta niðurstöðu hans um annað en gjafsóknarkostnað áfrýjanda. Um gjafsóknarkostnað hans í héraði og fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en gjafsóknarkostnað.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, C, í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans á báðum dómstigum, samtals 800.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2005.

Mál þetta var höfðað 20. júní 2003 og var dómtekið 13. maí sl.

Stefnendur eru A og B, [...] Mosfellsbæ, f.h. sonar þeirra, C.

Stefndi er Mosfellsbær, Þverholti 2, Mosfellsbæ.  Vátryggingafélagi Íslands hf. Ármúla 3, Reykjavík er stefnt til réttargæslu.

 

Dómkröfur

Stefnendur krefjast þess að stefndi verði dæmdur til að greiða 14.425.550 krónur ásamt 0,7% ársvöxtum frá 26. júní 1999 til 11. janúar 2000, en með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 2000, en með 1,2% ársvöxtum frá þ.d. til 21. ágúst 2000, en með 1,3% ársvöxtum frá þeim degi til 21. nóvember 2000, en með 1,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júlí 2001, samkvæmt II. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, en samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá þeim degi til 26. júlí 2003, en ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, þ.m.t. kostnaður stefnanda af 24,5% virðisaukaskatti, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.  Til vara gerir stefndi þær kröfur að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu.

 

Málavextir

C varð fyrir slysi hinn 29. ágúst 1989 þegar hann var tæplega tveggja og hálfs árs gamall.  Slysið varð með þeim hætti að leikkofi eða skúr sem staðsettur var inni á leikvelli við [...] í Mosfellsbæ valt ofan á hann.  Skúrinn, sem starfsmönnum Mosfellsbæjar hafði láðst að festa niður, hafði verið reistur upp á gafl.  Tvær stúlkur sem þar voru staddar hugðust velta kofanum til baka í sína réttu stöðu, en við það féll kofinn yfir C sem var að leik þar undir.  Lögreglan fór og athugaði vettvang þann 4. september 1989 eftir að staðfestar fréttir af áverkum stefnanda höfðu borist.  Í lögregluskýrslu sem gerð var um atvikið segir: „Okkur var einnig skýrt frá því að Einar Gunnarsson, starfsmaður hjá Mosfellsbæ með umsjón með leikvöllum bæjarins hefði verið búinn að biðja starfsmenn áhaldahússins að festa niður húsið þar sem það hafði komið fyrir áður að húsið hafði verið reist upp á gaflinn og þá hefðu starfsmenn Mosfellsbæjar lagað húsið en ekki hafði unnist tími til að festa húsið niður.”  Að beiðni stefnenda var þyngd skúrsins reiknuð út af verkfræðistofunni Ferli ehf. og taldist hann vera um 170-190 kg að þyngd.

C var lagður inn á barnadeild Landspítalans eftir slysið.

Í sjúkraskrá Landspítalans segir um komu drengsins á sjúkrahúsið að eftir slysið hafi hann verið keyrður heim í kerru og móðir hans tekið við honum.  Hann hafi verið nokkuð skjálfandi, sérstaklega á fótum, hann kveinkaði sér þegar verið var að eiga við hann en gekk óstuddur.  Hann virtist kveinka sér í hverri öndunarhreyfingu og fannst móður hans eins og hann ætti eitthvað erfitt með öndun og því hafi hún farið með hann á slysadeild.  Á slysadeild hafi hann verið ósamvinnuþýður við skoðun, hann sé órólegur og sé honum gefinn róandi stíll.  Hafi hann róast við það.  Hann var skoðaður og var neurologisk og kirurgisk skoðun eðlileg.  Hann var talinn hafa merki um einhverja eldri áverka líka og hafi það m.a. verið til þess að ástæða þótti að líta frekar á drenginn.  Hann var með mar yfir hægri nýrnastað og vinstri upphandlegg, sem var nýlegt.

 Fyrir slysið hafði stefnandi ekki átt í vandræðum með hægðir þótt hann gengi enn með bleiu þar sem hann hafði ekki, vegna aldurs, náð fullkominni stjórn á þvaglátum. Eftir slysið fór að bera á ótímabærum og langvarandi niðurgangi sem staðið hefur yfir allar götur frá 1989.  Ótal rannsóknir hafa farið fram á þessum einkennum og leitað hefur verið eftir skýringum á ástæðum þeirra. 

Að beiðni Ólafs Ólafssonar landlæknis samdi Magnús Stefánsson yfirlæknir barnadeildar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri ítarlega álitsgerð um málið þar sem farið var yfir öll fyrirliggjandi gögn.  Álitsgerðin er dagsett 26. janúar 1997 og í niðurstöðum hennar segir eftirfarandi:

„Engin leið er að geta sér til af fyrirliggjandi gögnum um stærð eða þyngd þess skúrs, sem féll ofan á [C] við umrætt slys en sömu gögn benda þó til að umræddur kviðaráverki, sem [C] hlaut við slysið hafi verið meiri en fram kemur í síðari umsögnum.  Gögnin sýna ótvírætt, að drengurinn hlaut áverka á briskirtil í áðurnefndu slysi. Briskirtill hans hefur þó, dæmt af fyrirliggjandi gögnum, náð sér og ég get ekki tekið undir fullyrðingar Hauks Jónassonar í skýrslu hans frá 1996, að rannsóknir hafi útilokað aðrar líkamlegar orsakir en langvarandi brisbólgu.  Þvert á móti tel [ég], af fyrirliggjandi gögnum, að ekki sé heimilt að álykta að sá sjúkdómur hrjái drenginn. Vaxtarkúrfur sýna, að [C] átti við vaxtarkyrking að stríða framan af því tímabili, sem gögn hans spanna og á hluta þess tímabils, 1990 til 1991, má álykta sem svo að frásog frá görnum hans hafi ekki verið eðlilegt. Gluteinóþol var afsannað, fituskita hefur ekki verið fyrir hendi þegar leitað hefur verið eftir, ofnæmi hefur ekki fundist, um sykurtegundaóþol virðist ekki vera að ræða.  Ekki er hægt að finna að hægðartregða sem máli skiptir komi fyrir í sjúkrasögu fyrr en 1996.

Hins vegar er ekki hægt að sjá að leitað hafi verið eftir beinum áverkum á garnir drengsins, s.s. tímabundinni blóðflæðistruflun og síðari afleiðingum hennar á garnir. Því tel ég, þrátt fyrir áðurnefnda annmarka, að ekki hafi verið útilokað að slysið eigi beinan þátt í síðari niðurgangi [C].

Erfiðara er að átta sig á hugsanlegum þætti slyssins í tilkomu misþroskaeinkenna og krampasjúkdóms, þar sem vantar m.a. upplýsingar um þroskaferil drengsins fyrir slys, betri upplýsingar um slysið sjálft, ástand drengsins við komu á Slysadeild Borgarspítala, meiri og betri upplýsingar frá Helgu Hannesdóttur og ítarlegri ættarsögu.  Hins vegar finnst ekkert í fyrirliggjandi gögnum, sem bendir til þess að [C] hafi fengið alvarlegan höfuðáverka við umrætt slys og upplýsingar liggja fyrir um líklegri aðrar orsakir, sbr. ættarsögu.

Að sinni er því ekki hægt að gera frekari grein fyrir hugsanlegum beinum þætti slyssins í þroskasögu [C] og/eða tilkomu krampasjúkdóms, en ámiga drengsins er vafalítið fylgikvilli misþroskans hverjar sem síðan eru orsakir hans."

Eins og að framan greinir koma fram í álitsgerð þessari vísbendingar um að stefnandi hafi í slysinu hlotið áverka á garnir sem valdið hafi honum varanlegu líkamstjóni.  Að mati Magnúsar Stefánssonar læknis er það hins vegar álitamál hvort rekja megi önnur einkenni stefnanda svo sem misþroska og krampasjúkdóm til meints höfuðhöggs sem stefnandi hlaut í sama slysi.

Í Héraðsdómi Reykjavíkur voru, þann 23. ágúst 1999, dómkvaddir tveir hæfir og óvilhallir matsmenn, til að meta varanlega örorku stefnanda vegna slyssins.  Til þeirra starfa völdust læknarnir Ásgeir Theodórs, sérfræðingur í meltingarsjúkdómum, og Ólafur Gísli Jónsson læknir, sérfræðingur í barnalækningum.  Matsgerð þeirra er dags. 16. ágúst 2001.  Í niðurstöðum hennar segir eftirfarandi:

„Ljóst er að [C] hefur við slysið hlotið talsverða áverka á kvið.  Bólga í hluta briskirtils og vökvasöfnun eða blæðing aftan við milta er án efa afleiðing þessa áverka og greiningin pancreatitis taumatica því rétt.  Þá bendir hækkun á lifrarensímum til áverka eða mars á lifur, jafnvel þótt lifur hafi litið eðlilega út við ómskoðun.

Þetta ástand lagast síðan á eðlilegum tíma og skoðun og rannsóknir nokkrum vikum eftir slysið leiða ekkert óeðlilegt í ljós.  Vel var fylgst með drengnum á Landspítala eftir slysið og ýmsar rannsóknir gerðar til að athuga hugsanlega áverka á önnur líffæri en engin merki fundust um slíkt.  Í umsögnum barnalæknanna Magnúsar Stefánssonar og Úlfs Agnarssonar er talið hugsanlegt að tímabundin truflun hafi orðið á blóðflæði til garna eftir slysið og afleiðingar slíkrar blóðflæðistruflunar hugsanlega átt beinan þátt í niðurgangi [C].  Einkenni hans eftir slysið benda hins vegar ekki til þess að slík blóðflæðistruflun hafi átt sér stað, í því tilviki hefði mátt búast við meiri einkennum frá kviðarholi en drengurinn sýndi.  Niðurgang og „partial villous atrophy” er einnig mjög vafasamt að tengja við hugsanlega blóðflæðistruflun.  Sú fullyrðing Hauks Jónassonar, læknis, að um geti verið að ræða „langvarandi brisbólgu” og að „núverandi ástand sjúklings sé ekkert tilfallandi heldur bein afleiðing af fyrrgreindu slysi” er ekki í samræmi við einkenni [C] eða niðurstöður rannsókna.  Líta verður svo á að bólga í brisi, bólga í lifur og vökvasöfnun eða blæðing aftan við eða í milta hafi verið afleiðing áverkans en að þessar breytingar hafi gengið til baka. Ekki eru merki um áverka á önnur líffæri í kviðarholi.

Niðurgangur byrjar fljótlega eftir slysið.  Gerðar hafa verið mjög nákvæmar rannsóknir á meltingarvegi til að finna skýringu á einkennum og útiloka sjúkdóma eins og glútenóþol og ýmsa fleiri.  Ekki er líffærafræðileg eða meinafræðileg skýring á þessum einkennum drengsins.  Þau hefjast hins vegar fljótlega eftir slysið og tengjast því slysinu í tíma.  Er því ekki hægt að útiloka að slysið hafi leitt til starfrænnar truflunar í meltingarvegi og þannig átt þátt í einkennum hans.

Við slysið fékk [C] áverka á höfuð.  Ljóst er af einkennum drengsins að þessi áverki hefur verið minniháttar og engar líkur á að þetta skýri krampa eða þroskavandamál sem seinna koma í ljós.  Saga um svipuð vandamál í nákomnum ættingjum bendir til þess að um meðfætt ástand eða tilhneigingu sé að ræða.  Líklegt er að hægðartregða og vandamál við að stjórna hægðum og þvaglátum tengist að verulegu leyti þeim þroskafrávikum sem lýst er hjá [C].  Á hinn bóginn er vel hugsanlegt að slysið og afleiðingar þess hafi aukið á þessi vandamál, slysið hafi leitt til tímabundinnar starfrænnar truflunar í meltingarvegi og endurteknar spítalalegur, rannsóknir og lyfjagjafir einnig stuðlað að þessu.  Þá er ekki ólíklegt að áhyggjur foreldra, skortur á reglubundnu eftirliti og jafnvel fleiri þættir hafi haft sitt að segja.”

Í samantekt þeirra segir m.a.:

„Við slysið verður [C] fyrir áverka á kvið sem veldur blæðingu aftan við milta og vinstra nýra og bólgur í vinstri hluta briskirtils.  Hann verður einnig fyrir vægum höfuðáverka en fær ekki einkenni um heilahristing eða áverka á miðtaugakerfi. Vefrænir áverkar lagast að fullu eftir því sem best verður metið.  Ekki er hægt að rekja þroskaskerðingu eða krampaköst til slyssins.  Allt bendir til þess að þar sé um að ræða meðfædda tilhneigingu eða sjúkdóma.  Einkenni frá kviðarholi tengjast slysi í tíma og verður því að telja að slysið hafi átt þátt í einkennum drengsins þótt ekki sé líffærafræðileg skýring á þeim.”

Telja þeir læknisfræðilega örorku [C] vegna slyssins hæfilega metna 40%.

Þegar matsgerð Ásgeirs og Ólafs Gísla lá fyrir fór stefndi fram á að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn til að meta að nýju afleiðingar slyssins á stefnanda.  Voru þeir Sigurður Thorlacius heila- og taugasjúkdómalæknir, Trausti Valdimarsson meltingarsér­fræðingur og Ólafur Thorarensen barnalæknir dómkvaddir til starfans.  Matsgerð þeirra er dags. 19. apríl 2002 og var niðurstaða þeirra eftirfarandi:

„Fyrirliggjandi eru ítarleg gögn um heilsufarssögu matsþola, samtal við foreldra og hann sjálfan og skoðun á matsþola þann 3. apríl 2002.

Óumdeilanlegt er að við slysið þann 29. ágúst 1989 varð matsþoli fyrir áverka á briskirtli með bráðri brisbólgu, en einkenni vegna þess, kviðverkir og vökvi í kvið og óeðlilegar blóðprufur, gengu fljótt til baka.  Hægðartruflun byrjaði eftir slysið en ekki verður séð að um orsakasamband sé að ræða.  Vangaveltur um tímabundna blóð­flæðis­truflun til garnarinnar er ekki hægt að staðfesta, enda hafði matsþoli ekki einkenni sem benda til þess dagana eftir slysið.  Ekkert bendir heldur til langvarandi brisbólgu.  Núverandi hægðarvandamál matsþola einkennast fyrst og fremst af hægða­tregðu og leka (encopresis eða „framhjáhlaupi”).  Þessum einkennum hefur verið haldið niðri með hægðarlyfjum.  Síðustu árin hefur matsþoli þyngst og lengst og dafnað almennt vel.  Hann borðar vel og neitar öllum kviðverkjum.  Hugsanlegt er að matsþoli hafi um tíma haft starfræna meltingartruflun vegna álags í kjölfar slyssins þann 29. ágúst 1989.  Núverandi meltingareinkenni hans er hins vegar ekki hægt að tengja því slysi.

Líkur á flogaveiki sem fylgikvilla við höfuðáverka eru í réttu hlutfalli við hversu alvarlegur höfuðáverkinn var, sbr. kafla um flogaveiki eftir L. James Willmore, prófessor í taugalækningum við háskólann í Texas (University of Texas) í Banda­ríkjunum, í ritinu „Neurology and Trauma”, útgefnu af W. B. Saunders Company árið 1996, undir ritstjórn Randolph W. Evans taugalæknis.  Þar kemur fram að hjá þeim sem fá alvarlegan höfuðáverka og skaða á heilaberki, með tilheyrandi brottfalls­einkennum frá taugakerfi sem koma fram við læknisskoðun, án þess að heilahimnur hafi rofnað, sé tíðni (nýgengi) flogaveiki 7-29% og ef heilahimnur hafa rofnað sé tíðnin 20-57%.  Í bókarkaflanum er einnig vitnað í rannsóknir sem sýna auknar líkur á flogaveiki ef mikill skaði hefur orðið í heila og minnistap í kjölfar höfuðáverkans hefur verið langt.

Matsþoli fékk fyrst krampa rúmum fjórum árum eftir slysið þann 29. ágúst 1989. Við nákvæma yfirferð á gögnum og í viðtali á matsfundi kom fram að matsþoli tapaði ekki meðvitund við slysið (sbr. upplýsingar í sjúkraskrá Landspítala um að matsþoli hafi strax farið að skæla eftir að hann varð undir húsinu), ekki voru nein uppköst og skoðun leiddi ekki í ljós nein staðbundin brottfallseinkenni frá taugakerfi.  Það sást lítils háttar mar á enni vinstra megin.  Matsþola var lýst syfjulegum (somnolent) við komu á gjörgæsludeild Landspítala, en það var talið vera vegna endaþarmsstíls sem honum hafði verið gefinn, sem innihélt lyfin scopolamine, phenergan, lidocain og pentothal.  Ekki hafa sést nein merki um áverka á heila í þremur sneiðmynda­rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið.  Það er því ekkert sem bendir til þess að matsþoli hafi fengið alvarlegan höfuðáverka við slys þetta, sem síðar hafi leitt til þroskahömlunar og flogaveiki.  Líklegra er að þessi vandamál eigi sér aðrar orsakir, svo sem að þau hvíli á ættlægum grunni.

Niðurstaða undirritaðra yfirmatsmanna er þannig sú að matsþoli hafi ekkí hlotið varanlegan heilsufarsskaða í slysinu þann 29. ágúst 1989 og að hann teljist því ekki hafa hlotið neina varanlega læknisfræðilega örorku af völdum þess.

Í matsgerð dómkvaddra matsmanna, læknanna Ásgeirs Theódórs og Ólafs Gísla Jónssonar, dagsettri 16. ágúst 2001, kemur fram að þeir telja þá vefrænu áverka sem matsþoli hlaut í slysinu hafa lagast að fullu eftir því sem best verði metið og að ekki sé hægt að rekja þroskaskerðingu eða krampaköst til slyssins.  Þeir telja ekki vera líffærafræðilega eða meinafræðilega skýringu á niðurgangi matsþola.  Þeir telja líklegt að hægðartregða og vandamál við að stjórna hægðum og þvaglátum tengist að verulegu leyti þeim þroskafrávikum sem lýst er hjá matsþola.  Þeir telja hins vegar vel hugsanlegt að slysið og afleiðingar þess hafi aukið á þessi vandamál og leitt til tímabundinnar starfrænnar truflunar í meltingarvegi.  Þá telja þeir ekki ólíklegt að áhyggjur foreldra, skortur á reglubundnu eftirliti og jafnvel fleiri þættir hafi haft sitt að segja.  Þeir virðast þannig tengja það meltingarvandamál sem fram kom eftir slysið utanaðkomandi þáttum og álíta að afleiðingar slyssins hafi tímabundið leitt til starfrænnar truflunar í meltingarvegi.  Af þessu verður ekki ráðið að læknarnir hafi talið slysið hafa valdið matsþola neinum varanlegum líffærafræðilegum eða meinafræðilegum skaða, en hugsanlega tímabundinni starfrænni truflun.  Sú niðurstaða þeirra er í miklu ósamræmi við það mat þeirra að læknisfræðileg örorka matsþola vegna slyssins teljist hæfilega metin 40%.”

Niðurstaða yfirmatsmanna er sú að þeir telja óþægindi matsþola í dag ekki vera beina afleiðingu slyssins árið 1989, þ.e.a.s. að ekki sé orsakasamhengi milli tjónsatburðar og einkenna nú.

Varanlega læknisfræðilega örorku C vegna líkamstjóns er hann varð fyrir hinn 29. ágúst 1989 telja þeir enga vera.

Stefnendur vilja ekki una niðurstöðum yfirmatsins.  Þau telja því nauðsynlegt að höfða dómsmál á hendur bótaskyldum aðila til heimtu réttmætra bóta vegna þess tjóns sem C sonur þeirra varð fyrir í slysinu 29. ágúst 1989.  Byggja þau kröfur sínar á matsniðurstöðu undirmatsmanna og tjónsútreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar.

 

Málsástæður stefnenda og lagarök

Af hálfu stefnenda er á því byggt að sonur þeirra, C, hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni sem rakið verði til þeirra áverka sem hann hlaut þegar skúr á leikvelli við [...] í Mosfellsbæ valt yfir kvið hans og höfuð.  Lýsingar á kvörtunum hans í sjúkraskrá út legu hans á Landspítala 1989 bendi til óþæginda frá efri hluta kviðar og/eða brjóstholi, enda hafi hann verið með mar yfir neðstu rifjum við komuna á Landspítala.  Einnig sé að finna í sjúkraskrá óljósa lýsingu á roða á kvið stefnanda strax eftir slysið.  C hafi einnig verið með mar á höfði, fleiri en eitt.  Um þetta megi lesa í álitsgerð Magnúsar Stefánssonar, yfirlæknis á barnadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.

Í álitsgerð Magnúsar Stefánssonar komi enn fremur fram að ekki hafi verið leitað eftir beinum áverkum á garnir stefnanda, s.s. tímabundinni blóðflæðistruflun og síðari afleiðingum hennar á garnir.  Þrátt fyrir að ekki virðist hafa fundist læknisfræðileg skýring á einkennum C þá sé orsaka þeirra sannarlega að leita innvortis og til röskunar á líkamsstarfsemi hans eftir slysið, sem valdi á víxl hægðartregðu og ótímabærum og langvarandi niðurgangi.  Þau einkenni sem C hafi búið við sl. 14 ár hafi ekki verið til staðar fyrir slysið.  Ákveðinn tjónsatburður hafi valdið þeim alvarlegu einkennum sem valdið hafi C andlegu og líkamlegu tjóni og valdið hjá honum félagslegri einangrun.

Einkenni C, viðvarandi hægðarvandamál, hafi af læknum verið rakin til þroskafrávika.  Hann sé liðlega 16 ára að aldri og ennþá hafi ekki orðið neinar breytingar á þeim vandamálum sem hófust eftir umrætt tjónsatvik í ágúst 1989.  Líkamlegur og andlegur þroski stefnanda sé orðinn nægjanlegur til að hann geti tekist á við hægðir, nema aðrar og flóknari líkamlegar skýringar komi til.  Þannig reki hann einkenni sín til áðurnefnds tjónsatburðar þegar hann hafi skaddast innvortis við að um 170-190 kg þungum kofa var velt yfir hann barnungan með þeim afleiðingum að hann kom niður á kvið og höfuð stefnanda.  Telja verði að sönnuð séu orsakatengsl á milli atburðarins og núverandi einkenna stefnanda.  Matsmenn staðfesti að við slysið hafi stefnandi hlotið bólgu á hluta briskirtils, vökvasöfnun eða blæðingu aftan við eða í milta og mar á lifur.

Einkenni í kviðarholi tengist slysi í tíma og hægðarvandamál sömuleiðis sem hefjist við slysið eða skömmu eftir það.  Ekki hafi verið útilokað að niðurgangur sá sem C hafi þurft að búa við hafi hlotist af sköddun á líffærum í kviði eða röskun á starfsemi þeirra við það að kofinn féll á stefnanda.  Það sé óumdeilt meðal matslækna að stefnandi hlaut kviðáverka og að hægðartruflun byrjaði eftir slysið.  Sú truflun hefur ekki gengið til baka þrátt fyrir aldur og þroska.  Upphafstímamark á tjóni C megi rekja til slyssins og bótaskyldrar háttsemi starfsmanna stefnda.

Það sé augljóst að líkamleg einkenni stefnanda muni verða honum til trafala við að finna starf á vinnumarkaði sem henti, enda bresti vandamál hans á fyrirvaralaust án þess að hann hafi nokkra stjórn á þeim.  Einkennin séu hamlandi fyrir stefnanda í öllu daglegu lífi, jafnt starfi sem tómstundum.  Ekki sé fyrirsjáanlegt að þau einkenni sem stefnandi hafi búið við frá fyrrgreindum tjónsatburði muni breytast til batnaðar í komandi framtíð.

Stefnendur byggja á því að C hafi orðið fyrir verulegum meiðslum af völdum slyssins er hann lenti í þann 29. ágúst 1989 og að stefndi, Mosfellsbær, beri bótaábyrgð á því tjóni.  Starfsmenn bæjarins höfðu gleymt að festa niður leikkofa á leikvellinum við [...] og gátu því börn hæglega velt kofanum eins og gerðist í umrætt skipti.

Tveir læknar, dómkvaddir matsmenn, hafi metið varanlegar afleiðingar slyssins samkvæmt matsgerð, sem dags. er 16. ágúst 2001.  Byggt sé á því að með matsgerðinni sé sannað að stefnandi hafi hlotið 40% varanlega læknisfræðilega örorku sem rekja megi til slyssins.  Byggt sé á tjónsútreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingarstærðfræðings um útreikning á tjóninu.

Stefndi hafi fallið frá því að bera fyrir sig fyrningu á kröfum stefnanda í málinu, fyrst með netpósti dags. 30. júní 1999 og síðan í sérstöku bréfi dags. 25. september 2001.

Kröfur stefnenda séu reistar á sakarreglu íslensks skaðabótaréttar og á öðrum ólögfestum meginreglum íslensks skaðabótaréttar, m.a. um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna, húsbónda- eða vinnuveitendaábyrgðarreglunni svokölluðu.  Um miskatjón stefnanda sé vísað til þágildandi 264. gr. alm. hgl., nú 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Krafa um málskostnað styðjist við lög nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. grein.  Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað sé reist á lögum nr. 50/1988, sbr. og reglugerð nr. 562/1989.  Stefnendur séu ekki virðisaukaskattskyld og sé þeim því nauðsyn að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnda.

 

Sundurliðun dómkrafna:

Byggt sé á meðaltekjum iðnaðarmanna samkvæmt tjónsútreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar, dags. 31. október 2002, og sundurliðist kröfugerðin þannig:

 

  1. Örorkutjón:

Varanlegt örorkutjón

- 25% frádráttur vegna skattfrelsis af bótum

v/varanlegs örorkutjóns og eingreiðsluhagræðis

16.327.800 kr.

 

 

 

4.081.950 kr.

Samtals

12.245.850

Töpuð lífeyrisréttindi

979.700 kr.

Samtals

13.225.550 kr.

2.   Miskabætur

1.200.000 kr.

Samtals

14.425.550 kr.

 

Í kröfugerðinni sé byggt á örorkutjónsútreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings frá 31.10.2002.  Töpuð lífeyrisréttindi sæti ekki 25% skerðingu vegna skatt- og eingreiðsluhagræðis í kröfugerðinni eins og höfuðstólsverðmæti tekjutaps stefnanda. Krafist sé vaxta samkvæmt II. kafla vaxtalaga frá 26. júní 99 þar sem eldri vextir séu fyrndir.  Dráttarvaxta sé krafist frá þeim tíma að mánuður var liðinn frá þingfestingardegi, eða þegar mánuður var liðinn frá því að krafa stefnanda kom fram og öll skaðabótakrafan jafnframt gjaldfallin sbr. ákvæði vaxtalaga, nú 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Stefnufjárhæðin byggi á niðurstöðu matsgerðar matsmanna Ásgeirs Theodórs og Ólafs Gísla Jónssonar frá 16.08.2001 um 40% varanlega læknisfræðilega örorku stefnanda.

 

Málsástæður stefnda og lagarök

Aðalkrafa

Sýknukrafa stefnda er á því byggð að stefndi eigi enga sök á vanheilsu C. Grunnregla íslensks skaðabótaréttar sé svonefnd sakarregla, þ.e. að aðili verður ekki látinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni annars nema tjónið verði rakið til sakar hans. Hvíli sönnunarbyrðin um meinta sök stefnda á stefnendum.  Af þeirra hálfu hafi heldur ekki tekist að sýna fram á orsakatengsl milli slyss hans þann 29. ágúst 1989 og þeirra óþæginda sem hann búi við í dag.

Niðurstaða í mjög svo ítarlega rökstuddri yfirmatsgerð, sem liggur fyrir í málinu og stefnendur hafi ekki reynt að hnekkja með nokkrum rökum, sé sú að óþægindi þau sem stefnandi búi við í dag séu ekki bein afleiðing slyssins árið 1989, þ.e.a.s. ekki séu orsakatengsl milli tjónsatburðar og einkenna nú.

Eins og fram komi í fyrrnefndri yfirmatsgerð sé óumdeilt að við slysið þann 29. ágúst 1989 hafi C orðið fyrir áverka á briskirtli með bráðri brisbólgu, en einkenni vegna þess, kviðverkir og vökvi í kvið og óeðlilegar blóðprufur hafi gengið fljótt til baka.

Mómælt sé fullyrðingu stefnenda um meinta tímabundna blóðflæðistruflun og síðari afleiðingar hennar á garnir.  Þessar vangaveltur sé ekki hægt að staðfesta að mati yfirmatsmanna, enda hafi C ekki haft einkenni sem bent hafi til þessa dagana eftir slysið. Ekkert bendi heldur til langvarandi brisbólgu. Núverandi hægðavandamál stefnanda einkennist fyrst og fremst af hægðatregðu og leka.  Ekki sé þó hægt að útiloka að stefnandi hafi um tíma haft starfræna meltingartruflun vegna álags í kjölfar slyssins 1989.  Núverandi meltingareinkenni hans sé hins vegar ekki hægt að tengja því slysi.  Einnig vísist í þessu sambandi til álitsgerðar Gests Pálssonar barnalæknis, dags. 26. mars 1997, þar sem hann útiloki tímabundna blóðflæðistruflun til garnarinnar þar sem slíkt hefði haft í för með sér blóðugan niðurgang eftir slysið og einnig verki í sambandi við oral næringu.  Fullyrðingum stefnenda um að rekja megi andlegt og líkamlegt tjón C til slyssins 1989 sé því mótmælt.

Eins og fyrr segi sé ekki hægt að tengja núverandi meltingareinkenni stefnanda við slysið.  Núverandi einkennum, þ.e. hægðatregðu og leka, hafi verið haldið niðri með hægðarlyfjum.  Síðustu árin hafi C þyngst og lengst og almennt dafnað vel. Hann borði vel og finni ekkert fyrir kviðverkjum.  Sé því fullyrðingu lögmanns stefnenda, um að ennþá hafi ekki orðið neinar breytingar á vandamálum stefnanda sem hafi hafist eftir umrætt tjónsatvik í ágúst 1989, mótmælt sem rangri.  Áréttað sé að óumdeilt sé að stefnandi hafi orðið fyrir áverka á briskirtli með bráðri brisbólgu við slysið, en eins og fyrr segi þá hafi þessi einkenni gengið fljótt til baka.  Séu því með öllu ósönnuð orsakatengsl milli atburðarins og núverandi einkenna C, eins og fram komi í yfirmatsgerðinni og fjölmörgum framlögðum læknisfræðilegum gögnum. Flestir sérfræðingar sem hafi komið að rannsóknum og meðferð einkennanna séu sammála um að hægðavandamál C sé ósérhæft og algengt hjá börnum á sama aldri og að ekki sé hægt að rekja það til slyssins sem hann hafi orðið fyrir í ágúst 1989.  Árangursrík lyfjameðferð við því vandamáli styrki þá niðurstöðu.  Þá sé einnig ljóst af gögnum málsins að vöxtur C hafi, ekki aðeins eftir slysið, heldur frá upphafi verið neðarlega á vaxtarkúrfu.

C hafi greinst vægt þroskaheftur, eins og eldri bróðir hans. Niðurstaða eftir athugun á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins haustið 1993 hafi verið að orsök fyrir þroskavandamálum hans væri ekki þekkt, en fjölskyldusaga væri sterk.

Eins og fram komi í gögnum málsins, þ.á.m. yfirmatsgerðinni, hafi C fyrst fengið krampa rúmum fjórum árum eftir slysið 1989.  Hann hafi ekki tapað meðvitund við slysið (sbr. upplýsingar í sjúkraskrá Landspítala um að C hafi strax farið að skæla eftir að hann varð undir húsinu), ekki hafi verið nein uppköst og skoðun hafi ekki leitt í ljós nein staðbundin brottfallseinkenni frá taugakerfi.  Það hafi sést lítils háttar mar vinstra megin.  Honum hafi verið lýst syfjulegum við komu á gjörgæsludeild Landspítalans, en það hafi verið talið vera vegna endaþarmsstíls sem honum hafði verið gefinn.  Ekki hafi sést nein merki um áverka á heila í þremur tölvusneiðmyndum sem framkvæmdar hafi verið.  Það sé því ekkert sem bendi til þess að C hafi fengið alvarlegan höfuðáverka við slys þetta, sem síðar hafi leitt til þroskahömlunar og flogaveiki.  Líklegra sé að þessi vandamál eigi sér aðrar orsakir, sem hvíli á ættlægum grunni.

Eins og hér að framan greini hafi C þyngst og lengst og dafnað almennt vel. Hægðavandamálum hans sé haldið niðri með lyfjum og hann borði vel og finni ekkert til í kviðnum.  Af þessum ástæðum sé fullyrðingum í stefnu um að núverandi líkamleg einkenni muni verða honum til trafala í framtíðinni, við að finna starf á vinnumarkaði, mótmælt sem röngum og algerlega órökstuddum og ósönnuðum.

Því sé mótmælt að unnt sé að leggja mat dómkvaddra undirmatsmanna til grundvallar við úrlausn þessa máls, enda sé það mat engan veginn jafn vel rökstutt og vel unnið og yfirmatið.  Þá veki það óneitanlega athygli að undirmatsmenn komist að þeirri niðurstöðu að slysið hafi ekki valdið C neinum varanlegum líffræðilegum eða meinafræðilegum skaða, en hugsanlega tímabundinni starfrænni truflun, en þeir komist samt sem áður að þeirri niðurstöðu að varanleg læknisfræðileg örorka hans sé 40%. Þessi ályktun þeirra veiki matsgerðina enn frekar.  Þá sé niðurstaða þeirra um að varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda sé 40% ekki í neinu samræmi við örorkutöflur eins og þær birtist í viðurkenndum fræðibókum og læknar hér á landi hafi farið eftir í matsstörfum sínum.  Sem dæmi megi nefna að mat undirmatsmanna sé hærra en miski af því að tjónþoli missi fót um hné.

Með vísan til alls þess sem hér að framan hafi verið rakið sé ljóst að þau óþægindi sem stefnandi búi við í dag séu ekki af völdum þess slyss sem hann lenti í þann 29. ágúst 1989.  Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda.

 

Varakrafa

Verði ekki á sýknukröfu fallist sé varakrafan sú að lækka beri stefnukröfur verulega.

Verði ekki fallist á að leggja til grundvallar við úrlausn þessa máls þá yfirmatsgerð sem fyrir liggi sé þess óskað að leitað verði álits læknaráðs um afleiðingar slyssins.  Ótækt sé að leggja til grundvallar þá undirmatsgerð sem liggi fyrir í málinu og sé vísað til rökstuðnings með aðalkröfu í því sambandi.

Sundurliðun dómkrafna stefnenda sé mótmælt. Einungis sé gert ráð fyrir 25% frádrætti vegna skattfrelsis af bótum vegna læknisfræðilegrar örorku og eingreiðsluhagræðis, en rétt sé að þessi frádráttur sé 35%.    Þá sé vaxtakröfunni mótmælt þar sem útreikningar Jóns Erlings Þorlákssonar geri ráð fyrir vöxtum til útreikningsdags, 31. október 2002, og beri að reikna vexti af kröfunni frá þeim degi, en stefnendur reikni vexti frá 26. júní 1999.

Um lagarök vísist til almennra reglna íslensks skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar, auk dómafordæma. Krafa um málskostnað byggi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Niðurstaða

Af hálfu stefnda er bótaskyldu ekki mótmælt í sjálfu sér en því mótmælt að stefndi eigi sök á vanheilsu stefnanda og því mótmælt að tjónið verði rakið til sakar stefnda.

Af hálfu stefnenda er byggt á matsgerð læknanna Ásgeirs Theodórs og Ólafs Gísla Jónssonar.  Eins og áður greinir er niðurstaða þeirra sú að C hafi við slysið fengið áverka á kvið og hlotið vægan höfuðáverka.  Ekki er að þeirra mati hægt að rekja þroskaskerðingu eða krampaköst til slyssins.  Af niðurstöðu þeirra verður ráðið að þar sem einkenni í kviðarholi tengist slysinu í tíma verði að líta svo á að slysið hafi átt þátt í einkennum drengsins þótt ekki sé líffræðileg skýring á þeim.  Umrædd einkenni bendi fyrst og fremst til starfrænna truflana á ristli.  Meta læknarnir læknisfræðilega örorku C vegna slyssins 40%.

Í framburði Ásgeirs Theodórs fyrir dómi kom fram að ekkert í gögnum frá Landspítala benti til að C hefði orðið fyrir áverka af taugaskaða eða skemmdum á heila.  Ekkert slíkt hefði komið fram við skoðun á líkama hans. 

Varðandi áverka á kvið bar Ásgeir að augljóst væri að það hefði orðið blæðing inn á kviðarhol aftan við milta, nýra og undir þind og áverki á brisi sem þýddi að áverkinn hefði verið allnokkur.  Þótt ekki væri hægt að sýna fram á það beinlínis að þetta væri orsök einkenna sem komu fram seinna  þá megi vel hugsa sér að þarna hafi myndast einhver bjúgur og kannski einhver tímabundin truflun á taugaboðum í þörmum sem síðan hafi gengið til baka.  Hins vegar hafi þeir talið að C hafi við slysið, og umstangið sem í kringum það var, hlotið sálrænan áverka sem ásamt öðrum þáttum, eins og misþroska, gætu komið heim og saman við síðari einkenni, niðurgang, kviðverki og hægðatregðu.

Ólafur Gísli Jónsson bar fyrir dómi að hann liti svo á að krampar og einkenni af taugafræðilegum toga verði ekki rakin til slyssins. 

Taldi hann C ekki vera með nein einkenni sem bendi til áverka á miðtaugakerfi, hvorki heila né annars staðar.  Taldi hann það vera skýringuna á því að ákveðið var að gera ekki sneiðmyndarannsókn því það sé viss hætta og álag sem það hafi í för með sér, geislaskammtur og ýmislegt þess háttar og það sé því alltaf matsatriði hvort gera eigi slíka rannsókn eða ekki.

Varðandi kviðarholsáverkann þá verði ekki annað séð en að áverkar er hlutust við hann hafi gengið til baka.  Kviðverkir, niðurgangur og hægðatregða tengist slysinu í tíma en hann geti ekki séð að það sé beint orsakasamband þar á milli.  Það sé ekki hægt að segja að líffræðileg eða meinafræðileg skýring sé á þessum einkennum sem hægt sé að rekja beint til slyssins.  Þetta séu einkenni sem kalla megi starfræn einkenni og það sé spurning af hverju þau komi í ljós.  C eigi við viss þroskavandamál að stríða og mörg börn með vandamál af þeim toga fái meltingareinkenni eins og hægðatregðu og niðurgang.  Bar Ólafur Gísli að þeir matsmennirnir teldu að það mætti kannski að hluta rekja þessi einkenni til slyssins en það sé alveg óvíst hvort það sé aðalorsökin.  Það verði meira að segja að telja það sé frekar óvíst en alls ekki hægt að útiloka að það hafi spilað inn í.  Eins og fram komi í matsgerðinni sé ekki líffærafræðileg eða meinafræðileg skýring á þessum einkennum drengsins, en þau hefjist fljótlega eftir slysið og tengist því í tíma.  Því sé ekki hægt að útiloka að slysið hafi leitt til starfrænna truflana í meltingarvegi og þannig átt þátt í einkennum hans.  Hafi matsmenn því viljað láta drenginn njóta vafans.

Bar Ólafur Gísli að það sé ekkert sem bendi til annars en að líffærin hafi náð sér eftir áverkann, bæði samkvæmt einkennum og þeim rannsóknum sem hafi verið gerðar.  Taldi Ólafur að C hefði verið rannsakaður mjög nákvæmlega strax eftir slysið þegar hann lá á Landspítalanum.  Árin á eftir hafi hann farið í gegnum mjög nákvæmar rannsóknir.

Í yfirmatsgerð læknanna Ólafs Thorarensen, Sigurðar Thorlacius og Trausta Valdimarssonar segir að óumdeilanlegt sé að við slysið hafi C orðið fyrir áverka á briskirtli með bráðri brisbólgu, en einkenni vegna þess hafi gengið fljótt til baka.  Hægðatruflun hafi byrjað eftir slysið en ekki verði séð að um orsakasamband sé að ræða.  Vangaveltur um tímabundna blóðflæðistruflun til garnarinnar sé ekki hægt að staðfesta enda hafi C ekki haft einkenni sem bendi til þess dagana eftir slysið.  Ekkert bendi heldur til langvarandi brisbólgu.  Hugsanlegt sé að C hafi um tíma haft starfræna meltingartruflun vegna álags í kjölfar slyssins en núverandi meltingareinkenni hans sé hins vegar ekki hægt að tengja því slysi.

Varðandi líkur á flogaveiki sem fylgikvilla við áverka kemur fram í yfirmatsgerð að C fékk fyrst krampa rúmum 4 árum eftir slysið.  Við nákvæma yfirferð á gögnum og í viðtali á matsfundi hafi komið fram að C tapaði ekki meðvitund við slysið, ekki hafi verið um uppköst að ræða og skoðun hafi ekki leitt í ljós nein staðbundin brottfallseinkenni frá taugakerfi.  Ekki hafi sést nein merki um áverka á heila í þremur tölvusneiðmyndarannsóknum sem framkvæmdar hafi verið.  Þykir yfirmatsmönnum ekkert vera sem bendi til þess að C hafi fengið alvarlegan höfuðáverka við slysið sem leitt hafi til þroskahömlunar og flogaveiki.  Líklegra sé að þessi vandamál eigi aðrar orsakir, svo sem að þau hvíli á ættlægum grunni.

Er það niðurstaða yfirmatsmanna að C hafi ekki hlotið varanlega örorku við slysið.  Jafnframt að óþægindi hans séu ekki bein afleiðing slyssins, þ.e.a.s. að ekki sé orsakasamband milli tjónsatburðar og einkenna nú.

Í framburði Sigurðar Torlacius fyrir dómi kom fram að flogaveiki og krampar hafi fyrst komið fram hjá C fjórum árum eftir slysið.  Krampar eða flogaveiki geti stafað af alvarlegum höfuðáverkum sem ekki hafi verið í þessu tilviki, auk þess sem barna- og taugalæknirinn sem hafi haft C til meðferðar hafi talið að flogaveiki hans væri af sama toga og hjá systur hans, þ.e. á ættlægum grunni, ljósnæm flogaveiki.  Ekkert hafi því bent til að flogaveikin stafaði af slysinu.  Sama sé að segja um þroskaröskun eða þroskafrávik.  Bar Sigurður að yfirmatsmenn hefðu komist að þeirri niðurstöðu að það kynni að hafa verið þarna tímabundin sálræn einkenni vegna slyssins, starfræn einkenni, sem hefðu síðan gengið til baka.  Slíkur niðurgangur sé algengur hjá börnum á þessum aldri og verði ekki skýrður með því höggi sem C fékk.  Einkennin sem hann fékk hafi ekki verið þess eðlis að hægt væri að tengja þau við áverkann sem hann fékk á sínum tíma.

Í framburði Ólafs Thorarensen fyrir dómi kom fram varðandi kviðáverkann að hann telji að í byrjun hafi myndast vefræn einkenni sem hafi lagast.  Þau einkenni sem hafi verið til staðar síðustu ár séu starfræn og tengist ekki slysinu.  Niðurgangur í börnum á vissum aldri sé algengur, svokallaður ósértækur niðurgangur.  Hægðatregða sé líka algengt vandamál, þannig að það þurfi ekki að vera tengt neinum ákveðnum orsökum.  Hvað varði höfuðáverka þá hafi hann verið minniháttar og slíkir áverkar valdi ekki þroskaröskunum eða flogaveiki.  Vildi Ólafur ekki útiloka með öllu að slysið hefði getað valdið sálrænum erfiðleikum sem birtist í hægðatregðu seinna meir.  Slysið hafi hins vegar ekki valdið neinum vefrænum breytingum.  Samt sem áður héldi hann sig við þá niðurstöðu sem fram komi í yfirmati, að ekki sé orsakasamhengi milli tjónsatburðar og einkenna C í dag.

Trausti Valdimarsson bar einnig að ekki sé ómögulegt að starfrænar truflanir geti stafað frá slysinu en hvorki sé hægt að sanna það né afsanna.  Það sé hægt að koma með einhverjar vangaveltur eða líkindi.  Taldi hann langlíklegast að ekki væri orsakasamband milli tjónsatburðar og einkenna C nú. 

Eins og fram er komið fékk C skúr ofan á sig á leikvelli í Mosfellsbæ þann 29. ágúst 1989.  Sambærilegur skúr er að mati Jóhanns T. Egilssonar, sbr. yfirlýsingu hans, dags. 14. mars 2002, metinn á bilinu 170 – 190 kg.  Miðað við þær forsendur sem gefnar eru mun slíkur skúr, í tilfelli sem að ofan greinir, geta valdið höggkrafti sem samsvarar á bilinu 500 kg upp í 1700 kg, sbr. útreikning Ásmundar Ingvarssonar, dags. 11. desember 2003.  Óvíst er hvernig skúrinn lenti á drengnum en samkvæmt lýsingu í sjúkraskrá við innlögn á Barnaspítala Hringsins sama dag fór drengurinn strax að gráta við atburðinn.  Fullorðinn einstaklingur sá drenginn skömmu eftir atburðinn og sá roða yfir kviðnum, sbr. sjúkraskrá Landspítala.  Hann virtist kveinka sér við hverja öndunarhreyfingu og þótti móður, á þeim tíma, eins og hann ætti erfitt með öndun.  Á slysadeild var hann erfiður við skoðun og því gefin róandi lyf. Hann var skoðaður á slysadeild bæði m.t.t. áverka á kvið og taugakerfi og var hvort tveggja talið eðlilegt.

Ítarleg skoðun sem gerð var eftir komu á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins sýndi lítils háttar mar vinstra megin á enni og á gagnauga sem virtust ný.  Var hann þá orðinn sljór vegna virkni róandi lyfja.  Þar virtist ljóssvörun í augum vera eðlileg, eðlilegar hreyfingar allra útlima og eðlileg vöðvaviðbrögð ( reflexar).  Þá brást hann við sársauka á eðlilegan hátt.

Telja verður óumdeilanlegt að drengurinn fékk högg á höfuðið sbr. marbletti á enni og gagnauga vinstra megin.  Hins vegar er ekkert fyrirliggjandi í gögnum frá innlögn, strax eftir atburðinn, sem að mati sérfróðra meðdómenda hafi gefið tilefni til að gerð yrði tölvusneiðmynd af heila m.t.t. innri áverka.  Ekkert í gögnum málsins sýni að grunur hafi verið um heilahristing og því síður alvarlegri áverka á heila.  Það sé einnig mikilvægt í þessu sambandi að samkvæmt sjúkragögnum var drengurinn með meðvitund og grét strax eftir slysið, en í framburði móður drengsins fyrir dómi kom fram að drengurinn hefði fyrst grátið er hann kom á slysadeild. Gæti hér því nokkurs misræmis.  Einnig skapi áhrif deyfilyfja sem drengurinn fékk ákveðin vandamál þegar draga eigi ályktanir af ofangreindum gögnum, þar sem taugakerfisskoðun verði eftir það erfiðari.

Kviðskoðun við komu á bráðamóttöku sýndi mjúkan og ekki þaninn kvið með eðlileg garnahljóð.  Eymsli voru við þreifingu á kviðnum en engar líffærastækkanir fundust.  Vegna þyngdar kofans, sem drengurinn varð undir, og vegna einkenna hans frá kvið, telja sérfróðir meðdómendur að hárrétt hafi verið brugðist við með rannsóknum af kviðnum.  Sjá einnig framburð Ólafs Gísla Jónssonar fyrir dómi um þetta atriði.  Röntgenmyndir af kvið og lungum voru eðlilegar við komu og sömuleiðis var gerð bráðaómskoðun af kviðarholi sem gaf enga vísbendingu um blæðingu í kviðarhol, lifur og milta.  Bæði nýru voru samkvæmt lýsingu eðlileg og án ummerkja um blæðingu.  Bris er ekki nefnt í fyrstu rannsókn.

Blóðrannsóknir við komu á bráðamóttöku sýndu verulega hækkun á hvítum blóðkornum, 27 þúsund, sem að öllum líkindum hefur verið streituviðbragð.  Á sama tíma er amylasi, sem stafar frá briskirtli, innan eðlilegra marka, eða 104, þar sem eðlileg mörk eru milli 40 og 160 ein./l.  Blóðrauði var við komu 130 sem eru neðri normal mörk. Ekki var gerð athugun á hægðum m.t.t. blóðs á neinum tímapunkti í þessari legu á barnadeild.

Ómskoðun af kviðarholi var endurtekin tveimur dögum eftir slysið, þann 31. ágúst 1989.  Í þeirri rannsókn voru lifur og nýru eins og áður, eðlileg útlits, útlit milta er ekki lýst og bris er tormetið vegna mikils lofts í þörmum en það er þó grunur um bólgubreytingar aðlægt brisendanum.  Blóðrannsóknir sýndu daginn eftir innlögn að hvít blóðkorn höfðu lækkað nokkuð, eða niður í 16 þúsund, sem er tæplega helmingslækkun.  Blóðrauði hafði sömuleiðis lækkað, sem gæti hugsanlega verið afleiðing blæðingar, niður í 116, en drengurinn fékk töluvert af vökvum í æð og telja verður að hluti af þessari lækkum hafi að öllum líkindum verið þynning.  Þá hækkaði amylasi á fyrsta degi í 456 sem eru um þreföld efri mörk.  Þá eru einnig lifrarpróf, sem raunar voru ekki mæld innlagnardag, einnig hækkuð sem bendir til áverka á lifur.

Þremur dögum eftir slysið, eða þann 1. september 1989, var enn gerð ómskoðun og þá við betri aðstæður en daginn áður.  Þar sést höfuð og bolur briskirtils vel og virðist hann eðlilegur.  Hali kirtilsins sést einnig og er, eins og daginn áður, lýst þykknun með vægum bólgubreytingum. Kvið er lýst mjúkum yfir brisi sem annarsstaðar.  Í þetta sinn er miltanu lýst og er það eðlilegt.  Í þessari rannsókn sást breyting undir þindinni vinstra megin og yfir miltanu sem gæti verið vökvasöfnun eða blæðing.  Þessi breyting hafði ekki sést á ómskoðun daginn áður en hins vegar hafði þá sést örlítill frír vökvi í kviðarholi aðlægt milta og neðri hægri lifrarbrún ásamt mjög litlum vökva í grindarholi.  Á öðrum degi eftir slysið var amylasi mældur á ný og er þá fallandi aftur, mældist 226.  Daginn sem seinasta ómskoðunin var gerð er amylasi kominn vel inn fyrir eðlileg mörk eða 100 og helst eftir það eðlilegur.  Lifrarpróf voru hins vegar heldur lengur að lagast og voru raunar ekki að fullu innan eðlilegra marka þann 14. september 1989, þegar síðasta mæling var gerð.

C var vistaður á gjörgæsludeild fyrstu nóttina eftir slysið.  Honum var þungt fram eftir nóttunni en hresstist þegar leið undir morguninn.  Hann var vel vakandi kl. 7 um morguninn og þá eðlilegur í háttum að sögn móður.  Kviðskoðun á þeim tíma segir að um nokkur eymsli sé að ræða í kvið en eðlileg garnahljóð.

Þann 1. september er ástandi drengsins lýst þannig að hann hafi svæsna kviðverki tveimur dögum eftir slysið og sé áberandi aumur við þreifingu á kvið.  Á þriðja degi er ástand drengsins hins vegar mun betra og kviðurinn þá algjörlega mjúkur og engar kvartanir við þreifingu. Hann er eftir sem áður meðhöndlaður, sem venja var við brisbólgur, með föstu og næringu í æð.

Sérfróðir meðdómendur telja ljóst vera, sbr. það sem áður er rakið, að drengurinn hafi fengið áverka á bris með bólgum enda hafi merki þess sést glögglega í blóðprufum.  Einnig hafi sést merki um brisbólgu á ómskoðun og dæmigert sé að vökvasöfnun verði í kvið við slíkt ástand þar sem um ertingu sé að ræða frá briskirtli. Hins vegar sé ekkert sem bendi til að um alvarlegan áverka hafi verið að ræða á þarma þar sem hvergi er minnst á einkenni um lífhimnubólgu eða ertingu á lífhimnu sem óhjákvæmilega fylgi áverkum á þarma.  Lítill vökvi, sem lýst er á ómskoðun, sé að öllum líkindum ertingarvökvi frá brisi en geti hugsanlega verið blæðing þó blæðingarstaður hafi enginn fundist.  Ekki var í þessari legu gerð nein tilraun til að sýna fram á blóð í hægðum enda virðist, samkvæmt klínískri skoðun, aldrei hafa verið mikill grunur um áverka á þarma.

Þegar framanritað er virt þykir fram komið að drengurinn hlaut við slysið áverka á höfuð með mar á enni og gagnauga en klínísk einkenni bentu ekki til innvortis skaða á höfði.  Þá er óumdeilt að hann fékk högg á kvið og í kjölfarið á því bráða briskirtilsbólgu sem gekk yfir á 3 – 4 dögum.  Þá verði að telja sterkar vísbendingar um áverka á lifur samkvæmt blóðprufum þótt aldrei sannist slíkt með myndrannsóknum.  Hins vegar þykir ekki sýnt fram á að drengurinn hafi við slysið hlotið neina alvarlega eða varanlega áverka á önnur líffæri í kviðarholi, sérstaklega er ekkert sem bendir til áverka á þarma.

Samkvæmt framburði móður byrjaði niðurgangur fimm til sex sinnum á dag strax eftir slysið, stundum með uppköstum.  Kvaðst hún strax hafa haft samráð við lækna símleiðis eftir að niðurgangurinn byrjaði hjá C.

Hins vegar eru ekki skráð í gögnum nein samskipti vegna niðurgangs fyrr en u.þ.b. 7 mánuðum eftir slysið þegar móðir leitar skýringa á þessum niðurgangi.  Í framhaldi af því er gerð ítarleg athugun á þessum niðurgangi og ekki finnst nein líffærafræðileg eða meinafræðileg skýring.  Að þessari athugun koma margir læknar, sbr. sjúkraskýrslur frá Barnadeild Landakots og seinna skýrslur frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur.

Það er niðurstaða lækna á þessum tíma að hér sé um ósérhæfðan niðurgang að ræða þar sem  engin sérstök skýring finnst á þessum niðurgangi.  Það er hins vegar ljóst að niðurgangurinn byrjar fljótlega eftir slysið og óumdeilt að hann virðist tengjast slysinu í tíma.  Ekki finnst nein örugg skýring á þessum niðurgangi, en reynt er að leiða að því líkur að um starfræna truflun í meltingarvegi sé að ræða.  Á einhverjum árum þróast síðan þessi niðurgangur yfir í hægðatregðu og ófullkomna stjórnun á hægðalosun eða encopresis.

Við skoðun hjá undirmatsmönnum og síðar yfirmatsmönnum kemur í ljós að niðurgangurinn er ekki lengur stöðugur en meira ber á hægðatregðu og erfiðleikum við að stjórna hægðum og er C kominn fast á hægðalosandi lyf ( Miralax ) til þess að freista þess að halda honum hreinum. Er það ástand óbreytt í dag.

Það er mat undirmatsmanna að ekki sé hægt að útiloka að þessa starfrænu truflun í meltingarvegi megi rekja til slyssins og þá fyrst og fremst þannig að einhverjar truflanir hafi orðið á starfsemi í taugakerfi þarmanna, e.t.v. tengt áverkanum og ekki síður hugsanlega tengt andlegu og líkamlegu álagi á C vegna þessa slyss.

Það er mat yfirmatsmanna að ekki liggi fyrir nein gögn sem styðji það að núverandi meltingarfæratruflanir tengist slysinu.

Eins og rakið er hér að framan kom fram í framburði undirmatsmanna fyrir dómi að það sé vel hugsanlegt að slysið og afleiðingar þess hafi leitt til starfrænnar truflunar í meltingarvegi og eðlilegt sé að láta drenginn njóta vafans.  Þeir undirstrika þó að það sé verulegur vafi á því hversu mikið slysið hafi valdið af núverandi einkennum og erfitt sé að sanna slík tengsl.  Í framburði yfirmatsmanna fyrir dómi kom fram að þeir telja að litlar sem engar líkur séu á því að slysið og afleiðingar þess séu orsök núverandi meltingarfæraeinkenna og þau tengist væntanlega þeim þroskafrávikum sem fram hafa komið hjá C við seinni tíma athuganir.

Það er ljóst að C á við þroskavandamál að stríða og virðist hann vera misþroska og hafa auk þess einkenni um flogaveiki.  Ekkert hefur komið fram í málinu sem styður þá tilgátu að slysið hafi valdið meiri háttar áverka á höfuð C með varanlegum miðtaugaskaða sem þannig gæti hafa leitt til misþroska og flogaveiki.  Það er jafnframt ljóst að með slíkum misþroska geta mjög auðveldlega fylgt starfrænar meltingartruflanir.

Telja verður erfitt að sanna einhver tengsl á milli slyssins og núverandi meltingarfæravandamála og misþroskans. Orsakir starfrænna truflana eru að mestu leyti óþekktar en eins og fram kemur í matsgerð undirmatsmanna  þá hefur sannarlega verið rætt um viss tengsl á milli t.d. sálrænna áverka í æsku og þess að fá meltingartruflanirnar af starfrænum toga seinna meir.  Þessar hugmyndir eru þó fyrst og fremst tilgátur sem ekki er unnt að sannreyna í hverju einstöku tilviki.  Starfrænar truflanir frá meltingarvegi eru algengar og þó að í þessu tilviki komi fram ákveðnir þættir sem að geta bent til tengsla við upphaflegt slys, þar sem C fékk sannarlega mikið högg á kviðarhol, þá virðist ekki unnt að draga mjög eindregnar ályktanir af því sem vitað er um ástand C í dag.

Í ljósi þessa telur dómurinn að ekki hafi verið sýnt fram á bein tengsl á milli slyssins og núverandi meltingarfæraeinkenna C. Misþroski C virðist heldur ekki tengjast slysinu.  Fellst dómurinn því á niðurstöður yfirmatsmanna þess efnis að óþægindi C í dag séu ekki bein afleiðing slyssins 1989, þ.e. að ekki sé orsakasamband milli tjónsatburðar og einkenna nú.  Telst því ósannað að C hafi við slysið hlotið varanlega læknisfræðilega örorku og ber því að sýkna stefnda af þeirri kröfu stefnanda.

Eins og áður er getið er óumdeilt í málinu að C hlaut við slysið áverka á briskirtil sem hafði í för með sér bráða brisbólgu sem reyndar gekk til baka.  Vegna slyssins var hann lagður inn á sjúkrahús þar sem hann lá í 20 daga.  Þar gekkst hann undir ýmsar rannsóknir.  Telja verður að slysið, sem stefndi, Mosfellsbær, telst bera ábyrgð á, hafi haft í för með sér þjáningar og röskun á högum C.  Þykir hann af þeim sökum eiga rétt á miskabótum úr hendi stefnda, sbr. 264. gr. almennra hegningarlaga, sem í gildi var þegar slysið varð.  Þykja þær hæfilega ákveðnar 500.000 krónur og bera dráttarvexti frá 26. júlí 2003.

Stefndu greiði stefnendum 250.000 krónur upp í málskostnað þeirra, sem greiðist í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnenda f.h. C, 739.390 krónur, þ.e. þóknun lögmanns þeirra, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., 400.000 krónur, og útlagður kostnaður, 339.390 krónur, greiðist úr ríkissjóði.  Við ákvörðun málflutnings­þóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómendunum Kjartani B. Örvar,  sérfræðingi í meltingarsjúkdómum, og Kristjáni Óskarssyni barnaskurðlækni.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Mosfellsbær, greiði stefnendum, A og B, f.h. C, 500.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. júlí 2003 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnendum 250.000 krónur upp í málskostnað þeirra, sem greiðist í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnenda f.h. C, 739.390 krónur, þ.e. þóknun lögmanns þeirra, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., 400.000 krónur, og útlagður kostnaður, 339.390 krónur, greiðist úr ríkissjóði.