Hæstiréttur íslands

Mál nr. 346/2014

A (Steingrímur Þormóðsson hrl.)
gegn
Verði tryggingum hf. og B (Björn L. Bergsson hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón


Skaðabætur. Líkamstjón.

V hf. og B voru sýknaðir af kröfu A um skaðabætur vegna ætlaðs líkamstjóns af völdum umferðarslyss, sökum þess að A hefði ekki tekist sönnun um að hún hefði orðið fyrir varanlegu heilsutjóni vegna slyssins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. maí 2014. Hún krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Til vara að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 3.289.135 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 28. september 2007 til 25. mars 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, að frádreginni greiðslu 17. apríl 2009 að fjárhæð 500.000 krónur. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og aðallega málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður falli niður.

Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi fallið frá kröfu sinni um greiðslu að fjárhæð 30.000 krónur vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns, honum tengdum, sbr. 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Samkvæmt gögnum málsins hefur áfrýjandi fimm sinnum lent í umferðarslysum eða á árunum 1989, 1999, 2002 og loks tvisvar á árinu 2007. Í máli þessu leitar áfrýjandi eftir skaðabótum vegna tjóns er hún hafi orðið fyrir í síðasta slysinu, er varð 28. september 2007. Mál þetta var höfðað 1. desember 2009. Með úrskurði héraðsdóms 22. júní 2012 var hafnað kröfu áfrýjanda um að þeir sérfróðu meðdómsmenn sem héraðsdómari hafði kallað til starfa skyldu víkja sæti í málinu. Var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar 20. ágúst 2012 í máli nr. 479/2012. Hinn 10. október 2012 gekk svo dómur í héraði þar sem stefndu voru sýknaðir af kröfu áfrýjanda. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar og á grundvelli nýrra upplýsinga komst rétturinn að þeirri niðurstöðu 8. maí 2013 í máli 14/2013 að annar hinna sérfróðu meðdómsmanna, Guðni Arinbjarnar bæklunarlæknir, hafi vegna starfa sinna í þágu stefnda Varðar trygginga hf. verið vanhæfur til setu í dómi, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var héraðsdómur því ómerktur og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Við fyrirtöku málsins í héraði 20. júní 2013 upplýsti héraðsdómari að Ríkarður Sigfússon og Björn Sigurðsson bæklunarlæknar yrðu kallaðir til sem meðdómsmenn, en sá fyrrnefndi hafði setið í dómi við fyrri meðferð málsins. Ekki voru bókaðar athugasemdir við það af hálfu aðila, en upp kom ágreiningur milli þeirra um heimild áfrýjanda til framlagningar matsgerðar frá 12. október 2012 vegna máls er áfrýjandi hafði höfðað gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vegna umferðarslyss er hún varð fyrir 14. febrúar 2002. Var í þeirri matsgerð tekin afstaða til afleiðinga slyss áfrýjanda 28. september 2007 þótt stefndi væri ekki matsþoli. Með ákvörðun héraðsdómara 17. september 2013 var hafnað kröfu áfrýjanda um framlagningu matsgerðarinnar. Í þinghaldi 23. sama mánaðar gerði áfrýjandi kröfu um að dómsformaður og hinir sérfróðu meðdómsmenn vikju sæti í málinu. Var sú krafa reist á g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991, jafnframt því sem áfrýjandi hafði þá uppi athugasemdir við að ekki hefði verið gætt nægilega að 2. mgr. 2. gr. laganna þar sem kveðja hefði átt til setu í dóminum eðlis- eða vélaverkfræðing í stað annars læknanna. Framangreindri kröfu áfrýjanda var hafnað með úrskurði héraðsdóms 16. október 2013 sem staðfestur með var með dómi Hæstaréttar 27. nóvember 2013 í máli nr. 714/2013. Þinghöld voru í málinu 16. desember 2013 og 28. janúar 2014 og gekk hinn áfrýjaði dómur 17. febrúar sama ár að lokinni aðalmeðferð þann sama dag. 

Áfrýjandi reisir aðalkröfu sína á því að málsmeðferð héraðsdóms hafi verið haldin slíkum ágöllum að heimvísa beri málinu. Verður málatilbúnaður áfrýjanda skilinn svo að krafa hennar sé einkum sprottin af því að haustið 2012, við hina fyrri meðferð málsins í héraði, hafi henni verið synjað um frest uns fyrir lægi niðurstaða framangreindrar matsgerðar 12. október 2012 og að áfrýjanda hafi einnig í þinghaldi 17. september 2013 verið ranglega synjað um að leggja matsgerðina fram með ákvörðun héraðsdóms í stað úrskurðar. Öfugt við þá yfirmatsgerð sem aflað var vegna þess máls sem hér um ræðir hafi sú matsgerð verið reist á réttum forsendum um höggþunga sem áfrýjandi hafi orðið fyrir í árekstrinum 28. september 2007. Vísar áfrýjandi til 114. gr. og b. og c. liða 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 sjónarmiðum sínum til stuðnings. Þá sé héraðsdómur óljós um rökstuðning fyrir niðurstöðu, einkum um að þau stoðkerfiseinkenni sem áfrýjandi búi við rúmist innan 25 miskastiga samkvæmt töflu örorkunefndar og að niðurstaðan sé reist á yfirmatsgerð sem leggi rangar forsendur til grundvallar mati. Loks telur áfrýjandi að rétt hefði verið að annar meðdómsmanna í héraði væri vélaverkfræðingur eða eðlisfræðingur.

Lög standa ekki til þess að sú ákvörðun héraðsdóms að hafna framlagningu matsgerðar sem aflað var vegna málareksturs áfrýjanda á hendur öðrum aðila en stefndu í þessu máli leiði til ómerkingar hins áfrýjaða dóms og enn síður fullyrðing áfrýjanda um að honum hafi ekki verið veittur viðeigandi frestur haustið 2012 til að afla matsgerðarinnar. Þá varðar staðhæfing áfrýjanda um rangar forsendur matsmanna við yfirmatsgerð efni máls. Aðrar röksemdir áfrýjanda fyrir ómerkingarkröfunni eru haldlausar og verður henni því hafnað.

Héraðsdómur taldi yfirmatsmatsgerð þá sem fyrir lá í málinu frá 1. desember 2011 ekki haldna annmörkum, heldur var það niðurstaða dómsins, sem reist var á gögnum um líkamlegt ástand áfrýjanda fyrir og eftir slysið 28. september 2007, að henni hefði ekki tekist sönnun um að hún hafi orðið fyrir varanlegu heilsutjóni vegna þess. Að þessu gættu verður niðurstaða héraðsdóms, sem eins og áður greinir var skipaður sérfróðum meðdómsmönnum, staðfest um annað en málskostnað, sem felldur verður niður á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 2014.

Mál þetta, sem var dómtekið 17. febrúar 2014, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, […] á hendur Verði tryggingum hf., Borgartúni 25, Reykjavík og B, […], með stefnu, birtri  1. desember 2009.

Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 3.319.135 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum frá slysadegi, þeim 28. september 2007, til 25. mars 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 500.000 krónum, hinn 17. apríl 2009. Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu.

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

I

Mál þetta lýtur að fjárkröfum stefnanda vegna afleiðinga umferðaróhapps hinn 28. september 2007. Um fjögurra bíla árekstur var að ræða. Bifreið stefnanda var næstsíðust í röðinni. Myndir af bifreiðinni á slysstað sýna að hún er nánast óskemmd.

Stefnandi byggir á matsniðurstöðu Björns Daníelssonar lögmanns og Bjarna Valtýssonar læknis. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski stefnanda næmi 10 stigum og varanleg örorka 10%.

Stefndi, Vörður tryggingar hf., gerði stefnanda tilboð um að ljúka málinu með greiðslu bóta sem tóku mið af 7 stiga og 7% varanlegri örorku. Tilboð þetta var sett fram með öllum fyrirvara og áskilnaði um að neyta heimildar 10. gr. laga nr. 50/1993, það er að vísa áliti þeirra Björns Daníelssonar og Bjarna Valtýssonar til örorkunefndar.

Stefnandi hafnaði tilboðinu en óskaði þess að greidd yrði innborgun að fjárhæð 500.000 kr. sem stefndi bauðst til að greiða og var hún innt af hendi 15. apríl 2009 og  málinu jafnframt skotið til úrlausnar nefndarinnar.

Hinn 1. desember 2009 var stefna málsins gefin út og birt stefndu og tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. desember 2009.

Hinn 28. desember 2009 barst stefndu álitsgerð örorkunefndar sem gefin var út hinn 17. desember 2009. Niðurstaða nefndarinnar er sú að eina tjón stefnanda vegna óhapps þessa hafi verið veikindi án rúmlegu í tvo mánuði 28. september 2007 til og með 28. nóvember 2007 sem veitir stefnanda rétt til þjáningabóta þá daga. Annað tjón hefði ekki hlotist af þessu óhappi.

Stefnandi hafði áður lent í slysum, meðal annars hinn 14. febrúar 2002, en sátt hefur náðst í því máli. Mun stefnandi hafa slasast á sömu líkamshlutum í báðum þessum árekstrum. Í september 2010 fór stefnandi fram á að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta tjón stefnanda vegna slysanna. Til verksins voru fengnir þeir Torfi Magnússon læknir og Sigurður Arnalds hrl. Matsgerð þeirra er dagsett 9. júní 2011 og er niðurstaðan sú að afleiðingar vegna slyssins 28. september 2007 hafi  verið 10% varanlegur miski skv. 4. gr. skaðabótalaga og 12% varanleg örorka skv. 5. gr. sömu laga.

Stefndu óskuðu yfirmats og lögðu fram beiðni þar að lútandi hinn 21. júní 2011. Til verksins voru dómkvaddir þeir Stefán Carlsson bæklunarlæknir, Sigurður Thorlacius, heila- og taugalæknir, og Birgir G. Magnússon hdl. Yfirmatsgerðin lá fyrir 1. desember 2011 og varð niðurstaðan sú að stefnandi hafi ekki orðið fyrir varanlegu heilsutjóni vegna slyssins 28. september 2007 og því væri hvorki til að dreifa hjá henni varanlegum miska né varanlegri örorku vegna þess.

Hinn 16. desember 2011 óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu vélaverkfræðings til að meta meðal annars líklegan hraða bifreiðar þeirrar er ók aftan á bifreið stefnanda hinn 28. september 2007 sem og líklegan þyngdarkraft sem verkað hafi á stefnanda við áreksturinn.  Magnús Þór Jónsson prófessor var dómkvaddur til verksins og lá matsgerð hans fyrir í maí 2012. Niðurstaðan var sú að ætlaður hraði bifreiðarinnar hafi verið um 30 km/klst. og telur matsmaðurinn að miðað við það hafi höfuð stefnanda fengið hröðun sem sé yfir 20 g og því séu miklar líkur á varanlegum áverka vegna árekstrarins.

Að fenginni þessari niðurstöðu lýstu lögmenn gagnaöflun lokið í málinu og dómari tilkynnti að sérfróðir meðdómendur yrðu bæklunarlæknarnir Guðni Arinbjarnar og Ríkarður Sigfússon. Lögmaður stefnanda taldi þá vanhæfa til verksins. Úr þeim ágreiningi var fyrst leyst með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. júní 2012 þar sem kröfunni um að þeir  vikju sæti var hafnað. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 479/2012 frá 20. ágúst 2012.

Aðalmeðferð í málinu fór fram 28. september 2012 og var dómur kveðinn upp 10. október 2012. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 8. maí sl. var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. Stafaði það af vanhæfi Guðna Arinbjarnar. Í hans stað kom í dóminn Björn Sigurðsson bæklunarskurðlæknir. Stefnandi gerði kröfu hinn 23. september sl. um að allir dómendur máls þessa vikju sæti. Því var hafnað samanber dóm Hæstaréttar frá 27. nóvember sl. í málinu nr. 714/2013.

II

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á 88. gr. umferðarlaga, samanber 1. mgr. 90. gr., sbr. 1. mgr. 91. gr., sbr. 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 97. gr. sömu laga.

Stefnandi rökstyður dómkröfur sínar tölulega með neðangreindum hætti, sbr. niðurstöður sérfræðimatsgerðarinnar frá 24. febrúar 2009.

1.       Miskabætur: 8.097.000 x 10 stig                                                             kr.             809.700

2.       Bætur fyrir varanlega örorku: 021000x11,636x10%                          kr.           2.351.635

3.   Þjáningabætur                                                                                             kr.              127.800

4.   Annað fjártjón og sjúkrakostnaður                                                          kr.                30.000

Samtals er krafan að fjárhæð                                                                          kr.           3.319.135

Séu kröfur þessar byggðar á þeim sömu grunnfjárhæðum sem miðað sé við í bótatilboði hins stefnda félags frá 7. apríl 2009, að því frágengnu að miðað sé við niðurstöður sérfræðimatsins sem sótt hafi verið með heimild í 10. gr. skaðabótalaga.

Bætur fyrir annað fjártjón og sjúkrakostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga og að hún hafi haft nokkurn kostnað af máli þessu, vegna komu til lækna og greiðslu til þeirra vegna læknisathugana og vegna sjúkraþjálfunar. Varðandi mót hjá læknum og matsmönnum sé einnig kostnaður fyrir akstur og einnig símakostnaður. Byggir stefnandi á að kostnað þennan sé eðlilegt að meta að álitum, sbr. niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 35/2009.

Hvað varði væntanlegt álit örorkunefndar áskilur stefnandi sér rétt til að mótmæla niðurstöðum þess, meðal annars af þeim sökum að formaður nefndarinnar, Sveinn Sveinsson, hafi ekki verið á matsfundi og komi því ekki að matinu með löglegum hætti. Sé það til dæmis hans hlutverk að meta varanlega örorku, en hæpið að hann sé til þess fær í þeirri fjarlægð sem hann hafi verið við það sem meta skuli. Byggir stefnandi á að eftir því sem lengur dragist að álitið verði útgefið, hljóti gildi þess að minnka, en tæpir 10 mánuðir séu liðnir frá því sérfræðimatið hafi farið fram, er stefnandi byggir kröfur sínar á. Brjóti þessi framkvæmd og gegn þeirri meginreglu skaðabótalaga, að stefnandi eigi rétt á því að líkamstjón hans verði metið, er stöðugleikatímapunkti sé náð en tjónþolar eigi rétt á, að slík mál gangi hratt fyrir sig.

Þá byggir stefnandi á, beri hið stefnda félag fyrir sig að hún njóti bóta frá almannatryggingum vegna þeirra áverka sem hún hafi hlotið í slysinu, að þær bætur sem hún fái frá almannatryggingum séu ekki vegna þeirra áverka, sem stefnandi hafi hlotið í slysinu í september 2007. Einnig byggir stefnandi á að frádráttur skv. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga hafi verið afnuminn með lögum nr. 53/2009 og að frádrátturinn, ef hann verði talin eiga rétt á sér, nái allavega ekki yfir lengra tímabil en frá stöðugleikatímapunkti til þess tíma sem lög nr. 53/1993 hafi tekið gildi.

Stefnandi styður kröfur sínar við meginreglur bótakafla umferðarlaga, eins og lýst hafi verið. Bótafjárhæðina byggir stefnandi á 1. gr. skaðabótalaga til og með 7. gr. Þá skírskoti stefnandi sérstaklega til 10. gr. skaðabótalaga. Stefnandi vísar einnig til reglna vátryggingaréttarins um upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu vátryggingafélaga. Að félögin geti ekki takmarkað ábyrga sína, nema samkvæmt skýrum lagaheimildum. Stefnandi skírskoti einnig til 4. gr. reglugerðar um lögmæltar ökutækjatryggingar nr. 424/2008, sbr. og 1. gr. reglugerðarinnar um vátryggingaráhættu, sem og til efnis ökutækjatilskipana EBE og til greinargerðar með lögum nr. 155/2007.

III

Stefndi byggir á því að afleiðingar umferðaróhappsins sem stefnandi lenti í 28. september 2007, metnar eftir lagareglum skaðabótalaga, séu að fullu bættar. Því beri að taka kröfu stefndu um sýknu til greina.

Fyrir liggi matsgerð örorkunefndar, sem hafi falið í sér endurskoðun á mati Björns Daníelssonar hdl. og Bjarna Valtýssonar læknis þar sem metnar afleiðingar séu skilgreindar sem tveggja mánaða þjáningartímabil, sbr. 3. gr. laga nr. 50/1993. Uppreiknaðar þjáningabætur vegna þess tímabils hafi numið 1.420 kr. á dag, er stefndi, Vörður tryggingar hf., hafi gert stefnanda tilboð til sátta hinn 7. apríl 2009. Lengd tímabilsins sé metin sem 62 dagar af hálfu örorkunefndar, 28. september 2009 til 28. nóvember 2009. Heildartala þjáningabóta nemi þannig 88.040 kr. Jafnvel þó 4,5% vextir og hagsmunatengd lögmannsþóknun bætist við þá fjárhæð skuli fullyrt af hálfu stefnda að tjón stefnanda sé að fullu bætt með þeim 500.000 kr. sem greiddar hafi verið stefnanda hinn 15. apríl 2009.

Frekara tjón stefnanda sé ósannað. Stefndi hafi nýtt sér lögbundna heimild til að skjóta ágreiningi um matsniðurstöðu þeirra Björns og Bjarna til örorkunefndar sem komist hafi að því að niðurstaða þeirra ætti ekki við rök að styðjast. Því verði ekki frekar á mati þeirra byggt.

Til þess sé ætlast að örorkunefnd fari með endurskoðunarhlutverkið. Slíkt leiði beint af orðalagi 10. gr. laga nr. 50/1993 eins og lagagreininni hafi verið breytt með lögum nr. 37/1999. Í lögskýringargögnum sé þess enda getið að nefndinni sé fyrst og fremst ætlað hlutverk sem matsaðili á síðara stigi. Slíkt álit hafi nefndin látið í té og komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu varanlegu tjóni. Því séu ekki forsendur til annars en að sýkna stefndu. Að mati stefndu rýri það á engan hátt gildi álitsgerðar örorkunefndar að allir nefndarmenn hafi ekki verið viðstaddir viðtal stefnanda og þá læknisfræðilegu skoðun sem fram hafi farið á vegum nefndarinnar. Að mati stefndu standi engin rök til þess málatilbúnaðar stefnanda að formaður nefndarinnar sé á einhvern hátt hamlaður frá því að taka afstöðu til þeirra álitaefna sem nefndinni sé ætlað að huga að, þar með talið varanlegrar örorku. Við mat á þeim þætti sé til ítarlegra skriflegra gagna að líta sem fyrst og fremst sé byggt á, en í máli þessu liggi einmitt fyrir gnægð gagna þar sem fjallað sé meðal annars ítrekað um atvinnuþátttöku stefnanda, menntun og félagslegar aðstæður.

Staðan í máli þessu er sú að algerlega ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni. Um það beri stefnandi sem bótakrefjandi að sjálfsögðu sönnunarbyrðina. Hans sé að sanna þá staðhæfingu að hann hafi orðið fyrir tjóni og eins byrðina af því að sanna umfang þess tjóns. Sú sönnun sé ekki fyrirliggjandi.

Að auki sé það ekki einvörðungu svo að sönnun um tjón liggi ekki fyrir, sem nægi þó eitt og sér til sýknu, heldur stappi nærri að full sönnun liggi fyrir um hið öndverða, að fullsannað sé að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni. Verði í þessum efnum að vísa til álits örorkunefndar sem hafi hnykkt á þessu atriði með eftirfarandi orðum: „Örorkunefnd telur miðað við frásögn, fyrirliggjandi gögn, þekkingu á slysum og árekstrarmekanisma óhugsandi að tjónþoli hafi hlotið alvarlegan áverka í umferðarslysinu 28. september 2007.“

Auk álitsgerðar örorkunefndar í þessum efnum skuli einnig vísað til fyrirliggjandi ljósmynda frá lögreglunni. Af þeim megi ráða að umferðaróhapp það sem stefnandi hafi orðið fyrir hafi ekki verið harkalegt. Bifreið stefnanda […], sem dæmi, sé nánast óskemmd bæði að framan og aftan. Ekki sé heldur að sjá að nein bifreiðanna sé verulega skemmd þannig að bendi til harkalegrar ákeyrslu. Sýnist unnt að draga þá ályktun af þessum ákomum að næsta ósennilegt sé, ef ekki útilokað, að stefnandi hafi orðið fyrir hálshnykksáverka sem leitt hafi til langvarandi tognana, höfuðverkja og annarra meina. Alltént sýnast ákomur þessar, sem ljósmyndirnar beri með sér, vega þungt á þeim vogarskálum að tjón stefnanda sé ósannað. Það leiði til sýknu.

Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé til öryggis (ex tuto) mótmælt. Stefndi hafi nýtt sér lögvarinn rétt sinn til að æskja álits örorkunefndar þar sem hann hafi talið sig hafa réttmæta ástæðu til að ætla að kröfugerð stefnanda væri reist á ófullnægjandi forsendum. Það hafi örorkunefnd nú staðfest. Engar lagalegar forsendur séu því fyrir kröfugerð stefnanda hvað dráttarvexti snerti. Því geti ekki komið til þess að stefnanda verði dæmdir dráttarvextir fyrr en í fyrsta lagi frá dómsuppsögudegi, sbr. 9. gr. i.f. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Fyrir liggi að stefnandi hafi efnt til málssóknar þessarar án þess að tímabært væri þar sem fyrir hafi legið að stefndu höfðu nýtt sér nefndan lögvarinn rétt til málskots samkvæmt 10. gr. laga nr. 50/1993. Höfðun málsins hafi því verið að ófyrirsynju við þær aðstæður, sem beri að hafa í huga bæði við mat á því hver upphafstími dráttarvaxta telst vera en einnig við mat á því hvernig fara beri með málskostnað. Fella beri þann kostnað niður verði stefndu ekki hreinlega sýknaðir en í því tilviki beri jafnframt að horfa til þess hvernig til þessa máls hafi verið stofnað.

Stefndu vísa til áðurgreindra lagaraka er varðar sýknukröfu. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafist sé álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti, stefndu reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi og beri því nauðsyn til að fá dæmt álag er þeim skatti nemi á hendur stefnanda.

IV

                Mál þetta á rætur að rekja til fjögurra bifreiða árekstrar sem var 28. september 2007. Ekið var aftan á bifreið stefnanda sem lenti í kjölfarið á bifreiðinni fyrir framan. Stefndu hafa viðurkennt bótaskyldu í málinu. Ágreiningurinn lýtur að því hvort stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna árekstrarins og hefur stefnandi sönnunarbyrði fyrir því.

Í málinu liggja fyrir nokkrar matsgerðir. Er þar fyrst að nefna álitsgerð örorkunefndar samkvæmt 10. gr. laga nr. 50/1993 sem dagsett er 17. desember 2009, en eins og mál þetta liggur fyrir er ekki þörf á að fjalla sérstaklega um fyrstu matsgerðina, þ.e. matsgerð Björns Daníelssonar lögfræðings og Bjarna Valtýssonar læknis, er stefnandi aflaði. Örorkunefnd telur að miðað við frásögn, fyrirliggjandi gögn og þekkingu á slysum og árekstrarmekanisma sé óhugsandi að stefnandi hafi hlotið alvarlegan áverka í umferðarslysinu hinn 28. september 2007. Hafnað er þeim sjónarmiðum stefnanda að formaður örorkunefndar hafi ekki komið að matinu og að matið hafi dregist á langinn. Eðlilegt er að formaður örorkunefndar, sem er lögfræðingur, hafi ekki komið að læknisfræðilegri skoðun á stefnanda, en fyrir örorkunefnd lágu ítarleg skrifleg gögn þar sem fjallað er meðal annars ítrekað um atvinnuþátttöku stefnanda, menntun og félagslegar aðstæður.

Í kjölfar álitsgerðar örorkunefndar óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu tveggja matsmanna, lögfræðings og læknis, til að meta afleiðingar slyssins. Til verksins voru fengnir þeir Torfi Magnússon og Sigurður Arnalds. Niðurstaða þeirra var sú að varanlegur miski skv. 4. gr. skaðabótalaganna væri 10 stig og varanleg örorka skv. 5. gr. væri 12%. Fyrir utan það að yfirmats skv. 64. gr. laga um meðferð einkamála var krafist, þá er það aðfinnsluvert að stefnandi (matsbeiðandi) kom ekki öllum gögnum dómsmáls þessa til matsmanna svo sem venja stendur til. Rýrir það matsgerð þessa verulega.

Niðurstaða yfirmatsgerðar, dags 1. desember 2011, varð sú að stefnandi hafi ekki orðið fyrir heilsutjóni vegna árekstrarins 28. september 2007. Matsgerð þessi var staðfest af tveimur yfirmatsmönnum fyrir dómi. Rýrir það ekki gildi hennar þótt annar læknanna hafi ekki staðfest hana fyrir dóminum, auk þess sem lögmaður stefnanda hefði getað boðað hann fyrir dóm. Í yfirmatsgerðinni er byggt á þremur atriðum. Í fyrsta lagi er bent á að stefnandi hafi verið að fá einkenni frá stoðkerfi allt frá árinu 1995 og að hún hafi lent í þremur umferðarslysum á tímabilinu júlí 1989 til febrúar 2002 og verið metin samtals 25% varanleg læknisfræðileg örorka/miski þeirra vegna áverka á stoðkerfi. Í öðru lagi byggja yfirmatsmenn á ljósmyndum af bifreiðum er lentu í árekstrunum en um lítið tjón á þeim er að ræða og telja yfirmatsmenn ekki líkur á því að höggin hafi valdið varanlegu líkamstjóni. Í þriðja lagi byggja yfirmatsmenn á lýsingu Sigurjóns Sigurðssonar læknis í vottorði 5. júlí 2007 um ástand stefnanda fyrir slysið, en hann skoðaði stefnanda 12. febrúar 2007. Samanburður á lýsingu í vottorði þessu og skoðun á matsfundi 18. október 2011 sýni ekki versnun á ástandi stefnanda milli þessara tímapunkta. Niðurstaða yfirmatsmanna er því sú að stefnandi hafi ekki orðið fyrir varanlegu heilsutjóni vegna slyssins 28. september 2007. Tekur dómurinn undir niðurstöðu þessa og telur að hluti einkenna og versnunar í tíma megi rekja til slitbreytinga í hálsi sem staðfest var fyrir slysið með segulómun. Dómurinn telur að þau stoðkerfiseinkenni sem stefnandi býr við í dag rúmist innan 25 miskastiga samkvæmt töflu örorkunefndar og stefnanda hafa þegar verið metnar. Ennfremur telur dómurinn ósannað, að stefnandi hafi hlotið aukin andleg einkenni í kjölfar slyssins 28. september 2007.

Stefnandi hefur aflað matsgerðar Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors þar sem farið er fram á að metinn verði hraði bifreiðar þeirrar er ók aftan á bifreið stefnanda og hver væri líklegasti þyngdarkraftur sem verkað hafi á stefnanda, annars vegar er ekið var aftan á bifreið hennar og hins vegar er hennar bifreið ók aftan á bifreiðina fyrir framan.

Samkvæmt 2. mgr. 66. gr. laga um meðferð einkamála leggur dómari mat á sönnunargildi matsgerða. Matsgerð þessi byggist á líkindareikningi þar sem metinn er líklegasti hraði bifreiðarinnar og líklegasti þyngdarkrafturinn en matsgerðin veitir enga sönnun á líkamlegu ástandi stefnanda eftir slysið. Eins og mál þetta liggur fyrir verður matsgerð þessi ekki lögð til grundvallar því að stefnandi hafi hlotið varanlegt tjón vegna slyssins 28. september 2007.

                Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða málsins að stefnanda hafi ekki tekist sönnun þess að hún hafi hlotið varanlegan skaða í slysinu 28. september 2007. Því ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.

                Með vísan til 131. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 kr.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari, ásamt læknunum Birni Sigurðssyni og Ríkarði Sigfússyni, kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndu, Vörður tryggingar hf. og B, eru sýknaðir af kröfum stefnanda, A.

Stefnandi greiði stefndu 500.000 kr. í málskostnað.