Hæstiréttur íslands
Mál nr. 362/2000
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Sjómaður
- Skipsleiga
- Aðild
|
|
Fimmtudaginn 29. mars 2001. |
|
Nr. 362/2000. |
Halldór Steinþórsson(Jóhann Halldórsson hrl.) gegn Atlantsskipi ehf. (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) |
Ráðningarsamningur. Sjómenn. Skipsleiga. Aðild.
H lét af störfum sem skipstjóri á skipinu P, sem A leigði með tímaleigusamningi, eftir að honum hafði verið tilkynnt að annar maður hefði verið ráðinn til að taka við stjórn skipsins. H krafði A í kjölfarið um laun í uppsagnarfresti vegna riftunar á ráðningarsamningi. A krafðist hins vegar sýknu vegna aðildarskorts þar sem H hefði ekki verið starfsmaður þess heldur starfsmaður B, sem annast hafði útgerð skipsins á vegum eiganda þess. A hefði hins vegar haft milligöngu um ráðningu H að beiðni B. Ekki var gerður skriflegur samningur um ráðningu H í starf skipstjóra. Talið var að almennt væri skipstjóri fulltrúi eiganda þegar skip væru tekin á tímaleigu. Samkvæmt bókunum í leiðabók tók H við stjórn skpisins sem fulltrúi B og var endanlegt ákvörðunarvald um ráðningu og starfslok H í höndum hans. Með hliðsjón af því og ráðningarkjörum H að öðru leyti var talin nægjanlega í ljós leitt að áfrýjandi hefði verið ráðinn í þjónustu B en ekki A. Var A því sýknað vegna aðildarskorts.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. september 2000. Krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér 1.117.152 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 23. júlí 1999 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Málavextir eru þeir að stefndi annaðist reglubundnar siglingar milli Norður Ameríku og Íslands við flutninga fyrir varnarlið Bandaríkjanna hér á landi. Til þessara flutninga leigði hann skipið Panayiota með svonefndum tímaleigusamningi 12. október 1998. Skipið var skráð á Kýpur. Tímaleigusamningurinn var gerður við eiganda skipsins, Deoman Maritime Ltd. á Kýpur, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum virðist Bridgestone Shipping Ltd. á Kýpur hafa annast útgerð þess á vegum eigandans. Símon Kjærnested, stjórnarformaður stefnda, hafði um þetta leyti samband við starfsmann Skipstjóra- og stýrimannafélags Íslands og formann Sjómannafélags Reykjavíkur í því skyni að fá ábendingar um mann, sem tekið gæti við skipstjórn á skipinu. Var samband haft við áfrýjanda varðandi starfið, en hann var þá 1. stýrimaður á skipi Samaskipa hf., Arnarfelli. Hafði hann ekki áhuga á starfinu á þessum tíma, en benti á Agnar Guðmundsson. Var Agnar ráðinn sem skipstjóri á skipið og tók við því í Norfolk í Bandaríkjunum 18. desember 1998. Sinnti hann síðan skipstjórn samfellt til 1. febrúar 1999, en þá var áfrýjandi ráðinn til að annast starfið á móti Agnari. Tók hann við skipinu í Njarðvík 1. febrúar 1999 og stjórnaði næstu ferð þess. Agnar tók við skipinu í þeirri ferð, er þar fylgdi á eftir frá 8. mars til 1. apríl 1999, en síðastgreindan dag tók áfrýjandi aftur við starfinu. Að áliðinni þeirri ferð tilkynnti Bridgestone Shipping Ltd. áfrýjanda að erlendur maður hefði verið ráðinn skipstjóri og tæki við stjórn skipsins eftir komu þess til Njarðvíkur 23. apríl 1999. Gekk það eftir og létu áfrýjandi og Agnar þar með af störfum.
Áfrýjandi höfðaði mál þetta til heimtu launa í uppsagnarfresti eftir að ráðningu hans lauk í kjölfar þeirra atvika, sem að framan greinir. Snýst ágreiningur aðila fyrst og fremst um hvort áfrýjandi hafi verið ráðinn til skipstjórastarfa af stefnda eða hinu erlenda félagi, er annaðist útgerð skipsins fyrir hönd eigandans.
II.
Ekki var gerður skriflegur samningur um ráðningu áfrýjanda til starfa skipstjóra á Panayiota. Ljóst er, eins og að framan er rakið, að stefndi hafði frumkvæðið að því að fá áfrýjandi til þess starfa. Stefndi heldur því fram að ekki hafi komist á ráðningarsamningur milli sín og áfrýjanda, heldur hafi hann verið ráðinn hjá Bridgestone Shipping Ltd. þótt stefndi hafi haft þar milligöngu. Fyrir þeirri staðhæfingu verður stefndi að bera sönnunarbyrði.
Áfrýjandi bar fyrir héraðsdómi að hann hafi verið ráðinn til starfa hjá stefnda af Símoni Kjærnested og ekki hafi annar vinnuveitandi verið nefndur við ráðninguna. Símon bar að í tengslum við ráðninguna hafi áfrýjandi komið með skjöl sín og skilríki, sem síðan hafi verið send til Kýpur, og í framhaldi af því hafi komið svar þaðan um ráðningu áfrýjanda. Í málinu liggur fyrir bréf stefnda til Bridgestone Shipping Ltd. 18. janúar 1999, þar sem hann tekur fram að áfrýjandi sé reyndur sjómaður með nauðsynleg réttindi og góð meðmæli. Fylgdu bréfinu skírteini áfrýjanda. Þá liggur einnig fyrir að Agnar Guðmundsson hafði samband við Bridgestone Shipping Ltd. í tengslum við ráðningu sína og félagið samþykkt hann til starfans. Samkvæmt þessu er í ljós leitt að Bridgestone Shipping Ltd. kom að ráðningu skipstjóra meðan stefndi hafði skipið á tímaleigu.
Skipið Panayiota var sem áður segir leigt stefnda með svonefndum tímaleigusamningi. Það er einkenni slíkra samninga að eigandi skips leggur það til með áhöfn og sér meðal annars um greiðslu launa. Svo var einnig í þessu tilviki. Í samningnum var meðal annars tekið fram í 1. gr. að eigandinn greiði öll laun, í 8. gr. að skipstjórinn sé háður vissum fyrirmælum leigutaka þótt hann sé ráðinn af eiganda og í 26. gr. að ekkert í samningnum beri túlka á þann hátt að skipið sé framselt leigutökum og eigendur haldi áfram að vera ábyrgir fyrir meðal annars siglingu þess og áhöfn. Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð skýrsla, sem áfrýjandi aflaði fyrir héraðsdómi 2. október 2000 af Hauki Má Stefánssyni, forstöðumanni skipa- og gámarekstrardeildar Hf. Eimskipafélags Íslands. Þar kom meðal annars fram að skip, sem það félag hefur haft á tímaleigu, hafi alltaf verið mönnuð starfsmönnum eiganda. Frá þessu hafi þó þekkst afbrigði. Þannig séu dæmi þess að félagið hafi ráðið mann til starfa á sínum vegum um borð í slíkum skipum, en þá hafi yfirleitt verið gerður samningur um það við eiganda skipsins. Í framburði Hauks kom ekki fram að umrætt félag hafi ráðið skipstjóra til starfa í tilvikum sem þessum.
Fyrir liggur að um það var samið að áfrýjandi fengi greidda 200 bandaríkjadali fyrir hvern þann dag, er hann starfaði um borð í skipinu, en ekkert þess utan. Skyldu laun greidd í lok hverrar ferðar. Ráðningarkjörin voru því verulega frábrugðin því fyrirkomulagi, sem gert er ráð fyrir í íslenskum kjarasamningum skipstjóra á flutningaskipum. Áfrýjandi bendir hins vegar á að sé lágmarkskaup skipstjóra samkvæmt kjarasamningi, sem gilti hér við gerð ráðningarsamnings hans, reiknað yfir til dagkaups með þeirri aðferð, sem þar sé kveðið á um, komi út fjárhæð, sem sé lítillega lægri en sú, sem áfrýjandi fékk greidda miðað við gengi bandaríkjadals á þessum tíma. Ekki liggja fyrir í málinu óyggjandi upplýsingar um hvernig greiðslu launa áfrýjanda var háttað. Gögn málsins sýna að stefndi greiddi tvívegis laun áfrýjanda inn á bankareikning hans, samtals 453.000 krónur. Þá hefur stefndi lagt fram yfirlit, sem sýnir að hann hafi samanlagt greitt áfrýjanda meira en þá fjárhæð, sem laun hans áttu að nema. Þessar greiðslur segist stefndi hafa innt af hendi fyrir Bridgestone Shipping Ltd. og fengið endurgreiddar, en um það hefur hann þó ekki lagt fram gögn þótt áfrýjandi hafi mótmælt staðhæfingum hans um þetta efni. Til þess verður hins vegar að líta að fyrir liggur í málinu símbréf áfrýjanda 21. apríl 1999, þar sem hann krafði Bridgestone Shipping Ltd. um greiðslu launa.
Óumdeilt er að stefndi hafði ekki undir höndun skattkort áfrýjanda, hann hélt ekki eftir staðgreiðslu skatta, skilaði ekki greiðslum í lífeyrissjóð og stóð ekki skil á launatengdum gjöldum. Ekki gerði stefndi launaseðla til handa áfrýjanda. Símon Kjærnested bar fyrir héraðsdómi að hann hafi rætt ítarlega við Agnar Guðmundsson í tengslum við ráðningu hans um tryggingarmál og að hann yrði utan íslenska tryggingarkerfisins í starfi sínu, en hann mundi ekki hvort hann hefði rætt þau mál við áfrýjanda.
Þegar Agnar Guðmundsson tók við skipstjórn á Panayiota 18. desember 1998 í Norfolk var svofelld færsla gerð í leiðabók skipsins: „Command of vessel Panayiota handed over to Capt. Gudmundsson Agnar of Bridgestone Shipping.“ Með svipuðum hætti var eftirfarandi fært í leiðabók er áfrýjandi tók fyrst við skipstjórn í byrjun febrúar 1999: „Command of vessel Panayiota handed over to another capt. of Bridgestone Shipping.“ Fyrir héraðsdómi bar áfrýjandi að hann hafi við störf sín um borð fyrst og fremst verið í samskiptum við Atlantsskip ehf. sem yfirboðara sinn, en sent reglulega skeyti til eiganda skipsins „til þess að láta hann fylgjast með ganghraða, olíu og þáttum sem sneru að skipinu.“
Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að Bridgestone Shipping Ltd. hafi einhliða ákveðið að ráða erlendan skipstjóra á skipið í stað áfrýjanda og Agnars Guðmundssonar. Var þessi ákvörðun tilkynnt stefnda með bréfi 20. apríl 1999 og áfrýjanda, sem þá gengdi skipstjórastarfinu, með skeyti 21. sama mánaðar.
Þegar allt framangreint er virt verður sérstaklega að líta til þess að stefndi tók umrætt skip á tímaleigu og þess hlutverks, sem skipstjóri hefur almennt sem fulltrúi eiganda skips í slíkum tilvikum, en áfrýjandi gegndi starfi skipstjóra um borð. Eftir hljóðan bókana í leiðabók skipsins tók áfrýjandi við stjórn þess sem fulltrúi Bridgestone Shipping Ltd. Áður er greint frá því, sem liggur fyrir um starfskjör áfrýjanda og fyrirkomulag launagreiðslna. Samkvæmt gögnum málsins virðist endanlegt ákvörðunarvald um ráðningu og starfslok áfrýjanda og Agnars Guðmundssonar hafa verið í höndum Bridgestone Shipping Ltd. Að þessu athuguðu verður að telja stefnda hafa leitt nægjanlega í ljós að áfrýjandi hafi verið ráðinn í þjónustu Bridgestone Shipping Ltd., sem kom fram fyrir eiganda skipsins, en ekki til stefnda, leigutaka þess. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. júní 2000.
I.
Mál þetta sem dómtekið var 13. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness af Halldóri Steinþórssyni, kt. 080356-5019, Fálkahöfða 6, Mosfellsbæ, gegn Atlantsskipi ehf., kt. 480596-2349, Þrastanesi 16, Garðabæ, með stefnu birtri 29. september 1999.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega, að stefndi verði dæmdur til greiðslu launakröfu að fjárhæð kr. 1.441.040, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987, af þeirri fjárhæð frá 1. maí 1999 til greiðsludags, en til vara að stefndi verði dæmdur til greiðslu launakröfu að fjárhæð kr. 1.117.152, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af þeirri fjárhæð frá 23. júlí 1999 til greiðsludags. Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. maí 2000. Loks er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins auk álags er nemi virðisaukaskatti af honum.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara er þess krafist að kröfur verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofu Láru V. Júlíusdóttur, hrl.
II.
Málavextir eru þeir að stefnandi réð sig sem skipstjóra á flutningaskipið m/s Panayiota frá febrúarmánuði 1999 og út júnímánuð 1999.
Ágreiningur í máli þessu snýst um það, hver hafi ráðið stefnanda sem skipstjóra á skipið, hvort uppsögn hafi verið ólögmæt, sem leiði til þess að stefnandi eigi rétt á þriggja mánaða launum á uppsagnarfresti, en ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda.
III.
Stefnandi lýsir aðdragandanum að ráðningu sinni hjá félaginu á þá leið, að Símon Kjærnested, stjórnarformaður stefnda hafi leitað til Skipstjóra- og stýrimannafélags Íslands í því skyni að ráða skipstjóra til starfa um borð í skip félagsins m/s Panayiota. Hafi honum m.a. verið vísað á stefnanda. Stefnandi hafi í fyrstu bent á annan mann, Agnar Guðmundsson, sem hafi verið ráðinn skipstjóri á skipið. Um mánaðarmótin janúar/febrúar 1999 hafi stefnandi látið til leiðast, fyrir fortölur stjórnarformanns stefnda, og ráðið sig til starfa sem skipstjóra á umrætt skip á móti Agnari Guðmundssyni. Hafi verið ráðgert að þeir myndu sigla sitt hvora ferðina og skiptast á skipstjórn í hvert sinn sem skipið kæmi til Njarðvíkurhafnar. Stefnandi hafi tekið við stjórn skipsins 1. febrúar 1999 og stjórnað því til 8. mars 1999, en þá hafi Agnar tekið við skipinu. Næst hafi stefndi tekið við skipinu 1. apríl 1999 til 23. apríl 1999.
Skriflegur ráðningarsamningur var ekki gerður við stefnanda. Stefndi gaf ekki út launaseðla, að sögn stefnanda, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur þess efnis af hálfu stefnanda. Stefndi hafi engu að síður lagt inn launagreiðslur inn á ávísanareikning stefnanda í Íslandsbanka í Mosfellsbæ, annars vegar kr. 72.000, þann 29. mars 1999 og hins vegar kr. 381.000, þann 27. apríl 1999.
Stefnanda barst símskeyti um borð þann 22. apríl 1999, daginn áður en komið var til Njarðvíkur og honum tilkynnt að annar skipstjóri tæki við skipinu. Hann hafi aldrei verið boðaður til skips eftir það. Stefnanda hafi ekki verið sagt upp störfum með formlegum hætti. Stefnandi hafi í fyrstu verið atvinnulaus, en hóf störf 1. maí 1999 hjá Samskipum hf.
Sundurliðun á dómkröfum stefnanda er eftirfarandi:
Krafa stefnanda hefur verið reiknuð út af Skipstjóra- og stýrimannafélagi Íslands í samræmi við gildandi kjarasamning og ákvæði laga nr. 35/1985.
Aðalkrafa er sundurliðuð með eftirfarandi hætti:
Dagkaup í 65 dagakr. 870.285
Frídagar í 25 daga“ 334.725
Fæðispeningar“ 49.320
Landgöngufé í 65 daga“ 20.475
Orlof“ 166.235
Samtals“1.441.040
Stefnandi gerir einnig varakröfu í máli þessu, þar sem laun hans í uppsagnarfresti eru dregin frá dómkröfu.
Samtala launakröfu, sbr. ofangreintKr. 1.441.040
Frádráttur:
Laun 01.05.99 til 31.05.99“ 28.774
Laun 01.06.99 til 30.06.99“ 189.331
Laun 01.07.99 til 23.07.99“ 105.783
SamtalsKr. 1.117.152
Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndi hafi borið lagaskyldu til þess að gera skriflegan ráðningarsamning við sig skv. 6. gr. laga nr. 35/1985, sbr. einnig 42. gr. sömu laga.
Þá byggir stefnandi á þeirri málsástæðu, að stefndi hafi brotið ákvæði 32. gr. laga nr. 35/1985, þar sem hann gaf aldrei út launaseðla.
Ólögmæt uppsögn er byggð á þeirri málsástæðu, að stefndi hafi stofnað til ráðningarsambands við stefnanda og hafi rift þeim samningi með ólögmætum hætti með því að ráða annan skipstjóra til starfa á m/s Panayiota. Samkvæmt 44. gr. laga nr. 35/1985 eigi stefnandi rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti. Litið sé því svo á af hálfu stefnanda, að riftun stefnda á ráðningarsamningi aðila hafi jafngilt lausn stefnanda undan vinnuskyldu, enda augljóst strax við brottvikningu stefnanda, að stefndi hugðist ekki nýta starfskrafta hans frekar.
Varakrafa stefnanda er byggð á þeirri málsástæðu, að stefnda verði gert að greiða honum laun í uppsagnarfresti að frádregnum launum, sem stefnandi vann fyrir í starfi sínu hjá Samskipum hf. á tímabilinu 1. maí 1999 til 23. júlí 1999.
Þá er því alfarið mótmælt af hálfu stefnanda, að hann hafi ekki verið á launaskrá hjá stefnda. Að mati stefnanda sé þessi málatilbúnaður fráleitur og stangist á við gögn málsins og málsatvik. Stefndi beri sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu sinni, að stefnandi hafi verið ráðinn af öðrum aðila en stefnda, sbr. 6. gr., sbr. 42. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Þá byggir stefnandi á þeirri málsástæðu, að hann hafi aldrei átt samskipti við eiganda skipsins eða nokkurn annan aðila á hans vegum.
IV.
Stefndi kveðst sjá um flutninga fyrir varnarliðið milli Íslands og Bandaríkjanna. Í þeim tilgangi hafi stefndi leigt m/s Panayiota tímaleigu af útgerðarfyrirtækinu Bridgestone Shipping Limited á Kýpur frá nóvember 1998 til júní 1999. Í þeim samningi sé kveðið á um að útgerðaraðilinn, Bridgestone Shipping Limited, annist ráðningar áhafnar og sjái um allar launagreiðslur. Stefndi leigði skipið með áhöfn. Af þeirri ástæðu sé stefnda ranglega stefnt í máli þessu.
Símon Kjærnested, stjórnarformaður stefnda, hafði um það milligöngu, að stefnandi var ráðinn skipstjóri á m/s Panayiota. Jafnframt hafi Agnar Guðmundsson verið ráðinn skipstjóri og skyldu þeir skiptast á um að sigla skipinu til Bandaríkjanna. Að ósk Bridgestone Shipping Limited hafi Símon Kjærnested komið á tengslum milli þessara aðila og bent stefnanda á að hafa samband beint við útgerðina vegna ráðningarkjaranna, sem stefnandi hafi gert. Símon hafi aldrei komið sjálfur að sammningagerð þessara aðila, enda hafi hann hvorki sjálfur né fyrirtæki hans neitt með rekstur eða mannaráðningar skipsins að gera. Símoni hafi verið kunnugt um að stefnandi hafi samið um kjör við Bridgestone Shipping Limited, $ 200 á dag fyrir alla daga sem hann væri um borð og ekkert þess utan. Greiðslu fyrir þessa vinnu skyldu inntar af hendi í lok hverrar ferðar. Forsvarsmaður stefnda veit ekki til þess að gerður hafi verið skriflegur samningur og hvergi sé kveðið á um það, að íslenskar reglur eigi að gilda um kjör mannanna. Erlent útgerðarfyrirtæki hafi gert ráðningarsamning við skipstjóra á erlendu skipi.
Stefnandi hafi farið tvær ferðir sem skipstjóri á umræddu skipi til Bandaríkjanna. Í seinna skiptið hafi skipið komið til Njarðvíkur 23. apríl 1999. Tveimur dögum áður, 21. apríl 1999 barst útgerðarfyrirtækinu Bridgestone Shipping Ltd. símbréf frá stefnanda, þar sem hann krefur útgerðina um laun vegna ferðarinnar. Í þessu símbréfi kveður stefndi stefnanda hafi haft í hótunum gagnvart útgerðinni. Laun hafi ekki átt að greiða fyrr en í lok ferðar og hafi þau verið greidd með skilum eins og áður hafði verið gert. Hafði útgerðin beðið stjórnarformann stefnda að annast þessar greiðslur og gerði hann það.
Vegna þess ágreinings sem kominn var upp milli stefnanda og útgerðarfyrirtækisins og þeirrar hótunar sem kom fram í símbréfi telur stefndi, að útgerðarfyrirtækið hafi ákveðið að ráða nýjan skipstjóra á skipið til að tryggja það að skipið gæti siglt milli landa. Stefndi fékk vitneskju um þetta með símbréfi, dagsettu 20. apríl 1999. Í stefnu kemur fram, að stefnandi hafi ennfremur fengið skeyti, þar sem þetta var tilkynnt. Þetta skeyti er ekki lagt fram í málinu. Þegar þessi staða var komin upp vildi stefndi forða því, að skipið stöðvaðist vegna ágreinings um skipstjórn og hafi stefndi þá hlutast til um að reyna að leysa deilurnar milli útgerðarfyrirtækisins og stefnanda. Til þess hafi hann fengið sérstakt umboð frá útgerðinni. Stefndi hafi gert Agnari Guðmundssyni, sem var skipstjóri á móti stefnanda, tilboð um að taka annað hvort að sér störf skipstjóra eða störf svokallaðs Super Cargo, sem sé einn yfirmanna um borð, sem hafi eftirlit með hleðslu skipsins og taldi stefndi, að Agnar hafi samþykkt þá tilhögun. Agnar hafi komið um borð með farangur sinn, en nokkrum klukkstundum áður en láta átti úr höfn, hafi hann gengið frá borði, að sögn stefnda. Hann hafi jafnframt tilkynnt stefnda að stefnandi væri jafnframt hættur. Því sé rangt sem haldið sé fram í stefnu að báðum þessum skipstjórnarmönnum hafi fyrirvaralaust verið vikið úr skipsrúmi. Því er haldið fram að þessi háttsemi hafi valdið stefnda verulegu tjóni og töfum. Stefnanda hafi verið fullkunnugt um það, hvenær þess var vænst, að hann kæmi sjálfur til skipstjórnar í næsta túr, því hann hafi sjálfur mætt á bryggjuna og farið um borð til að sækja einhverja hluti sem hann hafi átt. Að sögn stefnda hafi stefnandi þá hvorki haft samband við leigutaka né útgerðina og verði því að líta svo á að hann hafi sjálfur gengið úr skipsrúmi.
Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi byggð á þeirri málsástæðu, að hann hafi ekki verið aðili að þeim ráðningarsamningi, sem stefnt sé út af. Stefndi hafi einvörðungu komið á sambandi milli stefnanda og útgerðarinnar. Honum sé því ranglega stefnt. Telji stefnandi sig hafa verið að gera ráðningarsamning við Atlantsskip ehf., þegar hann réði sig til starfa sem skipstjóra á m/s Panayiota, beri hann sönnunarbyrði fyrir því að svo sé. Enginn ráðningarsamningur liggi fyrir í málinu milli stefnanda og stefnda né neitt það sem renni stoðum undir þessa fullyrðingu stefnanda. Öll gögn málsins beri það með sér, að ráðningaraðilinn sé Bridgestone Shipping Limited, sem sé útgerðarfyrirtæki með aðsetur á Kýpur. Í framlögðum gögnum komi fram, að stefndi sé leigutaki skipsins m/s Panayiota, en eigandi þess sé útgerðarfélag á Kýpur. Leigan sé svokölluð tímaleiga og leigi þá stefndi skipið með allri áhöfn þess. Stefndi komi því hvorki að launamálum né tryggingarmálum áhafnarinnar.
Þá byggir stefndi á þeirri málsástæðu, að stefnandi hafi sjálfur snúið sér að Bridgestone Shipping Ltd, þegar hann hafi gert kröfu til þess að laun yrðu greidd, þegar hann kæmi til hafnar. Það fari eftir landi útgerðarfyrirtæksins hvers lands reglur gilda um áhöfn skipsins og hvaða kjarasamningar skuldi gilda. Samkvæmt meginreglum siglingaréttarins sé skipstjóri ráðinn af útgerð skipsins og beri alla ábyrgð á skipinu í hafi. Ráðningin hafi farið fram fyrir milligöngu stefnda, en hann hafi sjálfur ekki verið aðili ráðningarsamningsins, hafi ekki komið að gerð hans, framkvæmd né ráðningarslitum, að öðru leyti en því, að hann hafi samkvæmt tilmælum útgerðarinnar lagt ákveðnar fjárhæðir inn á reikning stefnanda. Ennfremur hafi hann reynt að ná sáttum milli útgerðarinnar og stefnanda, þegar ágreiningur var kominn upp. Á því er byggt að stefndi hafi ekki annast launagreiðslur til stefnanda, hafi ekki gert launaseðla, hafi ekki undir höndum skattkort stefnanda eða haldið eftir staðgreiðslu skatta, hafi ekki skilað greiðslum í lífeyrissjóð eða öðrum gjöldum sem íslenskum atvinnurekendum sé skylt að skila. Einu afskipti hans af launagreiðslum hafi verið þau að hann hafi lagt fjárhæðir inn á reikning stefnanda samkvæmt óskum Bridgestone Shipping Limited. Stefndi hafi síðan krafið Bridgestone Shipping Limited um þessar greiðslur svo sem annan kostnað sem hann hafði vegna útgerðarfélagsins. Af þessum ástæðum geti stefndi ekki orðið aðili máls þessa á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Í öðru lagi sé sýknukrafa byggð á þeirri málsástæðu telji dómurinn, að stefndi eigi aðild að málinu, þá hafi stefnandi þegar fengið laun sín að fullu greidd eins og um þau hafi verið samið. Samningur útgerðarinnar og stefnanda hafi lotið að því að stefnandi fengi $200 á dag fyrir alla daga sem hann væri um borð, en ekkert þess utan. Íslensk lög og samningar nái ekki yfir þessi samskipti og því geti stefnandi ekki gert kröfur á grundvelli þeirra um bætur vegna launa á uppsagnarfresti. Ekkert hafi verið samið um uppsagnarfrest og ekkert liggi fyrir í málinu, hvort skipstjórnarmenn á Kýpur hafi einhvern uppsagnarfrest samkvæmt þess landslögum eða ekki. Stefnandi hafi þegar að fullu fengið uppgerð þau laun sem hann hafi unnið sér inn samkvæmt ráðningarsamningi og eigi þar af leiðandi eigi rétt á frekari greiðslum um laun á uppsagnarfresti. Ekki hafi verið samið um uppsagnarfrest og ákvæði sjómannalaga nr. 35/1985 eigi hér ekki við.
Jafnvel þótt litið verði svo á að sjómannalög eigi hér við, þá byggir stefndi á þeirri málsástæðu að stefnandi geti ekki gert kröfu til launa á uppsagnarfresti, þegar af þeirri ástæðu að hann hafi sjálfur gengið úr skipsrúmi vegna ágreinings sem upp hafi komið milli hans og útgerðarinnar. Hann hafi ekki sýnt fram á það, að honum hafi verið vikið úr skipsrúmi. Ekki liggi fyrir nein sönnun fyrir því að um brottrekstur hafi verið að ræða.
Þá er sýknukrafa ennfremur byggð á þeirri málsástæðu, að stefnandi hafi verið skipstjóri skipsins, og sem slíkur hafi hann haft víðtækum skyldum að gegna um borð gagnvart útgerð skipsins. Hann hafi meðal annars annast færslur í skipsdagbók og séð um að gildandi reglum um lögskráningu sé fylgt. Hafi verið misbrestur á lögskráningu hans sjálfs, sé sá misbrestur á hans eigin ábyrgð. Með því að ganga úr skipsrúmi hafi hann brotið alvarlega skyldur sínar sem skipstjóri og ollið með athöfnum sínum útgerð og leigutaka tjóni. Stefndi áskilji sér því allan rétt í því sambandi.
Athyglisvert sé, að eingöngu sé byggt á íslenskum kjarasamningum vegna launa á uppsagnarfresti. Engin krafa sé gerð vegna þess sem kunni að vanta á launagreiðslur á þeim tíma, sem stefnandi sinnti skyldum sínum sem skipstjóri. Ef hann telji að hann geti sett fram kröfur á grundvelli íslenskra reglna varðandi uppsagnarfrestinn, ætti hann jafnframt að geta sett fram kröfur um leiðréttingu fyrir liðinn tíma. Málatilbúnaðurinn bendi til þess, að stefnanda sé fulljóst um þann samning sem raunverulega var gerður milli hans og útgerðarinnar, enda hljóti skipstjóri að gera sér grein fyrir því hver útgerðin sé, sem hann starfi hjá.
Varðandi útreikning kröfu sé gerður fyrirvari á réttmæti hennar. Í því sambandi sé vísað í dóm Hæstaréttar 1996:4060, þar sem réttur til greiðslu á frídögum taki mið af því, hversu lengi útgerð var eigandi skips.
Krafa um málskostnað sé byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, 129. og 130. gr.
V.
Stefnandi, Halldór Steinþórsson og forsvarsmaður stefnda, Símon Kærnested, gáfu aðilaskýrslur og Agnar Guðmundsson, Jón Norðfjörð og Jónas Garðarsson gáfu vitnaskýrslur fyrir dómi.
VI.
Niðurstöður.
Gerður var samningur 12 október 1998 milli stefnda og eiganda m/s Panayiota, Deoman Martitime Ltd, Limassol, á Kýpur, að stefndi tæki á tímaleigu vélskipið m/s Panayiota.
Í samningnum kemur fram, að eigandi greiði laun áhafnar og er skipstjóri ekki undanskilinn.
Þá liggur í málinu yfirlýsing frá Jan Gislholt Shipping, Inc. dags. 29. nóvember 1999, sem er skipamiðlarinn er kom á fyrrgreindum leigusamningi milli stefnda og Deoman Martitime Ltd. Þar kemur fram að íslensku skipstjórarnir, hafi verið ráðnir af eiganda skipsins og hafi starfað fyrir hann.
Ekki er ágreiningur um launakjör, en þau voru $200 á dag fyrir alla daga, sem stefnandi var um borð og ekkert þess utan.
Þá liggur fyrir í málinu bréf frá stefnda, dags. 18. janúar 1999, til Bridgestone Shipping Ltd., þar sem stefndi greinir frá því, að hann hafi rætt við stefnanda. Stefnandi fái góð meðmæli og stefndi sendir jafnframt skilríki stefnanda til Bridgestone Shipping Ltd.
Ennfremur liggur fyrir bréf frá Bridgestone Shipping Ltd., til stefnda, dags. 20. apríl 1999, þar sem stefnda er tilkynnt að nýr skipstjóri, Mohamad Bassam Diab, taki við skipinu 22. apríl 1999.
Þá hefur verið lagt fram skeyti, dagsett 21. apríl frá Bridgestone Shipping Ltd. til stefnanda, þar sem honum er tilkynnt að við komuna til Reykjavíkur, taki nýr skipstjóri, Mohamad Bassam Diab, við skipinu.
Þá liggur fyrir skeyti frá stefnanda, dagsett 21. apríl til Bridgstone Shipping Ltd, þar sem stefnandi gengur eftir því, að laun hans verði greidd og lögð inn á bankareikning hans á Íslandi.
Stefnandi byggir mál sitt fyrst og fremst á þeim málsástæðum, að viðræður um ráðningu sína sem skipstjóra á skipið hafi stefnandi átt við stefnda. Ennfremur að stefndi hafi annast um launagreiðslur til hans. Ágreiningslaust er að launakjörin voru $200 á dag, þá daga er stefnandi var á sjó og áttu að greiðast í lok hverrar ferðar. Stefnandi höfðar málið til greiðslu launa á uppsagnarfresti vegna ólögmætrar uppsagnar, en því hefur ekki verið haldið fram af hans hálfu, að hann eigi kröfu á stefnda vegna vangoldinna launa, fyrir þá daga er hann var á sjó.
Þegar litið er til þeirra fjárhæða sem stefnandi skýrir frá að stefndi hafi greitt honum og þær bornar annars vegar saman við þær fjárhæðir, sem stefnandi samdi um, þá hefur stefnandi einungis að hluta til gert grein fyrir þeim greiðslum er hann átti tilkall til samkvæmt samningnum. Stefnandi þykir því ekki hafa sannað, að stefndi hafi einn séð um launagreiðslur til stefnanda.
Þegar framlögð gögn eru virt svo og ráðningarkjör, en um laun var samið í erlendri mynt og ekki þykir í ljós leitt að stefndi hafi einn annast launagreiðslur til stefnanda, verður ekki annað séð en að stefndi hafi einungis verið milligönguaðili fyrir eiganda skipsins m/s Panayiota, er hann leitaði að íslenskum skipstjóra á skipið, sem hann hafði á leigu, og átti viðræður við stefnanda um starfið. Bréf Bridgestone Shipping Ltd. dagsett 20. apríl 1999, til stefnda, þar sem stefnda er tilkynnt hver taki við skipstjórn á m/s Panayiota, þann 22. apríl 1999, rennir einnig stoðum undir þessa niðurstöðu. Bridgestone Shipping Ltd. tilkynnti stefnda sólarhring fyrr en stefnanda, hver tæki við skipinu.
Samkvæmt þessu er sýknukrafa stefnda á grundvelli aðildarskorts, samkvæmt 2. mgr. 16. gr laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 tekin til greina.
Eftir þessum málalokum er rétt, að stefnandi greiði stefnda málskostnað að fjárhæð kr. 248.230. Þar af er útlagður kostnaður stefnda vegna þýðingu málskjala kr. 48.230 og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Við ákvörðun málskostnaðar hafði dómari í huga að sambærilegt mál er rekið samtímis þessu fyrir dómi, milli annars skipstjóra og stefnda og hefur kostnaði vegna þýðingu málsskjala verið skipt til helminga á bæði málin.
Ólöf Pétursdóttir, dómstjóri, kvað upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Atlantsskip ehf. skal vera sýkn að kröfum stefnanda, Halldórs Steinþórssonar. Stefnandi greiði stefnda krónur 248.230 í málskostnað.