Hæstiréttur íslands
Mál nr. 550/2006
Lykilorð
- Gjaldtaka
- Evrópska efnahagssvæðið
- Samkeppni
- Jafnræði
- EFTA-dómstóllinn
- Ráðgefandi álit
|
|
Fimmtudaginn 18. september 2008. |
|
Nr. 550/2006. |
HOB-vín ehf. (Stefán Geir Þórisson hrl.) gegn Faxaflóahöfnum sf. (Anton B. Markússon hrl. Magnús Baldursson hdl.) |
Gjaldtaka. Evrópska efnahagssvæðið. Samkeppni. Jafnræði. EFTA-dómstóllinn. Ráðgefandi álit.
H ehf., sem starfaði við innflutning áfengra drykkja, krafði F sf. um endurgreiðslu á vörugjöldum sem H ehf. hafði greitt vegna innflutnings á áfengum drykkjum um hafnir F sf. Samkvæmt gjaldskrá sem F sf. hafði sett sér með stoð í 20. gr. hafnalaga nr. 61/2003, var gert ráð fyrir fjórum vörugjaldsflokkum. Samkvæmt 3. vöruflokki skyldi vörugjald fyrir óáfenga drykki vera 340,90 krónur fyrir hvert tonn. Aðrar vörur en þær sem tilgreindar voru í 1.-3. flokki féllu undir 4. gjaldflokk en fyrir þær skyldi greiða 1.022,30 krónur og féllu áfengir drykkir meðal annars undir þennan flokk. Í málinu hélt H ehf. því meðal annars fram að umrædd gjaldtaka fæli í sér brot gegn 10., 11. og 14. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Í málinu féllst Hæstiréttur á kröfu H ehf. um að óskað yrði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins vegna málsástæðu H ehf. þess efnis að gjaldtakan fæli í sér brot á áðurnefndum ákvæðum samningsins. Af forsendum álitsins mátti ráða að umrædd vörugjöld voru ekki talin stríða gegn 10. eða 11. gr. samningsins. Í 1. tl. álitsins kom hins vegar fram að umrædd gjaldtaka félli undir 14. gr. samningsins ef ekki væri til staðar önnur höfn á því svæði sem hafnir F sf. þjónuðu almennt. Í málinu lá hins vegar fyrir að bæði Kópavogshöfn og Hafnarfjarðarhöfn væru á þessu svæði og færi almennur vöruflutningur fram um þær hafnir. Samkvæmt 2. tl. álitsins bryti gjaldtakan aðeins gegn 14. gr. samningsins, með því að mismuna innfluttu áfengi gagnvart innlendum óáfengum drykkjum, að gjöldin hefðu þau áhrif á viðkomandi markaði að neysla innfluttra vara gæti dregist saman, sem kæmi innlendum vörum í samkeppni til góðs. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að þegar litið yrði til þess mikla verðmunar hér á landi milli áfengis annars vegar og óáfengra drykkja hins vegar, sem fyrst og fremst þótti stafa af þeirri stefnu stjórnvalda að haga gjaldtöku af áfengi með það fyrir augum að vinna gegn misnotkun þess og draga úr neyslu, yrði að telja fráleitt að þau smávægilegu áhrif sem mismunandi gjaldflokkar vörugjalds kynnu að hafa á söluverð gætu leitt til þess að neysla á innlendum óáfengum drykkjum myndi aukast á kostnað neyslu á innfluttu áfengi. Var niðurstaðan sú að vörugjöld H ehf. voru ekki talin brjóta gegn 14. gr. EES-samningsins. Þá þótti H ehf. ekki hafa sýnt fram á að F sf. hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína samkvæmt 11. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og a. liður 54. gr. EES-samningsins, né að hann hefði beðið tjón af ætluðu broti F sf. Þá var jafnframt hafnað þeirri málsástæðu H ehf. að F sf. hefði brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem áfengir drykkir og óáfengar drykkjarvörur yrðu ekki taldar sambærilegar vörur. Var F sf. því sýknað af kröfu H ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 15. ágúst 2006. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 27. september það ár og áfrýjaði hann öðru sinni 19. október 2006. Áfrýjandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér aðallega 785.955 krónur, en til vara 500.804 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. maí 2005 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Stefndi er sameignarfélag, sem stofnað var af nokkrum sveitarfélögum við Faxaflóa 17. nóvember 2004, og er tilgangur þess rekstur Reykjavíkurhafnar, Akraneshafnar, Grundartangahafnar og Borgarneshafnar. Samkvæmt 8. gr. hafnalaga nr. 61/2003, sem tóku gildi 1. júlí 2003, getur fyrirkomulag á rekstri hafna verið þrenns konar, sbr. 1. til 3. tölulið ákvæðisins. Má þannig samkvæmt 1. tölulið reka höfn án sérstakrar hafnarstjórnar í eigu sveitarfélags, samkvæmt 2. tölulið með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags og samkvæmt 3. tölulið sem hlutafélag, hvort sem það er í eigu opinberra aðila eða ekki, einkahlutafélag, sameignarfélag eða sem einkaaðila í sjálfstæðum rekstri og er sérstaklega tekið fram að hafnir sem falla undir þann tölulið teljist ekki til opinbers rekstrar. Af sameignarfélagssamningi stefnda sést að honum er ætlað að starfa samkvæmt 3. tölulið 8. gr. hafnalaga. Í VI. kafla laganna er fjallað sérstaklega um hafnir af þessu tagi og segir meðal annars í 19. gr. að þeim sé aðeins heimilt að greiða arð til eigenda sinna eftir að fé hafi verið lagt til hliðar í fullnægjandi viðhald og endurnýjun hafnarinnar samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð hennar sem sett sé samkvæmt 4. gr. laganna. Í 20. gr. er tekið fram að höfn sem rekin sé samkvæmt 3. tölulið 8. gr. hafi starfsheimildir án takmarkana og að gjaldtaka hennar skuli miðuð við að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt sé ásamt hlutdeild í sameiginlegum rekstri hennar.
Frá 1. janúar 2005 tók gildi gjaldskrá stefnda. Í 10. gr. hennar var gert ráð fyrir fjórum vörugjaldsflokkum, auk sérstaks aflagjalds vegna sjávarafla. Vörugjald vegna nokkurra tilgreindra vöruflokka, þeirra á meðal óáfengra drykkjarvara, féll undir 3. flokk gjaldskrárinnar og skyldi vera 370,90 krónur fyrir hvert tonn. Aðrar vörur en þær sem tilgreindar voru í 1. til 3. flokki féllu undir 4. gjaldflokk, en fyrir þær skyldi greiða 1.022,30 krónur fyrir hvert tonn. Undir þennan gjaldflokk féllu meðal annars áfengir drykkir.
Áfrýjandi hefur með höndum innflutning áfengra drykkja meðal annars frá löndum sem eiga aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Hann ritaði forvera stefnda, Reykjavíkurhöfn, bréf 4. nóvember 2004 og óskaði eftir rökum fyrir skipan vörutegunda í einstaka gjaldflokka í þágildandi gjaldskrá hafnarinnar. Því bréfi svaraði hafnarstjórinn í Reykjavík 1. desember sama ár. Með bréfi 9. sama mánaðar til Reykjavíkurhafnar tilkynnti áfrýjandi að hann teldi gjaldskrá hafnarinnar fara í bága við 10. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Myndi hann því framvegis greiða vörugjöld með fyrirvara. Höfðaði hann mál þetta 14. desember 2005 og krafðist aðallega endurgreiðslu á öllu því vörugjaldi sem hann hafði greitt stefnda vegna innflutnings á áfengum drykkjum á tímabilinu 7. janúar 2005 til 30. maí sama ár, en til vara krafði hann stefnda um mismun á þeirri fjárhæð sem hann greiddi í vörugjöld á þessu tímabili og þess sem hann hefði greitt ef vörurnar hefðu fallið undir 3. flokk gjaldskrár stefnda líkt og óáfengir drykkir. Stefndi var sýknaður af þessum kröfum með hinum áfrýjaða dómi.
II
Í greinargerð sinni til Hæstaréttar fór áfrýjandi þess á leit að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um svör við tveimur nánar tilgreindum spurningum með vísan til ákvæða laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Með úrskurði 8. maí 2007 féllst Hæstiréttur á með áfrýjanda að ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins gæti skipt máli fyrir úrlausn um þá málsástæðu hans að ákvæði EES-samningsins um frjálsa vöruflutninga tækju til stefnda og að innheimta á vörugjöldum vegna innflutnings á áfengi um hafnir í eigu hans fæli í sér brot gegn 10., 11. eða 14. gr. samningsins. Úrskurðaði Hæstiréttur að leitað yrði álits á eftirfarandi tveimur spurningum:
- Fellur gjaldtaka af hálfu sameignarfélags í eigu nokkurra sveitarfélaga, vegna innflutnings á áfengi frá öðrum aðildarríkjum EESsamningsins um höfn í eigu félagsins, undir ákvæði 10., 11. eða 14. gr. EESsamningsins? Er þá miðað við, að rekstur hafnarinnar teljist lögum samkvæmt ekki opinber rekstur, að gjöldin séu lögð á með heimild í lögum og að þau skuli standa undir kostnaði við þá þjónustu, sem veitt er ásamt hlutdeild í sameiginlegum rekstri hafnarinnar.
- Ef svarið við fyrstu spurningu er á þann veg, að eitthvert þeirra samningsákvæða, sem þar er vísað til, eigi við, stendur það ákvæði í vegi gjaldtöku af því tagi, sem nefnd er í fyrstu spurningu? Er þá miðað við, að hærri gjöld séu lögð á vegna innflutnings áfengra drykkja en óáfengra, og áfengir drykkir séu almennt fluttir inn frá löndum utan Íslands, þar á meðal frá öðrum aðildarríkjum EESsamningsins.
EFTA-dómstóllinn kvað upp dóm í málinu 5. mars 2008 þar sem hann lét uppi svohljóðandi ráðgefandi álit um spurningar þær er Hæstiréttur beindi til hans:
1. Gjaldtaka vegna hafnarþjónustu sameignarfélags sem er í eigu nokkurra sveitarfélaga fellur undir 14. gr. EES, ef ekki er til staðar önnur höfn á því svæði sem hafnir sameignarfélagsins þjóna almennt.
2. Hafnargjöld eins og þau sem hér um ræðir fela ekki í sér mismunun á innfluttu áfengi gagnvart innlendu áfengi sem brýtur gegn 14. gr. EES, þegar ástæða þess að gjöldin eru eingöngu lögð á innflutt áfengi er sú, að innlent áfengi er ekki flutt sjóleiðis og þarf því ekki hafnarþjónustu, og sá sem setur gjaldskrána fyrir hafnarþjónustuna setur ekki gjaldskrá fyrir sambærilega þjónustu sem þörf er á vegna innlends áfengis. Slík gjöld brjóta því aðeins gegn 14. gr. EES með því að mismuna innfluttu áfengi gagnvart óáfengum drykkjum, að gjöldin hafi þau áhrif á viðkomandi markaði að möguleg neysla innfluttra vara dragist saman, sem komi innlendum vörum í samkeppni til góða.
III
Áfrýjandi hefur ekki í munnlegum málflutningi sínum fyrir Hæstarétti dregið í efa efnislegt réttmæti framangreinds álits EFTA-dómstólsins. Þar sem samsinna má því í öllum greinum verður það lagt til grundvallar niðurstöðu dóms um þær málsástæður áfrýjanda er lúta að því að stefndi hafi með gjaldskrá sinni brotið gegn 10., 11. eða 14. gr. EES-samningsins. Af forsendum álitsins leiðir beint að hvorki verður talið að vörugjöld stefnda stríði gegn 10. né 11. gr. EES-samningsins.
Samkvæmt framangreindum 1. tölulið í niðurstöðu álitsins fellur gjaldtaka stefnda undir 14. gr. EES-samningsins ef ekki er til staðar önnur höfn á því svæði sem hafnir hans þjóna almennt. Á þessu svæði eru bæði Kópavogshöfn og Hafnarfjarðarhöfn. Samkvæmt gögnum málsins fer almennur vöruflutningur fram um þær hafnir og fyrir liggja í málinu gjaldskrár fyrir þær báðar, sem sýnast reistar á sjálfstæðum grunni. Samkvæmt 2. tölulið í niðurstöðu álitsins fela hafnargjöld stefnda ekki í sér mismunun á innfluttu áfengi gagnvart innlendu áfengi, sem brýtur gegn 14. gr EES-samningsins. Þá brýtur slík gjaldtaka því aðeins gegn 14. gr. samningsins með því að mismuna innfluttu áfengi gagnvart innlendum óáfengum drykkjum, að gjöldin hafi þau áhrif á viðkomandi markaði að neysla innfluttra vara geti dregist saman, sem komi innlendum vörum í samkeppni til góða. Þegar litið er til þess mikla verðmunar sem er hér á landi á áfengi annars vegar og óáfengum drykkjum hins vegar, sem fyrst og fremst stafar af þeirri stefnu stjórnvalda að haga gjaldtöku af áfengi með það fyrir augum að vinna gegn misnotkun þess með því að draga úr neyslu, verður að telja fráleitt að þau smávægilegu áhrif sem mismunandi gjaldflokkar vörugjalds kunna að hafa á söluverð geti haft þau áhrif að neysla á innlendum óáfengum drykkjum aukist á kostnað neyslu á innfluttu áfengi. Samkvæmt framansögðu verður niðurstaðan sú að vörugjöld stefnda brjóta ekki gegn 14. gr. EES-samningsins.
Áfrýjandi byggir einnig á þeirri málsástæðu að vörugjöld stefnda hafi brotið gegn a. lið 11. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993 og a. lið 54. gr. EES-samningsins þar sem stefndi hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Áfrýjandi hefur í málatilbúnaði sínum lagt fram takmörkuð gögn þessu til stuðnings. Þá hefur reifun hans á þessari málsástæðu og þeim forsendum sem uppfylla þarf til þess að hún verði tekin til greina verið afar ófullkomin allt fram að munnlegum málflutningi hans fyrir Hæstarétti. Loks er til þess að líta að hann reisir kröfu sína á því að hann eigi rétt til endurgreiðslu vörugjaldsins í heild eða að hluta. Hefur hann engin rök fært að því að hann hafi beðið tjón eða hvert tjón hans hafi þá verið vegna ætlaðra brota stefnda á samkeppnislögum, en krafa vegna slíks brots getur einungis verið á því reist að bætt verði það tjón er af brotinu leiddi. Þar sem áfrýjanda hefur samkvæmt framansögðu hvorki tekist að sýna fram á að stefndi hafi misnotað markaðsráðandi stöðu, né að hann hafi beðið tjón af ætluðu broti stefnda verður þessari málsástæðu hafnað.
Loks reisir áfrýjandi kröfu sína á því að stefndi hafi með gjaldskrá sinni brotið jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Gjaldtaka stefnda af áfengi féll undir hinn almenna 4. flokk í þágildandi gjaldskrá hans, en undir þann flokk áttu allar þær vörur sem ekki voru sérstaklega tilgreindar í öðrum gjaldflokkum. Samkvæmt gjaldskránni bar sami vöruflokkurinn ætíð sama vörugjald. Áfengir drykkir og óáfengar drykkjarvörur eru eðlisólíkar. Leiðir þegar af þeirri ástæðu að þessar drykkjarvörur verða ekki taldar sambærilegar að hafna verður þessari málsástæðu áfrýjanda.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, HOB-vín ehf, greiði stefnda, Faxaflóahöfnum sf., 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2006.
Mál þetta, sem var dómtekið 10. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af HOB-vínum ehf., Kaplahrauni 1, Hafnarfirði á hendur Faxaflóahöfnum sf., Tryggva-götu 17, Reykjavík með stefnu birtri 14. desember 2005.
Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði gert að greiða stefnanda 785.955 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. maí 2005 til greiðsludags, en til vara að stefnda verði gert að greiða stefnanda 500.804 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. maí 2005 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilfellum er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
Málavextir.
Stefnandi flytur inn bjór, léttvín og sterkt áfengi frá löndum sem eiga öll aðild að samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Við innflutning á áfenginu er honum gert að greiða vörugjöld samkvæmt gjaldskrá stefnda. Hin umkröfðu gjöld eru vegna tímabilsins 7. janúar 2005 til 30. maí 2005. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.
Hinn 1. júlí tóku gildi ný lög um hafnir þ.e. lög nr. 61/2003. Samkvæmt þeim var samgönguráðherra falið að setja gjaldskrá fyrir allar hafnir til 12 mánaða, m.a. fyrir vörugjöldum. Gjaldskrá samkvæmt ákvörðun samgönguráðherra tók gildi um leið og lögin og gilti til 1. júlí 2004. Er gjaldskrá samgönguráðherra féll úr gildi setti hafnir sér sína eigin gjaldskrá.
Hinn 1. janúar 2005 stofnuðu nokkur sveitarfélög við Faxaflóa sameignarfélag um rekstur og eignir Reykjavíkurhafnar, Akraneshafnar, Grundartangahafnar og Borgarneshafnar og fékk það nafnið Faxaflóahafnir sf. sem stefnt er í máli þessu.
Frá sama tíma tók gildi ný gjaldskrá stefnda. Sú gjaldskrá er sett samkvæmt heimild í 20., sbr. 19. gr. hafnalaga nr. 61/2003.
Í 10. gr. tveggja síðastnefndu gjaldskráa koma fram fjórir mismunandi vörugjaldsflokkar. Varðandi ágreining málsins skipta flokkar 3 og 4 máli, en ákvæðið er svohljóðandi:
3. flokkur: Gjald kr.
356,60 á tonn
Þungavarningur,
svo sem sekkjavörur, óunnið járn og stál,
veiðarfæri,
smurningsolíur, sjávarafurðir, landbúnaðarafurðir,
hráefni til iðnaðar og byggingaframkvæmda. Pökkuð og
niðursoðin matvæli, óáfengar drykkjarvörur
og ávextir.
4. flokkur: Gjald kr. 983,00 á tonn
Aðrar vörur, sem ekki eru tilgreindar í 1. - 3. fl.
Í gjaldskrá stefnda sem tók gildi 1. janúar 2005 var gjaldið í 3. flokki hækkað í 370,90 krónur fyrir hvert tonn og gjald í 4. flokki í 1.022,30 krónur fyrir hvert tonn.
Vegna þess mismunar sem er á gjöldum í 3. og 4. flokki sendi stefnandi fyrirrennara stefnda, Reykjavíkurhöfn, bréf 4. nóvember 2004 og óskaði annars vegar eftir upplýsingum um hvaða rök lægju fyrir skipan vörutegunda í einstaka gjaldflokka og hins vegar fyrir mismunandi fjárhæð vörugjaldsins í hverjum gjaldflokki. Því bréfi var svarað 1. desember 2004.
Síðar, eða 9. desember 2004, sendi stefnandi bréf til stefnda sem fól í sér almennan fyrirvara vegna greiðslu allra vörugjalda stefnanda. Í bréfinu var jafnframt staðhæft að af 10. gr. gjaldskrár stefnda og svarinu, dags. 1. desember 2004, mætti ráða að vörugjöldin færu í bága við 10. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Upphaflega var ágreiningur aðila borinn undir dómstóla með máli er höfðað var í júní 2005. Það mál var fellt niður og mál þetta síðan höfðað í desember sl.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Í fyrsta lagi vísar stefnandi til 10. gr. EES-samningsins en þar er kveðið á um að: „Tollar á innflutning og útflutning, svo og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif eru bannaðir milli samningsaðila.“ Stefnandi heldur því fram að vörugjöld stefnda séu gjöld sem hafa samsvarandi áhrif og tollar. Vörugjöldin bitna sérlega hart á þeirri vöru sem stefnandi flytur inn, þ.e. áfengum drykkjum, enda eru vörugjöld á hvert tonn af þeirri vöru 1.022,30 kr. pr. tonn, en vörugjald af óáfengum drykkjum hins vegar 370,90 kr. pr. tonn. Stefnandi kveðst ekki fá séð að nein rök séu fyrir þessari mismunun milli vörugjalda sem innheimt eru af óáfengum og áfengum drykkjum.
Stefnandi tekur fram að vörugjöld séu tekjulind til að standa straum af rekstri hafna. Það hafi enga sérstaka þýðingu, enda hefur Evrópudómstóllinn margtúlkað sambærilegt ákvæði Rómarsamningsins þannig að tollar og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif séu bönnuð án tillits til þess hver tilgangurinn er með því að leggja þau á eða hvert tekjurnar sem af þeim leiða renna. Dómstóllinn hafi hins vegar samþykkt að gjald, sem feli í sér greiðslu fyrir tiltekna þjónustu sem raunverulega er innt af hendi við atvinnufyrirtæki og sem er í samræmi við þá þjónustu, feli ekki í sér gjald sem hafi samsvarandi áhrif og tollur. Það er hins vegar ekki þannig í tilviki vörugjalda. Það að innheimta rúmar 1.000 kr. pr. tonn við innflutning áfengra drykkja er ekki í neinu samhengi við það að innheimta t.a.m. 370,90 kr. pr. tonn af innflutningi á óáfengum drykkjum. Kostnaður vegna innheimtu á áfengum og óáfengum drykkjum ætti að vera nákvæmlega sá sami, enda um samskonar vöru að ræða fyrir utan áfengismagnið. Stefnandi telur ljóst af þessum mun að vörugjaldið feli ekki í sér greiðslu sem er í neinu samhengi við þá þjónustu sem veitt er. Almennt gildir um tolla og gjöld, sem hafa samsvarandi áhrif, þær reglur, skv. dómaframkvæmd Evrópusambandsins, að engu máli skiptir hversu hár tollurinn eða gjaldið er. Það skiptir engu máli hver á að njóta fjárins eða hvað gjaldið heitir. Það sem máli skiptir er að tollurinn eða gjaldið er lagt á við það að vara fer yfir landamæri ríkis. Í máli framkvæmdastjórnarinnar gegn Belgíu og Luxemborg í málum nr. 2 og 3/62 skilgreindi dómstóllinn þessi gjöld sem „gjöld, hvernig sem þeim er lýst eða þau tæknilega útfærð, sem lögð eru á almennt, en þó sérstaklega á vöru sem flutt er inn af aðildarríki en ekki á sambærilega vöru framleidda innanlands og, sem með því að breyta verðinu, hefur sömu áhrif á frjálsa vöruflutninga og tollur“.
Stefnandi telur bannið vera byggt á þeirri staðreynd að hvaða fjárhagsleg byrði, hversu smá sem hún er, sem lögð er á vöru sem fer yfir landamæri, felur í sér hindrun á flutningi slíkrar vöru. Dómar Evrópudómstólsins, sem hafa fjallað um gjöld sem hafa sambærileg áhrif og tollar, sýna vissa hugvitssemi þeirra sem ábyrgð bera á því að reyna að smíða regluverk sem eykur tekjur hins opinbera, án þess að slíkar aðferðir hafi notið mikils velvilja hjá dómstólnum.
Í öðru lagi tekur stefnandi fram að í fjölmörgum tilvikum hafi á það reynt hvort tiltekin gjaldtaka hafi falið í sér álagningu gjalda sem hafa samsvarandi áhrif og tollur eða skattlagning, sbr. 14. gr. EES samningsins. Stefnandi vill leyfa sér að halda því fram til öryggis, ef ekki er fallist á að vörugjöldin séu gjöld sem samsvari tollum, að þau feli í sér skattlagningu sem andstæð er 14. gr. EES samningsins, enda mismuna vörugjöldin t.a.m. innfluttum bjór og innlendri bjórframleiðslu.
Í þriðja lagi heldur stefnandi því fram, að gjaldtaka stefnda á hinum umstefndu vörugjöldum af stefnanda feli auk annars í sér magntakmarkanir í skilningi 11. gr. EES samningsins á innflutningi þeirra vara sem um er að ræða eða að gjaldtakan flokkist a.m.k. undir ráðstafanir sem hafi samsvarandi áhrif og magntakmarkanir og séu því bannaðar milli samningsaðila í skilningi sama ákvæðis. Ákvæði meginmáls 11. gr. EES samningsins hefur, eins og allt meginmál samningsins, lagagildi hér landi á grundvelli laga nr. 2/1993.
Í fjórða lagi vísar stefnandi til ákvæða 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 54. gr. EES samningsins, sem eru eðlislík ákvæði og byggir stefnandi á því að gjaldtaka stefnda fari gegn þeim ákvæðum. Er áskilinn réttur til að leggja fram sönnunargögn um markaðsráðandi stöðu stefnda á þeim markaði sem máli skiptir. Upplýsinga var óskað um markaðshlutdeild Faxaflóahafna við innflutning á vörum frá útlöndum á Suðvesturhorni landsins með tölvupósti til lögmanns stefnda hinn 28. nóvember 2005. Í svari stefnda kom fram að hann teldi sig ekki hafa umbeðnar upplýsingar undir höndum. Stefnandi heldur því fram að stefndi eigi mjög auðvelt með að afla þessara upplýsinga og er skorað á hann að leggja þær fram með greinargerð sinni til héraðsdóms. Misnotkun stefnda felst í því að með vörugjaldinu eru stefnandi og aðrir viðskiptamenn fyrirtækisins krafðir ósanngjarns söluverðs í skilningi a) liðar 11. gr. samkeppnislaganna og a) liðar 54. gr. meginmáls EES samningsins. Þá feli gjaldskrá stefnda í sér ósanngjarna viðskiptaskilmála í skilningi beggja ákvæðanna. Aðstaðan er reyndar sú, að fáar hafnir hér landi innheimta hið háa vörugjald í 4. flokki og engin höfn innheimtir jafnhátt gjald í 4. flokki og stefndi sbr. yfirlit um gjaldsrá hafna sem lagt verður fram við þingfestingu málsins.
Í fimmta lagi telur stefnandi að stefndi falli óvírætt undir ákvæði 1. mgr. 59. gr. EES samningsins sem á við um opinber fyrirtæki og fyrirtæki sem aðildarríki EB eða EFTA-ríki veita sérstök réttindi eða einkarétt. Er stefndi í raun bæði opinbert fyrirtæki og fyrirtæki sem veitt hefur verið sérstök réttindi. Í þeim efnum breytir engu þó kveðið sé á um það í hafnalögum nr. 61/2003 að hafnir geti verið reknar þannig að þær teljist ekki til opinbers reksturs. Þá er stefndi fyrirtæki sem hefur sérstök réttindi í þeim skilningi að stefndi hefur rétt til reksturs hafna skv. hafnalögum, en þar er kveðið á um skilyrði fyrir hafnarframkvæmdum og leyfisveitingar vegna reksturs hafna.
Í sjötta lagi telur stefnandi ljóst, að vörugjöld þau sem lögð hafa verið á áfengisinnflutning stefnanda brjóti í bága við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaganna nr. 37/1993, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Það að innheimta næstum þrisvar sinnu hærra vörugjald af t.d. áfengum drykkjum en óáfengum fær engan veginn staðist þessa grundvallarreglu íslensks stjórnsýsluréttar og felur í sér ólögmæta mismunun.
Stefnandi segir dómkröfur sínar vera reistar á tilkynningum frá Eimskipum sem flutningsaðila þess áfengis sem um ræðir. Aðallega er krafist endurgreiðslu allra þeirra vörugjalda sem stefnandi hefur innt af hendi vegna áfengisinnflutnings síns á um 5 mánaða tímabili frá 7. janúar 2005 til 30. maí 2005.
Stefnandi kveður varakröfu sína nema mismun á þeirri fjárhæð sem hann greiddi vegna áfengisinnflutningsins og þeirri fjárhæð sem honum hefði borið að greiða ef um hefði verið að ræða óáfengar drykkjarvörur. Undir þeim kringumstæðum hefði honum borið að greiða 370,90 kr. pr. tonn í stað 1.022,30 kr. pr. tonn á árinu 2005, þ.e. ca 2,76 sinnum lægri fjárhæð. Mismunurinn á þeirri fjárhæð sem stefnandi greiddi vegna innflutningsins á ofangreindu tímabili, 785.955 kr., og því sem hann hefði greitt ef um hefði verið að ræða óáfenga drykkjarvöru eða 285.151 kr. fela í sér varakröfu hans uppá samtals 500.804 kr. Byggir varakrafan á því að ef stefnda er ekki skylt að endurgreiða stefnanda alla þá fjárhæð sem hann hefur á ólögmætan hátt innt af hendi beri a.m.k. að endurgreiða stefnanda mismuninn á vörugjaldi af óáfengum og áfengum drykkjarvörum, enda sýni stefndi fram á að vörugjald af drykkjarvöru að fjárhæð 370,90 kr., sé eðlileg gjaldtaka miðað við þá þjónustu sem innt er af hendi af hálfu stefnda. Gerð er krafa um dráttarvexti skv. lögum um vexti og verðtryggingu frá 30. maí 2005, þ.e. frá þeim degi sem stefnandi innti síðustu greiðslu hins umstefnda vörugjalds af hendi. Er um dráttarvaxtakröfuna vísað til III. kafla laga nr. 38/2001.
Um lagarök er vísað til laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, einkum 10., 11., 14., 54. og 59. gr. EES samningsins, 3. gr. samningsins um eftirlitsstofnun og dómstóla og bókana 3 og 35 við EES-samninginn. Þá er vísað til samkeppnislaga nr. 44/2005, einkum 11. gr. og stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 11. gr., auk 65. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglna stjórnsýsluréttarins. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda.
1. Varðandi þá málsástæðu stefnanda um að í gjaldskrá stefnda felist ígildi tolla með vísan til 10. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, tekur stefndi eftirfarandi fram.
Í fyrsta lagi tekur umrædd grein EES-samningsins einvörðungu til þeirra ríkja er aðild eiga að samningnum og fjallar um eiginlega tolla og skatta eða gjöld sem hafa samsvarandi áhrif. Í samningsákvæðinu er fjallað um að ákveðin hegðan „samningsaðila“ sé bönnuð. Vísað er til c. liðar 2. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið þar sem er að finna skilgreiningu á hugtakinu „samningsaðilar“ í samningnum. Umrætt ákvæði lýtur þannig að tollum og gjöldum sem ákvörðuð eru af opinberu stjórnvaldi. Stefndi er ekki í neinum skilningi opinbert stjórnvald.
Stefndi telur það liggja fyrir að rekstur hans teljist ekki til opinbers rekstrar, sbr. 3. tl. 8. gr. hafnalaga nr. 61/2003. Einnig vísar hann til 1. mgr. 20. gr. sömu laga þar sem fram kemur að hafnir, sem reknar eru skv. 3. tl. 8. gr. laganna, hafi starfsheimildir án takmarkana.
Stefndi tekur fram að dómar Evrópudómstólsins, í málum er fjalla um túlkun sambærilegs ákvæðis Rómarsamningsins, fjalli um aðgerðir opinberra aðila í gegnum laga- eða reglusetningu sem hefur víðtækt gildi. Uppbygging gjaldskrár stefnda er ákveðin af stjórn sameignarfélagsins og byggir á viðskiptalegum forsendum. Ákvarðanir stefnda í gjaldskrármálum hafa aðeins þýðingu gagnvart þeim sem flytja vörur um hafnir stefnda. Aðrar hafnir á suðvesturhorni landsins, sem eru í samkeppni við stefnda, taka sínar eigin ákvarðanir um gjaldskrármál. Gjaldskrár hafna á suðvesturhorni landsins eru mismunandi upp byggðar. Með hliðsjón af framansögðu og vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 ber að sýkna stefnda í málinu.
Í öðru lagi falla gjöld er stefndi innheimtir ekki undir viðurkennda skilgreiningu á tollum og gjöldum sem hafa samsvarandi áhrif skv. EES-samningnum.
Í þriðja lagi, fari svo ólíklega að talið verði að umrædd ákvæði EES-samningsins eigi við um ákvarðanir stefnda, er því hafnað að uppbygging gjaldskrár stefnda og þau gjöld er stefnanda er gert að greiða fyrir innflutning á víni brjóti gegn umræddum ákvæðum samningsins. Gjaldskrá stefnda gildir fyrir alla er flytja vörur um höfnina, hvort sem þær eru fluttar inn í landið, úr landi eða á milli skipa. Gjaldskráin gildir einnig jafnt fyrir íslenskar sem erlendar vörur. Gjöld af vörum stefnanda eru innheimt samkvæmt 4. flokki 10. gr. gjaldskrár stefnda. Undir þann gjaldskrárflokk falla nær allar vörur sem um hafnir stefnda fara. Aðeins þeir fáu vöruflokkar sem sérstaklega eru settir undir aðra gjaldskrárflokka, 1. til 3. flokk 10. gr., greiða lægri gjöld. Vörur stefnanda falla þannig undir hinn almenna flokk gjaldskrárinnar.
Stefndi telur að með hliðsjón af tilgangi laga nr. 2/1993, sem og samnings-textanum sjálfum, beri að hafna kröfu stefnanda þar sem gjaldskráin mismuni á engan hátt sambærilegum vörum.
Í fjórða lagi liggur fyrir að stefndi starfar í samkeppni við aðrar hafnir á suðvestur horni landsins. Á sama markaðssvæði eru bæði Kópavogshöfn og Hafnarfjarðarhöfn er hvor um sig setur sér sína eigin gjaldskrá vegna vöruflutninga. Gjöld samkvæmt gjaldskrá stefnda eru því á engan hátt óumflýjanlegur kostnaður fyrir stefnanda eða aðra er flytja inn vörur til landsins og telst því ekki brot á ákvæðum EES-samningsins eða öðrum lögum er kröfur stefnanda byggja á.
2. Varðandi þá málsástæður stefnandi, sem hann byggir kröfur sínar til vara á, það er að gjöld samkvæmt gjaldskrá stefnda feli í sér skattlagningu sem sé andstæð 14. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, vísar stefndi til allra sömu röksemda og hér að framan.
3. Varðandi þá málsástæðu stefnanda, að gjaldtaka stefnda af stefnanda feli í sér, auk annars, magntakmarkanir í skilningi 11. gr. EES samningsins, tekur stefndi fram:
Í fyrsta lagi er vísað til sömu röksemda og settar eru fram hér að framan. Ákvæðið lýtur að aðildarríkjum samningsins opinberu valdi sem sett getur á skatt eða aðrar álögur er teljast ígildi skatta.
Í öðru lagi liggur fyrir að stefndi hefur ekki brotið gegn umræddri grein samningsins. Sú vara sem stefnandi flytur til landsins sætir engri sérmeðferð af hálfu stefnda og ekki eru heldur greidd af henni hærri þjónustugjöld en nánast öllum vörum er um hafnir stefnda fara. Sú staðreynd að lægri gjöld eru greidd af óáfengum drykkjarvörum byggir aðeins á viðskiptalegum forsendum stefnda. Mismunandi gjald fyrir umræddar vörur er ekki brot á EES-samningnum eða samkeppnislögum þar sem óáfengar drykkjarvörur eru ekki í samkeppni við áfengar drykkjarvörur sbr. nánar í umfjöllun um varakröfu stefnanda hér að neðan.
4. Varðandi tilvísun stefnanda þar sem hann vísar til a) liðar 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og a) liðar 54. gr. EES samningsins, tekur stefndi fram að samkeppnislög nr. 44/2005 gildi 1. júlí 2005 en kröfur stefnanda í málinu byggja á greiðslum til stefnda á tímabilinu frá janúar til maí 2005, en þá voru í gildi lög nr. 8/1993. Stefndi telur að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sínum um að stefndi hafi brotið gegn samkeppnislögum eða samkeppniskafla EES-samningsins.
Varðandi áskorun stefnanda í stefnu um að stefndi leggi fram upplýsingar um markaðshlutdeild sína í innflutningi á vörum frá útlöndum á Suðvesturhorni landsins þá fellur hún ekki undir 67. gr. laga 91/1991. Áskorunin lýtur ekki að skjali eða upplýsingum sem liggja fyrir hjá stefnda og því ekki unnt að leggja slíkt skjal fram af hans hálfu.
Stefndi tekur fram að stefnandi hafi ekki lagt fram gögn eða upplýsingar er grundvallað geta mat á því hvort brotið hafi verið gegn samkeppnislögum eða samkeppnisákvæðum EES-samningsins. Skilgreina þarf t.a.m. þann markað sem meint brot lýtur að, meta þarf hvort stefndi hafi markaðsráðandi stöðu á viðkomandi markaði og að lokum þarf að sýna fram á að „aðgerðir“ stefnda séu líklegar til þess að hafa áhrif á samkeppni á viðeigandi markaði. Tilvísun stefnanda til þeirrar staðreyndar að greitt sé lægra gjald fyrir flutning óáfengra drykkjavara um hafnir stefnda uppfyllir ekki skilyrði laga um fullnægjandi sönnun að þessu leyti. Stefndi telur því að sýkna beri af kröfum stefnanda sem byggja á meintum brotum á samkeppnislögum og tilgreindum ákvæðum EES-samningsins.
5. Stefndi hafnar þeirri málsástæðu stefnanda að vörugjöldin brjóti í bága við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/ 1993, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem innheimt er næstum þrisvar sinnum hærra gjald af áfengum drykkjum en óáfengum drykkjum. Stefndi tekur fram að 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fjalli um úrlausnir mála hjá stjórnvöldum. Samkvæmt 3. tl. 8. gr. hafnalaga telst rekstur stefnda ekki til opinbers rekstrar og fellur því ekki undir stjórnsýslulögin að þessu leyti. Að auki gilda stjórnsýslulögin aðeins þar sem taka á stjórnvaldsákvörðun. Eiga þau ekki við um þjónustustarfsemi eða samninga sem stjórnvöld gera á einkaréttarlegum grundvelli sbr. 1. gr. laganna (að undanskildum II. kafla laganna).
6. Stefndi telur endurgreiðslukröfu stefnanda vera órökstudda og án tilvísana til lagaraka eða lagaákvæða. Viðurkennt er af hálfu stefnanda í stefnu að vörugjöld samkvæmt gjaldskrá stefnda séu tekjulind til þess að standa straum af rekstri hafna. Stefndi telur rétt að benda á að stefnandi byggi endurgreiðslukröfu sína ekki á lögum um endurgreiðslu oftekinna skatta nr. 29/1995, enda eiga þau lög ekki við um stefnda í málinu, skv. 1. gr. þeirra laga. Krafan byggir heldur ekki á skaðabótasjónarmiðum.
7. Stefndi vísar til 59. gr. EES-samningsins kröfum sínum til stuðnings. Í ákvæðinu er „samningsaðilum“ lagðar ákveðnar skyldur á herðar þegar í hlut eiga opinber fyrirtæki og fyrirtæki sem aðildarríki EB eða EFTA ríki veita sérstök réttindi. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins geta einstaklingar eða lögpersónur ekki borið umrætt ákvæði fyrir sig þar sem það snýr aðeins að samningsríkjunum.
8. Varðandi varakröfur stefnanda tekur stefndi eftirfarandi fram:
Vísað er til sömu málsástæðna og lagaraka og hér að framan. Að auki telur stefndi að ekki sé unnt að leggja til grundvallar dómi að vörur stefnanda eigi að falla undir 3. gjaldflokk 10. gr. gjaldskrárinnar einungis á grundvelli þess að óáfengar drykkjarvörur falla undir þann ákveðna gjaldflokk. Með hliðsjón af ríkiseinkasölu á áfengum drykkjarvörum á Íslandi, auglýsingabanni og ströngum aldurstakmörkunum við kaup á slíkum vörum, er ekki hægt að leggja til grundvallar að áfengar drykkjarvörur séu í beinni samkeppni við óáfengar drykkjarvörur í skilningi samkeppnisréttar og því ekki um ólögmæta mismunun að ræða. Stefndi telur að engin lög eða stjórnvaldsfyrirmæli leggi bann við því að innheimta mismunandi þjónustugjald af vörum sem eru ekki í samkeppni á markaði. Stefndi vísar í því sambandi til viðurkenndra sjónarmiða í Evrópurétti um hvað sé sambærileg vara í þessum skilningi, sérstaklega viðmiðið um hvort ákveðin vara geti komið í stað annarrar, sbr. mál framkvæmdastjórnarinnar gegn Ítalíu, nr. 184/85.
Að auki vísar stefndi til þess að nær allar vörur er fara um hafnir félagsins falla undir sama gjaldflokk og þær vörur sem stefnandi flytur inn og mál þetta er risið út af. Röksemdir stefnanda fyrir niðurfellingu eða lækkun gjalda stefnda gætu jafnt átt við um fjölda annarra vöruflokka sem greiða hið almenna vörugjald skv. 4. fl. 10. gr. gjaldskrárinnar. Engin lagaheimild er fyrir því að fallast á kröfu um að dómstóll ákvarði hvaða þjónustugjöld séu greidd rekstraraðila hverju sinni fyrir veitta þjónustu.
9. Varakrafa stefnda um lækkun stefnukrafna byggir á eftirfarandi málsástæðum.
Fyrir liggur að stefndi rekur hafnir og tengda starfsemi án utanaðkomandi fjárframlags. Gjaldskrá stefnda er grundvöllur tekna félagsins og vörugjöld fyrir flutning vara um hafnir er veigamikill hluti þeirra tekna sem stefndi aflar sér til rekstrarins. Krafa stefnanda um endurgreiðslu allra vörugjalda er hann hefur greitt stenst ekki kröfuréttarlega séð þar sem óumdeilt er að hann hefur notið þeirrar þjónustu er stefndi lætur í té og er andlag hinna umdeildu vörugjalda.
Komi til að dómurinn telji forsendur til þess að ákvarða stefnanda lægri gjöld en þegar eru greidd vegna vöruflutninga hans verður slíkur dómur að taka tillit til þeirrar staðreyndar að rekstraráætlanir stefnda gera ráð fyrir ákveðnum tekjum til þess að standa undir kostnaði við reksturinn. Þær tekjuáætlanir byggja á gildandi gjaldskrá. Með hliðsjón af framansögðu fer stefndi fram á að lækkun gjaldanna verði ákvörðuð mun meiri en stefnukröfur miða við.
10. Varðandi lagaheimild vísar stefndi til hafnalaga nr. 61/2003, sérstaklega til 8. gr., 19. gr. og 20. gr. laganna, C. liðar 2. gr. EES-samningsins sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993. Þá er vísað til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi aðild og 129. sbr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 vegna málskostnaðarkröfu.
Forsendur og niðurstaða.
Ágreiningur málsins varðar vörugjald samkvæmt gjaldskrá stefnda, er stefnanda var gert að greiða vegna innflutnings hans á áfengum drykkjum til landsins. Gjöldin varða tímabilið 7. janúar 2005 til 30. maí sama ár og er ekki tölulegur ágreiningur í málinu.
Gildandi hafnarlög eru nr. 61/2003. Í þeim eru mörg nýmæli frá áðurgildandi lögum. Má þar nefna að við rekstur hafna er nú gert ráð fyrir fleiri rekstrarformum en áður, ríkisafskipti voru minnkuð frá því áður, samræmd gjaldskrá var aflögð og gert ráð fyrir að ákvæði samkeppnislaga gildi um gjaldtöku og rekstur hafna varð virðisauka-skattsskyldur. Þá var í frumvarpinu sérstaklega tekið fram að með þessum breytingum væri verið að færa hafnir nær umhverfi annars atvinnurekstrar.
Í 8. gr. laga nr. 61/2003 er gert ráð fyrir þrenns konar rekstrarformi hafna. Í fyrsta lagi höfn án sérstakrar hafnarstjórnar í eigu sveitarfélags. Í öðru lagi höfn með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags og í þriðja lagi, þ.e. 3. tl., er nefnt hlutafélag, hvort sem það er í eigu opinberra aðila eða ekki, einkahlutafélag, sameignarfélag eða sem einkaaðili í sjálfstæðum rekstri. Stefndi er sameignarfélag sem gegnir þeim tilgangi að reka Reykjavíkurhöfn, Akraneshöfn, Grundartangahöfn, Borgarneshöfn og aðrar hafnir sem kunna að verða aðilar að félaginu. Fellur því stefndi undir það rekstrarform sem tilgreint er í 3. tl. 8. gr. laganna. Lögin mæla sérstaklega fyrir um að hafnir samkvæmt þessum tölulið teljist ekki til opinbers rekstrar.
Um hafnir sem teljast ekki til opinbers rekstrar gildir VI. kafli laganna, þ.e. 19. gr. og 20. gr. Samkvæmt 19. gr. fara stjórnir hlutafélags og einkahlutafélags með valdsvið hafnarstjórnar. Þá er tekið fram að einungis sé hægt að greiða arð til eigenda eftir að fé hefur verið lagt til hliðar í fullnægjandi viðhald og endurnýjun hafnarinnar. Í 1. mgr. 20. gr. er tekið fram, að umræddar hafnir hafi starfsheimildir án takmarkana. Þá segir í 2. mgr. 20. gr. að gjaldtakan skuli miða við að höfnin standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er ásamt hlutdeild í sameiginlegum rekstri hafnarinnar. Þá geti notendur hafnarinnar krafið hafnarstjórn upplýsinga um kostnað við þjónustu og eðlilega sundurliðun gjalda. Gjaldskrá fyrir stefnda var samþykkt af hafnarstjórn 17. desember 2004 með gildistíma frá 1. janúar 2005. Frá sama tíma féllu niður einstakar gjaldskrár fyrir þær hafnir sem eru aðilar að stefnda. Tilgangur gjaldskrárinnar er að stefndi hafi nægar tekjur til þess að standa undir rekstri hafnanna. Samkvæmt gjaldskránni skal greiða lestar- og bryggjugjöld af öllum skipum sem leggjast við bryggjur, vörugjöld af öllum vörum sem fluttar eru af skipsfjöl á land eða úr landi á skipsfjöl eða milli skipa, með tilgreindum undantekningum. Síðan er hafnsögugjald vegna leiðsagnar um hafnir, gjald fyrir þjónustu dráttarbáta, farþegagjald, festargjöld, vatns- og rafmagnsgjöld o.fl. Gjaldskráin ber það með sér að verið sé að greiða fyrir tiltekna þjónustu sem stefndi lætur í té.
Ágreiningur málsins varðar 10. gr. gjaldskrárinnar. Þar eru tilgreindir fjórir flokkar með mismundi gjaldi fyrir hvert tonn sem flutt er til landsins. Meginreglan er sú að allar vörur falli í 4. flokkinn, nema þær séu sérstaklega tilgreindar í 1. til 3. flokki. Óáfengar drykkjarvörur falla í 3. flokk vörugjaldskrárinnar en áfengar drykkjarvörur falla í 4. flokk hennar, þar sem þeirra er hvergi getið annars staðar. Talsverður munur er á gjaldtaxta þessara flokka.
Stefnandi byggir á því, að þessi mismundi gjaldtaka á óáfengum og áfengum drykkjum fari í bága við II. hluta EES-samningsins um frjálsa vöruflutninga og vísar sérstaklega til 10. gr., 14. gr. og 11. gr. samningsins.
Fyrst þarf að taka afstöðu til þess hvort ákvæði II. hluta EES-samningsins um frjálsa vöruflutninga eigi við í málinu. Enginn vafi er á því að þau ríki sem eru aðilar að ákvæðum EES-samningsins eru bundin af ákvæðum í kaflanum um frjálsa vöruflutninga. Hins vegar er álitaefnið hversu rúmt eigi að túlka hugtakið ríki í þessu samhengi, en stefnandi heldur því fram að túlka eigi hugtakið það rúmt að það taki til stefnda og vísar til dóma Evrópudómstólsins nr. 249/81, C-16/94 og C-157/94, máli sínu til stuðnings. Að mati dómsins er hér um of rúma túlkun að ræða. Stefndi er sameignarfélag um rekstur hafna. Með vísan til þess sem að framan er rakið og þess að lögin taka beinlínis fram að hafnir sem eru reknar skv. 3. tl. 8. gr. teljist ekki til opinbers rekstrar, þá á II. hluti EES-samningsins ekki við í málinu. Þeir dómar er stefnandi vísar til eru að mati dómsins ekki fordæmi í máli þessu þar sem málsatvik og aðstæður eru ekki sambærilegar að öllu leyti. Hið umþráttaða vörugjald er gjald fyrir veitta þjónustu. Ekki er hægt að mati dómsins að flokka vörugjaldið sem toll, skatt eða annað gjald sem renna ætti til opinbers aðila, né að með gjaldinu sé verið að leggja hömlur á frjálsa vöruflutninga. Niðarstaða dómsins er því sú, að þau ákvæði EES-samningsins sem stefnandi byggir á, taki ekki til stefnda.
Þá byggir stefnandi á því að gjaldtakan hafi farið gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 54. gr. EES-samningsins. Tilvísun til 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 á ekki við því þau tóku gildi 1. júlí 2005, en kröfur málsins byggja á greiðslum til stefnda fyrir tímabilið janúar til maí 2005. Þá hefur stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því stefndi hafi brotið gegn tilvitnuðu ákvæði og að mati dómsins hefur sú sönnun ekki tekist.
Að lokum byggir stefnandi á því að vörugjöldin brjóti gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og 65. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem gjaldið sé þrisvar sinnum hærra af áfengum drykkjum og óáfengum drykkjum. Með vísan til þess að stefndi er sameignarfélag á tilvísun til stjórnsýslulaganna ekki við. Þá verður það ekki talið brot á jafnræðisreglu þótt greiða beri mismunandi fjárhæðir per tonn eftir því hvort um áfenga drykki eða óáfenga drykki er að ræða. Ljóst er að sama vörutegund ber sömu gjöld. Því er að mati dómsins ekki um ólögmæta mismun að ræða.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er niðurstaða málsins sú að stefndi er sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Stefán Geir Þórisson hrl.
Af hálfu stefnda flutti málið Magnús Baldursson hdl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Faxaflóahafnir sf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, HOB-vína ehf.
Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.
DÓMUR DÓMSTÓLSINS
5. mars 2008*
(Hafnargjöld gjöld sem hafa samsvarandi áhrif og tollar innlendir skattar frjálsir vöruflutningar)
Mál E-6/07,
BEIÐNI, samkvæmt 34. gr. samningsins milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, frá Hæstarétti Íslands, í máli sem þar er rekið
HOB-vín ehf.
gegn
Faxaflóahöfnum sf.
varðandi reglur um frjálsa vöruflutninga á Evrópska efnahagssvæðinu,
DÓMSTÓLLINN,
skipaður dómurunum Carl Baudenbacher, forseta, Þorgeiri Örlygssyni og Henrik Bull, framsögumanni,
dómritari: Skúli Magnússon,
hefur, með tilliti til skriflegra greinargerða frá:
- áfrýjanda, í fyrirsvari er Stefán Geir Þórisson, hrl., Reykjavík;
- stefnda, í fyrirsvari er Anton Björn Markússon, hrl., Reykjavík;
- ríkisstjórn Íslands, í fyrirsvari sem umboðsmaður er Sesselja Sigurðardóttir, lögfræðingur og sendiráðsritari á skrifstofu Evrópumála í utanríkisráðuneytinu;
- eftirlitsstofnun EFTA, í fyrirsvari sem umboðsmenn eru Ólafur Jóhannes Einarsson og Florence Simonetti, fulltrúar á lögfræði- og framkvæmdasviði; og
- framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna, í fyrirsvari sem umboðsmenn eru Richard Lyal og Søren Schønberg,
með tilliti til skýrslu framsögumanns,
og munnlegs málflutnings umboðsmanns áfrýjanda, Stefáns Geirs Þórissonar, umboðsmanns stefnda, Antons Björns Markússonar, fulltrúa eftirlitsstofnunar EFTA, Ólafs Jóhannesar Einarssonar og Florence Simonetti, og fulltrúa framkvæmdastjórnar Evrópubandalaganna Richard Lyal og Søren Schønberg, sem fram fór 14. desember 2007,
kveðið upp svofelldan
dóm
I Málsatvik og meðferð máls
1 Faxaflóahafnir sf. (hér eftir stefndi) er sameignarfélag sem stofnað var af nokkrum sveitarfélögum við Faxaflóa. Helsti tilgangur félagsins er rekstur fjögurra íslenskra hafna, þ.e. Reykjavíkurhafnar, Akraneshafnar, Grundartangahafnar og Borgarneshafnar. Samkvæmt gjaldskrá stefnda er gert ráð fyrir fjórum flokkum hafnargjalda við lestun og losun vöru. Hafnargjöld vegna óáfengra drykkja eru 370,80 krónur fyrir hvert tonn en vegna áfengis 1.022,30 krónur fyrir hvert tonn.
2 HOB vín ehf. (hér eftir áfrýjandi) sem flytur inn áfengi frá öðrum EES-ríkjum og hefur þurft að greiða hin hærri gjöld vegna áfengis, höfðaði mál gegn stefnda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Áfrýjandi krafðist aðallega endurgreiðslu á þeim gjöldum sem hann greiddi stefnda vegna innflutnings áfengis, en til vara að stefnda yrði gert að greiða honum fjárhæð sem nemur mismuninum á því sem hann greiddi og því sem honum hefði borið að greiða ef um óáfenga drykki hefði verið að ræða. Hann byggði kröfur sínar m.a. á því að gjaldtakan væri í andstöðu 10., 11. eða 14. gr. EES. Í héraðsdómi var stefndi sýknaður af kröfum áfrýjanda. Héraðsdómur taldi að ákvæði EES-samningsins um frjálsa vöruflutninga tækju ekki til stefnda og að þau gjöld sem hann innheimti væru hvorki tollur, skattur né önnur gjöld sem ættu að renna til opinbers aðila, auk þess sem gjöldin hindruðu ekki frjálsa vöruflutninga. Héraðsdómi var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands 19. október 2006.
3 Sá ágreiningur aðila sem hér skiptir máli varðar þá málsástæðu áfrýjanda að ákvæði EES-samningsins um frjálsa vöruflutninga taki til stefnda, og að gjaldtaka vegna innflutnings á áfengi um hafnir í eigu stefnda feli í sér brot gegn 10., 11. eða 14. gr. EES.
4 Með bréfi, dagsettu 8. maí 2007, skráðu í málaskrá EFTA-dómstólsins 21. maí 2007, óskaði Hæstiréttur Íslands eftir ráðgefandi áliti varðandi eftirfarandi tvær spurningar:
1. Fellur gjaldtaka af hálfu sameignarfélags í eigu nokkurra sveitarfélaga, vegna innflutnings á áfengi frá öðrum aðildarríkjum EES-samningsins um höfn í eigu félagsins, undir ákvæði 10., 11. eða 14. gr. EES-samningsins? Er þá miðað við, að rekstur hafnarinnar teljist lögum samkvæmt ekki opinber rekstur, að gjöldin séu lögð á með heimild í lögum og að þau skuli standa undir kostnaði við þá þjónustu, sem veitt er ásamt hlutdeild í sameiginlegum rekstri hafnarinnar.
2. Ef svarið við fyrstu spurningu er á þann veg, að eitthvert þeirra samningsákvæða, sem þar er vísað til, eigi við, stendur það ákvæði í vegi gjaldtöku af því tagi, sem nefnd er í fyrstu spurningu? Er þá miðað við, að hærri gjöld séu lögð á vegna innflutnings áfengra drykkja en óáfengra, og áfengir drykkir séu almennt fluttir inn frá löndum utan Íslands, þar á meðal frá öðrum aðildarríkjum EES-samningsins.
II Löggjöf
Landsréttur
5 Samkvæmt 1.-3. tölul. 8. gr. hafnalaga nr. 61/2003 getur rekstrarform hafna verið þrenns konar. Í fyrsta lagi getur höfn verið í eigu sveitarfélags og án sérstakrar hafnarstjórnar, í öðru lagi í eigu sveitarfélags með hafnarstjórn og í þriðja lagi hlutafélag, hvort sem það er í eigu opinberra aðila eða ekki, einkahlutafélag, sameignarfélag eða einkaaðili í sjálfstæðum rekstri.
6 Stefndi er sameignarfélag sem stofnað var samkvæmt 3. tölul. 8. gr. hafnalaga. Þar er sérstaklega tekið fram að hafnir sem eru reknar samkvæmt þeim lið teljast ekki til opinbers rekstrar.
7 Í VI. kafla hafnalaga eru sérstök ákvæði um slíkar hafnir. Þar segir m.a. í 19. gr. að þeim sé aðeins heimilt að greiða arð til eigenda sinna eftir að fé hefur verið lagt til hliðar í fullnægjandi viðhald og endurnýjun hafnarinnar samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð settri á grundvelli 4. gr. laganna.
8 Í 20. gr. hafnalaga kemur fram að höfn sem rekin er samkvæmt 3. tölul. 8. gr. hefur starfsheimildir án takmarkana og að gjaldtaka hafnar skal miðuð við að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er ásamt hlutdeild í sameiginlegum rekstri hennar.
9 Gjaldskrá sú sem stefndi setur þarf að uppfylla skilyrði sem fram koma í 20. gr., sbr. 19. gr. hafnalaga.
EES-réttur
10 Ákvæði 10. gr. EES er svohljóðandi:
Tollar á innflutning og útflutning, svo og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif, eru bannaðir milli samningsaðila. Með fyrirvara um það fyrirkomulag sem um getur í bókun 5 skal þetta einnig eiga við um fjáröflunartolla
11 Ákvæði 11. gr. EES er svohljóðandi:
Magntakmarkanir á innflutningi, svo og allar ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif, eru bannaðar milli samningsaðila.
12 Ákvæði 14. gr. EES er svohljóðandi:
Einstökum samningsaðilum er óheimilt að leggja hvers kyns beinan eða óbeinan skatt innanlands á framleiðsluvörur annarra samningsaðila umfram það sem beint eða óbeint er lagt á sams konar innlendar framleiðsluvörur. Samningsaðila er einnig óheimilt að leggja á framleiðsluvörur annarra samningsaðila innlendan skatt sem er til þess fallinn að vernda óbeint aðrar framleiðsluvörur.
13 Vísað er til skýrslu framsögumanns um frekari lýsingu löggjafar, málsatvika og meðferðar málsins, svo og um greinargerðir sem dómstólnum bárust. Þessi atriði verða ekki rakin frekar eða rædd hér á eftir nema forsendur dómsins krefji.
III Álit dómstólsins
Fyrsta spurning
14 Með fyrstu spurningu sinni leitar Hæstiréttur Íslands svara við því hvort gjaldtaka af hálfu sameignarfélags sem er í eigu nokkurra sveitarfélaga, vegna innflutnings á áfengi frá öðrum EES-ríkjum um höfn í eigu félagsins, falli undir 10., 11. eða 14. gr. EES. Er þá miðað við að rekstur hafnarinnar teljist lögum samkvæmt ekki opinber rekstur, að gjöldin séu lögð á með heimild í lögum og að þau standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er, ásamt hlutdeild í sameiginlegum rekstri hafnarinnar.
15 Áfrýjandi telur úrlausn málsins ráðast af 10. gr. EES sem bannar tolla og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif. Hafnargjöldin sem hér um ræðir séu eingöngu lögð á innflutt áfengi þar sem áfengi framleitt innanlands sé einungis flutt landleiðina. Þar með leggist hafnargjöldin aðeins á innflutta vöru þegar hún er flutt til landsins um hafnir sem stefndi rekur. Þar sem gjöld á innflutt áfengi fari fram úr kostnaði við þá þjónustu sem veitt er í tengslum við innflutninginn, falli þau ekki utan gildissviðs 10. gr. á þeirri forsendu að þau séu þjónustugjöld. Áfrýjandi heldur því fram til vara að úrlausn málsins ráðist af 14. gr. EES sem bannar mismunun í tengslum við innlenda skatta. Komist dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að hvorki 10. né 14. gr. EES eigi við, telur áfrýjandi að meta beri lögmæti gjaldanna á grundvelli 11. gr. EES sem bannar magntakmarkanir og allar ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif.
16 Áfrýjandi telur engan mun vera á 10., 11. og 14. gr. EES með tillit til þess hverjir séu bundnir af ákvæðum þeirra. Ákvæðin eigi jafnt við um ráðstafanir miðlægra sem staðbundinna stjórnvalda. Álagning hafnargjalda sé í raun opinber ráðstöfun sem meta beri samkvæmt reglunum um frjálsa vöruflutninga jafnvel þótt rekstrarfyrirkomulag hafnanna sé einkaréttarlegs eðlis.
17 Stefndi heldur því fram að 10., 11. og 14. gr. EES taki ekki til starfsemi hans þegar af þeirri ástæðu að hann sé einkaréttarlegur aðili. Auk þess eigi 10. gr. EES ekki við þar sem hafnargjöldin séu lögð jafnt á innlenda og innflutta vöru. Þá eigi ákvæði 14. gr. EES heldur ekki við þar sem hafnargjöldin séu einungis endurgjald fyrir veitta þjónustu.
18 Ríkisstjórn Íslands bendir í fyrsta lagi á að vín falli ekki undir gildissvið EES-samningsins. Í öðru lagi eigi 10., 11. og 14. gr. EES aðeins við um starfsemi opinberra aðila og taki þar með ekki til starfsemi eins og þeirrar sem stefndi hefur með höndum. Hafnargjöld áfrýjanda séu einungis endurgjald fyrir veitta þjónustu. Ákvarðanir stefnda um gjaldtöku séu einkaréttarlegs eðlis og teknar án íhlutunar ríkis eða sveitarfélaga. Stefndi eigi í samkeppni við aðrar hafnir og geti verðlagt þjónustu sína í samræmi við markaðsaðstæður hverju sinni. Ríkisstjórnin bendir loks á að sveitarfélögin hafi hvorki veitt stefnda nein sérstök réttindi né einkarétt í tengslum við starfsemi hans.
19 Eftirlitsstofnun EFTA (hér eftir ESA) bendir á að hvað áfengi varðar gildi 10., 11. og 14. gr. EES aðeins um bjór og brennda drykki.
20 Að mati ESA á 10. gr. EES ekki við þar sem umrædd hafnargjöld eru einnig lögð á vörur sem koma frá öðrum íslenskum höfnum. Gjöldin fullnægi þess vegna ekki því skilyrði 10. gr. EES að vera einhliða lögð á umræddar vörur í tengslum við flutning þeirra yfir landamæri.
21 ESA vísar til þess að 14. gr. EES eigi því aðeins við að hafnargjöldin sem hér um ræðir séu skattur í skilningi þeirrar greinar. Í því sambandi telur ESA að ekki verði gerður greinarmunur á opinberum stofnunum og aðilum sem lúta stjón þeirra, eins og stefnda, sem sé í eigu og undir stjórn sveitarfélaga. ESA telur þó ekki augljóst að 14. gr. EES eigi við þegar starfsemi þess aðila sem um ræðir fellur utan sviðs opinbers réttar. Hugtakið skattur tengist að öllu jöfnu skyldubundnum framlögum hins opinbera. Í ljósi niðurstöðu sinnar varðandi aðra spurningu Hæstaréttar Íslands, að hvað sem öðru líður brjóti hafnargjöldin sem um ræðir ekki gegn ákvæðum 14. gr. EES, telur ESA að ekki sé þörf á að taka afstöðu til þess hvort þau teljist skattur eða ekki.
22 ESA heldur því einnig fram að 11. gr. EES eigi hvorki við um viðskiptahindranir skattalegs eðlis né ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif og tollar.
23 Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna (hér eftir framkvæmdastjórnin) tekur að mestu undir með ESA varðandi svar við fyrstu spurningunni og tekur heldur ekki afstöðu til þess hvort umrædd hafnargjöld teljist skattur í skilningi 14. gr. EES.
24 Dómstóllinn tekur í fyrsta lagi fram, að það leiðir af töflum I og II í bókun 3 við EES-samninginn, þar sem ,,öl og áfengir vökvar” eru taldir upp, að Ísland er samkvæmt b-lið 3. mgr. 8. gr. EES og 1. gr. bókunar 3 bundið af 10., 11. og 14. gr. EES hvað varðar þá vöruflokka, sbr. mál E-9/00 ESA v Noregur [2002] EFTA Ct. Rep. 72, 30. mgr. Hins vegar vísar a-liður 3. mgr. 8. gr. EES ekki til 22. kafla í samræmdu vörulýsingar- og vöruheitaskránni, og því taka 10., 11. og 14. gr. EES ekki til víns, sbr. mál E-4/04 Pedicel [2005] EFTA Ct. Rep.1, 24.-25. mgr. og 28.-29. mgr.
25 Næst liggur fyrir að taka afstöðu til þess hvort hafnargjöldin sem um ræðir falli undir gildissvið 10. gr. EES.
26 Ágreiningslaust er að hafnargjöld þau sem stefndi leggur á við lestun og losun áfengis eru, formlega séð, innheimt óháð því hvort varan er innflutt eða hún flutt með skipi frá annarri höfn innanlands. Þar sem gjöldin eru ekki lögð á vöru vegna flutnings hennar yfir landamæri teljast þau ekki gjöld sem hafa samsvarandi áhrif og tollar. Sjá til samanburðar mál 24/68 Commission v Italy [1969] ECR 193, 8.-9. mgr. og mál C-90/94 Haahr Petroleum [1997] ECR I-4085, 20. mgr. (Haahr Petroleum). Þegar af þeirri ástæðu á 10. gr. EES ekki við. Hefur í því sambandi ekki þýðingu þótt vörur sem fluttar eru með skipi frá öðrum löndum fari inn á tollsvæði innflutningsríkisins þegar þeim er skipað á land. Sú niðurstaða er ekki í ósamræmi við dóm dómstóls Evrópubandalaganna (hér eftir Evrópudómstóllinn) í máli C-163/90 Legros [1992] ECR I-4625, sem áfrýjandi vísar til. Það mál varðaði gjöld sem lögð voru á vörur við flutning þeirra yfir héraðsmörk en ekki á vörur með uppruna í viðkomandi héraði, sbr. 4. og 11.-12. mgr. dómsins. Í málinu fyrir landsdómstólnum eru það hins vegar fjárhags- og hagkvæmniástæður sem ráða því að innlent áfengi er ekki flutt sjóleiðis og hafnargjöld því ekki á það lagt.
27 Þar sem 10. gr. EES á ekki við um hafnargjöld eins og þau sem hér um ræðir, liggur næst fyrir að meta hvort gjaldtakan geti fallið undir 14. gr. EES.
28 Þeir sem sendu dómstólnum athugasemdir eru í fyrsta lagi ósammála um hvort gjaldtaka einkaaðila geti fallið undir 14. gr. EES, og í öðru lagi hvort stefndi teljist einkaaðili í þessu sambandi eða honum verði jafnað til opinbers yfirvalds. Þar sem fyrra álitaefnið kemur því aðeins til skoðunar að líta beri á stefnda sem einkaaðila við beitingu 14. gr. EES, verður fyrst tekin afstaða til þess síðara.
29 Það ræðst af viðeigandi ákvæðum EES-samningsins hvort tiltekinn aðili telst opinbert yfirvald eða ekki. Í því samhengi verður að jafna svæðis- og staðbundnum stjórnvöldum til miðlægra stjórnvalda samningsaðila. Skuldbindingar allra aðila EES-samningsins eru þær sömu, óháð valddreifingu og verkaskiptingu milli miðlægra stjórnvalda og svæðis-, og staðbundinna stjórnvalda. Slík verkaskipting getur verið með ólíkum hætti í aðildarríkjunum. Sjá til samanburðar með tilliti til 28. gr. EB, sem samsvarar 11. gr. EES, sameinuð mál C-1/90 og C-176/90 Aragonesa de Publicidad Exterior og Publivía [1991] ECR I-4151, 8. mgr.
30 Með sama hætti verður sameignarfélagi sem er að fullu í eigu opinberra aðila jafnað til þeirra. Að öðrum kosti gætu EES-ríki með stofnun slíkra sameignarfélaga sniðgengið skuldbindingar sínar samkvæmt 14. gr. EES. Skiptir í því sambandi ekki máli þótt sameignarfélagið sé að landsrétti sjálfstæður lögaðili gagnvart hefðbundnum opinberum yfirvöldum og starfsemi þess teljist ekki til opinberrar starfsemi.
31 Ákvæði 14. gr. EES taka ekki einungis til skatta sem eru lagðir á vörurnar sem slíkar heldur einnig skatta sem hafa bein áhrif á verð þeirra. Sjá til samanburðar mál 20/76 Schöttle [1977] ECR 247, 13.-15. mgr. (Schöttle). Ekki er útilokað að gjald sem aðili innheimtir í eigin þágu geti talist skattur í skilningi 14. gr. EES, sbr. mál 74/76 Ianelli & Volpi [1977] ECR 557, 19. mgr., og Haahr Petroleum, 4. mgr. Af dómi í Haahr Petroleum leiðir í þessu samhengi að gjöld fyrir veitta þjónustu vegna vöru, t.d. hafnargjöld, geta talist skattur í skilningi 14. gr. EES, sbr. 35. mgr. dómsins. Af atvikum þess máls er einnig ljóst, að jafnvel þótt ekki sé að lögum skylt að leita þjónustunnar og hún veitt á grundvelli samnings einkaréttarlegs eðlis milli þjónustuaðila og viðskiptavinar, getur einnig verið um skatt að ræða í skilningi 14. gr. EES.
32 Í máli Haahr Petroleum voru gjöldin ákveðin af ráðherra hafnarmála í skjóli opinbers valds, en hafnirnar gátu ekki sett eigin gjaldskrá. Í máli því sem hér er til umfjöllunar virðist hins vegar sem rekstraraðili hafnanna setji eigin gjaldskrá á grundvelli lagaheimildar þar sem aðeins koma fram almenn viðmið um ákvörðun gjaldanna. Vaknar þá sú spurning hvort greiðsla fyrir veitta þjónustu geti við þær aðstæður talist skattur í skilningi 14. gr. EES.
33 Opinber yfirvöld verða að hafa svigrúm til þátttöku í atvinnustarfsemi án þess að gjaldtaka þeirra falli undir 14. gr. EES hvenær sem þjónustan hefur bein áhrif á verð vöru frá öðrum EES-ríkjum. Þetta á einkum við þegar yfirvöld starfa á samkeppnismarkaði þar sem væntanlegir viðskiptavinir geta valið milli nokkurra rekstraraðila sem setja eigin gjaldskrá. Það stefnir ekki virkni innri markaðarins samkvæmt EES-samningnum í hættu þótt 14. gr. EES eigi ekki við í slíkum tilvikum. Auk þess ber að hafa í huga að skattlagning í hefðbundnum skilningi felur í sér ákveðna skyldu eða kvöð.
34 Þær aðstæður geta hins vegar verið fyrir hendi við innflutning vöru að innflytjendur verði að reiða sig á þjónustu tiltekins opinbers aðila og eigi í þeim efnum ekkert val. Verður þá ekki gerður greinarmunur á áhrifum gjaldtöku einstakra opinberra þjónustuaðila sem setja eigin gjaldskrá og gjaldtöku sem ákveðin eru af miðlægu stjórnvaldi sem bindur alla eða flesta þjónustuaðila á viðkomandi sviði, eins og í máli Haahr Petroleum. Þótt samkeppnisreglur EES eigi við um atvinnustarfsemi opinberra aðila á sviði iðnaðar eða viðskipta sem bjóða vöru eða þjónustu á frjálsum markaði er ekki að fullu tryggt að komið sé í veg fyrir mismunun, sbr. mál C-343/95 Calli & Figli [1997] ECR I-1547, 16. mgr. Ákvæði 54. gr. EES sem banna misnotkun á yfirburðastöðu gætu vissulega einnig átt við í slíkum tilvikum. Á hinn bóginn eru skilyrði þeirra ákvæða ekki þau sömu og 14. gr. EES. Því getur 14. gr. EES átt við um tilteknar aðstæður sem 54. gr. EES tekur ekki til og öfugt.
35 Hugtakið skattur í skilningi 14. gr. EES hefur rúma merkingu, sbr. til hliðsjónar dóm Evrópudómstólsins í máli Schöttle, 13. mgr. Í því samhengi skal þess getið að Evrópudómstóllinn hefur beitt þeirri grein EB-sáttmálans sem svarar til 10. gr. EES um gjald sem ákveðið var með samningi, sbr. mál C-16/94 Dubois and Cargo [1995] ECR I-2421. Með þetta í huga og svo komast megi hjá því að bannákvæði 14. gr. EES verði sniðgengið ber að líta svo á, að gjald fyrir þjónustu sem opinber aðili veitir teljist skattur í skilningi 14. gr. EES, þegar kaupandi hennar á ekkert val um viðsemjanda og verður að reiða sig á umrædda þjónustu. Sjá um svipuð sjónarmið einnig álit Jacobs, aðallögsögumanns í máli Haahr Petroleum, 63. mgr.
36 Við mat samkvæmt framansögðu skiptir ekki máli hvort gjald er ákvarðað á grundvelli viðskiptalegra sjónarmiða með hámarkshagnað í huga, eða á grundvelli almannahagsmuna sem að öllu jöfnu tengjast starfsemi hins opinbera. Áhrif gjaldtökunnar á vöruverðið yrðu þau sömu óháð þeim sjónarmiðum sem að baki búa.
37 Það leiðir af því sem fram kemur í 29. mgr. hér að framan að 14. gr. EES tekur einnig til svæðisbundinna skatta, sbr. og dóm í máli C-45/94 Cámara de Comercio, Industria y Navegación de Ceuta [1995] ECR I-4385. Því þarf þegar metið er hvort kaupandi þjónustu eigi ekki val um viðsemjanda og verði að reiða sig á þjónustu opinbers aðila að staðreyna, að annar aðili bjóði ekki þá þjónustu sem leitað er eftir á því svæði sem hinn opinberi aðili þjónar almennt, í þessu tilviki á starfssvæði þeirra hafna sem stefndi rekur. Það er hlutverk landsdómstólsins að staðreyna hvort aðstæður séu með þessum hætti.
38 Ákvæði 11. gr. EES nær hvorki til viðskiptahindrana sem eru skattalegs eðlis né ráðstafana sem hafa samsvarandi áhrif og tollar. Gjöld eins og þau sem um ræðir í málinu falla því ekki undir ákvæði 11. gr. EES, sbr. til hliðsjónar mál 252/86 Bergandi [1988] ECR 1343, 33. mgr.
39 Með vísan til framangreinds ber að svara fyrstu spurningunni þannig, að gjaldtaka vegna hafnarþjónustu sameignarfélags sem er í eigu nokkurra sveitarfélaga fellur undir 14. gr. EES, ef ekki er til staðar önnur höfn á því svæði sem hafnir sameignarfélagsins þjóna almennt.
Önnur spurning
40 Af svarinu við fyrstu spurningu leiðir að aðeins þarf að leysa úr annarri spurningu á grundvelli 14. gr. EES. Álitaefnið er þá hvort greinin standi því í vegi að innheimt séu hærri hafnargjöld á Íslandi vegna áfengra drykkja en óáfengra, að teknu tillit til þess að áfengi er almennt flutt inn til landsins, þ.á m. frá öðrum EES-ríkjum.
41 Áfrýjandi heldur því aðallega fram að með því að mismuna áfengi fluttu inn frá öðrum EES-ríkjum gagnvart áfengi framleiddu innanlands brjóti hafnargjöldin gegn 14. gr. EES. Áfengi verði eingöngu flutt til landsins sjóleiðis og ekki sé þess kostur að flytja það landleiðina. Innlent áfengi sé á hinn bóginn flutt landleiðina og hafi ekki verið flutt sjóleiðis um árabil. Hin umtalsvert hærri hafnargjöld á áfengi séu kostnaðarauki sem ekki falli á innlent áfengi. Ekki sé verulegur munur á kostnaði við afgreiðslu áfengra og óáfengra drykkja. Af þeim sökum séu engin hlutlæg rök sem réttlæti hin háu gjöld á áfengi og því sé um brot gegn 14. gr. EES að ræða.
42 Þótt áfrýjandi leggi í málflutningi sínum áherslu á að bera saman aðstæður vegna innflutts og innlends áfengis útilokar hann ekki, að umtalsvert hærri hafnargjöld á áfengi heldur en á óáfenga drykki geti falið í sér ólögmæta skattalega mismunun milli innflutts áfengis og innlendra óáfengra drykkja.
43 Stefndi, ESA og framkvæmdastjórnin telja ekki brotið gegn 14. gr. EES. Um aðalröksemd áfrýjanda varðandi mismunun á milli innflutts og innlends áfengis er því haldið fram að við álagningu hafnargjaldanna sé ekki gerður greinarmunur þar á milli. Munurinn skýrist af því að einungis innflutt áfengi sé flutt sjóleiðis og beri því hafnargjöld. Aðstæður sem þessar hafi ekki þýðingu við beitingu 14. gr. EES. Vegna hugsanlegrar mismununar á milli innflutts áfengis og innlendra óáfengra drykkja er því haldið fram, að áfengir og óáfengir drykkir séu hvorki sams konar vörur né í samkeppni á markaði og því feli munurinn á gjöldunum ekki í sér brot gegn 14. gr. EES. Ekki bárust athugasemdir frá ríkisstjórn Íslands vegna annarrar spurningar.
44 Dómstóllinn fjallar fyrst um aðalmálsástæðu áfrýjanda sem varðar meinta mismunun á milli innflutts og innlends áfengis.
45 Óheimilt er samkvæmt fyrsta málsl. 14. gr. EES að leggja hvers kyns beinan eða óbeinan skatt á framleiðsluvörur annarra EES-ríkja umfram það sem beint eða óbeint er lagt á sams konar innlendar framleiðsluvörur. Samkvæmt öðrum málsl. greinarinnar er óheimilt að leggja á skatt sem er til þess fallinn að vernda óbeint innlendar vörur sem eru í samkeppni við innfluttar vörur jafnvel þótt þær séu ekki sams konar, sbr. mál E-1/01 Hörður Einarsson [2002] EFTA Ct. Rep. 1, 24. mgr. (mál Harðar Einarssonar). Við umfjöllun um aðalmálsástæðu áfrýjanda er ekki nauðsynlegt að taka afstöðu til þess, hvort ýmsar tegundir af innfluttu og innlendu áfengi séu sams konar eða eingöngu í samkeppni. Mat á því hvort, mismunun af þessu tagi, sem skýrist af því að eingöngu innflutt áfengi er flutt sjóleiðis, skipti yfir höfuð máli, leiðir til sömu niðurstöðu samkvæmt báðum málsliðum 14. gr. EES.
46 Bæði fyrsti og annar málsl. 14. gr. EES eiga við um óbeina mismunun gagnvart vöru sem er flutt inn frá öðrum EES-ríkjum. Þótt skattlagning taki ekki mið af uppruna vöru getur hún samt sem áður brotið gegn 14. gr. EES, ef hún er til þess fallin að hygla almennt innlendum vörum á kostnað innfluttra, sbr. mál C-302/00 Commission v France [2002] ECR I-2055, 30. mgr.
47 Gjöldin sem hér um ræðir eru hins vegar innheimt fyrir þjónustu, þ.e. lestun og losun áfengis í höfnum stefnda, og þjónustan er veitt með sömu skilmálum öllum þeim sem hennar þarfnast. Atvik í máli þessu eru því ólík atvikum í máli Haahr Petroleum þar sem hærri hafnargjöld voru lögð á innfluttar vörur en innlendar. Stefndi setur ekki gjaldskrá fyrir sambærilega þjónustu vegna sams konar vöru eða vöru sem er í samkeppni og er almennt innlend, þ.e. fyrir lestun og losun áfengis sem flutt er landleiðina. Við þær aðstæður brýtur ólík meðferð á innfluttu og innlendu áfengi ekki gegn 14. gr. EES, þegar ástæðan er sú að innflutta varan er flutt sjóleiðis og þar af leiðandi um hafnir, en innlenda varan er flutt landleiðina og fer því ekki um hafnir.
48 Í þessu sambandi skiptir ekki máli hvort gjöldin sem um ræðir fari augljóslega fram úr kostnaði við veitta þjónustu, eins og áfrýjandi heldur fram. Það er svo annað álitaefni hvort slík háttsemi af hálfu þjónustuaðila felur í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu og sé þar með brot á samkeppnisreglum.
49 Áfrýjandi byggir á því til vara að mismunandi hafnargjöld á áfenga og óáfenga drykki geti falið í sér skattalega mismunun sem bitni á innfluttu áfengi og skal næst að því vikið.
50 Í þessu tilliti er ljóst að mismunandi gjöld eru lögð á sömu þjónustu eftir því hvaða vöruflokkur á í hlut. Eins og fram kemur í 45. mgr. hér að framan brýtur slík gjaldtaka því aðeins gegn ákvæði 14. gr. EES um bann við mismunun, að gerður sé greinarmunur á vörum sem eru annað hvort sams konar, sbr. fyrsti málsl. 14. gr. EES, eða vörum sem eiga í samkeppni á markaði, sbr. annar málsl. 14. gr. EES.
51 Vörur teljast sams konar samkvæmt fyrsta málsl. 14. gr. EES, ef þær hafa sambærilega eiginleika og fullnægja sömu þörfum frá sjónarhóli neytenda, sbr. til hliðsjónar mál 106/84 Commission v Denmark [1986] ECR 833, 12. mgr. Áfengir drykkir og óáfengir eru augljóslega ekki sams konar vara í skilningi fyrsta málsl. 14. gr. EES.
52 Við beitingu annars málsl. 14. gr. EES þarf að meta hvort skattur hafi þau áhrif á viðkomandi markaði að möguleg neysla innfluttra vara dragist saman, sem komi innlendum vörum í samkeppni til góða. Í slíkum tilvikum nægir ekki að viðkomandi vörur séu í samkeppni, heldur þarf einnig að sýna fram á að hærri skattur sé einkum lagður á innflutta vöru, sbr. 31. mgr. í máli Harðar Einarssonar. Auk þess verður að sýna fram á að mismunur á skattbyrði, sem tiltekin gjöld hafa í för með sér, myndi einnig hafa áhrif á víxlteygni eftirspurnar á markaði. Við þetta mat skal m.a. taka tillit til þess verðmunar sem er á vörunum óháð mismunandi skattbyrði. Það er hlutverk landsdómstólsins að meta hvort þessum þremur skilyrðum er fullnægt í máli þessu.
53 Samkvæmt framansögðu er svarið við annarri spurningu í fyrsta lagi það að hafnargjöld eins og þau sem hér um ræðir fela ekki í sér mismunun á innfluttu áfengi gagnvart innlendu áfengi sem brýtur gegn 14. gr. EES, þegar ástæða þess að gjöldin eru eingöngu lögð á innflutt áfengi er sú, að innlent áfengi er ekki flutt sjóleiðis og þarf því ekki hafnarþjónustu, og sá sem setur gjaldskrána fyrir hafnarþjónustuna setur ekki gjaldskrá fyrir sambærilega þjónustu sem þörf er á vegna innlends áfengis.
54 Í öðru lagi brjóta slík gjöld því aðeins gegn 14. gr. EES með því að mismuna innfluttu áfengi gagnvart innlendum óáfengum drykkjum, að gjöldin hafi þau áhrif á viðkomandi markaði að möguleg neysla innfluttra vara dragist saman, sem komi innlendum vörum í samkeppni til góða.
IV Málskostnaður
55 Ríkisstjórn Íslands, Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna, sem skilað hafa greinargerðum til dómstólsins, skulu hver bera sinn málskostnað. Þar sem um er ræða mál sem er hluti af málarekstri fyrir Hæstarétti Íslands kemur það í hlut þess dómstóls að kveða á um kostnað málsaðila.
Með vísan til framangreindra forsendna lætur
DÓMSTÓLLINN
uppi svohljóðandi ráðgefandi álit um spurningar þær sem Hæstiréttur Íslands beindi til hans:
1. Gjaldtaka vegna hafnarþjónustu sameignarfélags sem er í eigu nokkurra sveitarfélaga fellur undir 14. gr. EES, ef ekki er til staðar önnur höfn á því svæði sem hafnir sameignarfélagsins þjóna almennt.
2. Hafnargjöld eins og þau sem hér um ræðir fela ekki í sér mismunun á innfluttu áfengi gagnvart innlendu áfengi sem brýtur gegn 14. gr. EES, þegar ástæða þess að gjöldin eru eingöngu lögð á innflutt áfengi er sú, að innlent áfengi er ekki flutt sjóleiðis og þarf því ekki hafnarþjónustu, og sá sem setur gjaldskrána fyrir hafnarþjónustuna setur ekki gjaldskrá fyrir sambærilega þjónustu sem þörf er á vegna innlends áfengis.
Slík gjöld brjóta því aðeins gegn 14. gr. EES með því að mismuna innfluttu áfengi gagnvart innlendum óáfengum drykkjum, að gjöldin hafi þau áhrif á viðkomandi markaði að möguleg neysla innfluttra vara dragist saman, sem komi innlendum vörum í samkeppni til góða.
Carl Baudenbacher Thorgeir Örlygsson Henrik Bull
Kveðið upp í heyranda hljóði í Lúxemborg 5. mars 2008.
Skúli Magnússon Carl Baudenbacher
dómritari forseti