Hæstiréttur íslands
Mál nr. 82/2003
Lykilorð
- Rangar sakargiftir
- Miskabætur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 16. október 2003. |
|
Nr. 82/2003. |
Hálfdán Ingi Jensen(Hilmar Ingimundarson hrl.) gegn Sigurði Karlssyni (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Rangar sakargiftir. Miskabætur. Gjafsókn.
Á árinu 1998 lögðu S og L, eiginkona hans, fram kæru á hendur H fyrir hótanir í sinn garð og ítrekað ónæði. Ríkissaksóknari ákvað 30. júní 1998 að rannsókn gæfi ekki tilefni til frekari aðgerða af hálfu ákæruvalds, sbr. 112. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Í september 2001 krafðist H miskabóta úr hendi S á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, var talið að framburður vitna fyrir dóminum staðfesti að kæra á hendur H hafi ekki verið algerlega að tilefnislausu og að H hafi ekki sýnt fram á að kæran hafi verið sett fram í þeim tilgangi að sverta mannorð hans. Taldist H því ekki eiga rétt á miskabótum úr hendi S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 4. mars 2003. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.000.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. október 2001 til greiðsludags, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en honum var veitt gjafsókn fyrir Hæstarétti.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð, svo sem í dómsorði greinir. Um gjafsóknarkostnað fyrir Hæstarétti fer eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Hálfdán Ingi Jensen, greiði 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnda, Sigurðar Karlssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2002.
Stefnandi málsins er Hálfdán Ingi Jensen, [kt.], Kríuhólum 4, Reykjavík, en stefndi Sigurður Karlsson, [kt.], Unnarbraut 28, Seltjarnarnesi.
Málið var höfðað með stefnu, dags. 1. mars 2002, og þingfest hér í dómi 21. sama mánaðar. Það var dómtekið 29.nóvember sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.
Dómkröfur:
Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér í miskabætur 1.000.000 króna, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. október 2001 til greiðsludags. Auk þess krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og gerir auk þess kröfu til þess, að stefnanda verði gert að greiða honum hæfilega lögmannsþóknun að mati dómsins.
Málsatvik, mástæður og lagarök:
Málavextir eru þeir, að Jón heitinn Oddsson hrl. ritaði bréf til Lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 9. febrúar 1998, og kærði stefnanda fyrir þrálátar hótanir og ítrekað ónæði gagnvart stefnda og eiginkonu hans, Líneyjar Huldu Gestsdóttur. Í bréfinu segir m.a. Umræddar hótanir varða líkamsmeiðingar, hótanir um að drepa þau og skvetta á þau sýru, þannig að þau verði óþekkjanleg. Þá eru hótanir um innrás í íbúð umbj. minna og auk líkamsmeiðingahótunum fylgir hótun um eignaspjöll. Kærði er fyrrverandi eiginmaður frú Líneyjar Huldu. Umbjóðendur mínir bjuggu áður að Bjarkargötu 14 í Reykjavík, eru þau mjög óttaslegin vegna ofangreinds og telja sig þekkja það til kærða, að hann sé líklegur til að láta verða af hótununum. Tekið skal fram að umbjóðendur mínir eru öryrkjar.
Stefndi mætti til skýrslugjafar hjá lögreglu ásamt eiginkonu sinni 20. apríl s.á. Í skýrslu stefnda segir, að hann hafi byrjað sambúð með Líneyju Huldu Gestsdóttur í kringum árið 1977, en hún hafi áður verið gift Hálfdáni Inga Jensen (eftirleiðis stefnandi). Stefnandi hafi frá þeim tíma haft í hótunum við þau Líneyju á hverju ári. Stefndi kvaðst skella símanum á þegar stefnandi hringdi. Stefnandi hafi hringt til þeirra hjóna dag eftir dag í janúar sl. og viðhaft sömu hótanir og fyrr. Þau hafi svarað honum til skiptis en skellt símanum á og orðið að taka hann úr sambandi til að fá frið.
Líney Hulda bar á sama veg hjá lögreglu. Hún kvað stefnanda hafa hótað þeim hjónum líkamsmeiðingum og því að ráðast inn í íbúð þeirra og valda þar eignaspjöllum. Stefnandi hafi hringt í þau á nokkurra mánaða fresti frá árinu 1977, en það ár hófu þau sambúð. Þau hafi flutt í Skólatún 2 í Bessastaðahreppi rétt eftir síðastliðin áramót og hafi stefnandi skömmu síðar hringt í þau. Hann hafi hótað henni því að skvetta á hana sýru, þannig að hún yrði óþekkjanleg í framan. Hún hafi rofið símtalið, en stefnandi hafi hringt aftur og Sigurður orðið fyrir svörum og rætt við stefnanda en síðan lagt á. Þau hafi við svo búið tekið símann úr sambandi. Stefnandi hafi ekki hringt í þau eftir þetta. Þau hjón bæði lögðu fram formlega kæru á hendur stefnanda fyrir hótanir og brot gegn á friðhelgi og fóru fram á, að honum yrði refsað lögum samkvæmt, eins og orðað er í skýrslum þeirra.
Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglu 27. apríl s.á. Hann vísaði ásökunum þeirra hjóna á bug. Hann kvaðst annað slagið frá samvistarslitum hans og Líneyjar hafa þurft að hafa samband við hana vegna sona þeirra, Gests og Guðna Óskars, en þeir hafi verið óreglusamir. Hafi þau samskipti farið friðsamlega fram. Hann minntist þess ekki að hafa hringt í þau hjón á því ári. Hann sagðist ekki hafa verið með síma en hafi aðgang að tveimur símum, sem hann tilgreindi. Stefnandi neitaði því alfarið að hafa haft í hótunum við þau hjón og taldi þau haldin ranghugmyndum vegna ofneyslu vímuefna. Stefnandi fór fram á það að fá skriflega staðfestingu um framvindu málsins.
Málið virðist ekki hafa verið rannsakað frekar af lögregluyfirvöldum.
Ríkissaksóknari fékk málið til umsagnar og tilkynnti Lögreglustjóranum í Reykjavík með bréfi, dags. 30. júní s.á., að ekki væri krafist frekari aðgerða af hálfu ákæruvaldsins með vísan til 112.gr. laga um meðferð opinbera mála nr. 19/1991. Stefnandi fékk sent afrit þessa bréfs.
Líney Hulda Gestsdóttir andaðist 19. júlí 1998.
Lögmaður stefnanda ritaði stefnda bréf, sem dagsett er 20. september 2001, og krafðist miskabóta úr hendi stefnda að fjárhæð 1 milljón króna, auk vaxta og kostnaðar. Kvað hann kæru stefnda hafa valdið sér miklu hugarangri, þar sem hann hafi alls ekki átt von á því að fá upplogna kæru, hvorki frá stefnda né eiginkonu hans. Hafi kæran valdið honum óþægindum og miska. Greiðslu var krafist innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins, ella yrði höfðað mál á hendur stefnda. Lögmaður stefnda hafnaði bótakröfu stefnanda með, bréfi dags. 10. október s.á., og taldi hana tilhæfulausa með öllu. Stefnandi höfðaði síðan mál þetta hér fyrir dómi, eins og áður er lýst.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á miskabótakröfu sína á því, að stefndi hafi ranglega kært hann til lögreglu og ásakað hann um ólögmætt athæfi. Slíkt athæfi stefnda fari í bága við 148. gr. alm. hgl. nr. 19/1991. Kæra stefnda hafi fjallað um mjög alvarlegar sakir, sem hefðu getað leitt til fangelsisrefsingar, ef sannar væru. Stefnandi telur, að um vísvitandi rangar sakargiftir hafi verið að ræða, sem valdið hafi honum miska, sem stefnda beri að bæta með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en athæfi stefnda brjóti einnig í bága við almennu skaðabótaregluna. Stefnandi telur kröfu sína síst of háa miðað við þá meingerð, sem honum hafi verið sýnd með kæru stefnda og Líneyjar Huldu, eiginkonu hans.
Stefnandi vísar til laga nr. 38/2001 til stuðnings dráttarvaxtakröfu sinni, en byggir málskostnaðarkröfu sína á 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa stefnanda um virðisaukaskatt á tildæmdan málskostnað er byggð á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi mótmælir því, að hann hafi haft stefnanda fyrir rangri sök, þegar hann lagði fram kæru sína á hendur honum við skýrslutöku hjá lögreglu 20. apríl 1998. Framburður hans sé studdur framburði Líneyjar Huldu Gestsdóttur hjá lögreglu, sem sama dag hafi einnig lagt fram kæru á hendur stefnanda.
Þá mótmælir stefndi miskabótakröfu stefnanda. Krafan sé órökstudd með öllu, en stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því, að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna umræddrar kæru. Stefnandi hafi ekkert lagt fram til styrktar kröfu sinni, og því beri þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu hans.
Stefndi heldur því einnig fram, að hann hafi óskað eftir því, að lögregluyfirvöld létu málið niður falla og því hafi ákæruvaldið ekki aðhafst frekar í málinu.
Þá bendir stefndi á, að stefnandi höfði mál þetta u.þ.b. fjórum árum eftir að stefndi og eiginkona hans hafi lagt fram kæru á hendur honum. Slíkt tómlæti eitt og sér eigi að leiða til sýknu af kröfum stefnanda.
Stefndi heldur því fram, að fyrir stefnanda vaki það eitt með þessum málaferlum, að valda honum sem mestum óþægindum. Hann sé öryrki, sjötíu og tveggja ára að aldri og hafi um skeið þjáðst af illvígum lungnasjúkdómi. Stefnanda sé fullkunnugt um þetta og viti vel, að þessi málaferli séu stefnda þung raun og muni hafa slæm áhrif á heilsu hans.
Skýrslutökur fyrir dómi.
Málsaðilar gáfu skýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins. Einnig mættu til skýrslugjafar, Karl Gústaf Kristinsson og Sólveig Hrönn Kristinsdóttir, systurdóttir stefnda.
Verður framburður þeirra nú rakinn í stórum dráttum.
Stefnandi kvaðst hafa kvænst Huldu Líneyju á árinu 1955, en þau höfðu þá verið í sambúð frá árinu 1953. Hjónaband þeirra hafi varað til ársins 1978. Þau hafi átt tvo drengi, Guðna Óskar og Þorlák Gest, sem fæddir voru 1957 og 1958. Mætti neitaði því alfarið að hafa nokkru sinni haft í hótunum við stefnda eða Huldu, hvorki í síma né með öðrum hætti. Honum hafi ávallt þótt vænt um Huldu, en geti ekki sagt það sama um stefnda, enda hafi hann valdið slitum á hjónabandi hans og Huldu. Hann hafi á hinn bóginn oft hringt í Huldu og oft hitt hana út af sonum þeirra, sem hafi verið vandræðamenn, til að ráða fram úr málum þeirra, þegar þess gerðist þörf. Á árinu 1998 kvaðst hann hafa fengið fréttir af Huldu hjá sonum þeirra, sem héldu sambandi við móður sína. Hann kvað Huldu og stefnda hafa verið óreglufólk. Hann aftók með öllu, að synirnir hafi valdið stefnda eða móður þeirra ónæði með símhringingum.
Stefndi lýsti ástæðum fyrir kæru sinni á hendur stefnanda með þeim hætti, að allt frá því þau Hulda hófu sambúð hafi stefnandi stöðugt áreitt þau og haft í hótunum. Þetta hafi verið mismikið frá einum tíma til annars. Stundum hafi þetta verið svo alvarlegt, að Hulda hafi ekki þorað að fara út með rusl og hann orðið að gera það, þegar hann kom heim úr vinnu. Þetta hafi verið hótanir um líkamsmeiðingar og þaðan af verra og beinst bæði að sér og Huldu. Þetta hafi einkum verið símahótanir, en stefnandi hafi einnig fylgt hótunum sínum eftir, bæði með innbrotum og líkamsmeiðingum. Í eitt skipti hafi stefnandi haldið honum meðan Gestur sonur hans hafi rotað hann. Hann hafi síðan verið rændur, þar sem hann lá meðvitundarlaus á gólfinu. Þetta hafi átt sér stað á heimili hans að Bjarkargötu 14. Hulda hafi ekki viljað kæra þetta atvik, þar sem sonur hennar átti í hlut. Í annað skipti hafi hann komið að stefnanda í íbúð sinni, sem stefnandi hafði brotist inn í. Tilvikin séu fjölmörg. Megi t.d. nefna árás stefnanda á sig á horni Skothúsvegar og Bjarkargötu. Stefnandi hafi að lokinni árásinni hlaupið inn í Hljómskálagarð. Hann kvaðst hafa leitað til Jóns heitins Oddssonar hrl. og alltaf látið Jón vita, þegar áreitni stefnanda hafi gengið úr hófi fram. Jón hafi síðan gert þær ráðstafanir, sem hann taldi réttar, m.a. hafi Jón sagst hafa látið vakta húsið, þegar þau bjuggu á Álftanesi. Þetta hafi verið gert vegna ótta Huldu, sem sagðist hafa séð stefnanda á kreiki í nágrenni hússins. Ónæði stefnanda hafi haldið áfram eftir andlát Huldu.
Vitnið Karl Gústaf kvaðst hafa búið í sama húsi og stefndi og eiginkona hans að Bjarkargötu 14 í Reykjavík. Hann hafi flust í húsið í kringum árið 1990 og stuttu síðar hafi stefndi, sem bjó í sama húsi, komið upp á efri hæðina til sín og lýst áhyggjum sínum vegna símahótana um líkamsmeiðingar og þaðan af verra, sem stefnandi og synir hans væru valdir að. Þetta hafi verið viðvarandi, en vitnið gat ekki tilgreint hversu oft þetta hafi gerst, eða hvaða ár. Sigurður hafi einnig sagt sér, að þessar hótanir hafi haldið áfram eftir andlát Huldu. Vitnið sagði, að Hulda hafi ekki kvartað beint við sig út af þessu eða gert sér erindi til sín til að ræða þessi mál, en hún hafi tekið undir þetta með stefnda, þegar þau hjón voru bæði viðstödd og málið bar á góma. Synir Huldu og stefnanda hafi einnig komið mikið við þessa sögu. Honum sé minnisstætt, að stefndi hafi mjög kvartað yfir þessu kringum andlát Huldu og fyrst þar á eftir. Vitnið kvaðst sérstaklega aðspurt ekki sjálfur hafa upplifað hótanir stefnanda eða sona hans í garð stefnda eða Huldu, heldur hafi Sigurður og Hulda sagt sér frá þessu.
Vitnið Sólveig Hrönn Kristinsdóttir greindi réttinum frá því, að stefndi hafi rætt við sig um hótanir stefnanda og sona hans og lýst áhyggjum yfir þessu. Hulda hafi einnig talað við sig út af þessu. Þetta hafi gerst nokkrum mánuðum áður en Hulda dó. Einnig hafi stefndi kvartað yfir hótunum eftir andlát Huldu. Þessi áreitni hafi fyrst og fremst falist í símahótunum. Hún kvaðst ekki muna, hvað stefndi og Hulda hafi sagt um það, hverju hafi verið hótað. Henni var kunnugt um, að þessar hótanir hafi staðið yfir lengri tíma en ekki aðeins á því ári, sem Hulda lést.
Álit dómsins
Stefnandi byggir málsókn sína á 26. gr. skaðabótalaga (skbl.) nr. 50/1993. Skilyrði þess, að lagaákvæðinu verði beitt og miskabætur dæmdar, felst í því, að brot hafi verið framið með ólögmætum hætti sem felur í sér meingerð, m.a gegn persónu eða æru þess, sem bóta krefst.
Eins og áður er lýst, kærði stefndi, og eiginkona hans, stefnanda fyrir áreiti af ýmsu tagi, s.s. hótunum um líkamlegt ofbeldi. Lögregluyfirvöld tóku skýrslu af málsaðilum og Líneyju Huldu Gestsdóttur, og er vætti þeirra reifað í meginatriðum hér að framan. Lögregluyfirvöld létu við svo búið standa og sendu málið ríkissaksóknara, sem felldi málið niður með vísan til 112. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Í þeirri lagagrein segir, að ákærandi felli mál niður, ef hann telur það, sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis. Ákæruvaldið tekur enga afstöðu til sektar eða sakleysis í þessu efni, heldur miðar aðgerðir sínar við það eitt, hvort nægar sannanir liggi fyrir, svo að líklegt sé, að leiða muni til sakfellingar.
Vitnin Karl Gústaf og Sólveig Hrönn greindu réttinum frá því, að stefndi hafi oft kvartað við þau undan stefnanda og hótunum hans. Þetta hafi gerst bæði áður en kom til þess, að stefndi og eiginkona hans létu verða af því kæra stefnanda, og eftir að það átti sér stað. Dómurinn lítur því svo á, þrátt fyrir mótmæli stefnanda, að kæra stefndu á hendur honum hafi ekki verið algjörlega að tilefnislausu og hafi ekki verið sett fram í þeim eina tilgangi að sverta mannorð stefnanda og valda honum miska, eins og stefnandi byggir á.
Stefnandi hefur engin gögn lagt fram til styrktar því, að kæra stefnda hafi valdið honum álitsspjöllum, eða á annan hátt valdið honum miska, sem bæta beri. Stefnandi aðhafðist ekkert í rúm þrjú ár frá því málið var fellt niður af hálfu ákæruvaldsins, sem þykir sýna, að aðgerðir stefnda og eiginkonu hans hafa ekki brunnið heitt á honum.
Þegar atvik málsins eru virt í heild fær dómurinn ekki séð, að stefndi hafi viðhaft ólögmæta og saknæma háttsemi, í skilningi 26. gr. skbl., gagnvart stefnanda, sem feli í sér bótaskylda meingerð. Ber því að sýkna stefnda af miskabótakröfu stefnanda.
Málsókn stefnanda er, að mati dómsins, tilefnis- og tilhæfulaus. Verður til þess litið við ákvörðun málskostnaðar með vísan til a)-liðar 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Stefnandi skal greiða stefnda málskostnað, sem ákveðst 200.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Skúli J. Pálmason kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Sigurður Karlsson, er sýknaður af kröfum stefnanda, Hálfdáns Inga Jensen.
Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.