Hæstiréttur íslands

Mál nr. 192/2004


Lykilorð

  • Samningur
  • Verkkaup


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. desember 2004.

Nr. 192/2004.

Íslensk erfðagreining ehf.

(Kristján Þorbergsson hrl.)

gegn

Hreimi hf.

(Guðmundur Ágústsson hdl.)

 

Samningur. Verkkaup.

H hf. tók að sér hugbúnaðargerð og tengd verkefni fyrir Í ehf. Í samningi aðila var meðal annars kveðið á um vinnu við nánar skilgreind verkefni í 2.400 klukkustundir, en að því loknu mátti segja upp samningnum fyrirvaralaust. Eftir að umræddu marki var náð sendi Í ehf. tilkynningu 30. júní 2003 til H hf. þar sem kom fram að ekki yrði af frekari kaupum á þjónustu af H hf. „að svo stöddu“. Engu að síður var ákveðið á fundi í byrjun júlímánaðar sama árs að H hf. ynni áfram að verkefnum fyrir Í ehf. fram til 18. sama mánaðar. Í kjölfarið reis ágreiningur um skil á verkum, þar á meðal um svonefnda skjölun, og uppgjör vegna þeirra. Talið var ósannað að H hf. hafi lofað að ljúka við umrædda skjölun. Jafnframt var ekkert talið komið fram um að H hf. hafi haldið eftir gögnum sem Í ehf. ætti rétt til. Meðal annars í ljósi ákvæða í samningi aðila um verkskil við uppsögn var það talið standa Í ehf. nær að tryggja sér sönnun um að félagið hafi aðeins óskað eftir sumum verkefnunum sem H hf. skilaði, en ekki öðrum. Það hafi Í ehf. ekki gert. Þess vegna bæri Í ehf. að standa H hf. skil á greiðslu fyrir þau verk sem félagið innti af hendi eftir fundinn í byrjun júlímánaðar, en ekkert hafi komið fram annað en að þau hafi verið fullnægjandi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. maí 2004. Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður að svo stöddu af kröfu stefnda, en til vara að honum verði gert að greiða stefnda 1.809.743 krónur. Hann krefst í báðum tilvikum málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Að því frágengnu krefst hann þess að krafa stefnda verði lækkuð og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt ný gögn, meðal annars matsgerð Heimis Þórs Sverrissonar lektors í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík 19. maí 2004 um nánar tilgreind atriði varðandi skjölun tölvugagna og afhendingu þeirra.

I.

Eins og rakið er í héraðsdómi tók stefndi að sér tölvuforritun og tengd verkefni fyrir áfrýjanda. Um var að ræða hönnun og þróun á sérhæfðri leitarvél vegna starfsemi áfrýjanda. Með samningi 20. júlí 2001 sömdu aðilar um vinnu við nánar skilgreind verkefni í 2.400 klukkustundir. Kveðið var á um að gjald fyrir hverja vinnustund starfsmanns stefnda skyldi vera 25 bandaríkjadalir, en verkið skyldi unnið á Indlandi. Voru í samningnum ákvæði um framkvæmd verksins, verkáætlanir, hugverkaréttindi og önnur atriði. Samkvæmt 8. gr. samningsins var ekki unnt að segja honum upp fyrr en 2.400 vinnustundum væri náð, en eftir þann tíma var samningurinn uppsegjanlegur án sérstaks uppsagnarfrests. Þá var kveðið á um að kæmi til uppsagnar bæri stefnda þó að ljúka og skila þeim verkum sem áfrýjandi hefði þegar pantað og skilgreind hefðu verið í verkáætlunum. Að sama skapi var áfrýjanda skylt að greiða fyrir unnin verk sem skilað hefði verið og teldust „móttökuhæf“, en ógreidd við uppsögn. Áfrýjandi hélt áfram að kaupa vinnu af stefnda eftir að framangreindum lágmarksfjölda vinnustunda hafði verið náð og greiddi fyrir samkvæmt samningnum. Auk vinnu við forritun á Indlandi annaðist starfsmaður stefnda á Íslandi aðlögun forrita að tölvukerfum áfrýjanda og fyrir þá vinnu mun áfrýjandi hafa greitt stefnda 8.500 krónur fyrir hverja klukkustund.

Í árslok 2002 mun áfrýjandi hafa gripið til ýmissa aðgerða til hagræðingar í rekstri sínum, meðal annars sagði hann upp starfsfólki og samningum um kaup aðfanga. Vegna þessa komust málsaðilar að samkomulagi um breytingar á umræddum samningi, en hins vegar ber þeim ekki að öllu leyti saman um í hverju þær fólust. Áfrýjandi heldur því fram að stefnda hafi verið gert ljóst að miklar líkur væru á að til þess kæmi að hætt yrði að kaupa þjónustu stefnda og að hann hafi sett stefnda það skilyrði fyrir áframhaldandi samstarfi að greiðslur til stefnda fyrir vinnu á árinu 2003 næmu ekki hærri fjárhæð en 28.000.000 krónum. Áætlað hafi verið að stefndi myndi ljúka vinnu í síðasta lagi í september 2003 og haga framkvæmdum þannig að mest yrði unnið í janúar til maí þess árs. Samkvæmt áætlun aðila skyldi stefndi vinna verkefni fyrir fjárhæð er svaraði til 3.571.677 króna í hverjum mánuði tímabilið janúar, febrúar og mars 2003, 3.166.983 króna í hverjum mánuði fyrir apríl, maí og júní sama árs, en 2.511.216 króna fyrir júlí, ágúst og september sama árs. Stefndi heldur því fram að samkomulag aðila hafi falið í sér tímabundinn afslátt af vinnu hans sem næmi 30% frá fyrri samningi aðila jafnframt því sem vinnan myndi dragast saman.

Í gögnum málsins er að finna drög að samningi sem fyrirsvarsmaður stefnda sendi áfrýjanda 13. janúar 2003 þar sem miðað var við að áfrýjandi greiddi stefnda fyrir tímabilið janúar til september 2003, eins og að framan er rakið. Kæmi til vinnu stefnda á tímabilinu frá október til loka desember það ár skyldi greitt tímagjald samkvæmt upphaflegum samningi vegna vinnu á Indlandi en 8.500 krónur vegna vinnu á Íslandi. Ekki komst á skriflegur samningur um þessi atriði, en stefndi mun eigi að síður hafa unnið í janúar, febrúar og mars 2003 samkvæmt samningsdrögunum, en reikningur hans fyrir vinnu í apríl nam hins vegar hærri fjárhæð en þar greinir. Áfrýjandi greiddi þann reikning líkt og fyrri reikninga og sendi stefnda jafnframt tölvubréf 13. maí 2003 þar sem gert var ráð fyrir auknum greiðslum í apríl og maí 2003 en að greiðslur fyrir ágúst og september það ár skyldu lækka að sama skapi. Með svarbréfi stefnda sama dag var sú áætlun samþykkt. Með bréfi 30. júní 2003 tilkynnti áfrýjandi hins vegar að ekki yrði af frekari kaupum á þjónustu stefnda „að svo stöddu.“ Í kjölfar þess bréfs áttu fulltrúar aðila þó fund um tilgreind verk sem ekki hafði verið lokið af hálfu stefnda. Ekki er upplýst nákvæmlega hvenær sá fundur var haldinn, en aðilar eru sammála um það hafi verið 8., 9. eða 10. júlí 2003. Á þeim fundi mun hafa orðið að samkomulagi að stefndi ynni áfram að verkefnum fyrir áfrýjanda til 18. þess mánaðar, en eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi eru aðilar hvorki sammála hvaða verkefni var um að ræða né hver þóknun skyldi vera fyrir verkin. Stefndi lauk skilum á tilteknum verkum 24. þess mánaðar og gerði áfrýjanda hinn umþrætta reikning 31. júlí 2003 í samræmi við ákvæði samningsins 20. júlí 2001.

II.

Deila málsaðila stendur um hvort stefndi hafi skilað gallalausum verkum og einnig hvort hann hafi skilað og krafist greiðslu fyrir verk, sem hann hafi ekki verið beðinn um að ljúka, en jafnframt látið hjá líða að vinna að svonefndri skjölun sem samið hafi verið um að hann ynni. Þá er deilt um hvort stefnda sé rétt að krefjast þóknunar samkvæmt samningnum 20. júlí 2001 fyrir vinnu eftir uppsögn hans, eða hvort hann hafi að því leyti átt að taka mið af síðara samkomulagi aðila.

Áfrýjandi reisir aðalkröfu sína á því að stefndi hafi látið hjá líða að afhenda svokallaða skjölun sem innihéldi yfirlit og hönnunarlýsingu hugbúnaðarkerfisins og lýsingar á klösum og samvirkni þeirra í kerfinu. Um það vísar áfrýjandi til verkbeiðna sem hann setti fram 27. júní 2003 og tölvubréfs stefnda sama dag þar sem fram kemur að verkbeiðnir voru mótteknar. Þá bendir áfrýjandi á að tölvubréfi hans til stefnda 29. ágúst 2003, með ósk um skil á þessum tilgreindu verkum, hafi fyrirsvarsmaður stefnda svarað sama dag með svofelldum orðum: „Það er í eðli málsins sjálfsagt að skila öllum skjölum og kóða sem til eru og jafnvel útbúa þau sem á vantar. Sorglega staðan er nú samt sú að samskipti fyrirtækjanna eru í höndum lögfræðinga og ég tel eðlilegt að þeir nái samkomulagi áður en áfram er haldið. ...“  Telur áfrýjandi þetta svar ekki verða skilið öðruvísi en svo að stefndi hafi annað hvort skjölunina undir höndum og neiti að afhenda hana eða hafi ekki unnið þau verk sem áfrýjandi hafi sannanlega beðið um. Áfrýjandi vísar og til þess að á þeim tíma, er hann setti fram beiðni um þessi verk, hafi samningurinn 20. júlí 2001, með síðari breytingum, enn verið í gildi. Þá kveður áfrýjandi umbeðna skjölun vera skilyrði þess að hugbúnaðargerðin nýtist honum til fulls og vísar í því sambandi til framlagðrar matsgerðar fyrir Hæstarétti og framburðar matsmanns. Samkvæmt þessu sé sá tími ókominn sem stefndi verði krafinn um greiðslu.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að skjölun hafi borist í tal á umræddum fundi, sem haldinn var í byrjun júlí 2003, en einungis hafi verið rætt um að stefndi annaðist lágmarksskjölun, enda ekki unnt að vinna að ítarlegri skjölum eins og verkbeiðnir áfrýjanda kváðu á um, þar sem þær hefðu verið settar fram aðeins þremur dögum áður en áfrýjandi sagði upp samningnum.

Samkvæmt gögnum málsins og framburði hins dómkvadda manns var hin sérstaka skjölun, sem verkbeiðnir áfrýjanda lutu að, umfangsmikil og fyrirséð að stefndi væri ekki í stakk búinn til að ljúka við hana á þeim skamma tíma sem honum gafst til verkskila í samræmi við verkbeiðnir sem honum höfðu borist nokkrum dögum áður en áfrýjandi sagði samningi aðila upp. Af því sem fram er komið í málinu verður heldur ekki ráðið að stefndi hafi byrjað að vinna að skjölun á þeim tíma. Framburður starfsmanna aðila, sem voru á fundi þeim sem haldinn var í byrjun júlí 2003, er rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Þeim bar ekki saman um hvaða verk stefndi tók þá að sér að vinna. Áfrýjandi tiltekur sjö verk, auk skjölunar, en stefndi þau verk sem langt hafi verið komin og unnt hafi verið að ljúka fyrir 18. júlí 2003. Verður ekki fullyrt frekar um efni fundarins í júlí 2003 og hefur áfrýjanda ekki tekist að sanna að þar hafi stefndi lofað að ljúka umbeðinni skjölun. Þá er ekkert fram komið í málinu sem leiðir í ljós að stefndi haldi eftir gögnum sem áfrýjandi á rétt til. Samkvæmt framanrituðu eru engin efni til að fallast á aðalkröfu áfrýjanda.

Eins og áður greinir sagði áfrýjandi upp samningi aðila án fyrirvara í lok júní 2003, vegna atvika er hann vörðuðu, en óskaði jafnframt eftir því að stefndi ynni áfram að tilgreindum verkefnum, sem aðilar eru þó ekki sammála um hver verið hafi. Fyrir liggur að þau verk sem stefndi innti af hendi í kjölfar fundarins höfðu verið í vinnslu samkvæmt verkbeiðnum frá áfrýjanda. Verður því ekki annað séð en að verk stefnda eftir það hafi verið í samræmi við áðurnefnda 8. gr. samningsins 20. júlí 2001 um verkskil við uppsögn, en síðari breytingar á samningnum tóku ekki til þess ákvæðis. Því stendur það áfrýjanda nær að tryggja sér sönnun um að hann hafi óskað eftir sumum verkum sem skilað var, en ekki öðrum, sem einnig voru samkvæmt fyrri verkbeiðnum hans. Það hefur áfrýjandi ekki gert og verður hann því að standa stefnda skil á greiðslu fyrir þau verk sem stefndi innti af hendi í kjölfar fundar aðila í byrjun júlí 2003.

Samningssamband aðila grundvallaðist á samningnum 20. júlí 2001, en samkvæmt framansögðu höfðu í ársbyrjun 2003 að beiðni áfrýjanda verið gerðar breytingar á tilteknum þáttum hans, er lutu aðallega að greiðslum til handa stefnda og umfangi verksins vegna hluta ársins 2003. Voru þær breytingar ekki með formlegum hætti, en ljóst er að í kjölfar þeirra urðu greiðslur til handa stefnda lægri en áður hafði verið og eru aðilar sammála um að svo hafi átt að vera að minnsta kosti til loka september 2003. Af málatilbúnaði aðila verður ekki talið að ákvörðun hafi verið tekin um að vinnu stefnda skyldi ljúka í septemberlok 2003. Samkvæmt samningsdrögum stefnda 13. janúar 2003 gerði hann ráð fyrir að eftir þann tíma myndu greiðslur vera í samræmi við það sem verið hafði á árunum 2001 og 2002. Er hinn umþrætti reikningur samkvæmt því sem þá hafði tíðkast. Með því að áfrýjandi sagði upp samningi aðila féll úr gildi síðara samkomulag um tiltekna verktilhögun til septemberloka 2003 gegn lækkun endurgjalds. Þá er ekkert fram komið í málinu annað en að þessi verk hafi verið fullnægjandi. Þegar allt þetta er virt verður áfrýjanda gert að greiða kröfu stefnda.

Samkvæmt framanrituðu en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Íslensk erfðagreining ehf., greiði stefnda, Hreimi hf., 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

                                               

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 29. janúar 2004, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur af Hreimi ehf., kt. 600901-3110, Lynghálsi 10, Reykjavík, gegn   Íslenskri erfðagreiningu ehf., kt. 691295-3549, Sturlugötu 8, Reykjavík, með stefnu sem  þingfest var á dómþingi 18. september 2003 er þá var sótt af hálfu stefnda.

Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði gert að greiða honum 5.365.547 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­­tryggingu, frá 31. ágúst 2003 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður að svo stöddu.  Til vara krefst hann þess að sér verði gert að greiða stefnanda 1.455.217 kr. með dráttarvöxtum frá dómsuppsögu.  Í báðum tilvikum verði stefnanda gert að greiða honum máls­kostnað að skaðlausu.  Til þrautavara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stór­lega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.

 

Helstu málavextir eru að Bjarni Hákonarson og stefndi gerðu með sér „sam­starfs­samning um hugbúnaðargerð" 20. júlí 2001.  Um inntak samstarfsins segir í fyrstu grein samningsins:

 

BH tekur að sér forritun og tengd verkefni fyrir ÍE samkvæmt beiðnum ÍE (e. work for hire).  ÍE skuldbindur sig til þess að panta verk sem nema a.m.k. 2.400 klukku­stunda vinnu á fyrstu 3 mánuðum samningstímans og skal þeim skilað eigi síðar en á fyrstu 6 mánuðum hans.

 

Um framkvæmdanefnd, verkáætlanir, skil og móttöku verka segir í annarri grein samningsins:

 

BH og ÍE skulu setja saman framkvæmdanefnd sem skipuð verður jafn mörgum full­trúum frá BH og ÍE. ...

 

Fulltrúar ÍE í framkvæmdanefndinni skulu setja fram beiðnir um framkvæmd ein­stakra verka og verkáfanga á grundvelli samstarfssamningsins.  Í framhaldinu skal fram­kvæmdanefndin gera verkáætlanir sem tilgreina skulu fjölda tíma sem ætlað er að tilgreind verk og einstakir verkþættir taki, skilatíma verk/verkþátta, gæðakröfur, próf­anir, prófunartíma og slík atriði.  Verkáætlun sem samþykkt hefur verið af báðum samningsaðilum í framkvæmdanefnd telst bindandi fyrir aðila hvað varðar tíma­fjölda sem verki er ætlað að taka.  Hvorum samningsaðila um sig skal þó heimilt að óska endurskoðunar ef tímafjöldi áætlaður hefur verið [eða] reynist bersýnilega of- eða vanáætlaður.

 

ÍE telst hafa móttekið verk þegar prófun hefur farið fram án þess að athugasemdir komi fram.  Athugsemdir um að verk sem BH hefur skilað uppfylli ekki gæðakröfur skulu koma fram eins fljótt og kostur er og eigi síðar en 14 dögum eftir að verki hefur verið skilað.  Í athugsemdum skal tilgreina þá galla sem ÍE telur vera á verkinu.

 

Um greiðslur segir í fimmtu grein samningsins:

 

ÍE greiðir BH fyrir unnin verk/verkþætti í samræmi við verkáætlanir sem samþykktar haf verið í framkvæmdanefnd, sbr. 2. gr.  Einingarverð er 25 USD pr. klst. og nemur heild­argreiðsla fyrir 2.400 vinnustundir því samtals 60.000 USD. ... BH skal gera ÍE reikning þegar verki/verkþætti er skilað.  Gjalddagi skal vera 30 dögum síðar, enda hafi ÍE á þeim tíma móttekið verk án athugsemda.  ÍE skal greiða gjaldfallna reikn­inga um leið og bætt hefur verið úr ágalla með fullnægjandi hætti og verk hefur verið móttekið.

 

Um gildistíma og uppsögn segir í áttundu grein samningsins:

 

Samningur þessi er óuppsegjanlegur þangað til verkum sem nema 2.400 einingum hafa verið móttekin af ÍE.  Eftir þann tíma er samningurinn uppsegjanlegur og tekur uppsögn gildi þegar í stað.  Þrátt fyrir uppsögn ber BH skylda til þess að ljúka og skila þeim verkum sem ÍE hefur þegar pantað og skilgreind hafa verið í verkáætlunum sbr. 2. gr.  Að sama skapi ber ÍE skylda til að greiða fyrir verk sem unnin hafa verið og skilað að beiðni ÍE sbr. 2. gr. og eru móttökuhæf, en ógreidd við uppsögn.  ÍE skuld­bindur sig til að kaupa af BH a.m.k. 2.400 útseldar klst. á fyrstu 6 mánuðunum frá gildis­töku samningsins, enda verði verkframvinda, gæði og skil verka og verkþátta full­nægjandi og í samræmi við verkáætlanir, sbr. 2. gr.

 

Er einkahlutafélagið Hreimur var stofnað yfirtók það réttindi og skyldur Bjarna Hákonar­sonar samkvæmt framangreindum samningi.

Af hálfu stefnda er staðhæft að stefndi hafi þegar á árinu 2002 keypt vinnu af stefn­anda sem nam 2.400 einingum.  Er því ekki andmælt af hálfu stefnanda.

Af hálfu stefnda segir að undir árslok 2002 hafi verið nauðsynlegt að grípa til ýmissa hagræðingaraðgerða í rekstri félagsins.  Í því skyni hafi stefndi þurft að segja upp starfsfólki innan fyrirtækisins, segja upp samningum við birgja og draga stórlega úr aðkeyptri þjónustu, þ. á m. kaupum á hugbúnaðarþróun frá stefnanda, en markmið stefnda hafi verið að skera niður aðkeypta vinnu við verkefni eins hratt og kostur væri.

Í viðræðum aðila segir af hálfu stefnda, að stefnanda hafi verið tjáð að miklar líkur væru á því að verkefni stefnanda yrði alveg skorið niður vegna sparnaðaraðgerða í rekstri stefnda.  Hafi stefndi sett það skilyrði fyrir áframhaldandi vinnu stefnanda fyrir stefnda að andvirði vinnu árið 2003 yrði aldrei meira en 28.000.000 kr., sem hafi verið verulegur niðurskurður frá fyrra ári.  Áætlað hafi verið að stefnandi myndi ljúka vinnu í síðasta lagi í september 2003 og haga framkvæmd þannig að mest yrði unnið frá janúar til maí 2003 og á þeim tíma myndu 15-20 starfsmenn stefnanda vinna við verkefnið, en eftir þann tíma yrði verulega dregið úr vinnu stefnanda, þar sem vera kynni að stefndi þyrfti að skera verkefnið enn frekar niður.

Af hálfu stefnda segir að aðilar hafi ráðgert að stefnandi myndi vinna verkefni sem stefndi bæði um fyrir fjárhæð sem svaraði til 3.571.677 kr. í hverjum mánuði fyrir vinnu 20 starfsmanna frá janúar til mars.  Þá myndi stefndi greiða 3.166.983 kr. fyrir vinnu 15 starfsmanna stefnanda hvern mánuð tímabilið apríl, maí og júní 2003, en fyrir tímabilið júlí, ágúst og september 2003 hafi verið áætlað að stefndi myndi greiða 2.511.216 kr. fyrir hvern mánuð fyrir vinnu 10 starfsmanna stefnanda.

Fyrir liggur að 13. janúar 2003 sendi framkvæmdastjóri stefnanda samningsdrög til Arndísar Sverrisdóttur starfsmanns stefnda með tölvupósti.  Í tölvupósti fram­kvæmda­stjóra stefnanda segir: Ég setti saman drög að samning fyrir þetta ár í sam­ræmi við okkar viðræður.  Þarna vantar grein sem var í fyrri samningi sem fjallar um með­ferð ágreiningsmála.  Að öðru leyti tel ég að þessi samningur sé eins og við ræddum.  Í 4. mgr. 4. gr. samningsdraganna segir að á tímabilinu október til loka desember 2003 geti stefndi óskað eftir frekari þjónustu stefnanda og sé samkomulag um það að stefndi greiði fyrir þá þjónustu samkvæmt tímagjaldi stefnanda.

Samningsdrögin frá framkvæmdastjóra stefnanda voru ekki undirrituð af stefnda.

Af hálfu stefnda segir að framkvæmdastjóra stefnanda hafi verið tjáð að stefndi gæti ekki skuldbundið sig til þess með nýjum samningi að panta og greiða fyrir þá vinnu sem tilgreind var í áætlun aðila, þar sem miklar líkur væru á því að haldið yrði áfram að skera niður í rekstri stefnda á árinu 2003 og yrði þá stefndi að leggja verkefnið og áætlun aðila með öllu niður.  Er því haldið fram að stefnandi hafi látið sér lynda að samningsdrögin voru ekki undirrituð og sætt sig við þá óvissu sem var um framtíð verkefnisins hjá stefnda með því að vinna áfram að verkefninu í samræmi við áætlun aðila.  Fyrir liggur að stefnandi gerði stefnda reikninga í samræmi við áætlun aðila fyrir mánuðina janúar, febrúar og mars 2003.

Í maí 2003 gerði stefnandi stefnda reikning fyrir vinnu vegna apríl 2003 að fjárhæð 3.331.830 kr.  Af hálfu stefnda segir að strax hafi verið gerðar athugasemdir við að reikningurinn væri ekki í samræmi við áætlaða greiðslu fyrir apríl 2003, hann væri 405.519 kr. hærri en áætlunin segði til um.  Eftir nokkrar viðræður hafi þó verið ákveðið af Hákoni Guðbjartssyni, starfsmanni stefnda, að greiða fjárhæð reikningsins gegn því að áætlaðir reikningar fyrir vinnu stefnanda lækkuðu um samsvarandi fjár­hæð fyrir ágúst og september 2003.  Fyrir liggur að framkvæmdastjóra stefnanda var sendur tölvupóstur þann 13. maí 2003 um þetta.  Segir af hálfu stefnda að tölvu­póst­inum hafi jafnframt fylgt leiðrétting á áætlun aðila frá janúar 2003 þar sem fjárhæðir áætlaðra reikninga, sem stefndi gerði ráð fyrir að greiða stefnda fyrir ágúst og september 2003, voru lækkaðar samsvarandi hækkun á reikningi stefnanda fyrir apríl 2003.  Reikningar stefnanda fyrir maí og júní 2003 hafi hins vegar verið í samræmi við áætlun aðila.

Af hálfu stefnda segir að í júní 2003 hafi stefndi þurft að grípa til enn frekari nið­ur­skurðar í rekstri sínum.  Ákveðið hafi verið að segja samningi við stefnanda upp þegar í stað samkvæmt heimild í 8. gr. samstarfssamnings aðila um hugbúnaðargerð frá 20. júlí 2001.

Af hálfu stefnda segir að í framhaldi af uppsögn stefnda á samningi aðila hafi fram­kvæmdastjóri stefnanda óskað eftir því að Hákon Guðbjartsson, fram­kvæmda­stjóri upplýsingasviðs stefnda, Þorvaldur Arnarson, tæknilegur framkvæmdastjóri stefn­anda, og Bjarni Hákonarson, framkvæmdastjóri stefnanda, hittust á fundi og færu yfir verkið eins og það var statt við uppsögn stefnda á samningi aðila.  Á fund­inum hafi framkvæmdastjóri stefnanda sótt stíft að vinna áfram við verkið, þrátt fyrir að stefndi hafði lýst skýrum vilja sínum til þess að leggja verkefnið niður þegar í stað með uppsögn sinni þann 30. júní 2003.  Hafi stefnandi óskað eftir því að fá að klára til­tekin verkefni og hafi stefndi samþykkt að stefnandi ynni tiltekin verkefni, sem stefndi valdi, og að þóknun stefnanda fyrir þau afmörkuðu verkefni, yrði hlutfall af áætl­aðri þóknun stefnanda fyrir vinnu í júlí 2003, sem hafði verið áætluð 2.511.216 kr. miðað við allan júlímánuð 2003.  Stefnandi skyldi þannig fá greiðslu sem næmi 1.455.217 kr.  Fyrir fjárhæðina skyldi stefnandi ljúka verkefnum, sem átti að klára full­prófuð fyrir 18. júlí 2003, en um ákveðin tilgreind verkefni hafi verið að ræða.  Jafn­framt hafi stefnandi átt að skila stefnda skjölun með svokölluðum editor hluta hug­búnaðarins.  Ákveðið hafi verið að tveir starfsmenn stefnanda skyldu vinna að skjöl­uninni í eina viku og skyldi greiðsla fyrir þá vinnu vera innifalin í fram­an­greindri fjárhæð.  Að lokum hafi verið ákveðið að önnur verk, sem stefnandi ynni að, félli niður þá þegar.

Stefnandi krafði stefnda með reikningi, dags. 31. júlí 2003, um fjárhæð 4.309.676 kr. án virðisaukaskatts, en þar er innheimt fyrir 1.941 klukkustunda vinnu af hálfu starfs­manna stefnanda.

Af hálfu stefnda segir að athugasemdir hafi þegar í stað verið gerðar við reikning stefn­anda og jafnframt hafi honum verið gerð grein fyrir því að fjárhæð hans væri langt frá samkomulagi aðila frá júlí 2003.  Reikningur stefnanda væri ekki í neinu sam­ræmi við samkomulag aðila, en reikningur stefnanda hafi verið um 2.854.459 kr. hærri en um hafði verið samið.  Samkvæmt samkomulagi aðila hefði reikningurinn átt að vera 1.455.459 kr.  Farið hafi verið fram á að reikningi stefnanda yrði breytt í sam­ræmi við samkomulag aðila en stefnandi hafi hafnað því og ekki fengist til að leiðrétta hann.  Hafi stefnandi þá neitað að afhenda stefnda skjölin með „editor" hluta hug­bún­að­arins nema stefndi greiddi umkrafða fjárhæð að fullu.  Af hálfu stefnda hafi þá verið ákveðið að halda greiðslu að fjárhæð 1.455.459 kr., sem hann hafi áður verið til­búinn að greiða, enda hafi það verið ákvörðunarástæða hjá stefnda við samþykki á kaup­um viðbótarverka að skjölin fylgdu með svo að síðar væri hægt að ganga til áfram­haldandi vinnu við þau þegar fjárhagslegt svigrúm gæfist.

 

Stefnandi byggir á því að hafa tekið að sér vinnu fyrir stefnda og beri honum því að fá greitt fyrir þá vinnu við framvísun reiknings.  Í gildi hafi verið ákveðinn samningur milli aðila, sem hafi verið breytt tímabundið í desember 2002 að ósk stefnda, og hafi breyt­ingin átt að gilda fyrir níu fyrstu mánuðina á árinu 2003.  Eftir það hafi átt að gilda sá taxti, sem áður hafði verið unnið eftir.

Þrátt fyrir ákvörðun forstjóra stefnda 30. júní 2003 hafi stefndi óskað eftir að stefn­andi lyki við gerð ákveðinna breytinga, prófana og fleira í júlí það ár.  Hvorki hafi verið farið fram á að stefnandi gæfi sérstakan afslátt á vinnu sinni eftir mán­aða­mótin júní/júlí né samið um sérstök kjör.

Reist er á því að beiðni hafi legið fyrir frá stefnda um þá vinnu sem hér um ræðir.  Stefnda hafi verið gerður reikningur í samræmi við þau kjör, sem gilt hefðu áður en gengið var til móts við tilmæli stefnda í desember 2002, enda sé stefnandi óbundinn af veitingu afsláttar fyrir vinnu sína.  Almennur sérfræðingstaxti hjá tölvufyrirtækjum hér á landi sé um 9.000 kr. en taxti stefnda innan við 2.000 kr.

Á það er bent að stefnandi hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna riftunar á samningi aðila.  Stefnandi hafi gert samning um vinnu á Indlandi um verk fram í september 2003 vegna hugbúnaðargerðar fyrir stefnda.  Hann eigi rétt á greiðslu í sam­ræmi við umsaminn taxta, sem ekki taki mið af áðurgreindum tímabundnum breyt­ingum á honum.

 

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki afhent honum gögn um hugbúnaðargerðina, sem unnin voru fyrir stefnda í júlí 2003, en ekki hafi sérstaklega verið samið um að stefndi ætti að inna greiðslu af hendi að fyrra bragði.  Verkkaupa sé ekki skylt að greiða fyrir verk, nema fá samtímis umráð þess, sem greiðslu er krafist fyrir.  Þar sem sá tími sé þannig ókominn, sem stefndi verði krafinn um greiðslu fyrir störf stefnanda í þágu stefnda í júlí 2003, beri að sýkna stefnda að svo stöddu, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991.

Þá er byggt á því að uppsögn stefnda á samstarfssamningi aðila um hug­bún­að­ar­gerð frá 20. júlí 2001 sé lögmæt, sbr. ákv. 8. gr. samningsins.  En af hálfu stefnda er talið að samningur aðila frá 20. júlí 2001 hafi verið í fullu gildi milli aðila þar til honum var sagt upp af hálfu stefnda 30. júní 2003.  Aðilar hafi komist að sam­komu­lagi í janúar 2003 um að verkefni stefnanda skyldi lokið í síðasta lagi í september sama ár.  Með öðrum orðum hafi stefnanda í janúar 2003 verið fullkunnugt um að stefndi var að leggja verkefnið niður til að hagræða rekstri sínum.  Í samkomu-lagi aðila í janúar 2003 hafi falist að stefnandi samþykkti að vinna að verkefninu á grund­velli áætlunar, sem náð gæti til loka september 2003, þó með þeim fyrirvara að stefndi gæti lagt verkefnið niður fyrr með því að segja samstarfi aðila upp með heimild í 8. gr. samn­ings aðila frá 20. júlí 2001.  Stefnandi hafi samþykkt þessa ráðagerð og hagað vinnu sinni og reikningagerð eftir áætlun aðila svo sem reikningar hans gefa til kynna.  Hafi stefnanda verið fullkunnugt um ætlun stefnda að leggja verkefni stefnanda endan­lega niður eftir september 2003.

Vísað er til þess að eftir uppsögn á samningi aðila 30. júní 2003 hafi stefndi ein­göngu farið fram á að stefnandi ynni að tilteknum verkefnum fyrir stefnda svo sem fram komi í gögnum málsins.  Stefnandi hafi átti að skila þessum verkefnum til stefnda fullkláruðum og prófuðum fyrir 18. júlí 2003 í samræmi við áætlun sem aðilar hefðu samþykkt að vinna eftir.  Öll önnur verk skyldu lögð niður.  Fyrir þessa vinnu skyldi stefnandi fá greiðslu að fjárhæð 1.455.217 kr. sem sé hlutfall af áætlaðri heild­ar­þóknun sem aðilar höfðu áætlað fyrir júlímánuð 2003 mánuði fyrr.  Stefndi byggir á því að stefnandi hafi farið langt út fyrir verkbeiðni stefnda og unnið verk sem hann hafi ekki verið beðinn um að vinna og hafði enga heimild haft til að vinna.  Hafi stefnandi lagt fram skjal, sem hann segi vera skrá yfir umbeðin verk af hálfu stefnda.  Stefndi mótmæli þessu skjali.  Þar sé þó að finna 7 verkliði, sem stefndi viðurkennir að hafa beðið um, en þar sé jafnframt að finna 7 verkliði, sem stefndi bað aldrei um að unnir yrðu.

Stefndi mótmælir verk- og vinnustundabókhaldi stefnanda sem stefnandi leggur fram til stuðnings kröfu sinni.  Þar sé meðal annars að finna tímaskráningu fyrir 516,85 klukkustundum í aðra verkliði en stefndi bað stefnanda um að vinna.  Af þeim klukku­stundum séu 228,25 klukkustundir skráðir á verkliðinn „SDL Internal Work” sem stefndi hafi sannarlega aldrei beðið um.  Raunar sé með öllu ósannað að stefnandi hafi í raun unnið þá vinnu sem þar er tilgreind.  Stefnandi hafi vitað að stefndi var með uppsögn samnings milli aðila að skera verkefnið hraðar niður en upphaflega var áætlað og vissi eða mátti vita að hann hefði hvorki samþykki frá stefnda né heimild með öðrum hætti til að vinna verkefni, sem stefndi bað ekki sérstaklega um.  Stefn­anda hefði borið að leita eftir skýru samþykki stefnda um heimild til að vinna umfram þá beiðni sem stefndi lagði fram.

Stefndi kveðst byggja á þeirri meginreglu verktakaréttar að verktaka sé skylt að leita eftir ótvíræðu samþykki verkkaupa, ráðist hann í verk, sem verkkaupi hefur ekki gefið skýr fyrirmæli um að vinna skuli.  Í ljósi þess sem á undan hafði gengið hafi stefn­anda mátt vera ljóst að hann yrði að leita eftir skýru samþykki stefnda um að vinna verkefni, sem ekki voru hluti af verkbeiðni stefnda.  Þá er þeirri staðhæfingu stefn­anda mótmælt að stefndi hafi ekki farið fram á sérstakan afslátt af vinnu í júlí­mán­uði 2003.  Forsenda fyrir því, að stefnandi ynni meira fyrir stefnda hluta júlí­mán­aðar, hafi ótvírætt verið sú, að heildarþóknun fyrir júlímánuð 2003 yrði ekki hærri en 1.455.217 kr.  Þetta hafi stefnandi samþykkt.  Umdeildur reikningur stefn­anda nemi því hærri fjárhæð en aðilar höfðu samið um fyrir verk stefnanda í þágu stefnda.

Þá mótmælir stefndi jafnframt þeirri fullyrðingu stefnanda að stefndi hafi ekki gert athugasemdir við tímafjölda, sem stefnandi kveðst hafa unnið við verkefnið.  Stefndi hafi mótmælt reikningi stefnanda um leið og tilefni gafst.  Vísar stefndi sér­staklega til þess stutta tíma sem leið frá því að reikningur barst þar til stefna var birt.  Hafi stefnda þannig ekki gefist ráðrúm til að leggja fram skriflegar athugasemdir um bæði tímafjölda og gæði vinnu stefnanda fyrr en í greinargerð sinni.

Þá er því jafnframt mótmælt að ekkert sé við gæði á verkum stefnanda að finna.  Í ljós hafi komið að tilteknir verkþættir, sem stefndi bað stefnanda að vinna, virka ekki í sam­ræmi við verkbeiðnir stefnda.  Hlutar af verkum, sem stefndi bað stefnanda að vinna, séu með þeim hætti gallaðir.

 

Framkvæmdastjóri stefnanda, Bjarni Hákonarson, gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að stefnandi hafi hafið störf fyrir stefnda í júlí 2001.  Hann sagði að gerður hafi verið samningur við stefnda um 2.400 tíma vinnu og lokið hafi verið við vinnu þessa tíma í nóvember sama ár, en þá hafi stefndi óskað eftir frekara vinnu-framlagi af hálfu stefnanda.  Hafi stefnandi orðið við því og samkomulag orðið um óbreyttan samning að öðru leyti.

Upp úr áramótum 2002/2003, sagði Bjarni, að samkomulag hafi orðið með aðilum um að stefnandi legði til ákveðinn fjölda starfsmanna fyrir ákveðna greiðslu hvern mánuð, janúar til september, að báðum mánuðum meðtöldum.

Þá greindi hann frá því, að eftir að forstjóri stefnda lýsti því yfir í bréfi, dags. 30. júní 2003, að stefndi væri hættur frekari þjónustukaupum af stefnanda, hafi Hákon Guðbjartsson, forstöðumaður tölvudeildar stefnda, óskað eftir fundi aðila.  Bjarni kvaðst sjálfur ekki hafa sótt fundinn, en af hálfu stefnanda hefði sótt fundinn Þorvaldur Arnarson, tæknilegur framkvæmdastjóri stefnda, og Kamal, indverskur starfs­maður stefnda, en Hákon af hálfu stefnanda.  Fundurinn hafi verið haldinn á tíma­bilinu 10. til 12. júlí, aðallega til að ákveða hvaða verkefnum væri unnt að ljúka.

Bjarni sagði að Hákon hafi verið í „pressu" með að ljúka verkefnunum 15. júlí en síðar hafi verið ákveðið að skiladagur yrði 18. þ.m.  Bjarni sagði að ekki hafi verið rætt sérstaklega um það, hvað stefndi átti að greiða fyrir vinnu stefnanda í júlí.  Bjarni hafnaði staðhæfingu stefnda um að stefnandi hafi sótt stíft að vinna áfram við verkið.  Þá andmælti hann sérstaklega að stefnandi hafi haldið eftir gögnum eða „skjölun" vegna stefnda, sem stefndi hefði ekki fengið, enda hafi stefnandi engan hag haft af slíku.

Þá er samningslokum hafði verið flýtt - þ.e. er ákveðið var af forstjóra stefnda að ekki yrði unnið fyrir stefnda eins og gert hafði verið ráð fyrir frá júlí til loka september - sagði Bjarni, að þá hafi valið hugsanlega verið að reikna laun stefnanda fyrir verkið í júlí eftir óbreyttum skriflegum samningi aðila eða samkvæmt samkomulagi aðila frá ára­mótunum 2002/2003.  Rætt hafi verið um, að þegar föstum mánaðargreiðslum lyki samkvæmt samkomulaginu, yrði aftur farið á tímagjaldið, hvort sem um væri að ræða samn­inginn eða samkomulagið.  Vinna stefnanda í júlí hafi ekki verið full mán­að­ar­vinna heldur hlutavinna til að ljúka verkefnum, þannig að hann hafi raunar ekki getað miðað við annað en tímagjald samkvæmt óbreyttum skriflegum samningi aðila við reikn­ingsgerðina fyrir vinnuna í júlí.

Bjarni kvaðst hafa farið með umdeildan reikning til Hákonar.  Hafi hann strax tjáð honum að hann hefði ekki átt von á svona háum reikningi.  Bjarni sagði að ekki hafi verið gengið frá skriflegum samningi milli aðila um samkomulagið um breyt­ing­una, sem varð upp úr áramótum 2002/2003, á greiðslum stefnanda fyrir þjónustu stefnda.

 

Hákon Guðbjartsson, framkvæmdastjóri upplýsingasviðs stefnda, gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að Arndís Sverrisdóttir, starfsmaður stefnda, hafi séð um sam­band stefnda við stefnanda.  Hann sagði að um áramótin 2002/2003 hafi orðið breyting á samskiptum aðila á þann veg að skorinn hafi verið niður kostnaður stefnanda við hugbúnaðargerð, sem var unnin erlendis, um helming.  Hann sagði að ákveðið hefði verið að miða greiðslur til stefnanda á þessu ári við helming þeirrar fjár­hæðar, sem greidd hefði verið stefnanda árið 2002.  Þannig hafi verið miðað við að vinna stefnanda mætti ekki kosta meira.  Hann sagði að samningur aðila frá 2001 hafi haldið gildi sínu varðandi ábyrgðir og uppsagnaratriði.  Svo hefði verið litið á að þessi samningur væri sá eini sem gilti milli aðila.

Frá því í janúar til loka júní 2003, sagði Hákon, að unnið hefði verið eftir fram­an­greindri áætlun.  Af hálfu stefnda hafi stefnanda verið kynnt hvaða hug­bún­að­ar­gerðar væri óskað og hvað hún mætti kosta.  Reikningar frá stefnda hefðu borist í sam­ræmi við þetta þar til í maí, en þá hafi komið reikningur sem fór út fyrir þennan ramma.  Var athugsemd gerð við það.  Sæst hafi verið á að greiða þann reikning en lækka þá greiðslur fyrir næstu mánuði frekar en ráðgert hafði verið.  Lækkaður hafi verið áætlaður kostnaður fyrir ágúst og september, sem nam þeirri fjárhæð, sem kostnaður fyrir maí fór fram úr áætlun.

Hákon sagði að ákveðið hefði verið af hálfu stefnda að skera niður kostnað fyrir­tækisins enn meira en áætlað hafi verið í byrjun árs 2003.  Algerlega yrði hætt hug­bún­aðargerð erlendis.  Hafi hann tjáð Bjarna að ekki yrði af frekari kaupum.  Jafn­framt hafi Bjarna verið tilkynnt þetta bréflega af forstjóra stefnda.  Hann sagði að Bjarni hafi þá sótt fast að haldinn yrði fundur þar sem farið væri yfir það, hvort ekki væri tök á að stefnandi fengi að starfa eitthvað áfram fyrir stefnda.  Þar sem áður hefði verið óformlega miðað við, að stefnandi starfaði fyrir stefnda fram í september þetta ár, kvaðst hann hafa fallist á að hitta hann og fara yfir þau verkefni, sem voru í gangi fyrir stefnda hjá stefnanda, og athuga hvort ekki væru einhver verkefni, sem hægt væri að vinna í júlí, til að milda þá ákvörðun stefnda að hætta viðskiptum við stefnanda og sömu­leiðis til að ganga betur frá þeim verkum sem voru í gangi.

Kvaðst Hákon hafa átt fund með Bjarna og Þorvaldi Arnarsyni, þar sem hann hafi gert þeim grein fyrir, að hann væri tilbúinn til að láta stefnanda vinna ákveðin verkefni til viðbótar, en þau yrðu að vera samkvæmt áætlun sem í gangi hefði verið og þar með um hvað greitt yrði fyrir marga tíma.  Þannig hafi á fundinum verið ákveðin þau verkefni, sem unnt væri að ljúka fyrir miðjan júlí, og ákveðið að annað yrði ekki unnið.  Hafi hann tjáð þeim að heildarkostnaður fyrir verkið þennan mánuð mætti ekki nema hærri fjárhæð en áætlaður tímafjöldi gæfi tilefni til.  Eina undantekningin, sem gera átti frá þessu, hafi verið sérstök skjölun á editor-hluta í kerfinu að beiðni stefnda, en þessi tilmæli af hálfu stefnda hafi raunar verið ástæðan fyrir því, að í stað þess að miða við miðjan júlí, hafi verið ákveðið að fjölga verkdögum til 18. júlí.   Hann sagði hér hafa verið um sjö verkliði að ræða, allt verkliðir, sem ljóst var að ættu að klárast fyrir miðjan mánuðinn.  Á fundinum hafi orðið samkomulag um þetta.

Aðspurður kvað Hákon stefnda ekki hafa gert athugsemdir við gæði verka eða tíma­skráningu stefnanda frá því í júlí 2001 til áramóta 2002/2003 umfram það sem eðlilegt mátti teljast.  Forsvarsmenn stefnda hafi verið sáttir við vinnu stefnanda.

Aðspurður kvað hann að verið gæti að Bjarni Hákonarson hafi ekki verið á fund­inum þar sem rætt var um hvað verkefni stefnanda væri heimilt að vinna fyrir stefnda í júlí 2003.  Það sem skipti máli hafi verið að Bjarni bað um að fundurinn yrði haldinn.  Á þessum fundi hafi verið farið yfir verkliði, en það hafi verið Þorvaldur, sem hafi séð um að fjalla um þá fyrir stefnanda.  Aðspurður kvaðst hann aldrei hafa rætt við Þorvald um fjármál, en hann hafi tekið það fram á fundinum, að einungis ætti að vinna að þeim verkefnum, sem áður hafði verið ákveðið að lokið yrði um miðjan mánuðinn.

Hákon sagði að Þorvaldur hafi komið með lista á fundinn, sem sýndi þau verk­efni, sem staðið hefði til að unnin yrðu fyrir stefnda, og hvenær áætlað hefði verið að skila þeim.  Sú venja hefði myndast að skila verkefnum á hálfs mánaðar fresti.  Þorvaldur hafi sýnt honum, hvaða verkefni áttu að klárast um miðjan mánuðinn, og þau, sem áætlað hafði verið að ljúka síðar.  Einungis hefðu verið valin þau verkefni sem áætlað var á listanum að lyki um miðjan mánuðinn.  Aðspurður kvaðst hann ekki hafa undir höndum þennan lista.  Hann kvað Þorvald hafa merkt inn á listann, hvaða verk­efnum átti að ljúka í samræmi við það, sem hann hafi lagt fyrir Þorvald að einungis yrði unnið að.

 

Þorvaldur Sigurður Arnarson, tæknilegur framkvæmdastjóri stefnanda, gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að eftir að forstjóri stefnda sagði upp samningi aðila hafi Hákon óskað eftir fundi við stefnanda.  Fundur hafi líklegast verið haldinn 8. júlí.  Fundinn hefðu sótt af hálfu stefnanda, hann sjálfur ásamt öðrum starfsmanni stefnanda, Kamal að nafni, en Hákon af hálfu stefnda.  Rætt hafi verið um hvernig hagað skyldi viðskilnaði aðila varðandi verkefni, sem stefnandi var að vinna að fyrir stefnda er samstarfssamningi aðila um hugbúnaðargerðina var sagt upp af hálfu stefnda.

Þorvaldur sagði að á fundinum hafi verið rætt um allt sem var í gangi.  Hann hafi komið með lista á fundinn yfir þau verkefni sem voru í gangi.  Komist hefði verið að þeirri niðurstöðu að nýta bæri tímann til 18. júlí til að bjarga því sem bjargað yrði af hug­búnaðargerðinni.  Lokið yrði með öðrum orðum þeim verkum, sem hægt væri að ljúka á þessum tíma.  Auðkennd hefðu verið á fundinum þau verkefni sem mikil­vægust voru.  Kvað Þorvaldur að ákveðið hefði verið að hann kannaði hvar verkefnin væru á vegi stödd enda eðlilegast að ljúka þeim sem lengst voru komin, en hætta við þau sem ekki var byrjað á, eða stutt á veg komin.

Aðspurður andmælti Þorvaldur að Hákon hafi lagt fyrir hann að einungis yrði unnið að tilgreindum sjö verkefnum og engum öðrum.  Hann sagði að rætt hefði verið um að líta yrði til þess á hvaða stigi hvert verkefni væri og hvernig því væri að öðru leyti háttað, áður en ákvörðun yrði tekin, hvort hætta ætti við það.

Hann mótmælti því að Hákon hefði sagt honum að verkin í júlí mættu ekki kosta meira en næmi helming greiðslu fyrir verkin í júní.  Fjármál hefðu ekki verið rædd.

 

Arndís Inga Sverrisdóttir, starfsmaður stefnda, gaf símleiðis skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að hún hafi starfað sem tengiliður við stefnanda og starfsemi hans fyrir stefnda á Indlandi, tekið á móti „kóða" frá þeim og séð um samskiptin.  Henni hafi verið falið að fara yfir reikninga frá stefnanda með tilliti til þess að þeir væru í sam­ræmi við samkomulag aðila frá því í janúar 2003.  Reikningarnir hefðu verið í sam­ræmi við samkomulagið janúar, febrúar og mars, en reikningurinn í apríl hafi ekki verið í samræmi við samkomulagið.  Reikningurinn í apríl hafi verið sömu fjárhæðar og fyrri reikningar en átti að vera lægri.  Athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu stefnda og samkomulag orðið um að leiðrétta þetta með ákveðnum hætti þannig að er upp væri staðið í lok september, væri heildargreiðsla samanlagt fyrir alla mánuðina frá ára­mótum sú sama og samið hefði verið um í janúar 2003.

 

Niðurstaða:  Hákon Guðbjartsson framkvæmdastjóri, sem verið hefur í fyrirsvari fyrir stefnda í þessu máli og undirritaði fyrir hönd stefnda samstarfssamning aðila um hug­bún­aðargerð 20. júlí 2001 og stóð jafnframt að munnlegu samkomulagi með aðilum um áramótin 2002/2003 um breytingu á samskiptum aðila, tjáði fyrir réttinum, að að und­anskildum þeim breytingum sem urðu á samskiptum aðila um áramótin 2002/2003, hafi samningur aðila frá 20. júlí 2001 verið í gildi milli þeirra.  Með bréfi, dags. 30. júní 2003, var samningi þessum sagt upp af forstjóra stefnda.

Ekki er upplýst hvenær bréf þetta barst fyrirsvarsmönnum stefnanda.  Fram­kvæmda­stjóri stefnanda sagði fyrir réttinum að fundur hefði verið haldinn með aðilum á tímabilinu 10. til 12. júlí 2003, m.a. út af uppsögninni.  Þorvaldur Sigurður Arnarson, tæknilegur framkvæmdastjóri stefnanda, sem sótti fundinn, sagði hins vegar, að líklegt væri að fundurinn hafi verið haldinn 8. júlí 2003.  Gera verður því ráð fyrir að uppsögnin hafi borist stefnanda á tímabilinu 30. júní til 8. júlí 2003.

Í áttundu grein samningsins frá 20. júlí 2001 segir m.a. um gildistíma og upp­sögn:

 

Eftir þann tíma [þ.e. er stefndi hafði móttekið 2.400 einingar, sem ekki er deilt um að stefndi hafi gert] er samningurinn uppsegjanlegur og tekur uppsögn gildi þegar í stað.  Þrátt fyrir uppsögn ber BH [nú stefnandi] skylda til þess að ljúka og skila þeim verkum sem ÍE [stefndi] hefur þegar pantað og skilgreind hafa verið í verkáætlunum sbr. 2. gr.  Að sama skapi ber ÍE skylda til að greiða fyrir verk sem unnin hafa verið og skilað að beiðni ÍE sbr. 2. gr. og eru móttökuhæf, en ógreidd við uppsögn.

 

Ekki liggja fyrir í málinu nein gögn um framkvæmd annarrar greinar samnings aðila, sem fjallar um framkvæmdanefnd, verkáætlanir, skil og móttöku verka, en greinin er orðrétt rakin hér að framan í lýsingu málavaxta.  Verkáætlanir í samræmi við samningsákvæðið hefði mátt hafa að leiðarljósi um samskipti aðila síðustu mánuði fyrir uppsögn samningsins.  Hins vegar liggur fyrir í málinu að Hákon Guðmundsson, fram­kvæmdastjóri hjá stefnda, vildi ekki verða við tilmælum stefnanda um skriflega breytingu á samningi aðila um áramótin 2002/2003, enda þótt tímabundnar breytingar á samningi aðila hefðu þá verið gerðar að frumkvæði hans.

Aðila greinir á um hvað fram fór á fundi, sem haldinn var með aðilum eftir upp­sögn samnings þeirra í júlí 2003 og hvort Bjarni Hákonarson hafi með öðrum sótt fundinn af hálfu stefnanda.  En skrifleg fundargerð liggur ekki fyrir.  Óumdeilt er þó að samkomulag varð um að stefnandi ynni áfram að verkefnum fyrir stefnda til 18. sama mánaðar.  Hákon kvaðst hafa lagt fyrir Bjarna og Þorvald að láta vinna sjö verkliði, sem ljóst hefði verið að ljúka mætti við fyrir miðjan mánuðinn, fyrir þóknun, sem miðuð væri við 18 daga tímagjald í hlutfalli af áætlaðri þóknun stefnanda fyrir vinnu í júlí 2003 að fjárhæð 2.511.216 kr. er gerir 1.455.217 kr.

Af hálfu stefnanda er hins vegar haldið fram að Bjarni hafi ekki sótt þennan fund.  Þorvaldur Sigurður Arnarson, er fundinn sótti að hálfu stefnanda, sagði fyrir réttinum, að komist hefði verið að þeirri niðurstöðu að nýta bæri tímann til 18. júlí til að bjarga því sem bjargað yrði af hugbúnaðargerðinni.  Hann mótmælti því að Hákon hefði lagt fyrir hann að einungis yrði unnið að ákveðnum sjö verkefnum og engum öðrum.  Þá mót­mælti hann því að fjármál hefðu verið rædd á fundinum.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki afhent honum öll gögn um hug­bún­að­argerðina, sem stefnandi hafi unnið fyrir stefnda í júlí 2003.  Þessu er andmælt af hálfu stefnanda, sem staðhæfir að hafa ekki haldið eftir slíkum gögnum.  Þar sem ekkert liggur fyrir í málinu sem sýnir að stefnandi haldi gögnum, sem hann vann fyrir stefnda í júlí 2003, verður gegn andmælum stefnanda ekki fallist á þessa málsástæðu stefnda.

Með tilkynningu forstjóra stefnda um, að stefndi væri hættur frekari þjónustu­kaupum af stefnanda, var samningi aðila sagt upp í samræmi við ákvæði 8. gr. samn­ingsins.  Með öðrum orðum var samningurinn fyrirvaralaust felldur niður.  Upp frá því lá raunar ekkert skriflegt fyrir um það, hvernig staðið yrði að viðskiptum aðila í fram­tíðinni, hvað greiða bæri fyrir verkefni, sem stefndi hugsanlega fæli stefnanda að vinna, hvernig þau skyldu unnin, hvenær skilað, hvaða gæðakröfur væru gerðar o.s.frv.

Gegn andmælum stefnanda hefur stefndi ekki sannað að hafa einungis falið stefnda að vinna ákveðin sjö verkefni gegn ákveðnu gjaldi eftir uppsögn stefnda á sam­starfssamningi aðila um hugbúnaðargerð.  Þá hefur stefndi ekki sýnt fram á að um­krafin greiðsla sé ósanngjörn miðað við eðli hugbúnaðargerðar, er stefnandi vann fyrir hann í júlí 2003, og gæði hennar að öðru leyti.

Samkvæmt framangreindu verður fallist á kröfur stefnanda.

Rétt er að stefndi greiði stefnanda málskostnað, svo sem nánar er kveðið á um í dómsorði.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Íslensk erfðagreining ehf., greiði stefnanda, Hreimi ehf., 5.365.547 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 31. ágúst 2003 til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað.