Hæstiréttur íslands

Mál nr. 104/2001


Lykilorð

  • Lausafjárkaup
  • Riftun
  • Galli
  • Tómlæti


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. október 2001.

Nr. 104/2001.

Þór hf.

(Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.)

gegn

Kristni B. Jónssyni

(Ólafur Sigurgeirsson hrl.)

 

Lausafjárkaup. Riftun. Gallar. Tómlæti.

Þ hf. seldi á árinu 1997 H nýja dráttarvél. Í ljós komu ýmsir gallar á vélinni og 7. september 1998 undirrituðu aðilar samkomulag um að Þ keypti vélina aftur af H. Taldi Þ þetta samkomulag hafa verið til staðfestingar á eldra munnlegu samkomulagi þeirra sama efnis, en því neitaði H. Um sama leyti og samkomulag þetta var undirritað seldi Þ hf. vélina til K, en sölureikningur var dagsettur 4. september s.á. Með símbréfi 7. september 1999, sem barst Þ hf. 8. sama mánaðar, kvartaði sonur K með almennum orðum undan göllum á vélinni og þjónustu áfrýjanda. Fór svo, að K lýsti yfir riftun á kaupunum með símbréfi 16. maí 2000 og stefndi síðan Þ hf. til að þola riftun kaupanna og til að endurgreiða þann hluta kaupverðs sem K hafði innt af hendi. Í málinu var um það deilt hvort dráttarvélin hefði við afhendingu verið haldin verulegum göllum, sem K hefði ekki séð eða átt að sjá við skoðun. Af framlagðri matsgerð 4. apríl 2000 þótti fullljóst að vélin hefði verið haldin mjög verulegum annmörkum er skoðun matsmanns fór fram. Samanburður matsgerðarinnar við úttektir er gerðar höfðu verið á vélinni áður en K keypti hana þótti sýna að vélin hefði verið haldin verulegum göllum við afhendingu. Ekki var hnekkt þeirri fullyrðingu K að vélin hefði verið afhent einni viku eftir dagsetningu fyrrgreinds sölureiknings. Var samkvæmt því ekki liðið ár frá afhendingu vélarinnar þar til kvörtun barst, sbr. 54. gr. þág. laga nr. 39/1922. Þá voru hvorki ákvæði 52. né 57. gr. sömu laga talin standa riftunarkröfu K í vegi. Var samkvæmt þessu staðfest niðurstaða héraðsdóms um riftun á kaupum aðila og endurgreiðslu kaupverðs dráttarvélarinnar.    

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. mars 2001. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og að stefnda verði gert að greiða sér 170.695 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 4. september 1998 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms með þeirri breytingu að tildæmd fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2001 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Ágreiningur aðila varðar kaup stefnda á notaðri dráttarvél af áfrýjanda í september 1998.

 Áfrýjandi seldi á árinu 1997 Hauki Engilbertssyni, Vatnsenda í Skorradal, nýja dráttarvél af gerðinni Deutz Agrotron með skráningarnúmerinu LI 720. Var reikningur vegna þeirra kaupa dagsettur 14. maí á því ári. Mun Haukur strax hafa orðið óánægður með vélina og talið hana ekki vera í lagi. Fékk hann Jón Fr. Jónsson vélvirkjameistara til að gera athugun á henni. Í úttekt hans 30. desember 1997 voru talin upp í tíu liðum atriði, sem hann taldi aðfinnsluverð, eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Í framburði Hauks fyrir héraðsdómi kom fram að vélin hafi tvívegis verið send til Reykjavíkur til viðgerða meðan hann átti hana, en án teljandi árangurs. Hafi hún verið send áfrýjanda síðast í febrúar eða mars 1998 og Haukur neitað að taka við henni aftur, enda hafi hún ekki verið komin í viðunandi lag. Í bréfi áfrýjanda til Hauks 22. júlí 1998 var fjallað um áðurnefndar athugasemdir Jóns Fr. Jónssonar og talið að áfrýjandi hefði gert við það, sem um var fjallað í fimm liðum athugasemdanna. Um fjóra liði var ýmist talið vera samkomulag, að áfrýjandi væri ekki sammmála athugasemdunum eða að ekki væri unnt að bæta úr göllum. Er þetta nánar rakið í hinum áfrýjaða dómi. Varðandi tíunda atriðið í athugasemdum Jóns, að vélin hafi reynst mjög þvinguð við akstur og áberandi verri í framdrifi, sagði í bréfi áfrýjanda að í ljós hafi komið við skoðun sérfræðings frá verksmiðju að vélin hafi verið afgreidd með rangri dekkjastærð og því hafi myndast þvingun þegar ekið væri í framdrifi.

 Daginn eftir að þetta bréf var ritað gerði Jón úttekt á vélinni á ný að beiðni Hauks. Kom fram í upphafi skýrslu Jóns um úttektina að sum þeirra atriða, er fyrri athugasemdir hans lutu að, hafi verið búið að laga, en önnur ekki. Sagði þar síðan: „1. Þvingun í framdrifi (milli drifa) er enn fyrir hendi, sé vélin tekin úr framdrifi í akstri fer hann úr með miklum smell eða höggi. 2. Mjög mikil þvingun er í drifrás vélarinnar sem kemur þannig fram að stór hluti mótoraflsins fer í að drífa vélina áfram undir sjálfri sér á jafnsléttu, sem engan veginn telst eðlilegt á 88 hö vél, eðlileg aflrýrnun til hjóla er um 15%. 3. Virðist vera búið að eiga við aflúttak að aftan, straumtakki fyrir pto virkar ekki og aflúttak er sítengt. 4. Búið er að skipta um stjórntakka fyrir vökvalyftu. Vökvalyftu og virkni pto er ekki hægt að prófa nema undir álagi í vinnslu á nokkrum klukkustundum. 5. Vatnsleki, ekki gat undirritaður prófað leka en toppur á húsi hefur verið kíttaður með límkítti sem er nánast ónýt framkvæmd þar sem kítti er í haugum um allan topp og á ljósabúnaði á þeim stöðum þar sem það á ekki að vera. 6. Öndunarslanga á olíutanki er sundur við stút. 7. Kúlutengi á yfirtengi er ekki komið á en sýnt nýtt stykki í húsi. Einnig á eftir að skipta um boginn skrúflang í hliðarsláttarstífu. 8. Olíulekar eru á vökvadælum á mótor og á segulspólum hægra megin að aftan. 9. Þéttihring vantar um rafstýrðan skjá sem sýnir stöðu drifa sem staðsettur er í hægra framhorni stjórnhúss. 10. Misgengi aftan á hægra afturbretti hefur ekki verið lagað. Eins og að ofan greinir er vélin með öllu ónothæf. Drifrás vélarinnar er að öllum líkindum skemmd vegna þeirrar þvingunar sem framan greinir og þyrfti að taka drifrás í sundur til að athuga skemmdir. Undirritaður telur frekari notkun vélarinnar jafngilda frekari skemmdum eða eyðileggingu hennar.“ Í framburði Hauks fyrir héraðsdómi kom fram að hann hafi óskað eftir að fá dómkvadda matsmenn vegna galla á vélinni. Áfrýjandi og Haukur undirrituðu síðan samkomulag 7. september 1998 um að sá fyrrnefndi keypti vélina aftur. Kom fram í þessum samningi að Haukur hafi frá upphafi verið óánægður með vélina og hafi náðst samkomulag um að hann seldi áfrýjanda vélina aftur með þeim göllum, sem sá fyrrnefndi teldi vera á henni. Áfrýjandi telur þetta skriflega samkomulag hafa verið til staðfestingar á eldra munnlegu samkomulagi þeirra sama efnis, en því neitar Haukur.

Í september 1998 seldi áfrýjandi stefnda þessa sömu dráttarvél, en sölureikningur var dagsettur 4. þess mánaðar. Í texta reikningsins kom fram að hið selda væri „notaður traktor“ Þá sagði að vélin væri „seld í því ástandi sem hún er í og kaupandi hefur kynnt sér og samþykkt. Notuð 156 klst.“ Enn sagði í texta reikningsins að seljandi myndi „afhenda kaupanda ný afturdekk og felgur af stærðinni 540/65Rx38, Michelin XM 108 og kaupandi skila núverandi afturdekkjum og felgum til seljanda af stærð 540/65Rx34“ Þá kom fram í reikningnum að meðal búnaðar, sem seldur var með dráttarvélinni, voru ámoksturstæki af nánar tilgreindri gerð. Ekki hefur verið lagður fram í málinu kaupsamningur um vélina milli aðila eða önnur skrifleg gögn varðandi kaupin en þessi reikningur. Áfrýjandi annaðist ásetningu ámoksturstækjanna, en sonur stefnda, Hilmar Jón Kristinsson, sótti vélina að því búnu til áfrýjanda og ók henni vestur að Skarði.

 Áfrýjandi telur að umsamið hafi verið að stefndi greiddi kaupverð vélarinnar að fullu við afhendingu. Þessu andmælir stefndi, enda standi á framangreindum reikningi að kaupverðið hafi verið viðskiptafært. Hilmar Jón Kristinsson bar fyrir héraðsdómi að þegar hann var að ganga frá kaupunum fyrir hönd stefnda hafi orðið að samkomulagi að kaupverð vélarinnar yrði greitt þegar hann fengi nánar tiltekið lán vegna kaupanna og hafi aðilarnir ætlað sér um það bil mánuð til þess. Til tryggingar greiðslu kaupverðs hafi hann lagt fram ódagsettan tékka. Einar Þorkelsson, forstjóri áfrýjanda, sagði í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að tékki þessi hafi verið sýndur til greiðslu, en reynst innistæðulaus í upphafi. Stefndi greiddi 808.670 krónur inn á kaupverð vélarinnar 30. september 1998, 1.440.000 krónur 16. mars 1999 og loks 1.690.000 krónur 3. ágúst 1999. Krefur áfrýjandi hann í máli þessu um eftirstöðvar umsamins kaupverðs, 170.695 krónur.

Í skýrslu fyrir héraðsdómi bar Einar Þorkelsson að ný afturdekk og felgur á dráttarvélina, sem getið var í fyrrgreindum reikningi, hafi komið til landsins í október eða nóvember 1998 og hafi hann tilkynnt stefnda um komu þeirra. Hafi verið reiknað með því að stefndi skilaði gömlu dekkjunum til áfrýjanda og fengi þau nýju afhent þar. Stefndi bar fyrir héraðsdómi að Bjarni, sölumaður hjá áfrýjanda, hafi sagt sér að dekkin yrðu send vestur, en af því hafi ekki orðið þrátt fyrir ítekaðar óskir sínar um það. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að dekkin og felgurnar séu enn í vörslum áfrýjanda.

Með símbréfi dagsettu 7. september 1999, sem barst áfrýjanda 8. sama mánaðar, kvartaði Hilmar Jón Kristinsson með almennum orðum undan göllum á vélinni og þjónustu áfrýjanda. Fór hann þess á leit að áfrýjandi sendi stefnda dekkin og mann til að gera við vélina. Myndi hann rifta kaupunum yrði viðgerðarmaður ekki kominn fyrir 10. september 1999. Þessu svaraði áfrýjandi með bréfi 13. sama mánaðar, þar sem hann andmælti því að hann hafi á nokkurn hátt vanefnt samning aðilanna og krafðist greiðslu eftirstöðva kaupverðs vélarinnar. Í bréfi stefnda til áfrýjanda 1. nóvember 1999 voru taldir upp í fimmtán liðum gallar, sem stefndi taldi vera á vélinni, og tekið fram að enn væru ókomin þau dekk, sem fylgja áttu. Krafðist stefndi þess að kaupin yrðu látin ganga til baka og að áfrýjandi bætti sér tjón, er af þeim hafi leitt. Með beiðni 10. febrúar 2000 óskaði stefndi eftir dómkvaðningu manns til að skoða og meta dráttarvélina. Voru í matsbeiðninni talin upp í fimmtán liðum atriði, sem stefndi taldi í ólagi, og þess óskað að matsmaðurinn léti í ljós álit sitt á þeim, auk þess sem hann myndi skoða vélina sjálfstætt og kanna hvort frekari gallar væru á henni. Þá var óskað eftir mati á kostnaði við úrbætur. Í matsgerð 4. apríl 2000, sem nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi, lét matsmaður þess getið að vélin hafi verið notuð í 856,6 vinnustundir. Taldi hann upp í tuttugu og einum lið þau atriði, sem hann taldi í ólagi. Þá lét hann þess getið að afturdekk vélarinnar væru mjög lítið slitin, að umgengni um vélina væri með ágætum og útlit hennar gott. Að lokun tók matsmaðurinn fram að vélin væri „með öllu óbrúkhæf“. Í bréfi 10. apríl 2000 vitnaði stefndi til matsins og lagði til að áfrýjandi samþykkti riftun á kaupunum og endurgreiðslu kaupverðs. Með símbréfi 16. maí 2000 lýsti stefndi yfir riftun á kaupunum, enda hefði ekki borist svar við fyrrnefnda bréfinu. Í málinu krefst stefndi þess að áfrýjandi verði dæmdur til að þola riftun kaupanna og endurgreiða þann hluta kaupverðs, sem stefndi hefur innt af hendi.

II.

Í máli þessu greinir aðilana á um hvort dráttarvélin hafi við afhendingu verið haldin verulegum göllum, sem stefndi hafi ekki séð eða átt að sjá við skoðun. Af áðurnefndri matsgerð 4. apríl 2000 er fullljóst að vélin var haldin mjög verulegum annmörkum þegar skoðun matsmanns fór fram. Eru sum þeirra atriða, sem hann fann að vélinni, stórvægileg. Verður ekki ráðið af matsgerðinni að gallarnir séu að öllu leyti tengdir akstri vélarinnar í framdrifi og þar með því að ekki hafði enn verið bætt úr misræmi milli dekkjastærðar að framan og aftan. Sé matsgerðin borin saman við áðurnefndar úttektir Jóns Fr. Jónssonar vélvirkjameistara, sem gerðar voru áður en stefndi keypti vélina af áfrýjanda, verður ekki annað séð en að ýmis þeirra atriða, sem matsmaðurinn gerði athugasemdir við, séu hin sömu og þau, er Jón taldi á sínum tíma ekki vera í lagi. Einkum verður þetta ljóst ef matsgerðin er borin saman við síðari úttekt Jóns 23. júlí 1998. Meðal þessara atriða er mjög mikil þvingun í akstri vélarinnar, sem komi fram í aflleysi við akstur á jafnsléttu, vandræði með aflúttak og virkni rofa því tengdu, gat á öndunarslöngu við olíutank, leki á vökvadælum og leki með rúðum. Áfrýjandi hefur ekki lagt fram nein gögn til stuðnings því að hann hafi eftir 23. júlí 1998 og fyrir kaup aðilanna bætt úr þeim göllum, sem fram komu í úttekt Jóns. Verður því að líta svo á að dráttarvélin hafi verið haldin verulegum göllum við afhendingu. Það var og niðurstaða héraðsdóms, sem meðal annars var reist á skoðun sérfróðra meðdómsmanna á vélinni.

Áfrýjandi heldur því fram að stefndi geti ekki haft uppi kröfur vegna galla á vélinni, þar eð meira en ár hafi liðið frá því að hann fékk hana í hendur og þar til hann skýrði áfrýjanda frá því með áðurnefndu símbréfi 7. september 1999 að hann hyggðist bera það fyrir sig að vélinni væri ábótavant, sbr. 54. gr. þágildandi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Eins og að framan er rakið var sölureikningur vegna kaupanna dagsettur 4. september 1998. Með í kaupunum voru ámoksturstæki og tók áfrýjandi að sér að setja þau á dráttarvélina. Fyrir héraðsdómi bar stefndi að vélin hafi verið afhent sér viku eftir dagsetningu reikningsins, eftir að ámokstursrækin höfðu verið sett á vélina. Sonur stefnda kvaðst fyrir dómi hafa komið til að sækja vélina fimm til sjö dögum eftir að samið var um kaupin. Einar Þorkelsson kvaðst fyrir héraðsdómi ekki muna nákvæmlega hvenær vélin var afhent eftir ásetningu ámoksturtækja, en það hafi verið strax og tækifæri gafst. Samkvæmt ákvæði 54. gr. laga nr. 39/1922 miðaðist frestur til að bera fram kvörtun við það hvenær kaupandi fékk söluhlut í hendur í raun og veru, en ekki við það hvenær kaup teldust gerð. Verður um það tímamark að miða við frásögn stefnda og sonar hans um viðtöku dráttarvélarinnar eftir ásetningu ámoksturstækjanna. Samkvæmt því var ekki liðið ár frá afhendingu vélarinnar þegar kvörtun vegna ástands hennar barst áfrýjanda.

Þá heldur áfrýjandi því fram að stefndi hafi glatað rétti til að rifta kaupin, þar sem hann hafi ekki skýrt áfrýjanda frá því án ástæðulauss dráttar, sbr. 2. mgr. 52. gr. laga nr. 39/1922. Upphaf frests til að gera riftunarkröfu samkvæmt tilvitnuðu ákvæði miðaðist við hvenær stefndi komst að því að söluhlutur væri gallaður eða honum mætti vera það ljóst. Af framburði stefnda og sonar hans fyrir héraðsdómi sést að þeir töldu sig á næstu mánuðum eftir afhendingu vélarinnar hafa orðið vara við að ýmislegt væri athugavert við dráttarvélina. Sagðist stefndi hafa kvartað yfir þessu við áfrýjanda og viljað fá mann til að líta á vélina og sömuleiðis að fá afturdekk í réttri stærð afhent. Áfrýjandi kannast ekki við að slíkar óskir hafi verið settar fram. Eins og að framan er rakið var svo um samið við kaupin á vélinni að seljandi myndi síðar afhenda afturdekk og felgur í réttri stærð gegn því að skilað yrði dekkjum og felgum, sem fylgdu vélinni. Deila aðilar um hvort áfrýjanda hafi borið að koma nýju dekkjunum til stefnda eða hvort afhendingarstaður þeirra hafi verið á starfstöð áfrýjanda. Í ljósi þess að með afhendingu dekkja í réttri stærð átti að bæta úr galla, sem var á vélinni við afhendingu, var það skylda áfrýjanda að afhenda stefnda dekkin þannig að hann hefði ekki kostnað eða óhagræði af. Áfrýjanda bar því að koma dekkjunum til stefnda honum að kostnaðarlausu. Það gerði hann ekki. Meðan dráttarvélin var ekki komin á rétt afturdekk var þess ekki að vænta að stefndi gæti gert sér grein fyrir því í hvaða mæli vandkvæðin með vélina stöfuðu af þeim orsökum. Stefndi var því, vegna atriða er áfrýjandi bar ábyrgð á, ekki í stöðu til að meta hvaða vankantar á vélinni stöfuðu af öðrum orsökum en dekkjastærðinni og hvort þeir væru verulegir. Aðstöðu til þess hafði hann í raun ekki fyrr en framangreint mat lá fyrir 4. apríl 2000. Stóðu því ákvæði 52. gr. laga nr. 39/1922 ekki riftunarkröfu hans í vegi.

Samkvæmt 57. gr. laga nr. 39/1922 átti kaupandi ekki rétt á að fá andvirði söluhlutar, sem kaupum var rift á, endurgreitt nema hann skilaði söluhlut í sama ástandi að öllu verulegu leyti. Eins og að framan er rakið var það vegna atriða, sem sneru að áfrýjanda, að stefnda var ekki fært fyrr en raun bar vitni að meta hvort vélin væri svo gölluð að riftun varðaði. Eins og á stóð verður það honum ekki til réttarspjalla að hafa notað dráttarvélina á meðan. Er ekki í ljós leitt að meðferð hans á vélinni hafi verið slæm, enda tók matsmaður það sérstaklega fram í matsgerð að umgengni um vélina hafi verið með ágætum og útlit hennar gott. Áfrýjandi hefur ekki borið því við að meðferð vélarinnar eftir að matsmaður skoðaði hana hafi verið slík að stefndi geti af þeim sökum hafa glatað rétti til riftunar. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um riftun á kaupum aðila um margnefnda dráttarvél og endurgreiðslu kaupverðs hennar.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um riftun kaupa stefnda, Kristins B. Jónssonar, við áfrýjanda, Þór hf., á Deutz Agrotron dráttarvél með skráningarnúmeri LI 720.

Áfrýjandi greiði stefnda 3.938.670 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2000.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 6. desember sl., er höfðað með stefnu, sem árituð er um birtingu 13. desember 1999.  Þá var málið og höfðað með stefnu, sem árituð er um birtingu en áritunin er ekki dagsett.  Það mál var þingfest 18. maí 2000.  Að ósk aðila voru málin sameinuð 14. september sl. 

Stefnandi í aðalsök og stefndi í gagnsök er Þór hf., kt. 710269-3869, Ármúla 11, Reykjavík.

Stefndi í aðalsök og stefnandi í gagnsök er Kristinn Jónsson, kt. 281144-2279, Skarði, Skarðsströnd.

Dómkröfur stefnanda í aðalsök eru að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 170.695 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af  4.109.365 krónum frá 4. september 1998 til 30. september 1998, af 3.300.695 krónum frá þeim degi til 16. mars 1999, af 1.860.695 krónum frá þeim degi til 3. ágúst 1999 en af 170.695 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist máls­kostnaðar.

Stefndi í aðalsök krefst sýknu og málskostnaðar.

Í gagnsök krefst gagnstefnandi þess að gagnstefndi verði dæmdur til að þola rift­un á sölu hans á  Deutz Fahr Agrotron dráttarvél, ser. nr. 8008/0033, nr. LI 720 til gagnstefn­anda og endurgreiða gagnstefnanda 3.938.670 krónur með drátt­ar­vöxtum sam­kvæmt III. kafla vaxtalaga af 808.670 krónum frá 30. september 1998 til 16. mars 1999, en frá þeim degi af 2.248.670 krónum til 3. ágúst 1999, en frá þeim degi af 3.938.670 krónum til greiðsludags.  Auk þess er krafist skaðabóta að fjárhæð 287.906 krónur vegna af­nota­missis og dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá 25. janúar 2000 til greiðslu­dags.  Þá er kraf­ist málskostnaðar. 

Gagnstefndi krefst þess að skaðabótakröfu gagnstefnanda verði vísað frá dómi en að öðru leyti krefst hann sýknu og málskostnaðar.

 

II

Málavextir eru þeir að í september 1998 keypti stefndi af stefnanda notaða drátt­ar­vél af gerðinni Deutz Agrotron.  Umsamið kaupverð var 4.109.365 krónur og hefur stefndi greitt 3.938.670 krónur inn á kaupverðið.  Í máli þessu sækir stefnandi stefnda til greiðslu á eftirstöðvum kaupverðsins.  Stefndi heldur því fram í málinu að vélin hafi verið verulega gölluð og hefur hann þess vegna krafist riftunar og endurgreiðslu og jafn­framt skaðabóta. 

 

III

Í aðalsök byggir stefnandi á því að stefndi hafi ekki greitt umsamið verð drátt­ar­vél­arinnar en um það hafi verið samið að hann greiddi það að fullu við afhendingu hennar 4. september 1998.  Stefndi hafi greitt inn á kaupverðið 3.938.670 krónur sem sund­urliðast þannig að 30. september 1998 voru greiddar 808.670 krónur, 16. mars 1999 1.440.000 krónur og 3. ágúst 1999 1.690.000 krónur.  Kveðst stefnandi við kröfu­gerð í málinu hafa tekið tillit til þessara innborgana. 

Af hálfu stefnanda er á því byggt að kvartanir stefnda yfir meintum göllum á vél­inni hafi komið of seint fram, en það hafi fyrst verið með bréfi 8. september 1999, sem stefndi hafi kvartað yfir hinum meintu göllum.  Hann hafi þá nýtt vélina í rúmt ár án at­hugasemda og geti hann, þegar af þeirri ástæðu, engar kröfur gert á hendur stefn­anda, sbr. 52. gr. og 54. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922.  Þá er á því byggt af hálfu stefnanda að stefnda hafi verið kunnugt um það við kaupin að vélin var notuð.  Þá hafi stefnda jafnframt verið vel kunnugt um ástand vélarinnar, er hann keypti hana.   Stefndi hafi kynnt sér rækilega ástand hennar fyrir kaupin og vísar stefnandi í því sam­bandi til áritunar á reikninginn þar sem segi að vélin sé seld í því ástandi sem hún sé í og kaupandi hafi kynnt sér og samþykkt. 

Þá er því haldið fram af hálfu stefnanda að samkomulag hafi verið með aðilum um það að stefnandi mundi afhenda stefnda ný dekk og felgur er stefndi skilaði stefn­anda þeim dekkjum og felgum er fylgdu vélinni við kaupin. Stefnandi kveður fyrr­greinda hluti hafa verið til afhendingar hjá sér um nokkurn tíma og hafi hann ítrekað það við stefnda að sækja þá en stefndi ekki gert það.

 

Af hálfu stefnda er það viðurkennt að honum hafi verið kunnugt um það að drátt­ar­vélin var áður seld öðrum og þá talin gölluð.  Hann kveður að hins vegar hafi verið full­yrt við sig að búið væri að bæta úr göllunum en síðar hafi komið í ljós að það hafi verið rangt.  Bendir stefndi á skjal, sem er meðal gagna málsins, þar sem segir að stefn­andi hafi eignast vélina 7. september 1998 og selt hana skömmu síðar.  Sé þetta rétt þá hafi stefnandi beitt svikum í viðskiptunum.

Af hálfu stefnda er á því byggt að hann hafi margoft kvartað yfir göllum á vélinni munn­lega innan árs frá því að kaupin voru gerð.  Af hans hálfu er því haldið fram að kaup­in hafi ekki getað átt sér stað fyrr en eftir 7. september 1998, enda hafi stefnandi ekki eignast vélina fyrr en þá.  Auk þess að kvarta undan göllum hafi stefndi kvartað yfir því að hafa ekki fengið afhent dekk og felgur eins og um hafði verið samið.  Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi átt að afhenda ný afturdekk og felgur af til­tek­inni stærð og gerð og að því búnu hafi stefndi átt að senda til baka það sem tekið væri undan vélinni.  Það sem í raun og veru hafi gerst var, að stefnandi hafi aldrei sent dekkin og felgurnar eins og hann átti að gera.  Þá er einnig á því byggt að aldrei hafi staðið til að stefndi greiddi kaupverðið að fullu við afhendingu enda komi fram á reikn­ingnum að verðið hafi verið viðskiptafært sem ekki myndi hafa staðið þar ef um stað­greiðsluviðskipti hefði átt að vera að ræða. 

 

IV

Riftunarkröfu sína byggir gagnstefnandi á því að umrædd dráttarvél hafi verið göll­uð.  Strax við afhendingu hennar hafi það komið í ljós og hafi verið kvartað yfir göll­unum munnlega og skriflega en án árangurs.  Allt fram til haustsins 1999 hafi gagn­stefnandi talið að stefndi myndi taka að sér að lagfæra gallana en svo hafi ekki reynst vera.  Með því að umrædd dráttarvél sé haldin verulegum göllum og þeir hafi verið fyrir hendi við kaupin sé grundvöllur fyrir því að rifta þeim og krefjast end­ur­greiðslu á kaupverðinu svo og greiðslu á því tjóni sem af því hefur leitt að vélin hefur verið ónothæf.  Þessu til stuðnings vísar gagnstefnandi til matsgerðar dómkvadds mats­manns og byggir á því, að þótt hann hafi vitað að vélin hafi áður verið seld öðrum, sem hafi rift kaupunum vegna galla, þá hafi því verið haldið fram að bætt hafi verið úr öllum göllunum og vélin ætti að vera óaðfinnanleg og sem ný. 

 

Gagnstefndi byggir sýknukröfu sína á því að gagnstefnandi hafi kvartað of seint yfir meintum göllum á dráttarvélinni.  Gagnstefndi hafi fengið bréf gagnstefnanda 8. september 1999 þar sem gagnstefnandi tilkynni að hann hyggist bera fyrir sig að vél­inni hafi verið ábótavant.  Þá hafi verið liðið meira en ár frá því hann fékk vélina í hendur og geti hann því engar kröfur gert vegna meints ástands hennar.  Gagnstefndi tekur fram að krafa gagnstefnanda byggi á því að dráttarvélin hafi verið haldin veru­leg­um göllum og að þeir hafi verið fyrir hendi við kaupin, en ekki á því að svik hafi verið höfð í frammi eða að gagnstefndi hafi ábyrgst vélina í lengri tíma.  Með vísan til 54. gr. laga um lausafjárkaup sé hin meinta krafa gagnstefnanda því fyrnd.  

Gagnstefndi byggir enn fremur á því að gagnstefnandi hafi notað dráttarvélina í rúmt ár áður en hann tilkynnti að hann hygðist bera fyrir sig einhverja óskilgreinda galla á henni.  Gagnstefndi telur því að gagnstefnanda hljóti að hafa verið ljósir eða mátt vera ljósir hinir meintu gallar miklu fyrr og því hafi honum borið að tilkynna gagn­stefnda um þá þegar í stað og án ástæðulauss dráttar, sbr. 1. og 2. mgr. 52. gr. laga um lausafjárkaup.  Þetta hafi gagnstefnandi vanrækt og því geti hann ekki nú borið fyrir sig að vélinni hafi verið áfátt.  Þá hafi hann jafnframt, þegar af þeirri ástæðu, misst rétt til að rifta kaupunum.  Þá áréttar gagnstefndi að gagnstefnandi hafi greitt megin­hluta kaupverðs vélarinnar án nokkurra athugasemda og telur gagnstefndi að gagn­stefnandi hafi með þeim fyrirvaralausu greiðslum glatað rétti til að hafa uppi kröfur vegna ástands vélarinnar.  Sérstaklega er bent á greiðslu að fjárhæð 1.690.000 krónur 3. ágúst 1999 og þá hafi hvorki verið gerðar athugasemdir um ástand vél­ar­inn­ar né nokkrir fyrirvarar. 

Gagnstefndi byggir enn fremur á því að dráttarvélin hafi ekki verið haldin göllum er gagnstefnandi keypti hana 4. september 1998.  Gagnstefndi telur að minnsta kosti ósann­að að svo hafi verið og jafnframt ósannað að þeir meintu gallar hafi verið veru­legir.  Bent er á að vélin var sögð notuð og var gagnstefnanda kunnugt um það.  Í reikn­ingi kemur fram að vélin hafi verið notuð í 156 vinnustundir.  Þá hafi gagn­stefn­andi kynnt sér ástand vélarinnar með rækilegri skoðun fyrir kaupin og vísar gagn­stefndi í því sambandi til áritunar á reikninginn, sem gagnstefnandi hafi sam­þykkt og tekið við án athugasemda.  Þar segi að vélin sé seld í því ástandi sem hún sé í og kaup­andi hafi kynnt sér og samþykkt.  Gagnstefndi bendir enn fremur á að gagn­stefn­andi byggi kröfur sínar á því að vélin sé haldin einhverjum göllum og að þeir óskil­greindu gallar hafi verið fyrir hendi við kaupin.  Gagnstefndi byggir hins vegar á því að gagn­stefn­anda hafi að fullu verið kunnugt um ástand vélarinnar við kaupin enda hafi hann skoðað hana rækilega og því geti hann ekki nú haft uppi kröfur vegna ástands vél­ar­inn­ar, sem honum var sýnilegt við skoðun hennar, sbr. 47. gr. laganna um lausa­fjár­kaup.

Þá byggir gagnstefndi á því að hann beri að lögum ekki ábyrgð á meintu ástandi drátt­arvélarinnar nú, eins og því er lýst í matsgerð frá 4. apríl sl.  Gagnstefndi bendir á að í matsgerð þessari sé byggt á skoðun í apríl sl. og segi hún því ekkert um ástand drátt­arvélarinnar við söluna 4. september 1998 en þá hafi ábyrgð á vélinni flust yfir til gagn­stefnanda, sbr. 17. gr. laga um lausafjárkaup. 

Gagnstefndi bendir enn fremur á að samkvæmt matsgerðinni hafi vélin verið notuð í alls 856,6 vinnustundir er hún hafi verið metin en fyrir liggi að við kaupin hafi hún verið notuð í 156 vinnustundir.  Það liggi því fyrir að gagnstefnandi hafi notað vél­ina í rúm­lega 700 vinnustundir er hún var skoðuð af matsmanninum.  Með öllu sé ósann­að að vélin hafi verið í því ástandi, er lýst er í matsgerð, þegar gagnstefnandi hafi keypt vél­ina og sé fullyrðing gagnstefnanda um það ósönnuð og mjög ósennileg. Þá sé með öllu ósannað að meint ástand vélarinnar í apríl 2000 sé á ábyrgð gagn­stefnda, sem síðast hafi komið nærri vélinni í september 1998.  Gagnstefndi heldur því fram að mikil notkun gagnstefnanda frá því að hann fékk dráttarvélina afhenta sé ástæða þess að hún sé í því ástandi, sem lýst sé í matsgerð.  Að minnsta kosti sé ósannað að sú notkun hafi engin áhrif haft á ástand dráttarvélarinnar. 

Þá er því haldið fram af hálfu gagnstefnda að fyrrgreind matsgerð sé mjög ófull­kom­in og bendir gagnstefndi m.a. á að matsmaðurinn hafi ekki lagt mat á áætlaðan kostn­að við viðgerð á dráttarvélinni, en mat á kostnaði við viðgerð sé forsenda þess að unnt sé að meta hvort meintir gallar teljist verulegir í skilningi laganna um lausa­fjár­kaup.   Það sé  því með öllu ósannað að þeir séu verulegir, sbr. 1. mgr. 42. gr. sömu laga, sem sé skilyrði riftunar.  Af hálfu gagnstefnda er það áréttað að gagn­stefn­andi byggi ekki á því í málinu að gagnstefndi hafi beitt hann svikum við kaupin og komi því þau ákvæði lausafjárkaupalaganna ekki til álita.

Varðandi frávísun skaðabótakröfunnar bendir gagnstefndi á að sú krafa sé van­reifuð.  Engin gögn hafi verið lögð fram af hálfu gagnstefnanda er styðji þá kröfu og ekki sé gerð tilraun í stefnu til að reyna að lýsa henni.  Þá sé krafan heldur ekki studd neinum lagarökum. Vegna þess hversu málatilbúnaður gagnstefnanda sé úr garði gerður sé ómögulegt að halda uppi efnisvörnum og beri því að vísa þessari kröfu frá dómi. 

Verði ekki fallist á kröfu gagnstefnda um frávísun skaðabótakröfu gagnstefnanda er krafist sýknu af henni.  Sýknukrafan byggi á sömu forsendum og greinir um frá­vís­un­arkröfuna, þ.e. vanreifun.  Af málatilbúnaði gagnstefnanda verði helst ráðið að krafan sé vegna tjóns hans þar eð dráttarvélin hafi verið ónothæf.  Gagn­stefn­andi leggi hins vegar ekki fram gögn til stuðnings þeirri kröfu og þá leggi gagn­stefnandi heldur ekki fram gögn, er styðji það að vélin hafi verið ónothæf.  Þá sé jafnframt ósann­að að vélin hafi verið ónothæf vegna einhverra atvika, er varða gagnstefnda og hann beri ábyrgð á. 

 

V

Dráttarvél sú, sem mál þetta snýst um, hafði stefnandi upphaflega selt Hauki Engilberts­syni á Vatnsenda í Skorradal 14. maí 1997.  Hann bar að hafa notað hana í sam­tals 138 vinnustundir en á þeim tíma, sem hann átti hana, hafi alls konar bilanir komið fram í henni.  Haukur kvaðst oft hafa kvartað við stefnanda og tvisvar hafi hún verið send í viðgerð til Reykjavíkur en komið nánast eins til baka.  Viðskiptum stefn­anda og Hauks lauk með því að stefnandi keypti vélina til baka og er samkomulag þeirra um kaupin dagsett 7. september 1998.  Haukur bar að ekki hefði áður verið gert munn­legt samkomulag um kaupin, sem verið var að staðfesta þennan dag.  Í sam­komu­laginu kemur fram að Haukur hafi strax verið óánægður með vélina og ekki talið hana í lagi, enn fremur að hún sé seld stefnanda með þeim göllum, sem Haukur telji vera á henni.

Meðal gagna málsins er bréf vélvirkjameistara frá 30. desember 1997 þar sem fram kemur að hann hafi skoðað dráttarvélina að beiðni Hauks Engilbertssonar.  Í bréf­inu er rakið í 10 liðum hvað athugavert er talið við dráttarvélina. 1) hrekkur úr vinnu­drifi (540 RPM) undir álagi;  2) vökvalyfta misvirk, lyftir stundum í 1-2 tíma og dettur síðan út;  3) leki reyndist vera með öllum þéttiböndum á rúðum;  4) bogið auga­stykki á yfirtengi;  5) vinstri hliðarsláttartrekkjari boginn;  6) gengur stundum illa í gírana (kúpling slítur ekki);  7) misgengi á hægra afturbretti;  8) lástakki á dráttarkrók opnar ekki;  9) sprungur í vinstra bretti að framan.  Loks segir í tíunda lagi að við "akstur reyndist vélin vera mjög þvinguð og áberandi verri í framdrifi.  Vélin prófuð í halla þannig, ekið í brekku og stigið á kúplingu, vélin stoppaði nánast samstundis (rennur ekki í halla).  Sömu einkenni komu fram í hröðum akstri er stigið var á kúpl­inguna."

Í bréfi stefnanda til Hauks 22. júlí 1998 segir um þessar athugasemdir að gert hafi verið við það, sem um sé fjallað í liðum 1 - 4 og 8; samkomulag sé um að atriði í lið 5 verði látið óbreytt.  Stefnandi segist ekki sammála athugasemd í lið 6.  Liður 7 sé hönn­unaratriði, sem ekki sé hægt að laga.  Sprungur, sbr. lið 9, hafi ekki fundist og varð­andi lið 10 þá segir að komið hafi í ljós við skoðum sérfræðings frá verk­smiðjunni að dráttarvélin hafi verið afgreidd með rangri dekkjastærð, 34" í stað 38".  Vegna þess að dekkin voru of lítil hafi myndast þvingun þegar ekið sé í framdrifi.

Daginn eftir skoðaði sami vélvirkjameistari og áður dráttarvélina og segir að sumt virðist vera búið að laga en annað ekki.  Sérstaklega er tekið fram að þvingun í fram­drifi (milli drifa) "er enn fyrir hendi, sé vélin tekin úr framdrifi í akstri fer hann úr með mikl­um smell eða höggi."  Enn fremur að mjög mikil þvingun sé "í drifrás vélarinnar sem kemur þannig fram að stór hluti mótoraflsins fer í að drífa vélina áfram undir sjálfri sér á jafnsléttu, sem engan veginn telst eðlilegt á 88 hö vél, eðlileg afrýrnun til hjóla er um 15%."  Þá eru og talin fleiri atriði, sem ekki er þörf á að tíunda hér.

Reikningur um kaup stefnda á dráttarvélinni er dagsettur 4. september 1998.  Þar segir að seld sé dráttarvél, sem hafi verið notuð í 156 klukkustundir, í því ástandi, sem hún sé í og kaupandi hafi kynnt sér og samþykkt.  Þá er tekið fram að stefnandi muni af­henda stefnda ný afturdekk og felgur og fá í staðinn þau dekk, sem séu undir vél­inni.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að hann hafi margoft kvartað yfir ástandi vél­ar­innar, sem strax hafi komið í ljós að var gölluð og ekki nema að litlu leyti nothæf til þeirra verka, sem henni höfðu verið ætluð.  Af hálfu stefnanda hefur því hins vegar verið mótmælt að stefndi hafi kvartað yfir vélinni fyrr en með bréfi, er honum hafi bor­ist 8. september 1999, eins og rakið verður hér á eftir.

Með bréfi 1. nóvember 1999 frá lögmanni stefnda til lögmanns stefnanda er kvart­að yfir tilteknum göllum á vélinni og 10. febrúar 2000 er óskað eftir dóm­kvaðn­ingu matsmanns til að meta þessi sömu atriði.

Í matsgerð, sem dagsett er 4. apríl 2000, og matsmaður hefur staðfest fyrir dómi er dráttarvélinni og bilunum á henni lýst á eftirfarandi hátt:  Rafgeymir straumlítill og lækkaði spenna við start og geymirinn heldur ekki straum.  Vélin er mjög þvinguð í akstri og hefur ekki afl í akstur í hæsta gír á sléttum vegi og stansar sjálf þegar stigið er á kúplingu, rennur ekki í halla.  Hemlar hnökra við ástig og vélin snarstoppar, svo virðist sem hemlar valdi þvingun á vélinni.  Yfirgírar eru óvirkir.  Rafmagnsrofi fyrir afl­úrtak tollir ekki inni og aflúrtak fer ekki á.  Handfang fyrir veltistýri er laust.  Vél­ar­bolur hefur hitnað það mikið að plasttappar í boltagötum hafa bráðnað og dottið úr.  Læs­ingarbúnaður fyrir dráttarkrók er óvirkur.  Gírstöng hefur brotnað og er sam­an­soðin.  Stillingar á ökumannssæti eru óvirkar.  Yfirfallsrör á eldsneytislokum eru í sundur og gert við þær til bráðabirgða með plastböndum.  Vökvadælur leka.  Önd­un­ar­slanga á gasolíutank er í sundur á tveimur stöðum.  Olíuhæðarauga aftan á bol vél­ar­innar virðist hafa bráðnað vegna of mikils hita á bol vélarinnar.  Festibönd á hlífð­ar­töppum á vökvaúrtökum vélarinnar virðast hafa bráðnað sökum hita.  Boltar í ámokst­urstækjafestingum hafa losnað og skemmt göt á vélarbol.  Vélin fer í framdrif með miklum smelli.  Vinstri hliðarsláttarstrekkjari á vökvalyftuarmi er boginn.  Vinstri hurð er þvinguð.  Misgengi er á hægra afturbretti.  Leki er með rúðum.  Aftur­dekk eru mjög lítið slitin, umgengni um vélina er ágæt og útlit hennar gott.  Það var nið­urstaða matsmannsins að vélin væri með öllu ónothæf.

Samkvæmt því, sem hér að framan var rakið um ástand dráttarvélarinnar, og sam­kvæmt því sem hinir sérfróðu meðdómsmenn hafa sannreynt með því að skoða hana, er það niðurstaða dómsins að vélin hafi verið gölluð frá upphafi.  Gallar þeir, sem á henni eru og lýst hefur verið, eru verulegir og gera hana illa hæfa til að gegna hlut­verki sínu þannig að gagn sé að.  Það eru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup varðandi verulegan galla á söluhlut.  Á reikningnum, er stefnandi gerði stefnda þegar kaupin áttu sé stað, er enginn fyrirvari um að vélin hafi reynst gölluð þegar fyrri eigandi átti hana.  Eingöngu var minnst á dekkin, eins og rakið var, svo og var þar hinn almenni fyrirvari um skoðun kaupandans og samþykki hans fyrir ástandi vélarinnar.  Þá hefur stefnandi engin gögn lagt fram um viðgerðir á vélinni eftir að hann keypti hana til baka af Hauk Engilbertssyni og engin vitni leitt um þau atriði.  Stendur því óhögguð sú fullyrðing stefnda að stefnandi hafi fullyrt við sig að búið væri að bæta úr göllunum áður en hann keypti vélina.

Kemur þá að því að fjalla um hvort stefndi hafi kvartað innan tilskilins tíma, sbr. 54. gr. kaupalaga.  Af hálfu stefnda er því haldið fram að hann hafi margoft kvartað sím­leiðis við stefnanda yfir vélinni en því hefur stefnandi mótmælt og ekki sagst kann­ast við að stefndi hafi nokkru sinni kvartað á þann hátt.  Meðal gagna málsins er bréf sonar stefnda til stefnanda dagsett 7. september 1999.  Bréfið ber með sér að hafa verið sent með bréfsíma 8. sama mánaðar og móttekið þann dag af stefnanda.  Í bréf­inu er kvartað yfir ástandi vélarinnar og stefnanda gefinn frestur til 10. september til að senda viðgerðarmann.     

Hér að framan var gerð grein fyrir því að stefnandi keypti vélina aftur af Hauki Engilberts­syni með samkomulagi 7. september 1999.  Stefnandi hélt því fram að þarna hefði verið um að ræða staðfestingu á áður gerðum munnlegum samningi en því neitaði Haukur og kvaðst hafa selt stefnanda vélina þennan dag.  Reikningurinn, sem stefn­andi gerði stefnda, er hins vegar dagsettur 4. september og bar forsvarsmaður stefn­anda að vélin hefði verið afhent þann dag.  Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að vélin hafi verið afhent síðar og við aðalmeðferð bar hann að vélin hefði verið afhent viku eftir kaupin vegna þess að stefnandi hafi tekið að sér að setja á hana ámokst­urstæki.  Því hefur ekki verið mótmælt af hálfu stefnanda að hann hafi sett ámokst­urstæki á dráttarvélina áður en hún var afhent stefnda. 

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða dómsins að ósannað sé að stefnandi hafi eignast dráttarvélina fyrr en 7. september og hafi hann því ekki getað selt hana og afhent stefnda 4. september.  Af þessu leiðir að leggja verður sönnunarbyrðina fyrir því hvenær vélin var afhent á stefnanda og með því að hann hefur engin gögn lagt fram, hvorki skjalleg né framburð vitna, um nákvæma dagsetningu afhendingarinnar, verður að byggja á þeirri fullyrðingu stefnda að vélin hafi verið afhent honum viku eftir að kaupin gerðust.  Samkvæmt þessu var kvörtun stefnda á ástandi vélarinnar nægi­lega snemma fram komin, sbr. 54. gr. kaupalaga.

Samkvæmt framansögðu verður orðið við kröfu stefnda (gagnstefnanda) og stefn­andi (gagnstefndi) dæmdur til að þola riftun á sölu umræddrar dráttarvélar.  Af þessu leiðir að ekki verður orðið við kröfu stefnanda í aðalsök.  Gagnstefndi verður dæmdur til að greiða gagnstefnanda 3.938.670 krónur.  Við ákvörðun vaxta verður að taka tillit til þess að ósannað er að gagnstefnandi hafi kvartað yfir ástandi dráttarvélarinnar fyrr en með bréfinu 7. september 1999.  Þá verður einnig litið til þess að hann greiddi at­huga­semdalaust nefnda fjárhæð eins og nánar greinir í upphafi III. kafla.  Það er fyrst með bréfi lögmanns gagnstefnanda 1. nóvember 1999 til lögmanns gagnstefnda að þess er krafist að kaupin gangi til baka.  Samkvæmt þessu skal fjárhæðin bera drátt­ar­vexti frá 1. desember 1999 til greiðsludags.

Gagnstefnandi krefst þess að sér verði dæmd tiltekin fjárhæð í skaðabætur vegna af­notamissis.  Í stefnunni er hins vegar engin frekari grein gerð fyrir þessari kröfu og ber að fallast á það með gagnstefnda að hún sé svo vanreifuð að ekki verði dómur á hana lagður og verður henni vísað frá dómi.

Loks verður gagnstefndi dæmdur til að greiða gagnstefnanda 300.000 krónur í máls­kostnað.

 

Dóminn kváðu upp Arngrímur Ísberg héraðsdómari og meðdómsmennirnir Kristján Gr. Tryggvason bifvélavirkjameistari og Magnús Þór Jónsson, prófessor í véla­verkfræði.

 

Dómsorð

Skaðabótakröfu gagnstefnanda er vísað frá dómi.

Viðurkennd er krafa gagnstefnanda, Kristins Jónssonar, um riftun á kaupum á Deutz Fahr Agrotron dráttarvél ser. nr. 8008/0033, nr. LI 720.

Gagnstefndi, Þór hf., greiði gagnstefnanda 3.938.670 krónur með dráttarvöxtum sam­kvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 1999 til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað.