Hæstiréttur íslands

Mál nr. 448/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Fjárnám


                                     

                                                                                              

Þriðjudaginn 6. september 2011.

Nr. 448/2011.

Skúlagata 30 ehf.

(Einar Hugi Bjarnason hdl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Fjárnám.

S kærði úrskurð héraðsdóms þar sem bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli árangurslauss fjárnáms. Byggði S á því að skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 hefðu ekki verið uppfyllt. Taldi S yfirlýsingu þá sem gefin var við fjárnámsgerðina ranga og hann væri fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær kæmu í gjalddaga eða yrði það innan skamms. Þá taldi S kröfur L nægilega tryggðar í skilningi 1. töluliðar 3. mgr. 65. gr. laganna en L átti veðrétt í þremur fasteignum S til tryggingar kröfum sínum. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að S hefði ekki leitast við að sýna fram á með haldbærum gögnum að lögmaður sá er mætti fyrir hans hönd við fjárnámið og lýsti þar yfir eignaleysi hans hefði ekki haft umboð til þess að mæta við gerðina. Yrði að leggja til grundvallar að S hefði ekki tekist að sýna fram á að fjárnáminu hefði ranglega verið lokið án árangurs. Þá taldi Hæstiréttur að S hefði ekki tekist að sýna fram á að kröfur L á hendur honum væru nægilega tryggðar. Ekki hefðu verið dómkvaddir menn til að meta söluverðmæti fasteignanna. Féllst Hæstiréttur á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að hvorugt þeirra álita sem aðilar höfðu lagt fram í héraði fælu í sér næga sönnun um líklegt söluverð eignanna. Að lokum taldi Hæstiréttur að ekkert í skjölum málsins benti til þess að S yrði innan skamms fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum. S hefði ekki hnekkt þeim líkindum fyrir ógjaldfærni sinni sem leiddi af fjárnámsgerðinni og var því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að taka bú S til gjaldþrotaskipta.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 14. júlí 2011, en Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2011, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Sýslumaðurinn í Reykjavík gerði 7. mars 2011 að kröfu tollstjóra árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila fyrir kröfu að fjárhæð 10.387.390 krónur. Mætt var af hálfu sóknaraðila við gerðina og bókað: „Fyrir gerðarþola er mættur Sigurður Óli Hauksson hdl. Fyrirsvarsmanni gerðarþola er leiðbeint um réttarstöðu sína og kröfu gerðarbeiðanda. Hann segist ekkert hafa við kröfu gerðarbeiðanda að athuga en verður ekki við áskorun um að greiða hana. Fyrirsvarsmaður gerðarþola segir félagið engar eignir eiga, en honum er leiðbeint um í hverjum réttindum og eignum fjárnám verði gert og inntur svara sérstaklega um hvort honum tilheyri eitthvað slíkt, sem hann kveður ekki vera. Gerðarbeiðandi krefst að fjárnámi verði lokið án árangurs og er svo gert ...“. Í kröfu varnaraðila um töku bús sóknaraðila til gjaldþrotaskipta er vísað til 65. gr. laga nr. 21/1991 og árangurslauss fjárnáms 7. mars 2011.

II

Sóknaraðili byggir kröfur sínar fyrir Hæstarétti á því, að ekki séu skilyrði til töku bús hans til gjaldþrotaskipta samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Hann telur yfirlýsingu þá um eignaleysi við fjárnámsgerðina 7. mars 2011 sem að framan greinir ranga og að hann geti sýnt fram á að hann sé fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum, þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms. Þá telur sóknaraðili að kröfur varnaraðila séu nægilega tryggðar í skilningi 1. töluliðar 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 og standi það í vegi fyrir gjaldþrotaskiptum á búi hans.

III

Krefjist lánardrottinn gjaldþrotaskipta verður hann að færa líkindi fyrir ógjaldfærni skuldarans með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, þar með talið árangurslausu fjárnámi. Þetta er lánardrottni heimilt án tillits til þess hvort árangurslausa gerðin fór fram fyrir kröfu hans eða annars lánardrottins. Árangurslaus fjárnámsgerð er sönnunargagn um að skuldari hafi verið ógjaldfær þegar leitað var fullnustu hjá honum, en kröfu um gjaldþrotaskipti á grundvelli hennar getur skuldari varist með því að sýna fram á gjaldfærni sína.

Sóknaraðili hefur, eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði, ekki leitast við að sýna fram á með haldbærum gögnum, að lögmaður sá er mætti fyrir hans hönd við fjárnámið 7. mars 2011 og lýsti þar yfir eignaleysi hans hafi ekki haft umboð til þess að mæta við gerðina.  Fallast ber á með héraðsdómi, að upplýsingar um hvað aðilum fór á milli við fjárnámsgerðina haggi því ekki að gerðinni var lokið án árangurs. Samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar að sóknaraðila hafi ekki tekist að sýna fram á, að fjárnáminu 7. mars 2011 hafi ranglega verið lokið án árangurs. Kemur þá til athugunar hvort sóknaraðili geti varist kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti þrátt fyrir hið árangurslausa fjárnám.

IV

Í kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti sem dagsett er 23. mars 2011 eru taldar upp skuldir sóknaraðila samkvæmt tveimur lánssamningum, nr. 108643 og nr. 11838, og yfirdrætti á tveimur tékkareikningum, nr. 1359 og nr. 60126, samtals að fjárhæð 2.144.482.587 krónur. Sóknaraðili andmælir ekki tilgreiningu varnaraðila á skuld samkvæmt tékkareikningi nr. 1359 að fjárhæð 187.184.380 krónur og lánssamningi nr. 108643 að fjárhæð 393.802.748 krónur, en ber eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði brigður á tilgreiningu skulda samkvæmt tékkareikningi nr. 60126 að fjárhæð 596.653.211 krónur og samkvæmt lánssamningi nr. 11838 að fjárhæð 966.842.248 krónur. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði gaf varnaraðili upp hærri fjárhæðir við munnlegan flutning málsins í héraði 10. júní 2011, en munurinn felst í því að þá voru vextir reiknaðir til 9. júní 2011.

Sóknaraðili heldur því fram að í lánssamningi nr. 11838 séu ákvæði um gengistryggingu sem séu ógild og því reikni varnaraðili kröfuna ekki rétt út. Endurskoðunarfyrirtækið KPMG hafi reiknað kröfuna á 687.177.166 krónur miðað við 30. apríl 2011 en ekki 966.842.248 krónur eins og varnaraðili geri, og muni því 279.665.082 krónum. Héraðsdómur lagði til grundvallar að skuldin væri ekki lægri en fram kemur í útreikningi KPMG. Í greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti er í ljósi dóms Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 fallist á að umræddur lánssamningur sé með gengistryggingu í erlendri mynt sem fari í bága við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Telur varnaraðili með vísan til dóms Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 að líta beri svo á, að lánsskuldbindingin skuli í stað gengistryggingar og umsaminna vaxta bera vexti sem eru jafn háir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 3. og 4. gr. sömu laga. Varnaraðili telur útreikning KPMG reistan á þessum forsendum og beri að leggja hann til grundvallar dómi í málinu.

Á það ber að fallast með varnaraðila að sjónarmið þau sem sóknaraðili teflir fram í greinargerð sinni fyrir Hæstarétti, aðallega að skuld sóknaraðila geti ekki verið hærri en sem nemur upphaflegum höfuðstól skuldarinnar að frádregnum innborgunum, en til vara að á skuldina skuli aðeins leggjast þeir vextir sem um var samið í lánssamningnum, það er LIBOR vextir með álagi, samræmist ekki dómi Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010. Þykir samkvæmt því sem hér var rakið mega leggja til grundvallar, svo sem gert er í hinum kærða úrskurði, að skuld sóknaraðila samkvæmt lánssamningi nr. 11838 sé ekki lægri en 687.177.166 krónur, en sóknaraðili hefur ekki andmælt þeim útreikningi tölulega svo sem fram kemur í greinargerð hans fyrir Hæstarétti.

Skuld sóknaraðila samkvæmt tékkareikningi nr. 60126 er yfirdráttarskuld sem ágreiningslaust er að bar hefðbundna vexti yfirdráttarreikninga. Aðila greinir ekki á um að sú skuld nam 596.653.211 krónum er gjaldþrotaskiptabeiðni varnaraðila var lögð fram 24. mars 2011 ef framangreind vaxtakjör eru lögð til grundvallar, en 624.247.005 krónum við munnlegan flutning málsins í héraði. Sóknaraðili heldur því fram að málsaðilar hafi samið um hagstæðari vaxtakjör á reikningnum og því sé skuldin til muna lægri. Staðfesta ber þá úrlausn héraðsdóms að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að aðilar hafi gert með sér bindandi samkomulag um breytt lánskjör. Samkvæmt því nemur skuld sóknaraðila samkvæmt tékkareikningi nr. 60126 ekki lægri fjárhæð en 624.247.005 krónum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður lagt til grundvallar úrlausn málsins, svo sem gert er í hinum kærða úrskurði, að skuld sóknaraðila við varnaraðila hafi hinn 10. júní 2011, er málið var flutt í héraði, ekki numið lægri fjárhæð en 1.906.189.105 krónum, en sá útreikningur sætir ekki tölulegum ágreiningi.

V

Sóknaraðili heldur því fram að krafa varnaraðila sé nægilega tryggð, sbr. 1. töluliður 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, og því geti varnaraðili ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi hans samkvæmt 2. mgr. greinarinnar. Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir niðurstöðum sem lagðar voru fyrir héraðsdóm um verðmæti þeirra þriggja fasteigna sóknaraðila sem varnaraðili á tryggingarréttindi í. Eins og þar kemur fram lagði sóknaraðili fram álit Jóns Guðmundssonar, löggilts fasteignasala, sem taldi heildarverðmæti fasteignanna 2.045.000.000 krónur, en varnaraðili lagði fram niðurstöðu álits Þorleifs Guðmundssonar, löggilts fasteignasala, sem taldi verðmæti þeirra 1.285.000.000 krónur. Forsendur álits Þorleifs hafa verið lagðar fyrir Hæstarétt. Samkvæmt gögnum málsins er samanlagt fasteignamat þessara fasteigna 1.115.300.000 krónur.

Varnaraðili á eins og fram er komið veðrétt í þremur fasteignum sóknaraðila til tryggingar kröfum sínum. Ekki er um það ágreiningur með málsaðilum að framar tryggingarréttindum varnaraðila standi lögveðskröfur og samningsveðréttindi annarra kröfuhafa í sömu eignum fyrir ekki lægri fjárhæð en 208.406.853 krónum. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði voru ekki dómkvaddir menn til að meta söluverðmæti þeirra þriggja fasteigna sem hér um ræðir. Verður því að fallast á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar, að hvorugt þeirra álita sem málsaðilar lögðu fram í héraði feli í sér næga sönnun um líklegt söluverð eignanna. Ef lagt er til grundvallar að söluverð umræddra fasteigna sé með hliðsjón af 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna ekki lægra en fasteignamat þeirra samkvæmt framansögðu, verður talið að sóknaraðila hafi ekki tekist að sýna fram á að kröfur varnaraðila á hendur honum séu nægilega tryggðar, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Breytir engu í þeim efnum sjálfskuldarábyrgð Hauks Hjaltasonar fyrir allt að 160.000.000 krónum vegna skuldar á tékkareikningi nr. 60126. Þá verður og fallist á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar, að ekkert í skjölum málsins bendi til þess að sóknaraðili verði í skilningi 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 innan skamms fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum. Kauptilboð í eignirnar Vatnagarða nr. 6 og 8 frá þriðja aðila, sem sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt samtals að fjárhæð 820.000.000 krónur, eru bundin slíkum fyrirvörum, þar með talið um fjármögnum kaupa, að þau fá ekki haggað þessari niðurstöðu.

Samkvæmt framansögðu hefur sóknaraðili ekki hnekkt þeim líkindum fyrir ógjaldfærni sinni sem leiðir af fjárnámsgerðinni 7. mars 2011 og verður því staðfest  niðurstaða hins kærða úrskurðar um að taka bú sóknaraðila til gjaldþrotaskipta.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Skúlagata 30 ehf., greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2011.

                Sóknaraðili, Landsbankinn hf., kt. 471008-0280, krafðist þess með bréfi er barst dóminum 24. mars 2011 að bú varnaraðila, Skúlagötu 30 ehf., kt. 600269-1359, Stigahlíð 60, Reykjavík, yrði tekið til gjaldþrotaskipta.  Hann krefst einnig málskostnaðar.

                Beiðnin var tekin fyrir á dómþingi 4. maí sl.  Varnaraðili mótmælti kröfunni og lagði fram greinargerð og gögn af sinni hálfu á dómþingi 18. maí.  Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 10. júní sl. 

                Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.  Þá krefst hann málskostnaðar. 

                Í beiðni sóknaraðila eru taldar upp þessar skuldir varnaraðila við hann:

                Skuld á tékkareikningi nr. 1359, skuld samtals 187.184.380 krónur. 

                Skuld á tékkareikningi nr. 60126, skuld 506.653.211 krónur.

                Lánasamningur nr. 108643, skuld samtals 393.802.748 krónur.

                Lánasamningur nr. 11838, skuld samtals 966.842.248 krónur. 

                Samtals nemi skuldir þessar 2.144.482.587 krónum.  Í málflutningi gaf sóknaraðili upp nokkuð aðrar tölur á skuld varnaraðila.  Munar þar nokkru um að hann reiknar dráttarvexti til 9. júní sl.  Miklu munar á tékkareikningi nr. 60126, en staðan á þeim reikningi þann 10. júní sl. var 624.247.005 krónur. 

                Í beiðni er vísað til 1. tl. 2. mgr. 65.gr. laga nr. 21/1991.  Að kröfu tollstjóra var gert árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila 7. mars 2011.  Þar var krafist fjárnáms fyrir kröfu að fjárhæð 10.387.390 krónur.  Bókað er:  „Fyrir gerðarþola er mættur Sigurður Óli Hauksson hdl.  Fyrirsvarsmanni gerðarþola er leiðbeint um réttarstöðu sína og kröfu gerðarbeiðanda.  Hann segist ekkert hafa við kröfu gerðarbeiðanda að athuga en verður ekki við áskorun um að greiða hana.  Fyrirsvarsmaður gerðarþola segir félagið engar eignir eiga ...  Gerðarbeiðandi krefst þess að fjárnámi verði lokið án árangurs og er svo gert ...“

                Í munnlegum málflutningi vísaði sóknaraðili einnig til 5. tl. 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotalaga til stuðnings kröfu sinni.  Lagði hann þá fram afrit áskorunar sem birt var fyrirsvarsmanni varnaraðila 17. febrúar 20011, um að hann lýsti félagið gjaldfært og að það gæti greitt skuldina innan þriggja vikna.  Þessari áskorun var ekki svarað. 

                Í greinargerð varnaraðila segir að félagið leigi út eignarhluta sína í fasteignunum Vatnagörðum 6 og 8 og Brúarvogi 1-3.  Um helmingur húsnæðisins sé nú í útleigu, en allir leigusamningarnir hafi verið handveðsettir sóknaraðila.  Því fái sóknaraðili greiddar allar leigutekjur félagsins.  Þá segir að góðar horfur séu á því að takist á næstunni að leigja út fleiri af eignarhlutum félagsins. 

                Varnaraðili byggir á því að skilyrði 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotalaga sé ekki fullnægt, þar sem hann geti sýnt fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms.  Segir varnaraðili að greiðsluþrot sé samkvæmt lögunum óhjákvæmilegt skilyrði gjaldþrotaskipta.  Því skilyrði sé ekki fullnægt.  Þá sé skuldin við sóknaraðila ekki rétt tilgreind, en hún sé mun lægri. 

                Varnaraðili hefur lagt fram úttekt endurskoðunarskrifstofunnar KPMG á skuldaþoli sínu.  Hann geti samkvæmt því greitt 54.000.000 króna á árinu 2011.  Greiðslugetan muni síðan aukast á næstu árum eftir því sem fleiri leigusamningar verði gerðir.  Verði greiðslugetan 142.000.000 króna á árinu 2015.  Telur varnaraðili sig hafa með þessu sýnt fram á að hann verði fær um standa skil á skuldbindingum sínum innan skamms í skilningi 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotalaga.  Sönnunarbyrði um hið gagnstæða hljóti að hvíla á sóknaraðila. 

                Varnaraðili byggir á því að yfirlýsing um eignaleysi við fjárnámsgerðina hjá sýslumanni sé röng.  Hún hafi verið gefin af löglærðum ráðgjafa fyrirsvarsmanns varnaraðila sem ekki hafi haft næga yfirsýn yfir fjárhagsstöðu varnaraðila.  Ráðgjafi þessi sé ekki starfsmaður varnaraðila og sé ekki hægt að halda því fram að yfirlýsingin hafi verið gefin af löglegum fyrirsvarsmanni varnaraðila, enda hafi ekki legið fyrir umboð honum til handa til að mæta við gerðina. 

                Þá telur varnaraðili að gögn sýni að rætt hafi verið um tilteknar eignir varnaraðila við fjárnámsgerðina sem bent hafi verið á.  Segir varnaraðili að eignir þessar hafi ekki verið virtar.  Það brjóti í bága við 63. gr. laga nr. 90/1989, en ekki megi ljúka fjárnámi sem árangurslausu nema eignir sem bent sé á hafi verið metnar. 

                Þá byggir varnaraðili á því að fjárnámsgerðin gefi ranga mynd af fjárhag sínum.  Vísar hann hér til lokamálsliðar 1. tölul. 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotalaga.  Með breytingu á lögunum með lögum nr. 95/2010 var þessi fyrirvari hins vegar felldur niður og þarf ekki að rekja þessa málsástæðu varnaraðila frekar, en hún tengist að nokkru þeirri málsástæðu að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með veði í eignum varnaraðila. 

                Þó verður ekki hjá því komist að greina frá athugasemdum varnaraðila um fjárhæð heildarskuldar sinnar við sóknaraðila.  Eru það þrjú atriði sem hann telur fram og sýni að skuldin sé mun lægri en sóknaraðili haldi fram. 

                Varnaraðili segir að í lánssamningi nr. 11838 séu ákvæði um gengistryggingu, sem sé ógild.  Því reikni sóknaraðili kröfuna ekki rétt út.  Segir hann að KPMG hafi reiknað kröfuna á 687.177.166 krónur miðað við 30. apríl 2011.  Sé það 279.665.082 krónum lægra en sóknaraðili haldi fram.  Í útreikningi KPMG sé miðað við almenna óverðtryggða vexti Seðlabankans.  Kveðst varnaraðili samt telja að skuldin sé í raun enn lægri, þar sem miða bæri við samningsvexti. 

                Þá telur varnaraðili að skuld á tékkareikningi nr. 60126 sé ofreiknuð.  Þessi reikningur hafi verið notaður vegna byggingarframkvæmda við Brúarvog 1-3.  Vextir hafi verið venjulegir vextir á yfirdráttarreikningum.  Hafi verið ákveðið að þegar fjármögnun framkvæmdanna væri lokið af hálfu sóknaraðila yrði gerður lánssamningur milli aðila.  Hafi starfsmaður sóknaraðila lýst vilja sínum með tölvuskeyti 8. febrúar 2007 til að lána varnaraðila 550.000.000 króna, með mun betri vaxtakjörum.  Í niðurlagi skeytisins sé gerður fyrirvari um innsláttarvillur frá lánasamþykkt eins og segi.  Skoraði varnaraðili á sóknaraðila að leggja fram afrit af lánasamþykkt þessari. 

                Fjármögnun hafi lokið af hálfu sóknaraðila í ágúst 2008 og hafi þá skuld á reikningnum numið 414.000.000 króna.  Sóknaraðili hafi ekki staðið við það að gera nýjan lánssamning.  Viðræður um endurfjármögnun skammtímaskulda hafi þó átt sér stað í lok ársins 2008.  Ekki hafi orðið af undirritun lánssamnings þar sem fyrirsvarsmaður varnaraðila hafi með réttu talið að samningurinn fæli í sér lakari samningsskilmála en um hefði verið samið. 

                Vegna þessa hafi skuldin borið mun hærri vexti en orðið hefði ef sóknaraðili hefði efnt samkomulag aðila.  Segir vanaraðili að hér muni verulegum fjárhæðum. 

                Þá byggir varnaraðili á því að dráttarvextir og ýmiss kostnaður sem sóknaraðili áskilji sér, eigi ekki að öllu leyti rétt á sér, t.d. varðandi gengistryggða lánið. 

                Varnaraðili vísar til útreiknings KPMG á skuldaþoli varnaraðila, sem áður er getið.  Þá vísar hann til mats Fasteignamarkaðarins ehf. á söluverðmæti fasteigna varnaraðila.  Sé söluverð metið samtals 2.045.000.000 króna. 

                Að síðustu ber varnaraðili það fyrir sig að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð, sbr. 1. tl. 3. mgr. 65. gr. gjaldþrotalaga.  Varnaraðili tekur svo til orða að sóknaraðili eigi víðtæk veðréttindi í fasteignum.  Þá eigi hann handveð í leigusamningum um fasteignirnar.  Loks hafi forsvarsmaður varnaraðila gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að 160.000.000 króna vegna skuldar á tékkareikningi nr. 60126. 

                Varnaraðili segir að í gjaldþrotabeiðni sé skuld sín sögð vera að fjárhæð 2.144.482.587 krónur.  Skuldin sé í raun mun lægri.  Þótt látið væri nægja að endurreikna lánssamning nr. 11838 væri ljóst að heildarskuldin sé mun lægri en sem nemur verðmæti fasteigna félagsins.  Hér vísar varnaraðili til útreiknings KPMG á láninu, en það telur skuldina nema með réttu 687.177.166 krónum.  Loks byggir varnaraðili á því að sóknaraðili beri sönnunarbyrðina fyrir því að tryggingar hans séu ekki nægar. 

Niðurstaða

                Í gjaldþrotabeiðni er krafa sóknaraðila studd við 1. tl. 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotalaga.  Í málflutningi vísaði hann jafnframt til 5. tl. sömu málsgreinar.  Með þessari viðbót við málsástæður sóknaraðila hefur grundvelli málsins verið raskað og er ekki unnt að fjalla efnislega um þessa nýju málsástæðu.  Verður tilvísun til 1. tl. að duga. 

                Árangurslaust fjárnám var gert hjá varnaraðila þann 7. mars 2011.  Til fjárnámsins var mættur lögmaður fyrir hönd varnaraðila.  Lauk gerðinni með því að hann lýsti því að félagið ætti ekki eignir til að benda á til fjárnáms og var gerðinni þar með lokið sem árangurslausri.  Upplýsingar um það hvað aðilum fór á milli við fjárnámsgerðina hagga því ekki að gerðinni var lokið sem árangurslausri.  Þá var mættur lögmaður fyrir varnaraðila og hefur varnaraðili ekki reynt að sýna fram á að hann hafi ekki haft umboð til að mæta við gerðina.  Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrði 1. tl. 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotalaga.  Eftir breytingu á gjaldþrotalögum með lögum nr. 95/2010 er þýðingarlaust að reyna að sýna fram á að gerðin gefi ekki rétta mynd af fjárhag gerðarþola. 

                Þarf þá að fjalla um þær mótbárur varnaraðila sem geta þrátt fyrir hina árangurslausu fjárnámsgerð komið í veg fyrir að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta. 

                Varnaraðili andmælir ekki tilgreiningu sóknaraðila á skuldum á tékkareikningi nr. 1359 og samkvæmt lánasamningi nr. 108643.  Hann mótmælir fjárhæð skuldar á tékkareikningi nr. 60226.  Hann staðfestir þó sjálfur að hann hafi ekki samþykkt skuldbreytingu þessarar yfirdráttarskuldar.  Hann hefur ekki sýnt fram á að fyrir liggi skýr skuldbinding sóknaraðila til að breyta lánskjörum á tiltekinn veg.  Er því ekki unnt að taka tillit til þessara andmæla varnaraðila.  Lánasamningur nr. 11838 ber það með sér að vera bundinn gengi erlendra gjaldmiðla.  Eftir formi hans sýnist verða að meta þetta svo að um sé að ræða verðtryggingu miðað við gengi erlendra gjaldmiðla, sem er ógild samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.  Miða verður við að skuldin sé ekki lægri en fram kemur í útreikningi KPMG, sem sóknaraðili mótmælti ekki tölulega. 

                Miða verður við þær upplýsingar um fjárhæðir skulda sem fram komu hjá sóknaraðila áður en málið var tekið til úrskurðar, með framangreindri undantekningu.  Samkvæmt þessu má telja að skuld varnaraðila nemi ekki lægri fjárhæð en 1.906.189.105 krónum (191.765.907 + 624.247.005 + 402.999.027 + 687.177.166). 

                Til tryggingar skuld á tékkareikningi nr. 60126 er sjálfskuldarábyrgð Hauks Hjaltasonar, forsvarsmanns varnaraðila, að hámarki 160.000.000 króna.  Upplýsingar um fjárhagsstöðu hans liggja ekki frammi. 

                Þá hefur sóknaraðili nokkurn fjölda tryggingarbréfa með veði í fasteignum varnaraðila.  Voru þessi tryggingarbréf lögð fram í ljósriti, en ekki er að finna í gögnum neina samantekt á fjölda þeirra og fjárhæð.  Sóknaraðili mótmælti því ekki að tryggingarbréfin dygðu í sjálfu sér fyrir fjárhæðum skuldanna, en hann telur að verðmæti veðanna nægi ekki til lúkningar kröfunum. 

                Varnaraðili fól Jóni Guðmundssyni, löggiltum fasteignasala, að meta verðmæti fasteignanna.  Í bréfum hans, dags. 24. mars 2011, er fasteignin Brúarvogur 1-3 metin til staðgreiðsluverðs á 1.490.000.000 króna, fasteignin Vatnagarðar 6 á 235.000.000 króna og fasteignin Vatnagarðar 8 á 320.000.000 króna. 

                Sóknaraðili leitaði í kjölfarið til Þorleifs Guðmundssonar, löggilts fasteignasala.  Hann hafði ekki lokið frágangi matsgerðar, en tilkynnti lögmanni sóknaraðila niðurstöður sínar.  Taldi hann að meta ætti Brúarvog 1-3 á 850.000.000, Vatnagarða 6 á 210.000.000 og Vatnagarða 8 á 225.000.000.  Upplýsingar um forsendur fyrir þessum niðurstöðum liggja ekki fyrir. 

                Í mati Jóns Guðmundsonar virðist ekki dreginn frá kostnaður af frágangi fasteignarinnar við Brúarvog, sem hann telur að muni nema 135.000.000 króna.  Þá kom fram í málinu að lögveðsskuld hvílir á fasteignunum.  Loks eru áhvílandi veðskuldir á eignunum, framar í veðröð en tryggingarbréf sóknaraðila.  Upplýsingar um fjárhæð þessara skulda hafa ekki verið lagðar fram. 

                Ekki voru dómkvaddir matsmenn til að meta söluverðmæti fasteignanna.  Mjög mikill munur er á niðurstöðum þeirra matsgerða sem aðilar hafa aflað utan réttar.  Er ekki unnt að telja að önnur hvor matsgerðin feli í sér næga sönnun um líklegt söluverð.  Hefur varnaraðila ekki tekist að sanna að sóknaraðili hafi nægar tryggingar fyrir kröfum sínum.  Samkvæmt dómvenju ber varnaraðili sönnunarbyrðina fyrir því að krafa sé nægilega tryggð. 

                Áætlun um skuldaþol varnaraðila bendir til þess að það muni taka mörg ár að greiða upp skuld hans við sóknaraðila.  Bendir ekki neitt í skjölum málsins til þess að varnaraðili geti greitt skuldir sínar innan skamms tíma í skilningi 1. mgr. 65. gr. gjaldþrotalaga. 

                Samkvæmt framansögðu verður bú varnaraðila tekið til gjaldþrotaskipta.  Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.  Er þá tekið tillit til virðisaukaskatts. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

                Að kröfu sóknaraðila, Landsbankans hf., er bú varnaraðila, Skúlagötu 30 ehf., kt. 600269-1359, tekið til gjaldþrotaskipta.

                Varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.