Hæstiréttur íslands
Mál nr. 398/2005
Lykilorð
- Manndráp af gáleysi
- Bifreið
- Skilorð
- Svipting ökuréttar
- Sakarkostnaður
|
|
Fimmtudaginn 3. nóvember 2005. |
|
Nr. 398/2005. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Snorra Má Guðmundssyni (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Manndráp af gáleysi. Bifreiðir. Skilorð. Svipting ökuréttar. Sakarkostnaður.
S var sakfelldur fyrir manndráp af gáleysi með því að hafa ekið bifreið langt umfram leyfilegan ökuhraða og með því að sýna vítavert gáleysi, með þeim afleiðingum að stúlka, sem var á gangi við veginn, varð fyrir bifreiðinni og lést samstundis. Var refsing hans ákveðin fangelsi í tvo mánuði en fullnustu refsingar frestað skilorðsbundið. Þá var hann sviptur ökurétti í tvö ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 12. ágúst 2005. Hann krefst þess, að refsing ákærða verði þyngd og honum ákveðin frekari svipting ökuréttar. Þá verði hann einnig dæmdur til að greiða 3.000.000 krónur í miskabætur auk vaxta og dráttarvaxta eins og í ákæru greinir.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms að öðru leyti en því að gerð er krafa til þess, að allur sakarkostnaður málsins verði greiddur úr ríkissjóði.
Eins og fram kemur í héraðsdómi ók ákærði bifreiðinni X langt umfram leyfilegan ökuhraða er slys það, sem ákært er út af, varð. Hámarkshraði á veginum var 90 km á klukkustund. Ákærði kveðst sjálfur hafa verið á um 150 km hraða er hann sá til stúlknanna um 300 metra frá slysstaðnum og styðst það við framburð tveggja farþega, sem voru í bifreiðinni, og vitnis, sem var á gangi á veginum. Samkvæmt álitsgerð Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors um hraða bifreiðarinnar var hann á bilinu 112-133 km áður en hemlun hófst. Fram er komið, að ákærði ók fram hjá stúlkunum skömmu fyrir slysið og mátti gera ráð fyrir því, að þær væru enn á gangi á veginum, er hann kom til baka. Samkvæmt framansögðu er ljóst, að slysið verður rakið til vítaverðs aksturs ákærða, sem sýndi af sér stórfellt gáleysi. Með vísan til þess og að teknu tilliti til ungs aldurs ákærða verður refsing hans ákveðin fangelsi í tvo mánuði, sem verður skilorðsbundin eins og greinir í dómsorði. Þá þykir rétt, að hann verði sviptur ökurétti í tvö ár frá birtingu dóms þessa að telja.
Héraðsdómari vísaði miskabótakröfu, sem höfð var uppi í ákæru, frá dómi og var hún ekki dæmd þar að efni til. Kemur hún því ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti, sbr. 1. mgr. 173. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Í yfirliti sýslumannsins á Z um sakarkostnað eru reikningar, sem varða krufningu á líki stúlkunnar, sem lést í slysinu, samtals 317.120 krónur, og vegna alkóhóls- og lyfjaleitar í blóði hennar og þvagi, að fjárhæð 55.307 krónur. Ekki verður séð af hvaða sökum stofnað var til þessa kostnaðar í þágu rannsóknar málsins. Verður hann ekki talinn eðlilegur eða nauðsynlegur hluti kostnaðar við saksókn gegn ákærða, eins og hér stendur á. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan annan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Snorri Már Guðmundsson, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi hann almennt skilorð 57. gr almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár frá uppsögu dóms þessa að telja.
Ákærði greiði í sakarkostnað málsins 594.394 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, samtals 373.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 4. júlí 2005.
Mál þetta, sem var dómtekið þann 12. maí sl. höfðaði sýslumaðurinn á Z þann 31. janúar sl. með ákæru á hendur Snorra Má Guðmundssyni, f. 12. ágúst 1986, [...],
„fyrir hegningar- og umferðarlagabrot, með því að hafa um kl. 18:19 fimmtudaginn 15. júlí 2004, ekið bifreiðinni [X] án þess að nota öryggisbelti og með tvo farþega í bifreiðinni, norður þjóðveg nr. [...], án nægjanlegrar aðgæslu og yfir leyfilegum hámarkshraða, með þeim afleiðingum að [A], fædd 12. september 1989, sem var á gangi eftir götunni, varð fyrir bifreiðinni og hlaut við það svo mikla áverka á hálsi, að hún lést samstundis.
Telst þetta varða við 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. og 2. mgr. 4. gr., 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. og c- og j-lið 2. mgr. 36. gr., 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 71. gr. sbr. 1. mgr. 100 gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993.
Af hálfu Friðjóns Arnar Friðjónssonar hrl., f.h. foreldra hinnar látnu, [B], [...], og [C], [...], er gerð krafa um skaða- og miskabætur, samtals að fjárhæð kr. 3.000.000 með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 15. júlí 2004 til þess að mánuður er liðinn frá þeim degi er kærðum verður kynnt bótakrafan, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“
Ákærði krefst sýknu af refsi- og bótakröfum.
I.
Þann 15. júlí 2004 ók ákærði bifreið sinni nr. X af gerðinni Toyota Corolla til norðurs í átt til Y. Skammt sunnan við þorpið varð gangandi vegfarandi, A, fædd árið 1989, fyrir bifreiðinni. Lögreglu var tilkynnt um slysið klukkan 18:19 og kom hún á vettvang klukkan 18:42. Vegfarendur voru þá að reyna að lífga A við og héldu lögreglumenn þeim tilraunum áfram, án árangurs. Samkvæmt ályktun Gunnlaugs Geirssonar prófessors í krufningarskýrslu sem er dagsett 18. ágúst 2004, lést A samstundis af miklum áverkum sem hún hlaut er hún varð fyrir bifreiðinni.
Lögregla tók blóðsýni úr ákærða klukkan 21:00 um kvöldið. Sýnið var alkóhólgreint og reyndist ekki innihalda alkóhól.
Bifreiðin X var skoðuð 29. júlí 2004 af Frumherja hf. Segir þar að ástand hennar sé nokkuð gott en nokkur atriði ekki í lagi. Kemur fram að of mikill munur var á loftþrýstingi milli hjólbarða, of lágur þrýstingur var í hjólbarða hægra megin að aftan og of slitinn hjólbarði vinstra megin að aftan. Samkvæmt skýrslunni skiluðu heildarhemlakraftar 58% hemlun, sem er sagt vera ágætt.
Sýslumaðurinn á Z aflaði álits Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors í vélaverkfræði á því hver mögulegur hámarkshraði, mögulegur lágmarkshraði og líklegasti hraði bifreiðar ákærða hefði verið áður en hemlun hófst. Studdist hann við vettvangsteikningu lögreglu, sem sýndi að hemlunarför mældust 17,5 metrar, síðan fór hægri framhlið ökutækisins í stúlkuna, sem kastaðist 25 metra. Tekur hann fram að þar sem hliðin lenti á henni gefi kastlengdin ekki rétta mynd af hraða bifreiðarinnar. Eftir áreksturinn rann bifreiðin 130 metra án þess að draga hjól, en síðan var hemlað og mynduðust 58 metra hemlaför áður en hún stöðvaðist.
Út frá orkubreytingu vegna skriðs, formbreytingarvinnu vegna áreksturs og orkubreytingu vegna núnings í frákasti reiknar prófessor Magnús Þór að mögulegur lágmarkshraði bifreiðarinnar hafi verið 112 km/klst, mögulegur hámarkshraði 133 km/klst og sennilegasti hraðinn 122 km/klst. Tekur hann fram að sé einhverjum atriðum sleppt í útreikningunum sé raunverulegur hraði hærri þeim reiknaða.
II.
Ákærði kveðst hafa farið í ökuferð eftir vinnu greindan dag, með vinum sínum D og E. Óku þeir frá Y fram dalinn í átt til Z og sneru við framarlega í dalnum. Á leið frameftir sáu þeir A heitna, þar sem hún gekk meðfram veginum í átt frá Y, ásamt lítilli stúlku. Höfðu þær með sér hund í ól. Á bakaleið kveðst ákærði hafa séð stúlkurnar þar sem þær höfðu snúið við og gengu á hægri vegarbrún í átt til Y. Hann kveðst þá hafa hægt ferðina og farið yfir á vinstri vegarhelming. A heitin hafi skyndilega farið inn á veginn og hann þá hemlað eins og hann gat og reynt að sveigja frá henni, en bifreiðin lent á henni.
Aðspurður kvaðst ákærði vita að algengt væri að gangandi vegfarendur væru á ferð á þeim slóðum þar sem slysið varð.
Spurður um ökuhraða kveðst ákærði hafa verið á um 150 km/klst hraða, er hann sá stúlkurnar af hæð, sem mun vera í u.þ.b. 300 m fjarlægð frá þeim stað sem stúlkurnar voru. Hann kveðst þá hafa dregið úr ferð og tyllt aðeins í hemla. Kveðst hann ekki gera sér grein fyrir því á hvaða hraða hann var er A heitin fór inn á veginn. Kveðst hann þá hafa hemlað af fullu afli. Hann kveðst ekki hafa séð neitt til hundsins.
Vitnið D sat í aftursæti bifreiðarinnar. Hann kveðst hafa verið að skoða möppu með geislaplötum og ekki litið upp fyrr en félagar hans kölluðu upp og í þann mund hafi slysið orðið. Hann kveðst ekki hafa verið með öryggisbelti spennt, en ekki muna eftir að hafa kastast fram er bifreiðinni var hemlað.
Vitnið E sat í farþegasæti frammi í bifreiðinni. Hann kveðst ekki hafa séð til hundsins, en A heitin hafi farið inn á veginn. Hann segir að hraði bifreiðarinnar hafi verið um 150 km/klst er hún kom á hæðina þaðan sem sást til stúlknanna. Hann kveðst ekki hafa verið með öryggisbelti spennt og borið hendurnar fyrir sig er bifreiðinni var hemlað.
Vitnið F var á gangi á veginum niður dalinn er bifreiðinni var ekið framhjá honum fram dalinn. Hann kveðst hafa gert ráð fyrir að ákærði kæmi til baka og hugsaði sér að fá far með honum niður í þorpið. Nokkur stund hafi liðið og hafi hann verið farinn að hugsa með sér að líklega hefðu þeir farið til Z. Vitnið kveðst hafa verið með tvo hunda og gengið inni á veginum nálægt miðlínu, með hundana hægra megin við sig. Þótt hann hafi verið að hlusta eftir bifreiðinni hafi hann ekki heyrt neitt til hennar, fyrr en hún þaut framhjá honum á mikilli ferð. Hafi sér brugðið mikið. Síðan hafi hann ekki vitað neitt fyrr en hann hafi gengið fram á slysstaðinn, en tvö leiti beri þarna á milli.
Vitnið G kom fyrst vegfarenda á vettvang slyssins. Hún er móðir telpunnar H, sem var á gangi með A heitinni. Hún hefur eftir telpunni að þær hafi verið á gangi á vegarbrúninni. Hundurinn hafi verið laus og farið yfir veginn og A heitin á eftir og bifreiðin lent á henni. Telpan hafi hvorki séð né heyrt til ferða bifreiðarinnar.
Skýrsla var tekin fyrir dómnum af telpunni H. Hún sagði að A heitin hafi hlaupið yfir veginn á eftir hundinum I er bifreiðin kom og lenti á henni. Hún segist ekki hafa heyrt neitt í bifreiðinni og ekki séð hana koma.
III.
Hámarkshraði á veginum þar sem slysið varð var 90 km/klst. Vegurinn er með bundnu slitlagi, með einni akrein í hvora akstursstefnu.
Samkvæmt framburði F ók ákærði mjög hratt framhjá honum, þar sem hann gekk niður dalinn í átt til Y. Ákærði kveðst sjálfur hafa verið á um 150 km/klst hraða er hann kom á leiti um 300 metra frá slysstaðnum og sá til stúlknanna á gangi. Hann kveðst þá hafa dregið eitthvað úr ferð og fært sig yfir á vinstri vegarhelming. Framburður ákærða um að A heitin hafi farið skyndilega inn á veginn er í samræmi við frásögn telpunnar H, bæði eins og móðir hennar hefur hana eftir henni og eins og telpan skýrði sjálf frá hér fyrir dómi. Samkvæmt þessu má slá föstu að A heitin hafi ekki orðið vör bifreiðarinnar en farið skyndilega yfir veginn á eftir lausum hundi sem hún hafði með sér. Ákærði nauðhemlaði þá en fékk ekki afstýrt slysinu.
Frásögn ákærða um hraða sinn 150 km/klst um 300 metra frá slysstað og það hvernig hann dró eitthvað úr honum er hann nálgaðist telpurnar, getur vel samrýnst áliti Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors sem rakið er hér að framan um mögulegan hraða á bilinu 112-133 km/klst áður en hemlun hófst. Þótt ákærði verði látinn njóta fyllsta vafa, verður ekki talið varhugavert að miða við að hann hafi verið á a.m.k. 112 km/klst hraða er A heitin fór inn á veginn og ákærði nauðhemlaði.
Ökuhraði ákærða samkvæmt þessu var, auk þess að vera umfram leyfilegan hámarkshraða, gáleysislegur, sérstaklega með tilliti til þess að ákærði hafði skömmu fyrr ekið fram hjá stúlkunum og mátti gera ráð fyrir því að þær væru enn á gangi á vegarbrúninni. Er hann sá til þeirra á u.þ.b. 300 metra færi bar honum að draga þegar í stað miklu meira úr ferð en hann gerði, bæði vegna tillitssemi sem ökumönnum ber að sýna gangandi vegfarendum og til að gæta öryggis, sem er alveg sérstaklega mikilvægt þegar börn eiga í hlut. Eru varúðarreglur þessar lögfestar í 1. og 2. mgr. 4. gr., 1. mgr. 26. gr. og 36. gr. umferðarlaga. Ákærði virðist hins vegar hafa hugsað sér að láta nægja að aka framhjá stúlkunum á vinstri vegarhelmingi á mikilli ferð, með svipuðum hætti og hann hafði rétt áður ekið fram hjá F.
Slysið varð við að A heitin fór skyndilega þvert yfir veginn á eftir hundinum, í veg fyrir bifreið ákærða. Þrátt fyrir það verður að fella sök á ákærða fyrir að hafa sýnt af sér gáleysi með því að aka of hratt miðað við aðstæður. Eru afar sterkar líkur á að vegna ökuhraðans hafi honum ekki verið unnt að forðast að aka á stúlkuna og einnig að afleiðingar þess hafi orðið svo alvarlegar vegna hraða bifreiðarinnar er stúlkan varð fyrir henni. Verður því fallist á það að gáleysi ákærða hafi átt svo mikinn þátt í því að slysið varð, að varði við 215. gr. almennra hegningarlaga. Háttsemi ákærða varðar einnig við 1. og 2. mgr. 4. gr., 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. og c- og j-lið 2. mgr. 36. gr., og 2. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100 gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ekki er nægilega upplýst að ákærði hafi ekki notað öryggisbelti til að hann verði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 71. gr. umferðarlaga.
IV.
Ákærði hefur ekki sætt refsingum. Með tilliti til þess og þess að hann er ungur að árum verður refsing hans ákveðin fangelsi í einn mánuð, sem rétt er að skilorðsbinda eins og greinir í dómsorði. Með vísan til síðari málsliðar 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga, sbr. lög nr. 25/1993, verður hann sviptur ökurétti í sex mánuði frá birtingu þessa dóms að telja.
Ákærði hefur hér verið sakfelldur fyrir að valda mannsbana af gáleysi. Hann er krafinn um miskabætur samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Skilyrði þess að bætur verði dæmdar er að um hafi verið að ræða ásetning eða stórfellt gáleysi. Þegar atvik að slysinu eru virt verður ekki fallist á að ákærði hafi valdið því með svo stórfelldu gáleysi að þetta lagaskilyrði sé uppfyllt. Verður bótakröfu sem höfð er uppi í ákæru því vísað frá dómi.
Dæma ber ákærða til að greiða allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helga Jóhannessonar hrl., sem ákveðast 150.000 krónur.
Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómarans.
Dómsorð:
Ákærði, Snorri Már Guðmundsson, sæti fangelsi í einn mánuð, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði er sviptur ökurétti í sex mánuði frá birtingu þessa dóms að telja.
Bótakröfu sem höfð er uppi í ákæru er vísað frá dómi.
Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helga Jóhannessonar hrl., 150.000 krónur.