Hæstiréttur íslands
Mál nr. 334/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Mánudaginn 26. júní 2006. |
|
Nr. 334/2006. |
A(Ólafur Örn Svansson hdl.) gegn B (Guðrún Björg Birgisdóttir hdl.) |
Kærumál. Lögræði.
Úrskurður héraðsdóms um tímabundna sjálfræðissviptingu A var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. júní 2006, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þess að kærumálskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda hans.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann þess að þóknun skipaðs talsmanns hans vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti verði greidd úr ríkissjóði.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 31. maí 2006 var staðfest samþykki dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 17. sama mánaðar um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi. Við meðferð þess máls var aflað álitsgerðar Sigurðar Arnar Hektorssonar geðlæknis um geðhagi sóknaraðila. Er sú álitsgerð dagsett 30. maí 2006. Kemur fram í framangreindum úrskurði 31. maí, sem er meðal gagna málsins, að læknirinn hafi staðfest álitsgerð sína fyrir dómi.
Í hinum kærða úrskurði er vísað til framangreindrar álitsgerðar og þess getið að hún hafi verið staðfest fyrir dómi. Verður ekki séð að læknirinn hafi verið kvaddur til skýrslugjafar í því máli sem hér er til úrlausnar þótt álitsgerðin sé meðal gagna málsins og hann hafi, eins og fyrr greinir, staðfest hana fyrir dómi við meðferð hins fyrra máls.
Með vísan til nefndrar álitsgerðar svo og framburðar Sigurðar Boga Stefánssonar geðlæknis fyrir héraðsdómi, sem og annarra gagna málsins, þykir sýnt að sóknaraðili sé haldinn geðsjúkdómi, sem gerir hann ófæran um að stjórna persónulegum högum sínum í skilningi a. liðar 4. gr. lögræðislaga. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ólafs Arnar Svanssonar héraðsdómslögmanns, og þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur til hvors þeirra.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. júní 2006.
Með beiðni dagsettri 6. júní sl. hefur B, [kt.] krafist þess að A, [kt.], með lögheimili að [...] en dvelur nú tímabundið á deild 32A á LSH verði sviptur sjálfræði tímabundið til 6 mánaða.
Sóknaraðili er faðir varnaraðila.
Við meðferð málsins fyrir dóminum var sóknaraðila skipaður talsmaður skv. 1. mgr. 31. gr. lögræðislaga og var þess óskað að þóknun hans yrði greidd úr ríkissjóði. Þá var varnaraðila skipaður verjandi úr hópi starfandi lögmanna skv. 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga. Af hálfu varnaraðila var kröfu sóknaraðila mótmælt. Talsmaður sóknaraðila ítrekaði kröfur hans en verjandi mótmælti því að hún næði fram að ganga.
Krafa sóknaraðila er byggð á því að nauðungarvistun varnaraðila ljúki innan skamms. Varnaraðili hafi átt við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða, hafi hann af þeim sökum verið nauðungarvistaður nú síðast frá 17. maí sl. með samþykki dómsmálaráðuneytisins sem var borin var undir Héraðsdóm Reykjaness sem hafnaði kröfu varnaraðila um að nauðungarvistunin yrði felld úr gildi. Af þessu tilefni gaf varnaraðili skýrslu fyrir dóminum og taldi sig ekki þurfa á lyfjagjöf að halda. Dómari fór ásamt talsmanni sóknaraðila og verjanda varnaraðila á deild 32A við LSH og kannaði dómari afstöðu vararaðila til fram kominnar kröfu. Reyndist hann vera henni andsnúinn og bar á neikvæðum viðhorfum gagnvart læknismeðferð sem hann nýtur þar.
Í málinu liggur frammi læknisvottorð Ólafs Bjarnasonar geðlæknis, dagsett 16. maí sl. Þar segir að innlögn sóknaraðila á deild 32A á Landspítala háskólasjúkrahús þann 14. maí sl. hafi verið fimmta innlögn sóknaraðila á geðdeild, en hann hafi fyrst verið lagður inn á framangreinda deild árið 2002. Sóknaraðili sé með þekktan schichoaffectivan sjúkdóm (geðhvarfaklofa) en hafi verið til lítillar samvinnu um lyfjameðferð og eftirlit geðlækna. Hann hafi verið nauðungarvistaður í rúma tvo mánuði á árinu 2004. Síðustu vikur hafi sóknaraðili búið í kofa fyrir austan fjall og hafi hann áreitt ættmenni sín í nágrenninu með þeim hætti að lögregla hafi verið kölluð til. Þá eigi sóknaraðili sögu um vímuefnanotkun. Loks kemur fram í vottorðinu að sóknaraðili hafi nánast ekkert sjúkdómsinnsæi og þá hafi komið fram hjá honum ranghugmyndir um þau lyf sem honum hafi staðið til boða.
Að ósk sóknaraðila aflaði dómari álitsgerðar geðlæknis um andlegt heilbrigði og hagi sóknaraðila. Sigurður Örn Hektorsson geðlæknir ræddi við sóknaraðila og gerði á honum geðskoðun 26. maí sl. og liggur álitsgerð læknisins dagsett 30. maí sl. frammi í málinu. Í vottorðinu kemur fram að læknirinn hafi kynnt sér gögn málsins og sjúkraskrá sóknaraðila. Niðurstaða læknisins er sú að sóknaraðili sé haldinn alvarlegum geðrofssjúkdómi, annað hvort geðhvarfaklofa eða aðsóknargeðklofa, en aðgreining þar á milli ráði þó ekki úrslitum um niðurstöðuna. Síðan segir að þótt formlegar ranghugmyndir hafi ekki komið fram í viðtalinu, séu til staðar önnur greinileg skilmerki geðrofssjúkdóms, einkum hugsanatruflanir, aðsóknarkennd, geðhrifaleysi, óvild og ógnun í viðmóti og hnignandi geðheilsa og persónuhagir. Þá hafi sóknaraðili ekkert sjúkdómsinnsæi. Loks kemur fram það mat læknisins að sóknaraðili hafi við upphaf nauðungarvistunar uppfyllt skilyrði 19. gr. lögræðislaga um nauðungarvistun og að þau skilyrði séu enn fyrir hendi.
Sigurður Örn Hektorsson staðfesti skýrslu sína fyrir dómi og staðfesti framangreint vottorð sitt og sjúkdómsgreiningu. Hann taldi skilyrði nauðungarvistunar sóknaraðila enn vera fyrir hendi.
Sigurður Bogi Stefánsson, geðlæknir, sem hefur haft með læknismeðferð varnaraðila að gera gaf ítarlega og greinargóða skýrslu fyrir dóminum um hagi hans og batahorfur. Kom fram í máli Sigurðar að mikilvægt væri að grípa sem fyrst í taumana hvað varðar læknismeðferð lyfjagjöf og hugsanlega endurhæfingu varnaraðila sem hann taldi svo veikan að ekki væru líkur á því að hann gæti séð sér farborða óstuddur. Taldi Sigurður að sá tími sem það tæki að láta á það reyna hvort varnaraðili fengi bót meina sinna með læknismeðferð yrði að vera 6 mánuðir. Lagði Sigurður á það áherslu að því fyrr sem sjúkdómurinn væri meðhöndlaður þeim mun meir líkur væri á árangri fyrir varnaraðila og að tryggja yrði að varnaraðili fengi viðeigandi læknismeðferð og nauðsynleg lyf vegna sjúkdómsins en því væri ekki að treysta færi hann frjáls ferða sinna. Sagði Sigurður að varnaraðili hafi ekki haldist í vinnu og hafi framkoma hans sjálfs og viðmót orðið þess valdandi að hann missti vinnuna.
Ljóst er af framlögðum læknisvottorðum og vitnisburði Sigurðar Boga Stefánssonar geðlæknis fyrir dóminum að sóknaraðili er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi sem hefur haft alvarleg áhrif á líf hans. Telur dómurinn ljóst af fyrirliggjandi upplýsingum sérfræðinga á sviði geðlækninga að sóknaraðili hefur ekkert sjúkdómsinnsæi. Þegar allt framanritað er virt sem og gögn málsins í heild er það mat dómsins að brýna nauðsyn beri til að sóknaraðili njóti læknismeðferðar þann tíma sem krafist er, eða í sex mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar þessa. Í ljósi framanritaðs er það mat dómsins að með vísan til a liðar 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 beri að fallast á fram komna kröfu um sjálfræðissviptingu varnaraðila eins og hún er fram sett af hálfu sóknaraðila
Kostnaður af máli þessu greiðist úr ríkissjóði samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila og þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, eins og segir í úrskurðarorði.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, A, [kt.] er sviptur sjálfræði í sex mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar þessa.
Allur kostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ólafs Arnar Svanssonar hdl. og Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur hdl., 75.000 krónur til hvors um sig að meðtöldum virðisaukaskatti.