Hæstiréttur íslands
Mál nr. 300/2007
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Umferðarlög
- Svipting ökuréttar
- Sakarkostnaður
|
|
Fimmtudaginn 22. nóvember 2007. |
|
Nr. 300/2007. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson, ríkissaksóknari) gegn Birgi Ólafssyni (Guðmundur B. Ólafsson hrl.) |
Ölvunarakstur. Umferðarlög. Svipting ökuréttar. Sakarkostnaður.
B var sakfelldur fyrir ölvunarakstur. Hann hafði hlotið refsingu fyrir sams konar brot árið 2005 og var honum nú gert að greiða 130.000 króna sekt í ríkissjóð. Brotið var framið skömmu eftir gildistöku breytingar á 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sem fól í sér herta afstöðu til endurtekins ölvunaraksturs. Samkvæmt því var B gert að sæta sviptingu ökuréttar í tvö ár frá birtingu héraðsdóms.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. maí 2007 að fengnu áfrýjunarleyfi 15. sama mánaðar. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd og honum ákvörðuð frekari ökuréttarsvipting.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar og að allur sakarkostnaður í héraði og kostnaður við áfrýjun málsins verði lagður á ríkissjóð.
Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 14. mars 2007. Ákærði var ekki viðstaddur dómsuppsögu, en honum var birtur dómurinn 12. apríl 2007. Samkvæmt áritun birtingarmanns voru honum þá fengnar leiðbeiningar um rétt til áfrýjunar og áfrýjunarfrest. Er skráð í birtingarvottorðið að ákærði uni dómi. Með bréfi til Hæstaréttar 20. apríl 2007 fór ríkissaksóknari aftur á móti fram á áfrýjunarleyfi. Af því tilefni ritaði verjandi ákærða Hæstarétti bréf 4. maí 2007 þar sem segir meðal annars: „Það er samþykkt af minni hálfu að málinu verði áfrýjað en þó svo að um áfrýjun sé þá líka að ræða af hálfu sakbornings, þannig að upphafleg krafa hans um sýknu komist að.“ Síðan er kröfum ákærða lýst. Afrit þessa bréfs var sent ríkissaksóknara. Líta verður svo á að með ósk ríkissaksóknara um áfrýjunarleyfi, sem Hæstiréttur samþykkti, hafi forsendur þeirrar yfirlýsingar um áfrýjun sem ákærði gaf birtingarmanni brostið og í ljósi þess hafi ríkissaksóknari átt að líta á bréf verjanda sem tilkynningu um áfrýjun samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Bréfið var ritað strax og tilefni var til og innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Koma kröfur ákærða því til meðferðar fyrir dóminum.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða. Ákærði gekkst undir sátt hjá sýslumanninum í Kópavogi 26. maí 2005 vegna of hraðs aksturs og aksturs undir áhrifum áfengis og var síðarnefnda brotið heimfært til 2. mgr. 45. gr. umferðalaga nr. 50/1987. Var ákærða gerð 100.000 króna sekt og hann sviptur ökurétti í sex mánuði frá 27. maí 2005. Hinn 8. ágúst 2006 gekkst hann undir sátt hjá sýslumanninum í Kópavogi vegna hraðaksturs og var gerð 30.000 króna sekt og sviptur ökurétti í þrjá mánuði frá sama degi. Að öðru leyti kemur sakarferill ákærða ekki til skoðunar vegna þessa máls.
Með 18. gr. laga nr. 66/2006 sem tóku gildi 23. júní 2006 var gerð breyting á 102. gr. umferðarlaga sem felur í sér herta afstöðu til endurtekinna ölvunarakstursbrota. Eftir gildistöku breytingarákvæðisins varðar það sviptingu ökuréttar að lágmarki tvö eða þrjú ár eftir áfengismagni í blóði gerist maður endurtekið sekur um ölvunarakstur. Brot ákærða var framið 2. júlí 2006. Framangreind breyting hafði þá tekið gildi. Í hinum áfrýjaða dómi er brotið réttilega heimfært til 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Ákærði hlaut refsingu fyrir sams konar brot 26. maí 2005. Verður honum gert að greiða 130.000 krónur í sekt til ríkissjóðs fyrir það brot sem hann er nú sakfelldur fyrir en sæta ella fangelsi í tíu daga. Hann skal sæta sviptingu ökuréttar í tvö ár frá 12. apríl 2007 að telja.
Með þessari dómsniðurstöðu er leiðrétt viðurlagaákvörðun hins áfrýjaða dóms í samræmi við 18. gr. laga nr. 66/2006 og er því rétt að áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Birgir Ólafsson, greiði 130.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins en sæti ella fangelsi í tíu daga.
Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár frá 12. apríl 2007.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Guðmundar B. Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 14. mars 2007.
Mál þetta höfðaði sýslumaðurinn í Stykkishólmi með ákæru 9. nóvember 2006 á hendur ákærða, Birgi Ólafssyni, kt. 310886-2119, Völvufelli 40 í Reykjavík. Málið var dómtekið 1. mars 2007.
Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir ölvunarakstur með því „að hafa að kvöldi sunnudagsins 2. júlí 2006 ekið Volkswagen fólksbifreiðinni X um bifreiðastæðið framan við heilsugæslustöðina í Ólafsvík undir áhrifum áfengis. Alkóhólmagn í blóðsýni sem tekið var úr ákærða var 0,88.
Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga.“
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður og sakarkostnaður felldur á ríkissjóð. Til vara er þess krafist að ákærða verði gerð svo væg refsing sem lög frekast leyfa.
I.
Sunnudaginn 2. júlí 2006, laust fyrir kl. 8 að morgni, barst lögreglunni í Ólafsvík tilkynning um að bifreiðinni X væri ekið í hringi á bifreiðastæði framan við Heilsugæslustöðina í Ólafsvík. Tilkynnandi var A, og taldi hann sennilegt af aksturslaginu að dæma að ökumaður væri ölvaður. Lögreglumenn fóru þegar á vettvang og komu að bifreiðinni þar sem henni hafði verið lagt í stæði við Heilsugæslustöðina. Undir stýri bifreiðarinnar sat ákærði og var hann handtekinn. Þá kemur fram í frumskýrslu lögreglu að vélarhlíf bifreiðarinnar hafi verið heit viðkomu. Einnig segir að A hafi verið fenginn á vettvangi til að staðfesta að ákærði hafi verið sá sem ók bifreiðinni skömmu áður.
Í þágu rannsóknar málsins var blóðsýni dregið úr ákærða og reyndist alkóhól í blóðinu vera 0,88 að teknu tilliti til vikmarka (0,98 0.10).
II.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði ásamt félaga sínum, B, og kærustum þeirra, farið á færeyska daga í Ólafsvík í júlí 2006. Ákærði kvaðst hafa ekið vestur og hefðu þau komið þegar liðið var á laugardagskvöld og verið að rúnta um bæinn. Ákærði sagði að kærustur þeirra hefðu orðið eftir í bænum til að tjalda. Ákærði kvaðst hins vegar hafa ekið bifreiðinni að bílastæði við Heilsugæslustöðina í Ólafsvík en þá hefði verið liðið fram á morgun. Ákærði sagðist hafa ekið um planið við Heilsugæslustöðina en kannaðist ekki við að hafa ekið þar í hringi og spólað. Eftir að bifreiðinni var lagt sagðist ákærði ekki hafa ekið frekar og þá fyrst sagðist ákærði hafa neytt áfengis. Nánar lýsti ákærði þessu þannig að hann hefði á um það bil 20-30 mínútum frá því akstri lauk og þar til hann var handtekinn drukkið 4-6 bjóra.
III.
Vitnið B bar fyrir dómi að hann og ákærði hefðu ásamt kærustum sínum farið á færeyska daga í Ólafsvík árið 2006. Vitnið sagði að þau hefðu lagt af stað úr bænum á laugardegi og komið seint vestur til Ólafsvíkur. Þar hefðu þau tjaldað og byrjað að neyta áfengis og drukkið nokkuð stíft. Framhaldinu lýsti B þannig að stelpurnar hefðu verið þreyttar og farið að sofa en hann og ákærði hefðu farið inn í bifreiðina. Vitnið þvertók hins vegar fyrir að ákærði hefði ekið bifreiðinni sem hefði verið lagt við Heilsugæslustöðina í Ólafsvík við komu og ekki verið hreyfð eftir það. Vitnið kvaðst síðan hafa verið að sofna í farþegasæti bifreiðarinnar þegar lögreglan kom og reif upp hurð bifreiðarinnar. Aðspurður sagði B að ákærði hefði drukkið bjór meðan þau voru að tjalda og áður en þeir fóru inn í bílinn. Hins vegar mundi vitnið ekki hvort ákærði var að dekka þar sem þeir sátu í bifreiðinni áður en ákærði var handtekinn.
Vitnið A, , kom fyrir dóm og greindi frá því að hann hefði staðið fyrir utan Heilsugæslustöðina í Ólafsvík þegar liðið var fram á morgun umræddan dag. Vitnið kvaðst hafa tekið eftir að bifreið var ekið spólandi í hringi á planinu og síðan lagt í stæði. Kvaðst A ekki hafa talið allt með felldu og því hefði hann haft samband símleiðis við lögreglu sem komið hefði skömmu síðar. Nánar aðspurður taldi A að örfáar mínútur hefðu liðið frá því hann hringdi og þar til lögregla kom á vettvang. Á meðan vitnið beið eftir að lögreglan kæmi kvaðst það hafa fylgst vel með hvort nokkur hefði sætaskipti við ökumann. Fullyrti vitið fyrir dómi að ákærði hefði verið sá sem ók bifreiðinni í umrætt sinn.
Vitnin Guðmundur Hjörvar Jónsson, lögregluvarðstjóri, og Sigurjón Jónsson, lögreglumaður, báru fyrir dómi að tilkynning hefði borist frá A um að bifreið hefði verið spólað á bílastæðinu fyrir framan Heilsugæslustöðina. Lögreglumennirnir sögðust þegar í stað hafa farið á vettvang og handtekið ákærða. Einnig sögðu þeir báðir að A hefði á vettvangi staðfest að ákærði hefði ekið bifreiðinni.
IV.
Við aðalmeðferð málsins var af hálfu ákæruvaldsins gerð sú leiðrétting á ákæru að akstur sá sem ákærða er gefinn að sök hafi farið fram að morgni sunnudagsins 2. júlí 2006 en ekki að kvöldi þess dags. Þetta aukaatriði ætlaðs brots getur ekki staðið í vegi þess að ákærða verði dæmt áfall, enda hefur vörn málsins ekki verið áfátt af þessum sökum, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.
Fyrir dómi hefur ákærði eindregið neitað að hafa ekið bifreiðinni X undir áhrifum áfengis umræddan morgun. Nánar lýsti ákærði atburðum þannig að eftir að hafa ekið um planið og lagt bifreiðinni hafi hann drukkið 4-6 bjóra á 20-30 mínútum frá því akstri lauk þar til hann var handtekinn af lögreglu. Þessi frásögn ákærða fær enga stoð í öðru sem fram hefur komið í málinu. Þannig hefur vitnið A borið fyrir dómi að örfáar mínútur hafi liðið frá því hann tilkynnti lögreglu um aksturinn og þar til lögregla kom. Þeir lögreglumenn sem handtóku ákærða hafa einnig greint frá því fyrir dómi að þeir hafi þegar komið á vettvang. Þá er ekkert samræmi með frásögn ákærða og framburði B, ferðafélaga ákærða, en hann greindi frá því fyrir dómi að ákærði hefði verið að drekka eftir að þau komu til Ólafsvíkur og áður en hann og ákærði settust inn í bifreiðina þar sem ákærði var handtekinn um morguninn. Loks verður talin með ólíkindum sú frásögn ákærða að hann hafi snemma að morgni sunnudags tekið upp stífa drykkju eftir að hafa komið til Ólafsvíkur á laugardagskvöldi til að sækja hátíð sem þá var haldin í bænum. Að öllu því virtu sem hér hefur verið rakið er það álit dómsins að frásögn ákærða sé hreinn fyrirsláttur og verður hún ekki lögð til grundvallar við úrlausn málsins.
Vitnið B hefur borið fyrir dómi að eftir að hann og ákærði ásamt kærustum þeirra komu til Ólafsvíkur hafi þau tjaldað og farið að drekka áfengi. Þegar þreyta hafi sótt að stelpunum hafi þær farið að sofa en vitnið og ákærði farið í bifreiðina án þess þó að henni hafi verið ekið á stæðinu þar sem henni hafi verið lagt eftir komu til Ólafsvíkur. Þessi framburður vitnisins fer í bága við vætti A sem borið hefur að bifreiðinni hafi verið ekið á bifreiðastæðinu fyrir framan Heilsugæslustöðina skömmu áður en ákærði var handtekinn. Einnig hefur ákærði sjálfur kannast við að hafa ekið bifreiðinni 20-30 mínútum áður en hann var handtekinn. Að þessu gættu verður ekkert byggt á vitnisburði B.
Fyrir dómi hefur vitnið A lýst atburðum skilmerkilega þegar hann sá bifreiðinni ekið á stæðinu við Heilsugæslustöðina í Ólafsvík og hvernig það bar til að ákærði var handtekinn skömmu síðar. Jafnframt er framburður vitnisins í fullu samræmi við vætti lögreglumanna um að mjög knappur tími hafi liðið frá tilkynningu til handtöku, svo sem áður er rakið. Að þessu virtu og með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er sannað að ákærði hafi í umrætt sinn ekið á bifreiðastæðinu undir áhrifum áfengis. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brotið sem réttilega er fært til laga í ákæru.
V.
Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi sem hefur áhrif við ákvörðun viðurlaga.
Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin 60.000 króna sekt og komi 6 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
Þá verður ákærði með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga sviptur ökurétti í 6 mánuði frá birtingu dómsins.
Loks verður ákærði samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar samkvæmt yfirliti lögreglu um sakarkostnað og ákvörðun dómsins um málsvarnarlaun verjanda, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði. Jafnframt verður ákærði dæmdur til að greiða útlagðan vitnakostnað.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, Birgir Ólafsson, greiði 60.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 6 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
Ákærði er sviptur ökurétti í sex mánuði frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði greiði 185.567 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnar Clausen, hæstaréttarlögmanns, 149.400 krónur.