Hæstiréttur íslands

Mál nr. 341/2008


Lykilorð

  • Játningarmál
  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Refsiákvörðun


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. desember 2008.

Nr. 341/2008.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

Helga Ragnari Guðmundssyni

(Kristín Edwald hrl.)

 

Játningarmál. Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Refsiákvörðun.

H var gefið að sök að hafa sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi F.H. Verks ehf. eigi skilað virðisaukaskattskýrslum félagsins á lögmæltum tíma vegna tilgreindra uppgjörstímabila og að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti vegna sömu tímabila, samtals að fjárhæð 11.658.207 krónur. Þá var honum gefið að sök að hafa ekki á lögmæltum tíma staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda vegna tilgreindra tímabila og að hafa eigi skilað staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins vegna tilgreindra tímabila, samtals að fjárhæð 12.618.906 krónur. H játaði brot sín og var því farið með málið samkvæmt ákvæðum 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Við flutning um lagaatriði og viðurlög í héraði lét ákæruvaldið bóka: „Ákæruvaldið kveðst fallast á það með vísun til framlagðra gagna að ákærðu hafi fyrir útgáfu ákæru þegar greitt 1/3 hluta vangoldins virðisaukaskatts og vangoldinnar staðgreiðslu.“ Var H dæmdur í héraði til að sæta fangelsi í tvo mánuði, en fullnustu refsingarinnar var frestað. Þá var honum gert að greiða 2.500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs en sæta ella fangelsi í 68 daga. Fyrir Hæstarétti krafðist ákæruvaldið þyngingar á refsingu H og byggðist krafan einkum á því að við mat á refsingu hans hefðu innborganir á skattskuldir verið metnar ranglega. Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars að í héraði hefði ákæruvaldið byggt á því að H hefði fyrir útgáfu ákæru innt af hendi greiðslu á verulegum hluta skatts vegna hvers gjaldtímabils og hefði málið verið rekið sem játningarmál á þeirri forsendu. Þótti því ekki ástæða til að hnekkja ákvörðun héraðsdóms um refsingu H og var hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 6. maí 2008 af hálfu ákæruvalds og krefst þyngingar á refsingu ákærða.

Ákærði krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara vægari refsingar en ákæruvaldið krefst fyrir Hæstarétti.

Eins og rakið er í héraðsdómi er ákærða gefið að sök að hafa sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi F.H. Verks ehf. eigi skilað virðisaukaskattskýrslum félagsins á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar, mars-apríl og maí-júní rekstrarárið 2006 og að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti vegna sömu tímabila, samtals að fjárhæð 11.658.207 krónur. Þá er ákærða gefið að sök að hafa ekki á lögmæltum tíma staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda vegna tímabilanna júní, júlí og september 2006 og að hafa eigi skilað staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins vegna tímabilanna frá maí til og með september 2006, samtals að fjárhæð 12.618.906 krónur. Málið var upphaflega einnig höfðað gegn F.H. Verki ehf. Í héraði var farið með málið samkvæmt ákvæðum 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og telst ákærði hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og réttilega er færð til refsiákvæða í ákæru.

Krafa ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti um þyngingu refsingar ákærða lýtur einkum að því að við mat á refsingu hans hafi innborganir á skattskuldir verið metnar ranglega.

Á dómþingi 3. mars 2008 lagði ákæruvaldið fram yfirlit um greiðslur inn á skattskuldir F.H. Verks ehf. frá 18. maí 2007 til 22. febrúar 2008. Á sama dómþingi lagði verjandi ákærða fram bréf hans til sýslumannsins í Kópavogi 19. júlí 2007 með fyrirmælum um ráðstöfun innborgunar á skattkröfur. Á sama dómþingi var bókað eftir ákærða: „Ákærði viðurkennir skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru með þeim andmælum þó að verulegur hluti meints vangoldins virðisaukaskatts og staðgreiðslu sé greiddur.“ Málinu var frestað á ný til öflunar frekari gagna. Í næsta þinghaldi lækkaði ákæruvaldið fjárhæðir í ákæru varðandi vangoldinn virðisaukaskatt, eins og rakið er í héraðsdómi. Við svo búið var bókað að dómari teldi að ekki væri þörf á að frekari sönnunarfærsla færi fram í málinu og að það skyldi sæta meðferð samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og jafnframt var bókað að þessi ákvörðun sætti ekki athugasemdum af hálfu sakflytjenda. Við flutning um lagaatriði og viðurlög lét ákæruvaldið bóka: „Ákæruvaldið kveðst fallast á það með vísun til framlagðra gagna að ákærðu hafi fyrir útgáfu ákæru þegar greitt 1/3 hluta vangoldins virðisaukaskatts og vangoldinnar staðgreiðslu.“ Málið var síðar endurupptekið og dómtekið á ný eftir að fallið hafði verið frá ákæru á hendur F.H. Verki ehf., þar sem félagið hefði verið úrskurðað gjaldþrota. Í héraðsdómi er frekar rakið það sem fór fram í þinghaldi um heimfærslu brota ákærða og þess getið að ákæruvaldið hafi fallist á að rétt væri að ákvarða ákærða fésekt sem samsvaraði 10% af þeim fjárhæðum sem ekki hafi verið staðið skil á.

Fram er komið að 24. júlí 2007 voru 12.239.000 krónur greiddar inn á skuld F.H. Verks ehf. vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda, meðal annars vegna þeirra tímabila sem ákært er fyrir, en ákæra hafði þá ekki verið gefin út. Greiðslunni fylgdi framangreint bréf ákærða 19. júlí 2007 þar sem fram komu „fyrirmæli um ráðstöfun greiðslu skattkrafna.“ Þar er tíundað hvernig ákærði vildi að fjárhæðinni yrði ráðstafað inn á einstök greiðslu- og uppgjörstímabil. Í lok bréfsins segir: „Þess er óskað að skjal þetta verði áritað um móttöku þessara greiðslufyrirmæla.“ Í málinu nýtur ekki við sérstakrar kvittunar innheimtumanns ríkissjóðs fyrir ráðstöfun þessarar greiðslu, en á framangreint bréf er að finna svofellda áritun: „Fyrir hönd Sýslum í Kóp samþ. hér með að greiðsla að 12.239.000 verði ráðst. með þessum hætti.“

Samkvæmt framansögðu byggði ákæruvaldið á því í héraði að ákærði hefði fyrir útgáfu ákæru innt af hendi greiðslu á verulegum hluta skatts vegna hvers gjaldatímabils og var málið rekið sem játningarmál á þeirri forsendu. Að virtu því sem rakið hefur verið og að öðru leyti með vísan til þess sem í héraðsdómi greinir þykir í máli þessu ekki ástæða til að hnekkja ákvörðun hans um refsingu ákærða. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 skal áfrýjunarkostnaður falla á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Kristínar Edwald hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. apríl 2008.

Þetta mál, sem var dómtekið 14. mars sl., en endurupptekið 7. apríl og dómtekið á ný sama dag, er höfðað með ákæru ríkislög­reglu­stjóra, útgefinni 8. febrúar 2008, á hendur Helga Ragnari Guðmundssyni, kt. 130380-4259, Fífuvöllum 35, Hafnarfirði, og F.H. Verki ehf., kt. 430505-1570, Hlíðarsmára 15, Kópavogi,

„fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutafélagsins F.H. Verk ehf., kennitala 430505-1570, sem ákærði Helgi Ragnar var framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi fyrir, með því að hafa:

1. Eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum fyrir hönd félagsins á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar, mars-apríl og maí–júní rekstrarárið 2006 og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einka­hlutafélagsins vegna sömu tímabila, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðis­aukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð kr. 12.362.646, sem sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Vangoldinn VSK:

Árið 2006

 

janúar-febrúar

kr.  4.884.356

mars-apríl

kr.  3.762.807

maí-júní

kr.  3.715.483

Samtals:

kr.   12.362.646

 

2. Eigi staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna tímabilanna júní, júlí og september 2006 og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um stað­greiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna tímabilanna maí til og með september 2006, samtals að fjárhæð kr. 12.618.906, sem sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Vangoldin staðgreiðsla:

Árið 2006

 

maí

kr.  3.089.988

júní

kr.  2.703.229

júlí

kr.  2.138.815

ágúst

kr.  2.217.769

september

kr.  2.469.105

Samtals:

kr.  12.618.906

 

Framangreind brot ákærða Helga Ragnars samkvæmt 1. og 2. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:

a)       1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 1. tölulið ákæru.

b)       2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 2. tölulið ákæru.

Framangreind brot ákærða F.H. Verk ehf. samkvæmt 1. og 2. tölulið ákæru teljast varða við:

c)       8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt að því er varðar 1. tölulið ákæru, sbr. tilvitnuð ákvæði í a) lið að framan.

d)       9. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda að því er varðar 2. tölulið ákæru, sbr. tilvitnuð ákvæði í b) lið að framan.“

Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

 Við fyrirtöku í málinu 14. mars sl. gerði sækjandi breytingu á 1. lið ákæru vegna höfuðstóls vangoldins virðisaukaskatts á árinu 2006. Höfuðstóll vangoldins virðisaukaskatts tímabilsins janúar og febrúar 2006 lækkaði niður í 4.813.639 krónur, höfuðstóll tímabilsins mars og apríl 2006 lækkaði niður í 3.488.780 krónur og höfuðstóll tímabilsins maí og júní 2006 lækkaði niður í 3.355.788 krónur. Samtala 1. ákæruliðar lækkaði því niður í 11.658.207 krónur.

 Málið var endurupptekið 7. apríl sl. Þá var ákæra á hendur ákærða F. H. Verki ehf. afturkölluð þar sem í ljós hafði komið að félagið hafði verið tekið til gjaldþrota­skipta 14. febrúar sl. en ákæra var gefin út 8. febrúar.

 Þegar málið var tekið fyrir 3. mars sl. viðurkenndi ákærði, Helgi Ragnar Guðmundsson, skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru með þeim andmælum þó að hann hefði þegar greitt verulegan hluta meints vangoldins virðisaukaskatts og staðgreiðslu.

 Játning ákærða samræmist rannsóknargögnum málsins en ákæran byggist á lögreglurannsókn sem fram fór á grundvelli bréfs skattrannsóknarstjóra ríkisins til ríkislögreglustjóra 13. júní 2007 og rannsóknargagna sem því fylgdu. Er sök ákærða Helga Ragnars sönnuð samkvæmt þessu og varðar háttsemin hann refsingu eins og tilgreint er í ákæru.

Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög frekast leyfa. Í því sambandi er einkum vísað til 2. málsliðar 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt og 2. málsliðar 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, eins og þeim var breytt með 3. og 1. gr. laga nr. 134/2005. Af hálfu ákærða er á því byggt að staðin hafi verið skil á verulegum hluta stað­greiðslu og virðisaukaskatti. Ákærði telur ennfremur að brotin séu ekki meiri háttar og varði því ekki við 262. gr. almennra hegningarlaga.

Með 1. gr. laga nr. 134/2005 var kveðið á um að fésektarlágmark samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda eigi ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindri staðgreiðslu samkvæmt skilagrein staðgreiðslu, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur séu miklar. Með 3. gr. laga nr. 134/2005 var sambærileg breyting gerð á 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt hvað varðar lágmark fésektar.

Samkvæmt gögnum málsins hafði ákærði, fyrir útgáfu ákæru, greitt inn á öll tímabil sem ákært er fyrir vegna vangoldins virðisaukaskatts meira en þriðjung af virðisaukaskattsskuld hvers tímabils. Verður að telja þá greiðslu verulega í skilningi 3. gr. laga nr. 134/2005. Samtals námu greiðslur vegna virðis­auka­skatts 8.993.882 krónum. Öllum virðisaukaskattsskýrslum fyrirtækisins var skilað, en eftir lögboðinn eindaga. Þær voru hins vegar allar réttilega færðar. Þar sem skýrslur voru réttilega færðar og verulegur hluti virðisauka­skatts­skuldar hafði verið greiddur fyrir útgáfu ákæru gildir fésektarlágmark 1. mgr. 40. gr. laga nr. 59/1998 ekki um brot ákærða. Ákæruvaldið féllst á að rétt væri að ákvarða fésekt 10% af vangreiddri fjárhæð virðisaukaskatts eða 1.165.820 krónur.

 Ennfremur sýna gögnin að fyrir útgáfu ákæru hafi ákærði greitt inn á öll tímabil sem ákært er fyrir vegna vangoldinnar afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda meira en þriðjung af skuld hvers tímabils. Verður að telja þá greiðslu verulega í skilningi 1. gr. laga nr. 134/2005. Samtals námu greiðslur vegna staðgreiðslu 5.397.000 krónum. Öllum skilagreinum fyrirtækisins var skilað en eftir lögboðinn eindaga. Þær voru hins vegar allar réttilega færðar. Þar sem skilagreinar voru réttilega færðar og verulegur hluti af skuld vegna staðgreiðslu opinberra gjalda hafði verið greiddur fyrir útgáfu ákæru gildir fésektarlágmark 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 ekki um brot ákærða. Ákæruvaldið féllst á að rétt væri að ákvarða fésekt 10% af vangoldinni fjárhæð afdreginna opinberra gjalda eða 1.261.890 krónur.

 Samkvæmt þessu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga þykir hæfilegt að dæma ákærða Helga Ragnar til að greiða 2.500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Sektin skal greidd innan fjögurra vikna frá dómsuppsögu en ella sæti ákærði fangelsi í 68 daga.

Í ákæru er brot ákærða Helga Ragnars jafnframt talið varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995. Samkvæmt 3. mgr. 262. gr. sömu laga telst verknaður meiri háttar brot skv. 1. mgr. ákvæðisins ef brotið lýtur að veru­legum fjárhæðum, verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög saknæmi brotsins, svo og ef maður, sem til refsingar skal dæma fyrir eitthvert þeirra brota sem getur í 1. mgr. hefur áður verið dæmdur sekur fyrir sams konar brot eða eitthvert annað brot sem undir þau ákvæði fellur.

Sakavottorð ákærða er hreint og ekki fæst séð að brotið hafi verið framið með sérstaklega vítaverðum hætti né heldur að aðstæður hafi aukið mjög á saknæmi þess. Við skýrslugjöf vegna rannsóknar málsins hjá ríkislögreglustjóra sl. sumar bar ákærði að ástæða þess að fyrirtækið hefði ekki staðið skil á innheimtum virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu opin­berra gjalda væri sú að illa hefði gengið að innheimta fyrir unnin verk. Af gögnum málsins má ráða að útistandandi skuldir fyrirtækisins námu í lok júní 2007 tæpum 20 milljónum króna og um miðjan mars 2008 námu útistandandi skuldir enn ríflega 11 milljónum króna. Fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta 14. febrúar sl.

 Stendur þá eftir að meta hvort brotið hafi lotið að verulegum fjárhæðum. Samkvæmt ákæru, eins og henni var breytt, námu vanskil fyrirtækisins á innheimtum virðisaukaskatti 11.658.207 krónum á lögboðnum gjalddögum. Fyrir útgáfu ákæru höfðu samtals 8.993.882 krónur verið greiddar inn á virðis­aukaskatts­skuldina. Við útgáfu ákæru voru því ógreiddar af þeirri skuld 2.664.325 krónur. Að mati dómsins telst þessi fjárhæð ekki veruleg og verður brot ákærða Helga Ragnars í 1. lið ákæru ekki jafnframt talið varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

 Vanskil fyrirtækisins á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda námu samkvæmt ákæru 12.618.906 krónum á lögboðnum gjalddögum. Fyrir útgáfu ákæru höfðu samtals 5.397.000 krónur verið greiddar inn á þessa skuld. Við útgáfu ákæru voru því ógreiddar 7.221.906 krónur. Að mati dómsins er þessi fjárhæð veruleg í skilningi 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Brot ákærða Helga Ragnars samkvæmt 2. lið ákæru telst því meiri háttar í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því ákvæði skal dæma fangelsisrefsingu samhliða sektarrefsingu sem dæmd er fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

 Við ákvörðun refsingar fyrir hegningarlagabrotið er litið til forsögu og aðdraganda brotsins og þess að ákærði gekkst þegar í upphafi rannsóknar við brotum sínum án nokkurra undan­bragða og var samvinnufús á öllum stigum málsmeðferðar. Að þessu virtu og þeirri fjárhæð opinberra gjalda sem ekki tókst að standa skil á fyrir útgáfu ákæru þykir refsing ákærða Helga Ragnars hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Þar sem þetta er fyrsta brot ákærða verður refsingin skilorðsbundin og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðn­ingu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Með vísan til 165. gr. laga um meðferð opinberra mála ber loks að dæma ákærða til að greiða þóknun Garðars Guðmundar Gíslasonar héraðsdóms­lögmanns, vegna verjandastarfa á rannsóknar- og dómstigi málsins. Með hliðsjón af eðli og umfangi þess og að teknu tilliti til fjölda þing­halda þykir sú þóknun hæfilega ákveðin 224.000 krónur, sem að meðtöldum virðis­auka­skatti nemur 278.880 krónum.

Ingiríður Lúðvíksdóttir settur héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði Helgi Ragnar Guðmundsson sæti fangelsi í tvo mánuði, en fullnustu refs­ing­ar­innar skal frestað og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá dómsupp­sögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 Ákærði greiði 2.500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu en sæti ella fangelsi í 68 daga.

Ákærði greiði 278.880 krónur í þóknun til skipaðs verjanda síns, Garðars Guðmundar Gíslasonar hdl.