Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-301
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fjöleignarhús
- Húsfélag
- Sameign
- Hafnað
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 22. desember 2020 leitar Erla Bótólfsdóttir leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 25. nóvember sama ár í málinu nr. 435/2019: Erla Bótólfsdóttir gegn Rofabæ 43-47, húsfélagi, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um greiðslu úr hendi leyfisbeiðanda vegna framkvæmda sem gagnaðili stóð fyrir á ytra byrði Rofabæjar 43-47 í Reykjavík. Leyfisbeiðandi bar fyrir sig að gagnaðili hefði ekki verið til þess bær að taka ákvörðun um framkvæmdirnar heldur hefði átt að gera það á vettvangi svonefnds Lóðafélags 4 en í því væru eigendur íbúða í byggingunum að Rofabæ 43-47 ásamt Hraunbæ 176-198. Í dómi Landsréttar kom meðal annars fram að hvergi væri þess getið að byggingin Rofabær 43-47 væri hluti stærra fjöleignarhúss. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest um að áðurnefnd bygging væri sjálfstætt hús í skilningi laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og gagnaðili hafi því verið bær til að taka ákvörðun um framkvæmdirnar. Krafa gagnaðila var því tekin til greina.
Leyfisbeiðandi telur að dómur Hæstaréttar myndi hafa verulegt almennt gildi um það hvað teljist vera sjálfstætt hús í skilningi laga nr. 26/1994. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé rangur að efni til þar sem hann gangi þvert gegn dómi Hæstaréttar um skilgreiningu á því hvað teljist vera sjálfstætt hús í skilningi fyrrgreindra laga. Með hliðsjón af niðurstöðu Landsréttar er að mati leyfisbeiðanda sú einkennilega staða uppi að byggingarnar við Rofabæ 43-47 og Hraunbæ 176-198 teljast stundum vera eitt hús í skilningi laga nr. 26/1994 og stundum ekki en slík niðurstaða stríði gegn ófrávíkjanlegum ákvæðum laganna. Loks telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu greinar. Beiðninni er því hafnað.