Hæstiréttur íslands
Mál nr. 195/2005
Lykilorð
- Frelsissvipting
- Þjófnaður
- Nytjastuldur
- Skilorðsrof
|
|
Fimmtudaginn 27. október 2005. |
|
Nr. 195/2005. |
Ákæruvaldið(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn Þorvaldi Magnússyni (Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Frelsissvipting. Þjófnaður. Nytjastuldur. Skilorðsrof.
Þ var sakfelldur fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa í félagi við annan mann brotist inn í flugstöð Flugfélags Íslands og stolið þar og reynt að stela þar tilteknum verðmætum. Einnig var hann sakfelldur fyrir nytjastuld samkvæmt 1. mgr. 259. gr. og brot gegn 1. mgr. 226. gr. laganna fyrir að hafa svipt ræstitækni, sem fyrir var í flugstöðinni, frelsi og haldið honum þar nauðugum. Verknaði Þ var í ákæru ekki lýst sem ránsbroti samkvæmt 252. gr. almennra hegningarlaga, svo sem verknaðarlýsing brotanna saman gæti hafa gefið tilefni til. Því var refsing ákærða eingöngu miðuð við brot eftir ákvæðum 226. og 244. gr. Þegar litið var til þess m.a. að sakborningarnir höfðu haldið manninum nauðugum í flugstöðinni í um klukkustund og höfðu skipst á að vera með hníf meðan á því stóð, þótti refsing Þ hæfilega ákvæðin fangelsi í 14 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 15. apríl 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms en þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst sýknu af 2. og 3. lið ákæru en að öðru leyti mildunar á refsingu og að hún verði skilorðsbundin.
Í niðurstöðu héraðsdóms er sagt að ákærði og meðákærði í héraði hafi hulið andlit sín í flugstöð Flugfélags Íslands er þeir héldu ræstitækninum H þar nauðugum, eins og þar er nánar lýst. Er þessi staðhæfing eingöngu reist á skýrslu H hjá lögreglu og fyrir dómi. Ákærðu voru hins vegar hvorki spurðir um þetta atriði við rannsókn málsins né meðferð þess fyrir dómi. Telst því ekki fram komin sönnun þess að ákærðu hafi verið með andlit sín hulin umrætt sinn. Verknaður ákærða samkvæmt 2. lið ákæru varðar við 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða.
Ákærða var annars vegar í 1. lið ákæru gefinn að sök þjófnaður samkvæmt 244. gr. almennra hegningarlaga fyrir að hafa í félagi við annan mann brotist inn í áðurnefnda flugstöðvarbyggingu með því að spenna þar upp glugga og stela og reyna að stela þar tilteknum verðmætum, en hins vegar var honum í 2. lið gefið að sök brot gegn 226. gr. laganna fyrir að hafa svipt áðurnefndan H frelsi og að hafa haldið honum nauðugum eins og þar er nánar lýst. Verknaði ákærða var hins vegar ekki lýst sem ránsbroti samkvæmt 252. gr. almennra hegningarlaga, svo sem verknaðarlýsing brotanna saman gæti hafa gefið tilefni til. Hámarksrefsing samkvæmt því ákvæði er mun þyngri en eftir 244. gr. og 1. mgr. 226. gr. laganna. Þegar litið er til þessa ákæruháttar verður refsing ákærða eingöngu miðuð við brot eftir síðarnefndu ákvæðunum.
Eins og fram kemur í héraðsdómi héldu ákærði og félagi hans H nauðugum í flugstöðinni um klukkustund. Á meðan á því stóð var félaginn með hníf og hefur ákærði viðurkennt fyrir dómi að þeir hafi ákveðið að nota hnífinn til að leggja áherslu á orð sín auk þess sem hann staðfesti framburð sinn hjá lögreglu um að þeir hafi skipst á um að nota hnífinn. Þegar til þessa alvarlega verknaðar er litið og að öðru leyti vísað til forsendna héraðsdóms um ákvörðun refsingar ákærða verður hún hæfilega ákveðin fangelsi í 14 mánuði.
Ákærði verður dæmdur til að greiða sinn hluta sakarkostnaðar í héraði og allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um málskostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem eru ákveðin með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Þorvaldur Magnússon, sæti fangelsi í 14 mánuði.
Ákærði greiði sinn hluta sakarkostnaðar í héraði og allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, samtals 392.623 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 336.150 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2005.
Mál þetta var höfðað með ákærum lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettum 17. ágúst 2004, 15. september 2004 og 12. október 2004, á hendur A, [...], Reykjavík, G, [...], Hafnarfirði og Þorvaldi Magnússyni, kt. 130581-5449, Eyjabakka 11, Reykjavík.
Ákæra dags. 17. ágúst 2004 á hendur ákærða A
[...]
Ákæra dags. 15. september 2004 á hendur ákærðu öllum ,,fyrir eftirgreind hegningarlagabrot framin að morgni mánudagsins 17. maí 2004:
Ákærðu G og Þorvaldur eru sakaðir um þjófnað, tilraun til þjófnaðar, ólögmæta frelsissviptingu og nytjastuld eins og hér greinir:
1. Að hafa í félagi brotist inn í flugstöð Flugfélags Íslands við Þorragötu í Reykjavík með því að spenna upp glugga og
a) stolið plasmaskjá, tveimur tölvuskjám, snúrum og tengingum samtals að verðmæti um kr. 1.000.000 og
b) reynt að stela öðrum plasmaskjá að verðmæti um kr. 800.000.
Þykir þessi háttsemi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga að því er varðar b lið.
2. Að hafa í félagi svipt H, ræstitækni í flugstöð Flugfélags Íslands, frelsi þegar hann kom að ákærðu við framangreint innbrot. Ógnuðu ákærðu honum með hnífi, héldu honum nauðugum í flugstöðinni í a.m.k. eina klukkustund, fóru síðan með hann nauðugan í bifreiðina VB-[...] og flutti ákærði G hann í bifreiðinni upp í Seljahverfi í Reykjavík þar sem hann skildi H eftir.
Þykir þessi háttsemi varða við 226. gr. almennra hegningarlaga.
3. Að hafa í félagi tekið bifreiðina VB-[...] í heimildarleysi þar sem hún stóð á bifreiðastæði fyrir utan flugstöð Flugfélags Íslands og ákærði G ekið henni um götur í Reykjavík upp í Seljahverfi, sbr. 2. ákærulið, og loks í bílskýli við Krummahóla 8 í Reykjavík þar sem lögreglan fann bifreiðina.
Þykir þessi háttsemi varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði G er sakaður um þjófnað eins og hér greinir:
4. Að hafa stolið geisladiskaspilara að andvirði um kr. 24.000 úr framangreindri bifreið, VB-[...]
Þykir þessi háttsemi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði A er sakaður um hylmingu eins og hér greinir:
5. Að hafa, að Vesturvör 27 í Kópavogi, sumpart keypt og sumpart tekið til varðveislu úr hendi meðákærða G plasmaskjá og einn tölvuskjá, sbr. 1. ákærulið, þótt honum hafi verið ljóst að um þýfi væri að ræða.
Þykir þessi háttsemi varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga.
Dómkröfur:
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Af hálfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf., kt. 660269-2079, er þess krafist að ákærðu G og Þorvaldur verði dæmdir til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 559.088, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá tjónsdegi til útgáfudags þessarar ákæru, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.”
Ákæra dags. 12. október 2004 á hendur ákærða G
[...]
Í málinu gera eftirtaldir aðilar kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta.
1.
Samos ehf., kt. 540403-3680, að fjárhæð kr. 850.000 auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi sem var þann 10. febrúar 2004 en síðan dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
M. 010-2004-2905
2.
Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, að fjárhæð kr. 105.943 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. vaxtalaga til greiðsludags.
M. 010-2004-2905
3.
Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, að fjárhæð kr. 1.489.301 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. vaxtalaga til greiðsludags.
M. 036-2004-3283”
Ákærði, A, krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð. Til vara krefst ákærði vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna að mati dómsins.
Ákærði, Þorvaldur, krefst vægustu refsingar er lög leyfa varðandi ákærulið 1 í ákæru frá 15. september 2004. Ákærði krefst sýknu af ákæruliðum 2 og 3. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna er greiðist úr ríkissjóði. Þá krefst ákærði, Þorvaldur, þess að bótakröfu á hendur honum verði vísað frá dómi.
Ákærði, G, krefst vægustu refsingar er lög leyfa og að háttsemi er greinir í 2. tl. ákæru frá 15. september 2004 verði ekki heimfærð til 226. gr. almennra hegningarlaga. Þá krefst ákærði þess að öllum bótakröfum á hendur honum verði vísað frá dómi vegna vanreifunar, nema kröfu Sjóvár-Almennra trygginga hf., að fjárhæð 105.943 krónur og kveðst ákærði samþykkja bótaskyldu vegna þeirrar kröfu.
Málsatvik.
Ákæra frá 17. ágúst 2004.
[...]
Ákæra frá 15. september 2004.
Málsatvik.
Í frumskýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 17. maí 2004 kemur fram að lögregla hafi verið send að húsnæði Flugfélags Íslands vegna þjófnaðar. Tilkynnandi hafi tjáð lögreglu að stolið hafi verið úr húsnæðinu tveimur 19” Hewlett Packard tölvuskjám. Einnig hafi verið búið að brjóta upp skúffur og skápa. Þá væri búið að taka úr biðsal Panasonic plasma skjá. Er lögregla var á vettvangi hringdi H, sem sá um ræstingar í flugstöðinni, í lögreglu og tjáði lögreglu að tveir menn hefði komið í flugstöðina um nóttina og stolið þaðan tölvuskjám og plasmaskjá sem þeir hefðu sett í bifreið fyrir utan flugstöðina. Að því loknu hefðu mennirnir þvingað H inn í bifreið og ekið honum í Hjallasel, þar sem H var sleppt. Kvað H mennina hafa ógnað sér með brauðhnífi.
Í lögregluskýrslu sem tekin var af H sama dag, kvaðst H hafa verið við ræstingar í húsnæði Flugfélags Íslands umrædda nótt og orðið var við grunsamlegar mannaferðir um fjögurleytið. Í skrifstofu flugvirkja hafi hann séð móta fyrir manni með hníf í hendi, en skömmu síðar orðið þess áskynja að mennirnir voru tveir. Sá með hnífinn hafi sagt H að setjast og þá yrði allt í lagi. Sá maður hafi otað að honum hnífnum og verið ógnandi. Hann hafi verið sannfærður um að ef hann ekki hlýddi mönnunum, myndu þeir skaða hann. Mennirnir hafi skipað honum að standa upp og spurt hann að því hvort hann hefði farsíma á sér og í framhaldi af því leitað á honum. Hafi mennirnir tekið af honum lykla sem gengu að flugstöðinni auk lykla sem gengu að bifreið H. H kvað mennina hafa setið með sér nokkra stund í herberginu og hafi þeir rætt um það að þeir hafi ætlað að taka tvo plasmaskjái úr biðsal byggingarinnar. Maðurinn með hnífinn hafi sagt honum að hann yrði að hjálpa þeim og þá yrði allt í lagi. H hafi aðstoðað þá við að leita að verkfærum til þess að taka niður plasmaskjáinn og farið yfir í annað hús til þess. Þar hafi þeir fundið verkfæri og eftir það hafi hann aðstoðað mennina við að taka niður plasmaskjáinn í biðsalnum. H kvað að honum hafi ekki verið stöðugt ógnað með hnífnum, en annar mannanna hafi alltaf verið með hann á sér. Hann kvaðst ekki hafa þorað að flýja af ótta við að einhver þriðji aðili væri fyrir utan húsið. H lýsti því að annar mannanna hefði fundið lykla að bílaleigubíl og sótt bifreið út á bifreiðaplanið og ekið bifreiðinni að dyrum á vesturenda hússins. Að svo búnu hafi H ásamt mönnunum tveimur borið út í bifreiðina 2 tölvuskjái og plasmaskjáinn. H kvað að honum hefði verið skipað að setjast inn í bílaleigubílinn, farþegamegin og hafi bifreiðinni verið ekið í Seljahverfið þar sem honum hafi verið sleppt út úr bifreiðinni. H kvað að maður sá sem hélt á hnífnum hafi ráðið ferðinni og sá sem mest hafi haft sig í frammi, en hinn maðurinn hafi verið mjög ósjálfstæður og virst mjög taugastrekktur.
Í skýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 17. maí 2004 kemur fram að lögð hafi verið fram kæra vegna þjófnaðar á bifreiðinni VB-[...], bílaleigubifreið, sem staðið hafi á bílastæði Flugfélags Íslands. Lyklar að bifreiðinni voru geymdir í ólæstri skúffu við afgreiðsluborð flugfélagsins.
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 20. maí 2004 bar ákærði, A, að ákærði, G, hefði hringt í hann 17. maí 2004 og spurt hvort ákærði, hefði áhuga á að kaupa af honum flatan tölvuskjá. Skömmu síðar hafi meðákærði, G, komið til ákærða, A, með tvo 17” tölvuskjái og stóran plasma sjónvarpsskjá og hafi ákærði, G, spurt hvort meðákærði, A, gæti geymt þessa hluti. Hafi ákærði gert það. Hafi þeir samið um að ákærði, A, greiddi 35.000 krónur fyrir annan tölvuskjáinn og hafi hann greitt ákærða, G, 5.000 krónur inn á umsamda upphæð. Hafi ákærði, A, talið að kaupverð nýs tölvuskjás væri um 60.000 krónur. Kvað ákærði, A, að sér hefði ekki verið ljóst að um þýfi var að ræða.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákæruliður 1.
Þáttur ákærða, G.
Ákærði hefur játað þeirri háttsemi sem í ákærulið þessum greinir. Hann er því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem er í ákæru réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Þáttur ákærða, Þorvaldar.
Ákærði, Þorvaldur, hefur játað þeirri háttsemi sem í ákærulið þessum greinir. Hann er því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem er í ákæru réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákæruliður 2.
Þáttur ákærða, G.
Ákærði, G, hefur játað þeirri háttsemi sem í ákærulið þessum greinir. Hann er því sakfelldur fyrir þá háttsemi. Ákærði hefur hins vegar mótmælt því að háttsemi hans verði heimfærð til 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi um þennan ákærulið.
Ákærði, Þorvaldur, kvað H hafa verið að þrífa í húsnæði Flugfélags Íslands umræddan morgun er ákærðu bar að. Ákærðu hafi sagt H að setjast niður og fá sér sígarettu og slappa af og sitja kyrr. Á þeim tímapunkti hafi meðákærði, G, haft brauðhníf í hendi og gæti vel verið að H hafi séð hnífinn en hann hafi ekki verið notaður til að ógna H. H hafi aðstoðað við að skrúfa niður plasmaskjá og hjálpað ákærðu að bera þýfið í bílinn. H hafi virst rólegur og ekki reynt að flýja. H hafi farið í bílinn með meðákærða, G, af fúsum og frjálsum vilja. Ákærði kvað G hafa haldið á hnífnum og haft hann með fram síðunni, en hann hafi ekki beitt honum á einn eða annan hátt.
Vitnið, H, kvaðst hafa verið að vinna umræddan morgun í húsnæði Flugfélags Íslands. Hann hafi hitt ákærðu í litlu herbergi þar um fjögurleytið um morguninn. Ákærðu hafi verið með grímur eða hettur fyrir andlitinu og hafi annar þeirra verið með hníf, sem hann hafi sýnt vitninu. Vitnið gat ekki lýst því hvernig hnífnum hafi verið beitt, en kvað að ákærði hefði haft hann innanklæða mest allan tímann. Vitnið kvað að á tímabili hafi því fundist að því væri ógnað. Spurt um hvort vitnið hefði getað flúið, kvað vitnið að hægt hefði verið að reyna það, en vitnið kvaðst ekki hafa vitað hvernig það hefði endað, þar sem vitnið hafi ekki vitað hvort þriðji maður væri staddur úti. Spurt um hvort vitnið hefði verið hrætt um að hnífnum yrði beitt, kvað vitnið já við því og kvaðst vitnið hafa getað átt von á hverju sem var. Vitnið kvaðst hafa aðstoðað ákærðu við að ná niður skjá af vegg. Hann hafi farið með öðrum ákærða í annað hús til þess að ná í verkfæri til þess. Vitnið kvað þýfið hafa verið flutt í bifreið sem stóð fyrir utan. Vitnið kvað að sér hefði þótt öruggast að fara með ákærða, G, í bifreiðinni. Vitnið kvað ákærðu hafa verið í þess konar aðstöðu gagnvart vitninu, að sér hefði þótt það vænlegast, svo að ekkert færi úr böndunum. Vitnið kvað það rétt sem eftir vitninu er haft í lögregluskýrslu, að ákærði, G, hafi stýrt aðgerðum þessum, en meðákærði, Þorvaldur, hafi virst ósjálfstæðari og taugatrekktari. Vitnið kvaðst ekki hafa tekið þessa atburði inn á sig eftir þetta og þessir atburðir hefðu ekki haft sálræn eftirköst.
Vitnið kvað að framburður í lögregluskýrslu sem vitnið gaf í upphafi rannsóknar málsins, væri rétt eftir vitninu hafður.
Vitnið, Páll Ásgeirsson geðlæknir, kvaðst fyrst hafa haft afskipti af ákærða, G, fyrir nokkuð löngu síðan, en það hafi verið vegna ýmiss konar vandræða í skóla. Vitnið kvað vanda G vera þann að hann hafi verið töluvert uppreisnargjarn á ýmsan hátt og hafi haft gaman af því að storka umhverfi sínu. Vitnið kvað ákærða hafa fengið lyf til þess að stilla ofvirkni, en vitnið kvaðst ekki vera visst um að ákærði hafi verið haldinn ofvirkni. Vitnið kvaðst hafa hitt ákærða nýverið og kvað vitnið að sér virtist ýmislegt hafa breyst í fari hans og að sér virtist að miðaði í rétta átt.
Niðurstaða.
Ákærði, G, hefur játað þeirri háttsemi sem í ákærulið þessum greinir, en mótmælt því að háttsemi hans eigi undir 226. gr. almennra hegningarlaga.
Með framburði vitnisins H, sem og framburði meðákærða, Þorvaldar, er sannað að ákærði, G, hélt á hnífi er þeir hittu fyrst H á flugstöðinni. Hafi ákærði, G, sagt H að vera rólegur. H bar fyrir dómi að honum hefði á tímabili fundist að honum væri ógnað og að hann hefði ekki vitað hvernig þessu lyki, ef hann hefði reynt að flýja. Þá kvaðst H hafa verið hræddur um að hnífnum yrði beitt og hafi hann átt von á hverju sem var. Hann hafi metið aðstæður svo að best væri að hlýða og því hafi hann farið með ákærða, G, í bifreiðinni.
Þegar litið er til þeirra aðstæðna sem vitnið H hefur lýst fyrir dómi, að hann hafi verið einn í mannlausri flugstöðvarbyggingunni, andspænis tveimur mönnum, sem höfðu hulið andlit sitt, og annar þeirra, ákærði, G haldið á hnífi, og ákærðu báðir sagt honum fyrir verkum, er trúverðugur sá framburður vitnisins að það hafi talið vænlegast að hlýða og reyna ekki að komast undan, hvorki þegar vitnið var í flugstöðvarbyggingunni, né þegar vitnið fór í bifreið ákærða, G. Í þeirri háttsemi ákærða, G, sem lýst er í ákæru og ákærði hefur játað, felst frelsissvipting og er háttsemi ákærða, G, réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Þáttur ákærða, Þorvaldar.
Ákærði játaði þá háttsemi sem í ákærulið þessum greinir við þingfestingu málsins, en við aðalmeðferð málsins dró ákærði játningu sína að hluta til baka og kvaðst aldrei hafa ógnað H með hnífi og neitaði því að hafa svipt H frelsi. Hann kvaðst hafa hitt H í húsnæði Flugfélags Íslands umræddan morgun, en kvaðst ekki hafa svipt hann frelsi. Ákærði kvað H hafa verið að þrífa þegar ákærðu bar að. Ákærðu hafi sagt H að setjast niður og fá sér sígarettu og slappa af og sitja kyrr. Á þeim tímapunkti hafi ákærði, G, haft brauðhníf í hendi og gæti vel verið að H hafi séð hnífinn en hann hafi ekki verið notaður til að ógna H. H hafi aðstoðað við að skrúfa niður plasmaskjá og hjálpað ákærðu að bera þýfið í bílinn. H hafi virst rólegur og ekki reynt að flýja. H hafi farið í bílinn með meðákærða, G, af fúsum og frjálsum vilja og ákærði kvaðst ekki hafa átt neinn þátt í því að fá H inn í bifreið meðákærða, G. Ákærði kvaðst ekki hafa verið með hníf, að því er ákærði muni. Ákærði kvað meðákærða, G, hafa haldið á hnífnum og haft hann með fram síðunni, en hann hafi ekki beitt honum neitt. Er borinn var undir ákærða framburður hans í lögregluskýrslu frá 18. maí 2004, þar sem ákærði segir að þeir G hafi skriðið inn um glugga og þegar þeir hafi séð starfsmanninn hafi þeir skipað honum að setjast niður, sem hann hafi gert, kvað ákærði þar rétt eftir sér haft. Þá kvað ákærði rétt eftir honum haft í skýrslunni, þar sem hann segir að þeir hafi ákveðið að nota hnífinn til þess að leggja áherslu á orð sín við starfsmanninn. Spurður um þann framburð að þeir G hafi skipst á að nota hnífinn, kvað ákærði það geta verið rétt eftir honum haft, en kvaðst þó ekki muna þetta vel. Þá kvað hann rétt eftir sér haft að H hafi verið tekinn með í bifreiðina til að koma í veg fyrir að hann hringdi á lögregluna. Ákærði kvað hnífinn aldrei hafa verið notaðan til að ógna með, en framburður hans fyrir dómi var mjög óljós um hvort hann notaði hnífinn, eða hvort meðákærði, G, notaði einungis hnífinn. Hann kvaðst ekki muna þetta vel nú, þar sem langt sé um liðið og hann hafi verið í mikilli neyslu á þeim tíma er atburðir áttu sér stað. Þá kvaðst ákærði einnig hafa verið í neyslu er hann gaf skýrslu sína hjá lögreglu.
Vitnið, Aðalsteinn Aðalsteinsson rannsóknarlögreglumaður, kvaðst hafa komið að rannsókn málsins og hafi hann tekið skýrslur af ákærða, Þorvaldi, á rannsóknarstigi.
Vitnið kvað ákærða hafa verið nokkuð stöðugan og kurteisan við yfirheyrsluna. Hann hafi í fyrstu þrætt fyrir að hafa verið þarna að verki og sagt að hann hefði verið hjá tilgreindri stúlku. Daginn eftir hafi hann breytt þeim framburði sínum og játað aðild sína að þessu máli. Vitnið kvað rétt eftir ákærða haft í skýrslunni og það orðalag sem viðhaft er í skýrslunni, sé haft eftir ákærða sjálfum.
Bornar voru undir vitnið lögregluskýrslur sem vitnið tók, frá 17. maí 2004, 18. maí 2004, 12. júní 2004 af ákærða Þorvaldi og 20. maí 2004 af ákærða A. Vitnið staðfesti að hafa tekið skýrslurnar og að rétt væri eftir ákærðu haft í skýrslunum.
Niðurstaða.
Ákærði, Þorvaldur, hefur neitað að hafa gerst sekur um frelsissviptingu H og kvaðst aldrei hafa ógnað H með hnífi.
Sannað er með framburði ákærða sjálfs í lögregluskýrslu, sem hann staðfesti fyrir dómi að væri rétt eftir honum hafður, að ákærðu hefðu skipað H að setjast niður, sem H hefði gert, og að ákærði og meðákærði, G, hafi ákveðið að nota hníf til þess að leggja áherslu á orð sín. Ákærði kvaðst þó ekki viss um að rétt væri eftir honum haft að þeir G hafi skipst á að nota hnífinn og af framburði vitnisins, H, verður ráðið að aðeins annar ákærðu hafi verið með hníf. Því er ekki sannað, gegn neitun ákærða og með hliðsjón af framburði vitnisins H að ákærði hafi ógnað H með hnífi. Við mat á því hvort önnur háttsemi ákærða samkvæmt ákærulið 2 teljist sönnuð, verður að líta til þess að H stóð umrætt sinn í mannlausri flugstöðvarbyggingu, andspænis tveimur mönnum, sem höfðu hulið andlit sitt, og annar þeirra, ákærði, G hélt á hnífi. Ákærðu sögðu og H fyrir verkum, sem taldi sér vænlegast að hlýða fyrirmælum og reyndi ekki að flýja af vettvangi. Þótt sannað sé með framburði vitnisins, H, að meðákærði, G, hafi verið sá sem stýrði aðgerðum og hafði sig meira í frammi, er í ljósi framangreinds sannað að ákærði, í félagi við meðákærða, G, svipti H frelsi og hélt honum nauðugum eins og greinir í ákæru og að H fór nauðugur í bifreiðina VB-[...]. Ákærði er því sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem er réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákæruliður 3.
Ákærði neitaði því að hafa gerst sekur um nytjastuld eins og greinir í ákæru. Hann kvaðst hins vegar hafa fundið lykla að bifreiðinni í skúffu í herbergi bílaleigudeildarinnar í Flugfélaginu og ekið bifreiðinni að dyrum Flugfélagsins. Ákærði kvaðst, ásamt ákærða, G og H, hafa sett þýfið í bifreiðina. Ákærði kvaðst hafa komið á bifreið sinni á vettvang ásamt ákærða, G. Ákærði kvaðst hafa hitt G aftur í Krummahólum, en þá hafi G verið á hinni stolnu bifreið. Ákærði kvað bifreiðina hafa verið geymda í bílskýli í Krummahólum, en hann hafi ekki verið með meðákærða, G, þegar G gekk frá bifreiðinni þar. Spurður um svohljóðandi framburð sinn fyrir lögreglu 18. maí 2004: ,,Ég hélt áfram að athuga með tölvuskjái og fór einnig í að reyna að útvega bifreið sem við gætum stolið” kvað ákærði að rétt væri eftir sér haft. Þá var ákærði spurður um svohljóðandi framburð sinn í skýrslunni ,,Ég tók bíllyklana og fór í bílastæðahorn og fann þar bifreiðina VB-[...]. Ég færði bifreiðina að innganginum og bárum við síðan þýfið að bílnum.” Kvað ákærði þetta rétt eftir sér haft í skýrslunni. Spurður um svohljóðandi framburð sinn í skýrslunni: ,,Ástæðan fyrir að ég tók bílaleigumiðann úr glugganum var að við vildum koma í veg fyrir að bíllinn myndi þekkjast,” kvað ákærði rétt eftir sér haft.
Meðákærði, G, kvað ákærða, Þorvald, hafa átt hugmyndina að því að taka bifreiðina VB-[...] ófrjálsri hendi. Ákærði, Þorvaldur, hafi fundið lykla bifreiðarinnar í skúffu í flugskýlinu og náð í bifreiðina. Þeir hafi svo borið þýfið saman út í bíl, ásamt H. Þá kvað ákærði, G, að þeir Þorvaldur hafi tekið bílaleigumiða af bifreiðinni. Meðákærði, G, kvaðst hafa ekið bifreiðinni í Krummahóla, en ákærðu hafi sammælst um að hittast þar.
Niðurstaða.
Sannað er með framburði ákærða, Þorvaldar sjálfs, að hann tók bíllykla úr skúffu í húsnæði Flugfélags Íslands, fann bifreiðina sem lyklarnir gengu að og ók bifreiðinni að húsnæði flugfélagsins. Hann bar þýfi úr húsnæðinu út í bifreiðina ásamt meðákærða. Meðákærði, G, ók síðan þýfinu í hinni stolnu bifreið í Breiðholtið, en ákærðu höfðu sammælst um að hittast þar á ákveðnum stað. Með framangreindu er sannað að báðir ákærðu höfðu not bifreiðarinnar eins og greinir í ákæru og verða báðir ákærðu sakfelldir fyrir þá háttsemi sem greinir í ákærulið þessum, sem er réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákæruliður 4.
Ákærði, G, hefur játað þeirri háttsemi er greinir í þessum ákærulið og verður hann sakfelldur fyrir hana. Er háttsemi hans réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákæruliður 5.
Fyrir dómi bar ákærði, A, að hann hafi ekki vitað að hlutir þeir sem greinir í ákæru hafi verið þýfi. Hann kvað meðákærða, G, hafa hringt í sig morgun einn og spurt hvort hann hefði áhuga á að kaupa flatan tölvuskjá og geyma fyrir sig plasmaskjá. Ákærði kvaðst hafa verið nýbúinn að fá sér tölvu og því hafi hann slegið til. Þeir hafi hist að Vesturvör 27, Kópavogi. Meðákærði, G, hafi einnig haft meðferðis sjónvarp, sem hann hafi beðið ákærða að geyma fyrir sig og hafi ákærði gert það. Meðákærði, G, hafi seinna sótt sjónvarpið með einhverjum strákum sem ákærði hafði aldrei séð. Ákærði kvaðst hafa greitt 5.000 krónur inn á tölvuskjáinn. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað um gangverð á svona flatskjám, en grunaði að það væri um 60.000 krónur.
Ákærði kvaðst ekki þekkja meðákærða, G, vel, en kvaðst þekkja hann í gegnum ,,Gunna” félaga sinn. Hann kvaðst hafa verið búinn að þekkja hann í um mánuð þegar meðákærði, G, kom með þessa hluti til hans. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að meðákærði, G, væri í afbrotum, en kvaðst hafa vitað að hann væri í neyslu. Ákærði kvað ekki algengt að menn byðu sér hluti til sölu, en það kæmi fyrir þar sem hann væri í bílabraski.
Ákærði kvaðst hafa geymt fyrir meðákærða, G, plasmaskjáinn, þar sem meðákærði hafi sagt að hann væri að reyna að fá annað geymslupláss. Ákærði hafi ekkert hugleitt, að maður sem hann þekkti ekki mikið, kæmi til hans og bæði hann að geyma fyrir sig plasmaskjá, sem metinn væri á mörg hundruð þúsund krónur. Borinn var undir ákærða framburður meðákærða, Þorvaldar, á rannsóknarstigi, í lögregluskýrslu frá 12. júní 2004, þar sem meðákærði, Þorvaldur, tjáði lögreglu að hann teldi að meðákærði, G, hafi fengið greitt fyrir tölvuskjáinn frá ákærða, A með um 3 grömmum af hvítu efni, líkast til amfetamíni. Kvað ákærði þennan framburð meðákærða, Þorvaldar, ekki réttan.
Meðákærði, G, kvað ákærða, A, hafa keypt af sér tölvuskjá og geymt fyrir sig plasmaskjá, en kvaðst þó muna mjög óljóst eftir þessu. Hann kvað meðákærða, Þorvald, hafa farið með sér í Kópavog til ákærða, A, en kvaðst ekki vita hvers vegna þeir hafi snúið sér til hans með þýfið. Meðákærði, G, kvaðst ekki þekkja ákærða, A, vel og kvaðst ekki muna hvers vegna hann hafi talið að hann gæti geymt þýfið þar. Þá kvaðst ákærði ekki muna hvort komið hafi til tals að þetta væri þýfi.
Undir meðákærða, G, var borin lögregluskýrsla sem meðákærði, Þorvaldur, gaf á rannsóknarstigi 12. júní 2004, þar sem haft er eftir Þorvaldi að G hafi fengið greitt hjá ákærða, A, með um þremur grömmum af hvítu efni. Kvað þá meðákærði, G, það geta stemmt að hann hafi fengið greitt hjá ákærða, A, með hvítu efni, einhvern tíma eftir þetta, en hann kvaðst muna þetta mjög óljóst. Meðákærði, G, kvaðst hafa verið í mikilli neyslu á þessum tíma, þannig að atburðarás sé í mikilli þoku. Ákærði kvaðst muna mjög lítið eftir því hvers vegna meðákærði, A, keypti flatskjáinn eða hvenær hann keypti hann. Þá kvaðst hann ekki muna ljóst eftir því hvernig meðákærði, A, greiddi fyrir hlutina, en kvað hann líklega hafa greitt fyrir hann með þessu hvíta efni, sem áður var minnst á. Þó kvaðst ákærði muna mjög óljóst eftir þessu.
Meðákærði, Þorvaldur, kvaðst ekkert hafa haft að gera með ráðstöfun þessara muna. Hann kvaðst ekki þekkja ákærða, A, og ekki vita hvort farið hefði verið með einhverja muni til hans.
Niðurstaða.
Ákærði, A, kvaðst fyrir dómi ekki hafa vitað að muna þeirra sem í ákæru greinir hefði verið aflað með auðgunarbroti, en hann hefur viðurkennt að hafa geymt umræddan plasmaskjá fyrir meðákærða, G, og keypt tölvuskjá af honum. Með öllu er óljóst hvernig greitt var fyrir tölvuskjáinn, þar sem framburður þeirra G og A stangast á um það. Með framburði þeirra ákærðu, A og G, er sannað að þeir þekktust lítið áður en meðákærði, G, kom til ákærða, A, og bað hann um að geyma fyrir sig tilgreinda hluti. Ákærði, A, kvað meðákærða, G, einnig hafa haft meðferðis sjónvarp, sem hann hafi sótt skömmu síðar. Ákærði, A, kvaðst hafa vitað að meðákærði, G, var í neyslu fíkniefna á þessum tíma, en kvaðst ekki hafa vitað að hann væri í afbrotum. Ákærði kvaðst ekkert hafa hugleitt, hvers vegna maður sem hann þekkti ekki mikið, kæmi til hans og bæði hann að geyma fyrir sig plasmaskjá, sem metinn væri á mörg hundruð þúsund krónur, sjónvarp og tölvuskjái. Þegar litið er til þess sem fram er komið í málinu um hversu lítið þeir þekktust, ákærði og meðákærði, G, og þess að ákærði, A, tók að sér að geyma fyrir meðákærða mjög mikil verðmæti og keypti af meðákærða tölvuskjá á verði, sem samkvæmt framburði ákærðu er mjög á reiki, er ótrúverðugur sá framburður ákærða að honum hafi ekki verið ljóst að um þýfi væri að ræða. Er því hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákærulið 5 greinir og er hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákæra frá 12. október 2004.
[...]
Refsiákvarðanir.
Ákærði, A.
[...]
Ákærði, G.
[...]
Ákærði, Þorvaldur.
Ákærði, Þorvaldur, er fæddur í maí 1981. Samkvæmt sakavottorði ákærða gekkst hann undir greiðslu þriggja sekta, samtals að fjárhæð 120.500, 22. júlí 1999, vegna fíkniefnalagabrota. Þá var ákærði dæmdur 17. janúar 2000 í 3 mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára fyrir brot gegn 244. gr. og 245. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Ákærði hlaut 4 mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundinn í 2 ár, 21. desember 2000, fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga og annan dóm 19. desember 2001, 5 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 1 ár, fyrir brot gegn 244., 1. mgr. 259. gr. og 20. gr., sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1988 og voru báðir síðastgreindir dómar hegningarauki við dóminn frá 17. janúar 2000. Ákærði gekkst undir greiðslu 28.000 króna sektar 2. október 2002 vegna brota gegn ávana- og fíkniefnalögum. Ákærði rauf skilorð dóms frá 19. desember 2001 og hlaut 6 mánaða fangelsisdóm, 21. nóvember 2002, skilorðsbundinn í 2 ár, fyrir þjófnað. Ákærði gekkst undir greiðslu 50.000 króna sektar 13. október 2003 fyrir umferðarlagabrot og var sviptur ökurétti í 4 mánuði frá 13. október 2003. Þá gekkst ákærði undir greiðslu 60.000 króna sektar 13. ágúst 2004 fyrir umferðarlagabrot og var sviptur ökurétti í 2 mánuði frá 13. ágúst 2004. Síðast hlaut ákærði dóm 9. mars 2005, 100.000 króna sekt fyrir brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Með brotum þeim sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu hefur hann rofið skilorð 6 mánaða fangelsisdómsins frá 21. nóvember 2002. Ber því að taka upp dóminn og gera ákærða refsingu fyrir bæði málin samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga og tiltaka hana samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga. Jafnframt ber að ákvarða refsingu með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga, þar sem brot ákærða sem hann hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu eru öll framin fyrir uppkvaðningu dóms frá 9. mars sl. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði hefur áður gerst sekur um auðgunarbrot. Þá hefur hann áður rofið ákvæði skilorðsdóms. Einnig ber að líta til þess að brot ákærða eru framin í félagi við annan og brot ákærða gegn 226. gr. almennra hegningarlaga er alvarlegt. Með vísan til framangreinds er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 10 mánuði, en vegna sakarferils ákærða kemur skilorðsbinding refsingar ákærða ekki til greina.
Bótakröfur.
Samos ehf. hefur gert bótakröfu í málinu á hendur ákærða, G, að fjárhæð 850.000 krónur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi sem var 10. febrúar 2004, en síðan dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Krafan er vegna tapaðra ljósmynda í fartölvu sem stolið var, bókhaldsgagna, forrita og uppsetninga. Kröfufjárhæð er byggð á mati og fylgdu kröfunni engin gögn um raunverulegan kostnað. Kröfunni hefur verið mótmælt af hálfu ákærða, og þess krafist að henni verði vísað frá dómi vegna vanreifunar. Fallist er á með ákærða að krafan sé svo vanreifuð að henni beri að vísa frá dómi, sbr. 5. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991.
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafa gert bótakröfu á hendur ákærða, G, að fjárhæð 105.943 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. vaxtalaga til greiðsludags. Ákærði hefur samþykkt greiðslu kröfu þessarar og verður hann dæmdur til greiðslu hennar.
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafa og gert kröfu á hendur ákærða, G, að fjárhæð 1.489.301 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. vaxtalaga til greiðsludags.
Ákærði hefur krafist þess að kröfunni verið vísað frá dómi vegna vanreifunar. Fallast ber á með ákærða að gögn sem fylgdu kröfunni séu ekki svo glögg sem skyldi og að málflutnings hefði verið þörf um kröfuna. Þar sem hann fór ekki fram og gögn til stuðnings kröfunni eru með fyrrgreindum hætti er kröfu Sjóvár-Almennra trygginga hf., að fjárhæð 1.489.301 krónur, vísað frá dómi, sbr. 5. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991.
Tryggingamiðstöðin hf. hefur gert kröfu á hendur ákærðu, G og Þorvaldi, um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 559.088 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá tjónsdegi til útgáfudags ákæru, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði, G, hefur samþykkt bótaskyldu vegna kröfunnar, en mótmælt bótafjárhæð og talið kröfuna vanreifaða. Ákærði, Þorvaldur, hefur mótmælt kröfunni og talið hana vanreifaða. Málflutnings hefði verið þörf um kröfuna, en þar sem hann fór ekki fram og fallist er á með ákærðu að krafan sé vanreifuð, er henni vísað frá dómi, sbr. 5. tl. 172. gr. laga nr. 19/1991.
Sakarkostnaður.
Ákærði, A.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, sem samtals eru ákveðin 120.000 krónur, en helmingur þeirra greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, Þorvaldur.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði, Þorvaldur, sakarkostnað vegna lögreglurannsóknar að fjárhæð 29.133 krónur, auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.
Ákærði, G.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði, G, sakarkostnað vegna lögreglurannsóknar að fjárhæð 87.399 krónur auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Einars Gauts Steingrímssonar, hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Dagmar Arnardóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.
D ó m s o r ð:
Ákærði, A, sæti fangelsi í 4 mánuði. Ákærði greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, sem samtals eru 120.000 krónur, en helmingur þeirra greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, G, sæti fangelsi í 12 mánuði, en frestað er fullnustu refsivistar ákærða og falli hún niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði greiði sakarkostnað vegna lögreglurannsóknar að fjárhæð 87.399 krónur, auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Einars Gauts Steingrímssonar, hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.
Ákærði, Þorvaldur Magnússon, sæti fangelsi í 10 mánuði. Ákærði greiði sakarkostnað vegna lögreglurannsóknar 29.133 krónur auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.
Ákærði, G, greiði Sjóvá-Almennum hf. 105.943 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. febrúar 2004, en með dráttarvöxtum frá 17. janúar 2005 til greiðsludags.
Bótakröfum Sjóvár-Almennra hf. að fjárhæð 1.489.301 króna, Samos ehf. að fjárhæð 850.000 krónur og Tryggingamiðstöðvarinnar hf. að fjárhæð 559.088 krónur er vísað frá dómi.
Ingveldur Einarsdóttir.