Hæstiréttur íslands
Mál nr. 471/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Veðleyfi
- Ógilding samnings
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júní 2016 en kærumálsgögn bárust réttinum 4. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi veðsetning á eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni [...] og að varnaraðila yrði gert að aflýsa veðskuldabréfi útgefnu 2. febrúar 2006 af eignarhlutanum. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfur sínar verði teknar til greina og varnaraðila gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Mál þetta á rætur að rekja til veðskuldabréfs að fjárhæð 5.000.000 krónur sem B gaf út 2. febrúar 2006 til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Lán samkvæmt veðskuldabréfinu var tryggt með þriðja veðrétti í fasteign A að [...]. Ágreiningslaust er að A áritaði veðskuldabréfið 2. febrúar 2006 um heimild til veðsetningarinnar sem þinglýstur eigandi hinnar veðsettu eignar. Þá liggur fyrir að 7. sama mánaðar undirritaði hann skjal sem bar heitið „Niðurstaða greiðslumats“ þar sem fram kom með áberandi hætti að niðurstaða matsins benti til þess að lántaki gæti ekki efnt skuldbindingar sínar miðað við þáverandi fjárhagsstöðu hans. Loks bera gögn málsins með sér að veðskuldabréfið var afhent til þinglýsingar 9. febrúar 2006 og mun lánið hafa verið greitt út 13. sama mánaðar að henni lokinni. A lést [...]. júlí 2015 og fer dánarbú hans sem nú er til opinberra skipta með aðild að málinu.
Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis sem varnaraðili leiðir rétt sinn frá var aðili að samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001. Í 1. grein samkomulagsins segir að markmið þess sé að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga en þess í stað verði lánveitingar miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingar hans. Í 2. grein segir að samkomulagið taki bæði til allra sjálfskuldarábyrgða og tilvika þegar einstaklingur gefur leyfi til þess að veðsetja fasteign sína til tryggingar skuldum annars manns. Er ágreiningslaust með aðilum að samkomulagið eigi við í málinu.
Í 1. mgr. 3. greinar samkomulagsins er kveðið á um skyldu fjármálafyrirtækis til að meta greiðslugetu greiðanda nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar er fjármálafyrirtæki þó ávallt skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemur meira en 1.000.000 krónur. Í 1. mgr. 4. gr. er mælt fyrir um skyldu fjármálafyrirtækis til að veita þeim sem gengst í ábyrgð fyrir annan mann eða heimilar veðsetningu til tryggingar skuldum hans tilteknar upplýsingar áður en undirritun fer fram. Samkvæmt 3. mgr. sama ákvæðis skal tryggt að ábyrgðarmaður geti kynnt sér greiðslumat áður en hann gengst í ábyrgðina enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Bendi niðurstaða greiðslumats til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar, en ábyrgðarmaður óskar eftir að lán verði veitt engu að síður, skal hann staðfesta það skriflega.
Eins og áður greinir áritaði A umrætt veðskuldabréf 2. febrúar 2006 um að hann veitti veðheimild í fasteign sinni að [...]. Í undirskrift hans á veðskuldabréfið var þess einungis getið að skilyrðum 64. gr., sbr. 60. gr., hjúskaparlaga nr. 31/1993 hafi verið fullnægt til veðsetningar án samþykkis maka, en ekkert kom fram um að hann gerði sér grein fyrir í hverju ábyrgð hans sem veðsali fælist. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis sinnti ekki þeirri skyldu sinni samkvæmt 3. mgr. 4. greinar samkomulagsins frá 1. nóvember 2001 að tryggja að A gæti kynnt sér niðurstöðu greiðslumatsins áður en hann samþykkti veðsetningu eignar sinnar. Þrátt fyrir þennan annmarka við lánveitinguna verður ekki horft fram hjá því að A samþykkti niðurstöðu um mat á greiðslugetu skuldara fimm dögum eftir undirritun sína á veðskuldabréfið. Á því skjali staðfesti hann jafnframt að hafa kynnt sér bækling um sjálfskuldarábyrgðir og lánsveð auk þess sem hann undirritaði annað skjal um „Ábendingar vegna lánsveðs.“ Mátti honum þá vera ljóst í hverju ábyrgð hans sem veðsala fólst en hreyfði ekki athugasemdum. Verður því að leggja til grundvallar að með undirskrift sinni á niðurstöðu greiðslumatsins 7. febrúar 2006 hafi A veitt eftirfarandi samþykki sitt fyrir veðsetningunni og var með því uppfyllt skilyrði 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins um að veðsali staðfesti skriflega ef hann óskaði eftir að lán yrði veitt þrátt fyrir að niðurstaða greiðslumats benti til þess að greiðandi gæti ekki efnt skuldbindingar sínar. Samkvæmt þessu og að því gættu að A hafði fyrst níu árum eftir að hann veitti samþykki sitt fyrir veðsetningunni uppi andmæli gegn gildi hennar verður ekki fallist á að ósanngjarnt sé af hálfu varnaraðila eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig veðleyfið, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, dánarbú A, greiði varnaraðila, Arion banka hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2016.
Máli þessu var beint til dómsins með bréfi skiptastjóra í dánarbúi A, samkvæmt heimild í 125. gr. skiptalaga nr. 20/1991.
Dánarbúið er sóknaraðili málsins. Varnaraðili er Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík. Málið var tekið til úrskurðar 18. maí sl.
Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi veðsetning á eignarhluta dánarbúsins í fasteigninni [...], til tryggingar skuld B samkvæmt veðskuldabréfi að höfuðstól 5.000.000 króna, dags. 2. febrúar 2006, nú á 4. veðrétti. Sóknaraðili krefst þess einnig að varnaraðila verði gert að aflýsa veðskuldabréfinu af eigninni innan 15 daga frá dómsuppkvaðningu. Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Varnaraðili krefst einnig málskostnaðar.
A lést þann 12. júlí 2015 og er dánarbú hans til opinberra skipta. Meðal eigna í búinu er fasteignin [...].
Lögerfingjar eru systkini hins látna, en hann átti ekki börn. Ágreiningur er um erfðarétt sambýliskonu hins látna, sem fjallað er um í öðru máli hér fyrir dóminum, en þar reynir á gildi erfðaskrár hins látna.
Sonur sambýliskonu hins látna, B, gaf þann 2. febrúar 2006 út veðskuldabréf til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis að höfuðstól 5.000.000 króna, til 40 ára. Bréfið var tryggt með veði í [...] og hafði hinn látni veitt heimild til veðsetningarinnar með áritun sinni á bréfið. Bréfið er nú í eigu varnaraðila. Bréfið var afhent til þinglýsingar 9. febrúar 2006.
Hinn látni hafði auk skuldabréfsins undirritað tvö skjöl. Annars vegar skjal sem bar fyrirsögnina Niðurstaða greiðslumats, hins vegar skjal með fyrirsögninni Ábending vegna lánsveðs. Skjöl þessi voru undirrituð 7. febrúar 2006, fimm dögum eftir að skuldabréfið var gefið út.
Í fyrrnefnda skjalinu sagði að niðurstaða greiðslumats benti til þess að lántakinn, B, gæti ekki efnt skuldbindingar sínar miðað við þáverandi fjárhagsstöðu. Þá segir í skjalinu að veðsali staðfesti með undirritun sinni að hann hafi kynnt sér bækling um sjálfskuldarábyrgðir og lánsveð.
A leitaði til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki með bréfi dags. 25. júní 2015. Byggði hann á Samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 og krafðist hann þess að veðréttur í fasteign hans yrði ógiltur. Varnaraðili mótmælti kröfum hans.
Nefndin kvað upp úrskurð þann 9. október, en þá var A látinn. Í úrskurðinum er fjallað um Samkomulag það sem áður greinir, en Sparisjóðurinn var aðili að samkomulaginu. Segir í úrskurðinum:
Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins skal tryggt að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Ef niðurstaða greiðslumats bendir til að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar en ábyrgðarmaður óskar eftir að lán verði veitt engu að síður, skal hann staðfesta það skriflega.
Í máli þessu liggur fyrir skjal sem ber heitið „Niðurstaða greiðslumats“. Á skjalinu kemur fram að niðurstaða greiðslumats bendi til þess að lántakandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar miðað við núverandi fjárhagsstöðu. Undirskrift veðsala er dagsett þann 7. febrúar 2006 en útgáfudagur umrædds skuldabréfs var 2. febrúar 2006. Í 3. mgr. 4. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga kemur fram að tryggt skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina. Veðsali skrifaði undir skuldabréfið þann 2. febrúar 2006 og gekkst þar með í ábyrgðina þann dag. Fékk varnaraðili við þetta tímamark í hendur loforð veðsala fyrir því að hann gæti gengið að fasteigninni vegna skuldarinnar. Skiptir í því samhengi ekki máli þótt skuldabréfinu hafi ekki verið þinglýst fyrr en 10. febrúar 2006 og þetta loforð þá öðlast réttarvernd gagnvart þriðja manni. Ekki skiptir heldur máli að þessu leyti hvenær andvirði skuldabréfsins var greitt út frá lánveitanda til lántaka, því veðsalinn hafði þegar skuldbundið sig gagnvart lántakanum og sett eign sína að veði á því tímamarki.
Það verklag varnaraðila að afla fyrst ábyrgðarinnar, en senda veðsala síðar til undirritunar skjal með forprentaðri yfirlýsingu hans um að hann óskaði eftir að lána veð til tryggingar láninu þrátt fyrir neikvæða niðurstöðu greiðslumats, var til þess fallið að fá hann til að gangast í ábyrgðina. Þetta verklag var í brýnni andstöðu við þær skuldbindingar sem fjármálafyrirtæki, þ.m.t. forveri varnaraðila, höfðu gengist undir með fyrrnefndu samkomulagi, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki nr. 102/2012 150/2012, 165/2012 auk fleiri síðari úrskurða. Ekki liggja fyrir gögn sem staðfesta að veðsala hafi verið gefinn kostur á að hætta við veðsetninguna vegna umrædds skuldabréfs áður en hann skrifaði undir skjalið „Niðurstaða greiðslumats“, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar um viðskipti nr. 41/2012 og 48/2012. Ekki liggur fyrir hvenær veðsala varð fyrst ljóst að með réttu hefði átt að kynna honum greiðslumat á skuldaranum með tryggilegum hætti, áður en hann samþykkti veðsetningu fasteignarinnar, og að þetta kynni að hafa áhrif á greiðsluskyldu hans. Í þessu ljósi telur nefndin sig ekki geta fallist á að veðsali eða sóknaraðili hafi sýnt af sér tómlæti sem leiði til þess að ábyrgðaryfirlýsing veðsala verði látin standa. Í ljósi framangreinds og með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga er fallist á kröfu sóknaraðila um niðurfellingu veðsetningar eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni fyrir umræddu veðskuldabréfi.
Varnaraðili tilkynnti sóknaraðila og Fjármálaeftirlitinu með bréfi, dags. 19. október 2015, að hann sætti sig ekki við niðurstöðu nefndarinnar. Vísaði hann til 2. mgr. 12. gr. samþykkta fyrir úrskurðarnefndina.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir á því að bæði Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og varnaraðili, Arion banki, hafi verið bundnir af Samkomulaginu frá 2001. Sparisjóðurinn hafi brotið gegn samkomulaginu með því að meta ekki greiðslugetu skuldara og kynna það veðsala, áður en hann veðsetti fasteign sína. Því sé það ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera veðsetninguna fyrir sig. Beri að fella hana úr gildi samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986.
Sóknaraðili telur að bæði hafi verið brotið gegn 3. mgr. 3. gr. Samkomulagsins með því að meta ekki greiðslugetu áður en eignin var veðsett og 4. gr. með því að kynna ekki upplýsingar um ábyrgðir. Fram komi skýrt að tryggt skuli að ábyrgðarmaður kynni sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gangist í ábyrgð. A hafi veðsett fasteign sína nokkrum dögum áður en honum var kynnt niðurstaða greiðslumatsins. Engin gögn liggi fyrir um að A hafi verið gefinn kostur á að hætta við veðsetninguna eftir að honum var kynnt matið.
Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi ekki öðlast betri rétt en Sparisjóðurinn átti og verði að sæta öllum sömu mótbárum.
Sóknaraðili byggir enn fremur á því að varnaraðili sé bundinn af niðurstöðu nefndarinnar samkvæmt 12. gr. samþykkta hennar. Undantekningarregla 2. mgr. 12. gr. eigi ekki við hér, en niðurstaðan leiði ekki til verulegra útgjalda fyrir varnaraðila.
Sóknaraðili vísar loks til 39. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 um heimild til að aflýsa skjali.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili byggir á því að það sé meginregla að gerða samninga skuli halda. Sóknaraðili beri sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrðum ógildingarreglna sé fullnægt.
Varnaraðili byggir á því að greiðslumat hafi verið unnið vegna umræddrar lánveitingar. Hann mótmælir því að það valdi ógildingu þótt veðskuldabréfið hafi verið dagsett 2. febrúar, á fimmtudegi, en greiðslumatið þremur virkum dögum síðar. Hann segir að greiðslumatið sé dagsett þann dag sem A hafi undirritað það, en öll skjölin hafi verið útbúin saman. Kveðst hann telja fullvíst að greiðslumatið hafi legið fyrir þegar ritað var undir skuldabréfið. A hafi átt þess kost að kynna sér greiðslugetu lántakans. Byggt er á því að hann hafi skilið greiðslumatið og afleiðingar þess að gangast í ábyrgð fyrir skuldum þriðja manns.
Varnaraðili segir að skuldabréfið hafi verið afhent til þinglýsingar 9. febrúar. Ekkert bendi til þess að vilji A til að gangast í ábyrgðina hafi breyst á þeim tíma. Þá hefði verið auðsótt mál að hætta við veðsetninguna. Hefði hann ekki undirritað greiðslumatið hefði lánið ekki verið veitt.
Varnaraðili byggir á því að skuldbinding A hafi ekki stofnast og orðið virk fyrr en skuldabréfið hafði verið keypt af lántaka og lánsféð greitt út þann 13. febrúar 2006. Þá hafi greiðslumatið legið fyrir. Lánveitandi hafi uppfyllt upplýsingaskyldu sína áður en ábyrgðin varð virk. Varnaraðili segir að ábyrgðarkrafa stofnist ekki nema aðalkrafa stofnist líka. Þá bendir hann á að veðréttur í fasteign öðlist ekki réttarvernd fyrr en skjali hafi verið þinglýst.
Verði ekki fallist á að lánveitandi hafi fullnægt upplýsingaskyldu sinni byggir varnaraðili á því að ekki hafi verið sýnt fram á að ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju að halda veðréttinum að sóknaraðila. Það leiði ekki sjálfkrafa til ógildingar þótt ekki hafi að öllu leyti verið farið eftir Samkomulaginu. Meta verði stöðu aðila og atvik öll heildstætt.
Varnaraðili byggir á því að A heitinn hafi sýnt af sér tómlæti. Nærri tíu ár hafi liðið frá því að hann veðsetti eign sína þar til hann gerði athugasemdir.
Varnaraðili telur sig óbundinn af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Hann hafi tilkynnt afstöðu sína innan frests samkvæmt 2. mgr. 11. gr. samþykkta um nefndina. Hann byggir jafnframt á því að 2. mgr. 12. gr. samþykktanna brjóti gegn ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og stjórnarskrárvörðum rétti varnaraðila til að leita úrlausnar dómstóla um ágreiningsmál. Samþykktirnar hafi ekki næga lagastoð til að útiloka varnaraðila frá því að leita til dómstóla. Varnaraðili vísar einnig til 19. gr. a í lögum nr. 161/2002, sbr. 13. gr. laga nr. 75/2010.
Varnaraðili mótmælir kröfu um að honum verði gert að aflýsa veðskuldabréfinu. Telur hann 15 daga frest tilaflýsingar of skamman. Bendir hann á að áfrýjunarfrestur sé mun lengri og verði að gefa aðilum ráðrúm til að ákveða hvort þeir uni dómi.
Niðurstaða
Ágreiningur aðila var lagður fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að veðréttur varnaraðila í fasteign sóknaraðila væri ógildur. Varnaraðili tilkynnti að hann vildi ekki vera bundinn af þessum úrskurði nefndarinnar. Í 2. mgr. 12. gr. samþykkta fyrir úrskurðarnefndina frá 8. júní 2000 er fjármálafyrirtæki heimilað „að tilkynna ... að það sætti sig ekki við úrskurðinn og muni ekki greiða bætur nema að undangengnum dómi“. Skilyrði er að úrskurður nefndarinnar hafi veruleg útgjöld í för með sér eða hafi fordæmisgildi.
Samþykktir þessar eru settar á grundvelli samkomulags milli viðskiptaráðuneytis, Neytendasamtakanna og Samtaka fjármálafyrirtækja. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. a í lögum nr. 161/2002, sbr. 13. gr. laga nr. 75/2010, er fjármálafyrirtækjum eins og varnaraðila skylt að eiga aðild að nefndinni. Þar sem hér um lögbundna skyldu að ræða verða samþykktir nefndarinnar að vera í samræmi við lög. Sú takmörkun á rétti til að bera mál undir dómstóla sem felst í 2. mgr. 12. samþykktanna er í brýnni andstöðu við þá meginreglu að öllum sé heimilt að leita til dómstóla þegar þeir eiga hagsmuna að gæta, jafnvel þótt hagsmunirnir séu óverulegir, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Að þessu athuguðu verður að hafna þeirri málsástæðu sóknaraðila að varnaraðili sé bundinn af úrskurði nefndarinnar.
Ekki er neitt upplýst um aðdraganda þess að A heitinn veðsetti fasteign sína til tryggingar skuld sem sonur sambýliskonu hans stofnaði til. Málinu var skotið til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt umboði frá honum, en í skjölum málsins kemur hans eigin frásögn hvergi fram. Þá voru ekki leidd nein vitni við meðferð málsins.
Veðskuldabréfið, er eins og áður segir, dagsett 2. febrúar, en A heitinn undirritaði yfirlýsingu um mat á greiðslugetu skuldara bréfsins nokkrum dögum síðar. Ekki er hægt að miða við annað en að dagsetningar skjalanna séu réttar. Með undirritun veðskuldabréfsins hafði A skuldbundið sig og samkvæmt almennum reglum gat hann ekki horfið frá því eftir undirritunina og afhendingu skuldabréfsins til Sparisjóðsins. Raunar er ekki upplýst hvenær skuldabréfið var afhent Sparisjóðnum.
A heitinn undirritaði yfirlýsingu um að hann vildi veðsetja fasteign sína þrátt fyrir niðurstöðu greiðslumatsins. Ekki er hægt að geta sér til hvort hann hefði viljað hverfa frá veðsetningunni eða lét sér greiðslumatið í léttu rúmi liggja. Hann ritaði undir yfirlýsinguna. Síðan liðu rúmlega níu ár uns leitað var til úrskurðarnefndarinnar í umboði hans. Hér er ekki hægt að líta til þess hvort A hafi verið ljóst að gildi veðsetningarinnar væri vafasamt. Með því að una veðsetningunni í öll þessi ár hefur verið sýnt slíkt tómlæti að allar mótbárur um gildi hennar eru glataðar. Verður að hafna öllum kröfum sóknaraðila.
Rétt er að málskostnaður falli niður.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kröfum sóknaraðila, dánarbús A, um að felld verði úr gildi framangreind veðsetning á fasteigninni [...] og að veðskuldabréfinu verði aflýst úr þinglýsingabók, er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.