Hæstiréttur íslands
Mál nr. 262/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 6. júlí 1999. |
|
Nr. 262/1999. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Sturla Þórðarson fulltrúi) gegn Birni Kafka Darrellssyni (Jóhannes Albert Sævarsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að B skyldi sæta gæsluvarðhaldi var staðfestur með vísan til c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júní 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. júlí sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 11. ágúst nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Að virtum gögnum málsins verður á það fallist að skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi eins og því er markaður tími í úrskurði héraðsdómara. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur samkvæmt 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 38. gr. laga nr. 36/1999.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 1999.
Ár 1999, miðvikudaginn 30. júní er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem haldið er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Kristjönu Jónsdóttur héraðsdómara kveðinn upp úrskurður þessi.
Lögreglan hefur krafist þess að kærða, Björn Kafka Darrellsson, kt. 280878-6189, Laugavegi 24, Reykjavík, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 allt til miðvikudagsins 11. ágúst 1999, kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærði hafi verið handtekinn 29. júní 1999 á Miklubraut við Skaftahlíð í Reykjavík vegna gruns um brot á almennum hegningarlögum og umferðarlögum.
Hjá lögreglustjóranum í Reykjavík séu nú til meðferðar eftirgreind 15 mál á hendur kærða:
Mál nr. 010-1999-2142: Kærði sé sakaður um hilmingu með því að hafa þann 27. janúar 1999 haft í fórum sínum geisladiska sem hann hafi vitað að hafi verið stolið, en geisladiskunum hafi verið stolið úr versluninni Máli og menningu við Laugaveg í Reykjavík.
Mál nr. 036-1999-1631: Kærði sé sakaður um að hafa að kvöldi 15. maí 1999 haft í fórum sínum 0,29 g af hassi og 0,78 g af tóbaksblönduðu hassi við Lyngmóa í Garðabæ. Kærði hafi játað brot sitt hjá lögreglu.
Mál nr. 010-1999-11482: Kærði sé sakaður um að hafa sunnudaginn 16. maí 1999 stolið 1944 rétti, að verðmæti um kr. 450, úr versluninni Nýkaup við Eiðistorg á Seltjarnarnesi. Kærði hafi játað brot sitt hjá lögreglu.
Mál nr. 036-1999-1847: Kærði sé sakaður um að hafa 27. maí 1999 tekið bifreiðina PR-064 í heimildarleysi frá Árbæjarlaug við Fylkisveg í Reykjavík og ekið henni án ökuréttinda og að hafa í umrætt sinn tekið úr bifreiðinni geislaspilara, GSM farsíma og peninga úr seðlaveski sem var í bifreiðinni. Mál þetta sé órannsakað.
Mál nr. 010-1999-13349: Kærði sé sakaður um að hafa mánudaginn 7. júní 1999 tekið bifreiðina R-7887 í heimildarleysi frá Heilsugæslustöðinni við Suðurströnd á Seltjarnarnesi og ekið henni án ökuréttinda. Kærði hafi játað brot sitt hjá lögreglu.
Mál nr. 010-1999-13354: Kærði sé sakaður um að hafa mánudaginn 7. júní 1999 tekið bifreiðina PR-478 í heimildarleysi frá Heilsugæslustöðinni við Suðurströnd á Seltjarnarnesi og ekið henni án ökuréttinda. Kærði hafi játað brot sitt hjá lögreglu.
Mál nr. 010-1999-13320: Kærði sé sakaður um að hafa mánudaginn 7. júní 1999 tekið bifreiðina OJ-385 í heimildarleysi frá Umferðarmiðstöðinni við Vatnsmýrarveg í Reykjavík og ekið henni án ökuréttinda og að hafa stolið úr bifreiðinni 4 myndbandsspólum og 8 geisladiskum. Kærði hafi játað þjófnaðinn hjá lögreglu en eftir sé að yfirheyra hann nákvæmar um nytjastuldinn.
Mál nr. 037-1999-2306: Kærði sé sakaður um að hafa þann 7. júní 1999 stolið leðurveski og farsíma úr íþróttahúsi við Dalsmára 5 í Kópavogi. Kærði hafi játað brot sitt hjá lögreglu.
Mál nr. 010-1999-13582: Kærði sé sakaður um að hafa fimmtudaginn 10. júní 1999 stolið 3 langlokum, að verðmæti samtals kr. 702, úr versluninni Nýkaup við Eiðistorg á Seltjarnarnesi. Kærði hafi játað brot sitt á vettvangi fyrir lögreglumönnum.
Mál nr. 010-1999-13706: Kærði sé sakaður um að hafa föstudaginn 1l. júní 1999 haft i vörslum sínum 0.98 g af hassi er hann hafi verið stöðvaður á bifreið á Gullinbrú í Reykjavík. Kærði hafi játað brot sitt hjá lögreglu.
Mál nr. 010-1999-13935: Kærði sé sakaður um að hafa sunnudaginn 13. júní 1999 stolið armbandsúri, GSM síma og kr. 8.000 í peningum þar sem hann hafi verið staddur að Viðarrima 25, Reykjavík. Kærði hafi neitað að hafa framið brot þetta. Mál þetta sé í rannsókn.
Mál nr. 010-1999-14197: Kærði sé sakaður um að hafa miðvikudagínn 16. júní 1999 tekið bifreiðina OK-689 í heimildarleysi og hafa haft í vörslum sínum 5 E-töflur. Kærði hafi játað hjá lögreglu að hafa haft töflurnar í vörslum sínum og eftir sé að yfirheyra hann nánar um nytjastuldinn.
Mál nr. 036-1999-2300: Kærði sé sakaður um að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 23. júní 1999 tekið bifreiðina MK-296 í heimildarleysi frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur í Fossvogi og ekið henni án ökuréttinda. Kærði hafi játað brot sitt hjá lögreglu.
Mál nr. 010-1999-15344: Kærði er sakaður um að hafa þann 28. júní 1999 falsað 2 tékka. Kærði hafi játað brot sín hjá lögreglu.
Mál nr. 010-1999-15338: Kærði sé sakaður um að hafa þriðjudaginn 29. júní 1999 tekið bifreiðina PT-733 í heimildarleysi frá Skeifunni 19 í Reykjavík. Kærði hafi játað brot sitt hjá lögreglu.
Kærði hafi á árinu 1996 tvisvar verið dæmdur fyrir brot á almennum hegningarlögum og umferðarlögum en síðari dómurinn sé hegningarauki við þann fyrri. Ákærði hafi með þessum brotum sínum rofið skilorð samkvæmt dómi uppkveðnum 12. nóvember 1996. Kærði sé atvinnulaus.
Með hliðsjón af framangreindu megi ætla að kærði haldi áfram brotum á meðan málum hans sé ekki lokið, en þeim teljist ekki lokið í skilningi c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrr en dómur hafi gengið í málunum sbr. 106. gr. sömu laga.
Samkvæmt því sem fram hefur komið eru 15 mál til meðferðar hjá lögreglunni í Reykjavík og hefur kærði viðurkennt aðild sína að flestum þeirra. Nokkur hinna meintu brota eru ekki að fullu rannsökuð. Líta ber til þess að brot þau sem kærða eru gefin að sök eru framin á stuttum tíma eða á tímabilinu frá 15. maí til 29. júní sl. Þá liggur fyrir að kærði hefur með brotum þeim sem hann hefur játað rofið skilorð samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 12. nóvember 1996.
Með hliðsjón af brotaferli kærða ber að fallast á að líkur séu á því að hann muni halda áfram afbrotum fari hann frjáls ferða sinna. Ber því með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að taka kröfu Lögreglustjórans í Reykjavík til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, Björn Kafka Darrellsson, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 11. ágúst 1999 kl. 16:00.