Hæstiréttur íslands

Mál nr. 571/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Sönnunarfærsla
  • Aðild
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. janúar 2003.

Nr. 571/2002.

Gunnar B. Guðmundsson

Pétur Alan Guðmundsson

Símon Sigurður Sigurpálsson

Guðmundur Júlíusson

Halldór Kristján Stefánsson

Árni Hauksson

Smári Hilmarsson og

Einar Sveinbjörnsson

(Jóhann Halldórsson hrl.)

gegn

Landsafli hf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Sönnunarfærsla. Aðild. Kæruheimild. Frávísun máls að hluta frá Hæstarétti.

Með hinum kærða úrskurði hafnaði héraðsdómari þeim þætti í beiðni L sem laut að því að skýrsla yrði tekin af sóknaraðilanum G, en tók til greina beiðni L samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991 um skýrslutökur af öðrum sóknaraðilum og tveimur öðrum nafngreindum mönnum. Mál hafði ekki verið höfðað um sakarefnið. Ljóst var að úrskurður, þar sem fallist væri á beiðni um slíka sönnunarfærslu, sætti ekki kæru. Var málinu vísað að þessu leyti sjálfkrafa frá Hæstarétti. Á hinn bóginn naut L heimildar til að kæra niðurstöðu héraðsdóms um að sóknaraðilinn G yrði ekki kvaddur fyrir dóm til skýrslugjafar. Var það talið leiða af lögum um meðferð einkamála, að skýrsla yrði ekki tekin samkvæmt fyrrnefndum kafla laganna fyrir dómi af þeim, sem fyrirsjáanlega yrði aðili að væntanlegu dómsmáli, svo sem stóð á um G. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar þannig staðfest að því er varðaði kæru L.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 11. desember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. desember 2002, þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um að skýrslur yrðu teknar fyrir dómi af sóknaraðilum, öðrum en Gunnari B. Guðmundssyni, án þess að varnaraðili hafi áður höfðað mál. Um kæruheimild vísa sóknaraðilar til b. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þeir krefjast þess að beiðni varnaraðila verði hafnað og honum gert að greiða kærumálskostnað.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 12. desember 2002. Hann krefst þess að fellt verði úr gildi ákvæði hins kærða úrskurðar um að sóknaraðilinn Gunnar B. Guðmundsson verði ekki kvaddur fyrir dóm. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði leitaði varnaraðili með beiðni 28. nóvember 2002 eftir því við Héraðsdóm Suðurlands að þar yrðu teknar skýrslur af sóknaraðilum og tveimur öðrum nafngreindum mönnum vegna sakarefnis, sem nánar var lýst í beiðninni, án þess að mál hafi enn verið höfðað um það. Studdi varnaraðili beiðni sína við ákvæði XII. kafla laga nr. 91/1991. Sóknaraðilar mótmæltu beiðni varnaraðila án þess að séð verði að héraðsdómari hafi þó áður tilkynnt þeim úr hópi sóknaraðila, sem ætla megi af málatilbúnaði varnaraðila að kunni að geta orðið gagnaðilar hans að væntanlegu dómsmáli, um fyrirhugað þinghald, þar sem beiðnin yrði tekin fyrir, sbr. síðari málslið 4. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991. Með hinum kærða úrskurði hafnaði héraðsdómari þeim þætti í beiðni varnaraðila, sem laut að því að skýrsla yrði tekin af sóknaraðilanum Gunnari, en tók beiðnina að öðru leyti til greina.

Samkvæmt f. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara, þar sem synjað er um heimild til að afla sönnunargagna án þess að mál hafi áður verið höfðað. Er ljóst af þessu að úrskurður, þar sem fallist er á beiðni um slíka sönnunarfærslu, sætir ekki kæru, og fær þar engu breytt ákvæði b. liðar 1. mgr. sömu lagagreinar, sem sóknaraðilar vísa eins og áður segir til sem kæruheimildar. Með því að heimild brestur þannig til kæru sóknaraðila, sem auk alls annars var óþörf að því er varðar aðild sóknaraðilans Gunnars að henni, verður málinu vísað að þessu leyti sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Eftir framangreindum f. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 nýtur varnaraðili heimildar til kæru sinnar til að fá hrundið niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að sóknaraðilinn Gunnar verði ekki kvaddur fyrir dóm til skýrslugjafar. Samkvæmt 2. mgr. 78. gr. sömu laga bar varnaraðila í beiðni sinni til héraðsdóms um öflun sönnunargagna að greina skýrlega frá því hverja aðra sú gagnaöflun gæti varðað að lögum. Á því varð verulegur misbrestur í beiðni varnaraðila, sem getur þó engu varðað um afdrif úrskurðar héraðsdómara að því leyti, sem heimild brestur samkvæmt áðursögðu til að kæra hann til Hæstaréttar. Hvað sem því líður getur ekki orkað tvímælis af málatilbúnaði varnaraðila að sóknaraðilinn Gunnar hlyti meðal annarra að verða gagnaðili hans að máli, ef til þess kæmi að það yrði höfðað um sakarefnið, eða eftir atvikum fyrirsvarsmaður gagnaðila. Samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 eru heimildir XII. kafla laganna til að afla sönnunargagna án málshöfðunar bundnar við öflun matsgerða dómkvaddra manna, framburðar vitna, skjala og annarra sýnilegra sönnunargagna. Leiðir af þessu að skýrsla verður ekki tekin samkvæmt þessum heimildum fyrir dómi af þeim, sem fyrirsjáanlega yrði aðili að væntanlegu dómsmáli. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar þannig staðfest að því er varðar kæru varnaraðila.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Málinu er vísað frá Hæstarétti að því er varðar kæru sóknaraðila, Gunnars B. Guðmundssonar, Péturs Alans Guðmundssonar, Símonar Sigurðar Sigurpálssonar, Guðmundar Júlíussonar, Halldórs Kristjáns Stefánssonar, Árna Haukssonar, Smára Hilmarssonar og Einars Sveinbjörnssonar.

Hinn kærði úrskurður er staðfestur að því er varðar kæru varnaraðila, Landsafls hf.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. desember 2002.

I.

    Með bréfi, mótteknu af dómnum hinn 28. nóvember sl., óskaði sóknaraðili eftir því að fram færi sönnunarfærsla fyrir dómnum samkvæmt 77. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Var óskað eftir því að varnaraðilar gæfu skýrslur fyrir dómi, auk tveggja annarra aðila.

    Dómari féllst á beiðnina og ofangrendir aðilar voru boðaðir til skýrslugjafar síðar í dag. Með bréfi mótteknu af dómnum sl. föstudag kröfðust varnaraðilar þess að „úrskurðað verði um lagaskilyrði beiðnar” sóknaraðila um hvort vitnaleiðslur skuli fram fara. Að loknum munnlegum málflutningi um ágreininginn fyrr í dag var málið tekið til úrskurðar.

II.

    Sóknaraðili lýsir grundvelli beiðnar sinnar um vitnaleiðslur svo að hann hafi í upphafi nóvembermánaðar óskað eftir því við Fasteignasöluna Árborgir, Selfossi, að leitað yrði hófana um hentugar byggingarlóðir á Selfossi fyrir uppbyggingu á verslunarhúsnæði í nokkuð stórum stíl. Fljótlega hafi sjónir manna beinst að tveimur lóðum við Eyraveg er hentað hafi getað fyrir það verkefni sem í bígerð hafi verið. Annars vegar hafi verið um að ræða lóð nr. 34 við Eyraveg, en hins vegar lóð nr. 36 við sama veg. Sóknaraðili kveður að eigendum lóðanna hafi verið gert kauptilboð hinn 18. nóvember sl., en endanlegir samningar um kaup á lóðinni nr. 36 hafi tekist hinn 22. nóvember sl. Þá kveður sóknaraðili að hinn 21. nóvember sl. hafi einn varnaraðila, Gunnar B. Guðmundsson, fyrir hönd eigenda lóðarinnar nr. 34, gert sóknaraðila gagntilboð þar sem sú lóð hafi verið boðin til sölu á kr. 26.500.000 með nánar tilgreindum skilmálum. Gagntilboðið hafi verið útbúið á skrifstofu KMPG, Selfossi, af einum varnaraðila, Einari Sveinbjörnssyni, endurskoðanda. Að kveldi 23. nóvember sl. hafi Guðjón Ægir Sigurjónsson og Óskar Sigurðsson, héraðsdómslögmenn og starfsmenn fasteignasölunnar Árborga, tilkynnt að gagntilboðshafinn hefði samþykkt tilboðið. Staðið hefði verið að því með þeim hætti að lögmennirnir hafi skrifað samþykki sitt eigin hendi undir gagntilboðið og farið með á heimili Gunnars B. Guðmundssonar hinn 23. nóvember sl. Þá hafi Gunnar hins vegar neitað að taka við skjalinu þrátt fyrir að bindandi samningur hefði komist á að mati sóknaraðila.

    Þá kveður sóknaraðili að svo virðist sem hinn 24. nóvember sl. hafi lóðinni nr. 36 við Eyraveg verið afsalað til Miðdals, sem sé einkahlutafélag í eigu Húsasmiðjunnar hf. Afsalsgjafinn í því tilviki hafi verið einkahlutafélagið Eyravegur 34-36. Áðurnefndur Gunnar sé stjórnarformaður þess félags en stofnendur þess þeir einstaklingar sem átt hafi áðurnefnda lóð með honum. Sóknaraðili heldur því fram að svo virðist sem lóðin nr. 36 hafi verið seld tvisvar og að Gunnar B. Guðmundsson hafi ekki gefið sóknaraðila aðrar skýringar en þær að sameigendur hans hafi „borið hann ofurliði.”  Þá segir sóknaraðili að hvorki Gunnar B. Guðmundsson né sameigendur hans hafi svarað símskeyti er þeim hafi verið sent hinn 25. nóvember sl. varðandi frágang kaupa.

    Við flutning málsins benti lögmaður varnaraðila á að eðli málsins samkvæmt skiptu málavextir litlu máli nema sem varði beinlínis rökstuðning fyrir vitnaleiðslum, en hann kvaðst vilja mótmæla málavaxtalýsingu sóknaraðila.

III.

    Sóknaraðili heldur því fram að í ljósi þeirra gagna sem reynt hafi verið að fá þinglýst af hálfu Gunnars B. Guðmundssonar og sameiganda hans að lóð nr. 36 við Eyraveg þá virðist liggja fyrir að þeir séu að reyna að koma sér undan samningi sem gerður hafi verið við sóknaraðila. Sóknaraðili kveðst þurfa að afla sér sönnunar um málsatvik, þ.e. hvernig standi á því að Gunnar B. Guðmundsson hafi, sem fulltrúi eigenda og samkvæmt yfirlýstu umboði eigenda, gert tilboð um að selja eign sem hann nú beri fyrir sig að hann hafi ekki haft umboð til að ráðstafa. Sóknaraðili segir nauðsynlegt að upplýsa um aðdraganda þess að Gunnar hafi hafnað fyrsta tilboði sóknaraðila, upplýsa um gerð gagntilboðsins og með hvaða hætti það hafi verið borið undir meðeigendur Gunnars.

    Þá byggir sóknaraðili á því að upplýsa þurfi um atvik varðandi tilkomu meints eignarhalds Eyravegs 34-36 ehf. að áðurnefndri lóð, svo og tildrög þess að það félag hafi afsalað lóðinni til þriðja aðila án þess að geta í nokkru við sóknaraðila um meintan heimildar- eða umboðsskort Gunnars B. Guðmundssonar, stjórnarformanns félagsins.

    Að síðustu reisir sóknaraðili beiðni sína á því að upplýsa þurfi um vitneskju forsvarsmanna einkahlutafélagsins Miðdals ehf. um viðskiptin, sem áður hafi átt sér stað um lóðina, með tilliti til grandsemi í skilningi fjármunaréttar, og með hvaða skilmálum þeir hafi fest kaup á lóðinni með tilliti til þeirrar bótakröfu sem hugsanlega hafi stofnast til handa sóknaraðila.

    Um lagarök vísar sóknaraðili til 2. mgr. 77. gr. if. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en sóknaraðili kveðst eiga lögvarða hagsmuni af málinu og að þær upplýsingar sem fram komi í skýrslutökum muni að öllum líkindum ráða niðurstöðu um það hvort sóknaraðili láti verða af málshöfðun. Þá heldur sóknaraðili því fram að upplýsinganna verði ekki aflað tryggilega með öðrum hætti. Að lokum kom fram hjá sóknaraðila við flutning málsins að hann væri ekki að lýsa málavöxtum á þann veg að líta bæri til ákvæða 3. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá benti lögmaður sóknaraðila á að krafa varnaraðila væri orðuð á þann veg að þeir væru í raun að krefja álits um lögfræðilegt efni á þann veg að væri í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV.

    Varnaraðilar reisa kröfu sína á því að ekki séu lagaskilyrði til að taka til greina kröfu sóknaraðila um skýrslugjafir fyrir dómi. Varnaraðilar benda á að samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sé aðila heimilt að afla sönnunar um atvik ef hætta sé á að kostur hans til að færa sönnur um atvik fari forgörðum eða ef ætla megi að það verði verulega erfiðara síðar. Í 2. málslið sömu málsgreinar sé vísað til þess að aðili geti jafnframt leitað sönnunar um atvik er varði lögvarða hagsmuni hans og ráðið geti niðurstöðu um, hvort hann láti verða af málshöfðun vegna þeirra, að fullnægðum sömu skilyrðum og lýst sé í 1. málslið.

    Að mati varnaraðila beri framlögð beiðni sóknaraðila ekki annað með sér en að sóknaraðila sé ekki ljóst hvort það hafi raunverulega lögvarða hagsmuni að vitnaleiðslum og eftirfarandi málsókn. Af þessum sökum feli rekstur vitnamálsins í sér tilraun sóknarðila til að fá leyst úr lögspurningu. Slík málaleitan sé í beinni andstöðu við ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og beri því þegar af þeirri ástæðu að vísa beiðni sóknaraðila frá.

    Þá kveða varnaraðilar sóknarðila ekki hafa fært nein rök til stuðnings beiðni sinni er fullnægi áskilnaði ákvæða 77. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Líta beri til þess að beiðni sóknaraðila sé eingöngu rökstudd með vísan til þess að sóknaraðili hafi lögvarða hagsmuni af vitnaleiðslunum og að sóknaraðili muni að öllum líkindum láta verða af málshöfðun ef tilteknar upplýsingar komi fram. Varnaraðilar benda á að í 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sé sérstaklega tiltekið að sá sem óski vitnaleiðslna samkvæmt 2. gr. 77. gr. sömu laga skuli rökstyðja sérstaklega hvers vegna sönnunarfærsla þoli ekki bið. Engan slíkan rökstuðning sé að finna í beiðni sóknaraðila. Að mati varnaraðila sé því einsýnt að hvorugu þeirra skilyrða sem lýst sé í 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sé fullnægt. Í fyrsta lagi hafi sóknaraðili á engan hátt sýnt fram á að hætta sé á að sönnunargögn fari forgörðum og í öðru lagi hafi engin rök verið leidd að því að erfiðara verði síðar að afla sömu sönnunargagna, hvort sem það verði gert fyrir dómi með venjulegri málshöfðun eða með öðrum hætti. Í máli þessu hagi ekki öðruvísi til en í hverju öðru ágreiningsmáli, sem hugsanlega geti endað með málsókn. Fráleitt sé að ætla að hver sem er geti lagt beiðni fyrir dóm og krafist þess að viðkomandi aðilar, sem þeir hafi átt í ágreiningi við, verði leiddir fyrir dóm til þess að gefa þar skýrslu, um hver þau atriði sem viðkomandi aðili óskar, til þess að auðvelda viðkomandi ákvarðanatöku um málshöfðun. Varnaraðilar benda því á að ef sóknaraðili telji að réttur hafi verið á sér brotin sé því með lögum heimilt að höfða mál á hendur viðkomandi aðilum. Við það tækifæri gefist sóknaraðila kostur á að leiða aðila og vitni fyrir dóm og spyrja viðkomandi spjörunum úr.

    Þá vilja varnaraðilar vekja sérstaka athygli á því að framangreind lagaheimild virðist gera ráð fyrir því að aðrir eigi aðild að meðferð málsins en sá sem biðji um vitnaleiðslur. Þannig sé einsýnt að ekki verði lagðar aðrar spurnginar fyrir vitnin en þær sem sóknaraðili hafi hug á. Framangreint sé til þess fallið að móta afstöðu viðkomandi vitna og skapa ójafnvægi aðila á milli í dómsmáli, sem kunni að vera höfðað í kjölfar vitnaleiðsla.

    Loks kveða varnaraðilar vandséð hvaða aðild sóknaraðili eigi að þessu vitnamáli. Þess sé hvergi getið í tilvitnuðu þinglýstu gagntilboði að sóknaraðili eigi aðild að hugsanlegum ágreiningi við hin boðuðu vitni. Í umræddu skjali komi aðeins fram að ónefndur viðskiptavinur fasteignasölu hafi gert tilboð. Þess sjái hvergi stað að sóknaraðili sé þessi viðskiptavinur og engin skjöl þar að lútandi hafi verið lögð fram, hvorki er varði aðild né heldur heimildir starfsmanna fasteignasölunnar til þess að undirrita skjöl í umboði hins ónefnda viðskiptavinar eða sóknaraðila.

V.

Álit dómsins.

Af hálfu sóknaraðila hefur verið lögð fram yfirlýsing frá fasteignasölunni Árborgum er staðfestir að sóknaraðili hafi verið sá viðskiptavinur er gert hafi kauptilboð í lóðina Eyraveg 34, Selfossi. Verður því talið nægilega upplýst að sóknaraðili eigi aðild að þessu máli.

Þrátt fyrir mótmæli sóknaraðila eru mótmæli varnaraðila tæk til meðferðar dómsins, með skírskotun til 3. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Sóknaraðili hefur sérstaklega vísað til 2. málsliðar 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, til stuðnings beiðni sinni um vitnaleiðslur, en varnaraðili hefur haldið því fram að ekki beri að greina á milli málsliða ákvæðisins hvað varðar skilyrði fyrir því að vitnaleiðslur skuli fram fara, heldur þurfi skilyrði þau sem tiltekin eru í 1. málslið ákvæðisins einnig að vera uppfyllt svo unnt sé að fallast á umbeðnar vitnaleiðslur.

Í títtnefndri 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, segir:

    „Nú er hætta á að kostur fari forgörðum á því að afla sönnunar um atvik sem varðar lögvarða hagsmuni aðila eða að það verði verulega erfiðara síðar, og er honum þá heimilt að leita sönnunar um atvikið fyrir dómi með vitnaleiðslu eða öflun skjals eða annars sýnilegs sönnunargagns þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu í tengslum við atvikið í dómsmáli. Aðila er með sama hætti heimilt að leita sönnunar fyrir dómi um atvik sem varða lögvarða hagsmuni hans og geta ráðið niðurstöðu um hvort hann láti verða af málshöfðun vegna þeirra.”

Ákvæði þetta heimilar undantekningu frá meginreglunni um milliliðalausa málsmeðferð. Þegar litið er til orðalags ákvæðisins er ljóst að beiðni um öflun sönnunar fyrir dómi áður en mál er höfðað þarf að uppfylla mismunandi skilyrði eftir því hver ástæða liggur að baki slíkri beiðni. Sést það meðal annars á því að skilyrðið um lögvarða hagsmuni er tiltekið sérstaklega bæði í 1. og 2. málslið ákvæðisins. Þá er einnig nefnt að uppfylli beiðni skilyrði 2. málsliðar ákvæðisins skal sönnunar fyrir dómi hins vegar vera leitað „með sama hætti” og getið er um í 1. málslið ákvæðisins, þ.e. með vitnaleiðslu eða öflun skjals eða annarrs sýnilegs sönnunargagns.

Tvenns konar skilyrði eru tiltekin í 2. málslið 2. mgr. 77. gr. fyrir að heimila vitnaleiðslur. Annars vegar að atvik sem leita má sönnunar fyrir dómi þurfa að varða lögvarða hagsmuni aðila. Hins vegar að atvik þau sem leitað er sönnunar við þurfa að geta ráðið niðurstöðu um hvort aðili láti verða af málshöfðun.

Kemur þá til skoðunar hvort beiðni sóknaraðila uppfylli þessi skilyrði.

Eins og áður er rakið verður að telja nægilega fram komið að sóknaraðili hafi verið sá aðili sem gert hafi tilboð í hina umþrættu lóð nr. 36 við Eyraveg. Sóknaraðili segir tilboðinu hafa verið tekið en af hálfu varnaraðila er því haldið fram að sala hafi ekki átt sér stað til sóknaraðila. Er því fallist á það með sóknaraðila að hann hafi að því lögvarða hagsmuni að afla fyrir dómi upplýsinga um hvaða atvik hafi leitt til þess að honum beri ekki að líta svo á að samningur hafi komist á um kaup hans á fasteigninni. Þá er fallist á það með sóknaraðila að þær upplýsingar geti eðli málsins samkvæmt ráðið niðurstöðu um hvort sóknaraðili láti verða af málshöfðun í kjölfarið.

Eins og sóknaraðili lýsir málsatvikum og samkvæmt yfirlýsingu lögmanns sóknaraðila fyrir dómi má nú þegar telja fullvíst að Gunnar B. Guðmundsson verði aðili máls en ekki vitni, komi til málshöfðunar af hálfu sóknaraðila í kjölfar vitnaleiðslna.

Ákvæði 2. mgr. 77. gr. fjallar ekki berum orðum um skyldur aðila til að gefa skýrslur fyrir dómi, enda liggur það í hlutarins eðli þar sem mál hefur ekki verið höfðað gegn tilteknum aðila þegar sönnunarfærsla fer fram samkvæmt ákvæðinu. Hins vegar er framangreint ákvæði, um heimild til vitnaleiðslna, undantekningarákvæði frá meginreglum um vitnaleiðslur fyrir dómi og verður það ekki túlkað rýmra en samkvæmt orðanna hljóðan. Þá eru skyldur málsaðila til að gefa skýrslu fyrir dómi í veigamiklum atriðum aðrar en skyldur vitna, og nægir í þessu sambandi sérstaklega að nefna ákvæði 2. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Verður ákvæði 2. mgr. 77. gr. laganna því túlkað þannig að Gunnar B. Guðmundsson sé undanskilinn því að þurfa að gefa skýrslu fyrir dómi.

Samkvæmt framanrituðu skulu fram fara umbeðnar skýrslutökur fyrir dómi, að öðru leyti en því að Gunnar B. Guðmundsson, skal ekki gefa skýrslu fyrir dómi.

Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

    Fallist er á beiðni sóknaraðila, Landsafls hf., um að skýrslutökur fyrir dómi skuli fram fara, að öðru leyti en því að Gunnar B. Guðmundsson skal ekki gefa skýrslu fyrir dómi.