Hæstiréttur íslands

Mál nr. 830/2015

Ákæurvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Eyþóri Helga Guðmundssyni (Björgvin Jónsson hrl.)

Lykilorð

  • Fíkniefnalagabrot
  • Upptaka

Reifun

E var sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 51,25 grömm af amfetamíni og 34,16 grömm af maríhúana að hluta til í sölu- og dreifingarskyni og selt tilgreindum manni rúmlega 2 grömm af amfetamíni. Með brotinu rauf E skilyrði reynslulausnar samkvæmt eldri dómi og var sá dómur því tekinn upp og E gerð refsing í einu lagi fyrir brotin. Var refsing E ákveðin fangelsi í 12 mánuði auk þess sem honum var gert að sæta upptöku á fíkniefnunum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. október 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Eyþór Helgi Guðmundsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 410.360 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra miðvikudaginn 28. október 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 20. október sl., er höfðað með ákæru Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, útgefinni 3. september 2014, á hendur Eyþóri Helga Guðmundssyni, kt. [...], lögheimili Schubertsvej 18,1, 9200 Álaborg, Danmörku, nú með dvalarstað að Skarðshlíð 26c, Akureyri og X til heimilis á sama stað:

,,fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 11. apríl 2014, verið með í sameiginlegum vörslum sínum 51,25 grömm af amfetamíni og 34,16 grömm af maríhúana á heimili sínu, þegar lögreglan gerði þar húsleit og gegn ákærða Eyþóri Helga fyrir að hafa fyrirhugað að selja hluta þessara efna og jafnframt fyrir að hafa skömmu áður en lögregla handtók hann selt A rúm 2 grömm af amfetamíni.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, með síðari breytingum og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrám nr. 27.389 & 27.446, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“

Ákæruþáttur meðákærðu X var klofinn frá máli ákærða Eyþórs Helga eftir að mál þetta var höfðað, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 169. gr. laga nr. 88, 2008.  Féll dómur í máli hennar þann 30. desember 2014, sbr. mál nr. S-219/2014.

Skipaður verjandi, Guðmundur St. Ragnarsson, krefst þess fyrir hönd ákærða Eyþórs, að hann verði dæmdur til þeirrar vægustu refsingar sem lög frekast heimila og þá þannig að hann verði dæmdur til skilorðsbundinnar refsingar fyrir þá háttsemi sem hér er fjallað um, en að reynslulausn, sem Fangelsismálastofnun veitti honum þann 7. júlí 2013 verði látinn haldast.  Til vara krefst verjandinn að ákærði verði dæmdur til óskilorðsbundinnar refsingar, en að nefnd reynslulausn verði látin haldast.  Þá krefst verjandinn hæfilegrar málflutningsþóknunar.

Mál þetta barst héraðsdómi þann 3. september 2014, en þá var jafnframt upplýst að ákærði Eyþóri hefði flust erlendis.  Fyrirkall dómsins var birt fyrir ákærða í Danmörku þann 6. nóvember 2014, en þrátt fyrir það mætti hann ekki við þingfestingu málsins þann 16. desember 2014.  Af því tilefni var boðað til þinghalds 20. janúar sl., og var vísað til ákvæða 162. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, um handtöku.  Að ósk ákærða var áður nefndur lögmaður skipaður verjandi hans með bréfi dómsins, dags. 9. janúar sl.  Við fyrirtöku málsins hinn 20. janúar sl. mætti ákærði ekki og þá ekki heldur 10. febrúar, 3 mars, og 7. apríl sl., en jafnan var upplýst um að hann byggi enn í Danmörku, og að hann neitaði sakarefni ákæru.  Við nefnda fyrirtöku, þann 7. apríl sl., var afráðið, í samráði við sækjanda og verjanda, að aðalmeðferð málsins færi fram 19. ágúst sama ár.  Ákærði mætti ekki til þinghaldsins 19. ágúst sl., en af því tilefni og með vísan til ákvæða 162. gr. sakamálalaganna boðaði dómari til dómþings 27. október.  Skipaður verjandi tilkynnti nú í haust að ákærði hefði flust búferlum til landsins ásamt fjölskyldu sinni, en í framhaldi af því var ákveðið að flýta fyrirtöku málsins.  Þann 20. október sl. mætti ákærði sjálfviljugur fyrir dóminn, ásamt verjanda sínum.

I.

Ákærði hefur hér fyrir dómi skýlaust játað sakargiftir samkvæmt ákæru.

Með vísan til játningar ákærða, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, en einnig með hliðsjón af rannsóknargögnum lögreglu, verður lagður dómur á málið samkvæmt heimild í 164. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, án frekari sönnunarfærslu.

Með tilliti til játningar ákærða og nefndra gagna þykir sök ákærða nægilega sönnuð, en brot hans er réttilega fært til refsiákvæða í ákæru.

II.

Ákærði, sem er 31 ára, á samkvæmt sakavottorði að baki umtalsverðan sakaferil. Á árabilinu 2004-2007 var ákærði þannig margoft sakfelldur, tíðum fyrir fíkniefnalagabrot, en auk þess fyrir umferðarlagabrot, eignaspjöll og auðgunarbrot.  Einnig var hann tvívegis sakfelldur á árunum 2006 og 2007 fyrir líkamsárásir.

Samkvæmt sakavottorðinu hefur ákærði auk þess á síðustu árum í fjögur skipti verið dæmdur til refsinga.  Hann var þannig þann 21. ágúst 2009 dæmdur fyrir þjófnað og endurtekin brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni í tíu mánaða óskilorðsbundið fangelsi, en þar var meðtalin 87 daga reynslulausn, sem Fangelsismálstofnun hafði veitt honum vegna eldri dóma.  Þann 19. janúar 2010 var ákærði dæmdur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, þ. á m. fyrir sölu fíkniefna.  Vegna þessa var ákærði dæmdur í eins mánaðar fangelsi, en um hegningarauka var að ræða við dóminn frá 21. ágúst 2009.  Þann 3. mars 2011 var ákærði dæmdur fyrir stórfellda líkamsárás, frelsissviptingu, ólögmæta nauðung og tilraun til fjárkúgunar, en einnig fyrir brot á fíkniefnalöggjöfinni.  Brotin framdi hann á árunum 2009 og 2010 og var því um hegningarauka að ræða að hluta til.  Vegna þessa var ákærði dæmdur í fangelsi í tvö ár og sex mánuði.  Hinn 7. júlí 2013 veitti Fangelsismálastofnun ákærða reynslulausn í tvö ár, á samtals 300 daga eftirstöðvum áður dæmdra refsinga.

Í því máli sem hér er til umfjöllunar hefur ákærði gerst sekur um brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni, þar á meðal fyrir sölu á slíkum efnum.  Með háttseminni hefur ákærði rofið skilorð fyrrnefndrar reynslulausnar Fangelsismálastofnunar.  Ber því með vísan til 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49, 2005 um fullnustu refsinga og 77. gr. almennra hegningar laga nr. 19, 1940 að dæma ákærða refsingu í einu lagi fyrir greind fíkniefnalagabrot og þær eftirstöðvar refsivistar sem reynslulausn Fangelsismálastofnunar tók til.

Við meðferð málsins hér fyrir dómi hefur að nokkru verið gerð grein fyrir högum ákærða.  Liggur fyrir að hann hefur undanfarin misseri búið og starfað í Danmörku og að sögn eftir fremsta megni reynt að halda sig frá fíkniefnum.  Þá kveðst hann frá því að hann fluttist til landsins nú í haust hafa leitað eftir aðstoð AA samtakanna og hefur þar trúnaðarmann, sbr. framlagt vottorð þar um.  Virðist ákærði samkvæmt þessu vera einlægur í því að breyta um stefnu og hverfa frá fyrra líferni.  Þá liggur fyrir að ákærði hefur að undanförnu verið í sambúð og á nú tvö ung börn.

Fært þykir að taka nokkurt tillit til þeirra atriða sem að framan greinir, en einnig til skýlausrar játningar ákærða fyrir dómi, sbr. viðeigandi ákvæði 70. gr. almennra hegningarlaga, þ. á m. 8. tl.  Verður refsing ákærða að þessu virtu ákveðin fangelsi í tólf mánuði, sem ekki þykir fært að skilorðsbinda.

Dæma ber ákærða til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum svo sem í dómsorði greinir.

Að kröfu ákæruvalds og með vísan til ofangreindrar dómsniðurstöðu verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, en samkvæmt yfirliti lögreglustjóra nemur kostnaður hans 25.100 krónum.  Þá skal ákærði greiða málsflutningsþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 450.920 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.  Að auki ber ákærða að greiða útlagðan ferðakostnað verjandans, 38.000 krónur.

Ólafur Ólafsson, héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Eyþór Helgi Guðmundsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Ákærði sæti upptöku á 53,29 gr. af amfetamíni og 34,16 gr. af maríhúana, sbr. efnaskýrslu lögreglu nr. 27.389 og 27.446.

Ákærði greiði allan sakarkostnað 514.020 krónur, þ. m.t. málsflutningsþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 450.920 krónur, en einnig útlagðan ferðakostnað verjandans, 38.000 krónur.