Hæstiréttur íslands
Mál nr. 137/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Réttaráhrif dóms
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 12. mars 2015. |
|
Nr. 137/2015.
|
Halldór Jónasson (Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Ólafur Örn Svansson hrl.) |
Kærumál. Réttaráhrif dóms. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu H um ógildingu sjálfskuldarábyrgðar, sem hann hafði tekist á hendur vegna skuldar F ehf. við L hf., var vísað frá dómi á grundvelli 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að í máli, sem L hf. hafði áður höfðað gegn H og F ehf., hefði með áritun á stefnu verið fallist á þá kröfu L hf. að H skyldi greiða L hf. nánar tilgreinda upphæð á grundvelli yfirlýsingar um sjálfskuldarábyrgðina. Nú krefðist H hins vegar meðal annars ógildingar á ábyrgðaryfirlýsingunni. Þar sem sú krafa hefði ekki verið höfð uppi í fyrrgreinda máli aðilanna var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ekki bæri að vísa málinu frá dómi á grundvelli 2. mgr., sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Í niðurstöðu réttarins kom jafnframt fram að í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefði máli verið vísað frá héraðsdómi á grundvelli 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 ef stefnandi þess máls hefði áður höfðað mál og látið undir höfuð leggjast að færa fyrir kröfu sinni málsástæður, sem hann hefði getað teflt fram í því máli. Að virtum rétti manna til að bera mál um réttindi sín og skyldur undir dómstóla, sem þeim væri áskilinn í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, yrði ekki talið að aðili, sem áður hefði verið stefnt fyrir dóm, hefði fyrirgert rétti sínum til að höfða mál síðar gegn stefnanda fyrra málsins, jafnvel þótt hann hefði getað í því máli teflt fram sömu málsástæðum og hann gerir í síðara málinu. Á hinn bóginn kynni sú afstaða hans, að taka ekki til varna í fyrra málinu, að hafa þýðingu þegar leyst væri efnislega úr kröfu hans í síðara málinu. Með vísan til þessa var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu H til úrlausnar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. febrúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 2015, þar sem kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfuna til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var með áritun á stefnu á hendur sóknaraðila 26. febrúar 2009 í máli, sem varnaraðili hafði höfðað gegn honum og Fells-Eyri ehf., fallist á þá kröfu varnaraðila að sóknaraðili skyldi greiða 10.000.000 krónur auk vaxta á grundvelli yfirlýsingar hans um sjálfskuldarábyrgð á láni varnaraðila til einkahlutafélagsins. Í því máli sem til úrlausnar er krefst sóknaraðili meðal annars ógildingar á ábyrgðaryfirlýsingunni. Þar sem sú krafa var ekki höfð uppi í fyrrgreindu máli aðilanna er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ekki beri að vísa kröfunni frá dómi á grundvelli 2. mgr., sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur máli verið vísað frá héraðsdómi á grundvelli 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 ef stefnandi þess máls hefur áður höfðað mál og látið undir höfuð leggjast að færa fyrir kröfu sinni málsástæður, sem hann hefði getað teflt fram í því máli, sbr. til dæmis dóma réttarins 2. apríl 2004 í máli nr. 100/2004 og 20. janúar 2014 í máli nr. 817/2013. Að virtum rétti manna til að bera mál um réttindi sín og skyldur undir dómstóla, sem þeim er áskilinn í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, verður ekki talið að aðili, sem áður hefur verið stefnt fyrir dóm og ekki hefur tekið til varna í því máli, hafi fyrirgert rétti sínum til að höfða mál síðar gegn stefnanda fyrra málsins, jafnvel þótt hann hefði getað í því máli teflt fram sömu málsástæðum og hann gerir í síðara málinu. Á hinn bóginn kann sú afstaða hans að taka ekki til varna í fyrra skiptið að hafa þýðingu þegar leyst verður efnislega úr kröfu hans í síðara málinu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 10. desember 2009 í máli nr. 195/2009.
Með vísan til þess sem að framan greinir verður að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdóm að taka kröfu sóknaraðila til úrlausnar.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu sóknaraðila, Halldórs Jónassonar, til úrlausnar.
Varnaraðili, Landsbankinn hf., greiði sóknaraðila 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 2015.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 5. janúar sl., var höfðað 25. júní 2014.
Stefnendur eru Hallgrímur Hallgrímsson, Torfufelli II í Eyjafirði og Halldór Jónasson og Jóhanna Hallgrímsdóttir, bæði til heimilis að Heiðarvegi 33 á Reyðarfirði.
Stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11 í Reykjavík.
Í málinu krefjast stefnendur, Halldór og Hallgrímur, þess, hvor um sig, að ógilt verði með dómi sjálfskuldarábyrgð nr. [...], útgefin af stefnendum 3. september 2006, að fjárhæð 10.000.000 króna. Jafnframt krefjast stefnendur, Halldór og Jóhanna, þess að ógilt verði með dómi veðsetning á fasteigninni Heiðarvegi 33, Fjarðabyggð, fnr. [...], samkvæmt tryggingarbréfi nr. [...], útgefnu af Fells-Eyri ehf. þann 3. september 2006 að fjárhæð 20.000.000 króna. Þá krefjast stefnendur þess að stefnda verði gert að greiða þeim sameiginlega málskostnað, en til vara hverjum um sig, auk virðisaukaskatts.
Stefndi krefst þess að kröfu stefnanda, Halldórs, þess efnis að ógilt verði með dómi sjálfskuldarábyrgð nr. [...], útgefin af stefnendum, Halldóri og Hallgrími, 3. september 2006, að fjárhæð 10.000.000 króna, verði vísað frá dómi. Þá er þess krafist að stefnandi, Halldór, verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Í þessum þætti málsins er framangreind frávísunarkrafa stefnda til umfjöllunar. Af hálfu stefnenda er þess krafist að kröfu stefnda um frávísun að hluta verði hrundið og að málið verði tekið til efnismeðferðar. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar.
I
Stefnendur höfðuðu mál þetta til ógildingar á sjálfskuldarábyrgð og veðsetningu fasteignar. Þau lýsa málsatvikum og málsástæðum svo að dómkröfur þeirra eigi rætur sínar að rekja til samnings Fells-Eyrar ehf. við Landsbanka Íslands hf. um veitingu framkvæmdaláns í formi yfirdráttar haustið 2006. Til tryggingar greiðslu lánsins hafi stefnendur, Hallgrímur og Halldór, eigendur og fyrirsvarsmenn félagsins, undirgengist persónulega sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 10.000.000 króna þann 3. september 2006. Þeir krefjist þess hvor um sig að sjálfskuldarábyrgðin verði ógilt. Félagið hafi sama dag gefið út tryggingarbréf að fjárhæð 20.000.000 króna með veði í fasteignunum að Heiðarvegi 33 á Reyðarfirði, í eigu stefnenda, Halldórs og Jóhönnu, og Torfufelli II í Eyjafirði, í eigu stefnanda, Hallgríms. Þar sem stefnandi, Hallgrímur, sé ekki lengur eigandi Torfufells II hafi hann ekki lögvarða hagsmuni af ógildingu á veðsetningunni samkvæmt téðu tryggingarbréfi. Af framangreindu leiði að stefnendur, Jóhanna og Halldór, geri sameiginlega kröfu um ógildingu tryggingarbréfsins samkvæmt heimild 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og stefnendur, Halldór og Hallgrímur, geri hvor um sig kröfu um ógildingu á téðri sjálfskuldaraábyrgð á grundvelli 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Stefnendur byggi á að kröfur þeirra uppfylli skilyrði þeirra lagagreina, enda megi rekja þær til sömu atvika og aðstæðna við veitingu á ábyrgðum fyrir endurgreiðslu framkvæmdaláns Fells-Eyrar ehf.
Stefnendur, Halldór og Hallgrímur, hafi stofnað félagið Fells-Eyri ehf. snemma árs 2006. Tilgangur félagsins hafi samkvæmt samþykktum þess aðallega verið kaup, sala, bygging og leiga fasteigna, sem og rekstur þeirra. Í samræmi við þann tilgang hafi verið hafist handa á vegum félagsins sumarið 2006 við byggingu parhúss að Stekkjarholti 23 og 25 á Reyðarfirði. Til fjármögnunar framkvæmdanna hafi félagið fengið svokallað framkvæmdalán hjá Landsbanka Íslands hf. Lánið hafi verið í formi yfirdráttar á tékkareikningi nr. [...]. Samið hafi verið um þessa bráðabirgðaskuldbindingu á þeirri forsendu að um leið og fasteignirnar yrðu veðhæfar yrði framkvæmdaláninu breytt í venjuleg fasteignalán með veði í fasteignunum sjálfum, svo sem venja sé þegar framkvæmdalán eru veitt, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 161/2012. Það hafi verið grundvallarforsenda fyrir því að félagið hafi tekið framkvæmdalánið í formi yfirdráttar að aðeins væri um bráðabirgðaráðstöfun að ræða.
Til tryggingar greiðslu framkvæmdalánsins hafi verið krafist trygginga samhliða lántökunni. Aðilar hafi samið svo um að stefnendur, Halldór og Hallgrímur, gengjust í sjálfskuldaraábyrgð vegna 10.000.000 króna yfirdráttarheimildar félagsins og að félagið gæfi út tryggingarbréf til stefnda að fjárhæð 20.000.000 króna með allsherjarveði í fasteignum, svo sem að framan greinir, til tryggingar á öllum skuldbindingum félagsins við bankann. Framangreindir gerningar hafi verið undirritaðir 3. september 2006 á grundvelli þeirrar meginforsendu að um leið og fasteignirnar yrðu veðhæfar yrði framkvæmdaláninu breytt í venjuleg fasteignalán með veði í fasteignunum sjálfum og hinir umdeildu gerningar felldir úr gildi. Skýrt samkomulag um þetta hafi legið fyrir milli stefnenda og Landsbanka Íslands hf., svo sem sjá megi af yfirlýsingu Árna Emilssonar, fyrrum útibússtjóra Landsbankans í Austurstræti.
Fasteignirnar að Stekkjarholt 23 og 25 hafi orðið fokheldar og veðhæfar í ágúst 2007 samkvæmt mati byggingarfulltrúa. Fasteignirnar hafi þar með uppfyllt lausnarskilyrði Landsbanka Íslands hf. samkvæmt framangreindu samkomulagi. Stefnendur hafi þá farið fram á að hinir umdeildu gerningar yrðu felldir úr gildi og þess í stað veitt fasteignalán með veði í fasteignunum sjálfum að Stekkjarholti 23 og 25. Landsbanki Íslands hf. hafi hafnað beiðni stefnenda og þar með brotið téð samkomulag. Um leið hafi verið ljóst að grundvallarforsendur fyrir því að stefnendur hafi gengist í persónulegar ábyrgðir vegna skuldbindingar félagsins, hafi verið með öllu brostnar.
Bankinn hafi í kjölfarið krafist þess að yfirdráttur félagsins yrði greiddur niður. Hann hafi veitt félaginu til þess skuldabréfalán, annars vegar lán nr. 9126 að fjárhæð 20.000.000 króna og hins vegar lán nr. 9129 að fjárhæð 20.000.000 króna. Félaginu hafi ekki verið annað fært en að undirgangast þessar kröfur bankans, þó gegn ítrekuðum mótmælum, þar sem yfirdráttarlánið hafi hækkað mjög ört, enda hafi það borið mjög háa vexti og aldrei verið ætlað sem langtímalánsskuldbinding.
Með bréfum, dags. 9. september 2011, hafi stefndi viðurkennt að lánin nr. 9126 og 9129 væru ólögmæt gengistryggð lán, sem færu gegn ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, og hafi lánin verið endurreiknuð í samræmi við dóm Hæstaréttar í málinu nr. 155/2011. Eftir að dómar Hæstaréttar í málunum nr. 600/2011 og 464/2012 hafi fallið hafi lánastofnanir tekið að endurreikna gengislán að nýju í samræmi við regluna um fullnaðarkvittanir. Samkvæmt bréfi stefnda, dags. 12. febrúar 2014, verði framangreind lán ekki endurreiknuð að nýju í samræmi við regluna um fullnaðarkvittanir. Uppgjör vegna téðrar gengistryggingar sé óviðkomandi málinu á þessu stigi, en Fells-Eyri ehf. áskilji sér allt að einu allan rétt gagnvart stefnda vegna téðrar gengistryggingar. Lánsfjárhæðir samkvæmt framangreindum lánum, samtals að andvirði 40.000.000 króna, hafi verið ráðstafað til greiðslu yfirdráttar á reikningi félagsins nr. [...], þ.e. til greiðslu framkvæmdalánsins. Eftir hafi staðið um 24.000.000 króna sem skuld félagsins. Landsbanki Íslands hf. hafi enn neitað að fella niður hina umdeildu gerninga, en enn og aftur lofað að þeir yrðu aðeins til bráðabirgða uns skuldauppgjör félagsins hefði farið fram við aðra kröfuhafa félagsins og kaupendum fasteignanna að Stekkjarholti 23 og 25 yrði veitt fasteignalán með veði í fasteignunum.
Undir lok sumars 2008, þegar gengið hafi verið frá samningum við aðra kröfuhafa félagsins, hafi stefnendur enn leitað til bankans og óskað þess að hann felldi niður hina umdeildu gerninga, þ.e. að Landsbanki Íslands hf. efndi samkomulagið sem hann hefði þá þegar vanefnt. Bankinn hafi enn á ný hafnað þeirri beiðni, en nú á þeim grundvelli að hagsmunir bankans væru tryggðir með eignum félagsins og persónulegum ábyrgðum og eignum stefnenda og að þær ábyrgðir yrðu ekki felldar niður. Bankinn hafi boðist til að fella niður 1.000.000 króna til að koma til móts við stefnendur. Bankinn hafi því að nýju farið þvert gegn títtnefndu samkomulagi við stefnendur, venju við veitingu framkvæmdalána, loforði sínu og réttmætum væntingum stefnenda um að bankinn myndi efna samkomulagið að loknu skuldauppgjöri við aðra kröfuhafa félagsins. Stefnendur hafi hafnað boðinu. Þeir telji að í því hafi falist ákveðin viðurkenning á að brotið hafi verið á rétti þeirra við meðferð mála þeirra og félagsins hjá Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 hafi eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. verið ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf., nú stefnda.
Með hruni íslensku krónunnar haustið 2008 hafi skuldir félagsins margfaldast. Þann 14. nóvember 2008 hafi heildarskuldir félagsins numið ríflega 131.000.000 króna. Tjón stefnenda vegna forsendubrestsins hafi þá verið orðið verulegt. Síðan þá hafi skuldir félagsins aðeins aukist með tilheyrandi dráttarvaxtakostnaði og innheimtukostnaði fyrir stefnendur, sem stefndi hafi, þrátt fyrir aðstæður, innheimt af fullri hörku.
Allt frá hausti 2008 hafi stefnendur staðið í viðræðum við stefnda. Málið hafi gengið þar á milli starfsmanna. Stefnendum hafi lengi verið veittar þær upplýsingar að mál félagsins og þeirra yrðu gerð upp heildstætt, sbr. yfirlýsingu Sigmundar Guðmundssonar hdl. og tölvupóstsamskipti milli stefnenda og stefnda. Upplýsingar starfsmanna stefnda hafi verið mjög misvísandi þar um og ýmist falið í sér ófullnægjandi tillögur að lausnum eða innheimtuaðgerðir.
Þann 16. desember 2008 hafi stefndi höfðað mál á hendur stefnanda, Halldóri, og Fells-Eyri ehf. fyrir Héraðsdómi Austurlands til greiðslu skuldar að fjárhæð 10.000.000 króna, ásamt dráttarvöxtum, og félaginu hafi auk þess verið stefnt til greiðslu skuldar að fjárhæð 22.865.975 krónur, ásamt dráttarvöxtum. Stefnurnar hafi verið áritaðar vegna útivistar stefnanda, Halldórs, og félagsins. Í kjölfarið hafi stefndi hafist handa við fullnustugerðir með fjárnámi 1. febrúar 2009 fyrir kröfu að fjárhæð 11.114.560 krónur í fasteignum stefnenda, Halldórs og Jóhönnu, að Heiðarvegi 33 í Fjarðabyggð, fasteign að Bergþórugötu 17 í Reykjavík og bifreið í eigu stefnanda, Halldórs, en fullnustugerðir stefnda hafi staðið allt til dagsins í dag.
Ekki liggi fyrir hvers vegna stefndi hafi búið til tvo höfuðstóla úr yfirdráttarskuldinni án nokkurs samráðs eða samkomulags við stefnendur. Annan höfuðstólinn hafi stefndi tengt við sjálfskuldarábyrgðina en hinn ekki. Stefnendur, bæði persónulega og fyrir hönd félagsins, hafi lengst af verið ómeðvitaðir um að krafa stefnda vegna yfirdráttarskuldarinnar væri nú í tveimur hlutum. Við upphaf innheimtuaðgerða hafi stefnendur viljað reyna að semja um greiðslu skulda með þeim hætti að komið yrði í veg fyrir innheimtuaðgerðir á hendur stefnendum, Halldóri og Jóhönnu. Stefnendur hafi því lengst af talið að skuldastaðan vegna yfirdráttarins væri sú sem stefndi hafi gefið upp af öðrum höfuðstólnum, en þau hafi þá ekki fengið upplýsingar um að búinn hefði verið til annar höfuðstóll. Þau hafi því réttilega mátt halda að innheimta vegna annarrar kröfunnar væri innheimta heildarkröfunnar, vegna skorts á samþykki fyrir þessari athöfn sem og hins gífurlega dráttarvaxtakostnaðar sem stofnast hefði til á meðan aðilar hafi staðið í samningaviðræðum um heildstætt uppgjör skulda.
Stefnendur telji að sjálfskuldarábyrgð verði ekki ráðstafað með þessum hætti til tryggingar skuld að vild stefnda. Slík ráðstöfun fari þvert gegn grundvallarreglum kröfuréttar. Stefnendur telji enn fremur að með þessu hafi stefndi beitt blekkingum og viðhaft óeðlilega viðskiptahætti með þeim afleiðingum að stefnendur hafi hagað málum sínum á tiltekinn máta í þeirri trú að heildarskuldastaða félagsins og yfirdráttarskuldarinnar væri mun lægri en stefndi haldi nú fram. Fyrir utan að telja að bankinn hafi með þessu beitt blekkingum og viðhaft óeðlilega viðskiptahætti telja stefnendur að þessi háttsemi sé í andstöðu við i- og j-liði 11. gr. neytendaverndartilskipunar Evrópusambandsins nr. 93/13/EEC sem hafi verið innleidd með 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Tilskipun þessi sé hluti EES-samningsins og hafi sérstakt vægi í málinu í gegnum ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 sem stefnendur byggi málatilbúnað sinn m.a. á. Stefnendur byggi því á að ráðstöfunin hafi verið ólögmæt.
Hin ólögmæta ráðstöfun hafi komið stefnda sjálfum ótvírætt til góða þegar hann hafi enn farið gegn skýrum fyrirmælum og samningum við stefnendur og félagið við sölu á Stekkjarholti 25 þegar hann hafi ráðstafað söluandvirði, sem hafi átt að setja inn á handveðsettan reikning, til greiðslu þess hluta kröfunnar sem hann hefði án samráðs við stefnendur gert ábyrgðarlausan.
Frá árinu 2008 hafi mál stefnenda og félagsins gengið á milli starfsmanna bankans með þeim afleiðingum að erindum þeirra hafi ýmist verið svarað seint eða alls ekki. Stefndi hafi ýmist sýnt stefnendum samningsvilja eða ráðist í harðar innheimtuaðgerðir á hendur þeim. Stefndi hafi margsinnis lofað heildrænni úrlausn mála stefnenda og skapað réttmætar væntingar. Hann hafi með athöfnum sínum endurtekið vakið upp góða trú stefnenda þess efnis að unnið væri að úrlausn málsins, þó án nokkurra tillaga eða niðurstöðu. Einn af starfsmönnum stefnda hafi viðurkennt í eyru fyrrverandi lögmanns stefnenda að mál þeirra hefði legið í láginni í um það bil eitt ár, eða á meðan starfsmaðurinn hefði horfið til vinnu við skilanefnd gamla Landsbanka Íslands hf., sbr. yfirlýsingu Sigmundar Guðmundssonar hdl. Allan þann tíma sem stefndi hafi haft mál stefnenda til úrlausnar hafi hann reiknað fulla dráttarvexti á kröfur sínar. Á meðan stefnendur hafi verið í góðri trú um að unnið væri heildstætt að úrlausn mála þeirra, hafi stefndi auðgast samhliða. Stefnendur telji þá auðgun óréttmæta í framangreindu ljósi. Þá telji stefnendur jafnframt að þessi innheimta dráttarvaxta fari gegn markmiði dráttarvaxta, sem sé það að hvetja skuldara til lögmætra efnda á peningakröfum. Félaginu hafi á þessum tíma ekki verið kleift að standa skil á skuldbindingum sínum vegna þeirrar óvissu sem ríkt hafi á fjármálamarkaði, óvissu vegna ólögmætis gengislánanna og síðast en ekki síst vegna þeirrar óvissu sem uppi hafi verið á grundvelli ítrekaðra fullyrðinga starfsmanna stefnda að unnið væri að heildstæðri lausn á skuldamálum félagsins.
Þann 3. nóvember 2011 hafi stefndi boðað til nauðungarsölu á fasteign stefnenda, Halldórs og Jóhönnu, að Bergþórugötu 17. Hann hafi þá hafnað öllum bónum stefnenda um efndir samkomulagsins eða heildræna lausn mála. Haft hafi verið samband við stefnda, fyrir hönd stefnenda, tvisvar daginn áður og einu sinni samdægurs í því skyni að fá gerðinni frestað. Svör stefnda hafi verið þau að enginn frestur yrði veittur. Stefnandi, Hallgrímur, hafi þá ekið frá Eyjafirði til Reykjavíkur til að vera viðstaddur gerðina. Stefndi hafi hins vegar afturkallað gerðina samdægurs án nokkurra skýringa og án þess að láta stefnendur vita.
Með sams konar hætti hafi verið staðið að fyrirhugaðri nauðungarsölu á fasteign stefnenda, Halldórs og Jóhönnu, að Heiðarvegi 33. Stefnendur hafi þá óskað eftir að greiða þá kröfu stefnda sem legið hafi til grundvallar gerðinni og óskað eftir að þeim yrði veittur afsláttur ef þau greiddu kröfuna með staðgreiðslu að fjárhæð 17.100.000 krónur. Engin svör hafi borist frá stefnda sem hafi haldið sig við gerðina þar til tveimur tímum áður en hún skyldi fara fram, en þá hafi hún verið afturkölluð, án skýringa. Stefndi hafi ekki tekið við greiðslutilboði stefnenda á þeim tíma. Stefnendur byggi á því að stefndi hafi beitt viðtökudrætti og síðar auðgast með innheimtu fullra dráttarvaxta á kröfuna. Þau mótmæli innheimtu þessara dráttarvaxta, enda sé ljóst að stefndi geti ekki innheimt dráttarvexti á kröfu sem ekki sé greidd vegna atvika sem varði stefnda og stefnendum verði ekki um kennt, skv. 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Þá mótmæli stefnendur allri innheimtu stefnda á dráttarvöxtum, enda telji þeir að í vanefndum stefnda á niðurfellingu hinna umdeildu gerninga felist í sjálfu sér viðtökudráttur og sé þar með enginn grundvöllur fyrir efndum af hálfu félagsins eða stefnenda. Í þessu ljósi ítreki stefnendur að stefndi hafi innheimt fulla dráttarvexti úr hendi þeirra og félagsins vegna krafna sem hann hafi látið stefnendur halda að verið væri að leysa úr heildstætt.
Þann 16. júlí 2012 hafi verið undirritaður kaupsamningur um sölu fasteignarinnar Stekkjarholts 25. Í aðdraganda þeirrar sölu hafi stefndi fallist á að aflétta veði af Stekkjarholti 25 samkvæmt tryggingarbréfi nr. [...] gegn greiðslu söluandvirðis að fjárhæð 33.000.000 króna. Söluandvirðinu hafi verið ráðstafað inn á handveðsettan reikning og samið um að þar yrði það geymt uns leyst hefði verið úr málum stefnenda. Undir lok árs 2013 hafi stefnendur komist að því að stefndi hefði, með ólögmætum og saknæmum hætti, án nokkurrar heimildar og þvert gegn framangreindu samkomulagi aðila, ráðstafað fjárhæðinni til innborgunar á öðrum hluta af yfirdráttarskuld félagsins, þeim hluta sem staðið hafi án sjálfskuldarábyrgðar. Af þeirri fjárhæð hafi stefndi innheimt 17.301.812 krónur í dráttarvexti. Stefnendur hafi ekki verið meðvitaðir um þessa ráðstöfun og hafi ekki veitt stefnda nokkra heimild fyrir henni af hálfu félagsins. Stefnendur byggi á að stefndi hafi hér farið þvert gegn skýrum fyrirmælum í þeim eina tilgangi að auðgast með óréttmætum hætti. Í framangreindu samhengi megi glöggt sjá hagnað stefnda af þeirri ráðstöfun að búa til tvo höfuðstóla úr yfirdráttarskuldinni og láta sjálfskuldarábyrgð stefnenda standa til ábyrgðar á greiðslu annars þeirra á meðan stefndi hafi ráðstafað, þvert gegn skýrum fyrirmælum, söluandvirðinu til greiðslu á hinum sem hafi þá staðið án ábyrgðar. Allt hafi þetta farið fram án vitneskju stefnenda. Stefnendur telji ljóst að stefndi hafi endurtekið beitt þá óréttmætum viðskiptaháttum sem m.a. endurspeglist í framangreindu.
Stefnendur telji jafnframt að stefndi hafi með þessari ólögmætu ráðstöfun brotið gegn þeirri meginreglu sem kveði á um að kröfuhafa beri að ráðstafa greiðslu skuldara með sem hagstæðustum hætti fyrir skuldarann. Ljóst sé að stefndi hafi ekki aðeins ráðstafað söluandvirðinu þvert gegn fyrirmælum og samkomulagi aðila, heldur jafnframt á sem hagstæðastan máta fyrir hann sjálfan og óhagstæðastan máta fyrir stefnendur, eða í það minnsta ekki á sem hagstæðastan máta fyrir þau, sem honum hafi þó borið skylda til að gera. Þessi meginregla endurspeglist m.a. í 1. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 2. og 9. gr. reglugerðar nr. 670/2013 um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja.
Með beiðni sinni, dags. 30. janúar 2013, hafi stefndi krafist nauðungarsölu á hinni óseldu fasteign að Stekkjarholti 23, Fjarðabyggð, til greiðslu skuldar að fjárhæð 9.396.941 króna, sem hafi verið eftirstöðvar af öðrum hluta yfirdráttarins. Upphaflegur höfuðstóll kröfunnar hafi verið 22.965.975 krónur, en dráttarvextir hafi verið 17.847.998 krónur og annar innheimtukostnaður 190.338 krónur. Þegar hafi þá verið ráðstafað inn á kröfuna 31.565.370 krónum, en vegna hins himinháa dráttarvaxtakostnaðar hafi staðið eftir 9.396.941 króna sem stefndi hafi krafist nauðungarsölu á Stekkjarholti 23 fyrir. Félagið hafi greitt kröfuna 3. júlí 2013 með fyrirvara um réttmæti hennar. Krafan hafi verið greidd á þeim forsendum að stefnendur hafi óttast að verðmat stefnda á fasteigninni yrði umtalsvert lægra en markaðsvirði hennar og hafi því viljað geta selt hana á frjálsum markaði og ráðstafað söluandvirði hennar til greiðslu skulda félagsins við stefnda. Framangreind aðgerð hafi sýnt vilja stefnenda til að félagið stæði skil á skuldbindingum sínum, með fyrirvara um greiðslu hinna óréttmætu dráttarvaxta og þeirra fjárhæða sem beint megi rekja til hins háa vaxtakostnaðar sem hafi orðið vegna þess að yfirdráttarskuldinni hafi ekki verið breytt í fasteignalán eins og samið hafi verið um. Stefnendur leiti nú aðeins réttar síns í þeirri von að lúkning mála þeirra verði í samræmi við títtnefnt samkomulag um niðurfellingu hinna umdeildu gerninga.
Stefndi hafi nú endurtekið reynt að knýja stefnendur til greiðslu krafna sem byggist á vanefndum stefnda sjálfs á samkomulaginu og í samræmi við forsendur veitingar veðandlaga og sjálfskuldarábyrgðar. Skuld Fells-Eyrar ehf. samanstandi að mestu leyti af innheimtukostnaði og himinháum dráttarvöxtum. Stefnendur telji að stefndi hafi með ólögmætum og ósanngjörnum hætti og með viðtökudrætti, þvert á réttmætar væntingar stefnenda um úrlausn mála félagsins, krafist fullra dráttarvaxta á kröfur sínar.
Stefnendur hafi óskað allra gagna vegna málefna félagsins frá stefnda í aðdraganda málsóknar þessarar. Svör stefnda hafi verið á þá leið að stefnendur fengju gögnin aðeins afhent gegn greiðslu samkvæmt gjaldskrá stefnda. Stefnendur telji að stefndi hafi þar enn brotið gegn skyldum sínum um að veita viðskiptavini umbeðnar upplýsingar er varði hann sjálfan. Í kjölfarið hafi verið óskað eftir samkomulagi við stefnda um að stefnendum yrði gert kleift að höfða mál um gildi hinna umdeildu gerninga og innheimtuaðgerðum stefnda hætt á meðan. Starfsmaður stefnda hafi virst viljugur til slíkra samninga, en þegar stefnendur hafi kynnt drög að skriflegu samkomulagi þess efnis hafi stefndi skyndilega hafnaði þeim samningi. Með þeirri hegðun sinni hafi stefndi enn sýnt afstöðu sína og skeytingarleysi sitt til munnlegra samninga við stefnendur.
Stefnendur telji að stefndi hafi með öllum framangreindum athöfnum brotið gegn meginreglunni um góða viðskiptahætti, sem m.a. sé lögfest í 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, skyldu sinni til að hafa hagsmuni stefnenda að leiðarljósi samkvæmt 1. gr. laga nr. 161/2002, 2. gr. og 1. tl. 9. gr. reglugerðar nr. 670/2013, upplýsingaskyldu sinni samkvæmt m.a. 2.-5. tl. 9. gr. reglugerðar nr. 670/2013 og skyldu sinni til að tryggja skjóta, skilvirka og sanngjarna afgreiðslu á málefnum stefnenda samkvæmt 10. gr. reglugerðar nr. 670/2013, ásamt fyrrtéðum brotum stefnda með innheimtu óhóflegra dráttarvaxta á grundvelli viðtökudráttar, endurteknum loforðum og réttmætum væntingum stefnenda, ásamt brotum á öðrum skyldum sem falli undir eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálastofnunar.
Stefnendur byggi á að framagreind brot stefnda séu enn alvarlegri í því ljósi að þeir teljist neytendur í skilningi neytendaréttar og að viðskipti þau sem hafi átt sér stað falli undir gildissvið laga nr. 33/2013 um neytendalán þar sem stefnendur séu einstaklingar sem hafi veitt persónulegar ábyrgðir gegn lánveitingu til félags í þeirra eigu. Að mati stefnenda hafi lánveitandi því verið í sömu yfirburðarstöðu gagnvart stefnendum og almennt gagnvart öðrum einstaklingum við gerð hinna umdeildu gerninga. Stefnda hafi því borið að veita stefnendum fullnægjandi upplýsingar samkvæmt II. kafla laga nr. 33/2013, sérstaklega 7. og 8. gr. Hafi bankinn ekki ætlað að fella niður ábyrgðirnar við veðhæfi fasteignanna hafi þeim borið að tilgreina það með skýrum hætti áður en stefnendur hafi undirgengist hinar umdeildu ábyrgðir. Bæri bankinn þá skyldu einnig þó að stefnendur teldust ekki vera neytendur. Þvert á móti hafi bankinn látið stefnendur halda að hinir umdeildu gerningar væru aðeins gerðir til bráðabirgða. Það sé ljóst að það fari alltaf gegn góðum viðskiptaháttum og meginreglunni um að setja hagsmuni viðskiptamanna fjármálafyrirtækja í forgang að ráðleggja lántakendum og ábyrgðarmönnum að taka yfirdráttarlán með háum vöxtum ef ætlun fjármálafyrirtækisins sé að halda við slíkt lán til lengri tíma.
Stefnendur byggi jafnframt á því að við gerð hinna umdeildu gerninga hafi þeim verið kynntur upplýsingabæklingur sem hafi byggst á samkomulagi fjármálafyrirtækja, stjórnvalda og Neytendasamtakanna um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sbr. 10. ákvæði tryggingarbréfsins. Með þessu hafi Landsbanki Íslands hf. tekið á sig þá skuldbindingu að fylgt yrði téðu samkomulagi, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 161/2012. Stefnendur telji að Landsbanki Íslands hf., og síðar stefndi, hafi brotið á skyldum sínum samkvæmt téðu samkomulagi, s.s. skyldu sinni um greiðslugetu og upplýsingagjöf í garð ábyrgðarmanna áður en til veðsetningar er stofnað, skv. 3. og 4. gr., skyldu sinni til upplýsingagjafar eftir að til veðsetningar er stofnað, brotið gegn sérákvæði 6. gr. um yfirdráttarlán og markmiði sínu sem aðila að samkomulaginu, skv. 1. gr., um að draga úr ábyrgðum einstaklinga. Stefnendur telji að þetta eitt leiði til ógildingar hinna umdeildu gerninga eða í það minnsta styðji ógildingu þeirra verulega.
Við úrlausn máls þessa beri að hafa til hliðsjónar yfirburðarstöðu Landsbanka Íslands hf. og að stefnendur hafi fengið í hendur stöðluð skjöl, samin einhliða af bankanum. Stefnendur hafi ekki með nokkru móti getað haft áhrif á efni þeirra. Í trausti sínu á orðum starfsmanna bankans hafi þeir skrifað undir efni þeirra á grundvelli meginforsendna sem síðar hafi brostið eða hafi verið rangar frá upphafi. Stefnendur byggi á því að túlka beri samkomulagið og gerð hinna umdeildu skjala stefnendum í hag á grundvelli reglna neytendaréttar og andskýringarreglu samningalaga. Stefnendur byggi á að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi uppfyllt allar skyldur sínar samkvæmt framangreindum reglum og lagaákvæðum, enda sé hann mun betur í stakk búinn til að sýna fram á að svo hafi verið en stefnendur.
Stefnendur byggi á því að hina umdeildu gerninga skuli ógilda. m.a. með vísan til alls ofangreinds. Stefnendur byggi á þeirri meginmálsástæðu að stefndi hafi vanefnt skyldu sína samkvæmt samkomulagi við stefnendur þess efnis að fella úr gildi hina umdeildu gerninga. Stefndi hafi þar með brotið samningsskyldu sína sem hafi leitt til þess að forsendur fyrir hinum umdeildu gerningum hafi annað hvort verið rangar frá upphafi eða á þeim tíma með öllu brostnar. Stefnendur telji að hinir umdeildu gerningar byggist á svikum, röngum eða brostnum forsendum, röngum og villandi upplýsingum og atvikum við samningsgerð sem geti leitt til ógildingar, skv. 30. og 33. gr. laga nr. 7/1936, sem og síðari atvikum sem ýti undir það að hinir umdeildu gerningar verði ógiltir skv. 36. gr. laganna. Stefndi hafi í kjölfarið með ósanngjörnum og ólögmætum hætti krafið stefnendur um greiðslu mjög hárra fjárhæða og valdið stefnendum miklu tjóni sem aðallega sé til komið vegna verulegs dráttarvaxta- og innheimtukostnaðar. Það eitt að stefndi hafi alfarið hunsað lausnarskilyrði þeirra og grundvallarforsendu fyrir að stefnendur undirgengjust hina umdeildu gerninga, sé fullnægjandi ógildingarástæða. Stefndi hafi verið grandsamur um þetta lausnarskilyrði samkvæmt yfirlýsingu Árna Emilssonar, fyrrum útibússtjóra.
Markmið skuldbindinga félagsins hafi verið skýrt, það er fjármögnun á byggingu tveggja fasteigna. Markmið stefnda hafi verið skýrt, þ.e. að fá tryggingu fyrir greiðslu framkvæmdaláns uns fasteignirnar yrðu veðhæfar og tilbúnar til að standa sem tryggingar almennra fasteignalána. Markmið og forsendur stefnenda hafi einnig verið skýr, það er að veittar yrðu þessar tryggingar til bráðabirgða, uns fasteignirnar að Stekkjarholti 23 og 25 yrðu veðhæfar. Hafi stefndi talið að skuldbindingar félagsins væru ekki tryggðar með veði í fasteignunum sjálfum hefði honum verið í lófa lagið að krefjast frekari ábyrgða. Til þess að stefndi geti haldið við hina umdeildu gerninga hefði honum verið nauðsynlegt að upplýsa stefnendur um það áður en þau undirgengust þá. Það hafi ekki verið gert.
Jafnframt megi telja að á Landsbanka Íslands hf., og síðar stefnda, hvíli, og hafi á samningstíma hvílt, rík upplýsingaskylda gagnvart stefnendum og enn ríkari upplýsingaskylda með tilliti til neytendaverndar. Gildi kröfuábyrgðar geti ráðist af því einu hvort kröfuhafa hafi verið skylt að veita upplýsingar um ákveðin atriði áður en til skuldbindingar hafi komið. Beri að hafa það sjónarmið einnig til hliðsjónar, en ljóst sé að Landsbanki Íslands hf., og síðar stefndi, hafi engar upplýsingar veitt stefnendum um frekari kröfur en veðhæfi sem þyrfti að uppfylla til þess að samkomulagið yrði efnt af hálfu stefnda.
Stefnendur byggi á því að títtnefnt samkomulag um niðurfellingu hinna umdeildu gerninga um leið og Stekkjarholt 23 og 25 yrðu veðhæf hafi verið grundvallarforsenda og ákvörðunarástæða fyrir gerð hinna umdeildu gerninga. Stefnendur telji þessa forsendu hafa verið svo verulega að gerningarnir hafi verið ógildanlegir allt frá því að forsendan hafi brostið við veðhæfi fasteignanna, þegar stefndi hafi neitað að fella niður hina umdeildu gerninga.
Verði talið að forsendur hafi ekki brostið síðar, heldur hafi verið rangar frá upphafi, sé á því byggt að bankinn hafi beitt stefnendur svikum og með ólögmætum hætti og gegn betri vitund, annað hvort gefið rangar upplýsingar eða leynt atriðum sem máli hafi skipt, með þeim ásetningi að fá stefnendur til að stofna til hinna umdeildu gerninga. Stefnendur telji ljóst að Landsbanki Íslands hf. hafi gert sér grein fyrir því að hinar sviksamlegu upplýsingar hafi verið ákvörðunarástæða stefnenda við samningsgerðina. Stefnendur byggi á að á grundvelli 1. mgr. 30. gr. og 33. gr. laga nr. 7/1936 séu þeir ekki bundnir af hinum umdeildu gerningum sem séu til komnir með þessum hætti. Jafnframt sé ljóst að stefndi hafi verið meðvitaður um þessi svik. Stefnendur telji sönnunarbyrðina hvíla á stefnda um að hinir umdeildu gerningar hafi ekki verið gerðir vegna þessara svika, skv. sönnunarreglu 2. mgr. 30. gr. laga nr. 7/1936. Þá byggi stefnendur jafnframt á því að stefndi beri ábyrgð á því ef mistök hafa átt sér stað við samningsgerðina á milli stefnenda og bankans á grundvelli meginreglu samningaréttar um að ef loforð eða löggerningur vekja traust og vonir hjá móttakandanum, sem ekki samrýmist tilgangi loforðsgjafa, beri loforðsgjafi allt að einu ábyrgð á þeim mistökum.
Stefnendur telji sig hafa leitt nægar líkur að því að umrætt samkomulag hafi legið til grundvallar og verið meginforsenda hinna umdeildu gerninga. Sé þar sérstaklega vísað til yfirlýsingar Árna Emilssonar, fyrrum útibússtjóra Landsbankans í Austurstræti, en einnig til venju við veitingu framkvæmdalána. Því til stuðnings bendi stefnendur á dóm Hæstaréttar í málinu nr. 161/2012. Stefnendur telji dóminn fordæmi í máli þessu. Á grundvelli sömu forsendna beri að fallast á kröfur þeirra.
Framangreind umfjöllun um atvik sem orðið hafi eftir gerð hinna umdeildu gerninga og allt til dagsins í dag ýti enn undir að gerningarnir verði ógiltir á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Ákvæðið geri ráð fyrir því að samningi verði vikið til hliðar í heild eða að hluta eða breytt ef talið yrði ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Í 2. mgr. sé sérstaklega gert ráð fyrir því að við mat samkvæmt 1. mgr. skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Af þessu leiði að háttsemi Landsbanka Íslands hf., og síðar stefnda, leiði til þess að ógilda skuli hina umdeildu gerninga.
Á grundvelli þessa forsendubrests, vanefnda stefnda á samkomulaginu við stefnendur, brots á leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu stefnda, endurtekinna brota stefnda á meginreglunni um góða viðskiptahætti og brota á hinum fjölmörgu skyldum fjármálafyrirtækja og verklagsreglum stefnda, sér í lagi í ljósi yfirburðarstöðu stefnda og stöðu stefnenda sem neytenda, verði að telja óheiðarlegt og ósanngjarnt að bera hina umdeildu gerninga fyrir sig, með vísan til 30., 33., 36. gr. laga nr. 7/1936 og meginreglunnar um rangar og brostnar forsendur. Á þeim grundvelli krefjist stefnendur ógildingar þeirra.
Vegna vanefnda stefnda, stökkbreytingar gengistryggðra lána og annarra atriða sem stefnendum verði ekki um kennt, hafi stefnendur orðið fyrir mjög miklu tjóni. Þau hafi nú gert sér grein fyrir því að stefndi muni ekki standa við skuldbindingar sínar um niðurfellingu hinna umdeildu gerninga eða loforð sín um heildstæða lausn á málum þeirra og félagsins. Þau telji því þann eina veg færan, í þeirri von að fá réttláta úrlausn mála sinna, að krefjast ógildingar umþrættra gerninga.
Stefnendur byggi aðild sína á 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísist til 33. gr. sömu laga. Einnig sé vísað til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sérstaklega 1. og 19. gr., reglugerðar nr. 670/2013 um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja og laga nr. 33/2013 um neytendalán. Jafnframt sé vísað til meginreglna á sviði samninga- og kröfuréttar, svo sem meginreglunnar um að samninga skuli halda, efndaskyldu í kröfuréttarsambandi, reglunnar um viðtökudrátt og reglunnar um rangar og brostnar forsendur. Stefnendur vísi sérstaklega til ógildingareglna samningaréttar í 30., 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Jafnframt sé vísað til reglunnar um réttmætar væntingar og góða trú ásamt meginreglunni um góða viðskiptahætti og skyldu fjármálafyrirtækja til forgangs á hagsmunum viðskiptavinar. Þá sé vísað til samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sérstaklega 7. gr. Málskostnaðarkrafa stefnenda styðjist við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
II
Stefndi byggir kröfu sína um frávísun á 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi hafi höfðað mál á hendur stefnanda, Halldóri, og Fells-Eyri ehf. fyrir Héraðsdómi Austurlands 16. desember 2008 vegna tékkareiknings félagsins nr. [...] sem stefnandi, Halldór, hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir, til greiðslu skuldar að fjárhæð 10.000.000 króna, auk dráttarvaxta. Hvorugur stefnda í því máli hafi tekið til varna. Stefna hafi verið árituð um aðfararhæfi 26. febrúar 2009. Þann 1. febrúar 2010 hafi sýslumaðurinn á Eskifirði gert fjárnám hjá stefnanda, Halldóri, samkvæmt beiðni stefnda, fyrir skuld samkvæmt árituðu stefnunni. Stefnandi, Halldór, hafi ekki mætt og ekki skotið gerðinni til héraðsdóms. Þannig hafi stefnandi, Halldór, hvorki haft uppi mótmæli né gert fyrirvara við gildi umræddrar sjálfskuldarábyrgðar.
Í áritun dómara á stefnuna hafi falist viðurkenning á því að sjálfskuldarábyrgð stefnanda, Halldórs, nr. [...], væri gild. Áritun á stefnu hafi sama gildi og dómur og hafi því bindandi réttaráhrif (res judicata áhrif) á málsókn stefnanda, Halldórs, nú. Stefndi telji því að vísa beri málinu frá dómi, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
III
Stefnandi hafnar því að vísa beri málinu frá dómi. Ekki sé um að ræða efnislega úrlausn um sama sakarefni. Til þess að svo sé þurfi krafan, málsgrundvöllurinn, málsatvikin og málsástæðurnar öll að vera þau sömu. Sú stefna sem stefndi hafi fengið áritaða á hendur stefnanda, Halldóri, hafi verið innheimtustefna á einu blaði. Í engu hafi verið fjallað um þær málsástæður sem stefnandi haldi uppi í þessu máli og engin efnisleg afstaða hafi verið tekin til þeirra atvika sem lýst sé í málinu. Að auki krefjist stefnandi, Halldór, ógildingar í þessu máli, en krafa stefndu í fyrra málinu hafi verið um greiðslu skuldar. Þá byggi stefnendur á því í málinu að ógilda beri ábyrgð stefnenda, Halldórs og Hallgríms, m.a. á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 vegna atvika sem komið hafi til eftir áritun stefnunnar. Stefndi taki ekki til efnislegra varna í málinu, sem valdi því að mismunandi niðurstaða verði um ábyrgðaryfirlýsingu stefnenda, Halldórs og Hallgríms, verði kröfu stefnanda, Halldórs, vísað frá dómi. Regluna um bindandi réttaráhrif dóma (res judicata) skuli túlka þröngt, en hún sé undantekning frá meginreglunni um frjálsan aðgang að dómstólum.
IV
Ágreiningur málsaðila er sprottinn af framkvæmdaláni Landsbanka Íslands hf. til félagsins Fells-Eyrar ehf. sem veitt var í formi yfirdráttar á tékkareikningi félagsins nr. [...]. Stefnendur, Halldór og Hallgrímur, gengust í sjálfskuldarábyrgð fyrir yfirdrættinum 3. september 2006 með sjálfskuldarábyrgð nr. [...], að fjárhæð 10.000.000 króna. Stefnendur, Halldór og Hallgrímur, krefjast í málinu ógildingar á framangreindri sjálfskuldarábyrgð, þar sem ábyrgðarskuldbinding þeirra hafi átt að falla niður þegar fasteignir þær er Fells-Eyri ehf. hafði í byggingu yrðu veðhæfar. Þá skyldi breyta framkvæmdaláninu í venjuleg fasteignalán með veði í fasteignunum sjálfum.
Þann 16. desember 2008 höfðaði stefndi dómsmál gegn Fells-Eyri ehf. og stefnanda, Halldóri, fyrir Héraðsdómi Austurlands og krafðist greiðslu 10.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum óskipt vegna framangreinds tékkareiknings og sjálfskuldarábyrgðar. Hvorki stefnandi né félagið tóku til varna í málinu og var stefnan árituð um aðfararhæfi 26. febrúar 2009. Þann 1. febrúar 2010 var gert fjárnám hjá stefnanda, Halldóri, á grundvelli árituðu stefnunnar, hjá sýslumanninum á Eskifirði. Ekki var mætt af hálfu stefnanda, Halldórs, og gerðinni var ekki skotið til héraðsdóms.
Stefndi krefst þess í málinu að þeirri kröfu stefnanda, Halldórs, að ógilt verði með dómi sjálfskuldarábyrgð nr. [...], útgefin af stefnendum, Halldóri og Hallgrími, 3. september 2006, að fjárhæð 10.000.000 króna, verði vísað frá dómi. Frávísunarkrafan byggist á því að áður hafi verið dæmt um kröfuna og því beri að vísa henni frá dómi samkvæmt 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Samkvæmt 113. gr. laga nr. 91/1991 hefur áritun dómara á stefnu sama gildi og dómur. Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. sömu laga er dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila um þær kröfur sem þar eru dæmdar að efni til. Samkvæmt 2. mgr. 116. gr. verður krafa sem hefur verið dæmd að efni til ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól framar en segi í lögunum. Nýju máli um slíka kröfu skal vísað frá dómi.
Stefnendur hafna því að vísa skuli framangreindri kröfu stefnanda, Halldórs, frá dómi, en þeir telja ekki vera um sama sakarefni að ræða þar sem ekki hafi verið tekið á þeim málsástæðum sem hér sé byggt á. Þá sé um að ræða ógildingarkröfu, en í hinu málinu hafi verið um að ræða kröfu um greiðslu skuldar.
Með áritun á framangreinda stefnu á hendur stefnanda, Halldóri, var fallist á kröfu stefnda um að stefnandi skyldi greiða honum 10.000.000 króna, auk vaxta, á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar. Stefnandi tók ekki til varna í því máli, en hefur borið því við að hann hafi talið bankann ætla að leysa úr málum hans og félagsins Fells-Eyrar ehf. með heildstæðum hætti. Í því máli sem nú er til úrlausnar krefst hann ógildingar á þessari sömu ábyrgðaryfirlýsingu. Þar sem framangreind krafa var ekki höfð uppi í fyrra máli aðilanna verður ekki fallist á að vísa beri málinu frá dómi á grundvelli 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi, Halldór, reisir framangreinda ógildingarkröfu sína í máli þessu fyrst og fremst á þeirri málsástæðu að stefndi hafi vanefnt skyldu sína samkvæmt samkomulagi þeirra um að sjálfskuldarábyrgðin skyldi felld úr gildi í ágúst 2007 þegar fasteignirnar að Stekkjarholti 23 og 25 urðu veðhæfar. Þá vísar stefnandi til síðari atvika og samskipta aðila, allt frá árinu 2007 til dagsins í dag, sem „ýta undir“ að gerningarnir verði ógiltir. Framangreindar málsástæður eru þess eðlis að ef þeim hefði verið haldið fram í fyrra máli aðila og þær eiga við rök að styðjast, hefðu þær að réttu lagi leitt til sýknu stefnanda af kröfu stefnda. Verður að telja að þær málsástæður sem stefnandi, Halldór, byggir nú á hefðu mátt koma fram í því máli. Með því að láta undir höfuð leggjast að halda þessum málsástæðum fram í fyrra málinu verður talið að meginregla 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 girði fyrir að stefnandi geti byggt málatilbúnað sinn í þessu máli á greindum málsástæðum, enda væri andstætt þeirri reglu ef komast mætti hjá henni með nýrri málsókn. Ekki verður fallist á að tilvísun stefnda til framangreinds lagaákvæðis við munnlegan málflutning um frávísunarkröfuna sé of seint fram komin. Af framangreindum sökum verður fallist á kröfu stefnda um frávísun kröfu stefnanda, Halldórs, þess efnis að ógilt verði með dómi sjálfskuldarábyrgð nr. [...], útgefin af stefnendum Halldóri og Hallgrími 3. september 2006, að fjárhæð 10.000.000 króna.
Eftir atvikum þykir rétt að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisúrlausnar.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu stefnanda, Halldórs Jónassonar, um ógildingu sjálfskuldarábyrgðar nr. [...], sem gefin var út af stefnendum, Halldóri og Hallgrími Hallgrímssyni, 3. september 2006, að fjárhæð 10.000.000 króna, er vísað frá dómi.
Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms.