Hæstiréttur íslands

Mál nr. 499/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Greiðsluaðlögun


Þriðjudaginn 5. október 2010.

Nr. 499/2010.

A

(Tryggvi Agnarsson hdl.)

gegn

Héraðsdómi Suðurlands

(enginn)

Kærumál. Greiðsluaðlögun.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu A um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Talið var að gögn málsins sýndu að A hefði verið kleift að standa í skilum með afborganir af lánssamningi síðari hluta árs 2009 en ekki gert það. Var beiðninni því hafnað á grundvelli 5. tl. 1. mgr. 63. gr. d laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. ágúst 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. júlí 2010, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að honum yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Sóknaraðili kveðst ekki hafa fengið vitneskju um úrskurðinn fyrr en 4. ágúst 2010. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hans um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Þá krefst hann að kærumálskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt yfirlýsingu B fyrir hönd [...], þar sem segir að hann hafi fyrir hönd félagsins átt að taka yfir [...] bifreið með skráningarnúmerinu [...] í lok ágúst 2009 ásamt réttindum og skyldum henni fylgjandi, þar með talinn lánssamning [...]. Vegna versnandi fjárhagsstöðu félagsins hafi það þó hvorki staðið undir greiðslum né fengið vilyrði til þess að yfirtaka lánið eða endurfjármagna það. Reynt hafi verið til þrautar að fá bifreiðina ásamt láninu flutta yfir á félagið þar til í mars 2010, en ekki tekist og hafi bifreiðin verið í vörslu B á þessum tíma. Sóknaraðili hefur og lagt fram staðfestingu frá SP Fjármögnun hf. 6. ágúst 2010 um að nefndum samningi hafi verið rift 24. mars 2010 vegna vanskila og bifreiðin hafi af hálfu fjármögnunarfélagsins verið tekin 19. maí 2010.

Fallist verður á með héraðsdómi að gögn málsins sýni að sóknaraðila hafi verið kleift að standa í skilum með afborganir af fyrrgreindum lánssamning síðari hluta árs 2009 en ekki gert það. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. júlí 2010.

Með beiðni dagsettri 12. maí sl., sem barst dómnum sama dag, hefur A, kt. [...], til heimilis að [...], [...] [...], óskað heimildar til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009.

Því er lýst í beiðni skuldara að hann hafi á síðustu árum unnið að skipulagningu og sölu landspilda og lóða úr landi [...], ásamt vinnu við lagningu vega og vatnsveitna, grunna, rotþróa og annars fyrir kaupendur. Fram kemur að skuldari keypti jörðina [...] á árunum 2002-2003 í þeim tilgangi að skipuleggja jörðina og selja spildur úr jörðinni sem  síðan hafi orðið hans aðalstarf tveimur árum síðar. Skuldari stofnaði félag í kringum þennan rekstur og skapaði sér þannig vinnu sem skilaði töluverðum hagnaði. Félagið, [...], keypti jörðina [...] af skuldara og síðustu ár hefur skuldari þegið laun frá félaginu. Í gögnum málsins kemur fram að skuldari hafi einnig verið í forsvari fyrir önnur einkahlutafélög, m.a. [...], og að hann hafi gengist í umtalsverðar ábyrgðir fyrir það félag sem og [...]. Fram kemur í beiðni að í lok árs 2007 hafi komið í ljós að [...] hafi skilað töluverðum hagnaði og skuldari þá farið að ráðleggingum ráðgjafa og ráðist í kaup á fasteignum, atvinnuhúsalóðum og skyldu fyrir hönd félagsins. Til greina hafi komið að greiða niður öll lán félagsins en það hafi ekki verið talið skynsamlegt og hafi jarðir félagsins því verið veðsettar til að fjármagna aðrar fjárfestingar. Allt hafi þetta verið gert með erlendum lánum í lok árs 2007. Á árinu 2009 hafi þó orðið ljóst vegna mikils samdráttar í sölu á lóðum í eigu [...] og verkefnum á vegum félagsins að skuldari yrði að fara á atvinnuleysisbætur. Skuldari kveðst búa einn í leiguhúsnæði, 97 fermetra einbýlishúsi ásamt 50 fermetra bílskúr í eigu [...], hann eigi eitt barn og greiði með því meðlag.

Skuldari hefur lagt fram ítarlega greiðsluáætlun í samræmi við 2. mgr. 63. gr. c .  laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009.

Tekjur skuldara samkvæmt endurskoðaðri greiðsluáætlun, sem lögð var fyrir dóminn í þinghaldi þann 8. júlí 2010, nema alls 145.218 krónum á mánuði, þar af eru húsaleigubætur áætlaðar samtals 18.000 krónur.

Helstu samningskröfur samkvæmt endurskoðaðri greiðsluáætlun eru skuldir við Arion banka, Íslandsbanka og SP Fjármögnun. Eftirstöðvar samningskrafna skuldara, miðað við skil, eru sagðar nema samtals 11.730.938 krónum, og vanskil og gjaldfallnar kröfur samtals 11.973.349 krónum. Eins og áður er rakið er skuldari í talsverðum ábyrgðum fyrir félög sem hann átti hlut í eða var í forsvari fyrir, þ.e. [...] og [...].  Eftirstöðvar ábyrgðarskuldbindinga eru sagðar nema samtals 98.102.813 krónum. Tekið skal fram að ábyrgð skuldara á skuldbindingum félaganna byggir að öllu leyti á samningum og því á 2. mgr. 63. gr. a. laga nr. 21/1991, ekki við í máli þessu.    

Greiðslugeta, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra útgjalda, s.s. húsaleigu og meðlags, er í endurskoðaðri greiðsluáætlun sögð vera neikvæð, sem nemur 73.990 krónum á mánuði.

Tillaga skuldara er að þær skuldir hans sem ekki eru tryggðar með veði í fasteign, verði felldar niður að fullu, samkvæmt heimild í 1. mgr. 63. gr. b. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. lög nr. 24/2009.    

Skuldari kveðst ekki hafa gripið til neinna ráðstafana sem riftanlegar væru samkvæmt lögum nr. 21/1991. 

Forsendur og niðurstaða

Leitað er greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 24/2009 um breytingu á lögum nr. 21/1991. Mál þetta barst dóminum þann 12. maí 2010. Í þinghaldi þann 2. júlí 2010, leitaði dómari, með vísan til 37. gr. laga nr. 21/1991, svara við þeim atriðum sem hann taldi óljós eða ónógar upplýsingar fram komnar um auk þess að veita skuldara vikufrest til að leggja fram frekari gögn eða veita nánari upplýsingar. Var skuldara í þinghaldinu meðal annars bent á ósamræmi milli greiðsluáætlunar og fylgigagna og honum bent á að unnt væri að leiðrétta það með nýrri greiðsluáætlun. Þá var skuldari sérstaklega inntur eftir upplýsingum um innistæður hans í innlendum bönkum og sparisjóðum, sem tilgreindar voru á skattframtali 2009 og stöðu þeirra eigna í dag. Þann 8. júlí sl. mætti skuldari fyrir dóminn, skilaði inn gögnum, þar með talið nýrri greiðsluáætlun, og lýsti yfir að hann teldi gagnaöflun lokið. Var málið þá tekið til úrskurðar.

Af framlögðum gögnum má ráða að tekjur skuldara að frádreginni staðgreiðslu og með teknu tilliti til vaxtabóta hafi verið sem hér segir. Á árinu 2005 að meðaltali 204.171 krónur á mánuði. Árið 2006 að meðaltali 1.294.267 krónur á mánuði, en það ár numu fjármagnstekjur skuldara 15.000.000 krónum. Árið 2007 að meðaltali 1.075.840 krónur á mánuði, en það ár numu fjármagnstekjur skuldara 12.075.184 krónum. Árið 2008 að meðaltali 216.143 krónur á mánuði, en það ár numu fjármagnstekjur skuldara 543.113 krónum. Árið 2009 að meðaltali 346.510 krónur á mánuði, en það ár numu fjármagnstekjur skuldara 2.789.931 krónum. 

Í skattframtölum áranna 2008, 2009 og 2010 kemur fram að innistæður í innlendum bönkum og sparisjóðum voru sem hér segir: Í árslok 2007 samtals 512.224 krónur, í árslok 2008 samtals 39.884.459 krónur og í árslok 2009 samtals 1.549.460 krónur. Í greinagerð skuldara, sem lögð var fram í þinghaldi þann 8. júlí sl., kemur fram að skuldari hafi að hluta til notað þessa fjármuni  til eigin framfærslu en einnig til þess að koma í veg fyrir að ábyrgðir féllu á hann eða að hans persónulegu skuldbindingar færu í vanskil. Eignastaða innlendra og erlendra verðbréfa og krafna sem og stofnsjóðsinneign sem tilgreindar eru í skattframtölum áranna 2007 – 2010 voru sem hér segir: Í árslok 2007 samtals  46.915.574 krónur ([...]), í árslok 2008 samtals 31.496.945 krónur ([...]) og í árslok 2009 samtals 29.973.103 krónur ([...]).

Í greiðsluáætlun skuldara er gert ráð fyrir 92.000 krónum til framfærslu og rekstrar bifreiðar, auk 127.208 króna í önnur útgjöld, þ.m.t. meðlag og húsleigu, samtals 219.208 krónum á mánuði.

Til samningskrafna skuldara er aðallega stofnað á árunum 2007 – 2008. Árið 2007 við Arion banka vegna láns nr. [...] upphaflega að fjárhæð 1.100.000 krónur. Árið 2008 við Arion banka vegna veltureiknings nr. [...], sbr. tryggingabréf að fjárhæð 11.000.000 krónur, og við SP Fjármögnun vegna bílasamnings um [...] jeppabifreið, upphaflega að fjárhæð 9.230.769 krónur, vísitölutryggt lán með 8,45% vöxtum. Þá er skuldari með tvö kreditkort hjá Íslandsbanka sem eru í skilum. Á sama tíma, á árunum 2007 og 2008, stofnaði skuldari einnig til helstu ábyrgðarskuldbindinga sinna. Í ábyrgðir fyrir [...] gekkst skuldari á árinu 2004, vegna kröfu Íslandsbanka nr. [...], upphaflega að fjárhæð 3.500.000 króna og fyrir kröfu [...] að fjárhæð 300.000 krónur og á árinu 2007 fyrir kröfu Lýsingar, upphaflega að fjárhæð 14.442.000 krónur. Á árinu 2008 gekkst skuldari í ábyrgð fyrir kröfu SP Fjármögnunar, upphaflega að fjárhæð 1.020.408 krónur og kröfu Íslandsbanka nr. [...], upphaflega að fjárhæð 1.470.000 krónur. Í ábyrgðir fyrir [...] gekkst skuldari á árinu 2007 fyrir kröfum Frjálsa fjárfestingarbankans nr. [...], upphaflega að fjárhæð 19.600.000 krónur, og nr. [...], upphaflega að fjárhæð 15.000.000 krónur.

Í 2. tl. 63. gr. d. laga nr. 21/1991, kemur fram að héraðsdómari geti hafnað beiðni um heimild til að leita nauðsamnings til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingar var stofnað. Í 3. tl. 63. gr. d. laga nr. 21/1991, kemur síðan fram að hafna megi beiðni um heimild til að leita nauðsamnings til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Þegar skuldari stofnaði til eigin skuldbindinga  sem og ábyrgða fyrir einkahlutafélögin [...] og [...], hafði hann góðar tekjur, þ.m.t. fjármagnstekjur, og peningalegar eignir hans voru umtalsverðar. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að skuldari hafi getað staðið undir eigin skuldbindingum og ábyrgðarskuldbindingum á þeim tíma sem til þeirra var stofnað. Verður því hvorki séð að skuldari hafi, með eigin skuldbindingum né ábyrgðum fyrir aðra, tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhag hans eða að hann hafi verið ófær um að standa við skuldbindingar sínar,  og standa ákvæði 2. og 3. tl. 1. mgr. 63. gr. d. laga nr. 21/1991, því ekki í vegi að honum verði veitt heimild til greiðsluaðlögunar.

Í 5. tl. 1. mgr. 63. gr. d. laga nr. 21/1991, kemur fram að héraðsdómari geti hafnað beiðni um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar ef skuldari hafi svo að máli skipti látið hjá líða að standa í skilum við lánardrottna sína þótt honum hefði verið það kleift að einhverju leyti eða öllu.

Í gögnum málsins kemur fram að upphaf vanskila skuldara við Arion banka vegna láns nr. [...] hafi verið í marsmánuði 2010 og vegna veltureiknings nr. [...] í febrúarmánuði 2010. Upphaf vanskila vegna bílasamnings skuldara um [...] bifreiðina við SP fjármögnun var hins vegar 15. september 2009, sbr. og greinargerð skuldara sem lögð var fram í þinghaldi 8. júlí sl. Gögn málsins bera með sér að á árinu 2009 hafi skuldari greitt að fullu afborgun átta gjalddaga af samningum, samtals 1.499.087 krónur og þar að auki 50.000 krónur inn á áætlaða afborgun að fjárhæð 182.463 krónur sem var á  gjalddaga 15. september 2009, eða um fjórðung þeirrar afborgunar. Frá þeim tíma, þ.e. 15. september 2009, hefur skuldari hins vegar ekki greitt inná kröfuna SP Fjármögnunar. Eins og rakið hefur verið hér að framan voru fjármagnstekjur og peningarlegar eignir skuldara í árslok 2009 sem hér segir: Innistæður í innlendum bönkum og sparisjóðum 1.549.460 krónur,  fjármagnstekjur 2.789.931 krónur og eignastaða innlendra og erlendra verðbréfa og krafna sem og stofnsjóðsinneign 29.973.103 krónur. Fram kemur í göngum málsins að áætluð fjárhæð þriggja síðustu gjalddaga ársins 2009 við SP Fjármögnun vegna [...] bifreiðarinnar var 548.668 krónur.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og með vísan til áðurgreindra upplýsinga um fjármagnstekjur og peningalegar eignir skuldara í árslok 2009, þ.m.t. innistæður í bönkum, er það mat dómara að skuldara hafi á tímabilinu frá september til desember 2009 verið kleift, að öllu leyti, að standa í skilum við SP Fjármögnun vegna bílasamningsins. Gögn málsins bera með sér að það gerði skuldari hins vegar ekki og verður því með vísan til 5. tl. 1. mgr. 63. gr. d. laga nr. 21/1991, ekki hjá því komist að hafna beiðni skuldara um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Ragnheiður Thorlacius, héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Beiðni A, kt. [...], um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar er hafnað.