Hæstiréttur íslands
Mál nr. 138/2013
Lykilorð
- Stefnubirting
- Sjálfskuldarábyrgð
|
|
Fimmtudaginn 12. september 2013. |
|
Nr. 138/2013.
|
Jón Ólafsson (Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Grímur Sigurðsson hrl.) |
Stefnubirting. Sjálfskuldarábyrgð.
L hf. höfðaði mál gegn J og krafðist þess að hann greiddi skuld vegna láns sem hann var ábyrgðarmaður að. Stefna var talin réttilega birt fyrir J á Englandi samkvæmt þarlendum birtingarreglum, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. J Ltd. var aðalskuldari lánsins og hafði lagt tiltekin hlutabréf að handveði til tryggingar greiðslu þess. Hæstiréttur féllst ekki á að krafa L hf. væri niður fallin vegna þess að upphaflegur kröfuhafi lánsins, sparisjóðurinn S, hefði ekki gengið að hlutabréfunum þótt andvirði þeirra hefði lengi vel dugað til greiðslu lánsins. Var meðal annars vísað til eldri hæstaréttardóms þar sem leyst var úr ágreiningi J Ltd. og L hf. um sama lán. Þá stóðu ekki rök til þess að L hf. glataði rétti sínum á hendur J þótt L hf. hefði ekki kallað eftir frekari veðum eða innheimt kröfuna hjá J Ltd. eftir að hún féll í gjalddaga. Að lokum hefði J ekki sýnt fram á að það hefði verið forsenda ábyrgðarloforðs hans að handveðsett hlutabréf stæðu ávallt undir endurgreiðslu lánsins á gjalddaga. Var því fallist á kröfu L hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. mars 2013. Hann krefst aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnda verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í 2. mgr. 87. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er mælt fyrir um að birtingarvottorð skuli fært á frumrit stefnu eða blað, sem er fest við það, og skuli frumritið síðan afhent eða sent stefnanda. Af gögnum málsins verður ráðið að við stefnu í máli þessu hafi verið fest birtingarvottorð Veru Kislovu, hæstaréttarlögmanns í Englandi og Wales, 4. maí 2011, og James Joseph Colacicco stefnuvotts 20. apríl sama ár. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um að stefnan hafi verið birt fyrir áfrýjanda á 19. apríl 2011 og að stefnubirtingin hafi verið lögmæt að enskum rétti, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur réttarins 7. mars 2013 í máli nr. 599/2012 varðar sama lán og hér um ræðir. Þar hélt Jervistone Ltd., aðalskuldari lánsins, því fram að sýkna bæri hann vegna aðildarskorts stefnda í þessu máli. Þá tefldi félagið fram þeirri málsástæðu að lengi vel hafi andvirði hinna handveðsettu bréfa dugað til greiðslu skuldarinnar og hafi Sparisjóðnum í Keflavík, forvera stefnda, borið að ráðstafa bréfunum til greiðslu lánsins. Þar sem þessa hafi ekki verið gætt af hálfu sparisjóðsins væri krafan fallin niður. Einnig byggði félagið á því að sýkna bæri það á grundvelli 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða óskráðra reglna um brostnar forsendur. Með fyrrgreindum dómi réttarins var öllum þessum málsástæðum félagsins hafnað.
Áfrýjandi hefur með vísan til áðurnefnds hæstaréttardóms fallið frá þeirri málsástæðu sinni í héraði að sýkna beri hann vegna aðildarskorts stefnda. Hann heldur því á hinn bóginn fram að gera beri strangari kröfur þegar kemur að gildi ábyrgðarskuldbindinga heldur en þegar um er að ræða aðalskuld. Eigi forsendur hæstaréttardómsins því ekki við um áfrýjanda sem ábyrgðarmann. Það skilyrði að handveðsett hlutabréf stæðu ávallt undir endurgreiðslu lánsins og að stefndi neytti heimildar í lánssamningi til að kalla eftir frekari tryggingum hafi verið ákvörðunarástæða ábyrgðar áfrýjanda. Um þessa forsendu ábyrgðar áfrýjanda hafi Sparisjóðnum í Keflavík verið fullkunnugt, enda skýrlega um hana samið í 10. gr. lánssamningsins. Óumdeilt sé að markaðsvirði hinna handveðsettu bréfa hafi staðið undir láninu á gjalddaga þess. Ef sparisjóðurinn hefði innheimt lánið á gjalddaga eða skömmu eftir hann hefði sparisjóðurinn fengið fullar heimtur kröfu sinnar og ábyrgðin ekki fallið á áfrýjanda. Þess í stað hafi sparisjóðurinn sýnt af sér algjört tómlæti, hann hafi ekki innheimt kröfuna, ekki tilkynnt áfrýjanda um vanskilin, ekki kallað eftir frekari tryggingum eða gert nokkrar ráðstafanir til að koma hinum handveðsettu bréfum í verð.
Með fyrrefndum dómi réttarins í máli nr. 599/2012 var komist að þeirri niðurstöðu að með ákvæðum lánssamningsins hafi engin skylda verið lögð á Sparisjóðinn í Keflavík til að ráðstafa hinum handveðsettu bréfum til greiðslu lánsins. Breytir það því engu um ábyrgðarskuldbindingu áfrýjanda að ekki var gengið að þeim. Þá standa rök ekki til þess að stefndi hafi glatað rétti sínum á hendur áfrýjanda þótt hinn fyrrnefndi hafi ekki kallað eftir frekari veðum eða innheimt kröfuna hjá aðalskuldara eftir að hún féll í gjalddaga. Að lokum hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að það hafi verið forsenda ábyrgðarloforðs hans að handveðsett hlutabréf stæðu ávallt undir endurgreiðslu lánsins á gjalddaga.
Samkvæmt framansögðu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Eftir úrslitum málsins verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Jón Ólafsson, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 1.200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2012.
Mál þetta, sem var dómtekið 7. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af NBI hf., nú Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík á hendur Jóni Ólafssyni, 12 Aston Mews, 103 Kilburn Lane, London, W10 4AN, Stóra-Bretlandi, með stefnu dagsettri 8. apríl 2011.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum 2.255.432,96 sterlingspund, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af stefnufjárhæðinni frá 21. ágúst 2009 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og til vara að dómkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndi krafðist þess upphaflega að málinu yrði vísað frá dómi. Í þinghaldi, 24. febrúar 2012, féll stefndi frá frávísunarkröfu sinni.
Málavextir
Helstu málsatvik eru þau að snemma árs 2006 óskaði stefndi eftir því að Sparisjóðurinn í Keflavík myndi lána Jervistone Ltd. (einnig nefnt Jervistone Holdings Ltd.) allt að 4.500.000 sterlingspund (500.000.000 kr.) í formi lánalínu. Lánsfénu yrði öllu varið til kaupa á erlendum hlutabréfum, skráðum í Bretlandi og skyldu hlutabréfin standa til tryggingar láninu. Félagið er skráð á Bresku Jómfrúaeyjum með skráningarnúmerið 541378. Var stefndi tilgreindur sem sérstakur fjárfestingarráðgjafi félagsins.
Erindi stefnda var tekið fyrir hjá Sparisjóðnum í Keflavík og í kjölfarið voru stefnda send drög að lánssamningi þar sem gert var ráð fyrir að lánveiting til félagsins yrði háð þremur skilyrðum. Í fyrsta lagi að stefndi yrði sjálfskuldarábyrgðaraðili að láninu. Í öðru lagi að fullnægjandi gögn yrðu afhent um félagið Jervistone Ltd. og í þriðja lagi að fullnægjandi umboð til að binda félagið yrðu lögð fram. Voru drögin og skilyrðin send stefnda, 21. febrúar 2006, og gerði stefndi athugasemdir við lánaskjölin er lutu að því meðal annars að óskað var eftir því af hálfu stefnda að ábyrgð hans á lánssamningnum yrði einföld í stað sjálfskuldarábyrgðar. Því var hafnað og var lánssamningurinn undirritaður 11. apríl 2006 en fjárhæð hans nam 2.250.000 sterlingspundum. Sama dag undirritaði stefndi yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð, þar sem hann gekkst í sjálfskuldarábyrgð til tryggingar á skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum, afleiðusamningum og öðrum skuldbindingum sem Jervistone Ltd. hafði gengist undir gagnvart Sparisjóðnum í Keflavík, þar með talið samkvæmt lánssamningnum að fjárhæð 2.250.000 sterlingspund auk vaxta og alls kostnaðar. Eftir undirritun lánssamningsins og sjálfskuldarábyrgðarinnar hóf Jervistone Ltd. að draga á lánið en um lánalínu var að ræða eða yfirdráttarlán.
Hinn 31. janúar 2007 nam skuld Jervistone Ltd. við Sparisjóðinn í Keflavík á grundvelli lánssamningsins 2.263.907,29 sterlingspundum og var skuldin þá orðin hærri en hámarksfjárhæð samkvæmt samningnum. Af því tilefni var undirritaður viðauki við lánssamninginn í febrúar 2007. Með viðaukanum var aukið við sjálfskuldarábyrgð stefnda um þau 1.125.000 sterlingspund sem lánssamningur aðila var hækkaður um. Viðaukinn var undirritaður af stefnda þessu til staðfestingar.
Í stefnu greinir frá því að lántaki, Jervistone Ltd. hafi ekki greitt upp lánið á gjalddaga þess, 22. apríl 2007 og hafi lántaki áfram nýtt sér lánalínuna en fjölmargar innborganir inn á skuldina hafi átt sér stað eftir gjalddaga lánsins. Síðasta innborgun inn á skuldina hafi átt sér stað 21. ágúst 2009 og hafi hún numið 6.440 sterlingspundum. Eftir það hafi skuld lántaka við Sparisjóðinn í Keflavík numið 2.255.432,96 sterlingspundum en það sé stefnufjárhæð málsins.
Í ágúst 2010 kynnti stefndi tillögu að uppgjöri skulda Jervistone Ltd. við sparisjóðinn. Tillögunni var hafnað og 22. desember 2010 sendi sparisjóðurinn stefnda lokaviðvörun, þar sem skorað var á hann að greiða skuld Jervistone Ltd. við sparisjóðinn, sem tryggð var með sjálfskuldarábyrgð stefnda.
Þar sem stefndi hafi ekki greitt af skuldbindingum Jervistone Ltd. við Sparisjóðinn í Keflavík taldi stefnandi óhjákvæmilegt að höfða mál þetta á hendur stefnda til innheimtu fjárkröfu stefnanda á grundvelli sjálfskuldarábyrgðarinnar.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda á sjálfskuldarábyrgð hans á öllum skuldbindingum Jervistone Ltd. við Sparisjóðinn í Keflavík, dagsettri 11. apríl 2006. Með yfirlýsingunni hafi stefndi tekið meðal annars á sig ábyrgð á því láni sem félagið fékk frá Sparisjóðnum í Keflavík með lánssamningnum frá 11. apríl 2006. Þá hafi sérstaklega verið aukið við ábyrgðina með undirritun stefnda á viðauka við lánssamninginn í febrúar 2007. Ábyrgð stefnda sé ótímabundin og skilyrðislaus.
Stefndi hafi verið sérstakur fjárfestingarráðgjafi Jervistone Ltd. þegar lánið hafi verið tekið, auk þess sem fastlega megi gera ráð fyrir að hann hafi haft fjárhagslega hagsmuni af starfsemi félagsins. Til sönnunar fjárkröfu sinni á hendur Jervistone Ltd. vísi stefnandi til fyrrnefnds lánssamnings milli félagsins og Sparisjóðsins í Keflavík, forvera stefnanda, sem og viðauka við hann. Þá vísi stefnandi til yfirlits yfir stöðu lánsins, eða lánalínunnar, á hverjum tíma, en á yfirlitinu sjáist allar inn- og útborganir á lánið, vaxtafærslur og staða skuldarinnar. Stefnandi vísi til meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og meginreglna kröfuréttar, einkum til reglna um ábyrgðir.
Málskostnaðarkrafa stefnanda eigi sér stoð í 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Dráttarvaxtakrafa stefnanda sé gerð með vísan til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og eigi sér stoð í lánssamningi Jervistone Ltd. og Sparisjóðsins í Keflavík.
Um varnarþing stefnda sé vísað til 3. mgr. 42. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en í yfirlýsingu stefnda um sjálfskuldarábyrgð sé samið um að mál vegna hennar megi höfða fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málsástæður og lagarök stefnda
a. Almennt
Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda. Kröfur stefnanda virðast byggja á sjálfskuldarábyrgð sem hann gekkst undir 11. apríl 2006 gagnvart Sparisjóðnum fyrir Jervistone Ltd., sem sé fjárfestingarfélag á Bresku Jómfrúaeyjum. Aðdragandi ábyrgðarinnar hafi verið sá að Jervistone Ltd. réð stefnda sem ráðgjafa snemma á árinu 2006. Skömmu síðar hafi stjórn Jervistone Ltd. gert samning um lántöku hjá Sparisjóðnum að fjárhæð 2.250.000 pund (síðar hækkað í 3.375.000 pund) sem skyldi varið til hlutabréfakaupa. Samningsbundinn gjalddagi lánsins hafi verið ákveðinn 22. apríl 2007. Til tryggingar láninu hafi Jervistone Ltd. handveðsett Sparisjóðnum hlutabréf sem voru skráð á nafni Sparisjóðsins, sbr. grein 10.1 í lánssamningnum. Að kröfu Sparisjóðsins undirritaði stefndi yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð á öllum skuldum og skuldbindingum Jervistone Ltd. við Sparisjóðinn. Jervistone Ltd. hafi dregið á lánið og stundað hlutabréfaviðskipti í samræmi við samkomulag Sparisjóðsins og Jervistone Ltd.
Í áðurnefndri grein 10.1 í lánssamningi aðila sé kveðið á um handveðsetningu hlutabréfa í eigu Jervistone Ltd. til tryggingar lánsins. Til viðbótar við að hin handveðsettu hlutabréf skyldu að lágmarki nema 120% af verðmæti útistandandi lánveitinga til stefnda var kveðið á um það í samningi aðila að hin handveðsettu hlutabréf skyldu skráð á nafn Sparisjóðsins. Af þessu leiði að Jervistone Ltd. gat ekki verslað með bréfin án aðkomu Sparisjóðsins sem var skráður fyrir bréfunum.
Íslensk fjármálafyrirtæki hafi lent í miklum ógöngum haustið 2008, þar með talinn Sparisjóðurinn, sem hafi þá hætt að geta átt viðskipti með hin handveðsettu bréf á alþjóðamörkuðum vegna stöðu sinnar. Af þeim sökum framkvæmdi Sparisjóðurinn ekki viðskiptafyrirmæli Jervistone Ltd., á þeim tíma er hlutabréfin tóku að lækka að markaðsvirði. Þetta hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir Jervistone Ltd., sem gat af þessum sökum ekki varið hlutabréfaeign sína með því að selja áhættumestu bréfin. Jervistone Ltd. hafi því verið ómögulegt að selja hlutabréf í eignasafninu og gæta þannig hagsmuna sinna og minnka tjón sitt. Þetta sé sérstaklega ámælisvert þar eð Sparisjóðurinn gerði enda enga tilraun til að innheimta lánið á gjalddaga eða nokkurn tímann eftir það. Engin tilkynning um gjalddaga, gjaldfellingu eða vanskil hafi nokkurn tímann verið send stefnda. Það sé fyrst í desember sl., eftir fall Sparisjóðsins, sem farið var að krefjast greiðslu á láninu. Vísað sé til framlagðs skjals þar sem Sparisjóðurinn sendir lokaaðvörun fyrir lögfræðiinnheimtu með lokafresti til 5. janúar 2011 og athygli veki að aðvörunin beri það með sér að hafa verið send Sparisjóðnum sjálfum, enda sjóðurinn skráður fyrir bréfunum. Sparisjóðurinn hélt allan tímann umráðum yfir hinum handveðsettu hlutabréfum. Þannig hafi Sparisjóðurinn komið í veg fyrir að Jervistone Ltd. gæti leyst út eignir sínar og varið andvirði þeirra til greiðslu lánsins, auk þess sem hann sýndi af sér vítavert tómlæti með því að gjaldfella ekki lánið og ganga að handveðunum.
Áður hafi komið fram að stefndi hafi gengist í ábyrgð fyrir lántöku Jervistone Ltd., en forsenda þess hafi verið sú að Jervistone Ltd. ætti öflugt eignasafn hlutabréfa sem stæði til tryggingar láninu. Stefndi yrði því ekki fyrir fjártjóni vegna þessarar ábyrgðar, svo lengi sem hið handveðsetta eignasafn stæði undir útistandandi skuldum félagsins gagnvart Sparisjóðnum.
Eftirfarandi yfirlit sé unnið upp úr milliuppgjörum Jervistone Ltd. og sýni skýrlega að ef ekki hefði verið fyrir athafnaleysi og tómlæti Sparisjóðsins hefði sjálfskuldarábyrgð stefnda aldrei komið til skoðunar. Ástæðan sé sú að verðmæti eigna Jervistone Ltd. hafi verið miklum mun meiri en útistandandi skuldir félagsins á gjalddaga lánsins 22. apríl 2007 og raunar allt fram á haustið 2008.
|
Dags. |
Heildareignir |
Heildarskuldir |
SpKef lán |
Hrein eign |
Hlutfall |
|
30/06/2007 |
9,852,794 |
8,011,492 |
4,965,705 |
1,841,302 |
123% |
|
30/09/2007 |
9,193,880 |
7,208,718 |
4,262,127 |
1,985,162 |
128% |
|
31/12/2007 |
9,213,461 |
7,159,949 |
4,376,235 |
2,053,512 |
129% |
|
31/03/2008 |
9,629,228 |
8,055,581 |
4,140,055 |
1,573,647 |
120% |
|
30/06/2008 |
8,179,797 |
6,950,058 |
2,946,193 |
1,229,739 |
118% |
|
31/12/2008 |
5,681,523 |
7,070,481 |
2,539,241 |
(1,388,958) |
80% |
Þessu til frekari stuðnings sé vísað til verðbréfayfirlita Sparisjóðsins á framlögðu skjali.
|
Dags. |
ISK (jafnvirði) |
GBP |
SpKef lán |
Nettóstaða í GBP |
Hlutfall |
|
30.3.2007 |
400.107.524 |
3.110.772 |
3.266.501 |
-155.729 |
95,23% |
|
30.7.2007 |
|
4.627.180 |
3.363.126 |
1.264.054 |
137,59% |
|
28.9.2007 |
415.703.171 |
3.302.114 |
2.968.345 |
333.769 |
111,24% |
|
31.12.2007 |
414.835.057 |
3.328.533 |
3.231.936 |
96.597 |
102,99% |
|
21.4.2008 |
439.337.686 |
2.886.392 |
2.284.635 |
601.756 |
126,34% |
|
30.6.2008 |
251.222.376 |
1.593.646 |
2.330.849 |
-737.203 |
68,37% |
|
21.8.2008 |
|
2.463.624 |
2.355.681 |
107.943 |
104,58% |
|
30.9.2008 |
336.009.354 |
1.841.853 |
2.375.542 |
-533.689 |
77,53% |
|
31.12.2008 |
242.926.196 |
1.388.150 |
2.417.657 |
-1.029.507 |
57,42% |
|
15.4.2009 |
273.248.250 |
1.440.651 |
2.313.031 |
-872.380 |
62,28% |
|
30.6.2009 |
329.417.884 |
1.565.377 |
2.297.333 |
-731.956 |
68,14% |
|
30.9.2009 |
284.550.168 |
1.429.685 |
2.268.233 |
-838.549 |
63,03% |
|
31.12.2009 |
272.245.186 |
1.353.713 |
2.276.783 |
-923.070 |
59,46% |
|
31.3.2010 |
274.962.201 |
1.420.406 |
2.294.195 |
-873.789 |
61,91% |
|
30.6.2010 |
273.334.333 |
1.428.079 |
2.309.041 |
-880.962 |
61,85% |
|
30.9.2010 |
259.350.386 |
1.442.117 |
2.324.235 |
-882.118 |
62,05% |
|
31.12.2010 |
257.606.090 |
1.446.900 |
2.339.540 |
-892.640 |
61,85% |
|
31.3.2011 |
282.835.956 |
1.548.090 |
2.354.777 |
-806.687 |
65,74% |
Eins og sjáist af ofangreindum yfirlitum og dómsskjölum hafi markaðsvirði handveðsettra bréfa Jervistone Ltd. verið 4.627.179,99 pund, 30. júlí 2007, en á sama tíma hafi lánið staðið í 3.363.126,28 pundum og staða Jervistone Ltd. hjá Sparisjóðnum hafi því verið jákvæð um 1.264.053,71 pund tæpum þremur mánuðum eftir gjalddaga lánsins. Hinn 21. ágúst 2008, 16 mánuðum eftir gjalddaga, hafi nettóstaða félagsins enn verið jákvæð, en þá hafi verðmæti hinna handveðsettu eigna numið 2.463.623,72 pundum en skuldin gagnvart Sparisjóðnum hafi verið 2.355.681,15 pund. Jervistone Ltd. hafi í raun verið vel gjaldfær um greiðslu lánsins með andvirði hinna handveðsettu hlutabréfa og gott betur á gjalddaga og um langa hríð eftir gjalddaga.
b. Aðildarskortur
Stefndi krefst sýknu vegna aðildarskorts enda sé Landsbankinn hf. ekki eigandi kröfunnar. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010, hafi einhverjum eignum Sparisjóðsins í Keflavík verið ráðstafað til SpKef sparisjóðs en ekki þeim eignum sem sérstaklega væru undanskildar í skýrslu sem Fjármálaeftirlitið fól endurskoðunarfyrirtæki að vinna. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein rök eða sönnur þess að meint krafa á hendur Jervistone Ltd. og stefnda hafi verið á meðal þeirra eigna sem fluttar voru frá Sparisjóði Keflavíkur til SpKef sparisjóðs. Hvað þá heldur sönnur um að Landsbankinn hf. sé nú eigandi meintrar kröfu. Beri því að sýkna stefnda vegna aðildarskorts stefnanda.
c. Fyrning
Stefndi hafi gengist í ábyrgð fyrir skuldum Jervistone Ltd. gagnvart Sparisjóðnum en samningsbundinn gjalddagi lánsins hafi verið ákveðinn 22. apríl 2007. Í 11. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 14/1905, sem gildi um ábyrgðarskuldbindinguna, segi að málssókn teljist byrjuð áður en fyrningarfrestur sé liðinn ef stefna er birt innan nefnds tíma.
Stefnandi virðist hafa fengið breska stefnuvotta til að birta hina umræddu stefnu fyrir stefnda sem sé búsettur í Bretlandi. Í framlögðu vottorði Veru Kislova sé því haldið fram að stefnan hafi verið löglega birt í samræmi við reglu 6.22 í ensku málsmeðferðarlögunum, en hún fjalli um stefnubirtingu þar sem stefndi tekur sjálfur við stefnunni (e. Personal Service). Í vottorðinu komi hins vegar skýrt fram að stefnan hafi einungis verið skilin eftir í póstkassa við Flat 12, Aston Mews, 103 Kilburn Lane, London W10 4AN. Að því sögðu sé ljóst að birtingin var ólögmæt, sbr. lögfræðilega álitsgerð Michael Cash hjá Penningtons Solicitors LLP. Stefnandi hafi nú viðurkennt að stefnubirtingin hafi ekki fullnægt skilyrðum tilvitnaðrar reglu 6.22 í ensku málsmeðferðarlögunum, en athygli veki að Vera Kislova hætti störfum hjá bresku lögmannsstofunni í kjölfar þess að stefndi benti á þessa rangfærslu í vottorði hennar í september síðastliðnum.
Þá sé algjörlega óljóst hvaða skjal hafi verið skilið eftir í póstkassanum, en athygli veki að stefnuvottarnir höfðu ekki enska þýðingu á skjalinu og var því ómögulegt að átta sig á efni stefnunnar. Báðir stefnuvottarnir staðfesti hins vegar að skjalið sem þeim var falið að birta hafi verið fjórar blaðsíður. Nú bregði hins vegar svo við að stefnan sem hafi verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur sé fimm blaðsíður. Stefndi tók aldrei við stefnunni en honum detti helst í hug að stefnan sem stefnuvottarnir hafi haft undir höndum hafi verið stefna í máli Landsbankans hf. gegn Jervistone Ltd., sem sé skuldari lánsins sem stefndi ábyrgðist, en hún sé útlitslega sambærileg hinni árituðu stefnu að því frátöldu að hún sé fjórar blaðsíður að lengd en auk þess hafi stefndi ekki átt aðild að því máli. Breyti engu þótt annar tveggja stefnuvottanna, þ.e. James Joseph Colacicco hafi nú gefið út nýtt vottorð, dagsett 16. nóvember 2011, þar sem hann segi að skjalið, með titilinn „STEFNA“, dagsett 8. apríl 2011 í Reykjavík, merkt „Exhibit JC/1“, sem hann skyldi eftir í póstkassanum, 19. apríl 2011, hafi verið fimm blaðsíður að lengd. Það sé bæði fráleitt að halda því fram að stefnuvotturinn geti staðfest blaðsíðufjölda skjals sem hann lagði í póstkassa tæpum sjö mánuðum áður, auk þess sem vottorð hins stefnuvottsins, Stuart Michael Colacicco, frá 20. apríl 2011 standi enn óleiðrétt en þar segi að skjal með titilinn „STEFNA“, dagsett 8. apríl 2011 í Reykjavík, merkt „Exhibit JC/1“ hafi verið fjórar blaðsíður.
Í ljósi alls framangreinds sé ljóst að: 1) Fimm blaðsíðna stefnan sem var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur, 9. júní sl., geti ekki verið sama fjögurra blaðsíðna skjalið sem bresku stefnuvottarnir höfðu undir höndum og 2) birting skjalsins í Bretlandi hafi verið ólögleg.
Framlagning dómskjala af hálfu stefnanda í þinghaldi 8. desember 2011, þar með talin lögfræðileg álitsgerð Thomas Ogden, breyti engu um ofangreint enda sé þar um að ræða tilraun stefnanda til að færa fram nýjar málsástæður til stuðnings birtingunni. Þessum sjónarmiðum sé mótmælt sem of seint fram komnum og að engu hafandi sökum útilokunarreglu einkamálaréttarfars. Þar að auki sé vægi álitsgerðarinnar óverulegt, en svo virðist sem mikilvægum upplýsingum hafi verið haldið frá álitsgefanda, Thomas Ogden ellegar að hann hafi verið beðinn um að fjalla ekki um eftirfarandi: 1) Að tveir stefnuvottar sögðu skjalið vera fjórar en ekki fimm blaðsíður, 2) hvort bresk lög heimili leiðréttingu áður útgefins vottorðs um stefnubirtingu 3) áhrif þess að annar tveggja stefnuvotta leiðrétti vottorð sitt en hinn ekki og 4) hvort grípa þurfi til einhverra aðgerða til að breyta lagagrundvelli stefnubirtingar eftir þingfestingu máls, til að mynda með atbeina breskra dómstóla.
Í ljósi alls ofangreinds telur stefndi að stefnandi hafi staðið ólöglega að birtingu hinnar umræddu stefnu og að slík birting rjúfi ekki fyrningu samkvæmt 11. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum í málinu, þar eð ábyrgðarskuldbindingin féll niður sökum fyrningar, 22. apríl 2011, sbr. 3. gr. sömu laga.
d. Ógild ábyrgðarskuldbinding
Stefndi byggir sýknukröfu sína meðal annars á því að Sparisjóðurinn hafi algerlega brugðist þeim skyldum sínum að halda kröfum sínum til haga en Sparisjóðurinn hefði hæglega getað gengið að veðunum eftir gjalddaga lánsins og fengið fullar heimtur upp í kröfur sínar. Vegna háttsemi Sparisjóðsins sjálfs varðandi meðhöndlun bréfanna megi stefndi líta svo á að varsla þeirra hjá bankanum hafi á gjalddaga fullnægt greiðsluskyldu Jervistone Ltd. samkvæmt lánssamningnum á þeim degi eða á einhverju síðara tímamarki. Sparisjóðurinn hafi ekkert gert á meðan virði handveðsins rýrnaði í umsjón sjóðsins sem hafi jafnframt verið sá eini aðili sem heimild hafði til að ráðstafa og þar með vernda virði handveðsins þar sem bréfin voru skráð á nafn Sparisjóðsins. Því til viðbótar gjaldfelldi Sparisjóðurinn ekki lánið á gjalddaga og sat aðgerðalaus hjá um árabil eftir gjalddagann. Sparisjóðurinn hafi með fyrirvara (de facto) viðurkennt þessa ábyrgð sína með því að láta hjá líða í um fjögur ár eftir gjalddaga að gjaldfella og/eða innheimta lánið.
Stefndi byggir jafnframt á því að í raun hafi Sparisjóðnum verið skylt að gæta bæði eigin hagsmuna sem og hagsmuna stefnda sem ábyrgðarmanns lánsins og ráðstafa hinum handveðsettu bréfum til endurgreiðslu lánsins enda hafi hlutabréfin verið skráð á nafn Sparisjóðsins en ekki Jervistone Ltd. sem hafi því ekki getað selt þau til endurgreiðslu lánsins. Með vísan til 1. gr. lánssamningsins hafi það verið tilgangur lánssamningsins að stunda skyldi hlutabréfaviðskipti fyrir andvirðið. Hafi því verið enn ríkari skylda Sparisjóðsins fyrir hendi, að ráðstafa bréfunum til greiðslu hinnar gjaldföllnu skuldar eða að selja hin handveðsettu bréf til endurgreiðslu lánsins á gjalddaga eða að minnsta kosti á meðan veðandlagið nægði enn til greiðslu lánsins. Með því að gera það ekki hafi Sparisjóðurinn brotið gegn samningnum og bakað Jervistone Ltd. þannig tjón sem síðan jókst með athafnaleysi Sparisjóðsins sem sat hjá aðgerðalaus, um árabil, á meðan verðmæti handveðsins minnkaði. Háttsemi Sparisjóðsins hafi þannig brotið gegn lánssamningnum og sérstaklega yfirlýstum tilgangi hans. Á slíkri háttsemi verði sparisjóðurinn sjálfur að bera ábyrgð.
Stefndi vísar til tómlætis Sparisjóðsins sem hvorki innheimti lánið eftir gjalddaga, gerði nokkurn reka að því að framlengja það eða stýra þeim eignum, þ.e. hlutabréfum, sem til grundvallar lánveitingunni lágu. Skipti þar í raun engu hvort tómlætið hafi verið tilkomið af viljaleysi eða getuleysi Sparisjóðsins til að stýra eignunum og koma í veg fyrir tjón á handveðinu. Slíkt sé allt að einu ekki á ábyrgð stefnda.
Stefndi byggir á því að tómlæti Sparisjóðsins og sú háttsemi sem lýst hafi verið hér að framan, hafi leitt til aukinnar og óþarfrar áhættu fyrir stefnda og leiði jafnframt til þess að sjálfskuldarábyrgð stefnda sé niður fallin á grundvelli meginreglna samningaréttar um ógilda löggerninga, sbr. III. kafla laga nr. 7/1936, einkum 33. og 36. gr. laganna. Þá beri að víkja ábyrgðarskuldbindingunni til hliðar sökum þess að ofangreind háttsemi bankans var bæði ósanngjörn og andstæð góðri viðskiptavenju. Á ofangreint einnig við um gjaldfellingu og innheimtu á láninu, einkum með tilliti til þess að ekki hafi verið boðuð nein skil á handveðinu eða því sem eftir hafi verið af því.
Þá byggir stefndi á brostnum forsendum en það hafi verið augljós ákvörðunarástæða ábyrgðar stefnda að handveðsett hlutabréf næmu að lágmarki 120% af verðmæti útistandandi lánveitinga til Jervistone Ltd. Þannig stæði handveðið ávallt undir endurgreiðslu lánsins á gjalddaga. Þetta hafi Sparisjóðurinn, viðsemjandi Jervistone Ltd., vitað eða hafi að minnsta kosti mátt vera það ljóst og önnur niðurstaða en sú að fallast á að samningurinn sé niður fallinn vegna brostinna forsendna sé ósanngjörn. Til viðbótar við þetta hafi það verið ákvörðunarástæður ábyrgðarinnar að Sparisjóðurinn gætti trúnaðarskyldu sinnar gagnvart stefnda, innheimti lánið á gjalddaga í samræmi við góða viðskiptahætti, misfæri ekki með handveðin sem hafi verið til tryggingar réttum efndum á lánssamningnum og stæði við skyldur sínar við eignastýringu fyrir hönd Jervistone Ltd.
Sparisjóðurinn hafi ekki uppfyllt ofangreint. Ef Sparisjóðurinn hefði innheimt lánið á gjalddaga eða gripið til lágmarksráðstafana til að viðhalda verðmæti hinna handveðsettu eigna hefði aldrei reynt á sjálfskuldarábyrgð stefnda þar sem handveðið hafi staðið fyllilega undir öllum kröfum Sparisjóðsins. Af þessum sökum telji stefndi að ábyrgðin sé ógild vegna brostinna forsendna.
Stefndi vísar til andskýringarreglu samningaréttarins en samningar og allir löggerningar í tengslum við lánveitinguna hafi verið einhliða samdir af Sparisjóðnum. Skuli þeir því túlkaðir stefnanda í óhag sé minnsti vafi fyrir hendi um merkingu tiltekinna ákvæða eða túlkun löggerninganna, þar með talinna lánssamninganna í heild. Hvað þetta varði bendir stefndi einnig á að samkvæmt 10. gr. lánssamningsins skyldi gerður sérstakur veðsamningur (e. pledge agreement) milli aðila samningsins til að kveða nánar á um útfærslu handveðsins til tryggingar lánssamningnum. Slíkur veðsamningur hafi aldrei verið gerður við Jervistone Ltd. af hálfu Sparisjóðsins og skuli það túlkað Sparisjóðnum og þar með stefnanda í óhag.
Stefndi byggir á því að Sparisjóðurinn hafi ekki gætt skyldna sinna til að stýra eignum Jervistone Ltd. né skyldna til að varðveita handveðið og koma í veg fyrir að það yrði fyrir tjóni. Á því tjóni sem hafi orðið vegna þessa beri Sparisjóðurinn sjálfur ábyrgð enda beri honum skylda til að varðveita veðandlag með fullnægjandi hætti. Hafi Sparisjóðurinn þar með misfarið með handveðið og brotið gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart stefnda sem ábyrgðarmanni.
Stefndi vísar til meginreglna laga, þar með talinna meginreglna samningaréttar, eðli máls og sanngirnisraka varðandi það, að sú niðurstaða að láta stefnda bera greiðsluskyldu sem ábyrgðarmaður á láninu sé klárlega óeðlileg og ósanngjörn meðal annars með tilliti til kringumstæðna. Jervistone Ltd. hafi aldrei getað ráðstafað hinum handveðsettu bréfum eða selt þau þar sem þau hafi ávallt verið skráð á nafn Sparisjóðsins. Sparisjóðurinn sinnti ekki um að innheimta lánið og sinnti ekki um að afstýra tjóni á handveðinu. Sparisjóðurinn einn hafi verið í aðstöðu til að koma í veg fyrir tjón á veðinu og hefði haft til þess öll tækifæri löngu eftir gjalddaga lánsins sem Sparisjóðurinn sinnti ekki að innheimta. Það væri klárlega ósanngjarnt að láta stefnda bera ábyrgð á þeirri háttsemi Sparisjóðsins. Styðji sú staðreynd að Sparisjóðurinn hafi ekki innheimt lánið um árabil fullyrðingar stefnda.
Þá vísar stefndi til meginreglu kröfuréttar um tilkynningarskyldu lánveitanda til ábyrgðarmanns þegar til vanskila skuldara komi. Í þessu sambandi sé til hliðsjónar vísað til 5. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 og 7. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 en þar sé kveðið skýrlega á um þá lágmarkskröfu að lánveitandi tilkynni ábyrgðarmanni um vanskil. Þannig leggi samkomulagið þá skyldu á lánveitanda að tilkynna ábyrgðarmanni um vanskil og að stefnt skuli að því að senda slíka tilkynningu innan 30 daga frá greiðslufalli skuldara. Stefndi hafi fengið fyrst tilkynningu um vanskilin tæpum 1700 dögum eftir gjalddaga lánsins og greiðslufall skuldarans. Í lögum um ábyrgðarmenn segi enn fremur að ábyrgðarmaður skuli vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna og sé vanræksla veruleg skuli ábyrgð falla niður. Sömu sjónarmið gildi um ábyrgðarskuldbindingu stefnda enda ótækt að ábyrgðarmaður verði fyrir skaða sökum vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu.
Þar að auki sé ekki boðuð yfirfærsla á eignasafni því sem liggi til grundvallar handveði og skráð sé á nafn Sparisjóðsins. Byggt sé á því að skuldari geti haldið að sér höndum sé handveði ekki skilað við efndir og hafi málinu ekki verið vísað frá af þessum sökum sé krafist sýknu með tilliti til þessa.
e. Gagnkrafa til skuldajafnaðar
Fari svo ólíklega að ábyrgðarskuldbindingin verði talin skuldbindandi fyrir stefnda byggir stefndi á því að hann eigi bótakröfu á hendur stefnda sem hann geti skuldajafnað án sjálfstæðs dóms gegn dómkröfu stefnanda. Þessi gagnkrafa til skuldajafnaðar byggist á skaðabótaskyldu fjártjóni sem stefndi hafi orðið fyrir sökum þess að: 1) Sparisjóðurinn sinnti ekki ákvæðum lánssamningsins um að handveðsett hlutabréf næmu að lágmarki 120% af verðmæti útistandandi lánveitinga til Jervistone Ltd., 2) Sparisjóðurinn innheimti ekki lánið á gjalddaga í samræmi við góða viðskiptahætti, 3) Sparisjóðurinn misfór með handveðin, 4) Sparisjóðurinn vanrækti tilkynningarskyldu sína og 5) Sparisjóðurinn gætti ekki að trúnaðarskyldu sinni gagnvart stefnda sem ábyrgðarmanni lánsins á meðan verðmæti handveðsins hríðféll. Stefndi vísar til fyrri umfjöllunar varðandi þessi atriði.
Þessi tjónsvaldandi háttsemi Sparisjóðsins hafi orðið til þess að stefnda sé ókleift að innheimta endurkröfu af Jervistone Ltd. nú þar sem eignir Jervistone Ltd. hafi rýrnað vegna háttsemi bankans og Jervistone Ltd. sé í raun ekki fært um að greiða skuldina vegna háttsemi bankans. Hefði bankinn innheimt skuldina af Jervistone Ltd. á réttum gjalddaga eða að minnsta kosti fyrir verðfall hinna handveðsettu hlutabréfa, þá hefði ábyrgðarskuldbinding stefnda ekki komið til skoðunar. Bankinn hafi þar með gert endurkröfu stefnda ómögulega. Stefndi vísar til þess að verðmæti handveðsettra hlutabréfa Jervistone Ltd. lækkaði um 3.079.090 pund frá 30. júlí 2007 til 31. mars 2011. Ef Sparisjóðurinn hefði innheimt lánið í samræmi við góða starfshætti og ekki setið aðgerðalaus hjá á meðan verðmæti handveðsins hríðlækkaði án þess að stefndi fengi rönd við reist þá hefðu þessir fjármunir nægt til að standa undir endurgjaldskröfu stefnda á hendur Jervistone Ltd.
Stefndi krefst því sýknu af kröfu stefnanda þar sem krafa stefnda til skuldajafnaðar sé að lágmarki jafnhá stefnufjárhæðinni. Verði talið að bótakrafa stefnda til skuldajafnaðar sé lægri en dómkrafa í stefnu þá komi bótakrafan til lækkunar dómkröfum stefnanda, sbr. þrautavarakröfu stefnda.
f. Niðurfelling skulda vegna kaupa í stofnfjárbréfum Sparisjóðs Keflavíkur
Stefndi byggir jafnframt á því að verulegur hluti lánsins, eða 834.653,08 pund, hafi verið veittur til kaupa stofnfjárbréfa í Sparisjóði Keflavíkur. Landsbankinn hafi gefið út bindandi yfirlýsingu um niðurfellingu skulda vegna slíkra kaupa og komi sú fjárhæð því til lækkunar á kröfum stefnanda.
Stefndi mótmælir upphafstímum vaxta í stefnu. Stefndi vísar til ákvæða laga nr. 7/1936, einkum 33. og 36. gr., almennra reglna um brostnar forsendur og meginreglna kröfuréttar. Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort stefnda beri að greiða stefnanda skuld samkvæmt lánssamningi sem Jervistone Ltd. og Sparisjóðurinn í Keflavík gerðu sín á milli, 11. apríl 2006. Stefndi gekkst undir sjálfskuldarábyrgð á láninu samkvæmt framlagðri yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð frá sama degi. Óumdeilt er að gjalddagi lánsins hafi verið 22. apríl 2007 og að síðasta innborgun hafi átt sér stað 21. ágúst 2009.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti þar sem hann telur stefnanda ekki eiganda kröfu þeirrar sem stefnandi setur fram á hendur stefnda. Fyrir liggur að Sparisjóður Keflavíkur hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta 1. nóvember 2011 og að með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dagsettri 22. apríl 2010, hafi verið tekin ákvörðun um að flytja allar eignir sparisjóðsins, hverju nafni sem þær nefndust, yfir í Spkef sparisjóð, nema þær væru sérstaklega undanskildar í skýrslu samkvæmt 10. tl. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins. Hafi ákvörðunin verið tekin á grundvelli heimildar í VI. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 161/2009. Í 10. tl. ákvörðunarinnar kemur fram að nánari sundurliðun þeirra eigna sem ráðstafað er samkvæmt ákvörðuninni muni koma fram í sérstakri skýrslu sem Fjármálaeftirlitið hafi falið endurskoðunarfyrirtæki að vinna. Umrædd skýrsla liggur ekki fyrir í málinu. Stefnandi hefur lagt fram yfirlýsingu Ólafar Arnar Svanssonar, skiptastjóra Sparisjóðsins í Keflavík, þar sem hann staðfestir að öll útlán hafi flust yfir í Spkef sparisjóð sem og ábyrgðir vegna þeirra enda hafi engin slík útlán eða ábyrgðir verið undanskilin í skýrslu, sem vísað sé til í 10. tl. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 7. mars 2011 tók NBI hf., nú stefndi Landbankinn hf., við rekstri, eignum og skuldbindingum Spkef sparisjóðs. Var ákvörðunin tekin á grundvelli heimildar í VI. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. IV. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á það með stefnda að stefnandi sé ekki réttur eigandi kröfunnar. Sýknukröfu stefnda á grundvelli aðildarskorts er því hafnað.
Stefndi byggir á því að stefnan í málinu hafi verið birt með ólögmætum hætti og rjúfi hún ekki fyrningu samkvæmt 11. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Þar sem ábyrgðarskuldbindingin hafi fallið niður sökum fyrningar, 22. apríl 2011, sbr. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905, beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Stefnandi mótmælir þessu og telur stefnuna hafa verið birta á lögmætan hátt samkvæmt enskum birtingarreglum.
Í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála kemur fram að eigi stefndi þekkt heimili eða aðsetur erlendis eða það liggi annars fyrir að hann eigi heimili í tilteknu öðru ríki og birting stefnu geti ekki farið fram hér á landi eftir öðrum ákvæðum laganna fari um birtingu eftir lögum þess ríkis og þjóðréttarsamningi, ef slíkur samningur hefur verið gerður við hlutaðeigandi ríki. Samkvæmt ákvæðinu bar stefnanda að birta stefnuna fyrir stefnda í samræmi við enskar birtingarreglur. Stefnandi hefur lagt fram eiðsvarna yfirlýsingu breska stefnuvottsins James Joseph Colacicco, dagsetta 20. apríl 2011, um að hann hafi, 19. apríl 2011, mætt á heimili stefnda til að láta honum persónulega í té fjögurra blaðsíðna skjal titlað „STEFNA“. Hafi hann stungið umslagi, sem stílað var á stefnda, í póstkassa og kvaðst hann viss um að póstkassinn hefði verið ætlaður íbúum í húsinu til einkanota. Samkvæmt framlagðri yfirlýsingu Veru Kislovu, hæstaréttarlögmanns í Englandi og Wales, dagsettri 4. maí 2011, hafi skjalinu verið framvísað með lögmætum hætti á stefnda samkvæmt enskum lögum (e. Civil Procedure Rules, skammstafað „CPR“). Þótt ranglega sé vísað til reglu 6.22 í CPR, er lýtur að birtingu þar sem stefndi tekur sjálfur við stefnunni (e. Personal Service), í fyrrgreindu skjali Veru Kislovu, verður ekki litið svo á að það leiði til ólögmætis birtingarinnar. Þá verður jafnframt ekki talið að tilvísun breska stefnuvottsins James Joseph Colacicco til fjögurra blaðsíðna skjals leiði eitt og sér til ólögmætis stefnubirtingarinnar en stefnan í málinu er fimm blaðsíður. Í málinu liggur fyrir skjal, merkt „Exhibit JC/1“ sem dagsett er 20. apríl 2011. Í skjalinu kveðst stefnuvotturinn James Joseph hafa vísað til þessa tiltekna dómskjals í eiðsvarinni yfirlýsingu sinni frá sama degi, en ljóst er að ljósrit af stefnu málsins hefur verið fest við skjalið. Þá liggur fyrir viðurkenning stefnuvottarins James Joseph á því að tilvísun hans til fjögurra blaðsíðna stefnu hafi verið ritvilla. Samkvæmt áðursögðu verður ekki talið að framangreind atriði skipti máli hvað varðar lögmæti stefnubirtingarinnar en stefndi hefur auk þess ekki sýnt fram á að þau leiði til þess að enskum lögum að stefnubirtingin sé ólögmæt.
Stefnandi byggir á því að stefnan hafi verið birt stefnda með lögmætum hætti samkvæmt enskum birtingarreglum. Stefndi telur þessa málsástæðu stefnanda of seint fram komna. Í þinghaldi 8. desember 2011 lagði stefnandi fram gögn er styðja umrædda málsástæðu og var það áður en greinargerð var skilað af hálfu stefnda. Hafði stefndi því ráðrúm til að bregðast við henni. Með vísan til þessa kemst fyrrgreind málsástæða stefnanda að í málinu.
Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal sá sem ber fyrir sig erlenda réttarreglu leiða tilvist og efni hennar í ljós. Stefnandi hefur lagt fram tvær álitsgerðir enskra lögmanna því til stuðnings að stefnan hafi verið birt stefnda með lögmætum hætti eftir enskum birtingarreglum. Stefndi hefur sömuleiðis lagt fram tvær lögfræðilegar álitsgerðir er sýna eiga fram á að stefnan hafi ekki verið birt stefnda í samræmi við enskar birtingarreglur. Stefnandi lagði fram í löggiltri þýðingu á íslensku, 6. kafla enskra reglna um meðferð einkamála er varða birtingu gagna. Í c-lið reglu 6.2 CPR eru skilgreind ákveðin hugtök sem fram koma í kaflanum. Þar er hugtakið „krafa“ skilgreint svo að það sé meðal annars beiðni og umsókn um málshöfðun eða um að hefja málaferli og segir í ákvæðinu að hugtakið „kröfueyðublað“ skuli túlkað samkvæmt því. Stefndi heldur því fram að undir hugtakið „kröfueyðublað“ falli aðeins réttarstefnur og að eingöngu ensk skjöl heyri þar undir. Verður ekki fallist á þá skýringu. Samkvæmt íslenskum rétti hefur hugtakið „stefna“ verið skilgreint þannig að hún sé tilkynning málsaðila til gagnaðila um að tiltekið dómsmál verði þingfest á ákveðnum stað og tíma. Að mati dómsins fellur skilgreiningin á orðinu „stefna“ undir hugtakið „kröfueyðublað“ eins og það er túlkað í enskum reglum um meðferð einkamála.
Í reglu 6.3 í 6. kafla CPR, er varðar aðferðir við birtingu, segir í c-lið að kröfueyðublað megi birta með því að skilja það eftir á stað sem tilgreindur er í reglu 6.7, 6.8, 6.9 eða 6.10. Regla 6.8 varðar birtingu kröfueyðublaðs þegar varnaraðili gefur upp heimilisfang þar sem birta má fyrir honum og sem varnaraðili hefur gefið upp í þeim tilgangi að fá skjöl birt en í a-lið þeirrar reglu segir að birta megi fyrir varnaraðila á því tiltekna heimilisfangi. Af tölvupóstsamskiptum lögmanna stefndu, sem liggja fyrir í málinu, er ljóst að lögmaður stefnanda hafi óskað eftir því við lögmann stefnda að hann fengi upp gefið heimilisfang stefnda í Bretlandi svo unnt væri að birta honum stefnuna. Með tölvupósti lögmanns stefnda, dagsettum 12. apríl 2011, fékk lögmaður stefnanda upp gefið að heimilisfang stefnda í London væri: 12 Aston Mews, 103 Kilburn Lane, London W10 4AN, og er það sama heimilisfang og greint er frá í framlagðri yfirlýsingu stefnuvottarins James Joseph Colacicco. Þá liggur fyrir að stefndi hafi verið skráður eigandi að húsnæðinu með ofangreindu heimilisfangi á þeim tíma þegar stefnan var birt. Með hliðsjón af framangreindu þykir regla 6.8 í 6. kafla enskra reglna um meðferð einkamála eiga við í málinu og var birtingin í samræmi við þá reglu. Er það því niðurstaða dómsins að stefnan hafi verið birt á lögmætan hátt samkvæmt enskum birtingarreglum, 19. apríl 2011. Hnekkja þær álitsgerðir sem lagðar hafa verið fram af hálfu stefnda í málinu ekki þeirri niðurstöðu. Rauf 11. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda því fyrningu og fellur ábyrgðarskuldbinding stefnda því ekki niður af þeim sökum.
Stefndi byggir á því að Sparisjóðurinn hafi brugðist skyldum sínum og ekki gætt eigin hagsmuna né hagsmuna stefnda með því að ganga ekki að veðum þeim sem lágu til tryggingar lánssamningnum. Með þessu hafi stefnandi sýnt af sér tómlæti og leiði sú háttsemi til þess að sjálfskuldarábyrgð stefnda sé niður fallin á grundvelli meginreglna samningaréttar um ógilda löggerninga, sbr. lög nr. 7/1936. Jervistone Ltd. bar, sem lántaka, að tilkynna stefnanda ef hann vildi að hlutabréf þau, er stóðu til tryggingar láninu, yrðu seld. Ekki hefur verið sýnt fram á, af hálfu stefnda, að félagið hafi óskað eftir því að umrædd hlutabréf yrðu seld. Þá liggur heldur ekki fyrir hvenær stefndi telur rétt að selja hefði átt bréfin en af gögnum málsins má sjá að þótt hlutabréfin hafi lækkað verulega eftir hrun á íslenskum fjármálamarkaði þá hafi þau tekið að hækka að nýju þegar lengra leið frá hruni. Hér verður jafnframt ekki litið fram hjá því að enginn eignastýringarsamningur lá að baki viðskiptum Jervistone Ltd. og stefnanda. Með vísan til framangreinds verður því hafnað að stefnandi hafi átt að selja hlutabréfin á meðan virði þeirra var hærra en skuldin eða að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti með því að selja ekki bréfin. Þá styðja engin haldbær gögn þá málsástæðu stefnda að stefnandi hafi misfarið með veðið.
Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi látið hjá líða að innheimta lánið eftir gjalddaga. Vísar stefndi til samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 og 7. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 í því sambandi. Stefnandi mótmælir því að samkomulagið og eða lögin eigi við. Eins og áður greinir féll lánið í gjalddaga, 22. apríl 2007. Jervistone Ltd. greiddi lánið ekki upp á þeim degi og hélt áfram að nýta sé lánalínuna og greiða inn á lánið. Af gögnum málsins má ráða að frá febrúar 2007 til ágúst 2009 hafi samningaviðræður átt sér stað milli lögmanns stefnanda og lögmanns Jervistone Ltd., en sama lögmannsskrifstofa fer með málið fyrir stefnda. Hafi þá verið rætt um gerð og undirritun nýs lánssamnings milli stefnanda og Jervistone Ltd. sem breyta myndi gildandi lánssamningi. Síðasta innborgun Jervistone Ltd. hafi átt sér stað 21. ágúst 2009 en svo virðist sem Jervistone Ltd. hafi þá ákveðið að hætta að nýta sér lánalínuna án þess að félagið hafi tilkynnt stefnanda um þá ákvörðun. Í 2. mgr. 2. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga segir að samkomulagið eigi við þegar einstaklingur, ábyrgðarmaður, gengst í ábyrgð fyrir annan einstakling, greiðanda. Kemur samkomulag þetta því ekki til álita í málinu. Þá segir í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn að með „ábyrgðarmanni“ sé átt við einstakling sem gengst persónulega í ábyrgð eða veðsetur tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur fram að þegar lántakinn er félag sem ábyrgðarmaður er viðriðinn geti komið til skoðunar atriði sem varða áhrif ábyrgðarmannsins innan þess. Fyrir liggur að stefndi hafi verið ráðinn „sérstakur fjárfestingarráðgjafi“ Jervistone Ltd. Í ljósi þess verður ekki talið að stefndi hafi sýnt fram á að ábyrgðin hafi ekki verið í þágu fjárhagslegs ávinnings hans en sönnun um það atriði hvílir á stefnda. Verður því að telja, með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, að lögin komi ekki til skoðunar við úrlausn málsins. Af öllu framangreindu virtu verður því hafnað að sjálfskuldarábyrgð stefnda sé niður fallin á þeim grundvelli að stefnandi hafi ekki innheimt lánið eða honum láðst að tilkynna stefnda um vanskilin eftir gjalddaga.
Með vísan til alls framangreinds þykja þær málsástæður stefnda er lúta að því að ábyrgðin sé ógild vegna brostinna forsendna, meginreglna samningaréttar, eðli máls eða sanngirnisraka, haldlausar. Þá er ekki unnt að fallast á það með stefnda að andskýringarregla samningaréttarins komi til skoðunar við úrlausn þessa máls en samningurinn hafi verið gerður milli Jervistone Ltd. og stefnanda. Þá er órökstudd sú málsástæða stefnda að ætlaður skortur á gerð sérstaks veðsamnings hafi þýðingu hér. Loks byggir stefndi á því að yfirfærsla á eignasafni því, sem lá til grundvallar handveði, hafi ekki verið boðuð og því geti skuldari haldið að sér höndum. Þessi málsástæða er ekki svo skýr sem skyldi og er henni því hafnað.
Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að stefnda beri skylda til að greiða stefnanda eftirstöðvar láns, samkvæmt lánssamningi Jervistone Ltd. og stefnanda og viðauka við hann, á grundvelli yfirlýsingar stefnda um sjálfskuldarábyrgð, dagsettrar 11. apríl 2006. Stefndi hefur krafist þess til þrautarvara að dómkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og reisir hann kröfu sína um bætur á sakarreglunni sem og reglum um vinnuveitendaábyrgð. Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu málsins er því hafnað að skilyrði bótaábyrgðar sé fyrir hendi en ekki hefur verið sýnt fram á af hálfu stefnda að háttsemi stefnanda hafi verið með saknæmum og ólögmætum hætti.
Þá verður ekki fallist á það með stefnda að yfirlýsing Landsbankans frá 16. desember 2011, um niðurfellingu skulda vegna kaupa stofnfjárbréfa í Sparisjóði Keflavíkur, leiði til þess að kröfur stefnanda á hendur stefnda skuli lækkaðar. Engin haldbær gögn styðja þessa málsástæðu stefnda og þykir hún jafnframt vanreifuð.
Stefndi hefur mótmælt dráttarvaxtakröfu stefnanda án þess að færa fram fullnægjandi rök fyrir þeim mótmælum. Í samningnum kemur fram að gjalddagi lánsins sé 22. apríl 2007. Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 21. ágúst 2009 en á þeim degi greiddi Jervistone Ltd. síðustu innborgunina. Með vísan til þessa verður fallist á dráttarvaxtakröfu stefnanda eins og hún er fram sett í dómkröfu málsins.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 2.000.000 króna og er þá meðtalinn útlagður kostnaður samkvæmt e-lið 1. mgr. 129. gr. sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Lilja Rún Sigurðardóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.
DÓMSORÐ
Stefndi, Jón Ólafsson, greiði stefnanda, Landsbankanum, 2.255.432,96 sterlingspund, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 21. ágúst 2009 til greiðsludags og 2.000.000 króna í málskostnað.