Hæstiréttur íslands

Mál nr. 122/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 13

 

Þriðjudaginn 12. mars 2002.

Nr. 122/2002.

Sýslumaðurinn í Kópavogi

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Guðmundur Óli Björgvinsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 16. apríl nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2002.

Lögreglustjórinn í Kópavogi hefur krafist þess að X, til lögheimilis að [...], verði með dóms­úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 þriðjudaginn 16. apríl 2002 vegna gruns um brot á 155., 244. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.  Kröfunni til stuðnings er vísað til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Kærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald 5. febrúar 2002 í þágu lögreglurann­sóknar á fjölda þjófnaðar- og skjalafalsbrota, sem hann var grunaður um að hafa framið, einkum í janúar og febrúar síðastliðnum.  Í þeim úrskurði var meðal annars vísað til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála og á því byggt að ætla mætti að kærði myndi halda áfram brotum á meðan málum hans væri ólokið.  Að óbreyttu rennur gæsluvarðhald kærða út kl. 16:00 í dag.

Rannsókn nefndra mála er nú lokið og gaf Lögreglustjórinn í Kópavogi út ákæru í dag.  Kærða hefur ekki verið birt ákæran með lögformlegum hætti, en ljósrit ákærunnar er meðal framlagðra skjala í máli þessu og hefur hún verið kynnt fyrir kærða.  Þar er kærða meðal annars gefið að sök fimm auðgunar- og skjalafalsbrot  framin á tímabilinu frá 16. janúar til 4. febrúar 2002.

Ofangreind brot, sem kærði er undir rökstuddum grun að hafa framið, geta varðað fangelsisrefsingu.

Kærði er 75% öryrki samkvæmt ákvörðun Tryggingastofunar ríkisins.  Hann hefur ekki stundað launaða vinnu um langt skeið og fjármagnað áfengis- og vímuefnanotkun sína með afbrotum.  Kærði á að baki þó nokkurn sakaferil og hefur á síðustu tæplega fjórum árum hlotið þrjá fangelsisdóma, samtals 33 mánuði, fyrir fjölmörg auðgunarbrot, líkamsárásir og fleira.

Með hliðsjón af framansögðu og vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um með­ferð opinberra mála þykir rétt að fallast á kröfu lögreglustjóra eins og hún er sett fram, enda telur dómurinn mun líklegra en hitt í ljósri framanritaðs að kærði muni halda áfram brotum fái hann nú frelsi sitt að nýju. 

Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 16. apríl 2002 kl. 16:00; en þó aldrei lengur en þar til dómur gengur í máli réttarins nr. [...] á hendur honum.