Hæstiréttur íslands
Mál nr. 325/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. apríl 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2016, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um dómkvaðningu manns til að meta og rannsaka rithönd undirskriftar á sjálfskuldarábyrgð sem varnaraðili telur að sóknaraðili hafi veitt og liggur fyrir í málinu. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreindri beiðni varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt endurriti úr þingbók héraðsdóms fór aðalmeðferð málsins fram 1. mars 2016. Var málið dómtekið eftir að það hafði verið sótt og varið í kjölfar þess að skýrslur voru teknar af sóknaraðila og tveimur vitnum. Þing var aftur haldið í málinu 7. mars sama ár og var þá mætt af hálfu beggja aðila. Í endurriti úr þingbók héraðsdóms kemur fram að héraðsdómari hafi þá tilkynnt að hann hefði ákveðið að málið skyldi endurupptekið með vísan til 104. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og aðilum gefinn kostur á að afla tilgreindra gagna áður en dómur yrði upp kveðinn. Meðal hinna tilgreindu gagna var matsgerð ,,til að ganga úr skugga um falsleysi undirritunar“ sóknaraðila sem sjálfskuldarábyrgðarmanns á skjal það sem varnaraðili reisir málatilbúnað sinn einkum á. Enn var þingað í málinu 15. mars 2016 og þá bókað í þingbók að lögmaður varnaraðila væri að leggja lokahönd á gerð matsbeiðni til framlagningar í málinu. Var málinu frestað til 7. apríl sama ár en þann dag var lögð fram matsbeiðni af hálfu varnaraðila. Lögmaður sóknaraðila mótmælti því að matsmaður yrði dómkvaddur og fór fram munnlegur málflutningur um þann ágreining. Hinn kærði úrskurður var síðan kveðinn upp 20. apríl 2016 og með honum fallist á að umbeðin dómkvaðning færi fram.
Svo sem rakið hefur verið hófst aðalmeðferð málsins í héraði 1. mars 2016. Í 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um það með tæmandi hætti í stafliðum a. til f. hvenær unnt sé að kæra úrskurð héraðsdómara til Hæstaréttar eftir að aðalmeðferð máls er hafin. Þar er ekki að finna heimild til kæru í þessu tilviki og verður málinu því vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2016.
I.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 7. apríl 2016, að loknum munnlegum málflutningi um matsbeiðni stefnanda sem lögð var fram í þinghaldi þann 15. mars sl. Það var dómtekið þann 1. mars sl., að loknum munnlegum málflutningi. Er í málinu deilt um greiðslu á ellefu reikningum samtals að fjárhæð 2.084.995 krónur sem stefnandi gaf út á hendur stefnda Atlantic bio diesel ehf. á tímabilinu 12. apríl 2013 til 1. febrúar 2014. Er m.a. deilt um hvort stefndi hafi ritað undir sjálfskuldarábyrgð, dags. 20. júní 2013 sem liggur fyrir í málinu, en stefndi kannast ekki við að hafa undirritað það skjal sem liggur fyrir. Á umræddri sjálfskuldarábyrgð er ritað með prentstöfum að „Sigurður Eiríksson, Lundabrekku 4“ hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna allra skulda Atlantic bio diesel ehf. og að hámarksfjárhæð ábyrgðarinnar sé 3.000.000 króna. Bar Sigurður Eiríksson fyrir dóminum, þegar aðalmeðferð málsins fór fram þann 1. mars sl., að hann hefði ekki ritað undir sjálfskuldarábyrgðina, en að rithöndin líktist rithönd hans.
Sjálfskuldarábyrgðin er vottuð af tveimur vottum. Annar þeirra er innheimtustjóri stefnanda, Björk Ágústsdóttir. Hinn votturinn er Hróar Örn Jónsson. Bar Hróar fyrir dóminum að hann hefði verið starfsmaður stefnanda þegar hann vottaði sjálfskuldarábyrgðina en auk þess kom fram í máli hans fyrir dóminum að hann væri tengdur stefnda Sigurði Eiríkssyni fjölskylduböndum. Þá kom einnig fram í skýrslu hans fyrir dóminum að hann hefði ekki verið viðstaddur þegar nafn Sigurðar var ritað á sjálfskuldarábyrgðina.
Eftir dómtöku málsins þann 1. mars sl., boðaði dómari til fyrirtöku í málinu þann 7. mars sl. og tilkynnti málsaðilum að hann hefði ákveðið að taka málið upp með vísan til 104. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og gefa aðilum kost á að afla matsgerðar til þess að ganga úr skugga um falsleysi undirritunar á dómsskjali nr. 4 sem er áðurgreind sjálfsskuldarábyrgð. Einnig gaf dómari aðilum kost á að leggja fram fundargerðir stjórnar Atlantic bio diesel ehf. frá þeim tíma sem undirritun fyrrgreinds dómskjals átti sér stað og eftir atvikum önnur gögn sem aðilar teldu ástæðu til að leggja fram. Í þinghaldinu óskuðu málsaðilar eftir stuttum fresti til þess að athuga hvort þörf væri á framlagningu viðbótargagna og var þeim veittur frestur í því skyni til 15. mars sl.
Í þinghaldi þann 15. mars upplýsti lögmaður stefnanda að verið væri að leggja lokahönd á matsbeiðni. Lögmaður stefnda tók fram að hann gerði ráð fyrir því að matsbeiðni yrði mótmælt og þá eftir atvikum krafist úrskurðar dómara. Var málinu því næst frestað til 7. apríl og málsaðilum gerð grein fyrir að í því þinghaldi yrði þeim gefinn kostur á að tjá sig um matsbeiðni.
Í þinghaldi þann 7. apríl lagði stefnandi fram matsbeiðni þar sem þess er farið á leit að dómkvaddur verði hæfur og óvilhallur maður til þess að meta og rannsaka rithönd undirskriftar á sjálfskuldarábyrgð sem liggur fyrir í málinu. Segir í matsbeiðni að tilgangur hennar sé að sýna fram á falsleysi undirskriftar á sjálfskuldarábyrgðinni. Þá er þess óskað að dómurinn hlutist til um að tekin verði staðfest rithandarsýni af matsþola. Er í matsbeiðninni óskað eftir að matsmaður meti undirskrift á sjálfskuldarábyrgðinni á dómsskjali 4 og segi til um hvort nafnritun neðarlega á skjalinu þar sem stendur „undirritun sjálfskuldaraðila sé gjörð af matsþola“.
II.
Stefndi mótmælir því að dómkvaðning matsmanns fari fram auk þess sem gerð er krafa um greiðslu málskostnaðar. Telur stefndi að ekki séu lagalegar forsendur til að afla matsgerðar og að endurupptaka málsins samkvæmt 104. gr. laga nr. 91/1991 brjóti í bága við málsforræðisregluna. Reglan mæli fyrir um að aðilar hafi forræði á máli, kröfugerð og röksemdafærslu, auk forræðis á sönnunarfærslu. Það sé meginregla, sbr. 46. gr. sömu laga, að aðilar afli sönnunargagna og að það sé á forræði þeirra hvort sönnun sé færð fyrir umdeildu atviki. Aðili máls verði að gjalda fyrir þá vanrækslu. Það sé því ekki á forræði dómara að taka mál upp aftur í því skyni að afla gagna. Ákvæði 104. gr. laga nr. 91/1991 geri að skilyrði fyrir endurupptöku að verulegur brestur sé á skýrleika í yfirlýsingum aðila eða upplýsingum um málsatvik og telja megi brestinn stafa af því að dómari hafi ekki gætt nægilega að leiðbeiningum við aðila [...]. Ef ekki er verulegur brestur þá sé engin heimild til endurupptöku. Telur stefndi að enginn verulegur brestur sé fyrir hendi í þessu máli. Stefnandi hafi haft ár til þess að afla matsgerðar, sem nú eigi að fara fram. Það að dómari hafi frumkvæði að slíku gangi gegn málsforræðisreglunni en auk þess fari ákvörðun dómara í bága við málshraðareglu. Gögn verði að koma fram eins fljótt og kostur er. Auk þess mótmælir stefndi efni matsbeiðni. Matsmaður geti ekki metið hvort stefndi hafi ritað undir skjalið þar eð stefndi hafi sagt að undirritun líkist undirskrift hans.
Lögmaður stefnanda krefst þess að matsbeiðni nái fram að ganga. Matsbeiðni sé í samræmi við það sem almennt gildi um matsbeiðnir. Þá krefst stefnandi málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins. Þá bendir stefnandi á að stefndi hafi ekki lagt fram fundargerðir. Stefndi hafi auk þess sagt að undirritun líktist hans undirritun, og að það sé ætlunin með matsbeiðni að ganga úr skugga um hvort stefndi hafi ritað undir sjálfskuldarábyrgðina.
III.
Ætlun matsbeiðanda er að sýna fram á að stefndi hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 3.000.000 króna með undirritun sinni á sjálfskuldarábyrgð sem liggur fyrir í málinu. Í þessu skyni hefur hann lagt fram matsbeiðni og beiðst dómkvaðningar matsmanns til að leggja mat á hvort undirritun sé gerð af matsþola en eins og áður segir kveðst matsþoli ekki hafa ritað undir ábyrgðina.
Stefndi hefur mótmælt því að dómkvaðning matsmanns fari fram. Telur hann að ekki séu fyrir hendi lagalegar forsendur til að afla matsgerðar enda telur hann að endurupptaka málsins sem dómari hafi ákveðið þann 7. mars 2016 hafi farið í bága við málsforræðisregluna svo sem nánar er rakið hér að framan.
Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, hafa aðilar forræði á öflun sönnunargagna, en dómari getur þó beint því til þeirra að afla gagna um tiltekin atriði ef hann telur það nauðsynlegt til skýringar á máli, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Slík ábending er ekki bindandi fyrir málsaðila og er það því háð mati þeirra hvort þeir verði við henni. Umrædd heimild dómara til ábendinga um sönnunarfærslu tengist þeirri skyldu dómara sem fram kemur í 3. mgr. 101. gr. sömu laga um að fylgjast með máli í öllum atriðum og spyrja aðila um hvert það atriði sem honum þykir óljóst eða kann að hafa þýðingu og kalla eftir skýringum aðila ef þörf krefur.
Samkvæmt 104. gr. laga nr. 91/1991 ber dómara, verði hann þess var eftir dómtöku máls að verulegur brestur sé á skýrleika í yfirlýsingum aðila eða upplýsingum um málsatvik, að kveðja þá fyrir dóm og eftir atvikum beina spurningum til þeirra og benda þeim á nauðsyn þess að frekari gagna verði aflað samkvæmt þeim nánari skilyrðum sem fram koma í greininni. Markmiðið með þessari heimild er að aðilum sé veitt tækifæri til að leiða betur í ljós atriði, sem dómari verður fyrst var við að ekki hafi verið upplýst þegar hann fæst við að semja dómsúrlausn í málinu.
Ástæður fyrir endurupptöku málsins þann 7. mars 2016 voru einmitt þær sem áður sagði, þ.e. að dómara varð ljóst, eftir dómtöku málsins, að verulega skorti á um upplýsingar um málsatvik. Við þessu brást dómari með fyrrgreindri endurupptöku málsins. Verður krafa stefnda því ekki tekin til greina á þeim grundvelli að dómara hafi skort heimildir í þessum efnum eða ákvörðun dómara hafi farið í bága við meginreglur einkamálaréttarfars um málsforræði, þar með talið forræði á sönnunarfærslu.
Dómurinn telur að matsbeiðni fullnægi skilyrðum 1. mgr. 61. gr. sömu laga eins og hún liggur nú fyrir. Með vísan til þessa og 1. mgr. 46. gr. sömu laga verður því orðið við kröfu matsbeiðanda, þó þannig að ósk stefnanda um að dómurinn hlutist til um að tekin verði staðfest rithandarsýni af matsþola verður ekki tekin til greina.
Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins bíði efnisdóms.
Ragnheiður Snorradóttir kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Umbeðin dómkvaðning matsmanns skal fara fram.
Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms.