Hæstiréttur íslands

Mál nr. 527/2002


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Verklaun
  • Gjalddagi
  • Dráttarvextir


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. júní 2003.

Nr. 527/2002.

Horst Wolfgang Karlheinz Mueller

Margret Helene Bekemeier og

Cafe Margret ehf.

(Bjarni G. Björgvinsson hdl.)

gegn

Birni Björgvinssyni

(Jónas Haraldsson hrl.)

 

Verksamningur. Verklaun. Gjalddagi. Dráttarvextir.

H og M gerðu munnlegan samning við B, húsasmíðameistara, um að hann tæki að sér vinnu við smíð á einingahúsi, m.a. sem byggingarstjóri við húsið, sem þau ætluðu að nýta til íbúðar og veitingasölu. Í tengslum við þetta stofnuðu þau C ehf. til að starfa við veitingarekstur og ferðaþjónustu. H og M tóku þátt í vinnu við húsið ásamt B og mönnum, sem komu til verksins á hans vegum eða fyrir milligöngu hans. Nokkru eftir að verkið hófst reis ágreiningur milli aðila um framkvæmd þess með þeim afleiðingum að B hvarf frá því ásamt öðrum, sem hann hafði fengið til þess. Í máli sem B höfðaði af þessu tilefni á hendur H, M og C ehf. krafði hann þau um greiðslu vegna verksins sem og fyrir störf sín í þágu C ehf. Ekki var fallist á að vísa málinu frá dómi á þeim grundvelli að B hafi ekki gefið út reikninga fyrir allri kröfu sinni þegar hann höfðaði málið. Voru H, M og C ehf. dæmd til að greiða honum nánar tiltekna fjárhæð með dráttarvöxtum að liðnum mánuði frá þeim degi, sem hann krafði þau hverju sinni með réttu um greiðslu. Þá var C ehf. jafnframt dæmt sérstaklega til að greiða B nánar tiltekna fjárhæð vegna starfa hans fyrir félagið.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 28. nóvember 2002. Þau krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur. Að því frágengnu krefjast þau þess að krafa stefnda verði lækkuð um 484.772 krónur og dráttarvextir af henni verði fyrst dæmdir frá 1. mars 2002, auk þess sem málskostnaður fyrir héraðsdómi verði lækkaður. Í öllum tilvikum krefjast áfrýjendur þess að stefndi verði dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins munu áfrýjendurnir Horst Wolfgang Karlheinz Mueller og Margret Helene Bekemeier hafa snemma árs 2000 leitað til stefnda, sem starfar sem húsasmíðameistari á Breiðdalsvík, um smíð á einingahúsi, sem ætlunin var að reisa þar og flytja átti ósamsett frá Finnlandi. Munu þessir áfrýjendur hafa haft í hyggju að nýta þetta hús til íbúðar og fyrir veitingasölu. Stefndi mun hafa haft nokkra reynslu af byggingu húsa af þessum toga og tekið að sér að vinna fyrir áfrýjendurna, meðal annars sem byggingarstjóri við hús þeirra. Óumdeilt er að samið hafi verið um þetta munnlega, en ágreiningur er á hinn bóginn um margvísleg atriði samningsins, þar með talið hvort stefndi hafi tekið að sér verkið í heild eða aðeins að hafa umsjón með því og útvega aðra verktaka og efni, svo og hvernig greiðslur áfrýjendanna skyldu inntar af hendi.

Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá var áfrýjandinn Cafe Margret ehf. stofnað 24. nóvember 2000 til að starfa við veitingarekstur og ferðaþjónustu. Skipuðu áfrýjendurnir Horst Wolfgang Karlheinz Mueller og Margret Helene Bekemeier stjórn félagsins og fóru með prókúruumboð fyrir það, en stefndi var tilnefndur til vara sem skoðunarmaður félagsins. Óumdeilt virðist að stefndi hafi á ýmsan hátt lagt áfrýjendunum lið varðandi stofnun félagsins og rekstur þess á fyrstu stigum.

Af því, sem liggur fyrir í málinu, verður ráðið að hafist hafi verið handa 25. nóvember 2000 við jarðvinnu fyrir áðurnefnt hús og að þeim verkþætti hafi lokið um 20. desember sama árs. Hafi síðan verið byrjað að reisa húsið í lok janúar 2001. Áfrýjendurnir Horst Wolfgang Karlheinz Mueller og Margret Helene Bekemeier munu hafa tekið þátt í þessari vinnu ásamt stefnda og mönnum, sem komu til verksins á hans vegum eða fyrir milligöngu hans. Ágreiningur virðist hafa komið upp milli aðilanna um framkvæmd verksins með þeim afleiðingum að stefndi hvarf frá því um miðjan mars ásamt öðrum, sem hann hafði fengið til þess. Stefndi tilkynnti hins vegar byggingarfulltrúa fyrst með bréfi 28. ágúst 2001 að hann léti af störfum sem byggingarstjóri við húsið og þá miðað við 31. sama mánaðar.

Stefndi fékk greiddar 500.000 krónur upp í verklaun 3. janúar 2001 og síðan aftur sömu fjárhæð 3. júlí sama árs. Hann gaf út tvo reikninga á hendur áfrýjandanum Cafe Margret ehf. 3. og 7. júlí 2001 fyrir samtals 1.864.975 krónum vegna verkþátta, sem virðast hafa tengst jarðvinnu og gerð sökkuls undir fyrrnefnt hús í nóvember og desember 2000. Þá gaf stefndi út reikning til sama áfrýjandans 30. júlí 2001 að fjárhæð 441.066 krónur vegna efniskaupa til verksins í febrúar og mars sama árs. Einnig liggur fyrir að stefndi lét áfrýjendum í té 20. ágúst 2001 heildaryfirlit um byggingarkostnað hússins ásamt fjórum samantektum á einstökum kostnaðarþáttum, sem reikningur hafði ekki verið gerður fyrir. Var þar nánar tiltekið um að ræða í fyrsta lagi yfirlit um ýmis efniskaup, vinnulaun tveggja starfsmanna, kostnað af akstri og fæði, leigu á vinnuskúr og áhöldum, útgjöld vegna trygginga fyrir byggingarleyfi og þóknun fyrir vinnu við bókhald áfrýjandans Cafe Margret ehf., alls 269.094 krónur. Í öðru lagi var yfirlit um vinnulaun, flutningskostnað og efniskaup, sem námu samtals 2.133.489 krónum. Í þriðja lagi var samantekt á vinnu stefnda í alls 418 klukkustundir, en fyrir hana taldi hann sér bera 1.014.799 krónur. Loks var í fjórða lagi yfirlit um ýmsa undirbúningsvinnu stefnda vegna byggingarinnar, samtals 59 klukkustundir, en fyrir hana taldi hann áfrýjendur eiga að greiða 143.237 krónur. Virðisaukaskattur var innifalinn í fjárhæðunum, sem fram komu á yfirlitum þessum. Á einu þeirra gerði stefndi svofellda athugasemd: „Tveim mánuðum eftir að ég gef út formlegan reikning þá þarf ég að borga virðisaukaskattinn. Þess vegna skrifa ég ekki reikning fyrr en hægt er að borga.“ Samkvæmt þessum yfirlitum og áðurnefndum reikningum frá júlí 2001, en að teknu tilliti til fyrrgreindra innborgana áfrýjenda, taldi stefndi sig eiga ógreiddar hjá þeim samtals 4.866.660 krónur.

Lögmaður, sem fór með mál þetta í héraði fyrir stefnda, ritaði áfrýjendum innheimtubréf 12. september 2001 vegna framangreindrar skuldar, sem nam samkvæmt því alls 6.593.870 krónum að meðtöldum dráttarvöxtum og innheimtukostnaði. Mál þetta var síðan höfðað með stefnu 22. október sama árs, þar sem stefndi krafðist þess að áfrýjendum yrði í sameiningu gert að greiða sér 4.867.226 krónur. Í stefnunni var krafan sögð styðjast við fyrrnefnda þrjá reikninga og fjögur yfirlit stefnda og voru fjárhæðir þeirra tilgreindar á sama hátt og áður greinir. Áfrýjendur greiddu lögmanninum 1.306.000 krónur 15. janúar 2002 eða sem næst höfuðstólsfjárhæð reikninganna þriggja, sem alls hljóðuðu á 2.306.041 krónu, að frádregnum innborgunum á samtals 1.000.000 krónum. Í greinargerð áfrýjenda, sem var lögð fram í héraði 5. febrúar 2002, var þess aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi, til vara að þau yrðu sýknuð en til þrautavara að krafa stefnda yrði lækkuð um 885.189 krónur. Þegar málið var tekið til munnlegs flutnings um frávísunarkröfu áfrýjenda lagði stefndi fram tvo reikninga á hendur þeim öllum, annan dagsettan 31. mars 2001 að fjárhæð 3.417.384 krónur og hinn dagsettan 30. apríl sama árs fyrir 143.237 krónum. Náði fyrrnefndi reikningurinn í einu lagi til liða, sem stefndi hafði áður tilgreint í þremur yfirlitum sínum frá 20. ágúst 2001 með heildarfjárhæðinni 3.417.382 krónur, en sá síðarnefndi sneri að undirbúningsvinnu hans, sem fjórða yfirlitið tók til.

Aðalkröfu áfrýjenda fyrir héraðsdómi um frávísun málsins var hrundið með úrskurði 26. mars 2002. Með hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp 29. ágúst 2002, var áfrýjandanum Cafe Margret ehf. einum gert að greiða stefnda 25.000 krónur, sem hann taldi sig eiga hjá félaginu vegna bókhaldsvinnu samkvæmt fyrstnefnda yfirliti hans frá 20. ágúst 2001. Áfrýjendurnir voru á hinn bóginn í sameiningu dæmd til að greiða stefnda kröfu hans að öðru leyti, en að frádregnum kröfulið að fjárhæð 40.000 krónur vegna leigu á vinnuskúr, sem vísað var frá dómi, og öðrum að fjárhæð 134.174 krónur vegna kostnaðar af tryggingu fyrir byggingarleyfi. Að teknu tilliti til áðurnefndrar innborgunar áfrýjenda á 1.306.000 krónum, sem innt var af hendi eftir að málið var höfðað, var þeim saman gert að greiða stefnda 3.361.486 krónur ásamt dráttarvöxtum af nánar tilteknum fjárhæðum frá 3. júlí 2001 til greiðsludags.

II.

Þegar stefndi höfðaði mál þetta studdi hann sem áður segir dómkröfu sína að hluta við þrjá reikninga, sem hann hafði gefið út á hendur áfrýjandanum Cafe Margret ehf. í júlí 2001 og voru samtals að fjárhæð 2.306.041 króna, en að öðru leyti við fjögur yfirlit frá 20. ágúst sama árs yfir ógreidda kostnaðarliði vegna byggingar hússins, alls 3.560.619 krónur. Inn á kröfu stefnda samkvæmt reikningunum þremur höfðu sem fyrr greinir fengist greiddar 1.000.000 krónur áður en málið var höfðað. Með greiðslu 15. janúar 2002 á 1.306.000 krónum til stefnda gerðu áfrýjendur nánast upp að fullu höfuðstól þeirra liða í kröfu hans, sem reikningar höfðu þá verið gefnir út fyrir. Hafa þau borið því við í málinu að það, sem kann þá að hafa staðið eftir af kröfu stefnda, hafi ekki verið gjaldkræft, því reikningar hafi ekki enn verið gefnir út að því leyti. Hvað sem líður réttmæti þessarar mótbáru áfrýjenda gat hún ekki að réttu lagi varðað frávísun málsins, svo sem þau gerðu kröfu um, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eftir síðastnefnda greiðslu áfrýjenda gaf stefndi út og lagði fram í málinu reikninga fyrir þeim liðum í kröfu sinni, sem áður voru eingöngu studdir við yfirlit hans frá 20. ágúst 2001. Með því að áfrýjendur hafa á engu stigi málsins krafist sýknu að svo stöddu af kröfu stefnda getur þessi háttur á reikningsgerð hans og málatilbúnaði ekki staðið því í vegi að efnisdómur verði felldur á það.

Eins og málið horfði við samkvæmt stefnu og öðrum gögnum, sem lögð voru fram í héraði við þingfestingu þess, skorti mikið á að reifun atvika, kröfugerð og röksemdir stefnda lægju fyrir svo fullnægjandi sé. Úr þessu var nokkuð bætt undir rekstri málsins í héraði, meðal annars með málatilbúnaði áfrýjenda og upplýsingum, sem fengust fram við aðalmeðferð þess. Þótt ýmis atriði varðandi samningsgerð aðilanna og lögskipti þeirra séu enn óljós eins og málið liggur nú fyrir, verður að gæta að því að ágreiningur þeirra um efni málsins lýtur eingöngu orðið að afmörkuðum atriðum, sem þessir brestir á reifun þess varða ekki.

Vegna þess, sem að framan greinir, eru ekki efni til að verða við aðalkröfu áfrýjenda um að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Verður heldur ekki fallist á varakröfu þeirra um að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, enda hafa engin haldbær rök verið færð fyrir henni.

III.

Samkvæmt málflutningi stefnda fyrir Hæstarétti unir hann við niðurstöðu héraðsdóms í öllum atriðum. Dómkröfur áfrýjenda, sem varða efni málsins, snúa eins og áður greinir að því að krafa stefnda verði lækkuð um 484.772 krónur, dráttarvextir verði ekki dæmdir af henni fyrr en frá 1. mars 2002 að telja og fjárhæð málskostnaðar samkvæmt héraðsdómi verði lækkuð. Verður að líta svo á að áfrýjendurnir Horst Wolfgang Karlheinz Mueller og Margret Helene Bekemeier hafi með þessu fallið frá þeirri málsvörn, sem þau höfðu uppi í héraði, að kröfu stefnda væri ranglega beint að þeim.

Krafa áfrýjenda um lækkun á fjárkröfu stefnda er reist á því fyrir Hæstarétti að vinnustundir hans og þriggja annarra manna, sem komu á hans vegum að verkinu við hús áfrýjenda, séu oftaldar í fyrirliggjandi reikningum hans og þeim gögnum, sem þeir styðjast við. Byggja áfrýjendur í þessu efni á yfirlitum, sem þau hafa lagt fram í málinu og kveðast hafa haldið saman jafnharðan um vinnutíma fjórmenninganna. Í yfirlitum þessum er varðandi hvern dag á verktímanum, sem stefndi og samverkamenn hans voru við störf, greint frá heildarfjölda vinnustunda og jafnframt hversu margar stundirnar hafi verið hjá hverjum þeirra. Varðandi marga dagana er einnig tiltekið á hvaða tíma vinna hófst og hvenær henni lauk. Til þess verður að líta að í síðastnefndu tilvikunum er yfirleitt ekki samræmi milli tímasetninga og þess fjölda vinnustunda, sem áfrýjendur hafa þó talið hvern starfsmann hafa verið við vinnu. Þá er í þeim tilvikum einnig um það að ræða í nokkrum mæli að vinnutími hvers fjórmenninganna er ekki talinn sá sami, en tímasetningar eru þó ekki tilteknar fyrir hvern þeirra. Á þessum atriðum í yfirlitum áfrýjenda hafa ekki komið fram viðhlítandi skýringar í málinu. Þegar þessa er gætt er ekki unnt að fallast á með áfrýjendum að yfirlit þeirra nægi til að hnekkja reikningum stefnda, sem reistir eru á undirgögnum frá hverjum starfsmanni. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um heildarfjárhæð kröfu stefnda á hendur áfrýjendum í sameiningu því látin standa óröskuð.

Áfrýjandinn Cafe Margret ehf. hefur ekki fært fram sérstakar varnir gegn þeim hluta kröfu stefnda, sem þessum áfrýjanda var einum gert að greiða með hinum áfrýjaða dómi. Verður niðurstaða héraðsdóms því jafnframt staðfest að þessu leyti.

Stefndi hefur ekki sýnt fram á það í málinu að samið hafi verið um að áfrýjendum bæri að greiða honum verklaun á ákveðnum gjalddaga. Ber því samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. áður 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, að líta svo á að stefndi eigi ekki tilkall til dráttarvaxta af kröfu sinni fyrr en að liðnum mánuði frá þeim degi, sem hann krafði áfrýjendur hverju sinni með réttu um greiðslu. Stefndi gerði áfrýjendum reikning 3. júlí 2001 fyrir 1.145.849 krónum, en fékk sama dag greiddar 500.000 krónur auk þess að hafa fengið áður aðra innborgun sömu fjárhæðar. Mismunurinn, 145.849 krónur, ber því dráttarvexti frá 3. ágúst 2001 til 7. sama mánaðar, en þá var mánuður liðinn frá því að stefndi framvísaði öðrum reikningi sínum að fjárhæð 719.126 krónur. Heildarskuld áfrýjenda, eins og hún stóð þá samkvæmt reikningum stefnda, 864.975 krónur, ber því dráttarvexti til 30. ágúst 2001, en þá var liðinn mánuður frá útgáfu þriðja reiknings hans að fjárhæð 441.066 krónur. Stefndi krafði ekki áfrýjendur réttilega um greiðslu í skilningi 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 með framvísun yfirlita sinna frá 20. ágúst 2001 um áfallinn kostnað af verkinu, heldur fyrst með reikningum fyrir þeim liðum, sem þar um ræddi. Þá reikninga virðast áfrýjendur ekki hafa fengið fyrr en þeir voru lagðir fram í dómi 1. mars 2002. Frá 30. ágúst 2001 gátu eftirstöðvar framangreindra reikninga stefnda frá júlí á sama ári, 1.306.041 króna, því einar borið dráttarvexti. Áfrýjendur greiddu stefnda sem áður segir 1.306.000 krónur 15. janúar 2002. Í hinum áfrýjaða dómi var sú innborgun látin koma til lækkunar á höfuðstól kröfu stefnda að því er varðar áfall dráttarvaxta. Með því að stefndi unir niðurstöðu héraðsdóms verða dráttarvextir eingöngu dæmdir af eftirstöðvum kröfu hans, sem reikningar höfðu verið gefnir út fyrir, eða 41 krónu, frá síðastnefndum degi til 1. apríl 2002, en þá var liðinn mánuður frá því að síðustu reikningar stefnda voru lagðir fram í héraðsdómi. Samanlögð fjárhæð þeirra reikninga var 3.560.621 króna, en af henni hafnaði héraðsdómari einum lið að fjárhæð 134.174 krónur og vísaði frá dómi öðrum, sem nam 40.000 krónum. Að viðbættri þeirri 41 krónu, sem stóð eftir af eldri reikningum stefnda, en að frádregnum þeim 25.000 krónum, sem áfrýjandanum Cafe Margret ehf. ber einum að greiða, var sameiginleg skuld allra áfrýjenda, sem borið gat dráttarvexti frá 1. apríl 2002, að fjárhæð 3.361.488 krónur. Með því að fjárhæðin, sem áfrýjendum var sameiginlega gert að greiða stefnda með hinum áfrýjaða dómi, er 2 krónum lægri en þessu nemur og héraðsdómi hefur ekki verið gagnáfrýjað verða dráttarvextir dæmdir því til samræmis. Að öllu þessu athuguðu fer um dráttarvexti af kröfu stefnda samkvæmt því, sem nánar segir í dómsorði.

Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun fjárhæðar hans er tekið tillit til þess hvernig þeir annmarkar á málatilbúnaði stefnda fyrir héraðsdómi, sem áður greinir, hafa leitt til ágreiningsatriða, sem unnt hefði verið að komast hjá við úrlausn málsins.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Cafe Margret ehf., greiði stefnda, Birni Björgvinssyni, 25.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. apríl 2002 til greiðsludags.

Áfrýjendur, Horst Wolfgang Karlheinz Mueller, Margret Helene Bekemeier og Cafe Margret ehf., greiði í sameiningu stefnda 3.361.486 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 145.849 krónum frá 3. ágúst 2001 til 7. sama mánaðar, af 864.975 krónum frá þeim degi til 30. sama mánaðar, af 1.306.041 krónu frá þeim degi til 15. janúar 2002, af 41 krónu frá þeim degi til 1. apríl sama árs, en af 3.361.486 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjendur greiði í sameiningu stefnda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 29. ágúst 2002.

Mál þetta, sem þingfest var þann 6. nóvember 2001, og dómtekið að loknum munnlegum málflutningi þann 29. ágúst 2002, er höfðað með stefnu útgefinni 22. október 2001 af Birni Björgvinssyni, kt. 310547-4339, Sólbakka 4, Breiðdalsvík gegn Horst Wolfgang Karl Mueller, kt. 310148-2029 og Margret Helene Bekemeier, kt. 151248-2099, báðum til heimilis að Selnesi 38, Breiðdalsvík, persónulega og fyrir hönd Cafe Margaret ehf., kt. 531200-2250.

                Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 3.560.660 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 2.917.382 frá 31. mars 2001 til 30. apríl 2001, af kr. 3.060.619 frá þeim degi til 1. júlí 2001, og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 3.060.619 frá 1. júlí 2001 til 3. júlí s.á., af kr. 3.706.468 frá þeim degi til 7. júlí s.á., af kr. 4.425.594 frá þeim degi til 30. júlí s.á., af kr. 4.866.660 frá þeim degi til 15. janúar 2002 og kr. 3.560.660 frá þeim degi til greiðsludags.

                Þá krefst stefnandi að stefndu verði in solidum dæmd til greiðslu málskostnaðar stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

                Af hálfu stefndu er aðallega krafist sýknu. Til vara er þess krafist, verði stefnukrafan talin dómtæk, verði hún lækkuð um kr. 885.189. Þá er þess krafist, að dráttarvextir reiknist með af útgefnum reikningum þannig að dráttarvextir reiknist af kr. 145.849 frá 3. júlí 2001 til 7. júlí 2001, en af kr. 864.795 frá þeim degi til 30. júlí 2001, en af kr. 1.306.041 frá þeim degi til 7. janúar 2002, en af kr. 41 frá þeim degi til greiðsludags.

                Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Verði krafa stefnanda að einhverju leyti tekin til greina er þess krafist, að málskostnaður falli niður.

                Málavextir:

                Samkvæmt því, sem í stefnu greinir er stefnandi byggingaverktaki og hafi hann tekið að sér byggingu hússins Þverhamar 2A á Breiðdalsvík, fyrir stefndu.  Samkvæmt framburði stefnanda var samningur aðilanna munnlegur, en þess efnis, að hann yrði stefndu innan handar eftir því, sem þau þyrftu á að halda að vinna við húsið og koma verkinu áfram. Hann ætti að hafa á hendi verkstjórn og umsjón með því, að það yrði byggt eftir þeim byggingarreglum, sem hér væru gildandi. Jafnframt var um talað á milli þeirra, að stefndu mættu vinna við húsið, það sem þau gætu gert, en skilningur stefnanda var sá, að sú vinna yrði að vera unnin í samráði við stefnanda og samráði við þá fagaðila aðra, sem að húsinu kæmu og í samræmi við teikningar.

                Eftir því, sem stefndi Horst Mueller hefur borið, vann hann alla daga við bygginguna og skráði hjá sér í bók alla vinnustundir þeirra starfsmanna, sem við verkið unnu.

                Ekki var um samið, hvenær verkinu yrði lokið, en eftir því, sem fram hefur komið hjá báðum aðilum var markmiðið, að húsið yrði fullbúið í maí eða júní 2001.

                Stefnandi sagði, að þeir starfsmenn, sem með honum unnu, hafi ekki verið starfsmenn hans, heldur hafi þeir verið ráðnir til vinnu hjá stefndu, enda þótt stefnandi hafi átt þátt í ráðningu þeirra. Þegar stefndu gátu ekki greitt þeim laun sagðist stefnandi hafa borgað þeim til þess að hægt yrði að halda áfram með verkið, enda hafi legið fyrir, að stefndu mundu borga, en alltaf varð einhver töf á því, að greiðsla kæmi.

                Stefnandi segir það sama eiga við um aðrar kröfur í máli þessu. Hann hafi ekki átt að skaffa þær byggingavörur, sem þurfti til byggingarinnar, en hann hafi greitt þeim mönnum, sem fyrir hans orð höfðu lagt til þetta efni og jafnvel vinnu í því sambandi, þegar stefndu ekki gátu greitt, heldur en að láta verkið stöðvast.

                Stefndi Horst Mueller hefur borið um það, að hann hafi ekki á meðan á verkinu stóð krafist þess, að stefnandi legði fram reikninga, heldur hafi hann ætlast til þess og um það beðið, að við lok verksins fengi hann lokareikning, þar sem fram kæmi allur vinnutími og allt efni, sem keypt hafði verið til verksins. Stefnandi hefði oft farið fram á greiðslur, en stefndu hafi aldrei fengið að vita, hversu mikið þetta yrði. Þegar hann hafi fengið yfirlit eða reikninga hafi þeir einungis fjallað um hluta kostnaðar. Hann hafi séð, að eitthvað var ekki í lagi með vinnutímann. Þegar stefnandi hafi hætt að vinna við húsið í mars hafi það ekki verið að ósk stefndu, en þegar hann sagði sig frá verkinu í lok ágúst, hafi ekki lengur verið trúnaður með aðilum lengur og hafi það því ekki verið gegn þeirra vilja. Hins vegar hafi þetta komið sér illa fyrir stefndu og valdið þeim erfiðleikum, enda hefði stefnandi annast svo mikið fyrir stefndu, stofnun fyrirtækisins, umsókn um byggingarleyfi, ráðningu iðnaðarmanna og umsóknir um lán. Nú hefði hann bannað iðnaðarmönnum á svæðinu að vinna fyrir þau.

                Stefndi Horst Mueller, sagði, að hann hefði unnið alla daga með stefnanda og öðrum starfsmönnum og hann hefði skráð í dagbók sína vinnutíma þeirra. Hann sagði, að fyrir hefði komið, að stefnandi og þeir aðrir, sem með þeim unnu, hafi komið fyrr en stefndi til vinnu, en þá hefði hann reiknað með því í skráningu sinni. Stefndi sagði, að í fyrstu hefði vinna ekki hafist snemma morguns vegna náttmyrkurs, en er líða tók á, hafi vinna hafist stundvíslega. Hann hefði talið, að byrja hefði átt kl. 8.00, en reyndar hefðu stefnandi og aðrir starfsmenn átt það til að hefja vinnu kl. 7.30. Vinnu hefði alltaf lokið stundvíslega kl. 6.00 síðdegis. Stefndi sagði, að hann hefði eingöngu skráð þann tíma, sem hann sjálfur var á vinnustað, en hann nefndi, að Stefán E. Stefánsson hefði til dæmis unnið við lagnavinnu, sem ekki var unnin á staðnum, og væru þeir tíma ekki skráðir hjá stefnda.

                Stefndu hafa gert skriflegar athugasemdir við kröfugerð stefnanda og dregið þar frá atriði, sem þeir telja, að þeir eigi ekki að greiða    

Stefnandi hætti vinnu hjá stefndu við húsið þann 15. mars 2001, eftir því að hann telur að ósk þeirra og hefur ekki gert neina kröfu um greiðslu launa eftir þann tíma. Stefnandi var skráður byggingarstjóri við húsið, og tilkynnti byggingafulltrúa Breiðdalshrepps, 28. ágúst 2001, að hann hætti því starfi þann 31. ágúst, vegna vanefnda stefndu á greiðslum og ágreiningsatriða við framkvæmdina.

                Krafa stefnanda er um eigin vinnulaun, og nemur hún kr. 1.183.036 og er þá meðtalin krafa um kr. 25.000 fyrir vinnu að bókhaldi stefnda, Cafe Margret ehf., en samkvæmt  hlutafélagaskrá, er stefnandi skráður varaendurskoðandi fyrirtækisins.

                Vinnulaun, sem stefnandi hefur greitt fyrir stefndu til Stefáns E. Stefánssonar, Hermanns Guðmundssonar og Þorra Guðmundarsonar, nema kr. 1.607.749.

                Ýmis annar byggingarkostnaður, sem sagt er á yfirliti, að eftir sé að semja um, nemur kr. 244.094.

                Annað útlagt fyrir vörur og vinnu nemur kr. 848.444.   

                Upprunaleg krafa stefnanda vegna verksins var kr. 5.860.660, en stefndu hafa greitt inn á verkið þann 3. janúar 2001 og 3. júlí 2001 og eftir að mál þetta var höfðað kr. 1.306.000, þann 15. janúar 2002.

Málsástæður stefnanda:

Krafa stefnanda er að hluta vegna eigin vinnuframlags, að hluta vegna aðkeyptrar þjónustu  og að hluta vegna aðkeyptrar vöru, sem fór í verkið og sundurliðast að þessu leyti þannig:

1. Ógreiddur útlagður kostnaður sbr. dskj. nr. 8,                                                            kr. 2.133.489

2. Áfallinn kostnaður frá nóvember 2000 til mars 2001, sbr. dskj. nr. 7,                       kr.    269.094

3. Samantekt á ógreiddri vinnu, sbr. dskj. nr.  9,                                                              kr. 1.014.799

4. Samantekt á ýmissri vinnu allt til 11. apríl 2001, sbr. dskj. nr. 10,                              kr.    143.237

5. Reikningur nr. 32, dags. 3. júlí 2001, sbr. dskj. nr. 3,                                   kr. 1.145.849

6. Reikningur nr. 34, dags. 7. júlí 2001, sbr. dskj. nr. 4,                                   kr.    719.126

7. Reikningur nr. 37, dags. 30. júlí 2001, sbr. dskj. nr. 5,                                 kr.    441.066

                Verkinu lauk í mars 2001 og er því gerð krafa um að sá hluti kröfunnar, sem ekki hefur verið reikningsfærður síðar, beri dráttarvexti frá 31. mars 2001.

                Upphaflega hafi verið samið við Horst Wolfgang Karl Mueller og Margret Helene Bekemeier, en að beiðni þeirra hafi innheimtu verið beint að Cafe Margret ehf.

                Málsástæður stefndu:

                Stefndu byggja á því, að stefnandi hafi unnið fyrir einkahlutafélagið Cafe Margret og hafi þeir reikningar, sem út hafa verið gefnir verið stílaðir á það félag. Hafi á engan hátt verið skýrt í stefnu, á hvaða málsástæðum samaðild stefndu Horst Wolfgang Karl Mueller og Margret Helene Bekemeier byggist. Frá upphafi hafi verið ljóst, að stefnandi mundi vinna fyrir félagið og hóf hann störf daginn eftir stofnun félagsins, þann 25.11.2000. Stefndu Karl og Margret hafi aldrei tekist á hendur persónulega ábyrgð gagnvart stefnanda vegna vinnu hans við umrædda húsbyggingu. Beri því að sýkna þau á grundvelli aðildarskorts sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

                Varakröfu sína um um sýknu af kröfum stefnanda byggja stefndu á því, að þeir hafi þegar greitt þá reikninga sem út hafi verið gefnir vegna verksins. Stefnandi hafi einungis lagt fram reikninga fyrir kr. 2.306.041 og hafi stefndu greitt þá fjárhæð til lögmanns stefnanda. Stefnandi hafi ekki lagt fram reikninga fyrir frekari kröfum. Meðan stefnandi hafi ekki lagt fram reikning vegna unnins verks, geti hann ekki krafist efnda, og því síður, sem hann hefur ítrekað verið krafinn um reikning. Sé krafan þá ekki gjaldfallin, sem leiða á til sýknu. Stefndu vísa sérstaklega til þess, sem segir í stefnu, að með aðilum hafi samist svo um að greiðsla yrði innt af hendi samhliða útskrift reikninga.

                Stefndu telja að stefnandi hafi ofreiknað tíma og efni á þeim reikningsyfirlitum, sem þeir hafa fengið í hendur. Teljist stefnukrafan dómtæk í heild eða að hluta, krefist stefndu þess, að krafan verði lækkuð um kr. 885.189. Vísa stefndu til dskj. nr. 16-30 í því sambandi, en þar komi fram greinargerð þeirra um lækkunarkröfuna. Forsvarsmaður stefnda, sem einnig hafi unnið sjálfur við húsbygginguna, hafi haldið skrá yfir vinnu aðila hvern vinnudag. Við samanburð á skrá hans og reikningum þeim, sem stefnandi og menn hans hafi skrifað, beri töluvert á milli. Stefndi telji, að þessir aðilar hafi oftalið tíma sína við smíði hússins. Þá telur hann einnig að tilgreint efni, sem fært er á bygginguna hafi ekki tilheyrt henni og sé verkinu óviðkomandi. Þessi forsvarsmaður stefnda hafi haft óvanalega gott eftirlit með smíði hússins og sætti sig ekki við þau gögn, sem stefnandi hafi lagt fram um skrifaða tíma og efni.

                Stefndu telja, að stefnanda hafi verið í lófa lagið að leggja strax fram sundurliðaða reikninga fyrir verkinu, enda hafi það verið krafa stefnanda frá upphafi að fá í hendur reikning fyrir verkinu, áður en greitt yrði fyrir það. Forsvarsmenn stefnda komi frá Þýskalndi og þekki ekki þá reglu að greiða iðnaðarmönnum án þess að reikningar séu lagðir fram. Þá hefði aðilum gefist kostur á því, að ræða reikningana og þau atriði, sem ágreiningur væri um. Það hafi stefnandi ekki gert, heldur tínt í stefndu ýmis yfirlit yfir verkið og höfðað síðan mál án þess að gefa út reikninga og ræða hlutina til enda.

                Mótmælt er dráttarvaxtaútreikningi stefnanda þar sem enginn upphafsdagur sé til á dráttarvaxtakröfu hans. Lögfræðiinnheimta breyti þar engu um, enda hafi stefnandi hafið innheimtu á ógjaldfallinni kröfu. Stefndi hafi greitt í fyrstu tvisvar til stefnanda án þess að fá í hendur reikninga. Stefndi hafi síðan neitað að greiða frekar fyrir verkið og taldi sig eiga rétt á reikningi áður en hann greiddi meira. Stefndi hafi nú greitt andvirði útgefinna reikninga.  

Niðurstaða:

Stefnandi máls þessa hefur haldið því fram, að hann hafi ekki tekið að sér með samningi að annast byggingu umrædds húss sem verktaki, fyrir eigin reikning, eða að hann hafi lofað að skila því fullbúnu á ákveðnum tíma.

Stefndu hafa ekki lagt fram eða gert líklegt, að um slíkan samning hafi verið að ræða.

Samkomulag aðilanna virðist hafa verið á þá leið, að stefnandi, sem er húsasmíðameistari, tæki að sér að vera byggingarstjóri gagnvart byggingaryfirvöldum, en ynni jafnframt sjálfur ásamt mönnum, sem hann útvegaði, við bygginguna.  Aðilar eru einnig sammála um, að samkomulag hafi verið um, að stefndu ynnu sjálfir við bygginguna eftir því, sem þau vildu og gætu, en þó undir stjórn og eftirliti fagmanna.

Stefndu Horst Mueller og Margret Bekemeier hafa gert sýknukröfu fyrir sitt leyti, sem byggð er á því, að þau séu ekki réttir aðilar að kröfum stefnanda, heldur hafi öll vinna og viðskipti stefnanda verið við og fyrir stefnda Cafe Margret ehf.

Ekkert í málinu bendir til annars en að það samkomulag, sem gert var og vinna stefnanda byggðist á, hafi verið gert einhverjum tíma fyrr en hafist var handa um verklegar framkvæmdir við húsið, en það varð 25. nóvember 2000. Dagsetning samþykkta stefnda Café Margret ehf. er 24. nóvember 2000. Fyrir liggur, að félagið var skráð þann 13. desember 2000.  Sé gengið út frá því, að samkomulagið hafi verið gert eftir stofnun félagsins, en fyrir upphaf framkvæmda, hefur það verið gert 24. eða 25. nóvember 2000. Samkvæmt  10. gr. laga nr. 138/1994 bera þeir, sem gera löggerning fyrir hönd einkahlutafélags, áður en það er skráð, óskipta persónulega ábyrgð á efndum hans.

Samkvæmt framlögðum gögnum um eignarhald að húsi því, að Þverhömrum 2A í Breiðdalshreppi, en mál þetta snýst um greiðslu byggingarkostnaðar þess, eru stefndu  Horst Wolfgang Karl Mueller og Margret Helene Bekemeier skráð eigendur saman, að jöfnu, að um það bil helmingi eignarinnar og stefnda Cafe Margret ehf. skráð eigandi um það bil helmings eignarinnar. Ekki verður séð og því hefur ekki verið haldið fram, að framlög stefnanda til byggingarinnar hafi verið eingöngu við hluta stefnda Cafe Margret ehf. Verður því að telja, að stefnandi geri rétt í því að beina kröfum sínum um greiðslu byggingarkostnaðar hússins, að öllum stefndu saman. Verður þessi sýknukrafa stefndu Horst Wolfgang Karl Mueller og Margret Helene Bekemeier því  ekki tekin til greina að því leyti.

Liður í kröfugerð stefnanda á hendur stefndu er um greiðslu kr. 25.000 fyrir vinnu við bókhald Cafe Margret ehf. Fram kemur í gögnum málsins, að stefnandi er skráður varaendurskoðandi félagsins. Þessi kröfuliður er óviðkomandi byggingarkostnaði hússins og verður kröfunni því ekki með réttu beint að stefndu Horst Mueller og Margret Bekemeier. Verða þau því sýknuð af þessum kröfulið.  

Þá hafa stefndu krafist sýknu, þar sem þeir hafi þegar greitt alla reikninga, sem út hafi verið gefnir, er mál þetta var höfðað, en á meðan stefnandi hafi ekki lagt fram reikning, geti hann ekki krafist efnda. Vísa stefndu til þess, sem segir í stefnu, að aðilum hafi samist svo um, að greiðsla yrði innt af hendi samhliða útskrift reikninga. Stoð þessa er að finna í yfirliti á dskj. nr. 7, sem er jafnframt bréf stefnanda til stefndu, en þar segir: „Tveimur mánuðum eftir að ég gef út formlegan reikning þá þarf ég að borga virðisaukaskattinn. Þess vegna skrifa ég ekki reikning fyrr en hægt er að borga. Bið ykkur vinsamlegast um innborgun á skuldina.” Þetta er dagsett 20/8 2001. Í ljósi þessa er ekki um að ræða samkomulag um að greiðsla yrði ekki innt af hendi fyrr en reikningur hefði verið gerður, heldur, að reikningur yrði gerður um leið og greiðsla færi fram. Jafnframt kemur fram ótvíræð krafa um greiðslu skuldarinnar. Stefndu geta þá ekki borið fyrir sig, að þeir hafi ekki verið krafðir um greiðslu og verður þessi krafa þeirra um sýknu ekki  tekin til greina. Rétt er einnig að fram komi, greiðsla á eftirstöðvum þeirra reikninga, sem út höfðu verið gefnir áður en málið var höfðað, fór fram 15. janúar 2002, eða tæpum þremur mánuðum eftir málshöfðun. Þá er einnig rétt að fram komi, að stefnandi gaf út reikninga fyrir eftirstöðvum kröfunnar, annan dagsettan 31/3 2001 að fjárhæð kr. 3.417.384 og hinn dagsettan 30/4 2001 að fjárhæð kr. 143.237 og viðurkenndi stefnandi, að reikningar þessir hefðu verið gerðir um það bil ári seinna en dagsetningar gefa til kynna.

Þrautavarakrafa stefndu er sú, að dómkrafa stefnanda verði lækkuð um kr. 885.189, vegna athugasemda og andmæla við einstaka liði kröfugerðar stefnanda.

Þessi andmæli lúta að skráningu vinnustunda fjögurra manna, sem unnu við bygginguna, þeirra stefnanda Björns Björgvinssonar, Stefáns E. Stefánssonar, Hermanns Guðmundssonar og Þorra Guðmundarsonar. Stefndu hafa haldið því fram, að þau hafi fylgst náið með vinnunni og hafi skráð niður allan vinnutíma, og muni þar nokkru á. Nemur frádráttur sá, sem krafist er kr. 484.772. Stefndu hafa ekki lagt fram önnur gögn um þetta en sína eigin skráningu, sem þau virðast hafa gert án alls samráðs við stefnanda eða aðra starfsmenn og leggja þá fyrst fram í dómsmálinu. Ef bornar eru saman skrár stefnanda og annarra starfsmanna við skráningu stefndu, virðist ekki skeika neinu um upphaf og lok vinnudags. Hins vegar virðast stefndu telja færri vinnustundir í vinnudeginum en stefnandi og þeir félagar. Þannig er algeng skráning stefndu, að upphaf vinnudags sé kl. 8.30 og vinnulok kl. 18.30. Þetta telja stefndu vera 8 vinnustundir, en stefnandi og þeir félagar 9 vinnustundir. Án þess að það hafi komið beinlínis fram frá aðilunum, virðist nokkuð ljóst, að stefndu hafa reiknað frá tvo kaffitíma annan fyrir og hinn eftir hádegi, 30 mínútur hvorn. Samkvæmt almennum kjarasamningum eru kaffitímar þessir hluti af greiddum vinnutíma. Þá hefur stefndi Horst Mueller viðurkennt, að ekki séu skráðir tímar, sem Stefán Eðvald Stefánsson vann annars staðar. Tímaskráning stefnanda ber ekki með sér, að um sé að ræða ósanngjarna skráningu og verður henni ekki hnekkt með þessum hætti. Stefndu hafa ekki andmælt tímagjaldi því, sem lagt er til grundvallar kröfu stefnanda. Verður ekki fallist á að lækka kröfulið þennan að kröfu stefndu.

                Á dskj. 29, eru skráðir til frádráttar 2 dagar eða 16 vinnustundir fyrir þá stefnanda og Þorra Guðmundarson kr. 53.600 auk virðisaukaskatts og virðist þetta standa í einhverjum tengslum við lagningu kjalar á þak hússins. Ekki er nánar skýrt hvaða vinnudaga er um að ræða eða orsök þess, að þetta er dregið frá kröfunni. Þá eru á sama skjali skráðar til frádráttar kröfu stefnanda 8 vinnustundir eða einn dagur hjá stefnda Horst sjálfum, kr. 16.268. Stefndi skýrði þetta svo, að stefnandi hafði sett upp vegg, þegar hann hætti vinnu, en veggurinn hefði verið skakkur og væri þetta sá tími, sem það hefði tekið stefnda Horst að laga vegginn til og rétta hann af. Stefndu hafa ekki fært fram rök fyrir því, að draga eigi frá kröfu stefnanda andvirði þeirra 2 x 16 stunda, sem að ofan greinir og verður ekki gerður frádráttur af þeim sökum. Þá hafa stefndu ekki skýrt, hvers vegna stefnandi ætti að greiða stefndu laun fyrir að rétta vegginn og verður sú fjárhæð heldur ekki dreginn frá kröfu hans.

                Þá hafa stefndu á dskj. nr. 27 farið fram á frádrátt vegna efnis kr. 33.429. Ekki verður séð, að stefnandi hafi keypt neitt af þessu efni eða gert reikning fyrir því, og virðist hér vera um að ræða ósk um að stefnandi kaupi það efni, sem orðið hefur afgangs í byggingarframkvæmdinni. Stefndu stóðu í húsbyggingu þessari á eigin kostnað, en sömdu ekki um það við stefnanda, að hann leggði til efnið. Stefndu eiga því ekki rétt á því, að stefnandi taki við og endurgreiði þeim það efni, sem afgangs hefur orðið, nema með samkomulagi. Stefnandi hefur mótmælt þessum frádrætti og verður hann því ekki tekinn til greina.

Stefnandi hefur lagt fram á dskj. nr. 10, tímaskráningu vegna ýmissrar undirbúningsvinnu á tímabilinu 1. febrúar til 11. apríl 2000, 59 tímar, en á dskj. nr. 33 hefur verið gerður reikningur fyrir þessa tíma að að fjárhæð kr. 143.237. Stefndu hafa krafist þess, að frá þessum reikningi verði dregnir 20 tímar eða kr. 82.668.  Stefndu hafa sagt frá því, að stefnandi hafa aðstoðað þau við þau verk, sem talin eru fram á tímaskýrslu þessari, sem er aðstoð við öflun byggingarleyfis, aðstoð við kaup á húsinu frá Finnlandi og annað varðandi innflutning þess, aðstoð við lánaumsóknir og fleira. Enginn nánari rökstuðningur fylgir kröfunni um að lækka þennan kröfulið og verður hún ekki tekin til greina.

Stefndu hafa gert athugasemdir vegna þess kostnaðar, sem sagt er frá á dskj. nr. 7 og gert grein fyrir þeim kostnaðarliðum, sem þeir vilja draga frá köfu stefnanda.

 1. Ein rúlla mótavír, sem talin er á kr. 4.550. Stefndu telja, að þessi rúlla sé þegar greidd samkvæmt reikningi KHB með vsk kr. 5.665. Stefnandi gefur þá skýringu, að vantað hafi meiri mótavír, en keyptur hafi verið og hafi hann lagt fram eina rúllu af vír frá sjálfum sér og sé hún færð á því verði, sem hann hafi sjálfur keypta hana á. Er ekki ástæða til að taka til greina kröfu stefndu um frádrátt af þessum sökum.

2. 2 rúllur girði samtals kr. 11.048, sem krafist er frádráttar á. Skýring þeirrar kröfu virðist sú ein, að stefndu viti ekki hvað um sé að ræða. Engin önnur rök hafa komið fram gegn þessari kröfu og verður ekki tekin til greina krafa stefndu um frádrátt af þessum sökum.

3. Leiga á vinnuskúr áætlað kr. 40.000. Krefjast stefndu þess, að frá þessari kröfu verði dregnar kr. 20.000, þar sem þau hafi lagt til önnur húsakynni, sem nægðu. Fram hefur komið hjá stefnanda, að hann hefði ekki greitt þessa leigu, en hann reiknaði með því, að ástæðan væri tillitssemi eiganda vinnuskúrsins. Stefnandi hefur þannig ekki eignast kröfu þessa verður því samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 að vísa henni allri frá dómi.

4. Bókhald vegna Café Margret ehf. kr. 25.000. Fram hefur komið í málinu, að stefnandi sé varaendurskoðandi stefnda Café Margret ehf. og getur því talist eðlilegt, að hann hafi unnið vinnu af þessu tagi fyrir félagið, sem hefur ekki verið mótmælt. Kostnaður þessi er hins vegar ekki hluti byggingarkostnaðar þess, sem kröfur stefnanda annars eru um. Verður því að draga þessa fjárhæð frá kröfu um hann, en taka hann til greina, sem skuld stefnda Cafe Margret ehf.

5. og 6. Trygging vegna byggingarleyfis, kr. 134.174. Upplýst er, að hér er um að ræða iðgjald ábyrgðartryggingar, sem byggingarstjóra er skylt að hafa  samkvæmt  33. gr. reglugerðar nr. 441/1998. Ábyrgðartrygging þessi er ekki bundin við þá húsbyggingu, sem stefnandi stjórnaði fyrir stefndu. Verður ekki talið, að stefnandi geti krafið stefndu um endurgreiðslu þessa tryggingariðgjalds og er fallist á, að kr. 134.174 verði dregnar frá kröfu stefnanda af þessum sökum.

 7. Akstur  49 daga x 500 x 24.5% =622    kr. 30.478. Engin skýring er á þessari kröfu önnur en, að stefnandi hafi þurft að aka í erindum stefndu og engin rök færð af þeirra hálfu fyrir því, að  draga eigi þessa fjárhæð frá. Með tilliti til þess, að stefnandi var byggingarstjóri og stóð í ýmsum snúningum fyrir stefndu, þykir þessari kröfu í hóf stillt og verður ekki samþykktur frádráttur af þessum sökum..

8. 8 máltíðir fyrir steypumenn og kranamenn á 800 kr. hver máltíð kr. 6.400. Stefnandi skýrir lið þennan þannig, að fengnir hafi verið kranar og steypa frá Egilsstöðum til Breiðdalsvíkur og hafi verið skylt að sjá þessu fólki fyrir mat við þær aðstæður. Stefnandi hafi látið matreiða handa þeim á heimili sínu og áætli verð hverrar máltíðar á 800 kr. Stefndu hafa engin rök fært fyrir því, að draga eigi þessa fjárhæð frá kröfunni, en henni þykir í hóf stillt og verður ekki samþykktur frádráttur af þessum sökum.

9. 10 mm steypujárn í sökkulveggi og í plötu 6 x 500 samtals kr. 3000. Stefnandi gefur þá skýringu, að hann hafi átt þetta járn sjálfur og sótt það í geymslu og lagt til verksins. Stefndu nefna engin sérstök rök til þessa frádráttar. Verður ekki samþykktur frádráttur af þessum sökum.

                Sýknukrafa stefndu var ekki byggð á því, að kröfur stefnanda væru rangar efnislega og verður því að líta svo á, að stefndu hafi ekki aðrar mótbárur gegn  kröfunum, en hér hefur verið rakið.

                Verður þá að taka kröfur stefnanda til greina þannig:

                Stefnda, Cafe Margret ehf. greiði stefnanda Birni Björgvinssyni, kr. 25.000 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, frá 20. ágúst 2001 til greiðsludags.

                Stefndu, Horst Wolfgang Karl Mueller, Margret Helene Bekemeier og Cafe Margret ehf. greiði in solidum stefnanda, Birni Björgvinssyni, kr. 3.361.486, (3.560.660-25.000-40.000-134.174), með dráttarvöxtum af kr. 145.849 frá 3. júlí 2001 til 7. s.m., af kr. 864.975 frá þeim degi til 20. september s.á., af kr. 4.667.486 frá þeim degi til 15. janúar 2002 og af kr. 3.361.486 frá þeim degi til greiðsludags.

Vísað er frá dómi ofangreindri kröfu um leigu fyrir vinnuskúr kr. 40.000.

Stefndu, Horst Wolfgang Karl Mueller, Margret Helene Bekemeier og Cafe Margret ehf. greiðis in solidum stefnanda Birni Björgvinssyni, kr. 500.000 í málskostnað.

                Logi Guðbrandsson, dómstjóri, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefnda, Cafe Margret ehf. greiði stefnanda Birni Björgvinssyni, kr. 25.000 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, frá 20. ágúst 2001 til greiðsludags.

                Stefndu, Horst Wolfgang Karl Mueller, Margret Helene Bekemeier og Cafe Margret ehf. greiði in solidum stefnanda, Birni Björgvinssyni, kr. 3.361.486, með dráttarvöxtum af kr. 145.849 frá 3. júlí 2001 til 7. s.m., af kr. 864.975 frá þeim degi til 20. september s.á., af kr. 4.667.486 frá þeim degi til 15. janúar 2002 og af kr. 3.361.486 frá þeim degi til greiðsludags.

Vísað er frá dómi ofangreindri kröfu um leigu fyrir vinnuskúr kr. 40.000.

Stefndu, Horst Wolfgang Karl Mueller, Margret Helene Bekemeier og Cafe Margret ehf. greiði in solidum stefnanda Birni Björgvinssyni, kr. 500.000 í málskostnað.