Hæstiréttur íslands

Mál nr. 607/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Mánudaginn 14. nóvember 2011.

Nr. 607/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stæði var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. nóvember 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 9. desember 2011 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Að því frágengnu krefst hann þess að sér verði ekki gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Fallist er á það með sóknaraðila að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið fíkniefnalagabrot með innflutningi á miklu magni af sterkum fíkniefnum. Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði standa rannsóknarhagsmunir til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í einangrun á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr., laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2011.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. desember 2011, kl. 16:00.  Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi haft til rannsóknar meint fíkniefnalagabrot, er varði innflutning á fíkniefnum hingað til lands. Rannsókn lögreglu hafi upphaflega beinst að kærða, X og sú rannsókn leitt í ljós að aðili að nafni A hefði farið til Hollands í byrjun október. Það sé ætlun lögreglu að sú ferð A hafi tengst innflutningi á fíkniefnum. Hinn 10. október sl. hafi lögreglan fundið og lagði hald á mikið magn af hættulegum fíkniefnum, en um magn, tegund og styrkleika efnanna vísist til meðfylgjandi efnaskýrslu tæknideildar og matsgerðar Háskólans. Fíkniefnunum hafði verið komið fyrir í þremur kössum og hafi  þau fundist í vörugámi sem hafði verið fluttur hingað til lands með skipi frá Hollandi í gegnum fyrirtækið B ehf., en A sé starfsmaður fyrirtækisins. Í kjölfarið hafi A verið handtekinn og sæti hann nú gæsluvarðhaldi. Kærði X hafi verið staddur erlendis er fíkniefnin hafi komið  til landsins en hann hafi verið handtekinn við komuna til landsins hinn 30. október sl. og sæti nú gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins.

Við yfirheyrslur hjá lögreglu hafi A játað aðild sína að málinu, en hann kveði kærða X hafa staðið að skipulagningu og fjármögnun innflutningsins. Hann hafi farið út til Hollands að beiðni X, hitt þar Íslending sem  hafi afhent honum þrjá kassa. Hann segist hafa beðið kunningja sinn að koma þessum kössum fyrir í vörugámi en hafi sjálfur ætlað að taka á móti kössunum hér á landi og geyma þá þar til X kæmi að utan, en þá hafi X ætlað að taka við efnunum. A segist hafa haldið að um stera væri að ræða. Að sögn A hafi hann fengið peninga frá X áður en hann hafi farið út til að kaupa farmiðann. Hann segist hafa átt að fá borgað fyrir innflutninginn en að ekki hafi verið rætt frekar um nákvæma upphæð. 

Við yfirheyrslur hjá lögreglu neiti X sök. Á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur hafi lögreglan beitt ýmsum rannsóknarúrræðum sem hafi veitt lögreglu mikilvægar upplýsingar sem styrki mjög grun lögreglu um aðild X að málinu, sbr. framlögð gögn. 

Rannsókn lögreglu miði áfram en hér sé um að ræða umfangsmikið og vel skipulagt fíkniefnamál þar sem mikið magn af sterkum fíkniefnum hafi verið flutt hingað til lands. Rannsaka þurfi þætti er snúi að aðdraganda brotsins, skiplagningu og fjármögnun þess. Gagnaöflun sé í fullum gangi og hafi lögreglan sent út réttarbeiðnir þar sem óskað sé eftir aðstoð erlendra yfirvalda við ýmsa þætti er snúi að rannsókninni, en til standi að senda út fleiri beiðnir. Þá sé nauðsynlegt að yfirheyra kærða frekar og fleiri einstaklinga, vitni og mögulega samseka, sem kunni að tengjast málinu. Mikilvægt sé talið í þágu rannsóknarinnar að unnt sé að bera upplýsingar undir kærða sjálfstætt á meðan hann sæti gæsluvarðhaldi og að hann sæti einangrun á þessu stigi rannsóknarinnar. Gangi kærði laus ferða sinna þá gæti hann torveldað rannsókninni, s.s. með því að koma undan munum sem hafi sönnunargildi í málinu eða haft áhrif á aðra samverkamenn.

Kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að afbroti sem allt að 12 ára fangelsisrefsing sé lögð við. Um sé að ræða mikið magn fíkniefna sem víst þyki að hafi átt að fara í sölu- og dreifingu hér á landi. Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus. 

Með vísan til framangreinds sé það mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum rannsóknargæslu sé fullnægt. Með skírskotun til þess, framlagðra gagna og a.liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Eins og rakið hefur verið er kærði undir sterkum grun um aðild að broti á fíkniefnalöggjöfinni með því að hafa skipulagt í félagi við aðra innflutning á umtalsverðu magni af sterkum fíkniefnum.  Hefur kærði neitað sök. Brot það sem kærði er grunaður um að hafa framið getur varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173 gr. a laga nr. 19/1940.  Rannsókn málsins hefur miðað áfram en enn er eftir að yfirheyra aðra þá sem kunna að tengjast brotinu og aðra þætti brotsins, s.s. skipulagningu þess og fjármögnun og eftir atvikum með aðstoð erlendra lögregluyfirvalda. Þegar litið er til þessa verður því fallist á að hætt sé við að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins, gangi hann laus, sbr. a-liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, svo sem með því að hafa áhrif á vitni og samseka.

Verður því fallist á framkomna kröfu eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að varðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.  Með sömu rökum og í ljósi rannsóknarhagsmuna, svo og með vísan til b liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, verður kærða gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X kt.[...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 9. desember 2011, kl. 16:00. 

Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.