Hæstiréttur íslands

Mál nr. 604/2007


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Fullnaðarkvittun
  • XVII. kafli laga nr. 91/1991

Reifun

Fjármagn ehf. (Guðjón Ármann Jónsson hrl.) gegn Ragnheiði Guðnadóttur (Lilja Jónasdóttir hrl.) og gagnsök

           

Fimmtudaginn 25. september 2008.

Nr. 604/2007.

Fjármagn ehf.

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

gegn

Ragnheiði Guðnadóttur

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

og gagnsök

 

Skuldabréf. Fullnaðarkvittun. XVII. kafli laga nr. 91/1991.

F krafði H um greiðslu eftirstöðva skuldabréfs sem var útgefið 29. júní 1998. Fyrir liggur í gögnum málsins að F fór fram á það hinn 15. mars 2006 að skuldabréfið yrði gert upp. H fól Þ að semja um uppgreiðslu bréfsins við F. Viðræður áttu sér stað en ekki var gengið frá uppgjöri. Hinn 27. apríl 2006 barst H innheimtubréf frá K ehf. sem sá um innheimtu kröfunnar fyrir hönd F. Heildarkrafan var þar tilgreind 764.241 krónur. H greiddi þá fjárhæð og fékk fullnaðarkvittun vegna þessa. F hélt því fram að greiðsla H hefði ekki verið fullnaðargreiðsla þar sem mistök hefðu átt sér stað við innslátt skuldabréfsins. Ekki lá fyrir í málinu sönnun þess að H hefði verið eða mátt vera ljóst að fjárhæð kröfunnar væri röng þegar hún gekk frá greiðslunni 3. maí 2006 og þar með ættu sjónarmið um óréttmæta auðgun ekki við. H fékk kvittun um fullnaðargreiðslu og hafi því mátt vænta þess að um fullnaðaruppgjör hafi verið að ræða. Samkvæmt þessu var H sýknaður af kröfum F.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. nóvember 2007. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmd til greiðslu 684.766 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. apríl 2006 til greiðsludags. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 9. janúar 2008. Hún krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að öðru leyti en því að aðaláfrýjandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar í héraði. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Aðaláfrýjandi kveðst reka mál þetta samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og mótmælir málsástæðu gagnáfrýjanda á grundvelli 118. gr. sömu laga. Varnir gagnáfrýjanda falla innan 3. mgr. 118. gr. laga nr. 91/1991 með því að þær byggja á skriflegum gögnum að því marki sem sönnunarbyrðin hvílir á henni. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Í ljósi málatilbúnaðar aðila og niðurstöðu málsins þykir rétt að fallast á kröfu gagnáfrýjanda um málskostnað fyrir héraðsdómi. Við ákvörðun hans er tekið tillit til málskostnaðarreiknings, en í ljósi umfangs málsins og eðlis þess er hins vegar vinna við það í héraði í 47 klukkustundir ekki skýrð á fullnægjandi hátt. Verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi 650.000 krónur.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Aðaláfrýjandi, Fjármagn ehf., greiði gagnáfrýjanda, Ragnheiði Guðnadóttur, samtals 650.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 26. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur af Fjármagni ehf., Hesthömrum 20 Reykjavík, á hendur Ragnheiði Guðnadóttur, með stefnu birtri 17. nóvember 2006.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði gert að greiða stefnanda skuld  að fjárhæð 684.766 kr., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 4. apríl 2006 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins. Krafist er vaxtareiknings í samræmi við 12. gr. vaxtalaga.

Dómkröfur stefndu eru þær að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu.

 

          Málsatvik, málsástæður og lagarök stefnanda

          Stefnandi kveður skuld þessa vera samkvæmt skuldabréfi, upphaflega að fjárhæð  1.612.000 kr., útgefnu í Þverholtum hinn 29.06.1998 af Halldóri Gunnarssyni til Búvéla ehf. og tryggt með fyrsta veðrétti í dráttarvélinni ZK-085 sem er Fendt 309 ÍSA, árgerð 1984 og með sjálfskuldarábyrgð stefndu Ragnheiðar Guðnadóttur og Búvéla ehf. Þann 04.08.1998 hafi bréfið verið framselt til stefnanda Fjármagns ehf. Skuldabréfið átti að greiðast með 60 afborgunum á 1 mánaðar fresti, í fyrsta sinn hinn 01.11.1998 og bera óverðtryggða meðalvexti samkvæmt útreikningi Seðlabanka Íslands hverju sinni. Skuldabréfið sé gjaldfellt samkvæmt ákvæðum þess vegna vanskila frá 35. gjalddaga, hinn 01.09.2001, þá að eftirstöðvum 671.666 kr. og bankakostnaðar 13.100 kr., eða samtals 684.766 kr. Þann 03.05.2006 hafi  766.799 kr. verið greiddar til skrifstofu Kollekta ehf. en vegna mistaka í innslætti á skrifstofunni hafi röng fjárhæð verið gefin upp. Þegar mistökin uppgötvuðust hafi stefndu verið tilkynnt um það samstundis en þá hafði hún fengið kvittun fyrir fullnaðargreiðslu. Af hálfu kröfueiganda og stefndu hafði ekki verið samið um afslátt og hefði stefndu átt að vera ljóst að fjárhæðin væri mun hærri en sú fjárhæð sem krafist var. Hér sé því um að ræða mannleg mistök sem stefnda ætli sér að nýta sér.

          Stefnandi telur sig ennþá eiga kröfu á fullnaðargreiðslu úr hendi stefndu og byggir það einkum á því að ekki sé kröfuréttarsamband milli starfsmanns skrifstofu Kollekta ehf. og stefndu sem ekki hafi haft umboð til að veita afslátt og í raun mislesið í upplýsingar frá innheimtubanka. Krafan sé einnig byggð á því að skuldabréfinu hafi  ekki verið aflýst og veð það sem í því greini standi enn til tryggingar skuldinni. Telur stefnandi að hér eigi jafnframt við réttarreglur um ólögmæta auðgun auk reglna um viðskiptabréf því viðskiptabréf það sem um ræðir beri ekki með sér að það sé að fullu greitt.

          Stefnandi reisir kröfur sínar á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og um efndir fjárskuldbindinga og rekur málið samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991. Dráttarvaxtakröfur séu gerðar á grundvelli III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfur sínar um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um varnarþing er vísað til 36. gr. laga nr. 91/1991.

                                                                                 

          Málsástæður og lagarök stefnda

          Af hálfu stefndu er öllum kröfum og málsástæðum stefnanda mótmælt.

          Stefnda byggir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að um hafi samist þann 12. apríl 2006 á milli umboðsmanns stefndu, Þóris Arnar Ólafssonar f.h. Sectors ehf., og stefnanda að veita afslátt af kröfu stefnanda á hendur stefndu. Á grundvelli þessa hafi stefnda greitt eftirstöðvar skuldar sinnar, líkt og hún mátti ætla að munnlega hafi samist um milli stefnanda og umboðsmanns hennar nokkru fyrr og í samræmi við innheimtubréf það sem sent var þann 27. apríl 2006.

          Kjarni samningaréttarins byggir á því að samningar skuli standa. Allar undantekningar frá reglunni beri að skýra þröngt. Ljóst sé að samningsaðilar hafi samið um tiltekin málalok og í kjölfarið hafi verið gefin út fullnaðarkvittun fyrir greiðslum í samræmi við samkomulagið. Eigi að víkja frá samningnum beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að atvik séu með þeim hætti að unnt sé að réttlæta það.

           Þá byggir stefnda sýknukröfu sína í annan stað á því að staðhæfingar stefnanda að um mistök af hálfu starfsmanns Kollektu ehf. hafi verið að ræða séu ósannaðar. Hafi fjárhæðin sem greidd var þvert á móti verið í samræmi við samkomulag aðila.

          Í þriðja lagi byggir stefnda sýknukröfu sína á því að hún hafi greitt uppgefna skuld sína í góðri trú. Þann 27. apríl hafi henni verið sent innheimtubréf frá lögfræðiinnheimtunni Kollektu ehf. sem hljóðaði upp á 764.241 kr. Stefnda hafi sannanlega verið grandlaus um meinta misritun Kollektu ehf. Innheimtubréf það sem ágreiningur aðila varði hafi verið sent skömmu eftir að samningaviðræður fóru fram á milli stefnanda og umboðsmanns stefndu um afslátt af greiðslu skuldar samkvæmt veðskuldabréfinu. Vegna þessa hafi stefnda verið í góðri trú um að upphæð innheimtubréfsins væri afrakstur þeirra samningaviðræðna, auk þess sem stefnda mátti treysta því að efni bréfs, sem sérstakt innheimtufyrirtæki sendir til skuldara, væri rétt og að almennt væri viðhöfð vandvirkni í vinnubrögðum slíkra fyrirtækja. Sé þessi afstaða réttmæt í ljósi þess að um sé að ræða fyrirtæki, sem sérhæfi sig í innheimtu.

          Stefnda hafi þegar gert ráðstafanir til samræmis við innheimtubréf sem hún fékk frá lögmanni Kollektu ehf. þann 27. apríl 2006 og verði hún því ekki krafin um frekari greiðslur til fullnustu skuldarinnar, sbr. 38. gr. nr. 7/1936.

          Um lagarök vísar stefnda m.a. til samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og 32. og 38. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Varðandi málskostnaðarkröfu stefndu er vísað til 129. - 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

          Niðurstaða

          Mál þetta varðar innheimtu kröfu samkvæmt skuldabréfi útgefnu 29. júní 1998.  Skuldabréfið var framselt stefnanda 4. ágúst 1998. Varnir stefndu í málinu eru byggðar á því að skuldin sé að fullu greidd samkvæmt fyrirliggjandi fullnaðarkvittun.

          Fyrir liggur samkvæmt gögnum máls að stefnandi fór fram á það 15. mars 2006 að skuldabréfið yrði gert upp og var uppgreiðsluverðmæti bréfsins tilgreint 1.492.303 kr. en eftirstöðvar nafnverðs voru 671.666 kr. Af hálfu stefnda var Þóri Erni Ólafssyni, viðskiptafræðingi falið að semja um uppgreiðslu bréfsins. Svo virðist sem tekist hafi munnlegt samkomulagi um verulega eftirgjöf á fjárhæð skuldabréfsins, en ekki kom til þess að gengið yrði frá uppgjöri og fól stefnandi Kollektu ehf. skuldabréfið til innheimtu. Þann 27. apríl 2006 barst innheimtubréf frá Kollektu ehf. þar sem heildarkrafan var tilgreind 764.241 kr. Stefnda hefur skýrt svo frá fyrir dómi að hún hafi talið að um væri að ræða þá fjárhæð sem samist hefði um sem lokagreiðslu. Þann 3. maí 2006 greiddi stefnda samkvæmt kröfu eftirstöðvar skuldabréfsins með 766.799 kr. á skrifstofu Kollektu ehf. Fékk stefnda kvittun um fullnaðargreiðslu vegna þessa. 

          Þann 11. maí 2006 barst stefndu bréf frá lögmanni Kollektu ehf. þar sem fram kemur að mistök hefðu átt sér stað við innslátt skuldabréfsins og að greiðsla sú sem stefnda innti af hendi þann 3. maí 2006 hafi ekki verið fullnaðargreiðsla. Sagði enn fremur í bréfinu að núverandi skuld samkvæmt skuldabréfinu væri 831.334 kr. Hefur þeirri kröfu verið mótmælt af hálfu stefndu.

          Ekki liggur fyrir í málinu sönnun þess að stefndu hafi verið eða mátt vera ljóst þegar hún fékk innheimtubréfið frá Kollektu ehf. og gekk í framhaldi af því frá greiðslu 3. maí 2006 að fjárhæð kröfunnar væri röng. Sjónarmið um óréttmæta auðgun eiga því ekki við. Stefnda fékk kvittun um fullnaðargreiðslu og mátti því vænta þess að gengið hefði verið frá fullnaðaruppgjöri vegna skuldabréfsins, sem  var í innheimtu hjá lögfræðingi í umboði stefnanda. Hefur ekki þýðingu í því sambandi þótt þeirri veðsetningu, sem tryggja átti skuldina með, hafi ekki verið aflýst. Þá leiða reglur um viðskiptabréf til þess að stefnda getur borið greiðslukvittun fyrir sig gagnvart stefnanda, sbr. 2. gr. tilskipunar frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf.

          Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu.

          Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

          Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð :

         Stefnda, Ragnheiður Guðnadóttur, skal vera sýkn af kröfum stefnanda,

Fjármagns ehf., í máli þessu.

         Málskostnaður fellur niður.