Hæstiréttur íslands

Mál nr. 263/2006


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Vátrygging
  • Sératkvæði


Þriðjudaginn 19

 

Þriðjudaginn 19. desember 2006.

Nr. 263/2006.

Vátryggingafélag Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Maríu Kristínu Steinsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

 

Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Vátrygging. Sératkvæði.

M hugðist færa bifreið sína stuttan spöl í bifreiðastæði utan við hús þar sem hún var í samkvæmi. Við það missti hún stjórn á bifreiðinni og slasaðist talsvert. M krafði V um greiðslu bóta á grundvelli umferðarlaga nr. 50/1987 vegna tjóns síns. Í 5. gr. skilmála V um slysatryggingu ökumanns og eiganda segir meðal annars að réttur til vátryggingabóta geti fallið niður samkvæmt lögum um vátryggingasamninga ef tjóninu er valdið af stórkostlegu gáleysi eða undir áhrifum áfengis. Fyrir Hæstarétti var lögð fram matsgerð dósents í eiturefnafræðum sem taldi líklegast að styrkur etanóls í blóði M á þeim tíma sem slysið varð, hefði verið á bilinu 1,33-1,52‰. Þó segir í matsgerðinni að ekki sé hægt að fullyrða að styrkurinn hafi verið svo hár. Það eina sem hægt sé að fullyrða er að styrkurinn hafi verið hærri en 1,03‰ á slysstundu. Með hliðsjón af matsgerðinni taldi Hæstiréttur sannað að M hefði verið undir verulegum áfengisáhrifum við aksturinn. Í ljósi atvika málsins taldi Hæstiréttur M sjálfa bera sönnunarbyrði fyrir því að ölvun hennar hefði verið minni en svo að V hefði verið heimilt að fella niður bætur til hennar á grundvelli fyrrgreindrar 5. gr. skilmála V. Var V því sýknaður af kröfu M.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. maí 2006. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að kröfur stefndu verði lækkaðar og málskostnaðar felldur niður á báðum dómstigum.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Áfrýjandi hefur lagt fram í Hæstarétti matsgerð Jakobs Kristinssonar dósents í eiturefnafræði 18. júní 2006, en matsmaðurinn var að beiðni áfrýjanda dómkvaddur í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. maí 2006 til að gefa rökstutt svar við því „hvert áfengismagn sé líklegt að hafi verið í blóði Maríu Kristínar Steinsson á ætlaðri slysstundu laust fyrir kl. 1:46 aðfararnótt 4. júní 2001.“ Í niðurstöðum matsgerðarinnar kemur fram, að sé reiknað með að frásogi etanóls úr meltingarvegi hafi að fullu verið lokið er óhappið varð sé líklegast að styrkur etanóls í blóði hafi verið á bilinu 1,33 – 1,52‰. Að teknu tilliti til vikmarka mæliaðferðarinnar (10%) hefði endanleg niðurstaða úr etanólmælingu á blóðsýni, sem tekið hefði verið á slysstundu, væntanlega legið á bilinu 1,20 – 1,37‰. Með hliðsjón af þeim möguleika að frásogi etanóls hafi ekki verið lokið er óhappið átti sér stað kunni tölur þessar að vera of háar. Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar segir svo: „Vegna óvissu um frásog etanóls verður matsspurningunni ekki svarað með beinum hætti. Eftirfarandi má þó taka fram um styrk etanóls í blóði á slysstundu. Allar tölur eiga við niðurstöður mælinga á blóðsýni teknu á slysstundu að teknu tilliti til vikmarka (10%). Fullvíst er að styrkur etanóls í blóði hefði mælst hærri en 1,03‰ hefði blóðsýnið verið tekið á slysstundu. Ekki er öruggt að hann hefði náð 1,20‰. Nánast er útilokað að niðurstaða mælinganna hefði getað orðið hærri en 1,37‰.“ Áfrýjandi gerir þá athugasemd við niðurstöðu matsmannsins að ekki séu efni til að reikna með 10% vikmörkum við úrlausn á sakarefni þessa máls, þó að venjulegt sé að gera það í málum sem snerta refsikröfur vegna ölvunaraksturs. Stefnda mótmælir á hinn bóginn forsendum og niðurstöðu matsgerðarinnar. Meðaltalsútreikningar matsmannsins geti ekki ráðið úrslitum í málinu, þar sem vitað sé að neysla áfengis hafi mismunandi og einstaklingsbundin áhrif á menn.  

Í 5. gr. skilmála áfrýjanda fyrir slysatryggingu ökumanns og eiganda er tekið fram að réttur til vátryggingabóta geti fallið niður samkvæmt lögum um vátryggingarsamninga, ef vátryggingartaki eða vátryggður vanrækja skyldur sínar við stjórn ökutækisins, til dæmis með því að aka án þess að hafa öðlast ökuréttindi eða valda tjóni af ásetningi, stórkostlegu gáleysi eða undir áhrifum áfengis, ávana- eða fíkniefna. Vísar áfrýjandi til þessa ákvæðis skilmálanna til stuðnings kröfu sinni og telur ákvæðið hafa beina stoð í 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga sem voru í gildi þegar stefnda varð fyrir slysinu.

Stefnda hefur mótmælt tilvísun áfrýjanda til laga um vátryggingasamninga og nefnds vátryggingarskilmála. Telur hún að um ágreiningsefni aðila gildi 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, þannig að því aðeins megi áfrýjandi fella niður bótarétt hennar, að hann sanni að hún hafi verið meðvöld að slysinu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Áfrýjanda hafi ekki tekist sönnun um að ölvunarstig hennar hafi verið með þeim hætti að þessi heimild eigi við og raunar ekki heldur að fallið geti undir heimildina til niðurfellingar bóta samkvæmt fyrrgreindum skilmála ökumannstryggingar áfrýjanda, verði hann talinn eiga við í málinu.

Fallist er á með áfrýjanda að um hina sérstöku tryggingu ökumanns og eiganda samkvæmt 92. gr. umferðarlaga eigi ekki við önnur ákvæði XIII. kafla laganna en þau sem beinlínis er vísað til í lagaákvæðinu. Ræðst úrlausn málsins þá af því, hvort áfrýjanda teljist samkvæmt umræddum vátryggingarskilmála, sbr. 20. gr. laga nr. 20/1954, hafa verið heimilt að synja stefndu um bætur úr tryggingunni.

Aðilar deila ekki um að stefnda hafði neytt áfengis skömmu áður en hún ók bifreið sinni með þeim afleiðingum sem málið greinir. Hins vegar deila þeir um hversu mikil þau áfengisáhrif voru. Stefnda hefur byggt á því að áfrýjandi þurfi að sanna að áfengisáhrif hennar hafi verið yfir því 1,20‰ marki sem greinir í 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga til þess að lagt verði til grundvallar dómi í málinu að hún hafi verið óhæf til að stjórna bifreiðinni og að honum sé heimilt að fella niður bætur til sín með vísan til skilmála vátryggingarinnar og 20. gr. laga nr. 20/1954. Áfrýjandi hefur fallist á að hann beri sönnunarbyrði um áfengisáhrif stefndu. Á hinn bóginn þurfi þau ekki að ná nefndu marki til þess að hann megi neyta heimildar skilmálanna og fella niður bætur til hennar. Telur hann nægilega sannað að slysið megi rekja til ölvunar stefndu og að ölvunin hafi verið svo mikil að undanþáguákvæði skilmálanna eigi við.

Eins og fram kemur í héraðsdómi varð áfrýjandi fyrir slysinu, þegar hún var að færa bifreið sína stuttan spöl í bifreiðastæði utan við húsið þar sem hún var í samkvæmi. Með hliðsjón af matsgerð hins dómkvadda manns verður að telja sannað að stefnda hafi verið undir verulegum áfengisáhrifum við aksturinn, þó að ekki sé sannað að þau hafi náð umræddu 1,20‰ marki. Eru ekki komnar fram aðrar skýringar en ölvun hennar á því að hún missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að bifreiðin skemmdist mikið og hún hlaut sjálf varanlega örorku. Ber hún, eins og atvikum málsins er háttað, sönnunarbyrði fyrir því að ölvun hennar hafi verið minni en svo að áfrýjanda hafi verið heimilt að fella niður bætur til hennar með vísan til 5. gr. fyrrgreindra skilmála. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefndu.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verður felldur niður.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað stefndu verða staðfest.

Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti skulu greiðast úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar sem ákveðst eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfu stefndu, Maríu Kristínar Steinsson.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað stefndu skal vera óraskað.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.

 

 

Sératkvæði

Hjördísar Hákonardóttur

Stefnda slasaðist aðfaranótt 4. júní 2001 er hún ók á grjótgarð. Hún var eigandi og ökumaður bifreiðarinnar og tryggð lögbundinni slysatryggingu hjá áfrýjanda samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt ófrávíkjanlegri reglu 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, sem voru í gildi þegar slysið varð, getur vátryggingafélag ekki undanskilið sig ábyrgð nema vátryggður hafi valdið tjóni með stórkostlegu gáleysi. Þó er heimilt að semja svo um að félag sé laust úr ábyrgð hafi tjónþoli valdið vátryggingaratburði í „ölæði, er honum verður sjálfum gefin sök á“. Við skýringu á þessu orðalagi hefur verið miðað við að maður sé „óhæfur til að stjórna ökutæki“ í skilningi 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og vísast nánar um þetta til hins áfrýjaða dóms.

Þegar lögregla kom á vettvang fannst áfengislykt af stefndu og var hún látin blása í S-D2 mæli sem „gaf til kynna að hún hafi neytt áfengis“. Öndunarsýni tekið með slíkum mæli gefur aðeins vísbendingu um ölvunarástand. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var stefnda handtekin kl. 01.55. Stefndu er lýst þannig að sjáöldur séu eðlileg, jafnvægi óstöðugt, framburður greinargóður og málfar skýrt. Í skýrslu varðstjóra er hún spurð hvort hún hafi drukkið og játar hún að hafa neytt áfengis frá kl. 23.00 til kl. 01.00. Bókað er að hún hafi lagt af stað kl. 01.50 og fundið til lítilla áfengisáhrifa við aksturinn. Hún hafi ekið frá Öldugötu, Ægisgötu og að bifreiðastæði við Túngötu, þar sem hún hafi lent á grjóthleðslu. Bókað er að yfirheyrslunni ljúki kl. 02.36. Í frumskýrslu lögreglu er skráð að hún sé síðan færð til blóðtöku á slysadeild Landspítala í Fossvogi og að blóðtöku lokinni hafi hún verið „frjáls ferða sinna um kl. 02:30 en varð eftir á slysadeild til frekari rannsókna á meiðslum.“ Á blóðtökuvottorð er skráð að blóðsýni sé tekið kl. 03.05. Samkvæmt framangreindu eru tímasetningar nokkuð á reiki.

Vegna óvissu um áfengismagn í blóði stefndu á slysstundu var, eftir uppkvaðningu dóms í héraði, dómkvaddur matsmaður. Niðurstaða matsins er rakin í atkvæði meirihluta dómenda. Hún var ekki fortakslaus. Sönnunarbyrðin hvílir á áfrýjanda um það, að stefnda hafi verið undir svo miklum áfengisáhrifum þegar tjónið varð, að félagið sé laust undan ábyrgð samkvæmt 5. gr. vátryggingarskilmála, sbr. 20. gr. laga nr. 20/1954. Hefur áfrýjanda ekki tekist sú sönnun með matsgerð þeirri sem hann aflaði.

Engin frekari rannsókn virðist hafa farið fram á tildrögum slyssins. Engin lýsing er í lögregluskýrslu á staðháttum og stefnda var hvorki yfirheyrð hjá lögreglu né fyrir dómi um atburðarásina á slysstað. Engar myndir eru af vettvangi eða uppdráttur. Ekkert sérstakt annað hefur komið fram í málinu sem bendir til stórkostlegs gáleysis stefndu, en hún unir þeirri sakarskiptingu sem dæmd var í héraði. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms tel ég rétt að staðfesta hann. Þá ber að dæma áfrýjanda til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2006.

Mál þetta höfðaði María Kristín Steinsson, kt. 210576-3049, Súluhólum 4, Reykjavík, með stefnu birtri 10. október 2005 á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.  Málið var dómtekið 21. febrúar sl. 

Stefnandi krefst greiðslu á 5.091.529 krónum með 4,5% ársvöxtum frá 4. júní 2001 til 18. apríl 2005, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en henni var veitt gjafsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins 1. nóvember 2005. 

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður. 

Aðfaranótt 4. júní 2001 var stefnandi stödd í húsi við Öldugötu.  Var kvartað við hana að bifreið hennar hefði verið lagt ranglega.  Hún hugðist þá færa bifreiðina á stæði við horn Túngötu og Ægisgötu.  Hún kveðst hafa misst stjórn á bifreiðinni á stæðinu með þeim afleiðingum að hún keyrði á grjóthleðslu sem þar var. 

Lögreglumenn komu á vettvang kl. 01.46.  Ekki verður nánar séð af gögnum málsins hvenær tilkynning barst lögreglu.  Í lögregluskýrslu segir að fundist hafi áfengislykt frá vitum stefnanda.  Hún hafi sagst hafa drukkið fyrr um kvöldið.  Tekið var öndunarpróf af stefnanda með svonefndum S-D2 mæli og er skráð niðurstaðan 1,4‰.  Fram kemur í skýrslu lögreglu að stefnandi hafi sagt að hún hefði fundið til lítils háttar áfengisáhrifa við aksturinn. 

Stefnandi var handtekin og flutt á lögreglustöð til skýrslutöku og síðan á slysadeild, þar sem tekið var blóðsýni.  Var sýnið tekið kl. 03.05.  Alkóhólmagn í blóði stefnanda reyndist vera 1,03‰. 

Stefnandi kveðst hafa skollið fram á stýrið og með andlitið í rúðuna við ákeyrsluna.  Hún hlaut samfallsbrot á TH:XI, tognaði í hálsi og bringubeinsbrotnaði.  Hún átti í nokkrum erfiðleikum vegna þessa og dvaldist á Reykjalundi snemma árs 2004, er hún lenti í öðru umferðarslysi. 

Stefnandi leitaði sjálf til matsmanna án dómkvaðningar og án samráðs við stefnda.  Niðurstöðum þeirra er þrátt fyrir það ekki mótmælt.  Álitsgerð þeirra Björns Daníelssonar, lögfræðings, og Stefáns Dalberg, bæklunarskurðlæknis, er dagsett 17. apríl 2005.  Voru samtímis metnar afleiðingar annars umferðarslyss er stefnandi varð fyrir á árinu 2004. 

Helstu niðurstöður varðandi það slys sem hér er dæmt um urðu þessar:

Tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga, 100% í eina viku eftir slys. 

Stöðugleikapunktur 4. júní 2002. 

Þjáningabætur samkvæmt 3. gr. laganna frá 4. júní 2001 til 4. júní 2002, þar af 1 sólarhringur með rúmlegu. 

Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. laganna 15%. 

Varanleg örorka samkvæmt 5. gr. laganna 15%. 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi telur að stefndi beri ábyrgð á umræddu tjóni samkvæmt ákvæðum XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987.  Samkvæmt 3. mgr. 45. gr. umfl. teljist ökumaður óhæfur til að stjórna ökutæki því aðeins að vínandamagn sé meira en 1,20 ‰.  Sé vínandamagn meira en 0,50 ‰ en minna en 1,20 ‰ teljist viðkomandi ekki geta stjórnað ökutæki örugglega.  Það feli ekki í sér stórkostlegt gáleysi samkvæmt ákvæðum laga nr. 20/1954.  Það liggi ekkert fyrir um að slysið verði rakið til ásetnings eða stórkostlegs gáleysis.  Alkóhólmagn í blóði hafi mælst 1,03 ‰.

Stefnandi telur að áfengisdrykkja sín hafi ekki verið höfuðorsök slyssins.  Þá vísar hún til danskrar dómaframkvæmdar þar sem hún segir að miðað sé við að áfengisáhrif geti verið höfuðorsök slysa ef áfengismagn mælist 1,60 ‰ eða meira. 

Stefnandi telur að miðað við útreikning á magni alkóhóls á þeim tíma er slysið varð gæti það hafa verið nálægt 1,20 ‰ er slysið varð.  Þetta séu grófir útreikningar og miðað við skekkjumörkin sé ekki hægt að fullyrða að meiri líkur en minni séu á því að áfengismagn í blóði stefnanda hafi verið meira en 1,20 ‰.  Kveðst hún byggja á því að ósannað sé að áfengismagn í blóði hennar hafi verið svo mikið. 

Stefnandi telur stefnda bera sönnunarbyrðina fyrir þeim atvikum sem leysi félagið undan bótaskyldu.  Stefndi þurfi því að sanna að slysinu hafi verið valdið í „ölæði” í skilningi 20. gr. laga nr. 20/1954 og að áfengisáhrifin hafi verið aðalorsök slyssins.  Framangreind alkóhólmæling staðfesti ekki að stefnandi hafi verið ofurölvi eða sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. 

Stefnandi segir að stefndi beri aukna sönnunarbyrði í þessu máli þar sem þvagprufa hafi ekki verið tekin. 

Þá telur stefnandi að einfalt gáleysi útiloki ekki bótarétt manns sem slasast í umferðarslysi.  Vísar hún hér til 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga.  Loks vísar hún til reglna í tilskipunum Evrópusambandsins um ökutækjatryggingar. 

Stefnukrafa er sundurliðuð í stefnu: 

Miskabætur                                     kr.  862.725
Bætur fyrir varanlega örorku               -  3.828.104
Annað fjártjón                              -     30.000
Þjáningabætur með rúmlegu                 -      3.500
Þjáningabætur 360 dagar                                                                      -    367.200

                Liðinn annað fjártjón segir stefnandi vera ýmsan kostnað sinn, svo sem komugjöld til lækna, bifreiða- og símakostnað og lyfjakaup.  Við munnlegan málflutning samþykkti lögmaður stefnanda athugasemd stefnda við fjárhæð bóta vegna varanlegrar örorku, svo sem síðar greinir. 

Stefnandi kveðst hafa sent stefnda kröfubréf 18. apríl 2005 og miðar því upphaf dráttarvaxta við 18. maí 2005.

Málsástæður og lagarök stefnda. 

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi fyrirgert bótarétti úr slysatryggingu ökumanns með því að aka bifreið sinni undir áhrifum áfengis.  Brot gegn 1. mgr. 45. gr. umferðarlaga hljóti alltaf að teljast stórkostlegt gáleysi. 

Stefndi vísar til 5. gr. skilmála tryggingarinnar sem eigi sér stoð í 18., sbr. 20. gr. laga nr. 20/1954, svo og 124. gr. 

Stefndi hafnar því að akstur þegar áfengismagn í blóði er 1,20‰ eða minna sé aðeins einfalt gáleysi. 

Stefndi segir að ölvun stefnanda hafi verið orsök slyssins.  Ekki komi neitt fram um utanaðkomandi atvik sem geti skýrt það að stefnandi missti stjórn á bifreiðinni. 

Stefndi vísar til aðferða til að meta hvert alkóhólmagn í blóði hafi verið á tilgreindum tíma áður en sýni það sem mælt er var tekið.  Er fullyrt í greinargerð að alkóhólmagn í blóði stefnanda hafi verið 1,21‰ þegar lögregla kom á staðinn kl. 01.46.  Þá hafi einhver tími verið liðinn frá slysinu.  Telur stefndi því sannað að áfengismagn í blóði stefnanda hafi verið meira en 1,20 þegar slysið varð og hún því óhæf til að stjórna ökutæki, sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. 

Stefndi mótmælir því að einhverju skipti þó þvagprufa hafi ekki verið tekin af stefnanda og að hann beri aukna sönnunarbyrði þess vegna. 

Þá segir stefndi að stefnandi hafi ekki skýrt hvernig tilskipanir Evrópusambandsins um ökutækjatryggingar skipti máli hér.  Í raun séu þær þessu sakarefni með öllu óviðkomandi. 

Varakrafa er annars vegar byggð á því að stefnukrafa sé of há miðað við matsgerð.  Krafa vegna varanlegrar örorku telur stefndi að nemi 3.494.422 krónum.  Stefnandi samþykkti þessa athugasemd og verður hún því ekki skýrð nánar.  Þá mótmælir stefndi kröfu um bætur fyrir annað fjártjón.  Engin gögn liggi kröfulið þessum til stuðnings.  Kröfu um þjáningabætur í einn dag með rúmlegu segir stefndi of háa, rétt krafa væri 1.930 krónur.  Aðrar athugasemdir við kröfugerðina komu ekki fram. 

Hins vegar telur stefndi að bætur skuli í það minnsta lækka samkvæmt 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga.  Vísar hann um þetta til rökstuðnings fyrir aðalkröfu. 

Loks mómælir stefndi því að vextir reiknist fyrr en frá dómsuppsögudegi, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. 

Forsendur og niðurstaða. 

Stefnandi krefur um bætur samkvæmt samningi um slysatryggingu.  Ekki er um annað deilt en hvort sú staðreynd að stefnandi var ölvuð er slysið varð leiði til þess að hún hafi fyrirgert bótarétti sínum að hluta eða öllu leyti, eða hvort greiddar skuli fullar bætur samkvæmt skilmálum tryggingarinnar.  Það er í 5. gr. skilmála stefnda fyrir slysatryggingu ökumanns sem fram kemur að réttur til bóta geti fallið niður ef tjóni er valdið af stórkostlegu gáleysi eða undir áhrifum áfengis.  Ákvæði þetta er í samræmi við 20. gr. laga nr. 20/1954. 

Dómaframkvæmd um afleiðingar ölvunar á rétt ökumanns til bóta úr slysatryggingu ökumanns hefur dregið mörkin við það að þegar sannað er að áfengismagn í blóði hefur náð 1,20‰ glatar sá bótarétti sínum.  Er hér tekið mið af 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga sem telur slíkan ökumann óhæfan til að aka bifreið.  Jafnframt er skilyrði að ölvun ökumanns teljist orsök slyssins. 

Samkvæmt gögnum málsins mældist alkóhólmagn í blóði stefnanda 1,03‰, í blóðsýni sem tekið var kl. 03.05.  Slysið varð einhvern tímann fyrir kl. 01.46, er lögregla kom á vettvang. 

Stefndi telur að með því að reikna hversu langt var um liðið frá því að slysið varð og þar til tekið var blóðsýnið sem mælt var sé hægt að slá því föstu að áfengismagn í blóði hennar hafi verið meira en 1,20‰ þegar slysið varð.  Því hafi hún verið óhæf til að aka bifreið og hafi því fyrirgert rétti sínum til bóta úr slysatryggingu ökumanns.  Stefndi vísar til dómafordæma og rits fræðimanns á sviði lögfræði sem er aðgengilegt, en hefur ekki fengið dómkvadda matsmenn til að láta í ljós álit sitt á því hvert áfengismagn í blóði stefnanda kunni að hafa verið. 

Nú er ekki upplýst hvenær slysið varð nákvæmlega.  Gögn málsins greina ekki hvenær tilkynning barst til lögreglu.  Að svo vöxnu er ekki unnt að leggja til grundvallar að meira en ein og hálf klukkustund hafi liðið frá slysinu og þar til blóðsýni var tekið, þ.e. að ellefu mínútur hafi liðið frá slysinu og þar til lögregla kom á staðinn.  Stefndi vísar til útreikningsformúlu sem lýst er í riti Preben Lyngsø, Dansk Forsikringsret, 7. útgáfu.  Samkvæmt þeirri formúlu ætti alkóhólmagn í blóði stefnanda einum og hálfum tíma fyrr að hafa verið 1,25‰.  Í ritinu eru hins vegar slegnir ákveðnir varnaglar við formúlunni.  Þannig minnki áfengismagn ekki fyrr en nokkur tími er liðinn frá því að drykkju var hætt.  Yfirleitt byrji brennsla ekki síðar en einni klukkustund eftir að drykkju var hætt.  Þá verði að miða við það tímamark er síðast var innbyrt áfengi.  Þá sé brennsluhraðinn óviss.  Í formúlunni sé reiknað með 0,15‰ á klukkustund, en það sé einstaklingsbundið.  M.a. segir að almennt brenni alkóhólmagn hægar úr blóði kvenna en karla.  Þá skipti margt annað máli í þessu sambandi. 

Tilgreining á áfengismagni í útöndun stefnanda umrætt sinn er í ‰.  Áfengismagn í öndunarsýnum er venjulega gefið í annarri einingu, milligrömmum í lítra lofts, sbr. 45. gr. umferðarlaga.  Er því ekki unnt að byggja neitt á þessu atriði. 

Þessir útreikningar stefnda veita nokkrar líkur fyrir því að stefnandi hafi verið óhæf til að aka þegar slysið varð.  Í forsendum þeirra eru þó of margir óvissuþættir, en um suma þeirra hefði mátt fá fyllri upplýsingar við eðlilega sönnunarfærslu fyrir dóminum, svo sem með áskorun til stefnanda um að gangast undir mælingar hjá dómkvöddum matsmönnum.  Þegar litið er til þessa er ekki líklegra en hitt að áfengismagn í blóði stefnanda hafi verið 1,20‰ eða meira er slysið varð.  Þar sem sönnunarbyrðin um að stefnandi hafi verið óhæf til að aka bifreið hvílir á stefnda verður það talið ósannað. 

Ekkert er fram komið um orsakir slyssins.  Verður ekki dregin önnur ályktun en sú að ölvun stefnanda hafi verið meginorsök.  Stefnandi var talsvert ölvuð og bersýnilega nálægt því að teljast með öllu óhæf til að aka.  Þó hún hafi ekki ekið ýkja langa leið verður ekki hjá því komist að telja að hún hafi valdið slysinu af stórfelldu gáleysi og ber því að lækka bætur til hennar, sbr. 5. gr. skilmálanna.  Skulu bætur lækkaðar um 1/3 hluta. 

Tjón stefnanda sundurliðast svo samkvæmt málflutningsyfirlýsingum aðila: 

Miskabætur                                     kr.  862.725
Bætur fyrir varanlega örorku               -  3.494.422
Annað fjártjón                              -     30.000
Þjáningabætur með rúmlegu                 -      1.930
Þjáningabætur 360 dagar                                                                      -    367.200

Kröfuliðurinn annað fjártjón er vegna ýmissa útgjalda sem auðveldlega hefði mátt staðfesta með kvittunum eða öðrum gögnum.  Er í samræmi við dómafordæmi rétt að hafna þessum lið.  Heildartjón stefnanda er samkvæmt því talið nema 4.726.277 krónum.  Verður stefndi dæmdur til að greiða 2/3 af því, eða 3.150.851 krónu.  Vextir verða dæmdir í samræmi við kröfugerð stefnanda, sbr. IV. kafla laga nr. 38/2001. 

Stefnandi hefur gjafsókn og verður málflutningsþóknun ákveðin 500.000 krónur auk virðisaukaskatts, 122.500 króna.  Þá nemur útlagður kostnaður 174.960 krónum. 

Stefndi verður dæmdur til að greiða 500.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Maríu Kristínu Steinsson, 3.150.851 krónu með 4,5% ársvöxtum frá 4. júní 2001 til 18. apríl 2005, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. 

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 797.460 krónur, greiðist úr ríkissjóði. 

Stefndi greiði 500.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.