Hæstiréttur íslands
Mál nr. 136/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Dómari
- Vanhæfi
|
|
Mánudaginn 11. apríl 2005. |
|
Nr. 136/2005. |
Jakob A. Traustason(sjálfur) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Kærumál. Dómarar. Vanhæfi.
Héraðsdómari var ekki vanhæfur fyrir það eitt að hann hafði áður vísað frá dómi máli stefnanda á hendur stefnda sem átti rætur að rekja til sömu atvika og síðara málið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 23. mars 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. apríl sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dómari viki sæti vegna vanhæfis. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Sóknaraðili krefst þess, að héraðsdómara verði gert að víkja sæti í málinu og varnaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og kærumálskostnaður felldur niður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2005.
Stefnandi höfðaði mál það sem hann vísar til, nr. E-5263/2003, með stefnu birtri 14. apríl 2003. Því máli var vísað frá dómi með úrskurði undirritaðs dómara 19. apríl 2004. Sá úrskurður var staðfestur með dómi Hæstaréttar, með vísan til forsendna héraðsdóms 10. júní 2004.
Kveður stefnandi þetta mál, sem hér er til umfjöllunar, vera um sama sakarefni og fyrra málið og byggt að meginstefnu til á sömu málsástæðum. Vanhæfi dómarans felist í því að hann hafi þegar tekið afstöðu um það sakarefni sem hér er til umfjöllunar með fyrri úrskurði.
Dómari telur engin efni til þess að víkja sæti í máli þessu á þeim forsendum sem stefnandi gerir kröfu um, enda telur hann að framangreindur dómur Hæstaréttar staðfesti að beitt hafi verið málefnalegum rökum við niðurstöðu úrskurðar í máli nr. E-5263/2003.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Kröfu stefnanda um að dómari víki sæti vegna vanhæfis er hafnað.