Hæstiréttur íslands

Mál nr. 127/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Skuldabréf
  • Gjaldfelling


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. mars 2006.

Nr. 127/2006.

Dánarbú Vigdísar Baldvinsdóttur

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

Sigurdís Benónýsdóttur

(Ásgeir Jónsson hdl.)

 

Kærumál. Skuldabréf. Gjaldfelling.

Talið var að vanskil á greiðslu afborgana af skuldabréfi hafi ekki verið slík, eins og atvikum var háttað, að heimilt hafi verið að gjaldfella bréfið. Var fjárnám, sem gert hafði verið hjá sjálfskuldarábyrgðarmanni að bréfinu, því fellt úr gildi. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 27. febrúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2006, þar sem  ógilt var aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík, sem fram fór hjá varnaraðila 7. júlí 2005 að kröfu sóknaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og hafnað verði kröfu varnaraðila um ógildingu aðfarargerðarinnar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málsatvik eru reifuð í héraðsdómi. Varnaraðili er ábyrgðarmaður á skuldabréfi með stöðluðu gjaldfellingarákvæði. Þegar dánarbúið greip til gjaldfellingar bréfsins var það í skilum að öðru leyti en því að dráttarvextir, sem til féllu vegna þess að skuldari bréfsins hafði ekki greitt afborgun á réttum gjalddaga, voru ógreiddir. Langt var liðið frá því að eigandi bréfsins hafði sjálfur tekið við greiðslu afborgunarinnar úr hendi skuldarans án þess að athugasemd hefði verið send um frekari greiðslu. Þá verður að hafa í huga að gögn málsins bera með sér að greiðslur fyrri afborgana af umræddu skuldabréfi höfðu í öllum tilvikum dregist nokkra mánuði fram yfir réttan gjalddaga, að því er virðist án athugasemda af hálfu kröfuhafa og leiddi sá greiðsludráttur ekki til gjaldfellingar skuldabréfsins. Ennfremur liggur fyrir að vanskil á greiðslu dráttarvaxta, sem leiddu til gjaldfellingar skuldabréfsins, námu aðeins litlum hluta eftirstöðva skuldarinnar. Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki talið að heimilt hafi verið eins og hér stóð á að gjaldfella skuldabréfið og verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað, svo sem nánar greinir í dómsorði.

                                                Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, dánarbú Vigdísar Baldvinsdóttur, greiði varnaraðila, Sigurdís Benónýsdóttur, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2006.

Í máli þessu krefst sóknaraðili, Sigurdís Benónýsdóttir, kt. 290272-4599, Hring­braut 106, Reykjanesbæ, þess að aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2005-07812, sem fram fór hjá henni þann 7. júlí 2005 að kröfu varnaraðila, dánarbús Vigdísar Baldvinsdóttur, kt. 260638-4919, verði ógilt. Þá er krafist málskostnaðar.

Varnaraðili, krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík, þann 7. júlí 2005, um að fjárnám skuli fara fram í eignum sóknaraðila til tryggingar kröfu varnaraðila. Þá er krafist málskostnaðar.

I

Mál þetta varðar gildi fjárnáms sem gert var til tryggingar skuld samkvæmt skulda­bréfi útgefnu af Benóný Péturssyni, sem er faðir sóknaraðila, Sigurdísar Benónýs­dóttur, til Vigdísar Baldvinsdóttur, með sjálfskuldarábyrgð sóknaraðila og móður hennar, Esterar Axelsdóttur. Skuldabréfið er upphaflega að fjárhæð kr. 5.249.000 bundið vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 200,1. Bréfið sem er vaxta­laust skal greiðast með 7 afborgunum á 12 mánaða fresti og var fyrsta afborgun 15.08.2001.

Í skuldabréfinu er svofellt gjaldfellingarákvæði: Standi skuldari ekki í skilum með greiðslu afborgana og/eða vaxta eða vísitöluálags; verði gert árangurslaust fjárnám hjá skuldara eða ábyrgðarmanni að skuld þessari, eins eða fleiri, eða leiti þeir nauðasamninga, þá er skuldin öll í gjalddaga fallin án uppsagnar eða tilkynningar.

Vigdís Baldvinsdóttir fól Sparisjóðnum í Keflavík innheimtu bréfsins. Útgefandi bréfsins, Benoný Pétursson, greiddi þrjár fyrstu afborganirnar af bréfinu þannig: 1. afb. þann 14.12.2001, 2. afb. þann 15.12.2002 og 3. afb. þann 16.02.2004.

Sóknaraðili heldur því fram að Vigdís hafi haft fullan skilning á drætti á greiðslu afborgana og að hún hafi aldrei gert athugasemdir við dráttinn eða nefnt gjaldfellingu skuldabréfsins. Heldur sóknaraðili því fram að atvik er varða tilurð bréfsins skýri m.a. þá afstöðu hennar.

Vigdís tók skuldabréfið úr innheimtu hjá Sparisjóði Keflavíkur þann 4. nóvember 2004 en þá var ógreidd 4. afborgun með gjalddaga 15. ágúst 2004. Kveður sóknaraðili Vigdísi hafa tekið skuldabréfið úr innheimtu í samráði við Benoný sem hafi sótt hana til Hafnarfjarðar og farið með henni í Sparisjóðinn í Keflavík umræddan dag. Hafi hann við það tækifæri greitt Vigdísi kr. 880.013 með peningum en um sé að ræða nákvæmlega sömu fjárhæð og tilgreind sé á greiðsluseðli til greiðslu á gjalddaga þann 15. ágúst 2004. Hafi Vigdís samdægurs gefið út kvittun til staðfestingar greiðslunni sem sé dagsett 5. nóvember 2004. Sóknaraðili heldur því fram að Vigdísi hafi gefið Benoný eftir áfallna dráttarvexti frá gjalddaga 15. ágúst 2004 til greiðsludags. Þá heldur sóknaraðili því fram að Benoný og Vigdís hafi rætt um það að Vigdís fæli annarri bankastofnun innheimtu skuldabréfsins.

Í greiðslukvittuninni, sem er handrituð af Benoný, segir: Það vottast hér með að ég hef fengið greitt 880.013 kr. upp í skuldabréf sem var í innheimtu hjá Sparisjóði Keflavíkur. Undir kvittunina ritar Vigdís Baldvinsdóttir.

Vigdís lést þann 18. nóvember 2004 og fól dánarbú hennar Mörkinni Lögmannsstofu hf. að innheimta skuldabréfið.

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að þegar í ljós hafi komið að aðalskuldari bréfsins, Benoný, hafði fengið á sig árangurslaus fjárnám þann 24. mars 2003, 24. júní 2003 og 30. mars 2004 og þar sem að efni skuldabréfsins hafði þegar verið vanefnt verulega þann 15. ágúst 2004 hafi verið ákveðið að nýta fortakslausa gjaldfellingarheimild í 3. tölulið skuldabréfsins, þar sem segi að: standi skuldari ekki í skilum með greiðslu afborgana og/eða vaxta eða vísitöluálgas; …, þá sé öll skuldin fallin í gjalddaga.  Þessi ákvörðun hafi einnig verið tekin með hagsmuni varnaraðila að leiðarljósi en skýr ákvæði séu um það í lögum að einkaskipti á dánarbúum skuli vera lokið innan árs frá andláti arflátans. Hafi varnaraðili því viljað neyta allra úrræða til að tryggja greiðslu kröfunnar sem best með tiltækum innheimtuúrræðum.

Greiðsluáskorun dags. 22. mars 2005 var birt sóknaraðila sama dag. Þar kemur fram að skuldabréfið sé í vanskilum frá 15.08.2004. Gjaldfelldur höfuðstóll skuldarinnar er sagður vera kr. 3.469.754. Samtals er skuldin sögð vera kr. 3.958.651 með dráttarvöxtum og kostnaði að frádreginni innborgun kr. 880.013. Skorað er á sóknaraðila að greiða skuldina innan 15 daga ella verði krafist aðfarar.

Með bréfi lögmanns dagsettu 13. apríl 2005 var gjaldfellingu skuldabréfsins mótmælt fyrir hönd Benonýs Péturssonar með vísan til þess að hann hefði þann 5. nóvember 2004 greitt kr. 880.013 vegna gjalddaga 15.08.2004 en Vigdís heitin hefði gefið eftir vexti.

Með bréfi lögmanns varnaraðila dagsettu 19. apríl 2005 var mótmælunum vísað á bug og því lýst yfir að innheimtu yrði haldið áfram.

Með greiðsluáskorun dags. 19. apríl 2005 var enn skorað á sóknaraðila að greiða innan 15 daga ella yrði krafist aðfarar fyrir skuldinni að fjárhæð samtals kr. 3.219.643.

Með aðfararbeiðni dags. 30. maí 2005 krafðist varnaraðili þess að fjárnám yrði gert hjá sóknaraðila fyrir skuld samkvæmt skuldabréfinu að fjárhæð kr. 3.321.086. Við fyrirtöku aðfararbeiðninnar þann 5. júlí 2005 mótmælti sóknaraðili kröfu um fjárnám og lagði fram gögn sem hún kvað sýna að afborgun hafi verið greidd og því hafi ekki verið heimilt að gjaldfella bréfið. Með samkomulagi aðila var málinu frestað til 7. sama mánaðar. Við fyrirtöku málsins þann dag hafnaði sýslumaður framkomnum mótmælum sóknaraðila og ákvað að gerðinni yrði fram haldið. Var fjárnám gert í réttindum sóknaraðila til greiðslu að fjárhæð kr. 113.500 skv. kaupsamningi um fasteignina Engjasel 84, Reykjavík, en sóknaraðili hafði selt 50% eignarhluta sinn í eigninni með kaupsamningi þann 23. júní 2005. Þar sem ekki var bent á frekari eignir var fjárnáminu lokið án árangurs að hluta.

Þann 22. júlí 2005 barst varnaraðila greiðsla að fjárhæð kr. 948.447. Kveður sóknaraðili greiðsluna vera fyrirframgreiðslu Benonýs á 5. afborgun af skuldabréfinu pr. 15.08.2005, þ.e. kr. 909.497, og með fyrirvara reiknaða dráttarvexti af afborgun pr. 15.08.2004 til 5.11.2004, kr. 34.189, auk dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 22.07.2005, eða kr. 4.761, samtals kr. 948.447.

II

Sóknaraðili byggir á að varnaraðili hafi sömu stöðu og Vigdís heitin Baldvinsdóttir hvað varðar umrætt skuldabréf og hafi því ekki stöðu grandlauss framsalshafa. Varnaraðili sé því bundinn af ráðstöfunum og loforðum Vigdísar heitinnar. Vigdís hafi þann 5. nóvember 2004 gefið eftir dráttarvexti af afborguninni 15. ágúst 2004. Það að Vigdís hafi tekið við greiðslu að fjárhæð kr. 880.013 þann 5. nóvember 2004 styðji það, en upphæðin svari nákvæmlega til fjárhæðar afborgunar þann 15. ágúst 2004, kr. 879.142, að viðbættum innheimtukostnaði að fjárhæð kr. 350 og innheimtuþóknun kr. 520. Vigdís heitin hafi ritað undir kvittun sem sé rituð með hendi Benoný, útgefanda skuldabréfsins, þar sem segi að Vigdís hafi fengið greiddar kr. 880.013 upp í skuldabréfið. Á það beri að líta að Vigdís heitin og Benoný séu ekki löglærð og leikmenn tali oft um afborgun sem innborgun á skuldabréf. Á kvittuninni sé enginn fyrirvari þess efnis að Vigdís áskilji sér greiðslu á dráttarvöxtum og sjálft skuldabréfið beri ekki með sér að hún hafi ætlað að gera kröfu um greiðslu þeirra. Vigdís hafi ekki tekið skuldabréfið úr innheimtu í Sparisjóðnum í Keflavík í því skyni að gjaldfella það og innheimta það þannig. Hefði það verið ætlunin hefði hún ekki tekið við greiðslu á uppreiknaðri afborgun með vísitöluálagi í beinu framhaldi af því að hún tók bréfið úr innheimtu. Þá sé á það að líta að Benoný hafi sótt Vigdísi til Hafnarfjarðar þar sem að þau höfðu komið sér saman um að Vigdís fæli annarri bankastofnun innheimtu bréfsins.

Afborgun af bréfinu með vísitöluálagi vegna gjalddaga 15. ágúst 2004 hafi verið greidd af útgefanda skuldabréfsins með kr. 880.013. Því séu ekki skilyrði til gjaldfellingar bréfsins þó áfallnir dráttarvextir væru ekki greiddir en engin heimild sé fyrir því í ákvæðum skuldabréfsins. Gjaldfellingu, sem sé verulega íþyngjandi vanefndaúrræði, verði ekki beitt ef minnsti vafi leiki á heimild til hennar.

Þá sé það almenn regla í kröfurétti að þrátt fyrir fortakslaus gjaldfellingarákvæði í skuldabréfum verði ekki byggt á slíku ákvæði ef um óverulega hagsmuni sé að ræða. Dráttarvextir sem eftir hafi verið gefnir þann 5. nóvember 2004 hafi einungis numið kr. 34.189. Á því sé byggt að hagsmunir sóknaraðila og annarra sem ábyrgð beri á greiðslum samkvæmt skuldabréfinu séu miklu ríkari, varðandi það að skuldabréfið sé ekki gjaldfellt, heldur en sóknaraðila af gjaldfellingu þess. En eftirstöðvar skuldabréfsins miðað við 15. ágúst 2005 nemi kr. 1.818.993.

Dráttur útgefanda skuldabréfsins á afborgun 15. ágúst 2004 geti ekki verið grundvöllur gjaldfellingar bréfsins. Vigdís heitin hafi látið það átölulaust þó útgefandi bréfsins drægi nokkuð greiðslu fyrri afborgana og leiði það til þess að greiðsludrátturinn vegna afborgunarinnar 15. ágúst 2004 heimili ekki sjálfkrafa gjaldfellingu allrar skuldarinnar skv. skuldabréfinu. Að auki hafi hún tekið við greiðslu vegna afborgunar 15. ágúst 2004 og ekki viljað vanskilavexti. 

III

Varnaraðili byggir á að skýr heimild hafi verið í skuldabréfinu til að fella það í gjalddaga yrði skuldin ekki greidd í samræmi við greiðsluskilmála þess. Aðalskuldari bréfsins hafi vanefnt skyldu sína um greiðslu á gjalddaga og því hafi verið heimilt að gjaldfella eftirstöðvar bréfsins á þeim tíma sem það var gert.

Einnig sé ljóst að vanefndin hafi haldið áfram þegar hann greiddi þann 5. nóvember 2005 kr. 880.013 án þess að greiða dráttarvexti af skuldinni. Í 3. tölulið skuldabréfsins komi skýrt fram að “standi skuldari ekki í skilum með greiðslu afborgana og/eða vaxta eða vísitöluálags”, þá sé öll skuldin fallin í gjalddaga. Ljóst sé að með orðinu ”vextir” sé einnig átt við vanskil á greiðslu dráttarvaxta. Þá komi einnig fram í sama tölulið að heimilt sé að reikna dráttarvexti af skuldinni frá því hún fellur fyrst í gjalddaga. Varnaraðila hafi því af þessum sökum einum verið heimilt að gjaldfella skuldabréfið.

Fullyrðing sóknaraðila um að Vigdís heitin hafi gefið eftir kröfu um greiðslu dráttarvaxta af gjaldfallinni afborgun á bréfinu miðað við 15. ágúst 2005 sé með öllu ósönnuð og harðlega mótmælt. Á kvittuninni sé talað um greiðslu “upp í skuldabréf …” sem beri með sér, skv. orðanna hljóðan, að skilja svo að um innborgun en ekki afborgun hafi verið að ræða. Aðalskuldari bréfsins, Benoný, hafi sjálfur ritað efni kvittunarinnar og beri sóknaraðili því allan halla af óskýrleika hennar. Ljóst sé að kvittunin beri ekki með sér að Vigdís heitin hafi ætlað að gefa eftir dráttarvexti.

Varnaraðili mótmælir því að ekki verði byggt á fortakslausu gjaldfellingarákvæði í skuldabréfi ef um óverulega hagsmuni sé að ræða. Meginmarkmið viðskiptabréfareglna sem gildi um skuldabréf sé að eigandi þess eigi þann rétt sem bréfið beri með sér. Allar meginreglur um viðskiptabréf beri líka með sér að fara beri eftir orðanna hljóðan. Í máli þessu sé ljóst að greiðsludrátturinn var verulegur og að varnaraðili hafi orðið fyrir tjóni af vanefndinni. Þá sé ljóst að aðalskuldari og sjálfskuldaraðili á skuldabréfinu hafi hvorki getu né vilja til að standa í skilum.

Varnaraðili hafi verulega hagsmuni af því að fortakslaust ákvæði skuldabréfsins gildi eftir orðanna hljóðan þeirra. Leyfi varnaraðila til einkaskipta gildi aðeins í eitt ár frá andláti Vigdísar og því mikilvægt að ljúka skiptunum. Þá sé ljóst að aðalskuldarinn, Benoný, sé ógreiðslufær. Þegar innborgunin hafi borist þann 5. nóvember 2004 hafi verið liðnir 82 dagar frá gjalddaga skuldabréfsins. Greiðsla á dráttarvöxtum sem þá hafi borið að greiða hafi ekki borist fyrr en 22. júlí 2005 en greiðsluáskorun hafi verið birt fyrir sóknaraðila þann 22. apríl þ.á. Þá sé ljóst að greiðslan 22. júlí 2005 nægði ekki til að koma afborguninni sem fara átti fram 15. ágúst 2004 í skil þar sem dráttarvextir hafi einungis verið greiddir til 15. júlí 2005. Ljóst sé að vanefnd á greiðslu afborgunar þann 15. ágúst 2004 var veruleg og heimilt samkvæmt skýru orðalagi skuldabréfsins að fella alla skuld þess í gjalddaga.

Varnaraðili vísar á bug öllum fullyrðingum sóknaraðila um að Vigdís heitin hafi látið það átölulaust að útgefandi bréfsins drægi nokkuð greiðslu fyrri afborgana og að hún hafi ekki viljað vanskilavexti.

IV

Skuldabréf það sem mál þetta er risið út af er með 5 árlegum gjalddögum og skyldi fyrsta afborgun greiðast 15. ágúst 2001. Fyrir liggur að verulegur dráttur varð á greiðslu fyrstu þriggja afborgananna þ.e. þær voru greiddar þannig: 1. afb. þann 14.12.2001, 2. afb. þann 15.12.2002 og 3. afb. þann 16.02.2004.  Ljóst er því að Vigdís heitin sem var eigandi bréfsins hefur látið viðgangast verulegan drátt á greiðslu afborgana af skuldabréfinu án þess að grípa til gjaldfellingar þess.

Samkvæmt greiðsluseðli frá Sparisjóði Keflavíkur skyldi á gjalddaga 4. afborgunar 15. ágúst 2004 greiða af skuldabréfinu samtals kr. 880.013. Fyrir liggur að Vigdís heitin tók skuldabréfið úr innheimtu hjá Sparisjóðnum í Keflavík þann 4. nóvember 2004 og að aðalskuldari bréfsins, Benoný, greiddi henni kr. 880.013 eða sömu upphæð og honum hafði borið að greiða á gjalddaga. Fyrir greiðslunni fékk Benoný kvittun dags. 5. sama mánaðar, sem hann útbjó sjálfur, þar sem fram kemur að hann hafi greitt umrædda fjárhæð upp í skuldabréfið. Vigdís lést hinn 18. nóvember 2004 og tók varnaraðili, dánarbú hennar, þá við öllum fjárhagslegum réttindum hennar.

Með greiðsluáskorun dags. 22. mars 2005 var sóknaraðila tilkynnt um gjaldfellingu skuldabréfsins vegna vanskila frá 15. ágúst 2004.

Eins og að framan er rakið varð verulegur dráttur á greiðslu fyrstu þriggja afborgana skuldabréfsins eða frá fjórum mánuðum og upp í hálft ár. Ekki liggur annað fyrir en að sá mikli greiðsludráttur hafi verið látinn viðgangast athugasemdalaust af Vigdísi heitinni og ekkert liggur fyrir um að hún hafi krafið skuldara um úrbætur. Þá liggur ekki annað fyrir en að hún hafi athugasemdalaust tekið við greiðslunni 5. nóvember 2004. Getur varnaraðili ekki byggt gjaldfellingu skuldabréfsins á greiðsludrættinum einum og sér, sem var til muna skemmri en áður hafði viðgengist, og ekki liggur annað fyrir en að Vigdís heitin hafi sætt sig við.

Kvittun sú sem Benoný fékk fyrir greiðslunni 5. nóvember 2004 frá Vigdísi heitinni var útbúin af honum sjálfum og er ekki með hefðbundnu sniði. Kvittunin er óskýr þar sem hún kveður einungis á um að greiðslan, sem er ósundurliðuð, sé upp í skuldabréf. Greinir aðila á um hvernig skilja beri það orðalag þ.e. hvort átt sé við að greiðslan hafi verið innborgun eins og varnaraðili heldur fram eða fullnaðargreiðsla eins og sóknaraðili heldur fram. Aðila greinir ekki á um að greiðslan hafi verið greiðsla á afborgun af skuldabréfinu að viðbættum kostnaði, heldur lítur ágreiningur þeirra að því hvort Benoný hafi bori að greiða dráttarvexti af afborguninni frá gjalddaga til greiðsludags.

Sóknaraðili heldur því fram að Vigdís heitin hafi gefið Benoný eftir dráttarvexti frá gjalddaga afborgunarinnar til greiðsludags og að greiðslan þann 5. nóvember 2004 hafi því verið fullnaðargreiðsla. Varnaraðili heldur því hins vegar fram að um innborgun hafi verið að ræða, sbr. orðalag kvittunarinnar og að skuldin hafi því ekki komist í skil með greiðslunni 5. nóvember 2004.

Vegna þessa ágreinings aðila gerði sóknaraðili kröfu um að Benoný Pétursson gæfi skýrslu fyrir dóminum um samskipti sín og Vigdísar heitinnar en á það var ekki fallist sbr. dómur Hæstaréttar í málinu nr. 521/2005. Byggðist sú niðurstaða á því að hann gæti ekki talist hafa stöðu aðila í málinu og að ekki hefði verið sýnt fram á neitt sem réttlætt gæti að vikið yrði frá þeirri meginreglu, sem fram kemur í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 94. gr. sömu laga, að vitnaleiðslur skuli að jafnaði ekki fara fram í málum sem rekin séu eftir 15. kafla laganna.

Vegna þeirra takmarkana sem eru á sönnunarfærslu í málinu verður ekki leyst úr því hvort Vigdís heitin hafi gefið eftir dráttarvexti af skuldinni eins og sóknaraðili heldur fram. Það er hins vegar álit dómsins að ágreiningur um það hafi ekki áhrif á niðurstöðu málsins þar sem skýra beri gjaldfellingarákvæði skuldabréfsins þröngt og þannig að vanskil á greiðslu dráttarvaxta einna og sér heimili ekki fyrirvaralausa gjaldfellingu þess. 

Það er því niðurstaða dómsins að varnaraðila hafi ekki verið heimilt að gjaldfella téð skuldabréf.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki hjá því komist að ógilda hinu kærðu aðfarargerð.

Samkvæmt niðurstöðu málsins er varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila 300.000 krónur í málskostnað.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

 Ógilt er aðfarargerð nr. 011-2005-07812, sem fram fór hjá sóknaraðila, Sigurdísi Benónýsdóttur, þann 7. júlí 2005, að kröfu varnaraðila, dánarbús Vigdísar Baldvinsdóttur.

Varnaraðili greiði sóknaraðila kr. 300.000 í málskostnað.