Hæstiréttur íslands
Mál nr. 651/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Niðurfelling máls
- Málskostnaður
|
|
Miðvikudaginn 16. janúar 2008. |
|
Nr. 651/2007. |
Vorland ehf. (Óskar Sigurðsson hrl. gegn Sigurjóni O. Sigurðssyni Önnu Sigrúnu Guðmundsdóttur Vilhjálmi H. Guðmundssyni Hugrúnu Guðmundsdóttur Jóni Vilbergi Karlssyni og Finnboga Jóhanni Jónssyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Niðurfelling máls. Málskostnaður.
V, sem kært hafði úrskurð héraðsdóms um heimild til þinglýsingar stefnu, afturkallaði kæru sínu. Var málið því fellt niður og S, A, V, H, J og F dæmdur kærumálskostnaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. desember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. desember 2007, þar sem varnaraðilum var heimilað að fá þinglýst á nánar tilteknar fasteignir stefnu í máli sínu á hendur sóknaraðila og Kró ehf. Með bréfi til Hæstaréttar 19. sama mánaðar lýsti sóknaraðili því yfir að hann afturkalli kæru sína og gerir hann því ekki lengur kröfur í málinu hér fyrir dómi.
Varnaraðilar krefjast kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 150. gr. og 166. gr. laganna með áorðnum breytingum, er málið fellt niður fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Mál þetta er fellt niður.
Sóknaraðili, Vorland ehf., greiði varnaraðilum, Sigurjóni O. Sigurðssyni, Önnu Sigrúnu Guðmundsdóttur, Vilhjálmi H. Guðmundssyni, Hugrúnu Guðmundsdóttur, Jóni Vilbergi Karlssyni og Finnboga Jóhanni Jónssyni, samtals 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. desember 2007.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 14. nóvember sl. um þá kröfu stefnenda að kveðinn verði upp úrskurður um að þinglýsa megi stefnu í málinu á eftirfarandi jarðir í Rangárþingi ytra: Háfshjáleigu land 1, fasteignanr. 207-724, Háfshjáleigu land 2, fasteignanr. 207-725, Háfshjáleigu land 3, fasteignanr. 207-726, Háfshjáleigu land 4, fasteignanr. 207-727 og Háfshjáleigu land 5, fasteignanr. 207-728. Til vara krefjast stefnendur þess að þinglýsa megi stefnu í málinu á jörðina Háfshjáleigu land 5, fasteignanr. 207-728, í Rangárþingi ytra. Þá er krafist málskostnaðar fyrir þennan þátt málsins.
Stefndi Vorland ehf. krefst þess í þessum þætti málsins að kröfu stefnanda um að dómurinn heimili þinglýsingu í málinu verði hafnað.
Stefndi Kró ehf. hefur ekki látið til sín taka í þessum þætti málsins og lagði fram bókun þess efnis, sbr. dskj. nr. 37.
Málið höfða Sigurjón O. Sigurðsson, [kt.], Hvassaleiti 16, Reykjavík, Anna Sigrún Guðmundsdóttir, [kt.], Brattholti 1, Mosfellsbæ, Vilhjálmur Helgi Guðmundsson, [kt.], Sæviðarsundi 35, Reykjavík, Hugrún Guðmundsdóttir, [kt.], Bakkastöðum 23, Reykjavík, Jón Vilberg Karlsson og Finnbogi Jóhann Jónsson, [kt.], Brautartungu, Hellu.
Stefndu eru Vorland ehf., [kt.], Háfi 2, Hellu, og Kró ehf., [kt.], Lyngási 4, Hellu.
Dómkröfur stefnenda samkvæmt stefnu í efnishluta málsins eru í fyrsta lagi „að viðurkennd verði með dómi svofelld landamerki milli jarðanna Háfshóls, Hala, Háfs og Háfshjáleigu fyrir jörðina Háfshól í Rangárþingi ytra“, og vísast til kröfuliðar 1 í stefnu um skurðpunkta kröfuliðarins. Í öðru lagi „að viðurkennd verði með dómi svofelld landamerki engjareimar Hala milli jarðanna Háfshóls, Háfs og Háfshjáleigu“, vísast til kröfuliðar 2 í stefnu um skurðpunkta kröfuliðarins. Í þriðja lagi „að viðurkennd verði með dómi svofelld landamerki af hluta horntanga Hala milli Háfshóls, Háfs og Háfshjáleigu“, vísast til kröfuliðar 3 í stefnu um skurðpunkta kröfuliðarins. Í fjórða lagi „að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur stefnenda, eigenda Háfshóls, 1/3 og stefnenda, eigenda Hala, 1/3 í óskiptri sameign að því landssvæði innan Rangárþings ytra“, vísast til kröfuliðar 4 í stefnu um skurðpunkta kröfuliðarins.
Stefndu hafa fengið frest til að leggja fram greinargerð í efnishluta málsins til 19. desember næstkomandi.
I.
Málavextir
Stefnendur lýsa málavöxtum svo að þeir séu eigendur jarðanna Háfshóls og Hala í Rangárþingi ytra en stefndu séu eigendur jarðanna Háfs og Háfshjáleigu. Hafi stefndi Vorland ehf. óskað eftir því með beiðni, dags. 22. maí 2006, til hreppsráðs Rangárþings ytra að jörðunum Háfshjáleigu land 1, fasteignanr. 207724, Háfshjáleigu land 2, fasteignanr. 207725, Háfshjáleigu land 3, fasteignanr. 207726, Háfshjáleigu land 4, fasteignanr. 207727, og Háfshjáleigu land 5, fasteignanr. 207728, yrði skipt úr landi sínu Háfshjáleigu og fengið slíka beiðni samþykkta. Þó hefði samþykktin verið með þeim fyrirvara að eignarréttur á viðkomandi landi væri þinglýstur og óumdeildur og að sýnd mörk milli jarða á uppdrætti væru rétt og að stefndi bæri alla ábyrgð á því að svo væri. Stefnendur, sem hafi ekki uppgötvað landskiptin fyrr en síðastliðið vor, telji að jarðirnar sem um ræði séu að stórum hluta í eigu þeirra og því alls ekki skipt út úr landi stefnda Vorlands ehf. Stefndi Vorland ehf. hafi haft framangreindar jarðir til sölu í þó nokkurn tíma og hafi stefnendur haft til þinglýsingar á jörðunum kröfu um leiðréttingu á fasteignabók hjá sýslumanninum á Hvolsvelli. Nú sé hins vegar svo komið að nauðsynlegt sé fyrir stefnendur að fá stefnunni þinglýst á jarðirnar þar sem frestur sýslumannsins skv. 2. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 sé liðinn.
II.
Rök stefnenda í stefnu
Stefnendur byggja fyrstu dómkröfu sína í stefnu á því að svæði það sem um ræði, svokallaðir Háfshólsbakkar, hafi tilheyrt Háfshólnum að minnsta kosti allt frá því að sáttagerð hafi verið gerð þann 20. janúar 1932 með eigendum í Háfshverfi. Þessum skiptum hafi ekki verið hnekkt og byggja stefnendur á því að skiptin á Háfshólnum sjálfum, sem fram fóru þann 17. júní 1933, sýni svart á hvítu að Háfshólsbakkarnir tilheyri Háfshólnum. Þar segi orðrétt „Land allt niður með Þjórsá, að landamerkjum annarra jarða, sem að norðan takmarkast af heimreiðinni og af vörðu, sem er á túngarðinum 80 m frá heimreiðarhliði, þaðan af beinni línu um vesturbakka Dyraflóðs að mörkum annarra jarða“. Þá byggja stefnendur á því að samkvæmt 4. mgr. 2. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 sé heimilt að skipta eftir eignahlutföllum, sem hafi gilt manna á meðal í 20 ár eða meira og allir eigendur hafa samþykkt, þrátt fyrir að eignahlutföllin séu önnur en jarðamatsbækur gefi til kynna. Þá hafi við skipti á eignarhluta Háfs og Háfshjáleigu, sem fóru fram árin 1951-1952 hvergi verið minnst á Háfshólsbakkana, þar sem hlutaðeigendur hafi ekki litið svo á að Háfshólsbakkarnir tilheyrðu Háfi, enda hefðu allir hlutar Háfshólsbakka verið nýttir til slægju og beitar af eigendum Hala, sem leigt hefðu afnot af allri Háfshólsjörðinni frá árinu 1958 til 2006, án athugasemda frá eigendum Háfs eða Háfshjáleigu. Stefnendur byggja jafnframt á því að spilda sú, sem merkt sé sem Háfshjáleiga land 5, sé að mestu leyti skipt úr landi í eigu stefnenda. Stefnendur vísa einnig til bréfs lögmanns stefnda Króar ehf. til sýslumannsins á Hvolsvelli þar sem hann fór fram á það að hinar umdeildu spildur yrðu afmáðar úr þinglýsingabók ellegar yrði þinglýst inn á viðkomandi eignir athugasemd um vafa á réttmæti eignarréttar þess sem sé þinglýstur eigandi í dag. Samkvæmt framansögðu telja stefnendur að sannað sé að landamerki milli jarðanna Háfshóls, Hala, Háfs og Háfshjáleigu eigi að vera eins og dómkrafa nr. 1 kveði á um og að landamerki afmarki land Háfshóls gagnvart hinum jörðunum.
Stefnendur byggja aðra og þriðju dómkröfu sína í stefnu, um landamerki engjareimar og hluta horntanga Halans, á því að í greinargerð oddamanns um landamerki jarðanna Hala og Brautartungu sé sérstaklega tekið fram hvernig landamerki engjareimar og horntanga Halans séu. Hefði greinargerð þessi verið lögð fram í Hæstaréttarmálinu nr. 431/1998 og ekki verið véfengd eða á annan hátt mótmælt. Ennfremur vísa stefnendur til framburðar stefnanda Jóns V. Karlssonar fyrir Héraðsdómi Suðurlands, sem staðfestur var af Hæstarétti í dómi Hrd. 1999 bls. 3335, um það að Halinn eigi reim upp með Kvíaós, sem sé engjareim sú sem hnitsett sé í dómkröfu nr. 2 í stefnu. Þá byggja stefnendur á því að eigendur Hala, en jörðin hefur verið í eigu fjölskyldu stefnenda, eigenda Hala, síðan 1936, hafi heyjað og nýtt þessi svæði til beitar frá því jörðin komst í þeirra hendur. Þar áður hafi eigandi Hala nýtt þessi svæði eins og væru þau hans eign án þess að nokkur hafi gert athugasemd við þá nýtingu. Þetta bendi eindregið til þess að svæðin hafi ávallt tilheyrt jörðinni Hala.
Stefnendur byggja fjórðu dómkröfu sína á því að samkvæmt samkomulagsskiptunum árið 1928, sem getið sé um í skiptagerðinni frá árinu 1929, séu suðurmörk heimalands Háfs með Háfshjáleigu og Hala með Horni, endimörk nessins suður af bæjunum, takmörkuð við Kálfalæk sem rann við nesbakkann. Nú hafi Kálfalæk verið veitt í vélgrafinn skurð töluvert suður á Háfsgljánni. Upprunalegan farveg Kálfalækjar megi sjá á loftmynd frá árinu 1946. Stefnendur byggja á því að samkvæmt 2. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923 breytast eigi merki þótt farvegur breytist. Stefnendur byggja því á því að þau hnit sem sett séu fram í dómkröfu nr. 4 marki óskipt sameignarland jarðanna Háfs með Háfshjáleigu, Hala með Horni og Háfshóls.
Rök stefnda Vorlands ehf.
Stefndi kveður inntak kröfu stefnenda vera viðurkenningu tiltekinna landamerkja og afmörkun þriggja spildna, sbr. kröfuliði 1-3, og afmörkun og viðurkenningu á eignarhlutföllum á tilteknu landsvæði, sbr. kröfulið 4. Efnislega kveður stefndi ágreining vera um túlkun landskiptagerðar frá 25. júní 1929 og sáttagerðar frá 20. janúar 1932, þ.e. hvernig beri að afmarka það land sem þessi skipti hafi tekið til. Af hálfu stefnda hafi einungis verið farið eftir því sem umrædd skjöl mæltu fyrir um.
Stefndi kveður þær jarðir sem hér um ræði, þ.e. Háfshól, Hala, Horn, Háf og Háfshjáleigu, tilheyra svonefndu Háfshverfi í Djúpárhreppi hinum forna. Í landamerkjaskrá frá 1885 sé lýst sameiginlega því landi sem Háfshverfi tilheyri. Þann 25. júní 1929 hafi farið fram skipti á heimalandi, beitilandi og engjum með Kálfalæk Háfshverfisjarða. Heimalandið hafi síðan verið afmarkað á kort og allir eigendur skrifað undir skiptin. Við afmörkun stefnda á spildum 1-4 og spildu 5 hafi verið farið eftir skiptagerðinni.
Varðandi það landsvæði, sem spildur 1-4 taki til, segi orðrétt í skiptagerðinni: „Voru þá ákveðin þessi landamerki af úttektarmönnum með samþykki allra hlutaðeigandi: Nesi fyrir sunnan Háf og Hala var skift í fyrra af hlutaðeigendum sjálfum og girðing sett á merkjum; á Háfur með hjáleigu fyrir vestan girðinguna, en Hali fyrir austan að Keldu norðan við Torfamel. Á móti því hefir Háfshóll allt óyrkt land í kring um tún sitt, sem afmarkast af girðingu að vestan og skurði og girðingu að austan. Það, sem þá vantar á tiltölu jarðarinnar, fær hún með öðru beitilandi.“ Telur stefndi að samkvæmt því tilheyri það land, sem spildur nr. 1-4 séu afmarkaðar af, landi sem Háfur og Háfshjáleiga hafi fengið í sinn hlut við skiptin 25. júní 1929 og afmarkað var með girðingu, sbr. 1. mgr. 1. gr. landamerkjalaga nr. 41/1919. Að neðanverðu afmarkist spildurnar við sameignarland Háfshóls, Hala, Horns, Háfs og Háfshjáleigu eins og það hefði verið afmarkaði í Hrd. 1999/3335, þ.e. þar sem Kálfalækur renni um Háfsósa út að Þjórsá. Sé það í samræmi við 1. og 2. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923.
Varðandi það landsvæði sem spilda 5 taki til, þá tilheyri það land Háfi og Háfshjáleigu. Í skiptagerðinni segi svo um hagamörk að land Háfshóls afmarkist af girðingu að vestan að bugðu á Háfshólsskurði, með Halalandi að austan að landi Háfs og Háfshjáleigu í suður. Hvergi komi fram í skiptagerðinni að Háfshóll hafi land að svonefndu Langaflóði eða vestur að Kvíós, líkt og kröfugerð stefnenda miði við.
Þá kveður stefndi að hinn 20. janúar 1932 hafi verið gerð breyting á skiptagerðinni frá 25. júní 1929, þar sem gerð hefði verið tilfærsla á merkjum Háfshóli til hagsbóta gegn greiðslu eiganda Háfshóls upp á kr. 200 til eiganda Háfs. Land þetta sé við Kringlutjörn en taki ekki til þrætusvæðis í máli þessu. Þá hafi eigendur Háfshólsins skipt Háfshólnum í tvo parta þann 18. júní 1933. Hafi þeir skipt að Dyraflóði en ekki Langaflóði eða Kvíós, sem tilheyri Háfshjáleigu og Háfi. Í þessum skiptum hafi hvergi verið minnst á engjar við Langaflóð.
III.
Í þessum hluta málsins hafa stefnendur gert kröfu um að úrskurðað verði að stefnu málsins á hendur Vorlandi ehf. og Kró ehf. verði þinglýst á eftirfarandi jarðir í Rangárþingi ytra: Háfshjáleigu land 1, fasteignanr. 207-724, Háfshjáleigu land 2, fasteignanr. 207-725, Háfshjáleigu land 3, fasteignanr. 207-726, Háfshjáleigu land 4, fasteignanr. 207-727, og Háfshjáleigu land 5, fasteignanr. 207-728. Til vara krefjast stefnendur þess að þinglýsa megi stefnu í málinu á jörðina Háfshjáleigu land 5, fasteignanr. 207-728, í Rangárþingi ytra. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar fyrir þennan þátt málsins.
Stefnendur kveða stefnda Vorland ehf. hafa haft framangreindar jarðir til sölu í þó nokkurn tíma og hafi stefnendur haft til þinglýsingar á þeim jörðum kröfu um leiðréttingu hjá sýslumanninum á Hvolsvelli. Nú er svo komið að nauðsynlegt er að fá stefnunni þinglýst á jarðirnar þar sem frestur sýslumannsins á Hvolsvelli skv. 27. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 sé liðinn og brýnt að krafan verði tekin til úrskurðar sem fyrst þar sem ljóst sé að ríkir hagsmunir séu í húfi og nauðsynlegt að koma í veg fyrir að jarðirnar verði framseldar grandlausum þriðja manni. Þegar hafi jörðin Háfshjáleiga land 1, fasteignanr. 207-724, verið seld með fyrirvara um réttmæti landamerkja en stefnendur kveðast munu höfða riftunarmál um áðurnefnda sölu, falli landamerkjamálið þeim í vil. Þá liggi fyrir umsókn stefnda Vorlands ehf. um byggingarleyfi á jörðinni Háfshjáleigu landi 4, fasteignanr. 207-727.
Samkvæmt 28. gr. þinglýsingalaga geti dómurinn ákveðið með úrskurði að stefnunni eða útdrætti úr henni megi þinglýsa á fasteign þá sem mál fyrir dómstólnum fjallar um. Með vísan til framangreinds telja stefnendur hagsmuni sína af því að fá stefnunni þinglýst á nefndar jarðir mun ríkari en hagsmuni stefnda Vorlands ehf. Sérstaklega í ljósi þess að stefndi Vorland ehf. hafi þegar selt jörðina Háfshjáleigu land 1, jarðirnar Háfshjáleiga, land 2, 3, 4 og 5, séu í sölumeðferð hjá fasteignasölu og stefndi Vorland ehf. hyggst hefja byggingaframkvæmdir á jörðinni Háfshjáleigu landi 4.
Stefndi Vorland ehf. krefst þess, í þessum hluta málsins, að kröfu stefnenda um þinglýsingu stefnu á jarðirnar Háfshjáleigu, land 1, 2, 3, 4, og 5, verði hafnað. Þá gerir stefndi Vorland ehf. kröfu um málskostnað fyrir þennan hluta málsins.
Stefndi Vorland ehf. kveður stefnendur þurfa að færa fram veigamikil rök fyrir staðhæfingu um réttindi sín yfir fasteign, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 39/1978. Inntak kröfuréttinda stefnenda sé krafa um viðurkenningu tiltekinna landamerkja og afmörkun þriggja spildna, skv. kröfuliðum 1-3 í stefnu, og afmörkun og viðurkenningu á eignarhlutföllum á tilteknu landsvæði, skv. kröfulið 4 í stefnu. Stefndi kveður stefnendur ekki hafa lagt fram heildaruppdrátt með innfærðum línum er sýni kröfulínur aðila og ágreining. Þá hafi ekki verið sýnd afmörkun þeirra spildna, sem gerð sé krafa um að stefnu verði þinglýst á og hvernig afmörkun þeirra skarist við kröfur stefnenda. Einungis hafi stefnendur lagt fram „GOOGLE“ myndir sem taki yfir hluta A4 skjals með innfærðum punktum án frekari skýringa. Um sé að ræða gervitunglamyndir en ekki uppdrátt er byggist á lágflugsmynd. Slíkar gervitunglamyndir geti aldrei verið grundvöllur kröfugerðar í landamerkjamáli. Framsetning kröfugerðar stefnenda sé óskýr að þessu leyti en slíkur annmarki hafi leitt til frávísunar mála, sbr. Hrd. 1994/987 og Hrd. 1976/933. Ljóst sé að þinglýsing á stefnu geti takmarkað eignarráð eiganda og ráðstöfun stefnda á eignum. Með vísan til framangreinds væri slíkt mjög óvarleg ráðstöfun í ljósi málatilbúnaðar stefnenda.
IV.
Niðurstaða.
Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga getur dómari ákveðið með úrskurði að stefnu í máli er varðar réttindi yfir fasteign, eða útdrætti úr stefnu í slíku máli, megi þinglýsa, en markmið þessarar heimildar er að gera viðsemjendum þinglýsts eiganda viðvart um ágreining sem varðar réttindi yfir fasteign. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur fram að til þess að rétt sé að taka til greina kröfu um þinglýsingu stefnu þurfi aðstæður að vera svipaðar því sem kveðið er á um í 2. mgr. 27. gr. laganna. Þarf stefnandi því að færa fram nægileg rök fyrir staðhæfingu sinni um réttindi sín yfir umræddri fasteign þótt ekki verði á því stigi tekin efnisleg afstaða til ágreiningsefna aðila. Þegar litið er til þeirra ágreiningsefna sem uppi eru í máli þessu og sérstaklega til sölu stefnda Vorlands ehf. á Háfshjáleigu, landi 1, sölumeðferðar fasteignanna Háfshjáleigu, landi 2, 3, 4 og 5, ásamt framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á Háfshjáleigu, landi 4, telur dómurinn að fullnægt sé skilyrðum til að fallist verði á kröfu stefnenda um þinglýsingu stefnunnar.
Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms í málinu.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Stefnendum, Sigurjóni O. Sigurðssyni, Önnu Sigrúnu Guðmundsdóttur, Vilhjálmi Helga Guðmundssyni, Hugrúnu Guðmundsdóttur, Jóni Vilberg Karlssyni og Finnboga Jóhanni Jónssyni, er heimilað að fá þinglýst stefnu í máli nr. E-527/2007 gegn stefndu, Vorlandi ehf. og Kró ehf., á eftirfarandi jarðir í Rangárþingi ytra: Háfshjáleigu land 1, fasteignanr. 207724, Háfshjáleigu land 2, fasteignanr. 207725, Háfshjáleigu land 3, fasteignanr. 207726, Háfshjáleigu land 4, fasteignanr. 207727, og Háfshjáleigu land 5, fasteignanr. 207728.
Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.