Hæstiréttur íslands
Mál nr. 137/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Dómsátt
- Málskostnaður
|
|
Þriðjudaginn 27. mars 2007. |
|
Nr. 137/2007. |
Ragnheiður Bragadóttir og Ragnheiður Bjarnadóttir (Othar Örn Petersen hrl.) gegn Helgu Björnsdóttur Ívari Þór Þórissyni, Nönnu E. Harðardóttur og Guðmundi B. Ólafssyni (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Kærumál. Dómsátt. Málskostnaður.
Aðilar deildu um málskostnað í máli sem að öðru leyti lauk með dómsátt milli þeirra. Í ljósi úrslita málsins þótti rétt að H, Í, N og G bæru sinn hluta af kostnaði við gerð teikningar, sem virtist hafa orðið grundvöllur að samkomulagi aðila, svo og hluta af öðrum kostnaði, sem nöfnurnar R höfðu ekki komist hjá að leggja í til að verja hagsmuni sína og ná ásættanlegri málamiðlun.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. mars 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2007, þar sem kveðið var á um málskostnað í máli sóknaraðila gegn varnaraðilum, sem var að öðru leyti lokið á grundvelli dómsáttar milli aðila. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verði fellt úr gildi og varnaraðilum gert að greiða sóknaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðilar krefjast þess aðallega að sóknaraðilum verði gert greiða þeim málskostnað í héraði en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar hafa ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti. Kemur aðalkrafa þeirra því ekki til álita.
Mál þetta var höfðað með stefnu 10. júlí 2006, þar sem sóknaraðilar, sem eru eigendur fasteignarinnar Starmýrar 6 í Reykjavík, kröfðust þess að viðurkennt yrði að varnaraðilum, eigendum Starmýrar 4 og 8, ásamt eigendum Safamýrar 16 og 18, væri óheimilt að ráðast í framkvæmdir á sameiginlegri lóð fyrir framan hús nr. 4, 6 og 8 við Starmýri, sem kynntar voru með teikningu, er lögð var fram á fundi lóðarhafa 24. maí 2006. Með úrskurði héraðsdóms 22. nóvember 2006, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 14. desember 2006 í málinu nr. 626/2006, var kröfum sóknaraðila á hendur eigendum Safamýrar 16 og 18 vísað frá dómi. Í þinghaldi 20. febrúar 2007 lagði lögmaður sóknaraðila fram skjal, sem bar fyrirsögnina dómsátt, og var undirrituð af öllum málsaðilum. Í skjalinu kemur fram að aðilar séu sammála um að umræddar framkvæmdir skuli ekki fara fram í samræmi við áðurnefnda teikningu heldur á grundvelli teikninga frá Forma ehf. 17. janúar 2007 og TAV Teikniþjónustu 30. sama mánaðar. Þá var þar leyst úr ágreiningi aðila um notkun bílastæða og kveðið á um hverjum bæri að sjá um rekstur og viðhald hinnar sameiginlegu lóðar auk þess sem þar var mælt fyrir um skipan framkvæmdanefndar eigenda til að annast útboð og hafa eftirlit með framkvæmdum. Óskuðu aðilar eftir því í þinghaldinu að dómari úrskurðaði um málskostnað og var hinn kærði úrskurður kveðinn upp sama dag.
Eins og að framan greinir var áðurnefnt skjal með framangreindri fyrirsögn lagt fram í þinghaldi af lögmanni sóknaraðila sem sérstakt málskjal án þess sáttin væri tekin upp í þingbók. Er sú tilhögun heimil samkvæmt 109. gr. laga nr. 91/1991 og ber að líta svo á að málinu hafi lokið með dómsátt þegar hennar var getið í þingbók að öðru leyti en því að eftir var að skera úr um málskostnað milli aðila, sbr. 2. mgr. 108. gr. laganna. Var því óþarft að fella málið niður með ákvæði þar að lútandi í úrskurðarorði.
Af fyrirliggjandi gögnum má ráða að um árabil hefur staðið til að hefja framkvæmdir á sameiginlegri lóð, sem liggur milli húsanna við Starmýri 4, 6 og 8. Hefur ágreiningur aðila fyrst og fremst lotið að hönnun og útfærslu í tengslum við umræddar framkvæmdir. Sóknaraðilar hafa talið að með þeirri leið, sem lögð var fram á fundi aðila 24. maí 2006, væri verið að skerða nýtingarrétt þeirra á lóðinni og rýra verðgildi húseignar þeirra á sama tíma og aukinn hluti hennar yrði færður undir umráð eigenda húsanna að Starmýri 4 og 8. Í stefnu var bent á tiltekin atriði þessu til stuðnings og talið að samþykki einfalds meirihluta eigenda nægði ekki til að ráðast í framkvæmdir af þessu tagi. Af fyrirliggjandi dómsátt verður ráðið að komið hefur verið til móts við ýmsar af þeim athugasemdum, sem sóknaraðilar gerðu við hinar umdeildu framkvæmdir, en þó ekki að öllu leyti.
Undir rekstri málsins leituðu sóknaraðilar til Bjarkar Guðmundsdóttur, landslagsarkitekts hjá Forma ehf., sem gerði nýja tillögu að hönnun lóðarinnar er tók mið af hugmyndum þeirra. Virðist teikning hennar 17. janúar 2007 hafa orðið grundvöllur að samkomulagi aðila og að teikning frá TAV teikniþjónustu 30. sama mánaðar hafi verið gerð á grunni fyrrgreindrar teikningar svo og teikningarinnar, sem lögð var fram á fundinum 24. maí 2006. Kostnaður af gerð umræddrar teikningar Bjarkar er hluti af málskostnaði sóknaraðila, sem rétt er með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að varnaraðilar beri sinn hluta af til jafns við sóknaraðila. Með hliðsjón af úrslitum málsins verður einnig fallist á að varnaraðilar greiði hluta af öðrum kostnaði sem sóknaraðilar komust ekki hjá að leggja í til að verja hagsmuni sína og ná ásættanlegri málamiðlun. Samkvæmt framansögðu verða varnaraðilar dæmdir til að greiða óskipt sóknaraðilum samtals 650.000 krónur í málskostnað í héraði.
Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðilar, Helga Björnsdóttir, Ívar Þór Þórisson, Nanna E. Harðardóttir og Guðmundur B. Ólafsson, greiði óskipt sóknaraðilum, Ragnheiði Bragadóttur og Ragnheiði Bjarnadóttur, samtals 650.000 krónur í málskostnað í héraði og 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2007.
Með stefnu birtri 11. ágúst 2006, höfðuðu stefnendur Ragnheiður Bragadóttir, Starmýri 6, Reykjavík og Ragnheiður Gunnarsdóttir, Vatnsstíg 21, Reykjavík, mál á hendur Helgu Björnsdóttur og Ívari Þór Þórissyni, báðum til heimilis að Starmýri 4, Reykjavík, Nönnu Elísabetu Harðardóttur, og Guðmundi Birgi Ólafssyni, báðum til heimilis að Starmýri 8, Reykjavík, Indriða Pálssyni, Safamýri 16 og Ægi Birgissyni og Auði Björk Guðmundsdóttur, báðum til heimilis að Safamýri 18, Reykjavík, til að þola dóm um eftirfarandi kröfur.
Stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði að stefndu sé óheimilt að ráðast í framkvæmdir á sameiginlegri lóð fyrir framan hús nr. 4, 6 og 8 að Starmýri í Reykjavík, sem kynntar voru með teikningu er lögð var fyrir fund lóðarhafa að Safamýri 16 og 18 og Starmýri 4, 6 og 8 í Reykjavík sem fram fór hinn 24. maí 2006.
Stefnendur krefjast þess einnig að staðfest verði með dómi lögbann í máli nr. L-13/2006, sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði við því að stefndu Helga Björnsdóttir, Ívar Þór Þórisson, Nanna Elísabet Harðardóttir og Guðmundur Birgir Ólafsson réðust í framkvæmdir á sameiginlegri lóð fyrir framan hús nr. 4, 6 og 8 að Starmýri í Reykjavík, sem kynntar voru með teikningu er lögð var fyrir fund lóðarhafa að Safamýri 16 og 18 og Starmýri 4, 6 og 8 í Reykjavík sem fram fór hinn 24. maí 2006.
Þá er einnig krafist málskostnaðar að mati réttarins eða skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættu álagi vegna virðisaukaskatts.
Af hálfu stefndu Helgu, Ívars, Nönnu og Guðmundar er krafist sýknu af öllum kröfum stefnenda og að lögbann sýslumannsins í Reykjavík frá 4. júlí 2006 í málinu L-13/2006 verði fellt niður.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnenda að mati réttarins eða samkvæmt fram lögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndu Ægir Birgisson og Auður Björk Guðmundsdóttir krefjast þess aðallega að öllum kröfum stefnenda í málinu verði vísað frá dómi og til vara að þau verði sýknuð af kröfum stefnenda í máli þessu. Í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað þeim til handa úr hendi stefnenda.
Stefndi Indriði Pálsson lét málið ekki til sín taka.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur var kröfum stefnenda á hendur stefndu, Indriða Pálssyni, Ægi Birgissyni og Auði Björk Guðmundsdóttur vísað frá dómi og var úrskurður staðfestur í Hæstarétti Íslands 14. desember 2006.
Í fyrirtöku málsins í dag varð breyting á aðild þess, en Ragnheiður Gunnarsdóttir hefur selt Ragnheiði Bjarnadóttur eignarhlut sinn í Starmýri 6 og tekur hún því við aðild málsins.
Málsaðilar, eigendur Starmýrar 6, annars vegar, og eigendur Starmýrar 4 og 8, hins vegar, hafa náð sáttum í máli þessu og var sáttin lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Í sáttinni kemur meðal annars fram að þeir geri kröfu um að dómari úrskurði málskostnað, en báðir málsaðilar krefjast málskostnaðar sér til handa.
Málsaðilar búa í Starmýri 4, 6 og 8 í Reykjavík. Þar háttar svo til að lóðinni er hús þeirra standa á hefur ekki verið skipt. Vegna lóðarinnar hafa málsaðilar átt í erfiðum deilum undanfarandi ár. Nú hefur tekist sátt með þeim um skipulag bílaplans sem þau eiga öll aðgang að. Í ljósi forsögu deilna þeirra og með hliðsjón af málsatvikum að öðru leyti, telur dómurinn rétt að hvor málsaðili um sig greiði sínum lögmanni málskostnað. Hér er umfram allt haft að leiðarljósi að málsaðilar geti búið í sátt og samlyndi í framtíðinni. Í ljósi þessa er það niðurstaða dómsins að málskostnaður falli niður.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Málið er fellt niður.
Málkostnaður fellur niður.