Hæstiréttur íslands
Mál nr. 218/2006
Lykilorð
- Líkamsárás
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 9. nóvember 2006. |
|
Nr. 218/2006. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Lúðvík Finnssyni (Lárentsínus Kristjánsson hrl.) |
Líkamsárás. Sératkvæði.
L var sakfelldur fyrir að hafa slegið í botn flösku sem X var að drekka úr með þeim afleiðingum að tennur hennar brotnuðu og einnig fyrir að hafa veitt henni nokkur högg í andlitið. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 29. mars 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst nú staðfestingar á refsingu.
Ákærði krefst aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, til vara krefst hann sýknu en að því frágengnu að refsing verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Lúðvík Finnsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 239.238 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Lárentsínusar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Svo sem fram kemur í héraðsdómi er ákærða meðal annars gefið að sök að hafa í leigubifreið slegið á botn vínflösku sem kærandi hafi verið að drekka úr, svo að stútur flöskunnar hafi lent á tönnum hennar og brotið nokkrar þeirra. Ákærði hefur neitað þessum sakargiftum, en tekið fram að hann muni ekki eftir því sem fram fór í bifreiðinni vegna ölvunar. Hann hefur byggt kröfu sína um sýknu á því að þessar sakargiftir, sem og raunar aðrar sakargiftir í ákæru, séu ósannaðar.
Eiginkona ákærða staðfesti fyrir dómi, að kærandi hefði borið umræddar sakir á ákærða strax við heimili hans að ferðinni lokinni og önnur gögn málsins sýna að nokkrar tennur hennar höfðu brotnað. Það telst því sannað að kærandi varð fyrir þeim áverkum á tönnum sem um ræðir í málinu, meðan á ferð bifreiðarinnar stóð.
Ákærði hefur mótmælt þeirri lýsingu atvika sem kærandi hefur gefið sem ósannaðri í ýmsum atriðum. Ósannað sé að hún hafi verið að drekka úr vínflösku í bifreiðinni, enda hafi hvorki bílstjórinn né kærasti kæranda, sem var farþegi í bifreiðinni, staðfest frásögn kæranda um þetta. Engin flaska hafi heldur fundist í eða við bifreiðina eftir að fólkið fór úr henni við heimili ákærða. Þá hefur hann bent á að vel megi vera að flaska hafi rekist í kæranda fyrir óhappatilviljun. Hún hafi að eigin sögn verið að drekka úr flösku inni í bifreið á ferð og verið sjálf undir áfengisáhrifum. Vera megi að bifreiðinni hafi verið ekið í holu, yfir misfellu eða jafnvel hraðahindrun, sem hafi valdið því að flaskan hafi rekist upp í munn kæranda. Jafnvel megi vera að slíkt hafi orðið til þess að ákærði, sem sat við hlið hennar og var mjög ölvaður, hafi rekist í kæranda eða flöskuna með þeim afleiðingum sem um ræðir. Gæti kærandi þá hafa misskilið atburðarásina og talið ranglega að ákærði hafi gert þetta af ásetningi. Bendir ákærði á að samhljóða framburður liggi fyrir í málinu um að vel hafi farið á með farþegum leigubifreiðarinnar er ökuferðin hófst og engar skýringar hafi komið fram á því hvers vegna eigi að hafa kastast í kekki með honum og kæranda á leiðinni með þeim afleiðingum að hann hafi veist að henni með þeim hætti sem hún heldur fram.
Rannsókn lögreglu varðandi atvik í bifreiðinni er áfátt að því leyti að ekki var reynt að upplýsa hvaða leið bifreiðin ók umrætt sinn og hvort á leiðinni hafi verið misfellur sem kunni að hafa kastað farþegum til á þann hátt sem ákærði hefur nefnt. Verður þetta metið ákærða í hag við úrlausn um sönnun málsatvika.
Jafnvel þó að lagt væri til grundvallar við úrlausn málsins, að kærandi hafi lýst skynjun sinni á ætlaðri líkamsárás í bifreiðinni eftir bestu vitund og getu, dugar það ekki að mínu mati til þess að sönnunarskyldu ákæruvalds um að ákærði hafi framið þetta brot af ásetningi teljist fullnægt. Til þess að svo megi verða þarf vitnisburður hennar að fá fullnægjandi stoð í öðrum sönnunargögnum. Frásagnir hennar eftirá er hún ræddi við eiginkonu ákærða, unnusta sinn og móður sína duga ekki til að veita slíka stoð, enda er hún þar einfaldlega að skýra frá því sama og síðar hjá lögreglu og fyrir dómi. Önnur gögn málsins hafa heldur ekki þýðingu að því er þetta varðar. Er það því niðurstaða mín, að ákæruvaldið hafi ekki fært fram í málinu sönnun sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum um hvert það atriði sem varðar sekt ákærða eins og tilskilið er í 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Tel ég því að það beri að sýkna hann af þessum þætti ákærunnar.
Ég er sammála meirihluta dómenda um að fullnægjandi sönnun hafi verið færð fram í málinu um að ákærði hafi slegið kæranda hnefahöggum fyrir utan húsið Heiðarból 51 í Keflavík og að kærandi hafi hlotið áverka á andlit þess vegna. Þetta brot ákærða varðar við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ekki er ástæða til að ég taki sérstaka afstöðu til refsiákvörðunar, skiptingar sakarkostnaðar eða skaðabótagreiðslu vegna brotsins.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 1. mars 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 8. febrúar sl., var höfðað með ákæru sýslumannsins í Keflavík, útgefinni 23. nóvember 2005, á hendur ákærða, Lúðvík Finnssyni, kt. 031049-3509, Heiðarbóli 51, Keflavík, fyrir líkamsárás með því að hafa aðfaranótt sunnudags 10. apríl 2005, í leigubifreið á leið frá [...] að húsi við Heiðarból 51 í Reykjanesbæ, slegið í botn vínflösku, sem X, [...], var að drekka úr, svo stútur flöskunnar lenti á tönnum hennar og brotnuðu tennur nr. 12, 21 og 22 og flísaðist upp úr tönn nr. 11 og með því að slá X hnefahöggum utan við húsið Heiðarból 51 svo hún hlaut 0,5 cm skurð á innanverðri efri vör vinstra megin, blæðingar undir hornhimnu í auga og mar ofarlega á nefi og mikil eymsli í nefi.
Framangreind háttsemi ákærða er talin varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu gerir Ólafur Sigurgeirsson hrl. þá kröfu fyrir hönd X, að ákærði verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur samtals 214.250 krónur.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara vægustu refsingar er lög leyfa, að refsingin verði skilorðsbundin og að skaðabótakrafan verði lækkuð verulega. Í báðum tilvikum er þess krafist að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.
I.
Kærandi, X, kom ásamt móður sinni á lögreglustöðina í Keflavík, kl. 02:00 aðfaranótt sunnudagsins 10. apríl 2005 og greindi frá því að hún hefði verið í gleðskap í heimahúsi í [...], en farið þaðan í leigubifreið ásamt unnusta sínum og [...], ákærða, sem hafi verið mjög ölvaður og æstur. Hann hafi veist að henni í leigubifreiðinni og barið hana í andlitið. Samkvæmt lögreglu var X með sýnilega áverka á andliti, mar á nefi, brotna tönn og sprungna vör.
Frá lögreglustöðinni fór X á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og var hún komin þangað kl. 02:31. Þar greindi hún svo frá að hún hefði verið á leið heim til sín í leigubíl ásamt unnusta sínum og [...], ákærða, og hefði ákærði í tvígang veist að henni og veitt henni nokkur högg í andlit. Í læknisvottorði kemur fram að X hafi verið mikið niðri fyrir og hún grátið. Við skoðun hafi fundist 0,5 cm skurður á innanverðri efri vör vinstra megin og hafi blætt örlítið úr honum. Þá hafi brotnað nokkuð upp úr tönnum. Um 3-5 mm flági hafi brotnað úr 2. tönn frá miðlínu hægra megin og hafi brotið verið hægra megin úr þeirri tönn. Um 1 mm brot hafi verið úr 1. tönn frá miðlínu vinstra megin, en það brot hafi verið vinstra megin úr þeirri tönn. Þá hafi þreifast um 3 cm fyrirferð yfir hægra kinnbeini, sem sennilegast sé blóðpollur undir húðinni. Við augnskoðun hafi sést þrjár 1 mm subconjuctival blæðingar. Þá hafi nef kæranda verið mjög aumt viðkomu og skekkst örlítið til vinstri. Við skoðun með eyrnaskoðunartæki í nasir hafi allar neföður sést en veruleg aukin æðateikning verið til staðar. Ekki hafi verið að sjá merki um ferska blæðingu, en yfir nefi ofarlega hafi verið mar að sjá. Heilataugaskoðun hafi verið eðlileg og án frávika. Niðurstaða skoðunar var að kærandi hafi hlotið áverka á andlit, varir, nef og tennur.
X leitaði til Kristínar J. Geirmundsdóttur tannlæknis. Í vottorði tannlæknisins kom fram að um krónubrot var að ræða í tönnum 12, 21 og 22 en flísast hafi upp úr tönn 11. Tennurnar hafi verið byggðar upp í kompositt. Tönn 21 væri ásláttaraum og ekki vitað hvort pulpa hefði skaðast.
X gaf skýrslu um atvik hjá lögreglu þann 11. apríl sl. Kvaðst hún hafa verið í innflutningssamkvæmi hjá [...] umrætt sinn ásamt kærasta sínum. Þau hefðu ásamt ákærða verið síðust gesta. A hefði beðið þau um að skutla ákærða, [...], heim í leigubílnum sem þau tóku. Þau hefðu farið inn í leigubílinn, B kærasti hennar hefði sest í framsætið en hún og ákærði aftur í. Ákærði hefði dottið þegar hann var að fara inn í bílinn og hefði hann orðið fúll yfir því. X kvaðst hafa verið með hvítvínsflösku sem hún var nýbúin að opna og þegar hún hafi ætlað að fá sér sopa úr flöskunni og var nýbúin að setja stútinn að munninum hafi ákærði slegið í botn flöskunnar þannig að stúturinn lenti í fjórum fremri efri tönnum hennar. Henni hefði brugðið mikið við þetta og litið á ákærða sem hefði horft á móti en ekkert sagt. Hún hefði þá snúið sér frá ákærða og síðan fundið þegar tennurnar molnuðu upp í munninum. Hún hefði orðið leið yfir þessu en ekki viljað segja neitt og viljað bíða þangað til ákærði væri farinn úr bílnum. Hún kvað B ekki hafa tekið eftir þessu. Hún hefði síðan tárast og farið að gráta. B hefði þá heyrt í henni og spurt hvers vegna hún væri að gráta. Hún hefði engu svarað. B hefði þá snúið sér að ákærða og spurt hann hvort hann hefði gert henni eitthvað. Ákærði hefði þá svarað: „Hvað heldur þú að þú getir gert?“. B hefði þá reynt að koma sér aftur í og er hann var að reyna það hefði ákærði að sögn B kýlt til hans og hitt hann einu höggi á kjálkann. Er B var kominn aftur í hefði ákærði snúið sér að henni og kýlt hana í andlitið með krepptum hnefa. B hefði síðan náð að halda utan um ákærða og koma honum út úr leigubílnum heima hjá ákærða. Eftir að ákærði var kominn út úr leigubílnum hefði hann kýlt hana nokkrum höggum, sem lentu á hægri hlið andlits hennar, á nefinu, kjálkanum, kinnbeininu og við augað. Hún kvaðst ekki gera sér grein fyrir því hversu mörg höggin voru. Hún kvaðst hafa hlaupið frá ákærða og inn á heimili hans um ólæsta vaskahúsdyr og kallað á eiginkonu ákærða, C, sem hefði komið fram og spurt hvað á gengi og hefði hún sagt henni það. C hefði viljað kalla á lögreglu en hún bannað henni það. Hún kvað B og leigubílstjórann hafa náð að drösla ákærða inn um síðir, en hann hafi verið mjög æstur. Er hann var kominn inn í vaskahúsið hefði hann litið á X og skellihlegið. Kvaðst hún hafa farið í leigubílnum heim til sín og þaðan hefði hún svo farið á lögreglustöðina þar sem hún tilkynnti um atvikið og síðan á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem hún var skoðuð af lækni og í ljós kom að kvarnast hafði upp úr þremur til fjórum tönnum og að hún hafði hlotið aðra áverka. X krafðist þess að ákærða yrði refsað fyrir verknaðinn.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu þann 27. júní sl. Skýrði hann svo frá að hann hefði verið mikið ölvaður umrætt sinn eins og allir sem í leigubifreiðinni voru. Hann kvaðst hvorki muna eftir þessum umrædda atburði né ferðinni í leigubifreiðinni. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa slegið undir flöskubotn þegar X hafi verið að drekka úr hvítvínsflöskunni. Hann kvaðst heldur ekki muna eftir því að hafa slegið X.
B kærasti X gaf skýrslu vitnis hjá lögreglu 21. júní sl. Hann kvað þau hafa verið nýlögð af stað í leigubifreiðinni er hann heyrði X gráta aftur í þar sem hún hefði setið ásamt ákærða. Hann hefði þá spurt hana ítrekað af hverju hún væri að gráta en hún hefði ekki viljað segja honum það. Hann hefði þá spurt ákærða hvað hefði gerst, en hann hefði aðeins horft illilega á hann. Hann hefði þá ákveðið að klifra aftur í og er hann var að því hefði ákærði reynt að kýla hann en ekki hitt. Hann hefði þá sest niður milli X og ákærða og spurt ákærða aftur hvað gerst hefði en hann engu svarað. Hefði þá komið til smáryskinga milli þeirra og hefði hann séð að það stefndi í leiðindi. Hann hefði því beðið bílstjórann að aka stystu leið heim til ákærða. Á leiðinni hefði honum tekist að halda ákærða föstum á gólfi bifreiðarinnar. Hann hefði enn haldið ákærða er bifreiðin stöðvaði við heimili ákærða og hefði hann þá beðið X að fara fyrst út úr bifreiðinni og síðan beðið leigubílstjórann að hjálpa sér að koma ákærða út úr bifreiðinni. Hann kvaðst hafa sleppt takinu á ákærða í dyragættinni á bílnum og um leið hefði ákærði farið að X, sem stóð við bílinn, og kýlt hana með krepptum hnefa nokkur högg í andlitið. Fljótlega eftir þetta hefði ákærði farið inn og jafnframt hefði hann og X farið heim. Þar hefði X sagt honum frá því sem gerst hefði. Kvað B hana hafa sýnt sér hvernig brotnað hafði upp úr framtönnunum en hún hefði haldið á brotum úr tönnunum.
D leigubifreiðarstjóri gaf skýrslu vitnis hjá lögreglu 22. júní sl. Kvaðst hann hafa verið pantaður að [...] umrætt sinn og þar hefði hann tekið þrjá farþega, ákærða sem hann kannist við og ungan mann og unga konu. Ungi maðurinn hefði sest fram í en konan og eldri maðurinn aftur í. Hann hefði verið beðinn um að aka að Heiðarbóli í Keflavík. Vel hefði virst fara á með fólki þessu. Á leiðinni hefði unga konan farið að hrína og hefði ungi maðurinn fram í orðið vondur og fullyrt að „Lúlli“ (ákærði) hefði lamið konuna. Hann hefði síðan klifrað aftur í og hefði verið bölvaður hávaði í honum. Hann og ákærði hefðu síðan eitthvað verið að nuddast aftur í. Hann hefði haldið akstrinum áfram og ekki stöðvað fyrr en komið var að Heiðarbóli í Keflavík. Hann kvað þau þrjú hafa farið úr bifreiðinni þar. Hann hefði snúið bifreiðinni við í næstu innkeyrslu og fljótlega eftir það hefði hann fengið fargjaldið greitt. Þá hefði fólkið staðið fyrir utan hús ákærða og verið eitthvað að rífast. Hann kvaðst hafa séð eiginkonu ákærða þarna. Hann kvaðst ekki hafa séð ákærða kýla ungu konuna nokkur högg í andlitið er hún var að yfirgefa leigubifreiðina. Hann kvaðst halda að ungi maðurinn hafi fyrst yfirgefið bifreiðina svo ákærði en síðast kærandi. Hann kvaðst þó ekki viss um þetta. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa séð ungu konuna með léttvínsflösku í bifreiðinni og hefði hann ekki séð ákærða slá í botn slíkrar flösku þannig að flaskan hafi farið upp í munn hennar. Hann kvaðst ekki hafa séð áverka á neinum enda myrkur.
Eiginkona ákærða, C, gaf skýrslu vitnis hjá lögreglu 27. júní sl. Hún kvaðst hafa verið allsgáð í umræddu samkvæmi þar sem mikið hefði verið drukkið af bjór og rauðvíni. Þarna hefði X verið og drukkið talsvert mikið. Hún kvaðst hafa verið búin að fá nóg upp úr miðnætti og farið heim en vaknað þegar klukkan var að ganga fjögur við umgang og að kallað var til hennar. Hún hefði fyrst haldið að þetta væri ákærði en síðan hefði komið í ljós að þetta var X sem hafi verið mikið ölvuð. Hafi hún sagt að C mætti ekki verða reið og vond og beðið hana að fyrirgefa sér. Hún hafi verið hálfvælandi og sagt: „Lúlli sló mig.“ Hún hafi sagt að ákærði hefði lamið í flöskuna eða eitthvað í þá áttina. Erfitt hefði verið að skilja hana. Hún hefði beðið X að leyfa sér að sjá andlitið á henni en ekkert séð á því. X hefði ekki verið bólgin í andliti. Hún hefði spurt X hvort hún ætti ekki að hringja í lögreglu en þá hefði X byrjað að væla og sagt að hún mætti ekki vera vond og að hún ætti að fyrirgefa henni. Í framhaldi af þessu kvaðst vitnið hafa gengið út að leigubifreiðinni og þar hefði leigubifreiðarstjórinn haldið B frá ákærða, sem hafi verið mjög ölvaður. Hún kvaðst hafa tekið í öxlina á ákærða og tekið hann inn og sagt honum að fara að sofa sem hann hafi gert. Hún kvað alla þá sem komu með leigubifreiðinni hafa verið meira eða minna útúrdrukkna. Hún kvað dóttur sína sem kom þarna að hafa skoðað X en ekki séð neina áverka á henni. Hún hafi sagt að X hafi verið útúrdrukkin. Daginn eftir hefði hún spurt ákærða hvað hefði gerst en hann hefði ekki munað neitt um atburði næturinnar.
II.
Í skýrslu X fyrir dómi kom fram að hún hefði verið í samkvæmi um kvöldið heima hjá [...]. Hafi áfengi verið þar haft um hönd. Kvaðst hún hafa drukkið 2-3 glös af rauðvíni og eitt Campari glas. Þó kvaðst hún ekki hafa fundið fyrir miklum áfengisáhrifum. Aðspurð kvað hún B kærasta sinn ekki hafa verið ölvaðan en hann hafi þó verið búinn að neyta áfengis um kvöldið. Minnti X að hún hefði yfirgefið samkvæmið ásamt B um klukkan 2:00 um nóttina. Hafi þau tekið leigubíl og hafi ákærði, að ósk [...] X fengið far með þeim heim til sín. Bar X að ákærði hafi verið mjög ölvaður og hafi hún þurft að styðja hann út í leigubílinn. Hafi B setið í framsætinu á bifreiðinni, sem tók sjö farþega, en X og ákærði í miðröðinni. Bar X að engar samræður hafi átt sér stað milli farþeganna. Kvaðst hún hafa dregið upp hvítvínsflösku og fengið sér sopa þegar ákærði hafi skyndilega slegið undir botninn á flöskunni með þeim afleiðingum að fjórar framtennur hennar brotnuðu. Hafi þetta komið henni í opna skjöldu. Kvaðst hún hafa litið á ákærða furðulostin en hann hafi hins vegar horft á hana á móti „með ógeðslegu augnaráði“. Kvaðst hún hafa orðið mjög hissa á þessu uppátæki ákærða, fengið „hálfgert sjokk“ og ekki sagt neitt. Hafi hún snúið sér frá ákærða og horft út um gluggann á bílnum. Hafi hún þá fundið að tennurnar hennar voru brotnar upp í munninum á henni og brast hún í grát. B hafi þá spurt hana hvað væri að en hún hafi ekki svarað honum. Kvaðst hún hafa viljað koma ákærða heim til sín áður en hún myndi segja B frá því sem gerst hafði. Hafi B þá snúið sér að ákærða og spurt hann hvort hann hefði gert eitthvað við X. Ákærði hefði þá byrjað að hlægja og spurt B: „hvað heldur þú að þú getir gert?“. Þá hafi B orðið ljóst að ákærði hefði gert X eitthvað og því ákveðið að færa sig aftur í bifreiðina til þeirra. Í þann mund hafi ákærði reynt að slá til B. B hafi hins vegar náð tökum á ákærða og náð að halda honum föstum þar til leigubifreiðin var komin að heimili ákærða. Er þangað var komið hafi B beðið X um að fara út úr bílnum svo að auðveldara væri að koma ákærða út úr bifreiðinni án þess að B þyrfti að sleppa takinu á honum. Er X hafði yfirgefið bifreiðina hafi B sleppt ákærða sem fór út úr bifreiðinni. Hafi X ætlað aftur inn í bifreiðina en þá hafi ákærði kýlt hana mörgum sinnum í andlitið. Kvaðst X hafa hlaupið inn í hús ákærða og vakið eiginkonu hans og son. Hafi eiginkona ákærða viljað hringja á lögreglu en X ekki viljað það þar sem ákærði væri [...] og hafi hún viljað hlífa honum við því. Þegar X hafi komið fram í anddyri hússins hafi ákærði verið kominn upp að húsinu. Hafi B náð að drösla ákærða þangað og hafi leigubílstjórinn haldið á skóm ákærða. Þar hafi ákærði hlegið framan í X og fundist þetta allt saman mjög spaugilegt. Kvaðst X hafa sagt eiginkonu ákærða frá því sem gerst hafði. Ákærði hafi síðan lagst til svefns í sófa í húsinu en eiginkona ákærða og sonur farið ásamt dóttur ákærða, sem hafði komið á vettvang, á heimili hennar til að gista þar. Þessu næst hafi X og B farið upp í sama leigubíl og þau höfðu komið með á heimili ákærða og hafi hann ekið þeim á heimili X. Er þangað var komið hafi X hitt fyrir foreldra sína og systur. Hafi hún greint þeim frá því sem gerst hafði. Að því loknu hafi móður X farið með henni á lögreglustöðina og í kjölfarið á sjúkrahús.
Ákærði Lúðvík Finnsson bar fyrir dómi að hann hefði verið í samkvæmi hjá [...] að [...] laugardagskvöldið 9. apríl 2005. Kvaðst hann hafa drukkið mikið áfengi, þá aðallega koníak. Kvaðst hann muna eftir því að hafa yfirgefið samkvæmið um klukkan 1:00 eða 2:00 um nóttina og sest inn í leigubifreið. Í bifreiðinni hafi einnig verið X og B, kærasti hennar. Eftir ferðinni í leigubifreiðinni kvaðst hann mjög lítið muna. Það næsta sem hann muni hafi verið þegar hann var kominn heim til sín þar sem hann lagðist í sófa og sofnaði. Kvaðst ákærði ekki muna eftir að hafa framið þau brot sem hann er ákærður fyrir. Kvaðst hann hvorki geta játað né neitað því sem honum er gefið að sök.
Vitnið C kvaðst í skýrslu sinni fyrir dómi hafa verið stödd í umræddu samkvæmi laugardagskvöldið 9. apríl 2005. Hafi hún yfirgefið það um miðnætti og farið heim til sín. Kvaðst hún ekki hafa neytt áfengis um kvöldið. Kvaðst hún ekki muna eftir því hvað klukkan var er ákærði kom heim. Hún hafi verið farin að sofa en heyrt einhver köll. Hafi hún farið fram og séð þar X. Hafi X sagt henni að „Lúlli“ (ákærði) hefði lamið sig. Hún hafi verið að drekka úr hvítvínsflösku í leigubílnum er ákærði hefði slegið undir flöskubotninn. Kvaðst C hafa greint á X að hún væri þó nokkuð drukkin. Hafi C lagt til að lögreglan yrði kölluð á staðinn. Það hafi X hins vegar ekki viljað og hafi hún beðið C um að vera ekki reiða við sig. Kvaðst C hafa skoðað andlitið á X og ekki séð neina áverka, hvorki bólgu, blóð né roða. Hafi C fundist þetta allt saman hið undarlegasta mál. Hafi hún því hringt í dóttur sína, E, og beðið hana um að koma og athuga hvort hún sæi hvort X væri með einhverja áverka. Eftir að hafa hringt í E hafi C gengið út og séð hvar D leigubílstjóri stóð fyrir utan leigubílinn og var að verja ákærða fyrir árás B sem hafi verið mjög æstur. Hafi skyrta ákærða verið rifin. Þessu næst hafi C sagt við ákærða, sem var mjög ölvaður, að koma sér inn í húsið, en ákærði var á sokkaleistunum. Hafi ákærði síðan lagst í sófa og sofnað áfengisdauða. Um það leyti hafi E komið á vettvang. Hafi E rætt við X og skoðað hana í framan. Kvaðst C hafa farið ásamt syni sínum á heimili E sem hafi komið þangað stuttu síðar. Bar C að E hafi sagt henni að hún hafi enga áverka séð á X.
Vitnið F bar fyrir dómi að X dóttir hennar hefði komið heim til hennar eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás aðfaranótt 10. apríl 2005. Hafi X verið grátandi og átt erfitt með að tjá sig um atburði næturinnar. Hafi hún og B kærasti hennar greint F frá því að þau hafi yfirgefið samkvæmið og tekið leigubíl ásamt ákærða. Hún hafi verið að fá sér sopa af vínflösku þegar ákærði hafi skyndilega slegið undir flöskubotninn með þeim afleiðingum að framtennur hennar brotnuðu. Þá hefði ákærði auk þess stuttu síðar veitt henni nokkur högg í andlitið. Kvaðst F hafa orðið vör við áverka á X. Hafi F séð að hún var með brotnar tennur og áverka undir auga. Hafi þær mæðgur í framhaldinu farið á lögreglustöðina og síðan á sjúkrahús þar sem læknir skoðaði hana.
Vitnið B kvaðst í skýrslu sinni fyrir dómi hafa verið í [...] boðinu að [...] umrætt kvöld. Kvaðst hann muna atburðina vel. Hann hafi verið undir áhrifum áfengis, þó ekki miklum. Hafi hann og X yfirgefið samkvæmið og tekið leigubíl. Hafi ákærði fengið far með þeim. Kvaðst B hafa sest í framsætið, en ákærði og X settust aftur í. Bar B að ákærði hafi verið mjög drukkinn. Eftir skamma stund hafi X farið að gráta. Kvaðst B hafa spurt hana nokkrum sinnum hvað væri að, en hún ekki viljað svara því. Hann hafi þá grunað að ekki væri allt með felldu og klifrað aftur í bifreiðina. Hafi ákærði þá slegið til hans en höggið geigað að mestu. B hafi þá tekið ákærða föstum tökum og haldið honum í gólfinu þar sem hann taldi X stafa hættu af ákærða. Hafi hann enn spurt X hvað hefði gengið á en hún ekki svarað. Eftir að heim til ákærða var komið hafi X farið út úr bifreiðinni. Kvaðst B hafa beðið leigubílstjórann um að aðstoða sig við að koma ákærða út úr bifreiðinni svo ákærði myndi ekki slá til B. Hafi B sleppt taki á ákærða sem þá hafi kýlt X, sem stóð við bifreiðina, þrjú högg í andlitið. Því næst hafi ákærði farið inn til sín og læst á eftir sér, en kona hans og sonur komið út til þeirra. Á þessum tímapunkti hafi X greint B frá því hvað gerst hefði í leigubílnum. Hafi hún sýnt honum tennurnar sem höfðu brotnað en hún hélt á þeim í lófanum. Stuttu síðar hafi dóttir ákærða komið á vettvang og gengið úr skugga um hvað væri á seyði. B og X hafi síðan tekið sama leigubíl og þau höfðu komið með að Heiðarbóli heim til X. Þegar þangað var komið hafi þau greint foreldrum X frá því sem gerst hafði og hafi móðir hennar farið með X á lögreglustöðina og síðan á sjúkrahús.
G aðalvarðstjóri lögreglunnar í Keflavík bar fyrir dómi að X og móður hennar hefðu komið á lögreglustöðina umrædda nótt. Hefðu þær greint G frá því að ákærði hefði veist að X í leigubifreið fyrr um nóttina og veitt henni áverka í andliti sem G kvaðst hafa séð berum augum.
Vitnið E greindi svo frá fyrir dómi að móðir hennar, C, hafi hringt í hana umrædda nótt og beðið hana um að koma á heimili hennar án þess þó að greina henni frá því sem gerst hafði. Á vettvangi hafi E hitt fyrir C, B og X. Þá hafi þar verið leigubílstjóri. Hafi X og B verið ölvuð og hafi B verið mjög æstur. Kvaðst E ekki hafa orðið vör við áverka í andliti X án þess þó að hafa skoðað það sérstaklega.
Vitnið D leigubílstjóri bar fyrir dómi að hann hefði verið kallaður að húsi við [...] umrædda nótt. Inn í bifreiðina hafi komið ákærði, ungur maður og ung kona. Var förinni heitið að Heiðarbóli í Keflavík. Hafi konan setið fyrir aftan D, ákærði út við hurðina og ungi maðurinn í framsætinu. Vel hafi farið á með fólkinu sem hafi verið undir áhrifum áfengis. Skyndilega hafi stúlkan farið að skæla og ungi maðurinn verið með ásakanir um að ákærði hefði barið hana. Ungi maðurinn hefði síðan klifrað aftur í bifreiðina og hafi hann og ákærði verið í einhverjum stympingum. Hafi þessi átök átt sér stað fyrir aftan ökumannssætið og hafi D því átt erfitt með að átta sig á því hvað hefði gerst. Er að Heiðarbóli var komið hafi fólkið farið út úr bifreiðinni. Kvaðst D ekki muna eftir því að hafa farið sjálfur út úr bifreiðinni. Aðspurður kvaðst D ekki hafa orðið var við það að X hafi verið að drekka úr vínflösku í bifreiðinni. Þá kvaðst D ekki hafa orðið var við það þegar ákærði sló X högg í andlitið fyrir utan bifreiðina. Kvaðst hann fyrst og fremst hafa reynt að verja bifreiðina fyrir skemmdum og lítið veitt því athygli sem fram fór milli farþeganna.
III.
Í máli þessu er óumdeilt enda í samræmi við framburð ákærða, kæranda og vitna, að ákærði var mjög drukkinn er hann yfirgaf samkvæmið að [...] ásamt kæranda og unnusta hennar og fór með þeim í leigubifreið heim til sín að Heiðarbóli 51 í Keflavík. Ákærði hefur borið bæði hjá lögreglu og fyrir dómi að hann muni hvorki eftir ökuferðinni né að hafa gert eitthvað á hlut kæranda í leigubifreiðinni eða eftir að hann yfirgaf bifreiðina heima hjá sér. Fyrir dóminum kvaðst hann þó muna eftir því að hafa sest inn í leigubifreiðina en hins vegar kvaðst hann lítið muna eftir ferðinni í bifreiðinni. Kvaðst hann ekki muna eftir því að hafa framið þau brot sem hann er ákærður fyrir. Kvaðst hann hvorki geta játað né neitað því sem honum væri gefið að sök.
Kærandinn, X, hefur borið bæði hjá lögreglu og fyrir dómi að ákærði hafi slegið undir flösku sem hún var að drekka úr í leigubifreiðinni með þeim afleiðingum að framtennur hennar brotnuðu og slegið hana fyrir utan heimili ákærða með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Framburður kæranda hefur verið stöðugur bæði hjá lögreglu og fyrir dómi.
Framburður kæranda um líkamsárás ákærða í leigubifreiðinni fær stoð í vætti unnusta hennar B svo og leigubifreiðastjórans D, en báðir bera þeir að kærandi hafi allt í einu farið að gráta. Þá kom fram hjá leigubifreiðastjóranum að B hafi sakað ákærða um að hafa gert eitthvbað á hlut kæranda. Þá ber B að hann hafi séð ákærða slá kæranda í höfuðið eftir að ákærði og kærandi voru komin út úr bifreiðinni heima hjá ákærða.
Þá liggur fyrir með vætti eiginkonu ákærða, C, að kærandi hafi sagt henni umrædda nótt að ákærði hefði lamið hana, slegið undir flösku sem hún var að drekka úr í bifreiðinni. Þetta vitnið kvaðst ekki hafa séð neina áverka á kæranda.
Móðir kæranda, F, sem er systir ákærða, bar fyrir dóminum að kærandi hefði komið grátandi heim umrædda nótt og sagt henni frá hinni ætluðu líkamsárás ákærða. Vitnið kvaðst hafa séð áverka á kæranda. Kærandi hefði verið með brotnar tennur og áverka undir auga. Kvaðst vitnið strax hafa farið með kæranda á lögreglustöðina í Keflavík og síðan á sjúkrahús þar sem læknir skoðaði kæranda.
Vitnið G aðalvarðstjóri lögreglunnar í Keflavík bar fyrir dóminum að kærandi og móðir hennar hefðu komið á lögreglustöðina umrædda nótt og greint frá því að ákærði hefði veist að kæranda í leigubifreið fyrr um nóttina og veitt henni áverka í andliti. Vitnið kvaðst hafa séð þá áverka berum augum.
Í beinu framhaldi af för kæranda og móður hennar á lögreglustöðina fóru þær mæðgur á sjúkrahúsið í Keflavík þar sem læknir skoðaði kæranda. Er gerð grein fyrir þeirri skoðun í málavaxtalysingu í dómi þessum.
Vitnið E, dóttir ákærða, kvaðst hafa verið beðin um að koma að heimili ákærða umrædda nótt og hefði hún orðið við því. Henni hefði ekki verið greint frá hvað átt hefði sér stað. Hún kvaðst ekki hafa séð áverka á kæranda en hún hefði á hinn bóginn ekki verið að athuga það neitt sérstaklega og ekki verið beðin um það.
Þegar allt það er hér að ofan hefur verið rakið er virt heildstætt, þykir þrátt fyrir neitun ákærða, sem sakir ölvunar hefur ekkert getað borið um atvik, mega byggja á frásögn kæranda af atvikum. Þykir framburður hennar hafa verið stöðugur og trúverðugur og samrýmast vætti vitna og vottorðum lækna. Að öllu þessu virtu þykir því sannað að ákærði hafi framið þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæru og þar eru réttilega færð til refsiákvæða.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði en eftir atvikum þykir rétt að ákveða að fullnustu refsingarinnar skuli frestað og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá dómsuppsögu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma ákærða til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Þórhallssonar hæstaréttarlögmanns, 167.075 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Annan kostnað leiddi ekki af málinu.
Ólafur Sigurgeirsson hrl. hefur uppi í málinu f.h. kæranda bótakröfu á hendur ákærða að fjárhæð 214.250 krónur, sem sundurliðast svo:
1. Miskabætur skv. 26. gr. laga nr. 5071992: 100.000 krónur
2. Fjárhagslegt tjón vegna komugjalda 4.250 krónur
3. Áætlaður kostnaður vegna tannviðgerða 60.000 krónur
4. Innheimtuþóknun lögmanns m.vsk 50.000 krónur
Samtals 214.250 krónur.
Ákærði mótmælir kröfunni. Kröfu kæranda á hendur ákærða þykir mjög í hóf stillt þegar litið er til afleiðinga þeirra sem háttsemi ákærða olli henni. Þykja því hvorki efni til að hafna kröfunni né lækka hana og er krafan því tekin til greina eins og hún er sett fram.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.
Dómsorð:
Ákærði Lúðvík Finnsson sæti fangelsi í tvo mánuði, en fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Þórhallssonar hæstaréttarlögmanns, 167.075 krónur.
Ákærði greiði X, 214.250 krónur.