Hæstiréttur íslands
Mál nr. 12/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Samaðild
- Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 20. janúar 2005. |
|
Nr. 12/2005. |
Vélstjórafélag Íslands(Jónas Haraldsson hrl.) gegn Byggingafélagi Gylfa og Gunnars ehf. og (enginn) Eflingu-stéttarfélagi til réttargæslu. (Atli Gíslason hrl.) |
Kærumál. Samaðild. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
V krafði B ehf. um tiltekna greiðslu í félags- og sjóðagjöld vegna nafngreinds félagsmanns síns með vísan til 1. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda þar sem V taldi sig verða viðkomandi stéttarfélag í skilningi ákvæðisins. Hafði héraðsdómur vísað málinu frá dómi með vísan til þess að félagsmanninum og réttargæslustefnda E hafði ekki verið stefnt við hlið B ehf. í málinu. Fyrir lá að umræddur félagsmaður hafði um tíma unnið hjá B ehf. og fengið greitt samkvæmt kjarasamningi E og B ehf. greitt félags- og sjóðagjöld til þess. Taldi V að fyrrnefnt ákvæði mælti fyrir um beina greiðsluskyldu og B ehf. hefði borið að greiða fyrrnefnd gjöld til sín en ekki E en B ehf. væri ábyrgt fyrir því að það hefði greitt tilvitnuð gjöld til annars stéttarfélags. Í Hæstarétti var hvorki talin þörf á aðild starfsmannsins né beinni aðild réttargæslustefnda E. Var úrskurður héraðsdóms því felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 4. nóvember 2004, sem barst réttinum 10. janúar 2005. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október 2004 en þar var málinu vísað frá dómi að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðili stefnir Eflingu-stéttarfélagi til réttargæslu. Fyrir Hæstarétti krefst félagið staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefur varnaraðila um greiðslu 60.134 króna í félags- og sjóðagjöld vegna nafngreinds félagsmanns síns með vísun til 1. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Félagsmaður þessi vann um tíma hjá varnaraðila og fékk greitt samkvæmt kjarasamningi réttargæslustefnda, Eflingar-stéttarfélags. Varnaraðili greiddi félags- og sjóðagjöld til réttargæslustefnda. Sóknaraðili telur sig hins vegar vera viðkomandi stéttarfélag, eins og segir í framangreindum lagaákvæðum, þótt unnið hafi verið samkvæmt kjarasamningi annars stéttarfélags og höfðaði því mál þetta.
Varnaraðili krafðist frávísunar þar sem hann taldi bæði aðild viðkomandi starfsmanns og réttargæslustefnda nauðsynlega til að fá skorið úr ágreiningnum. Á þetta féllst héraðsdómur.
Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 er mælt fyrir um skyldu atvinnurekenda til að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina. Sóknaraðili heldur því fram að hér sé mælt fyrir um beina greiðsluskyldu. Varnaraðila hafi því borið að greiða umrædd gjöld til sín en ekki Eflingar-stéttarfélags. Verður fallist á með sóknaraðila að ekki sé þörf á aðild starfsmannsins til að fá úrlausn um þá kröfu.
Þá heldur sóknaraðili því fram að varnaraðili sé ábyrgur fyrir því að hann hafi greitt tilvitnuð gjöld til annars stéttarfélags. Verður ekki fallist á að nauðsyn sé á beinni aðild réttargæslustefnda til þess að skera úr um það atriði.
Með vísun til framanritaðs er krafa sóknaraðila tekin til greina.
Samkvæmt þessari niðurstöðu verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Úrskurður héraðsdóms er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Byggingafélag Gylfa og Gunnars ehf., greiði sóknaraðila, Vélstjórafélagi Íslands, 250.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október 2004.
Mál þetta er höfðað með birtingu stefnu 24. og 26. maí sl. Það var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda, 22. október sl.
Stefnandi er Vélstjórafélag Íslands, Borgartúni 18, 105 Reykjavík.
Stefndi er Byggingarfélag Gylfa og Gunnars ehf., Borgartúni 31, 105 Reykjavík. Þá er Eflingu-stéttarfélagi, Sætúni 1, 105 Reykjavík stefnt til réttargæslu.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 60.134 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2004 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati héraðsdóms.
Stefndi krefst þess aðallega, að máli þessu verði vísað frá dómi. Til vara er krafist sýknu. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda, en hann krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts og í samræmi við málskostnaðar-reikning sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins.
Við munnlegan flutning um frávísunarkröfu stefnda, mótmælti stefnandi henni og gerði þá kröfu að henni yrði hafnað og að honum yrði tildæmdur málskostnaður.
Málsatvik.
Mál þetta snýst um greiðslur og skil stefnda á iðgjöldum til félagssjóðs, styrktar- og sjúkrasjóð og orlofssjóðs Eflingar - stéttarfélags af launum Hauks Þórs Grímssonar, Litla - Saurbæ, 801 Selfossi, tímabilið 6. apríl 2003 til 30. desember 2003, en stefnandi telur að nefnd gjöld hafi átt að renna til hans.
Haukur Þór Grímsson vann sem ófaglærður verkamaður á krana og starfaði eftir kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar - stéttarfélags og stóð stefndi skil á gjöldum til réttargæslustefnda. Haukur fékk laun greidd hálfsmánaðarlega og voru 1% iðgjöld til félagssjóðs réttargæslustefnda dregin af launum hans allan starfstímann og skilað af stefnda. Enn fremur greiddi stefndi sjálfur og skilaði til réttargæslustefnda 1% iðgjaldi til styrktar- og sjúkrasjóðs og 0.25% iðgjaldi til orflofssjóðs af útborguðum launum hans. Allt var þetta gert í samræmi við ráðningarkjör Hauks Þórs.
Með bréfi stefnanda til stefnda 27. nóvember 2003 fór stefnandi fram á að gjöldum vegna Hauks yrði skilað til stefnanda en ekki réttargæslustefnda, þar sem hann væri félagi í Vélstjórafélagi Íslands. Einnig var óskað eftir endurgreiðslu á félagsgjöldum til Hauks sjálfs eða stefnanda. Samrit bréfsins var sent réttargæslustefnda sem svaraði því 8. mars 2003 og tilgreindi að stefnda væri rétt og skylt að skila félagsgjöldunum til réttargæslustefnda. Stefndi tók undir afstöðu réttargæslustefnda með bréfi 12. desember 2003.
Stefnandi sendi stefnda frekari rök um málið með bréfi 15. janúar 2004. Þar var jafnframt tilgreint að stefnandi myndi láta reyna á málið fyrir dómstólum ef ekki yrði fallist á kröfur hans. Það bréf bar ekki árangur og var mál þetta síðan höfðað.
Eins og að framan greinir, varðar mál þetta tímabilið 6. apríl 2003 til 30. desember 2003. Í byrjun janúar 2004 mun Haukur Þór Grímsson hafa ráðist til starfa sem vélstjóri á fiskiskipi en í lok ágústmánaðar sl. hóf hann aftur störf sem kranamaður hjá stefnda. Stefndi upplýsir að Haukur Þór starfi nú eftir kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingarstéttarfélags og við ráðninguna hafi hann ekki gert kröfu til þess, að félagsgjöld yrðu greidd til stefnanda. Stefndi hefur því greitt gjöldin til réttargæslustefnda.
Málsástður og lagarök stefnda fyrir frávísun málsins.
Frávísunarkrafan byggir á því, að samaðild þurfi að vera bæði til sóknar- og varnar í málinu. Það er starfsmaður stefnda, Haukur Þór Grímsson, sem hlýtur að eiga tilkall til þeirra réttinda, sem stefnandi sækir í málinu. Stefndi telur að með góðum vilja megi líta svo á, að Haukur Þór og stefnandi eigi réttindin saman óskipt, a.m.k. er krafan í málinu höfð uppi um hagsmuni Hauks Þórs. Þá sé einnig eðlilegt að líta svo á, að réttargæslustefndi eigi óskipta skyldu með stefnda. Stefndi telur að brugðið sé í málinu út af skyldu til samaðildar og því beri, með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að vísa málinu frá dómi.
Stefndi bendir einnig á, að hin umkröfðu gjöld í málinu séu í raun þrenns konar. Annar vegar eru gjöld í styrktar- og sjúkrasjóð og í orlofssjóð. Gjöld þessi byggjast á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980. Hins vegar eru félagsgjöld sem byggjast á 2. mgr. 6. gr. sömu laga. Varðandi þau gjöld sem stoð eiga í 1. mgr. 6. gr. þá geti stefnandi væntanlega átt aðild einn í þeim tilvikum og vísar stefndi til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 114/2004.
Málsástæður og lagarök réttargslustefnda fyrir frávísun málsins.
Réttargæslustefndi gerir bæði formlegar og efnislegar athugasemdir við málatilbúnað stefnanda. Í fyrsta lagi bendir réttargæslustefndi á, að Haukur Þór Grímsson eigi ekki aðild að málinu, en hann beri þó bæði óskipt réttindi og óskipta skyldu til jafns við stefnanda í ljósi dómkrafnanna. Í annan stað bendir réttargæslustefndi á, að hann eigi jafnframt óskipta skyldu til jafns við stefnda samkvæmt kjarasamningi sem þeir eru báðir bundnir af og þeim greiðslum sem farið hafa á milli þeirra á grundvelli hans. Réttargæslustefndi vísar varðandi frávísun málsins til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun málsins.
Stefnandi mótmælir kröfum og málsástæðum stefnda og réttargæslustefnda um frávísun málsins. Stefnandi telur að ekki sé þörf á aðild Hauks Þórs í máli þessu né heldur aðild Eflingar-stéttarfélags, þar sem hann hafi ekki neinar kröfur á hendur því félagi. Stefnandi hafi talið rétt að gefa þeim kost á að tjá sig um málið með því að stefna þeim til réttargæslu. Stefnandi byggir mál sitt á 6. gr. laga nr. 55/1988 og heldur því fram, að atvinnurekandanum sé skylt að taka gjöldin af launþeganum og standa viðkomandi stéttarfélagi skil á þeim. Gjöldin séu eign stéttarfélagins en ekki aðilans og atvinnurekandinn borgar þau en ekki aðilinn. Þá myndi gjöldin ekki neinn séreignarsjóð hjá stéttarfélaginu. Stefnandi hafnar því alfarið að Haukur Þór og Efling-stéttarfélag þurfi að vera aðilar að máli þessu.
Forsendur og niðurstaða.
Eins og að framan greinir var Haukur Þór Grímsson ráðinn til starfa hjá stefnda sem ófaglærður verkamaður til að vinna á krana. Óumdeilt er, að ráðningarsamningur hans fór eftir kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar-stéttarfélags. Ágreiningur málsins fjallar um gjöld sem sprottin eru vegna ráðningarsamnings Hauks Þórs Grímssonar og veita honum réttindi eða eftir atvikum leggja á hann skyldur. Stefnandi málsins er ekki aðili að ráðningarsamningnum. Því lítur dómurinn svo á, að ekki verði skorið úr ágreiningi málsins, nema með aðild Hauks Þórs Grímssonar að málinu. Bent er einnig á, að ekkert liggur fyrir í málinu hver vilji Hauks Þórs sé til aðildar að stéttarfélagi. Samkvæmt upplýsingum frá stefnda, réðst Haukur Þór til starfa hjá honum eftir að mál þetta var höfðað og mótmælti hann því ekki, að gjöldin rynnu til réttargæslustefnda.
Þá lítur dómurinn svo á, að ekki verði skorið úr ágreiningi málsins nema með aðild Eflingar-stéttarfélags að málinu. Dómurinn lítur svo á, að Efling-stéttarfélag hafi augljóslega hagsmuni af niðurstöðu málsins og er þá meðal annars litið til ráðningar-samnings Hauks Þórs við stefnda, en hann fór eftir kjarasamningi réttargæslustefnda. Þá er einnig bent á, að eins og málið er sett fram af stefnanda, telur hann að um langvarandi ágreining sé að ræða á milli stéttarfélaga varðandi það í hvaða stéttarfélög hin umkröfðu gjöld eigi að fara. Einnig í ljósi þess beri Eflingu-stéttarfélagi eðlilega aðild að málinu. Þá er bent á, að samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 21. október sl. í málinu nr. 114/2004 eiga stéttarfélögin kröfur samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1988 á hendur öllum atvinnurekendum vegna greiðslu í sjúkra- og orlofssjóði. Því beri réttargæslustefnda einnig að vera aðili að málinu.
Með vísan til þess sem að framan er ritað telur dómurinn rétt að vísa máli þessu frá dómi með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eftir þessum úrslitum og með vísan til 130. gr. sömu laga, ber stefnanda að greiða stefnda og réttargæslustefnda, hvorum um sig, málskostnað að fjárhæð 90.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Jónas Haraldsson hrl.
Af hálfu stefnda flutti málið Pétur Þór Sigurðsson hrl.
Af hálfu réttargæslustefnda flutti málið Atli Gíslason hrl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi. Stefnandi, Vélstjórafélag Íslands, greiði stefnda, Byggingarfélagi Gylfa og Gunnars ehf., 90.000 krónur og Eflingu-stéttarfélagi 90.000 krónur í málskostnað.