Hæstiréttur íslands
Mál nr. 637/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Ærumeiðingar
- Rannsókn sakamáls
|
|
Föstudaginn 15. desember 2006. |
|
Nr. 637/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) |
Kærumál. Ærumeiðingar. Rannsókn sakamáls.
X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að felld yrði niður opinber rannsókn á hendur honum vegna ætlaðra ærumeiðinga í garð opinbers starfsmanns, sem var látinn. Með vísan til b. liðar 2. töluliðar 1. mgr. 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 25. gr. sömu laga var talið að eftirlifandi börn hins látna gætu krafist opinberrar rannsóknar vegna ummæla X. Hinn kærði úrskurður var því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2006, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að opinber rannsókn sóknaraðila á hendur honum vegna ætlaðra ærumeiðinga yrði felld niður. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að opinber rannsókn í málinu verði felld niður. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum er að finna ýmis ákvæði um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Sóknaraðili kveður að lögreglurannsókn sú sem um ræðir í þessu máli lúti að því hvort ærumeiðing hafi beinst að látnum manni, sem óumdeilt er að var opinber starfsmaður. Í b. lið 2. töluliðar 1. mgr. 242. gr. laganna kemur fram, að hafi ærumeiðandi móðgun eða aðdróttun verið beint að manni sem er eða hefur verið opinber starfsmaður og móðgunin eða aðdróttunin varðar að einhverju leyti eða öllu það starf hans, skuli slíkt mál sæta opinberri ákæru eftir kröfu hans. Eftirlifandi börn hins látna, sem ærumeiðing á að hafa beinst að, geta borið fram kröfu um opinbera rannsókn samkvæmt ákvæðinu, sbr. 3. mgr. 25. gr. laganna. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2006.
I
Með bréfi sem móttekið var í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 23. nóvember 2006 lagði sóknaraðili, X, fram kröfu um að opinber rannsókn lögreglustjórans í Reykjavík á hendur honum vegna meintra ærumeiðinga verði felld niður, sbr. 75. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Var málið þingfest hinn 4. desember 2006 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi hinn 11. desember 2006.
Í máli þessu gerir sóknaraðili þær kröfur á hendur varnaraðila, lögreglustjóranum í Reykjavík, að viðurkennt verði með dómi að skylt sé að fella niður rannsókn á hendur sóknaraðila samkvæmt kæru afkomenda A heitins, fyrrum lögreglustjóra í Reykjavík, vegna meintra ærumeiðinga sóknaraðila um hinn látna. Þá krefst hann alls málskostnaðar úr hendi varnaraðila, þar á meðal þóknunar skipaðs verjanda.
Af hálfu varnaraðila, lögreglustjórans í Reykjavík, er þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
II
Málavextir eru þeir að hinn 18. október 2006 lagði Jón Magnússon hrl. fram kæru til ríkissaksóknara fyrir hönd barna A heitins, sem gegndi stöðu lögreglustjóra í Reykjavík um fjörutíu ára skeið er hann lét af störfum á árinu 1985. Samkvæmt kærunni er sóknaraðili kærður vegna ærumeiðandi ummæla er hann hafi viðhaft í sjónvarpsviðtali hjá Ríkisútvarpinu hinn 10. október 2006 um látinn föður kærenda, en hann hafi rætt um hann sem "lögreglustjórann alræmda" í tengslum við umfjöllun sína um meintar njósnir og hleranir á síma sóknaraðila árið 1993 er hann hafi gegnt embætti utanríkisráðherra.
Ríkissaksóknari sendi kæruna til varnaraðila hinn 20. október 2006 til viðeigandi meðferðar. Var sóknaraðili boðaður í skýrslutöku hjá lögreglu hinn 30. október 2006 og til þeirrar skýrslutöku mætti verjandi hans með honum. Var sóknaraðila þá kynnt framkomin kæra. Við það tækifæri lagði sóknaraðili fram bókun þar sem þess var krafist að rannsókn væri felld niður þar sem meint brot sóknaraðila væri ekki þess eðlis að kærendur hefðu heimild til að setja fram kröfu um opinbera málshöfðun. Þar sem sóknaraðili taldi málið ekki í réttum farvegi hjá varnaraðila neitaði hann að tjá sig um sakarefnið að höfðu samráði við verjanda sinn.
Af hálfu varnaraðila var erindi sóknaraðila sent ríkissaksóknara til ákvörðunar. Með bréfi 8. nóvember 2006 var sjónarmiðum sóknaraðila hafnað og varnaraðila sent málið að nýju til áframhaldandi rannsóknar. Með bréfi varnaraðila til verjanda sóknaraðila 13. nóvember 2006 var tilkynnt um framangreinda afgreiðslu ríkissaksóknara og með vísan til 3. mgr. 25. gr. almennra hegningarlaga var kröfu sóknaraðila hafnað.
Lýtur ágreiningur í máli þessu að því hvort heimild sé til að rannsaka það sakarefni sem hér um ræðir sem opinbert mál.
III
Í kröfu sinni til dómsins tekur sóknaraðili fram að þar sem honum sem skipuðum verjanda hafi ekki verið afhent gögn málsins í heild geti hann ekki gert grein fyrir því á hvaða ákvæðum XXV. kafla almennra hegningarlaga kæran byggist. Úr þessu hefur verið bætt og hafa fyrirliggjandi rannsóknargögn verið afhent verjanda sóknaraðila.
Sóknaraðili kveður að í 1. mgr. og a-b og c- liðum 2. mgr. 242. gr. almennra hegningarlaga sé gerð grein fyrir þeim brotum sem skuli sæta ákæru. Um sé að ræða brot gegn 233. gr. og 233 gr. a. Þessi ákvæði eigi ekki við í þessu máli þar sem fyrra ákvæðið fjalli um hótun um að fremja refsiverðan verknað og sú síðari um að ráðast opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar.
Í a-lið 2. mgr. 242. gr. sé fjallað um brot gegn 230., 231. og 232. gr. almennra hegningarlaga. Í 230. gr. sé fjallað um brot á trúnaðarskyldu opinbers starfsmanns, 231. gr. fjalli um að ryðjast inn í hús eða skip annars manns og í 232. gr. sé fjallað um brot gegn nálgunarbanni eða að leggja annan mann opinberlega í einelti. Þessi ákvæði geti því ekki átt við hér.
Í b-lið 2. mgr. 242. gr. sé fjallað um það þegar ærumeiðandi móðgun eða aðdróttun hefur verið beint að manni sem er eða verið hefur opinber starfsmaður en um málsmeðferð í slíkum málum segi að slík brot sæti opinberri ákæru eftir kröfu hans, þ.e. hins opinbera starfsmanns en ekki annarra. Eigi þetta ákvæði því ekki við í þessu máli. Þá sé ljóst að ákvæði í c-lið 2. mgr. 242. gr. eigi ekki við hér þar sem það fjalli um ærumeiðandi aðdróttun sem borin hefur verið fram skriflega annaðhvort nafnlaust eða með rangri undirskrift. Þá sé einungis eftir eitt ákvæði en það sé 3. mgr. 242. gr. sem segi að mál út af öðrum brotum geti sá einn höfðað sem misgert sé við.
Telur sóknaraðili rétt að minna á ákvæði 240. gr. almennra hegningarlaga þar sem segi að sé ærumeiðingum beint að dánum manni sé það refsivert. Þetta ákvæði sé eitt þeirra brota sem sá einn geti höfðað sem misgert sé við.
Þegar ærumeiðingum sé beint að látnum manni þyki rétt að vernda tilfinningar náinna ættingja og tengdra manna með refsiákvæðum. Þeir sem misgert sé við þegar ærumeiðingum sé beint að látnum manni geti því verið maki, foreldrar, afkomendur eða aðrir nánir ættingjar og tengdamenn. Ákvæði 3. mgr. 242. gr. útiloki að þeir sem njóti verndar þessara refsiákvæða geti krafist þess að höfðað verði opinbert mál og verði þeir að sætta sig við að höfða einkarefsimál til að láta reyna á refsiskilyrði og bótaskilyrði. Svo sem fram komi í 1. mgr. 25. gr. almennra hegningarlaga geti sá sem misgert er við sjálfur höfðað mál ef ekki beri að höfða mál af hálfu opinbera ákæruvaldsins út af því.
Í 3. mgr. sömu greinar segi að sé sá dáinn sem misgert hafi verið við eða verknaður sem beinist að dánum manni sé refsiverður hafi eiginmaður eða eiginkona hins látna, börn, barnabörn og systkini rétt til að höfða mál eða bera fram kröfu um opinbera málshöfðun. Að mati sóknaraðila verði ekki talið að misgert hafi verið við látinn mann í máli þessu. Álitaefnið lúti að því hvort misgert hafi verið við kærendur.
Séu refsiákvæði varðandi ærumeiðingar sem beinist að látnum manni til þess ætlaðar að vernda tilfinningar hinna eftirlifandi en ekki hins látna. Sé ljóst að í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar teljist vandamenn hins látna þeir sem misgert sé við og eigi þeir þess einan kost að höfða einkarefsimál á hendur sóknaraðila ef þeir vilji láta reyna á refsinæmi ummæla.
Ekki verði önnur mál rannsökuð sem opinber mál en þau sem lög heimili að séu rannsökuð með þeim hætti. Mál þetta sé ekki eitt þeirra mála sem heimilt sé að rannsaka sem opinbert mál. Í því felist ekki að kærendum sé meinað að leggja málið fyrir dómstóla þar sem þeir eigi þess kost að höfða einkarefsimál á hendur sóknaraðila og láta reyna á rétt sinn gangvart honum. Því sé ekki brotið gegn ákvæðum stjórnarskrár varðandi réttláta málsmeðferð fyrir dómi.
Þá sé þess að geta að óheimilt sé að gefa út ákæru á hendur sóknaraðila á grundvelli slíkrar rannsóknar þar sem til þess skorti lagaheimildir og lög og fyrirmæli laga séu beinlínis á þann veg að slík mál sem hér sé fjallað um skuli fara með sem einkamál.
IV
Varnaraðili byggir kröfur sínar á b-lið 2. mgr. 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. mgr. 25. gr. sömu laga. Hafi varnaraðila borið skylda til að taka mál þetta til rannsóknar samkvæmt kröfu kærenda en samkvæmt 3. mgr. 27. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála höfði ríkissaksóknari opinbert mál ef um sé að ræða brot á öðrum ákvæðum XXV. kafla almennra hegningarlaga um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs en ákvæðum 231. gr. 232. gr. og 233. gr. laganna.
Telur varnaraðili að 3. mgr. 25. gr. almennra hegningarlaga veiti nánum vandamönnum heimild til að bera fram kröfu um opinbera málshöfðun. Hafi hinn látni A verið opinber starfsmaður sem notið hafi verndar b-liðar 2. mgr. 242. gr. almennra hegningarlaga og flytjist sú vernd til vandamanna hans samkvæmt 3. mgr. 25. gr. sömu laga.
V
Um heimild til að leita úrlausnar héraðsdóms um kröfu sína vísar sóknaraðili til 75. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt ákvæðinu má bera undir dómara ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda, svo og ágreining um réttindi sakbornings og málsvara hans, þar á meðal um ósk þeirra um tilteknar rannsóknaraðgerðir. Úrlausn dómara skal vera í úrskurðarformi sé þess krafist.
Skilja verður málatilbúnað sóknaraðila þannig að ágreiningur sé með aðilum um lögmæti hinnar opinberu rannsóknar á hendur sóknaraðila. Verður að telja að á grundvelli nefndrar 75. gr. laga nr. 19/1991 verði lögmæti einstakra aðgerða rannsóknara borið undir dómara og þá jafnframt lögmæti rannsóknar í heild sinni.
Ljóst er að varnaraðili byggir kröfu sína á því að verið sé að rannsaka meint brot sóknaraðila gegn b-lið 2. mgr. 242. gr. almennra hegningarlaga. Þar segir að hafi ærumeiðandi móðgun eða aðdróttun verið beint að manni sem er eða verið hefur opinber starfsmaður og móðgunin eða aðdróttunin varði að einhverju leyti það starf hans skuli slíkt brot sæta opinberri ákæru eftir kröfu hans. Þetta orðalag telur sóknaraðili koma í veg fyrir að aðrir geti gert slíka kröfu en sá sem misgert er við. Varnaraðili hins vegar telur að vandamenn slíks opinbers starfsmanns geti gert slíka kröfu samkvæmt 3. mgr. 25. gr. almennra hegningarlaga en þar segir að sé sá dáinn, sem misgert var við, eða verknaður, sem beinist að dánum manni sé refsiverður hafi eiginmaður eða eiginkona hins látna, foreldrar, börn, kjörbörn, barnabörn og systkin rétt til að höfða mál eða bera fram kröfu um opinbera málshöfðun.
Mál þetta er sprottið af ummælum sem sóknaraðili viðhafði í Ríkisútvarpinu hinn 10. október 2006 um A, fyrrverandi lögreglustjóra, þar sem hann nefndi hann “lögreglustjórann alræmda”. Ekki er deilt um að hinn látni var opinber starfsmaður en eins og rakið hefur verið lýtur ágreiningur aðila að því hvort sú vernd sem opinberum starfsmönnum er veitt umfram aðra í tilvitnuðu ákvæði flytjist yfir til vandamanna þannig að þeir öðlist rétt til að bera fram kröfu um opinbera málshöfðun.
Án þess að tekin sé afstaða til þess í þessu máli hvort sóknaraðili hafi gerst sekur um meiðyrði um látinn mann verður að telja ljóst að rannsókn beinist að því hvort sá verknaður hans sé refsiverður samkvæmt b-lið 2. mgr. 242. gr. almennra hegningarlaga og þar með er fullnægt þeim skilyrðum 3. mgr. 25. gr. almennra hegningarlaga að börn hins látna hafa rétt til að bera fram kröfu um opinbera málshöfðun. Breytir engu þótt þau hefðu getað valið að höfða einkamál. Verður því að hafna kröfum sóknaraðila í máli þessu.
Í máli þessu gerir lögmaður sóknaraðila kröfu á hendur varnaraðila greiðslu alls málskostnaðar, þar á meðal þóknun verjanda. Eftir úrslitum málsins er þeirri kröfu hafnað.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er kröfum sóknaraðila, X, í máli þessu.